Faðir minn á himninum

Skrifað í júní 2023
Á vissum augnablikum er eins og stundirnar gefi sterkari upplifun en annars. Það er eins og að verða snögglega fyrir sterkum trúarlegum áhrifum og verða betur tengdur öllu sem finnst hér í heimi bæði nær og fjær. Fyrir mér eru það morgnarnir sem eru gjafmildastir á slíkar upplifanir.
 
 
 
 
Það var morgun einn nýlega, morgun eftir rigningarsama nótt sem hafði þornað til í augnablikinu en regnið virtist hanga í loftinu. Það var eins og það þyrfti að ákveða sig til að sleppa takinu og falla síðasta spölinn til jarðar. Það er við svona aðstæður sem hið græna er fallegast. Skógurinn virðist vera safaríkur og blöðin lifandi og hrein. Ég sótti myndavélina og tók myndina í hrifningu yfir því sem ég sá frá svefnherbergisglugganum mínum.
 
 
 
 
Frá svefnherberginu lá leiðin fram á snyrtinguna, ennþá með myndavélina í hendinni, og leit út um gluggan. Það sem ég sá var eins og af öðrum heimi fannst mér, jafnvel þótt ég viti ekki hvernig annar heimur lítur út. Vatnið sindraði á laufhafinu í bakgrunninum og myndina tók ég meðvitaður um að myndavélin mín mundi aldrei geta sýnt í sannleika það dásamlega umhverfiumhverfi sem umlykur bústaðinn minn.
 
 
 
Næsti gluggi -þvottahúsið.
 
 
 
 
Ennþá ein mynd frá glugga mót skóginum. Ég hef flutt mig frá glugga til glugga austan megin á bústaðnum mínum. Til vinstri í myndinni er beyki sem ég gróðursetti 2007. Til hægri við þetta beyki er opið móti fjarlægari hluta af litla skóginum mínum. Myndin væri reglulega fín ef mín eigin sköpunarverk væru ekki með í myndinni, það er að segja endi af grindverki til vinstri og svo brunnurinn sem bara minnir á kúk. Það þarf meiri listamann en mig til að geta blandað verkum mínum með verkum skaparans. Snyrtileg hús eru eitt en hér fór eitthvað úr böndunum
 
 
 
 
Við skiljum við austurhlina og sjáum til suðurs frá aðalinnganginum. Þar hefur skaparinn látið eftir mér að vera með í sköpuninni. Hann annaðist allt sem lifir á myndinni en ég fékk að vera með í að skipulaggningunni. Næst til hægri eru átta tré sem ég sótti inn í skóginn, sjö hlynir og ein eik. Þau þrifast ótrúlega vel og gefa útsýninu til suðurs tilfinningu af vernd, faðmlagi. Næst til vinstri er hestkastanía keypt í verslun í Örebro, ekki alveg í skyldleika við sænska skóginn en fellur samt inn í umhverfið. Ef einhver kemur í heimsókn til mín gengur sá hinn sami móti aðal innganginum eftir grasflötinni til hægri. Ég vona að þessi einhver finni sig velkominn í þetta umhverfi.
 
 
 
 
Þessari umferð lýkur hér frá glugga sem snýr á móti vestri. Hér er meira útsýni en frá öðrum hliðum, útsýni sem dugir vel fyrir mig. Til hægri í myndinni er op í skóginum sem er álengdar. Þar sér til Kilsbergen sem er lágur en langur fjallarani í um 15 km fjarlægð giska ég á. Þar hafa verið reystar 16 vindmyllur sem allar sjást hér heiman að frá þessum glugga. Mér fannst það svolítið súrt í fyrstu en þegar ég heyrði að þær framleiddu rafmagn fyrir 40 þúsund bústaði þá fannst mér best að leggja ólundina niður og sættast við orðinn hlut.
 
 Mér þykir afar vænt um allt sem sést á myndunum í þessu bloggi. Ég get gengið út að morgni til, jafnvel berfættur í döggvotu grasinu, og fundist sem ég þurfi ekkert meira í lífinu og þurfi yfir höfuð ekki að fara eitt eða neitt. Það verður niðurlagið að þessu sinni.

Hannes barnabarn

20. mars 2023
 
Alldeilis nýlega skrifaåi ég blogg um vinnu mína í skóginum heima hjá mér. Þegar ég gerði uppkast að þessu bloggi sat ég í íbúð Susanne í Katrineholm og fór í huganum yfir það sem ég er að gera um þessar mundir og vil gera hér í lífinu. Svo byrjaði ég að skrifa
 
Susanne fór fyrir stundu í æfingasal þar sem hún hlúir að heilsu sinni. Á meðan ætla ég að borga barnabarni mínu Hannesi skuld sem mér ber að greiða honum. Ég nefndi hann ekki á nafn í síðasta bloggi þegar ég skrifaði um "mína" vinnu í skóginum -en hann var með í þessari vinnu í nokkra daga hérna um daginn. Fyrirgefðu Hannes
 
 
Ingen fotobeskrivning tillgänglig.
 
Ég held bara að Hannes hafi alltaf verið glaður þegar hann hefur komið á Sólvelli og hjálplegur hefur hann líka verð. Bara að hlæja eins og hann gerir á myndinni. Þá lifnaði allt við.
 
 
 
Af einhverjum ástæðum ber þessa mynd oft fyrir augu mér og árlega kemur hún upp sem minning sem Facebook bíður mér upp á að deila. Alltaf þegar ég sé myndina hugsa ég sem svo að þarna hafi okkur báðum fundist sem við værum að vinna saman -sem við eiginlega vorum að gera. Þó í sitt hvorum heimi.
 
 
 
Árin hafa liðið fljótt og óstöðvandi. Hannes og mamma hans voru í heimsókm á Sólvöllum um síðustu mánaðamót. Þá nefnilega hjálpaði hann mér. Þegar ég allt í einu horfði á eftir þessum karlmanni með viðarkubba undir sitt hvorum arminum, þá sá ég virkilega að árin höfðu liðið. Venjan er að taka myndir á móti fólki en þessi var bara svo fín að ég stóðst ekki mátið þó að hún væri af baksvipnum. Og svo þetta; mér finnst svolítið óþægilegt að ná þó þetta stórum kubbum frá jörð og upp undir sitthvorn arm, en hann sem er þrettán ára fór létt mneð það.
 
 
 
Í annað skipti mætti ég honum með hjólbörurnar nákvæmlega jafn mikið hlaðnar og ég hef þær sjálfur. Ja hérna Hannes, þú ert hraustur strákur.
 
 
 
Viðargeymslan er gott hús og mér sýnist að Hannesi líði vel þar inni. Þarna er hann að kljúfa tré sem við felldum daginn áður eða svo, og hann flutti heim. Og svo má ég bara til með að segja frá einu enn. Keðjusagir eru ekkert að leika með en þær eru mikilvirk verkfæri. Mig grunaði að það væri leiðinlegt fyrir Hannes að bara horfa á þegar ég sagaði. Svo sagaði hann lítið birkitré niður í búta og við fórum báðir mjög varlega. Eftir á sagði hann að þetta hefði verið gaman, en ég þarf ekki að saga meira núna bætti hann við. Hann skildi að það var ábyrgðarhluti að gera þetta.
 
 
 
Hún Rósa mamma Hannesar og dóttir mín tekur mikið af myndum af fólki og sýnir þær gjarnan. En það er einkennilegt hvað það gleymist oft að taka myndir af henni. Þessa mynd tók hún af okkur í Vadköping í Örebro þar sem við höfðum verið að skoða ýmsan varning sem ekki liggur á lausu í hvaða verslunum sem er.

Í gær var ég duglegur

13. mars 2023
 
Í gær var ég duglegur og í gærkvöldi var ég þreyttur. Það var allt á öðrum endanum á eldhúsbekknum og ég ákvað að laga það -en bara svolítið seinna. Svo byrjaði ég að skrifa blogg og komst á ótrúlegt flug. Svo las ég yfir það sem ég hafði skrifað og það var bara bull allt saman, eða þannig. Ef þetta hefði verið hluti af kafla í bók hefði það kanski verið allt í lagi. En blogg og bók skrifar maður bara ekki á sama hátt. Það veit ég þó að ég hafi aldrei skrifað bók.
 
Svo tæmdi ég uppþvottavélina og hlóð í hana aftur og allt í einu var fínt á eldhúsbekknum. Því næst sótti ég kvöldfréttirnar í sjónvarpinu og byrjaði að horfa. Svo vaknaði ég við það að fréttirnar voru búnar. Svo skrifuðumst við á Susanne og ég og að lokum horfðí ég á nokkrar síðustu mínúturnar af gamalli Beck kvikmynd. Þetta var hreina óreglan og ég sofnaði ekki fyrr en eftir klukkan eitt.
 
Ég er búinn að vera einn heima í nokkra daga og í gær var ekkert eftir í ískáp eða frysti. Ekkert nema tvö egg och smjör í ísskápnum og nokkur brotin hrökbrauðshorn í skúffu. Þar sem ég hafði verið duglegur í gær var ekki mikið að velja um; ég fór á Brendåsen og fékk mér að borða og borðaði mikið og gott. Það var búið að spá skítaveðri í dag þannig að ég keypti matarskammt til að hafa heima svo að ég gæti bara verið heima hjá mér allan daginn í dag og sleppa öllum akstri á slæmum vegum. Svo í morgun áður en ég var kominn almennilega á fætur fór Mikki bóndi framhjá með skramli og látum og þá vissi ég að spáin hefði gengið eftir. Mikki er snjómokarinn hér í sveitinni. Það gladdi mig þar sem ég gat þá bara baukað innan húss í dag. Svo eftir þrjú glös af vatni er ég nú sestur við tölvuna.
 
En aftur að því að ég hefði verið duglegur í gær. Hvað hafði ég verið að gera. Jú, ég var að draga að mér eldivið. Ég hafði daginn  áður fellt um 25 metra háa ösp í fjarlægasta horni skógarins og í gær var svo kominn tími til að brytja niður og flytja heim í gömlu hjólbörunum mínum. Svo var liggjandi viður á tveimur öðrum stöðum í skóginum sem ég þurfti líka að taka heim. Ef mögulegt er vil ég ekki sleppa neinni vél inn í skóginn þar sem að þær bara skemma, það fer þó eftir því hver situr undir stýri. Ég veit um mann sem er ótrúlega lipur við þetta en hann hafði ekki tíma. Svo er það bara þannig að bæði líkami og sál fá mikið viðhald við svona vinnu. Gærdagurinn var rúmlega fimm kílómetrar á ójöfnum skógarbotni með miklu af greinum til að flækja fæturna í.
 
En heim komst viðurinn í gær og hvern kupp klauf ég í tvo hluta og staflaði því svo upp til bráðabyrgða. Tveir eldri vísir menn, báðir yngri en ég, hafa sagt mér að það sé betra að gera svo ef maður hefur ekki tíma til að fullklára verkið. Þessir menn eru báðir aldir upp bið skógarjaðarinn og þeir hljóta að vita betur en ég sem er alinn upp undir Vatnajökli. Þessi viður er heldur ekki hið minnsta þurrkaður og ég geymi hann undir þaki þar sem veðrið þó leikur um hann. Næsta skref er svo að kljúfa viðinn og raða snytirlega í viðargeymslunnni eftir mínum kúnstarinnar reglum og sérvisku.
 
Það er langt síðan ég hef skrifað blogg nemna þá við sérstök tilfelli. Á löngum tíma breytast gjarnan bæði menn og athafnir þeirra en hjá mér breytist ekkert. Í þessu fyrsta bloggi mínu í langan tíma er ég þegar kominn út í skóg eins og áður.
 
Ójá. En heimili mitt er á Sólvöllum og heimili mitt hér er ekki bara íbúðarhúsið, það er allt það svæði sem ég hef yfir að ráða og er skrifaður eigandi að. Það eru 8040 fermetrar og um 6000 fermetrar af því er skógur. Nú þarf ég að setja á mig heyrnartækin svo að ég heyri betur hógvært hjalið í kamínunni sem hitar upp húsið mitt. Bloggi er lokið, bara myndir eftir.
 
 
 
Bráðabyrgðageymsla. Þarna loftar vel um og þessi viður verður ekki súr. Í gær varð þessi geymsla full.
 
 
 
Aspir fyrir miðri mynd. Þær vaxa þétt og geta ekki haft neina fallega krónu. Við fyrsta tækifæri á hún að fara sem er til hægri og næsta króna getur síðan vaxið betur. Það er heilmikill dynkur þegar þessi um 25 metra háu tré og með svo litla krónu falla á frosna jörð. Ég finn fyrir sorg við að heyra þennan dynk. Síðan nær ljósið betur á smátrén lengst niðri og lífið heldur áfram.

Jólagjöfin stóra

Valgerður dóttir mín var nokkuð á öðru ári og við þriggja manna fjölskyldan bjuggum í Kelahúsinu í Hrísey. Hún var orðin það kná að hún var byrjuð að klifra upp á það sem lægra var og stólar voru orðnir spennandi viðfangsefni. Við Valdís sátum við matarborðið í eldhúsinu en Valgerður var á ferðinni um allt með sín áhugamál. Allt í einu skeði eitthvað. Henni hafði tekist að draga kaffikönnuna með nýju og heitu kaffi fram af eldhúsbekknum og kaffið helltist yfir höfuð hennar. Mín viðbrögð voru snögg og þörfnuðust ekki umhugsunar. Ég vissi að hver sekúnda var afgerandi til að minnka skaðann. Það dýrmætasta í þessum heimi, barnið okkar, mátti bara alls ekki fara illa. Ég þreif hana upp og setti hana undir kranann sem var beint fyrir ofan hana og skrúfaði frá kalda vatninu með höfuð hennar undir bununni. Hún varð ekki þakklát en ég varð næstum undrandi hversu snöggur ég var að aðhafast.
 
Ég minnist þess enn í dag hvernig skelfingin greip mig en það varð ekki stór skaði. Það komu einhverjar blöðrur og til öryggis hringdum við Valdís í Ingveldi, fulltrúa læknisins í eynni. Hún kom, eiginlega mest til að hughreysta okkur foreldrana. Síðar fórum við til læknis með hana. Eins og ég hef þegar sagt; það dýrmætasta í þessum heimi átti líka að fá bestu umhyggjuna.
 
Hún var að nálgast tveggja ára aldurinn og við fjölskyldan vorum á leið frá Hrísey til Akureyrar með flóabátnum Drangi. Hún vildi vera frjáls í farþegarýminu og hún fékk að vera það. Hún gekk á milli fólks, svolítið óörugg á fótunum, studdi sig við hné þeirra sem urðu á vegi hennar, horfði á fólkið og brosti út undir eyru. Allir tóku henni mjög vel, brostu á móti og sögðu gjarnan eitthvað, litu til okkar foreldranna og við vorum hreinlega við það að að springa af monti yfir fallegasta og skemmtilegasta barni í öllum heiminum.
 
 Það var þá.
 
Valgerður er vel miðaldra kona í dag og ég er nokkuð gamall maður þó að ég skilji það ekki sjálfur. Þessi sterka tilfinning að vera ábyrgur fyrir velferð barnsins síns og verndari hefur breytst. Takmarkalaus ást á litla barninu sem jafnan er í sterkri þörf fyrir vernd og leiðsögn verður að kærleika til fullorðinnar manneskju sem er farin að lifa eigin lífi og á egin ábyrgð. Það er orðið langt síðan ég tók Valgerði á kné mér til að róa hrærðar tilfinningar eða lyfta henni í fang mér til að veita henni skjól og öryggi. Það er líka langt siðan ég setti mig á gólfið á fjórum fótum og var hesturinn hennar.
 
Dag einn fyrir meira en ári síðan fékk ég að heyra að það væri mikil alvara á ferðum. Hún var orðin mikið veik og ekkert annað gat bjargað lífi hennar en að fara í líffæraskipti. Það var bara of mikið að barnið manns sem fyrir áratugum var í þörf fyrir alla þá umönnun sem foreldri getur veitt, barn sem svo oft veitti foreldrum sínum svo mikla gleði og stolt, að þetta barn stæði nú frammi fyrir því að verða að skipta út einu af stærstu líffærum líkamans.
 
Næturnar gátu orðið langar þar sem bænir stigu hljóðlátar til himins í von um styrk og hjálp, hugsanir sem helltust yfir í önn dagsins, hugsanir sem alltaf enduðu með því að sjá það besta. Bænirnar sem mamma kenndi mér fyrir einum sjötíu og fimm árum og ég hef notað alla æfi, þær notaði ég nú sem aldrei fyrr.
 
Svo þegar kvöldaði einn daginn fékk ég að heyra að það hefði komið tilkynning frá Gautaborg um að Valgerður ætti að koma innan fárra tíma í líffæraskipti. Flugvél tók á loft í Vestmannaeyjum seint um kvöld og flaug með hana yfir Atlandshafið til annars lands. Um hádegi daginn eftir byrjaði aðgerðin og þegar ég sofnaði um miðnætti var ég í raun ekki búinn að heyra hvernig hefði gengið. Ég reiknaði með svefnlítilli nótt en sannleikurinn er að ég svaf rólegum og góðum svefni alla nóttina. Það vissi á gott fannst mér. Í dag veit ég að á morgun, daginn fyrir aðfangadag á hún að flytjast heim til Íslands á ný með sitt nýja líffæri. Þar með upplifi ég sem nýr og betri kapituli sé hafinn í lífi hennar og allrar fjölskyldu hennar.
 
Ég hef verið svo fjarri á þessu veikindatímabili, en þar sem ég hef nú setið heima hjá mér næst síðasta kvöldið fyrir jól og skrifað þetta, þá hefur mér fundist sem ég sé nærri. Mér hefur inn á milli fundist sem ég væri að skrifa jólasögu þar sem jólin ganga jú brátt í garð. Valgerður er líka búin að segja við mig að hún hafi fengið stóra jólagjöf. Það sagði hún í vídeósamtali frá sjúkrhúsinu í Gautaborg.
 
Ofanritað skrifaði ég á Þorláksmessu.
 
Ég hringdi vídeósamtal til Valgerðar í gær og hitti á matartíma hjá þeim. Það var saltkjöt og baunir í matinn. Það hefur verið erfiðlkeikum bundið fyrir hana að fá matarlystina til baka og það er auðvitað ekki nógu gott. En í byrjun samtalsnins sá ég hana borða baunasúpuna bara af krafti vil ég segja. Og ekki barfa það, við töluðum saman í 57 mínútur og það þarf töluverðan kraft til þess. Mér þótti sem ég sæi batann að störfum. Valgerður, þú hefur verið mikil hetja gegnum þetta allt saman, ég endurtek, mikil hetja. Og þú varst líka örugg með að allt mundi ganga vel. Vonin er góður læknir.
 
Jónatan tengdasonur. Þú hefur verið þolinmóður og tryggur og ég hef veitt því athygli skaltu vita. Ég hef all oft hringt á þessum veikindatíma öllum og heyrt þig álengdar þar sem þú hefur bjástrað við ýmis konar heimilisverk og aðstoð. Þá hef ég oft hugsað; hann er góður maður Jónatan. Það eru einkunnarorð mín til þín kalli minn.
 
Með bestu kveðju til ykkar allra í fjölskyldunni. Til hamingju með stórafmælið Valgerður. Ég elska þig.

Guðný systir mín

Við Guðný vorum að leika okkur í gamla skólanum sem lengi stóð í hlaðinu á Kálfafelli löngu eftir að hætt var að nota hann. Af einhverjum ástæðum stóð ég upp á bekk í norðvestur horni skólastofunnar og við hlið mér stóð mjór en dálítið hár kolaofn. Guðný stóð á miðju gólfi beint fyrir framan mig. Allt í einu missti ég jafnvægið, greip um ofninn og svo féllum við báðir í gólfið. Þar missti ég stærri hluta litla fingurs vinstri handar. Þetta er fyrsta minning um okkur saman sem ég get fundið í huga mér. Ég var sex ára og hún á tíunda ári.
 
Það var Guðný sem fyrst allra útskýrði fyrir mér að jörðin, heimili okkar allra, væri hnöttur sem svifi um í endalausum geimi. Ég varð skelfingu lostinn yfir þessum fréttum, var undirstaðan virkilega svo ótraust? Hún var ekki að hræða mig, hún var bara að leiðrétta misskilning minn á tilverunni.
 
Oft vorum við systkinin á Kálfafelli í sendiferðum. Sækja hesta, fara með kýrnar og sækja kýrnar, opna hlið fyrir fé hér og þar eða þá að loka hliðum, fara með skilaboð á næstu bæi eða fá eitthvað lánað. Mér fannst mjög notalegt að hálf hlaupa í þessum ferðum, eða skokka. Mér leið vel þegar ég skokkaði og mér fannst sem ég gæti skokkað endalaust án þess að mæðast eða þreytast. Það var eins og að vera tengdur bæði jörð og alheimi og þá fékk ég þann kraft sem til þurfti.
 
Einhvern tíma ræddum við Guðný undur og gátur tilverunnar. Þá allt í einu sagði hún að ef maður skokkaði mátulega hratt og létt, þá yrði maður ekki þreyttur. Þá man ég vel að ég varð hissa, mikið hissa. Var hún virkilega svona líka!?
 
Það sem ég er að segja eru minningar, ekki frásögn byggð á skráðum staðreyndum. Því sem ég hef sagt hér get ég ekki raðað niður í tímaröð og minningar eru heldur ekki öruggar, þær eru það sem lifir með okkur en tíminn hliðrar til.
 
Ég var kominn í Skógaskóla og Guðný var orðin mun meiri heimsmanneskja en ég. Hún var í Húsmæðraskólanum á Varmalandi 1956 til 1957. Eitt sinn eftir Varmaland hafði hún samband við mig frá Reykjavík og þá var ég í Skógaskóla. Hún talaði um að ég hlyti að vera í þörf fyrir þokkaleg föt til að vera í við betri tilfelli. Það varð úr að ég sendi henni mál af mér og hún sendi mér svo grá jakkaföt.
 
Ég mátaði fötin með hjálp einhvers og sendi þau svo til baka með skilaboðum um hvað þyrfti að fara betur. Með þessari hjálp hennar eignaðist ég mín fyrstu virkilegu jakkaföt. Ég er enn í dag þakklátur henni fyrir þetta, fyrir það að hún áttaði sig á þessu og fyrir hjálpina. Nokkru síðar þurfti ég að koma fram fyrir skólans hönd, og þakka þér bara fyrir Guðný systir mín og allar góðar vættir, að þá hafði ég eignast þessi jakkaföt.
 
Síðar varð langt á milli okkar, ég í Hrísey og hún á suðvestur horninu og síðar á Flateyri. Ég veit að hún óskaði þess innilega að fá heimsókn síns fólks til Flateyrar, en þær heimsóknir urðu örfáar. Þegar hún síðar fluttist til Skagastrandar árið 1974 jókst samgangurinn. Þau voru afar góð heim að sækja Guðný og Sveinn Garðarsson maður hennar. Sveinn lést árið 2019.
 
Þau bjuggu á tveimur stöðum á Skagaströnd og Guðný sá um að skapa fallegar lóðir, svo fallegar að af bar. Okkur leið vel þegar við skokkuðum í Kálfafellslandinu og fundum okkur í beinni tengingu við tilveruna. Þannig er ég líka viss um að henni leið þegar hún með sínum grænu fingrum mótaði og hlúði að lóðunum sínum á Skagaströnd.
 
Ég var fluttur til Svíþjóðar og viti menn, ég heimsótti hana aldrei til Flateyrar en hún heimsótti mig til Svíþjóðar ásamt Sveini manni sínum og dætrunum Birnu og Sigríði Björk. Mikið þótti mér vænt um þá heimsókn og þykir enn.
 
 
 
Á áttræðis aldri fór að bera á minnisleysi hjá Guðnýju. Þrátt fyrir allar góðar tilraunir versnaði sjúkdómurinn ár frá ári. Ég heimsótti hana í fyrrasumar og systir mín sem forðum útskýrði fyrir mér að jörðin væri ekki flöt, heldur hnöttur -ég var ekki viss um hvort hún þekkti mig. Við sátum góða stund við rúmgott borð á heimilinu þar sem hún bjó síðustu árin. Við sátum bæði við sama hornið, ég fyrir endanum og hún við langhliðina. Nokkrum sinnum nefndi ég hver ég væri og ég spurði hana líka gætilega hvort hún þekkti mig. Í öll skiptin svaraði hún með því að benda á litlafingurinn. Hún var með á sinn hátt. Óhappið í gamla skólnum á Kálfafelli árið 1948, sjötíu og þremur árum áður, tengdi okkur ennþá saman. Ef til vill eitthvað fleira, eða margt fleira, en þetta var áþreifanlegt
 
 
 
Árið 2017 heimsótti ég Guðnýju og Svein mann hennar og var þar líklega í þrjár nætur. Jónatan tengdasonur minn frá Vestmannaeyjum var á ferð á Norðurlandi og var kominn á Skagaströnd til að taka mig með suður yfir heiðar á ný. Það kom óvænt á Guðnýju og Svein að ég væri allt í einu að fara. Líklega hafði ég ekki komið því skírt á framfæri hvenær ég héldi suður á ný. Ég sneri mér við í útidyrunum eftir að hafa kvatt og leit til baka. Þar stóð þessi fjölskylda sem við sjáum á myndinni og ég bara varð að taka mynd.
 
Sorgin smaug langt inn í hjartað. Ég sá ekki betur en hann Sveinn mágur minn væri sorgmæddur líka. Hún systir mín lengst til hægri bar trúlega sínar sorgir einnig. Ég get spurt sjálfan mig; hvers vegna gaf ég þeim ekki  nokkra daga til viðbótar af lífi mínu. Kannski eru slíkar gerðir höfuðtilgangur þess.
 
Um miðjan janúar síðastliðinn varð Guðný fyrir áfalli og fljótlega virtist sem það yrði erfitt fyrir hana að ná sér upp úr því. Að lokum varð það þannig að ég bara beið eftir skilaboðum um að hún hefði kvatt. Það var aðfaranótt 20. janúar sem ég vaknaði af sérkennilegum draumi klukkan rúmlega hálf fimm að íslenskum tíma. Mín fyrsta hugsun var að nú væri Guðný systir mín dáin.
 
Og mikið rétt, þá var hún komin inn í land friðarins, hún var farin heim.
 
Stefán frændi minn á Skagaströnd og frænkur mínar Birna og Sigríður Björk, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra og fjölskyldna ykkar.
 
 
 
Guðjón og Guðný á Kálfafelli sitjandi á hverfisteininum fyrir um það bil 70 árum. Sessurnar voru kindagærur. Góðar sessur á þeim árum.
 
Útför Guðnýjar fer fram frá Hólaneskirkju á Skagaströnd í dag
föstudaginn 4. febrúar.

Á heilagri jörð

Styttsti dagur ársins er liðinn og jólin eru á leiðinni. Það er lifrarpylsa með hafragrautnum á morgnarna sem heldur myrkrinu fjarri með hjálp ólíkra sorta af heimaræktuðum berjum. Það er lítið um snjó en jörð er frosin. Fuglarnir eru tryggir matnum sem ég gef þeim og með hjálp íkornans eru þeir fljótir að éta upp það sem þeir fá. Vissulega gerir þetta útsýnið frá matarborðinu meira lifandi.
 
Hvað ætla ég svo að gera um jólin? Fyrir nokkrum vikum síðan velti ég fyrir mér að fara til Íslands og halda jól í Vestmannaeyjum hjá Valgerði dóttur minni ásamt fjölskyldu, en þeirri hugsun hélt ég leyndri. Það var eins gott því að eins og ég sé það núna eru engir tímar fyrir ferðalög. Ég mun fara til Stokkhólms á morgun, Þorláksdag, og vera um jólin hjá Rósu dóttur minni og fjölskyldu. Susanne ætlar að halda jól í Eskilstuna með sonum sínum ásamt fjölskyldum.
 
Frá Stokkhólmi kem ég til baka í sveitina þar sem ég hef fest rætur á þann hátt sem ég aldrei reiknaði með. Þær rætur eru fastar eins og rætur eikarinnar. Eikin er svo rótföst að sem litla plöntu er erfitt að slíta hana upp ef það yfir höfuð er mögulegt.
 
Það var dag einn á JAS mánuðunum í ár, júlí-ágúst-september, mánuðunum sem eru sagðir bestir til að klippa til mörg tré. Dagurinn var mér hvert prófið á fætur öðru og ekkert gekk mér vel langt fram á daginn.
 
Síðdegis tók ég ákvörðun, nú skildi ég takast á við drauginn sem vildi skaða mig. Ég tók litlu greinaklippurnar mínar og rölti út í skóg þar sem ég vissi um margar plöntur og smá tré sem mér fannst þurfa á hjálp minni að halda. Það var jú rétti tíminn. Ég gekk að fyrstu plöntunni og snyrti hana til. Síðan sá ég að hún hafði nokkra keppinauta sem vildu taka til sín næringu af sama borði og hún.  Ég lagðist á hné til að klippa burtu þessa keppinauta. Þeir geta orðið ótrúlega margir þessir keppinautar og meðan ég klippti þá burtu, einn af öðrum, sá ég hvernig maurarnir byrjuðu að skríða upp buxurnar mínar. Brátt mundu einhverjir þeirra byrja að leita inn fyrr skyrtuna mína. Svo hafði ég lokið við þessa fyrstu plöntu, stóð upp, dustaði buxurnar og gekk áfram.
 
Það var dauðakyrrt í skóginum og ég horfði á trjástofnana og minntist ljóðlínu þar sem talað er um að "lífið kraumi bakvið börkinn". Einstaka fugl flaug hljóðlega framhjá, stórar bjöllur fikruðu sig hljóðlega hingað og þangað á götuslóða, maurarnir komu jafn fljótt og ég stoppaði og vildu upp eftir fótleggjunum. Ég hélt áfram við plönturnar hverja á fætur annarri og þær fengu á sig betra form. Smám saman varð ég meira og meira var við hvernig hljóðlátt lífið iðaði allt í kringum mig og ég fékk að vera með í því, ég virtist svo innilega velkominn. Ég var fullgildur þátttakandi í lífinu í skóginum.
 
Mótlæti dagsins var á bak og burt og það virtist aldrei hafa verið til. Ég fann mig á heilagri jörð og vildi alls ekki til baka heim til hússins míns sem ég sá útundan mér spölkorn í burtu, ekki fyrr en rökkrið væri orðið of þétt til að halda áfram.
 
Ég hef fundið þessa heilögu jörð svo víða. Hérna heima hjá mér, í íslensku fjalllendi, í norðlenskum skógum þar sem athafnir manneskjunnar eru langt í burtu, þar sem víðáttan opnar allt í einu faðm sinn framundan, og á kyrrlátum fjallvegum. Það er bara að gefa sig á vald tilverunnar án skilyrða og þá verður jörðin heilög. Það þarf svo lítið, bara að það sé án skilyrða til náttúrunnar og alheimsins. Gefa fuglunum matinn sinn, íkornanum líka. Gefa broddgeltinum. Taka burtu steininn sem hindrar tígullega trjáplöntu að vaxa og setja gróðrarmold í holuna. Það þarf ekki að vera svo stórbrotið. Það stórbrotna er bara fyrir. Svo er stjörnuhimininn allrar athygli verður
 
 
 
Maður heitir Richard Foster og hann er rithöfundur og guðfræðingur, fæddur sama ár og ég. Hann skrifaði umsögn um bók sem heitir í minni þýðingu "INRA LJÓSIÐ" og er skrifuð af manni sem heitir Thomas R Kelly. Richard Foster skrifaði eftirfarandi í umsögn sinni og þýðingin frá sænsku er mín:
 
 
"Ég man enn í dag eftir rigningarsama febrúarmorgninum fyrir mörgum árum síðan á einum flugvallanna í Vosington. Eins og venjulega hafði ég tekið með mér efni til að lesa til að geta notað vel lausar stundir. Í fyrsta skipti í lífi mínu opnaði ég bók Thomasar Kellys, INRA LJÓSIÐ.
   . . .þar sat ég einsamall á flugvellinumog og sá hvernig regnið sló móti gluggarúðunni. Tár runnu yfir kinnar mínar og niður á frakkann minn. Ég var á heilögum stað, stóllinn sem ég sat á var altri. Ég mundi aldrei framar verða sami maður. . ."
 
 
Ekki hef ég komið svo langt að geta séð flugvöll sem heilagan stað, en eftir að hafa lesið þessa umsögn fyrir mörgum árum í bókabúð í Örebro, þá keypti ég bókina INRA LJÓSIÐ og las hana. Nú finn ég að mér ber að lesa hana aftur.
 
Ég óska öllum sem lesa þetta gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Meigi innra          ljósið ná að skína meðal okkar allra um þessi jól, fram á veginn líka, nú og ævinlega. Og gleðileg jól til allra hinna líka sem ekki lesa þetta.
 
 I

Ánægður með að hafa gert það

Ég var hjá Volvo í Örebro fyrir um það bil fjórum vikum síðan og sótti nýjan bíl. Fyrir mig var það heilmikið að fjárfesta í nýjum bíl, jafnvel þó að það væri lítill bíll. Lítill en ekki pínu lítill. Þessi viðskipti hafa tekið pláss í höfði mínu í þrjú eða fjögur ár, jafnvel meira. Ég hafði frestað, beðið aðeins lengur, beðið eftir nýjum uppfinningum og nefndu það bara, en í fyrsta lagi var ég bara kjarklaus. En ég hafði allan þennan tíma verið viss um að ég kæmi til með að gera þetta. Það fjallar um samvisku mína.
 
Viðskiptunum lauk með að ég skrifaði á ótrúlega mikið af pappírum sem þurfti til að taka bíl á langtímaleigu. En það var ekki bara það. Rafbíll gerir kröfu um nýja þekkingu, alla vega fyrir mig. Hún var mjög þolinmóð bílasalinn þegar hún reyndi að fá mig til að skilja hluta af þessu. Að lokum fann ég að ég var orðinn býsna ringlaður af öllu þessu og horfði á móti dyrunum sem ég brátt átti að keyra gegnum til að komast út. Við vorum tilbúin og og ég sagði; Pethra, viltu keyra bílinn út fyrir mig? Það var svo sjálfsagt og svo keyrði hún út bílinn án þess að hlægja að mér. Þar settist ég undir stýri og hélt heimleiðis, svolítið skömmustulegur fyrir að keyra ekki út sjálfur.
 
Ég hafði oft prófkeyrt rafbíla á kjarklausu árunum en nú var það allt öðru vísi. Þvílík græja Björnsson! Eftir nokkra kílómetra ók ég af hraðbrautinni og inn á veg móti Sólvöllum. Þá komu háu ljósin sjálfkrafa á og litlu seinna kom bíll á móti og ljósin lækkuðu aftur sjálfkrafa. Ánægður með sjálfan mig bankaði ég létt með fingrunum á stýrið og hugsaði að nú þurfa þeir sem koma á móti ekki lengur að minna mig á að lækka ljósin. Gírkassin sjálfskiptur, hljómurinn í útvarpinu vissulega alveg magnaður þó að ég veldi í fyrsta lagi að hafa það hljótt á leiðinni heim. Leiðsöguskjárinn stór og greinilegur og bílasalinn tengdi símann minn inn á kerfið. Ekki lélegt þetta!
 
 
 
 
 
Ef einhver spyr hvað veislan kosti kem ég til með að segja að ég velti því ekki fyrir mér. Ég hef verið í dálítilli vörn hvað kostnaðinn áhrærir en ég hef sleppt því. Ég sem afi, langafi -og íbúi á móður jörð vil af öllu hjarta taka þátt í að létta undir með bataferli hennar, vera dálítið vís maður. Ég er bráðum áttatíu ára gamall en á leiðinni heim var ég reglulega hamingjusamur því að ég hafði gert það! og mér fannst ég vera mikið yngri en ég var. Og einn hlutur ennþá; þetta er ekki notalegasti bíllinn sem ég hef haft, þetta er sá "lang" notalegsti. Hvað þetta áhrærir hefur það eflaust áhrif að ég er mjög ánægður með framtak mitt.
 
Nokkur lokaorð. Fyrir all nokkrum árum síðan horfði ég á sjónvarpsþátt um Sama og þar var meðal annars talað við ungan hreindýrahirði. Án þess að geta notað nákvæmlega hans orð trúi ég að ég geti tjáð það sem hann meinti varðandi mikilvægan hlut: Við höfum jörðina einungis að láni meðan við erum hér og okkur ber skylda til að skila henni til baka eins og við tókum við henni.

Næsti áfangi þegar undirritaður

Ég skrifaði í fyrradag um sólarsellurnar mínar en ég hef vitað að sá áfangi er bara byrjun á stærra markmiði. Til að komast lengra áleiðis verð ég að hugsa um bílaeignina mína því að ég verð, eins og allir aðrir sem eiga afkomendur, að horfa á þann þátt af mikilli ábyrgð. Ég hef val milli þriggja möguleika. Einn er sá að flytja inn í þéttbýli þar sem ég hreinlega þarf ekki að eiga bíl. Annar er sá að fjárfesta í bíl sem er hreinni en gamli bíllinn minn. Í þriðja lagi á ég kost á að gera ekki neitt.
 
Það síðastnefnda var ekki til umræðu af minni hálfu og þá voru tveir valmöguleikar eftir. Ég hef þegar valið á milli þeirra. Um miðjan september skrifaði ég undir samning um að taka bíl á langtímaleigu til þriggja ára og ég fæ þann bíl í desember.
 
Eiginlega voru þessi viðskipti svolítið ævintýraleg fyrir mig og ævintýrið tók bara hálfa viku. Ég hafði ákveðið allt annan bíl en ég tók að lokum. Ég var á leiðinni þangað til að gera samning um bíl sem var vel rýmilegur fyrir farþega í aftursæti og rafhlaðan á við bestu aðstæður og möguleika að endast til 400 km aksturs.
 
Þegar ég átti eftir að aka svo sem 300 metra beina götu til bílasölunnar til að ganga frá viðskiptunum ákvað ég allt í einu, bara á einu augnabliki, að taka götu til vinstri. Það var svolítið merkileg upplifun, svo að sjálfur varð ég hissa.
 
 
 
Í framhaldi af þessari vinstri beygju skrifaði ég svo undir langtíma leigusamning á bílnum á myndinni. Þessi bíll hefur ekki eins gott rými fyrir farþega í aftursæti en ég get samt vel setið þar sjálfur, en það fer þó eftir stærð þess sem situr í sætinu fyrir framan mig. Þar að auki man ég einungis eftir einum farþega í aftursæti hjá mér það sem af er árinu 2021. Þessi bíll á að geta ekið 300 km við bestu aðstæður og möguleika.
 
Það getur verið stutt í mikilmennskuna -líka hjá mér. Ég var rosalega heppinn að taka vinstri beygjuna og mánaðarleigan á þessum bíl er kannski einn þriðji af auknum húsnæðiskostnaði ef ég yfirgæfi Sólvelli. Hann veldur mér líka um það bil 25 % minni kostnaði en bíllinn sem ég var á leiðinni til að kaupa. Stærstan hluta af rafmagninu á þennan bíl reikna ég með að fá frá þakinu heima hjá mér.
 
 
 
Ég sat við glugga móti austri meðan ég skrifaði þetta blogg og hafði útsýnið sem við sjáum á myndinni. Svo var það líka þegar ég skrifaði bloggið þar á undan. Ferskasti blærinn yfir laufhafinu er farinn að gefa sig og þreytueinkenni eru sýnileg á trjánum. Þau eru líka búin að skarta sínu fallegasta í fleiri mánuði. Mig minnir að ég hafi heyrt eldri menn sem unnu í Allabúð í Hrísey tala um eðalvið. Trén þarna eru eðaltré. (Allabúð nefndist hluti af fyrrum kaupfélagsverslun í Hrísey)
 
Sum eru með þétt laufverk og sum eru með stór laufblöð og sum bera hvort tveggja. Þau eru mikilvirk í að hreinsa loftið sem við drögum niður í lungun og þau eru mikilvirk við að framleiða fyrir okkur súrefnið sem gerir okkur lífið mögulegt. Þau eiga það skilið að ég sé góður við þau. Þau hafa gefið mér svo óteljandi góðar stundir í sumar og mörg liðin sumur. Þau eru bæði vinir mínir og bestu listaverkin sem ég mögulega á kost á að hafa fyrir augum mér hér heima.
 
Það er létt að draga andann í návist þeirra og ég vona að okkur sem eigum að vera ábyrg takist að bera þá ábyrgð svo að ungu afkomendurnir okkar þurfi ekki síðar meir að líða þungt vegna erfiðleikanna við að draga andann í brennheitum og sköðuðum heimi.

"Sólarorkuverið" mitt á þakinu

Það var snemma vorið 2020 sem ég var að hreinsa til hér úti eftir að fagmenn höfðu verið uppi á þaki við að ganga þar frá sólarsellum. Ég var dálítið montinn yfir sólarsellunum mínum og framtaki mínu yfir að hafa drifið í að koma þessu endanlega í framkvæmd. Ég hafði ekkert á móti því að vera framan við húsið þegar fólk gekk framhjá og vildi gjarnan heyra viðbrögðin.
 
En það voru engin viðbrögð fyrr en maður einn sem á heima hér í sveitinni gekk hjá og heilsaði hressilega. Svo hafði hann orð á því að ég hefði orðið fyrstur í byggðarlaginu til að fá mér sólarsellur. Ég fann fyrir svolítilli "vá" tilfinningu því að nú hafði einhver tekið eftir framtakinu. Því næst spurði hann hversu mörg ár það tæki fyrir mig að fá til baka kostnaðinn sem ég hefði lagt út fyrir þessu.
 
Ég gaf honum mjög einkennilegt svar, það að ég hefði reyndar engan áhuga fyrir því. Ég sagðist hins vegar hafa átt peninga til að borga þetta í eingreiðslu og ég vænti þess að það mundi lækka mánaðarútgjöld mín upp undir 600 krónur á mánuði (um það bil 8700 ísl krónur). Jú, hann sagði að svo gæti maður líka hugsað, en þar sem ég veit að hann vinnur með fjármál fyrirtækja var spurning hans mjög eðlileg.
 
Ég sagði honum einnig að ég ætti nokkur barnabörn og barnabarnabörn sem ég væri að taka tillit til. Flest þeirra væru ennþá svo ung að þau gætu ekki tekið þátt í því að taka ábyrgð á umhverfismálunum. Ég tæki meira tillit til þeirra sem ennþá væru svo ung, en til þeirra sem væru komin á ábyrgan aldur. Ég heyrði vel á rödd hans að hann skildi mig.
 
Nokkru eftir þetta samtal var sólarorkuverið mitt á þakinu búið að fá löggildingu og ég naut þess að sjá mælinn sem fylgdi sem sýndi framleiðslu sem var framar mínum vonum.
 
 
 
 
Ég get alls ekki sagt að "sólarorkuverið" mitt á þakinu sé staðarprýði, en ef það getur verið einhver miljarðs hluti af prómilli í að gera heiminn lífvænlegri fyrir barna- og barnabarnabörnin mín -að viðbættum öllum öðrum heimsins barnabarnabörnum, þá væri það alls vert. Svo er annað mál, og það er það að ég sit mjög sjaldan á stól utan við húsið og stari upp á þakið. Það spillir því engu fyrir mig þannig.
 
Í sambandi við þessa framkvæmd hitti ég áhugavert og skemmtilegt fólk. Til dæmis maðurinn sem stjórnaði og vann við að ganga frá sólarsellunum á þakinu. Hann var í kaffitíma á fjórum fótum á stofugólfinu við að skoða mótorhjólið sem Susanne hafði gert úr legókubbum. Hann er nefnilega mótorhjólamaður. Af tillitssemi vildi hann skoða þetta án þess að káfa á því.
 
Mér er líka minnisstæður maðurinn sem kom til að löggilda verkið. Það var á tímum þegar fólk mátti ekki lengur heilsast eða kveðjast með handabandi. Hið góða samtal sem við áttum yfir kaffibolla eyddi síðasta vafa mínum um hvort ég hefði verið að gera rétt með fjárfestingunni eða ekki. Við kvöddumst svo sannarlega með handabandi.

Skrifað 31. maí 2021

Það hafði verið talað um það í veðurspánni, alla vega í spánni á farsímanum mínum, að eftir nokkra daga mundi rigna mun meira en gert hefur lengi. Samt var allt blautt vegna langvarandi smá rigninga og lágs hitastigs. Ég var í miðju verki og var í kapphlaupi við þetta væntanlega regn og þurfti þar að auki að fá einn bílfarm af mold, svo skemmtileg sem mold er í meðförum í rigningu eða hitt þó heldur. Svo kom moldin og svo kom regnið samkvæmt spánni. Það rigndi líka að lokum nokkru meira en spáin hafði gert ráð fyrir.
 
 
 
 
Svona varð útlitið hjá einum nágrannanna og mikið vera víða. Akrar urðu að tjörnum og Sólvallaskógurinn varð ógangfær nema á stígvélum.
 
 
 
 
Það var bara að byrja á moldinni og halda sig við verkið meðan stætt var á. Á þessari mynd var ekkert annað að gera en hætta í bili. það má vel greina regnið fyrir miðri mynd.
 
 
 
 
Áður en ausandi rigningin að lokum hófst hafði mér tekist að flytja meira en helmingin af moldinni á þennan stað og nokkra aðra þar í kring. Meira en helmingur af bílhlassi af mold er til dæmis 86 hjólbörur eins og mínu tilfelli þarna. Stundum gengur alveg fram af mér hvað í ósköpunum ég eiginlega er að gera. Stundum eru kannski nágrannarnir svolítið hissa en þeir tala bara góðlátlega við mig yfir grjótvegginn þegar þeir ganga framhjá og ég við þá.
 
 *          *          *
 
Að setjast á veröndina móti skóginum og blunda og sjá fyrir mér aldeilis splunku nýja íbúð í Örebro eða einhverjum öðrum bæ, íbúð með öll þægindi bæði innan húss og allt um kring, það getur við viss tilfelli verið ofar öllu dásamlegu hér á jörðu.
 
Ég var spurður í fullri vinsemd hérna um daginn hvort mér liði illa ef ég stoppaði, hvort ég þyrfti alltaf að vera að. Nei, það fjallar ekki um það, það fjallar um að ljúka verkefninu sem ég setti í gang árið 2003. Það var þegar ég plataði Valdísi til að koma út að keyra og fór með hana á Sólvelli og varð ástfanginn. En ekki bara það, hún varð ástfangin líka og sagði í djúpri alvöru á veginum framan við húsið eftir að við höfðum staðið þar hljóð um stund -"hérna gæti ég hugsað mér að vera".
 
Svo vorum við bæði á Sólvöllum þangað til Valdís var kölluð til heimsálfunnar ósýnilegu. Eftir það datt mér aldrei annað í hug en að ljúka verkefninu. Ég að vísu sökkti dálítið vel upp í stóru ausunni hvað Sólvallaverkefninu áhrærði og það tók lengri tíma en til stóð. Eins gott að ég vissi það ekki í upphafi.
 
Það er mánudagur, síðasti dagurinn í maí og nú sit ég í íbúð Susanne í Katrineholm og skrifa þessar línur meðan hún er í vinnu. Þegar ég er hér í hóflegri fjarlægð frá verkefnunum mínum er sem hugurinn verði frjálsari á fluginu. Ég kom hingað síðla dags í gær og þegar ég ætlaði að fara af stað fann ég alls ekki bíllyklana mína heima. Ég var neyddur til að grípa til varalykilsins.
 
 
 
 
Eftir mikla leit að lyklunum kom ég út á veröndina með varalykilinn í vasanum og staldraði við og tók þessa mynd. Svo gekk ég að bílnum og bakkaði um nokkrar bíllengdir. Þar steig ég út til að athuga hvort aðallyklarnir hefðu nokkuð lent undir bílnum. En nei.
 
Ég leit upp, heim að húsinu, leit yfir hluta af verkefninu sem var í gangi núna og leit á trén sem ég hef flutt frá skóginum gegnum árin. Og frá öðrum skógum líka. Tré sem þrífast vel þar sem þau eru. Ég leit inn að skóginum, á trén sem sem eitt sinn voru í myrkviði en eru nú staðarprýði. Ég dáðist að laufhafinu sem virtist njóta sólarinnar í ríkum mæli og mér var hugsað til mikilvægis alls þessa fyrir heim sem reynir nú að spyrna við fæti gegn þróun sem virðist geta kallað hættu yfir mannkyn og líf á jörðinni. Þar er hvert frískt laufblað mikilvægt. Ég fann mig mitt í björgunarstarfinu þótt mitt framlag sé svo ógnarlega lítið.
 
Stór lóðin var óvenju vel hirt og það var afar notalegt fyrir mig að finna að allt þetta voru heimkynni mín. Það var ekki bara notalegt, það var hamingja. Standandi þar sem bíllinn hafði staðið einhverjum mínútum áður fann ég streyma um mig hvatningu til að ljúka verkefninu með glæsibrag. Heppinn ég var að hafa týnt bíllyklunum.
 
 
 
 
Svona lítur beyki út sem líður vel á sínum stað eftir hægláta rigningu.
 
Og að lokum þann 21. júní; Bíllyklana fann ég seinna í buxnavasa. Ég kannaðist ekki við að hafa verið í þeim buxum lengi en þeir voru þar samt. Það var eins og það hefði verið meining með því að ég stoppaði áður en ég ók úr hlaði til Katrineholm. Þar gaf ég mér tíma til að líta yfir blettinn minn hér á jörðinni og það sem þar flaug í gegnum huga minn er mér uppörvun ennþá í dag, þremur vikum seinna.

Lúmska Covid

Ég veit ekki nákvæmlega hvernær það byrjaði að vera alveg sjálfsagt að fara varlega vegna kóróna veikinnar, en ég geri ráð fyrir einhvern tíma í febrúar 2020. Einhvern tíma nálægt mánaðamótunum mars-apríl birtust æðstu menn heilsugæslu landsins á skjánum og alls ekki í fyrsta skipti. Þeir töluðu mjög alvarlega til þjóðarinnar um þá vá sem nú væri orðin rammasta alvara -Covid-19.
 
Það sem snerti mig í fyrsta lagi var að fólk yfir sjötugu átti hreinlega að "halda sig heima" og kannski síst af öllu að láta sjá sig í matvöruverslunum. Fólki var bent á að panta mat og sækja síðan eða láta koma með heim. Við Susanne pöntuðum þegar í stað en nú var svo mikil aðsókn í þetta að við þurftum að bíða í fjóra eða fimm daga.
 
Sannleikurinn var sá að það vantaði hreinlega í matinn hjá okkur og það bara urðum við að leysa. Ég sagði henni að að ég mundi fara eldsnemma morguninn eftir í kaupfélagið í Fjugesta og kaupa í matinn sem dygði þar til við mundum sækja pöntunina  og svo gerði ég.
 
Þegar ég kom í kaupfélagið var allt öðru vísi umhorfs þar en ég átti von á. Um verslunina rásuðu ungir menn, menn sem eiginlega litu ekki eins út eins og ungir menn byggðalagsins og virtust einna helst vera að kaupa eitthvað með morgunverðinum. Þeir komu beint á móti, rákust gjarnan í öxl mér og voru hreinlega óþægilegir. Ég flýtti mér að kaupa sem allra minnst, snaraðist út og hélt heim á leið með lélega samvisku.
 
 
 
Um þetta leyti blésu um koll tvö all stór grenitré í skóginum hjá mér. Það er óhirða að taka ekki höndum um tré þegar svona kemur fyrir. Ég fór með keðjusögina út í skóg og hreinsaði greinar af rtjánum og brytjaði þau niður í lengdir. Daginn eftir skyldi ég sækja þau.
 
Daginn eftir fór ég út í skóg með hjólbörurnar, fyllti þær vel og hélt heim á leið. Nokkru áður en ég kom til baka að viðargeymslunni var ég orðinn mjög móður og þegar ég kom á leiðarenda stóð ég bara á öndinni. Þetta var EKKI líkt mér, ég þekkti mig ekki. Mér varð hugsað að ég væri orðinn of gamall fyrir svona en var samt hissa á því hvað það hefði þá borið snöggt að. Ég velti einnig fyrir mér hjartaáfalli.
 
Ég yfirgaf hjólbörurnar, ég held án þess að tæma þær, gekk inn og sagði Susanne að ég ætlaði að leggja mig, ég væri orðinn of gamall fyrir svona átök. Ég gekk inn að rúminu og lagði mig, athugaði hvort ég hefði hita og hugsaði að ég hefði hvorki hósta eða höfuðverk og þetta þrennt var talið merki um Covid-19. Ég hafði ekkert þeirra.
 
Svo man ég ekkert meira þennan dag og næstu dagar á eftir eru fyrir mér eins og þeir hafi aldrei verið til. Eftir á að hyggja fannst mér sem það hefði verið fólk hér í heimsókn þegar ég kom inn og sagðist ætla að leggja mig en svo var ekki. Við Susanne munum alls ekki hvað okkur fór á milli um þetta og erum heldur ekki alveg viss hvort hún var heima en teljum þó að svo hafi verið, en engir gestir alla vega. Þessar vikurnar var hún að vinna í Kareineholm þar sem hún á íbúð en var heima alltaf öðru hvoru.
 
Að þetta væri kóróna fannst mér sem fráleitt þar til frá leið. Ég taldi mig bara hafa ofkeyrt mig. En grunsemdirnar læddust að mér smám saman og þegar ég hafði möguleika að taka próf síðastliðið haust lét ég athuga það. Konan sem tók prófið kallaði mig upp um tíu mínútum seinna og tilkynnti mér að ég væri með mótefni gegn kóróna en hefði einfaldlega haft heppnina mé mér. Mótefnið var farð að veikjast.
 
Ég hef kannski enga ástæðu til að segja frá þessu yfir höfuð en geri það samt. Eftir að ég fékk að vita um mótefnið fór ég nokkurn veginn jafn varlega og áður. Þetta virtist svo rosalega alvarlegt. Ég var mikið einn heima um þær mundir sem atvikið með hjólbörurnar átti sér stað og þar að auki leyndi því mjög vel að ekki væri allt í lagi, eða öllu heldur -vissi það ekki. Kórónan á sér margar lúmskar hliðar.
 
Viðurinn komst í hús að lokum og smiðurinn Anders sem svo oft hefur unnið hjá mér fékk þannan við til upphitunar heima hjá sér.
 
Ég ætla að láta bólusetja mig, tel að það sé betri kostur af tveimur þó að mér sé ekkert vel við það.

Hirðusemi

Þegar ég hef birt myndir frá Sólvöllum hef ég verið ögn óheiðarlegur. Ég hef yfir höfuð forðast að birta myndir af því sem er miður eða er merki um óhirðu. Stundum er erfitt að komast hjá því og athugul augu hafa túlega séð þetta af og til. Ég hef alltaf vitað af þessu og ég get ekki sagt að það hafi gert lífið léttara, eða með öðrum orðum; það minnkar lífsgæðin. Þannig fer óhiðran með manninn.
 
 
 
Þetta er eitt af þeim sjónarhornum sem voru mér ekki til fyrirmyndar og það var oft erfitt að taka myndir án þess að þetta sæist. Oft þegar ég gekk þarna hjá leit ég í aðra átt til að reyna að láta ósómann ekki trufla mig. Um tíma á síðasta ári hugsaði ég mér að fá verktaka til að framkvæma ákveðið verk, það er að segja að undirbúa og vinna við að leggja milli 400 og 500 gangstéttarhellur. Verktakinn hefði væntanlega komið með litla gröfu, traktor, vagn, þjöppu og sendiferðabíl eða lítinn vörubíl, ásamt örugglega einhverju fleiru. Að biðja aðra að setja sökkul undir hús sem þegar er byggt hefði ég aldrei fengið mig til að biðja nokkurn annann að gera.
 
 
 
Svo var það að einn nóvemberdag að ég gekk þarna hjá og ákvað að næsta verk sem ég ynni við hér á fasteigninni undir skógarjaðrinum yrði fyrst sökkullinn undir þessa litlu geymslu og síðan hellulögnin. Þetta bara birtist innra með mér á svo einfaldan og eðlilegan hátt, bara eins og það hefði alltaf staðið til. Fáeinum dögum síðar byrjaði ég og svo mundi ég helluleggja þar til vetur gengi í garð. Ég byrjaði með sökkulinn götumegin og árangurinn af svona verki er svo stórkostlegur að það drífur, alla vega mig, áfram til frekari dáða.
 
 
 
Það þarf jú ýmislegt að hugsa þegar svona er gert og ég fann vel að það sem finnst í mínu gamla höfði hafði mjög gott af því að ákveða þetta, þetta, það og hitt. Að leggja leiðara og rétta af, nota mikið hallamál, tommustokk, hjólbörur, réttskeið, skóflu, garðhrífu og ennþá meira réttskeið. Troða oft og mikið, svo mikið að það getur nálgast tíu þúsund skref yfir daginn og fleiri kílómetra göngu. Leggjast oft á hné og standa jafn oft upp. Það kom enginn með vélar og tól en flutningafyrirtæki í nágrenninu færði mér 16 tonn af vegamöl og þrjú tonn af sandi.
 
 
 
Svo þegar árangurinn fór að sýna sig urðu hellurnar bara léttari og léttari. Þetta var nefnilega gaman.
 
 
 
Ekki var framhliðin falleg, en bakhliðin. Ég þarf ekki fleiri orð um það því að myndin sýnir raunveruleikann eins og hann var. Svo var bra að byrja á að grafa burt mold og óþverra, koma með malarfyllingu og ganga frá sökkli. Troða mikið og leggjast á hné og smíða. Ég er smásmugulega vandvirkur og verkin mín fljúga ekki áfram.
 
 
 
Mold burt og koma með 25 hjólbörur af möl í staðinn. Það var aldeilis um dimmumótin kvöld eitt snemma í janúar sem þetta var tilbúið og ég vissi að um nóttina mundi frjósa. Og þannig fór það. Fyrsta verkið þegar klaki fer úr jörð verður að rétta nákvæmlega þetta svæði af með sandi og ljúka við að helluleggja við bakgaflinn á litlu geymslunni og síðan bætist við frekari hellulögn. Leirflekkirnir á veggjunum koma til vegna þess að það er auðveldara fyrir mig að standa upp með því að styðja mig við veggi þegar þeir eru nógu nærri. Með vorinu verður utanhússþvottur.
 
 
 
 
Eftir kvöldmat þetta kvöld í byrjun janúar fór ég út með nýja ennislampöann minn til að láta þá ánægju eftir mér að líta yfir verkið.
 
Ég er dálítið líkur hundunum að því leyti að ég hef þörf fyrir að hreyfa mig flesta daga vikunnar og aðhafast eitthvað sem getur kallast vinna. Annars verð ég stirður bæði líkamlega og inni í höfðinu og fer að þurfa lyf til að hafa það þokkalegt.
 
Það er komið kvöld þann 23 janúar og á morgun les ég þetta yfir og ákveð hvort ég birti það.
 
Og ég birti það. Eigið góðan sunnudag.

Dagur í sveitinni

Þegar ég vakanaði tíu mínútur yfir átta í morgun var mín fyrsta hugsun hvað ég hefði sofið notalega. Einu sinni var ég á ferðinni og þá helli rigndi. Og hvað hafði ég gert til að fá að njóta svefnsins? Ég vissi það svo sem ekki en í huganum sveif ég svolítið gegnum gærdaginn.
 
Ég hafði lokið ákveðnum frágangi sem ég hafði haft sem íhlaupaverk í alla vega tvær vikur og þegar ég horfði harla glaður yfir það var aðeins að byrja að bregða birtu. Ég ákvað að ganga einn hring í mínum litla skógi og stoppa hjá mörgum grænum vinum mínum þar og spyrja þá hvernig þeim liði. Birkitrén, en þó sérstaklega burknarnir, voru að komast í haustklæðin, en að öðru leyti er bara grænt og fínt. Svo fór ég annan hring og stoppaði hjá öðrum vinum í þeim hring.
 
Eftir það settist ég í góðan stól bakvið húsið móti skóginum og tók upp símann til að skoða spá morgundagsins. Síðan las ég fréttir hingað og þangað að úr heiminum. Ég las um beiðnir Þórólfs og Tegnell og framámanna hingað og þangað út í heimi um að fólk fari varlega. Ég las líka um óeirðir og háværar raddir um að fólki var meinað að gera bara eins og því sýndist. Sumir voru óánægðir yfir að geta ekki drukkið og leikið sér en aðrir voru óánægðir vegna þess að lífsviðurværi þeirra var settur stóllinn fyrir dyrnar. Þá síðarnefndu skildi ég betur.
 
Ég minntist eins dags þegar kórónafaraldurinn var að byrja hér í landi og ég var einn heima. Þann dag virtist ekkert annað komast að í útvarps- og sjónvarpsdagskrám en þessi voði sem virtist koma til með að leggja nútímasamfélög að velli. Ég var búinn að horfa lengi á þetta eftir að Susanne var farin í vinnu og ég fann að það gerði mér ekki gott, mér var farið að líða illa. Því fór ég út í skóg til að ganga endanlega frá nokkrum furum sem ég hafði sótt út undir háspennulínuna og gróðursett hjá mér.
 
Ég gerði það af mikilli alúð og fann mig styðja við lífið en ekki sjúkdóma og dauða. Eftir það hef ég ekki fundið fyrir ótta við kórónaveikina en ég hef talið mér skylt að fylgja ráðum þeirra sem gera sitt besta til að okkur meigi farnast vel. Ég hef líka séð það sem prófstein á það hver ég er og einnig prófstein á það hvort ég hafi til að bera þá ró og þann styrk að geta lifað góðu lífi við takmarkanir.
 
Þarna sat ég enn þegar það var orðið aldimmt og mér leið alveg ágætlega. Ég var einn heima, Susanne var í íbúð sinni í Katrineholm. Okkur finnst það góður siður að hafa það öðru hvoru þannig og stundum hefur það líka verið vegna þess að hún hefur verið að vinna þar. Það var mál að fara inn og finna til mat.
 
Þegar ég fór úr stígvélunum undir útiljósinu urðu sokkarnir eftir í stígvélunum og ég sá að ég var hressilega óhreinn milli tánna. Þá komst ég ekki hjá því að þrífa mig og síðan að borða einfalda máltíð.
 
Þegar ég hafði hraðspólað gegnum fréttirnar leitaði ég uppi sjónvarpsmessu frá nýlega liðinni helgi og byrjaði að horfa. Það voru örfáar manneskjur í kirkjunni og það var í fyrsta lagi fámennur kór sem hafði raðað sér upp með löngu millibili. Svo sungu þau fallega sálma og söngva og sungu fallega. Meira að segja einsöngurinn var fallegur og lesnir textar voru kunnuglegir og fallegir. Það er eins og á AA fundum þar sem sömu textar eru notaðir áratug eftir áratug en það er vegna þess að það virkar fyrir þá sem vilja taka við því.
 
Svo kom værð yfir mig og Óli lokbrá kom til mín og dró í og sleppti á víxl en mér fannst samt að ég væri með og heyrði. Heppinn var ég að bursta tennurnar áður en ég byrjaði að horfa á messuna.
 
Klukkan 23:48 með höfuðið á koddanum sendi ég góða nótt skilaboð til Susanne og hún svaraði um hæl. Hvílík heppni að snillingarnir voru búnir að finna upp messenger.
 
Eftir nokkuð hressilegar skúrir í nótt hefur veðrið verið svipað og í myndinni Hvítur, hvítur dagur. Sem sagt lágskýjað og þoka. Afrek dagsins eru smá en ég er alla vega búinn að kaupa 40 kóló af fuglamat.
 
What do you want to do ?
New mail
 
What do you want to do ?
New mail

Áin sem hvarf

Það var farið að líða á sumarið 2015 og við Susanne vorum á leið upp í Norrland, eitthvað sem mig hafði dreymt um flest árin mín í Svíjóð. Nú var það að verða að veruleika. Þetta var í fyrsta  skipti sem ég kom norður fyrir það sem heitir Orsa í Dölunum og nú vorum við að fara svo mikið lengra norður á bóginn. Ég hafði heyrt mikið um Norrland, lesið um það og skoðað ógrynni af myndum þaðan og nú var ég á leiðinni þangað, barnalega eftirvæntingarfullur.
 
Susanne sat undir stýri og við héldum áfram frá Noppikoski sem er mitt í 120 km breiðum skógunum milli Orsa í Dölunum og Sveg í Härjedalen þegar Susanne sagði; nei þarna er orkuver. Við ákváðum umsvifalaust að sjá þau mannvirki sem þar væri að finna og eftir fáeina kílómetra eftir mjóum og bugðóttum afleggjara vorum við komun á staðinn.
 
 
Þegar við gengum út á stífluna sem heldur uppi frekar litlu lóni varð mér litið niður eftir þurrum árfarvegi, nákvæmlega þeim sem sést á myndinni, og þá varð ég fyrir mjög merkilegri endurupplifun á nokkru sem skeði fyrir einum fimm áratugum síðan.
 
Í íslenskum fréttum var sagt frá baráttu fólks móti byggingum orkuvera í Svíþjóð. Fólkið hópaðist saman á byggingarsvæðunum og stóð almennt í vegi fyrir framkvæmdum. Á nóttunni keðjaði það sig fast við grjóthnullunga og við stórar vinnuvélar og tókst auðvitað að tefja fyrir, en orkuver voru byggð eigi að síður. Ég sem ungur maður skildi ekki almennilega um hvað þetta snerist og í minningunni finnst mér sem það kæmi ekki skírt fram en ég velti því mikið fyrir mér.
 
Þar sem við stóðum þarna á stíflunni og ég horfði niður eftir þurrum jarðveginum rann þetta allt upp fyrir mér. Mér fannst sem það hefði verið einmitt hér sem baráttan fór fram og ég skildi á einu augnabliki fyrir hverju fílkið hafði barist. En samt sem áður var gamla laxveiðiáin með tilheyrandi fjölbreyttu lífríki horfin.
 
Hún var bara hreinlega með öllu horfin og eftir stóð þurr og rauðbrúnn, grýttur farvegur annars vegar þar sem yfirfallsvatn virtist renna þegar svo bar undir, og svo farvegur þar sem skógargróður hafði haslað sér völl. Við höfum komið tvisvar sinnum þarna með fárra ára millibili og í bæði skiptin leit það út eins og myndin sýnir.
 
Þetta var framkvæmt fyrir rúmlega 50 árum og ég verð að segja að ég skil báða aðilana, þá sem börðust fyrir uppbyggingu raforkuvera og þá sem börðust fyrir tilvist laxveiðiárinnar með tilheyrandi lífríki.
 
 
 
 
Uppistöðulónið fyrir Noppikoski orkuverið. Stórt eða ekki stórt, ég get ekki borið sagt um það.
 
 
Það má greina að þessi mannvirki eru ekki alveg ný af nálinni.
 
 
Noppikoski er kapituli út af fyrir sig. Í 120 km breiðu skógunum milli Orsa og Sveg er afar lítil sjáanleg byggð í nánd við veginn. En fast við veginn er þó þetta litla veitingahús ásamt bensínstöð og til og með hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla. Þar höfum við Susanne líka fengið góðan mat.
 
What do you want to do ?
New mail
 
What do you want to do ?
New mail

Meira, mikið meira

 
 
Aðeins norðan við vestur í rúmlega 100 metra fjrlægð frá Sólvöllum er op á milli tveggja skógarfláka og gegnum þetta op sést til þess sem heitir Kilsbergen.
 
 
 
Myndirnar eru báðar teknar frá glugganum yfir matarborðinu heima. Önnur myndin er dregin mikið að.
 
Þar voru reistar 16 vindmyllur í fyrra, 185 metra háar upp á spaðann lengst uppi og einmitt þannig að þær sjást allar frá matarborðinu okkar. Ég giska á að fjarlægðin héðan að heiman sé fimmtán kílómetrar. Þegar ég heyrði og las um það að rafmagnsframleiðslan nægði fyrir 40 000 heimili fannst mér í lagi að þær væru staðsettar einmitt þar sem án vafa væri fallegasti útsýnispunkturinn frá matarborðinu. Í lok april fórum við Susanne til Kilsbergen til að virða fyrir okkur dýrðina.
 
Þó að Kilsbergen séu ekki há, 200 til 220 metrar yfir haf þar sem vindmyllurnar eru, þá alla vega auka þau á fjölbreytnina í umhverfinu séð héðan frá Sólvöllum. Hér heiman að virðist þetta vera mjúklega bungótt svæði og að vindmyllurnar séu byggðar þar sem hæsta svæðið byrjar að halla móti vestri.
 
Þegar þangað upp er komið er veruleikinn allt annar. Þar eru all skarpar hæðir sem stinga upp kollinum og á þessa kolla eru vindmyllurnar byggðar. Kollar sem væntanlega hafa verið mýkri hluti af landslaginu áður og skógi vaxnir einnig.
 
Þegar upp er komið frá mjóum sveitavegum byggðarlagsins í kring, er allt í einu komið á breiða, sterklega, slétta og vel byggða vegi sem tengja svæðið innbyrðis. Þegar að vindmyllunum er komið eru ótrúlega stór plön við hverja og eina af þeim, mjög slétt og klædd vegamöl eins og vegirnir. Það verður að segjast að þarna uppi er allt mjög vandað í frágangi. Ekkert var hálf gert og nánast hvergi var að sjá neitt drasl sem hafði verið skilið eftir, engir afgerandi grjóthaugar eða moldarhlöss.
 
Ég gekk upp á sökkulinn sem gengur út frá sjálfri turnspíru einnar vindmyllurnar og ætlaði að líta upp að toppnum, en heyrðu! það var útilokað. Allt í einu voru 185 metrar orðnir gríðarlega háir. Ég gekk eina 20 eða 30 metra út frá turninum en það var eiginlega sama þar, ég sá ekki toppinn, fékk bara hálsríg. Til að sjá toppinn varð ég að horfa á hinnar vindmyllurnar sem voru í hundraða metra fjarlægð.
 
Ég, mðurinn sem hefur talað fyrir vistvænu rafmagni og vistvænum lífsháttum almennt, var nú orðinn gersamlega orðlaus. Ég var nánast reiður á tímabili. Allt var þetta svo vel unnið, fágað og fínt, hvort heldur var byggingarnar sjálfar, vegirnir og sjálft umhverfið. Og þó, það leyndi sér ekki að hér hafði verið ráðist inn í náttúru sem hafði verið að skapast frá síðustu ísöld, í tíu þúsund ár. Þar hafði viðkvæmt lífríkið af mikilli hógværð og í samvinnu við sól, vatn og vinda gert sér bústað, bústað þar sem við mannfólkið getum fengið að vera með svo lengi sem við förum fram af sömu hógværð og öflin sem hæglátlega hafa skapað hann.
 
Menn höfðu flutt þangað 8000 tonn af stáli og tilheyrandi vélbúnaði frá ólíkum heimshlutum. Menn höfðu fellt gamlan skóg, sprengt og rutt og stórvirkar vélar höfðu mulið klappir niður í vegaefni. Þungir steypubílar rúlluðu fram og allt í einu höfðu gríðarstór byggingatæki ruðst inn á svæðið, svo stór tæki að þau gátu lyft þúsundum tonna upp í alla þessa hæð. Hver þessara vindmylla vegur nefnilega um það bil 500 tonn. Þar af vegur sjálft vélahúsið uppi á toppnum 130 tonn og hæðin upp í nafið á því er 117 metrar.
 
Fléttur og skófir og örverur sem við sjáum ekki lúta í lægra haldi og sýnilega lífið einnig. Það líf sem vill búa þar framvegis verður að byrja upp á nýtt, nánast eins og við mannfólkið ætluðum að setjast að á annarri plánetu.
 
Þrátt fyrir á margan hátt mikla aðdáun af minni hálfu varð mér hugsað til þess hvað mannkynið eiginlega sýslar með á þessum tímum þar sem ofnotkun er stunduð á móður jörð, aðsetri framtíðarinnar. Að þessar vindmyllur gætu framleitt rafmagn fyrir 40000 heimili verkaði svo stórkostlegt. En hvað í sannleika sagt snýst það um og hvers vegna erum við statt og stöðugt í svo hratt vaxandi þörf fyrir meira rafmagn? Og rafmagnið er bara einn þátturinn í óseðjandi neysluþörf.
RSS 2.0