Broddabústaður og fleira bauk í sveitinni
Á fimmtudaginn var fékk ég einn vörubílsfarm af mjög góðri gróðrarmold sem ég meðal annars ætla að nota í lítinn kartöflugarð. Sama dag, á fimmtudagskvöldið, sáum við Brodda í fyrsta skipti á sumartímabilinu. Eftir allt mögulegt smávegis á föstudagsmorguninn fór ég út í vinnufötunum sem ég nota í verstu verkefnin hér heima, stígvél einnig, og byrjaði að plokka grjót úr verðandi kartöflugarði, nokkuð sem virtist í ómældu magni af ýmsum stærðum. Eftir að hafa raðað snyrtilega nokkrum hjólbörum af þessum steinum við hliðina á garðinum, jafnað þennan litla garð og gert hann tilbúinn fyrir gróðrarmoldina, fannst mér sem ég hafði unnið nóg af líkamlegu striti þann daginn. Ég breytti til.
Susanne var inni og skipulagði verðandi Norðulandsferð okkar sem við ætlum að fara á fyrri hluta síðsumarsins, meðal annars með því sem kallað er Innlands lestin. Hún vissi að ég hafði ætlað að vinna í kartöflugarðinum. Allt í einu heyrði hún ákveðin hamarshögg dynja úti. Jahá, hefur hann nú byrjað að smíða kartöflugarð líka.

Broddahús, af hverju það? Broddgeltir standa höllum fæti. Þeir eru óbreytt dýr síðan ótrúlega margar miljónir ára aftur í tímann. Í áratugi á síðustu öld dóu þeir af eiturefnum sem voru notuð í landbúnaði og umferðin drepur marga. Þeir eru ekki sterkir til dæmis gagnvart þurrkum og þeir eru næmir fyrir sjúkdómum. Jafnvel þó að við trúum að þeir séu vel varðir með broddunum sínum eiga þeir marga óvini í náttúrunni. En flest fólk, trúi ég alla vega, ber virðingu fyrir þessum vinalegu dýrum og þykir skemmtilegt að hafa þau í nábýli við sig. Þess vegna byggja menn hús til að vernda þessa þægilegu dýrategund. Svo einfalt er það.


Það tók nokkra klukkutíma að smíða þetta og undir það setti ég rúmar hjólbörur af möl. Ég meira að segja notaði hallamál við að slétta mölina. Það var kannski ekki nauðsynlegt en ég geri gjarnan það sem mér finnst skemmtilegt í lífinu.

Ég skrifaði þetta á sænsku í morgun og hvatti þá sem lesa að hlú að broddgöltunum sínum. Það eru alls ekki svo margir sem vita að það er hægt að búa þeim hús að eiga heima í.
