Öðruvísi dagur

Kristinn dóttursonur Jónatansson hringdi í gærkvöldi og var svolítið að reyna að skipuleggja ferðalag frá Kaupmannahöfn til Sólalla í Krekklingesókn. Þetta gekk ekki alveg snurðulaust en að lokum hringdi hann og sagðist vera kominn um borð í lest sem færi til Ósló, en hann ætlaði að hoppa af í Hallsberg sem er eina 25 km suðaustan við Sólvelli. Þar yrði hann milli klukkan fjögur og fimm að morgni og ungur maður í Örebro, einn af vinunum frá Svíþjóðarári Kristins, mundi sækja hann til Hallsberg og taka hann með til Örebro. Síðan ætluðum við að hafa samband þegar við Valdís værum klædd og komin á ról. Svo var ekkert meira með það og við Valdís hurfum inn í draumalandið með Óla Lokbrá.

Friðsamur svefninn var allt í einu rofinn með einhverjum óhljóðum sem ruglaði mig algerlega í ríminu. Fyrst athugaði ég klukkuna, síðan tölvuna, horfði á útvarpið, en fékk enga skýringu á þessu skrítna hljóði sem hafði rofið kyrrlátan síðnætursvefninn. Allt í einu þaut þessi undarlegi hljóðgjafi þversum yfir herbergið og ekki bætti það úr skák. En þá sagði Valdís að síminn minn væri að hringja og að hann væri þarna í buxunum mínum. Þá byrjaði að rofa til fyrir mér og ég skildi að Valdís hafði hent buxunum inn á rímið mitt og þess vegna hafði hljóðið færst. Ég hef sjaldan vaknað jafn ringlaður og þarna í morgun.


Þegar ég loks hafði opnað símann hafði hann hætt að hringja en ég hringdi til baka. Sá sem var í símanum var Kristinn dóttursonur og hann gekk beint að efninu og spurði hvort við mundum hleypa honum inn, hann stæði við utidyrnar. Þá var klukkan um hálf sex. Jahá, og svo opnuðum við fyrir honum. Vininum í Örebro fannst einfaldast að skila honum bara beint hingað og það var ekkrt að því. Svo sváfum við öll áfram um stund. Upp úr klukkan átta fór ég út að undirbúa smíðar dagsins. Þegar við svo borðuðum morgunverð nokkru síðar spurði Kristinn hvort hann mætti smíða með mér og hvað segir maður þá. Jú, að loknum morgunverði fórum við báðir út að smíða. Hér sjáum við hann skrúfa lista á vegg til að gera hann þykkri, sterkari og til að geta aukið einangrunina.


Hér erum við Skalli og Gráni að skipuleggja verkið og Valdís kom út og bað okkur að brosa fyrir myndavélina. Núna er Kristinn inn í Örebro þar sem vinir hans þar vildu hitta hann sameiginlega eina kvöldstund. Auðvitað fannst honum það afar skemmtilegt að þessir vinir frá því fyrir fimm árum skyldu hafa svo sterkar taugar til hans ennþá að þeir vildu hitta hann strax fyrsta kvöldið hans hér.




Stuttu áður en Kristinn hélt inn til Örebro óku þrír fólksbílar í hlað á Sólvöllum. Þar voru á ferðinni níu manns sem við áttum líka von á, flestir Íslendingar. Þarna á myndinni sjáum við frá vinstri Þóri, Auði og Evu. Tvenn hjón sem eru svo til vinstri á myndinni eru í heimsókn hjá Auði og Þóri. Eins og ég hef sagt svo oft áður eru Auður og Þórir árlegir gestir í Örebro og fá svo gjarnan íslenska gesti sem spila með þeim golf. Við heyrðum sagt hér á Sólvöllum í dag að Þórir þekkti hvern krók og kima á völlunum í og kringum Örebro væri ratvís með afbrigðum.


Auður og Eva brugðu þarna á leik og Valdís var snögg og tók mynd. Það er erfitt að komast undan þessum myndavélum sem virðast leynast alls staðar nú til dags. Meira að segja á Sólvöllum.


Hér er hún Elín með mömmu sinni Evu og pabba sínum Sven. Sven gætir þarna Þóris, þess sem er ratvís í Örebro og héruðunum þar í kring. Eva, Sven og Elín búa í Svíþjóð. Eva sem er hjúkrunafræðingur flutti til Svíþjóðar fyrir fjöldamörgum árum. Elín talar ógjarnan íslensku en skilur hana vel. Sven skilur það mikið í íslensku að það má ekki segja hvað sem er á íslensku í návist hans. Þess er heldur engin þörf. Hann er fínn strákur hann Sven.


Svo stilltum við Valdís okkur upp og brostum. Ég sé þarna að fótleggir mínir eru hvítir mjög. Það mætti kalla mig manninn á hvítu fótunum. Svo fóru allir gestir og rólegheitin hafa tekið völdin á Sólvöllum. Klukkan er níu að kvöldi. Þvotturinn á snúrunni bifast ekki og trjákrónurnar alls ekki heldur. Hitinn er fimmtán stig og sólin er sest bakvið Kilsbergen. Norska spáin spáir 18 stiga hita og örlítilli rigningu á morgun en 20 stiga hita og þurru á mánudag. Það verður nú hægt að smíða á morgun líka og hver veit nema það verði einhver athafnasemi á mánudag líka. En alla vega; dagurinní dag hefur verið öðru vísi dagur á Sólvöllum. Það eru öðru vísi daga hér alltaf öðru hvoru. Að lokum; Valdís bakaði tvær uppskriftir af pönnukökum og hún lumaði á rjómaslettu í ísskápnum. Þeytaranum var því beitt líka.

Sáðmaður gekk út að sá

Ég er búinn að vera með hálfunnið blogg síðan 24. júní og nú var um það að velja að henda því eða taka það aftur í vinnslu. Ég valdi að taka það aftur í vinnslu.

Það var nefnilega þannig að skógarjaðarinn var eiginlega alveg inn að húsgafli bakvið húsið og það er ekki svo sniðugt. Það til dæmis veldur raka og gróðri á húsum. Í vor tókum við okkur til í tilefni nýbyggingar og felldum fjórar bjarkir sem næst stóðu húsinu og klipptum burt nokkur smátré. Þar með var kominn möguleiki fyrir grasflöt bakvið húsið. Svoleiðis er alveg nauðsynlegt því að órækt og illtgresi nærri húsum býður upp á slöngur og mýs og meiri ágang af flugum svo eitthvað sé nefnt. Svo þegar hann Peter gróf fyrir viðbyggingunni gerði hann þessa fínu flöt bakvið húsið og ég hef sagt að hann gerði á 48 mínútum nokkuð sem ég hefði gert á 48 dögum með skóflu og hjólbörum. Þvílík ánægja að horfa á hann breyta þessum karga í slétta hallandi flöt og ekki minni ánægja að ráðast svo á flötina með garðhrífu og valtara. Svo þurfti ég auðvitað að fara út fyrir flötina, leggjast á hné, kíkja eftir flötinni, sækja mold í hjólbörur, bæta í lautir og valta svo enn einu sinni yfir.

Sáðmaður gekk út að sá og sáði ennþá meiru
Svo er það alskemmtilegasta að taka taka gulu, gömlu fótaþvottaskálina, hálffylla hana af grasfræi og byrja svo að sá. Ingemar garðyrkjumanni til mikillar ánægju nota ég alltaf helmingi meira fræ en upp er gefið og þá fær hann að selja mér helmingi meira fræ. Jöfn, hæg, stutt skref og dreifa jafnt og fara svo aðra umferð og jöfn stutt skref aftur og svo einu sinni enn. Þá er tilbúin jöfn og góð sáning og hægt að horfa yfir og hugsa; þetta er nú í góðu lagi. Svo er næsta skref.

Sáðmaður gekk út að sá
Áburður, vetlingur á áburðarhendina, jöfn stutt skref en heldur hraðari og svo þversum líka.

Guðjón dundar við að gera of vel frekar en hitt
Svo er ég svo sérvitur að ég tek mold í hjólbörurnar og strái dálitlu lagi af mold yfir áburð og fræ. Það mætti kannski halda að það taki eilífðar tíma en svo er ekki. Alla vega ekki þegar ég er búinn að fá mér einn kaffibolla og setja svo ótrauður í gang. Þá tekur það enda fyrr en varir. Svo er bara að valta og njóta þess hversu fínt svæðið verður. Peter kemur einu sinni enn um miðjan mánuð og þá fæ ég um 300 ferm að taka höndum um. Þá ætla ég að vera búinn að finna eitthvað apparat sem ég get notað til að koma fræinu á kaf því að ætla að kasta mold úr hjólbörum yfir 300 fermetra er kannski að taka vel upp í sig.

Það verður að annast alla þætti málsins. Það þarf að vatna vel í hitanum
Nú var Valdísar tími kominn að láta í té lífgjöfina eftir sáningu og frágang. Hún gekk út á flötina með garðslönguna og kom spíruninni í gang með móðurlegri vökvun. Ég ætlaði þá að fara að gera annað en það var bara svo gaman að horfa á þetta allt saman og njóta þess að ég veit ekki bara hvað. Það er mjög gott að vera svo barnalegur að geta haft gaman af svo einföldum hlutum. Það er tiltölulega ódýr ánægja, gerir engum illt og er auðvitað bráðhollt fyrir bæði sál og líkama.


Bráðholt fyrir bæði sál og líkama sagði ég. Svo fylgir þetta okkur dag eftir dag alla þá daga sem við erum heima. Fyrst kemur upp smá hýjungur og svo verður það heldur meira. Ef ég vann nótt í Vornesi þá sá ég mun þegar ég kom heim daginn eftir. Þessi mynd er ekki ný og í dag lítur þetta ennþá betur út. Meðan á heimsókn tveggja kvenna stóð um mitt sumarið var vel hýtt og þær systur Valdís og Árný voru iðnar með slönguna. Það bætti að sjálfsögðu árangurinn.

Ég sá mun ef ég vann nótt í Vornesi sagði ég. Fyrir átta dögum sáði ég í annan blett. Í gær rigndi 56 mm og hiti þessa dagana er ein 15 til 17 stig. Í morgun var farið að koma upp ef vel var að gáð og núna undir kvöldið er komin græn slikja á þá sáningu. Mannvirkjagerð (stórt orð yfir viðbygginguna á Sólvöllum) hefur umrót í för með sér. Mér finnst óþarfi að láta líta illa út og því er ég fljótur að ganga frá hverjum bletti fyrir sig þegar það verður mögulegt.

Meira um gróður og nú fjallar það um lúpínu. Það var hellingur af lúpínu við og í skógarjaðrinum. Nú held ég örugglega að hún sé endanlega uppgefin á mér og sé horfin með öllu. Í vor var kynnt athugun á dauða vissra blómategunda sem hafa vaxið í þessu landi frá örófi alda ef svo má segja en fóru svo að drepast og hverfa á vissum svæðum. Ástæðan er að lúpínan framleiðir bakteríu sem síðan drepur þessi blóm þegar magnið er orðið nógu mikið. Það er því lúpínuherferð í gangi í Svíþjóð núna. Ég er enginn vísindamaður en ég held að ég segi nógu rétt frá þessu. Aðgát skal höfð í nærveru náttúru og fara ekki offari við að breyta henni.

Sitt af hverju

Klukkan sjö í morgun renndi ég fótunum yfir rúmstokkinn og sagði -jæja! Er eitthvað að, spurði Valdís, en ég bara svaraði því til að smiðurinn kæmi líklega fljótlegta. Ég hringdi í hann í gær og sagði að það væri ekki vitlaust af okkur að hittast og tala um hvenær verkið gæti hafist fyrir alvöru að nýju. Ég hafði ákveðna hugmynd að leggja fram en gat þess ekki í símtalinu.

Tuttugu mínútur yfir sjö ók Anders smiður inn á lóðina og ég sem ekki var búinn að gera klárann morgunverðinn handa okkur. Við byrjuðum að ganga um hér úti og spá í og spjalla. Það var komimn drjúg rigning þegar við gengum inn og fór vaxandi. Svo tíndi ég morgunverð á borðið og við töluðum um mat, hvað væri hollt og hvað ekki. Ég sagði honum að ég notaði mikið ávexti um þessar mundir fyrir álegg, til dæmis epli og nektarínur. Við hjónin værum í heilsuátaki. Hann sagði það vera ókost við ávexti hversu mikil eiturefni væru notuð á þá við ræktun. Bananar eru þó allra mest eitraðir, sagði hann. Það var nákvæmlega eins og hún Lena í eldhúsinu í Vornesi hefur oft sagt. Lena er fyrrverandi bóndi og bóndakona og er manneskja sem erfitt er að trúa að fari með fleipur. Hún bara er þannig.

En aftur að matborðinu hér heima. Anders talaði um að það væri mikilvægt að borða sem fjölbreyttasta fæðu og hreyfa sig, að þá vegnaði manni vel. Sem allra fjölbreyttasta fæðu lagði hann áherslu á. Ég horfði á hann og hugsaði sem svo, að svo fílhraustur og hressilegur maður sem þessi fimmtíu og fjögurra ára gamli maður væri, þá hlyti bara að liggja nokkuð í því sem hann segði.

Við ræddum talsvert um þetta en svo dró ég fram dagbókina og opnaði hana á síðunni þar sem Anders ætlar að fara í sumarfrí. Hann ætlar að fara í sumarfrí í tveimur áföngum með nokkurra daga millibili. Þú ferð í sumarfrí 2. ágúst, sagði ég, og eftir þá viku vinnur þú í nokkra daga. Síðan er það sumarfrí aftur í rúma viku. Svo spurði ég hann hvort það væri ekki lang best að hann ynni að því sem hann væri þegar að vinna við og kæmi svo hingað ekki fyrr en eftir öll sumarfrí, eða skömmu fyrir ágústlok, og yrði þá hér.

Ég horfði ekki á hann þegar ég sagði þetta enda þurfti ég þess ekki. Ég bara fann hvernig léttirinn fyllti borðkrókinn. Ég vil að þessi maður njóti sannmælis því að ég hef ekki reynt hann að neinu slæmu. Við erum oft spurð hvort þessi smiður sé ekki að koma og við höfum sjálf stundum verið viss um að hann kæmi einhvern ákveðinn dag. En sannleikurinn er bara sá að það liggja ástæður að baki.

Ég lagði inn umsókn um byggingarleyfi í vor og átti að fá svar eftir viku. Ég hitti byggingarfulltrúann þegar ég lagði inn umsóknina og hann var svo fámáll að ég ákvað hreinlega að fara þaðan áður en ég var tilbúinn og var þá verulega hissa. Hann fann það því að hann sagði þegar ég fór að hann væri svo skrýtinn í hálsinum að hann gæti nánast ekki talað. Eftir að ég yfirgaf skrifstofu hans fór hann heim og var veikur. Ég fékk upplýsingar um það síðar frá konunni í upplýsingum. Svarið kom eftir fjórar vikur. Á þeim tíma hafði Anders hringt í mig og spurt hvort ég væri ekki búinn að fá svar og aftur hvort ég væri ekki búinn að fá svar. Síðan byrjaði hann á öðru verkefni og ég skil hann svo vel. Samt er hann að reyna að ná endunum saman eins og fyrsta áætlun gerði ráð fyrir. Þó að þetta hafi farið svona hjá byggingarfulltrúanum hefur hann samt sem áður verið mér mjög hjálplegur. Það finnst hellingur af góðu fólki og ég reyni að meta það þó að mér verði stundum fótaskortur sjálfum. Það voru fleiri atriði sem ollu því að ekki var hægt að byrja ákveðinn dag og voru okkur að kenna.

En nú stóð Anders upp, þakkaði fyrir morgunverðinn, og við gengum einu sinni enn léttum sporum kringum húsið og ég spurði hann ráða. Svo ók hann úr hlaði. Nú var komið að því að ég fengi mér kaffibolla með Valdísi og við ræddum þessa niðurstöðu. Regnið hafði allan tímann farið hægt vaxandi og nú var komin mikil úrkoma. Regnið féll niður á svo þægilegan hátt, það bara rann þráðbeint og þægilega. Eftir þriggja tíma rigningu voru komnir 22 mm í mælinn.

Ég hef nóg að gera í marga daga við að vinna að breytingum sem þarf að gera á gamla húsinu varðandi viðbygginguna og ég byrjaði þegar í dag og notaði þær stundir sem minnst rigndi. Klukkan er átta að kvöldi og það rignir enn. Í mælinum eru tæplega 50 millimetrar. Þetta hefur verið góður dagur.

Ég var búinn að lofa sjálfum mér

Ég er löngu búinn að lofa sjálfum mér, sverja og sárt við leggja, að nefna orðið Icesave aldrei framar í bloggum mínum. Ég er heldur ekki talsmaður blótsyrða nema þá að áherslan sé í algjöru hámarki. En nú, tvo daga í röð, er ég búinn að sjá orðið Icesave í fyrirsögnum íslenskra blaða og snillingarnir æða hamförum fram á sjónarsviðið til að slá um sig af speki sinni og soga að sér eftirtekt landsmanna, bjarga engu og rugla fólk hræðilega í ríminu. Þegar ég rakst á fyrirsögn um Icesave í morgun eftir að hafa líka gert það í gær hugsaði ég einfaldlega þetta:

Aumingja Íslendingar að losa sig ekki við þetta helvítis mál þegar í fyrrahaust.

Skuldin var og er þegar fyrir hendi og þó að málið liggi í þögn um tíma er engin hætta á að það hverfi 0 aftan af upphæðinni. Það eru hins vegar mikið meiri líkur á að það bætist 0 við. Ekki hækkar við það ellilífeyririnn minn frá Íslandi, ellilífeyrir sem í dag er kr. 0. Ef ég hreyfi hendi hér úti til að afla mér tekna er núllið niðurstaðan þannig að Icesave kemur líka við peningaveskið okkar sem og annarra Íslendinga.

Í morgun var ég ákveðinn í því að blogga í kvöld en ég sá að mér yrði það ekki fært með góðum árangri nema leysa fyrst vind vegna þessa skítamáls.

Að hlakka til morgunverðarins á morgun

Ég get ekki betur skynjað en það hafi vorað öðru sinn á þessu ári. Eftir marga og ríkulega heita daga kom regn og gulu, sólþornuðu birkilaufin féllu til jarðar og ný virðast hafa komið í staðinn. Í tveimur áföngum hefur rignt um 75 mm. Skógarsóleyjar og sifjarlyklar hafa að vísu ekki sprungið út aftur en skógarnir eru safaríkir að sjá og þakklátir hreinlega virðast þeir vera. Á leiðinni heim úr vinnu í gær sá ég mjög vel hvernig skógarjaðrar í fjarlægð höfðu fengið græna litinn endurnýjaðan. Í dag fórum við Valdís til Örebro og á leiðinni til baka gátum við ekki orða bundist yfir hinum veltigrænu, lifandi skógarumgjörðum sem umluktu akra og engi. Akrarnir höfðu líka fengið lífgjöf sem gáfu þeim ferskan blæ og sólgulnuð, troðin Sólvallalóðin er orðin græn aftur. Sólin skín næstum lárétt inn í skóginn utan við gluggann minn á þessu augnabliki og kvöldkyrrðin er að ganga í garð.

Í gærmorgun kom ég heim úr vinnu um hálf ellefu leytið. Ég var þreyttur eftir óvenju erilsama helgi. Mjög erilsama helgi skal ég viðurkenna. Ég var þó ákveðinn í að snúa mér að byggingarvinnu við heimkomuna sem ég og gerði. Svo fórum við Valdís til Örebro og tókum meðal annars síðasta dótið sem við áttum þar í geymslu hjá  gamla húsfélaginu okkar, hentum sumu og drösluðum öðru með okkur til Sólvalla. Það var skömmu áður en við héldum heim frá Örebro aftur sem mér fannst sem ég hefði bómull innan í höfðinu en ekki þennan mikilvæga heila sem ég hef svo lengi haft not af. Ég þurfti með köflum að halda aftur af mér til að fara hreinlega ekki í fýlu og ég vissi að orsökin væri þreyta.

Þegar heim var komið frá Örebro hélt ég byggingarvinnunni áfram þar til Valdís bauð upp á ilmandi kjötsúpu af hæsta gæðaflokki. Eftir það gengum við að sjónvarpinu og horfðum á Fjöldasöngur Gautaborg. Að horfa á get ég sagt þegar Óli vinur minn Lokbrá sleppti mér lausum til að sjá og heyra bestu lögin í þættinum. Svo sagði Valdís allt í einu; hann Lars er að koma. Við þau orð uppgötvaði ég að ég hafði verið kominn langt inn í draumalandið en ég stóð upp og fór út á móti Lars. Við vorum smá stund á rölti hér út í skóginn, kringum húsgrunninn og svo spörkuðum við svolítið í verðandi gólfbita sem eru snyrtilega frágengnir undir tjaldi á lóðinni. Meðan við vorum þarna úti hugsaði ég með mér að það væri undarlegt að ég virtist bara vera úthvíldur eftir svefninn yfir sjónvarpinu og bómullin í höfðinu var þar ekki lengur.

Það var ekki fyrr en í morgun þegar ég vaknaði eftir svefn í átta og hálfan klukkutíma sem ég áttaði mig á því að ég hafði bara verið hálf ringlaður þegar ég var úti að spjalla við Lars. Ég fór fram úr rúminu og fann að nú var ég kominn í form, svo gott form að áður en ég fékk mér morgunverð tók ég með mestu ánægju alla reikninga, dró þá upp úr umslögunum og raðaði þeim upp til greiðslu síðar í dag. Svo kom Valdís í gang líka og við borðuðum morgunverð og allt var svo gott. Ég var úthvíldur. Þegar ég var á öðrum kaffibollanum eftir morgunverðinn skeði það. Ég fann fyrir vorinu í öllum mér og allt um kring og mér þótti óvenju vænt um Valdísi. Það var þá sem mér datt þetta í hug að við værum að upplifa vor öðru sinni á þessu ári.

Reikningarnir eru greiddir, kvöldhúmið er að leggja sig yfir sveitina og Valdís horfir á íþróttafréttir í sjónvarpi. Eikur og bjarkir fyrir utan gluggann eru svo hreyfingarlausar að það er hreint alveg ótrúlegt. Það fara sögur af því að tré drekki mikið vatn. Ég las mig til um það fyrir stuttu og komst að því að stórt tré getur drukkið 200 til 400 lítra á sólríkum degi. Tré sem stendur á víðavangi með mikla laufkrónu drekkur meira en tré sem hefur takmarkaða krónu inn í skógi.

Og reikningarnir eru greiddir. Reikningar fyrir byggingarefni og vinnu voru lægri en ég hélt og auðvitað er ég glaður yfir því. Eftir að ég æfði mig í því að þykja gaman að borga reikninga fóru svona skrýtnir hlutir að ske. Það fór að verða afgangur og mér fór að líða betur. Þessi æfing var full alvara sem skilaði frábærum árangri. Óli verður nú vinur minn í nótt og ég er farinn að hlakka til morgunverðarins.

Laugardagskvöld

Ég var á leiðinni heim úr vinnunni um tvö leytið í dag og hugsaði sem svo að það væri lán að það ætlaði að koma fólk í heimsókn seinni partinn. Þessi sólarhringur minn í Vornesi hafði verið alveg ótrúlega annasamur og ég vissi af gamalli reynslu að ég mundi verða þreyttur og syfjaður ef ég færi á annað borð að hvíla mig og jafnvel að sofna í stólnum eftir að ég kæmi heim. Ég vissi að gestirnir sem við áttum von á mundu rífa mig upp frá allri hægindastólaleti. Svo þegar heim var komið og ég nálgaðist útidyrnar fann ég ilminn streyma á móti mér. Pönnukökur! Ilmur af pönnukökum er indæll og bragðið eftir því. Ég var ekki fyrr kominn inn en ég fékk mér smá mjólkursopa í glas og svo pönnuköku með. Mjólk og pönnukökur! Það eru ár og dagar síðan ég hef dottið þannig í það. Og hvenær má taka forskot á sæluna ef ekki eftir erfiðan sólarhring í Vornesi. Að vísu eru pönnukökur á bannlista hjá okkur um þessar mundir en hvenær má gera undantekningu ef ekki þegar góða gesti ber að garði. Svo bar Kiddý að garði, þessi gamla glaðværa skólasystir sem segir sjálf í dag að hún hafi verið óttalegt trippi í gagnfræðaskólanum að Skógum fyrir meira en fimmtíu árum.


Þarna var Kiddý komin og við búin að fá okkur af pönnukökunum hennar Valdísar. Þar með var annar í pönnukökum hjá mér. Það mætti ætla að þeim hafi verið stillt svona upp fyrir þessa myndatöku, en sannleikurinn er sá að ég beið þolinmóður þangað til rétta augnablikið var frammi. Auðvitað kostaði það líka að ég tók fleiri myndir til að ná þeirri sem ég vildi ná.


Svo komu Auður og Þórir. Þar með var það þriðji í pönnukökum hjá mér. Mér tókst ekki vel til með þessa mynd en hún verður þó að nægja. Ég hef sjálfsagt sagt það oft áður að Þórir var heimilislæknirinn okkar á tímabili þegar við áttum heima í Hrísey. Síðan fundum við hann og Auði á jólaballi í Örebro og þá var hann starfandi læknir hér. Svo eins og oftast þegar Íslendingar hittast, þá átti Kiddý sameignlega kunningja með Auði og Þóri. Auður og Þórir koma á hverju sumri til Örebro eftir að þau fluttu aftur til Íslands fyrir fimm árum. Eitthvað hlýtur það að segja um tilfinningu þeirra fyrir þessu landi.

Hún segist hafa verið óttalegt trippi fyrir fimmtíu árum
Svo var komið að því fyrir Kiddý, þassa ennþá glaðværu og hlýju konu sem segist hafa verið trippi í gamla daga, að fara heim til dóttur sinnar í Västerås. Hún ætlaði að hafa þar ofan af fyrir barnabörnum í kvöld. Þakka þér fyrir heimsóknina Kiddý mín, þakka þér fyrir báðar heimsóknirnar.

Þar með var komið að því að við Þórir færum að vanda einn hring í skóginum. Ég er ekki viss um að hann hafi séð þær breytingar sem við Valdís teljum okkur standa fyrir þar, en árið sem við verðum 75 ára, þá skal hann sjá breytingarnar og að hverju var stefnt. Eftir nokkra spjallstund var líka komið að því fyrir þau að fara heim til Örebro. Takk fyrir komuna þið líka, Auður og Þórir. Þið eruð alltaf kærkomnir gestir.

Nú er allt í lagi fyrir mig að verða þreyttur og syfjaður og fara að stefna að fundi með Óla Lokbrá. En fyrst er að bursta eins og þið vitið og sinna öðrum síðustu kvöldverkum. Síðan hef ég hug á að sofa í níu tíma og eftir það verð ég vel upp lagður til samveru með ölkunum mínum í Vornesi fram á mánudagsmorguninn og leggja þá húsið í hendur þeirra sem eru búnir að hafa helgarfrí.

Langa helgin framundan

Nú er ekki minna en mánuður liðinn þar sem hitinn hefur verið 20 til 32 stig. Kannski er einhver undantekning á þessu en ég held þó ekki. Meira að segja í rigningunni hér um daginn var bullandi hiti. Þegar ég segi 20 til 32 stig meina ég á mælinn sem er í norðvestur horninu og sól kemst aldrei að honum. Það er ágætt að skrifa þetta því að annars er eins víst að ég segi eftir á að þetta hafi verið sumarið þegar hitinn var 32 stig. Og ef ég miða við hitann þar sem við höfum verið að vinna í sól hefur hann væntanlega verið ein 37 stig.

Í dag mættu til Örebo Auður og Þórir sem aldrei láta sumar líða án þess að vera hér á ferðinni. Ég mætti þeim á járnbrautarstöðinni og er til vitnis um það að þau komu mitt inn í góðviðrið hér enda kvörtuðu þau alls ekki. Ég held nefnilega að þeim hafi þótt býsna notalegt að stíga út í sólskinið og það var alveg ágætt að um tíma var vestan gola eða stinningsgola sem nú er gengin yfir til annarra héraða.

Á morgun fer ég í vinnu og mér varð á að finnast í dag að ég vildi helst af öllu vera heima og þá tek ég vægt til orða. Ég hringdi því í  hann Ingemar, hinn ellilífeyrisþegann í Vornesi, og spurði hvernig stemmingin væri í húsinu. Bara góð, bara góð, svaraði Ingemar og svo ræddum við það aðeins nánar. Eftir það samtal var eins og það væri öllu bærilegra að fara til vinnu á morgun. Svo veit ég af gömlum vana að þegar ég kem þangað eftir klukkutíma ferð gegnum þetta fallega land og hitti væntanlega helgarskjólstæðinga mína, þá verður bara gott að finna sig verða að liði. Þeim leiðist ekki þessum manneskjum þegar ég vinn kvöld og helgar og við eigum margt sameiginlegt og okkur líður vel saman.


Það er í ýmsu að snúast þó að engin byggingarvinna hafi verið síðan á þriðjudag. Það er ekki svo búmannslegt að eiga eftir vinnu við eldiviðinn eftir þennan tíma og ef við hefðum ekki haft heimsókn vaskra kvenna um daginn sem tóku til hendinni við að kljúfa við, þá værum við ennþá skemur á veg kominn. Ég lýsi bara eftir fólki til eldiviðarvinnu að vori og jafnvel í vetur líka við að koma viðnum heim úr skóginum. Það var í gær sem Valdís setti viðarkljúfinn í gang á ný og klauf við á fullri ferði í eina þrjá klukkutíma.


Svo er ég þeim eiginleika gæddur að halda að ég sé bestur við að stafla upp viði. Ekki síst eftir að hann Arnold spurði mig um árið hvort ég hefði verið með hamar til að jafna endana. Ég neitaði því en svaraði hins vegar að ég hefði læðst út um nóttina eftir með hamarinn til að jafna endana. Arnold hló við og vissi að ég væri að grínast eins og hann sjálfur þegar hann beindi til mín spurningunni.




Hann Peter gröfumaður skildi ekki illa við þegar hann fór héðan á þriðjudagskvöld. Hann hreinskóf svæðið þar sem stór malarbingur hafði verið ásamt mörgu öðru sem hann gerði snyrtilegt. Þessi blettur fékk svo áburð í dag, þrjá millimetra af rigningu og svolitla vætu úr slöngunni hjá henni Valdísi. Mér finnst hreinlega alveg nauðsynlegt að laga svo fljótt sem auðið er öll sár sem myndast við framkvæmdir. Í dag hef ég meðal annars jafnað eftir gröft, valtað, sáð, valtað aftur og svo er Valdís farin að sjá því svæði fyrir vökvun og ætlar að annast það um helgina. Eftir viku til tíu daga verður farinn að sjást litarmundur á þeim flekknum.

Á morgun ætla ég að hringja í smiðinn og segja honum að það sé orðið svo fínt og snyrtilegt á Sólvöllum að það verði hreinasta unun fyrir hann að koma og vinna. Ég er í fríi í viku eftir löngu helgina núna eins og kallað er. Ég veit að ef þessir kallar koma eftir helgi verður risið hús um hina helgina. Eftir svoleiðis hamfaratörn verður heilmikil vinna við tiltektir og svo er bara tæplega hálfnað að ganga frá eldiviðnum. Það er ekki mikið um dauða tíma á sveitasetrinu um þessar mundir.

Annar dagur í jarðvinnu

Ég sagði í gær að það yrði hægt að blogga oft og mikið um Sólvallabygginguna og látið ykkur ekki detta í hug að ég standi ekki við það. Það eru hvort eð er teknar margar myndir af því sem gert er og hluti þessara mynda eru sparaðar sem heimildarmyndir og eru eldri myndirnar þegar farnar að koma sér vel. Gröfumennirnir voru hér að störfum annan daginn í röð og komu miklu í verk. Nú eru þeir farnir og koma ekki aftur fyrr en búið verður að reisa húsið og þá koma þeir til að breyta svolítið landslagi þegar hægt verður að gera það út frá húsinu í endanlegu útliti.


Þarna eru drenlögn og þakrennulögn hlið við hlið og þegar ég spurði hvort ekki væri hægt að sameina þær í eina svaraði Peter; nei kalli minn svoleiðis gerir maður ekki því þakvatni er aldrei boðið upp á að renna inn í drenlögn fyrr en hallinn frá húsinu er orðinn nógur. Þá hætti ég að dilla rófunni og lagði hana máttlausa niður. Samtalið var kannski alveg svona en ég hef stundum gaman að því að gera grín að sjálfum mér. Ef Sólvellir hefðu verið hugsaðir sem heilsárshús árið 2006, þá hefði þetta verk verið framkvæmt þá.


Peter gröfumaður er víkingur í vinnu eins og ég sagði líka í gær og hann gerir allt sem þarf að gera ef enginn annar er til að gera það. En þarna er tuttuogeins árs gamli Jónas viðlátinn og þá fór hann ofan í skurðinn. Mundu svo að greinin er í beinni stefnu mitt á milli þessara tveggja trjáa sagði Peter. Ég hafði beðið hann að setja grein þarna til vara ef við skyldum vilja drena meira þarna austan við húsið. Trén sjást bæði á myndinni. Lítið beyki til vinstri og all stór björk til hægri. Þannig verður þessi mynd mikilvæg.


Svo var farið að vinna vestan við húsið. Þarna tók Valdís heimildarmynd af síma og rafmagnsköplum sem liggja hlið við hlið. Það er vel hægt að greina á myndinni hversu þurr mölin er, en myndin var tekin strax eftir að skurðurinn var grafinn.  Sérstaklega þurr eftir því sem nær dró veginum, en þar eru stórar bjarkir og stóra Sólvallaeikin sem berjast um rakann og fá alls ekki nóg. Ungi, ljóshærði, spengilegi maðurinn til hægri á myndinni tilheyrir ekki vinnuhópnum en hann var þó allan tímann nálægur og fór hiklaust niður í skurð ef á þurfti að halda. Að leggja niður nýjan rafmagnsstreng byggði á því að sá gamli var einfaldlega of grannur og annaði ekki flutningi í hlutfalli við stækkun hússins.


Grjótgarðar eru lögverndaðir í Svíþjóð. Því var þessi aðgerð mér hálfgerður þyrnir þar til allt skipulag lá á borðinu. Ég varð að sækja um það til sýslunefndarinnar (sambærileg stofnun) og gekk greiðlega eftir að ég hafði lagt inn myndir og góða greinargerð um það hvernig þetta ætti að vinnast. Svo gerði það hlutina einfaldari að Peter mundi vel hvar hver steinn hafði verið og honum tókst nokkurn veginn að leggja þá eins til baka. Meira að segja tókst honum að láta mosann snúa upp. Hér er litið á grjótgarða sem menningararf og ég er alveg til í að hlú að slíku.


Svo var bara að ganga snyrtilega frá eftir tveggja daga vinnusnerpu. Handavinnan verður ekki mikið verk þegar svona vel er gert. Nokkrum mínútum eftir þetta var allt tilbúið og grafan var sett á pall Skanía bílsins frá nítjánhundraðsextíu og eitthvað. Hann virðist duga vel og lítur alls ekki út fyrir þennan háa aldur. Síðan kvöddu þeir félagar og óku af stað.


Meðan þeir voru enn að aka niður afleggjarann sá Valdís þennan furðufugl koma með grjót í hjólbörum og tók mynd af honum. Hann virðist koma frá allt öðrum tíma en þeim sem er til umræðu hér að ofan. Það er líklega best að leyfa honum.

Nú er engin mynd af Valdísi og það er eiginlega orðið svindl að hún lendir ekki á neinum þessara mynda. Ég vissi þó ekki betur en ég hefði tekið mynd af henni en svo finn ég hana ekki. Þeir voru svo ánægðir með hádegismatinn sem hún bar á borð að ég hefði átt að taka mynd af henni þegar þeir þökkuðu fyrir matinn. En ég fann þó mynd af henni við allt aðrar aðstæður og hún er hér fyrir neðan.


Þarna er Valdís í félagsskap sem henni leiddist ekki. Þessa mynd af systrunum Valdísi og Árnýju tók Anna Björg þegar þær voru í bæjarferð inn í Örebro

Jarðvinna

Í morgun komu þeir Peter og Jonas eins og talað var um í síðustu viku. Jonas réðist á malarhauginn og byrjaði að flytja hann burtu. Við Peter fórum hins vegar niður í grunninn og ég var handlangarinn hans. Sem handlangari mátti ég hafa mig allan við að vera ekki fyrir honum. Þessi lýsing var knnski að skjóta aðeins yfir markið en ég gat ekki séð að hann væri neinn eftirbátur Anders hvað vinnuhraða áhrærði. Ég spurði hann hvort hann ynni alltaf svona og hann bara játaði því og svo var ekkert meira með það.


Það var þessi svarti dúkur sem við Peter gengum frá og síðan röralögn fyrir vatnið af þakinu. Það er ekki það venjulega að einangra svona utan við grunninn en þar sem ekki var hægt að grafa eins djúpt og æskilegt var, var þetta ákveðið. Byggingarfulltrúinn hefði annars ekki orðið ánægður og ég vil hafa hann góðan og alls ekki skrökva að honum. Ég fæ svarta bletti undir tunguna ef ég skrökva og sem eiginmaður, faðir, afi og ráðgjafi dettur mér ekki í hug að iðka þá lélegu íþrótt.


Þvíþlíkt flínkir sem góðir gröfumenn eru. Ég gat ekki annað en dáðst að því. Akkúrat mátulega mikið á réttan stað og alls ekki að slá skóflunni í hlutina og skemma. Nei, það var eins og Peter bara gæti það ekki þó að hann unni jafn hratt á gröfunni og hann gerði niður í grunninum.


Og þarna var hann lipur líka enda var hann þá búinn að fá vöfflur með sultu og rjóma hjá Valdísi. Það fékk Jónas líka þegar hann kom á vörubílnum úr þriðju ferðinni með afgangsmöl í Syðri malarnámuna í Marieberg. Það er engin mynd af Jonas en Peter sagði að hann hefði skroppið til Tæland í vetur. Var hann að kíkja á stelpurnar spurði Valdís. Nei, svaraði Peter, konan hans var með honum. Nú, er hann giftur svona ungur sagði þá Valdís. Ég satt best að segja leit svona á málið líka. En sannleikurinn er sá að við vorum sjálf nítján ára þegar við giftum okkur.


Svo varð klukkan hálf fimm og þeir kvöddu og fóru. Þá varð mikið hljóðlátt á Sólvöllum og ég fór með hjólbörurnar kringum grunninn og fjarlægði grjót, jafnaði betur mölina og sprautaði af malarsalla sem á stöku stað hafði lent ofan á grunninum. Það verður því góð aðkoma fyrir Anders smið þegar hann kemur til frekari byggingarframkvæmda. Á morgun klukkan hálf átta koma svo Peter og Jonas og þá fara þeir í að grafa skurð frá húsinu fyrir þakrennuvatn og drenvatn frá grunninum. Það er vafasamt að það sé tímabært fyrir Anders að koma fyrr en þeir eru búnir að því. Síðan fara þeir í að grafa fyrir sverari rafmagnskapli og um leið leggjum við niður símaleiðslu. Það er mikið sem hann Anders Borg kemur til leiðar með skattalögunum sínum og það er hægt að blogga oft, oft og lengi um byggingarframkvæmdir á Sólvöllum í Krekklingesókn.

Dagur flugunnar

Það var svo gott að sofa lengi í nótt og morguninn var mikið, mikið þægilegur. Það voru aðeins símtöl milli sjö og átta í morgun og svo var langur og góður morgunverður. Svo dútluðum við eitt og annað og það var mikil friðsemd í sveitinni. Bíllinn með byggingarefnið átti að koma um hádegi og það gafst góður tími.


Valdís hengdi upp þvott og ég sletti múrhúðun á grunninn sem ég átti eftir þegar stórrigningin og þrumuveðrið kom um daginn. Þetta með snúru er alveg frábært og ég veit ekki betur en Valdísi þykji svolítið gaman að hengja upp þvott og mér finnst friðsælt að horfa á snúruna, ekki síst þegar verið er að hengja á hana.


Svo birtist Áki (Åke) á vörubílnum og þegar hann var að taka sig inn úr opnunni á grjótgarðinum virtist hann svo gríðarlega stór. Það eru svo sjaldséðir bílar af þessari stærð hér að þeir verða gríðar stórir þegar þeir koma.


Þakpönnurnar út að garðinum Áki, þar verða þær ekki fyrir og gröfumaðurinn getur fært þær nær húsinu þegar hann verður búinn með sitt verk eftir helgina. Allt í góðu Guðjón, sagði Áki og hann notaði nafnið mitt hvað eftir annað. Hann hafði æft það í byggingarvöruversluninni þegar þeir voru að hlaða bílinn í morgun hafði ég grun um. Svo stend ég þarna og held að ég geri eitthvað gagn með því og held mig ómissandi. Raunar var Áki alveg fær um að losa bílinn.


En Valdís var líka nálæg og mér sýnist hún vera þarna að telja papparúllurnar. Hún alla vega spurði mig hvort ég hefði pantað svona pappa og ég leit á pappann og sagðist aldrei hafa séð svona þakpappa fyrr. Ég held nú bara að ég vilji hafa gamaldags pappa á þakinu.


Þarna koma gluggarnir og ég held enn að ég sé að gera gagn með því að vera með nefið niðri í þessu. Reyndar held ég með sanni að ég hafi gert gagn þegar gluggarnir komu og Áki var dauðhræddur um að hann skemmdi þá. Svo þegar búið var að taka allt af bílnum sagði Áki að það væri best að ég tæki líka kubba undan plankabúnti, því að þú átt sjálfur þessa kubba Guðjón, sagði hann. Ég hef tilfinningu fyrir að þú sért frá Íslandi Guðjón, var eitthvað það síðasta sem hann sagði. Ég sagði honum að hann væri athugull að átta sig á því. Hann var ánægður með það og þar með hafði ég sagt eitthvað sem gladdi hann.


Það var með þetta eins og barnið þegar það er komið undir, nú var það erfiðasta eftir. Það var að koma öllu inn í tjaldið grannanna. En þolinmæðin þrautir vinnur allar og maður eins og ég með lappirnar í lagi lætur ekki bugast af nokkrum spýtum. Þegar ég segi lappirnar í lagi meina ég það án nokkurrar kaldhæðni. Ég er nefnileg með lappirnar í góðu lagi eftir all mörg ár í skakklappi.

Hvað meina ég eiginlega með "dagur flugunnar"? Það varð hálf ólíft fyrir flugum hér á Sólvöllum þegar leið á daginn og flugur sem kallaðar eru brons (veit ekki hvernig það er skrifað) voru gríðarlega mannýgar í dag og létu okkur alls ekki í friði. Ég sagði því við Valdísi í dag og konu sem gekk hjá að þetta væri dagur flugunnar. Þær töldu að svo hlyti að vera. -:)

Hjálpsamir grannar

Nágrannar okkar, Stina og Lars, eiga tjald sem þau notuðu eitt sinn yfir byggingarefni. Nú hafa þau lánað okkur þetta tjald undir byggingarefni sem kemur á morgun. Og ekki bara það. Meiri hluti fjölskyldunnar kom og hjálpaði okkur við að koma upp tjaldinu.


Hér er hún Siw og hún treysti mér svo vel að hún þorði að halda við hælinn sem ég var að reka niður. Það varð heldur ekkert óhapp en ég skal viðurkenna að ég fór gætilega.


Áfram héldum við af eljusemi og tjaldið sem við héldum að tæki þó nokkurn tíma að setja upp var bara komið upp á svipstundu. Hérna eru systurnar báðar viðstaddar, þær Alma og Siw.


Stina mamma var þarna líka og Siw stillti sér upp hjá henni og hvers vegna ekki að vera með á einni mynd í viðbót.


Tjaldið er tilbúið og á morgun kemur vörubíll með byggingarefni.

Í morgun lofaði Bengt í byggingarvöruversluninni að fara yfir vörulistann ef ég kæmi með hann. Í tilefni af því kom Anders smiður og við fullgerðum pöntunarlista. Svo borðaði ég góða matinn sem Valdís dreif á borðið og að því loknu fór ég inn til Örebro með listann. Magnús í byggingarvöruversluninni tók við listanum og sagðist fara í það strax að undirbúa efnið til flutnings. Ég sagði honum að Bengt vildi gefa upp verðið fyrst. Þá verður efnið ekki tilbúið á morgun sagði Magnús og ég vissi að þeir lokuðu í tvær vikur vegna sumarleyfa eftir morgundaginn. Það varð svolítið þref úr þessu og svo fór ég með lélega samvisku yfir því að hafa ekki komið listanum til þeirra fyrr og samkvæmt Magnúsi mundi efnið ekki verða tilbúið á morgun.

Nú eru þessir grey kallar búnir að hringja í mig þrisvar sinnum eftir klukkan átta í kvöld og þeir voru þá búnir að gefa upp verðið og voru enn að vinna við að ganga frá efninu. Þeir byrjuðu klukkan sjö í morgun en Bengt sagði í síma áðan að þeir ætluðu vildu klára þetta og við ættum ekki að vera áhyggjufull. Við Valdís sögðum áðan að við yrðum að færa þeim góða tertu eftir sumarfríið. Þessir menn, Magnús og Bengt, vinna mjög hratt og örugglega og eru góðir heim að sækja í byggingarvöruversluninni. Bengt er bróðir Bert sem rekur verslunina en Magnús er sonur hans. Það er betra að fólk siti svona.-:) Þetta efni sem kemur á morgun fer svo undir tjaldið frá grönnunum.

Valdís hefur lítið verið með á myndum undanfarið þar sem hún hefur að mestu verið bakvið myndavélina.

Að byggja hús

Það er hellingur um að vera á ellilífeyrisþegaheimilinu í Krekklingesókn og svo er ég líka í launavinnu í Vornesi þannig að ég hef ekki haft tíma til að birta neitt um síðustu atburði. Það var á mánudagsmorgun sem hann Anders smiður birtist hér upp úr klukkan sjö að morgni og setti í gang af gríðarlegum krafti. Hann hlóð grunn af 150 múrsteinum í 32 stiga hita og ég er búinn að lýsa því svolítið í síðasta bloggi en engin mynd fylgdi því. Ég bæti úr því hér.


Hér er þessi maður við vinnu sína og það verður ekki af honum skafið það sem ég er búinn að hayra um hann. Hann er víkingur í vinnu. Ég sagði honum frá því um daginn sem ég hafði heyrt, að það væri engin hætta á að vera svikinn af vinnubrögðunum hans. Fyrst var eins og hann vissi ekki almennilega hvað hann ætti að segja en síðan sagði hann orðrétt: "Það er þannig sem ég fæ vinnu". Hann hefur ekki staðið við að koma nákvæmlega eins og hann hefur talað um og ég tel fullvíst að það eigi eftir að koma fyrir aftur. En þar sem hann er alla vega tveggja manna maki þegar hann er hér og mjög þægilegur við að eiga hvað varðar að ég geti flýtt fyrir, þá fyrirgef ég honum þetta og mun gera áfram.


Og grunnurinn heldur áfram að hækka og þarna var Anders farinn að sprauta vatni úr slöngunni yfir höfuð sér. Ég sá að mestu um steypuna og handlangaði steina ásamt einhverju fleiru sem eg er búinn að gleyma.


Svo sagði hann mér fyrir verkum og fór og hann sagðist ætla að byrja á því að fara út að ganga með hundinn sinn, hann Bertil, þegar hann kæmi heim. Hér sjáum við svo grunninn fullbúinn og það má fara að fylla meðfram og á mánudaginn kemur hann Peter gröfumaður til að vinna það. Ég vildi fyrst fá hann þegar á morgun en á morgun kemur vörubíll með allt byggingarefni til að gera fokhelt og það mun nægja mér fullvel þann daginn. Á laugardag-sunnudag verð ég svo í vinnu í Vornesi svo að bekkurinn er fullsetinn.

Þetta lætur sjálfsagt full mikið fyrir fólk á okkar aldri en eftir nokkrar vikur verða rólegri tímar á ný. Stundum er þetta erfitt en það er gaman, jafnvel það sem er hund leiðinlegt vegna þess að það er svo rosalega gaman þegar það er búið. Mér finnst til dæmis mjög gaman að horfa á þennan grunn. Hann er flottur. Næsta sumar ætlum við að verðlauna okkur og sigla Hurtigrutten.

Hvílíkur fínn dagur

Í gær, mánudag, var hann Anders smiður hér og hlóð upp grunn undir vel stórt herbergi og meðalstóra forstofu. Ég var með honum í þessu eftir bestu getu en það sem hafði áhrif á okkur báða var 32 stiga hiti í forsælu og sterkt sólskin. Við drukkum við mjög mikið vatn. Ef maður sættir sig við að vera rennsveittur og bara vera þannig er allt í lagi með svona hita en maður verður fyrr þreyttur. Anders tók stundum vatnsslönguna og einfaldlega sprautaði vatninu yfir höfuð sér. Svo skellti hann svörtu húfunni á sig aftur og hélt áfram að hlaða. Hann er hamhleypa þessi maður.

Eftir sjö tíma vinnu var Anders búinn að hlaða, þvo áhöld, ganga frá og þar með fór hann heim. Eftir sat ég yfir mig þreyttur og hélt um stund áfram með það sem mér tilheyrði af verkinu og ekki gat beðið til morguns. Svo var það bara löng, hálfköld sturta og svo innkaupaferð með Valdísi. Í gærkvöldi kom svo í heimsókn sannur sólargeisli, hún Kiddý gamla skólasystir mín. Þegar hún steig út úr bílnum sínum hvarf mér þreytan. Svo áttum við skemmtilegt kvöld öll þrjú hér heima, kvöld sem óhætt er að segja að okkur Kiddý gat ekki hugkvæmst að við ættum eftir að upplifa þegar við vorum í Skógum fyrir 50 árum. Svo hafði hún lesið á blogginu mínu að ég hafði ekki fundið ærlegt gamaldags snæri í verslunum hér, snæri sem rotnar eðlilega í náttúrunni. Og hún gaf sig ekki fyrr en hún fann snæri í Brynju gömlu, þannig að nú á ég snæri sem rotnar ef það er notað til að binda upp eina og eina grein út í skógi.

Í morgun hélt hitinn áfram, hiti sem er þannig að við löggðum okkur í 32 stiga hita og vöknuuðum í 28 stiga hita. Full heitt er það en hver er ekki þakklátur fyrir sumarlíðuna. Ég fór mér hægt í morgun, þó meðvitaður um að það sem var ógert úti yrði aldrei tilbúið ef ég ekki byrjaði. Samt fór ég mjög seint af stað, fannst sem mér, ellilífeyrisþeganum, væri heimilt að taka því aðeins rólega eftir strangann vinnudag í gær. Að lokum hafði ég mig út og blandaði múrblöndu í fötu til að fylla í nokkra staði sem fengu of lítið í gær. Stuttu síðar heyrði ég þrumurnar byrja að mala í suðri og úrkomuský dökknuðu og færðust nær. Það var að nálgast hádegi.

Ég var undir húsveggnum vestanverðum og pússaði í nokkrar holur í grunninum undir forstofuna. Þrumurnar færðust nær og einn og einn regndropi féll á bakið á mér. Ég sá fyrir mér hvernig pússningin mundi renna burtu ef það kæmi skýfall og gerði mér grein fyrir því að ef ég hefði byrjað tveimur tímum fyrr hefði þetta sloppið. En bæði við Valdís og gróðurinn í kringum okkur þráðum regn, þó ennþá meira gróðurinn.

Dropunum fjölgaði mjög hægt þannig að ég hefði getað talið dropa á mínútu. Þrumurnar færðust meira og meira upp á himinnhvolfið og urðu æ háværari. Ég þráaðist við með múrfötuna og fannst gott að fylgjast með framvindu veðursins. Við hverja mínútu sem dropunum fjölgaði vissi ég að góðir hlutir væru nær því að ske. Að lokum dúndraði þruma beint yfir höfði mér og allt í einu var vonlaust að telja dropa á mínútu. Að lokum var eins og þrumurnar færu bæði þversum og langsum um himininn og það var ekkert hlé á milli þeirra. Það var þá sem ég tók múrfötuna og múrskeiðna, hreinsaði og gekk frá. Svo stillti ég mér undir þakskeggið að austanverðu, móti skóginum. Valdís var þá þegar búinn að tilkynna að matur væri tilbúinn.

Ég hélt áfram undir þakskegginu enn um stund. Sólgulnuð laufblöð byrjuðu að falla frá trjákrónunum og regnið jókst. Allt í einu var sem eitthvað stórdularfullt væri að eiga sér stað. Trjátopparnir byrjuðu að sveiflast ofsalega með miklum þyt eða hreinlega gný í fleiri metra sporöskjulaga hreyfingum en sjálfur stóð ég í logni upp við húsvegginn í fimmtán til tuttugu metra fjarlægð frá næstu trjám. Mér fannst sem trén væru að tryllast af gleði yfir að langþráð regn til fleiri vikna væri nú að detta á. Þrumurnar héldu áfram og regnið jókst.

Mér fannst sem ég ætti eitthvað stórkostlegt sameiginlegt með prestinum og sálmaskáldinu Carl Boberg þegar hann árið 1885 skrifaði sálminn og lofsönginn Ó stóri Guð þegar hann var á leiðinni heim til sín eftir þrumuveður á eyju utan við strönd suðaustur Svíþjóðar. Síðan hefur þessi sálmur verið þýddur á fleiri tungumál en nokkur annar.

Nú var regnið farið að sreyma niður í miklu magni, þó án þess að vera skýfall. Trén héldu áfram að rykkjast til öðru hvoru og það var eitthvað svo ótrúlega mikið í gangi. Nú kom Valdís í dyrnar og spyurði hvort ekki væri allt í lagi með mig. Ég var ekki hissa á spurningunni en sannleikurinn var sá að það var allt í svo ótrúlega góðu lagi með mig. Í kannski fimmtán sekúndur æddi niður hvítt hagl og þá var hitinn nítján stig. Svo fór ég að borða með Valdísi. Í þessari fyrstu atrennu var úrkoman tíu mm á tíu til fimmtán mínútum. Eftir það var eins og skógurinn væri grænni og liði betur. Það á að halda áfram að rigna með köflum í dag. Takk fyrir það, þú stóri Guð.

Á þessu augnabliki þegar ég er að ljúka að skrifa þetta er stjórnlaust skýfall og þrumurnar gríðarlegar.

Kiddý


Í Skógaskóla var hún svo sæt ung stelpa, drífandi og rösk. Það eru heil fimmtíu ár síðan. Í dag er hún svo falleg kona og hún er ennþá drífandi og rösk. Þakka þér svo innilega fyrir að heimsækja okkur á Sólvelli í dag Kiddý.

Ég verð að segja nokkur orð í viðbót. Kiddý á dóttur og barnabörn í Västerås og þar er hún um þessar mundir. Það var þegar hún talaði um þessa fjölskyldu sína sem ég skildi að hún var enn í dag þessi drífandi og röska kona. Svo tók hún upp símann sinn og sýndi okkur myndir af barnabörnunum sínum. Þá sáum við að hún á ung, falleg og glaðleg barnabörn sem hún gefur af tíma sínum, annast þau eftir þörfum, syngur fyrir þau og leikur við þau. Þau eiga góða ömmu þessi barnabörn.

Heimsókn á enda

Þar sem ég er að byrja að skrifa þetta blogg eru tvær Sólvallastelpnanna að nálgast það að komast vestur yfir Atlandshafið ef áætlun Flugleiða hefur staðist. Tveir sólargeislar kvöddu okkur á Arlanda og nú hef ég aðeins einn sólargeisla eftir hjá mér hér á Sólvöllum, það er að segja sólargeislann sem hefur fylgt mér í 50 ár. Eftir að við kvöddumst ókum við Valdís heim á leið með minningarnar sem fjársjóð eftir þessa daga Árnýjar og Önnu Bjargar hjá okkur í Svíþjóð. Ég hef þegar lýst þessari heimsókn all ýtarlega í nokkrum bloggum og geri ráð fyrir að þeirra nánustu hafi á þann hátt fylgst svolítið með dvöl þeirra í Svíþjóð.

Lengra en þetta komst ég ekki í gær, sunnudagskvöldið 11. júlí, því að Óli Lokbrá lét mig ekki í friði og þegar ég rembdist við að láta ekki undan honum kastaði hann sandi í augun á mér. Þar með tapaði ég skákinni og lagðist útaf og það var ekki að sökum að spyrja að þá skildi ég að þetta var ekki sandur, heldur smá galdur sem Óli kann til að fá mig til að leggjast í rúmið mitt á kvöldin þegar ég seint á ferðinni og þreyttur.

En nú er ekki að sökum að spyrja. Ég ætla að ganga hér frá lokabloggi vegna heimsóknar sólargeislanna sem skildu eftir minningar hjá okkur Valdísi. Ég luma á mörgum myndum af þeim og hér birti ég tvær þeirra.


Þessi mynd var tekin í Borgargarðinum í Uppsala á kvöldgöngu föstudaginn 9. júlí í meira en 20 stiga hita þegar líklega þúsundir fólks var að skemmta sér að lokinni vinnuviku á nærliggjandi grasflötum, í bátum og á bæði á úti- og inniveitingahúsum. Flott mynd af stelpunum.


Þessi mynd af þeim var líka tekin í hlýindum fyrir nokkrum dögum, af öllum Sólvallastelpunum, með Noravatnið og eyjarnar þar í baksýn. Það er enginn vandi að finna falleg sjónarhorn í Svíþjóð og þetta sjónarhorn er ekki af lakara taginu.

Þakka ykkur fyrir komuna Árný og Anna Björg. Bankahólfið Minningar gefur ykkur gott pláss í ríki sínu.

Skoðunarferð í Uppsala

Það er samdóma álit okkar í Íslandsnefndinni í Uppsala að þessi borg sé afar snyrtileg og aðlaðandi. Eins og ég sagði í bloggi fyrr í morgun voru götusóparnir komnir af stað tímanlega til að hreinsa upp dreggjar næturinnar og fljótlega eftir það var eins og borgin hefði aldrei verið annað en tandurhrein. Við fórum svo á gönguferð eftir hádegið upp í það sem við köllum kastalann og er beint vestur af gluggunum hjá Rósu og Pétri. Þetta er um hálfs kílómeters löng gönguferð og dálítið á fótinn. Þarna uppfrá sáum við alveg nýtt andlit af Uppsala. Þar sem ég er dálítið sveittur og þvalur eftir hita dagsins ætla ég að spara skáldagáfu mína og notast við myndir eins og ég geri oft þegar ég er nýskur á texta.


Uppi við kastalann er útsýni yfir vissa hluta af Uppsala og ef ekki væru mörg afar falleg og stór tré þarna uppi gæfi að líta ennþá meira af borginni þaðan. Að vísu má segja að ef við hefðum farið meira yfir kringum kastalann hefðum við trúlega notið enn meira útsýnis en við gerðum. En það var bara mjög fallegt þarna þó að sjálfur kastalinn væri ekkert til að hrópa húrra yfir. Auðvitað hefur það verið útsýnið þaðan sem fékk Gustav Vasa til að byggja kastalann á sínum tíma og enn í dag má sjá hluta af litlum fallbyssum sem dauðhræddir ungir hermenn hafa verið látnir skjóta af yfir þá óvini sem reyndu að sækja á brattann. Það hefur sjálfsagt margur hræddur ungliðinn látið lífið þarna fyrir stríðsglaða herra. Það eru líka fylgsni þarna uppi sem væntanlega hafa verið afskaplega eftirsótt af þeim sem ekki orkuðu sð sjá meira blóð renna. En við töluðum ekki svo mikið um þetta, gerðum okkur bara grein fyrir að alvarlegir hlutir hefðu átt sér stað þar í lífi margra. Við vorum þarna í öðrum tilgangi enda það besta sem við gátum gert í minningu þeirra sem reistu mannvirkin í hita og svita að koma og sjá.


Turnspírur dómkirkjunnar sjást víða að og broshýrar Sólvallastelpurnar prýddu nærmyndina. Það var gott að á þarna uppi eftir gönguna á brattann í 30 stiga hita. Með hvíldinni þarna vorum við að búa okkur undir næsta áfanga.


Næsti áfangi var þessi garður, Botaniska trädgården i Uppsala. Bótaniskur skrúðgarður er garður þar sem safnað er sem flestum jurta og trjátegundum frá sem flestum löndum heims. Botaniska trädgården í Uppsala er elsti botaniski skrúðgarður í Svíþjóð og tilheyrir háskólanum í Uppsala. Ekki hef ég fundið hversu gamall hann er, en eitt veit ég þó og það er að hann hefur í 350 ár verið bæði botaniskur skrúðgarður og skrúðgarður í vísindalegum tilgangi. Og hana nú.


Það eru mörg sjónarhornin þarna og eftir á að hyggja fórum við bara um lítið brot af þessum skrúðgarði. Við til dæmis litum ekki á gróðurhús þar sem eingöngu eru ræktaður er hitabeltisgróður.



Svo ræddum við hvort það væri maður eða kona andlitið sem mótað er í steininn þarna, en eitt veit ég; það er maður og kona sem standa við hliðina á andlitinu.


Að lokum ætla ég að gera svolítið grín að sjálfum mér. Ég bað um það í gær að þessi mynd væri tekin af mér undir þessu myndarlega beykitré. Þegar ég svo sá myndina hugdsaði ég bara sem svo að ég liti út eins og volaður guðsbarnageldingur á stuttbuxum. Ég lét mig samt hafa það að vera á stuttbuxunum í dag líka. Á morgun verð ég hins vegar að vera í öðrum buxum þar sem þessar eru orðnar sveittar og þreyttar. Á morgun er ferðinni heitið til Stokkhólms áður en vinkonurnar frá Íslandi fara á Arlanda.

Ég stend þarna undir beykitré. Það verður ekki fyrr en í öðru lífi sem við Valdís fáum að líta beykitrén sem við höfum gróðursett á Sólvöllum í þessari stærð. Það er eins og með kirkjubygginguna sem ég bloggaði um í morgun; höfundarnir sáu hana aldrei, þeir sem gróðursetja tré sjá þau aldrei verða gömul.

Að láta heillast

Ég heillast óneitanlega af Uppsala. Það var hlýtt í gær og það er hlýtt í dag. Það er eiginlega réttara að segja að það er hiti í staðinn fyrir að segja hlýtt. Mælirinn daðrar meira við 30 stigin en 25, vikurnar út. Það er þá sem fólk fer að tala um að það sé of heitt. Við fjögur í íslenska ferðamannahópnum vorum á göngu í Borgargarðinum í Uppsala í gærkvöldi og fólkið var út um allt. Sumir sátu með nestið sitt á grasflötunum, aðrir á bryggjunum við Fyrisána, enn aðrir í bátum við bryggjurnar en lang flestir, eflaust í þúsundatali, sátu þó á vitingahúsunum og útiveitingahúsunum, borðuðu og drukku og virtust lifa lífinu notalega. Einstaka drakk meira en borðaði og um síðir mátti heyra einstaka öskur og eitt og eitt reiðhjól fékk fría ferð út í Fýrisána. En ég vil þó meina að lang, lang flestir hafi lifað kvöldið notalega með málbeinið örlítið örvað af Bakkusi konungi. Fólk má sannarlega gera það þó að ég sleppi því og hafi gert síðustu 19,5 árin. Svo voru auðvitað margir, eins og við ferðalangarnir fjórir, sem þurftu engin aukaefni til að gera lífið bærilegt. Tímanlega í morgun voru svo götusóparnir komnir í gang til að þrífa upp afleiðingar næturlífsins.

Eftir nokkuð síðbúinn morgunverð var ferðinni var stefnt til Uppsaladómkirkju. Það sem heillar mig mest í Uppsala er þessi kirkja, alla vega er það svo ennþá. Ég hef sagt það áður í blogginu mínu að ég er kannski ekki viss um að það sé Guði sérstaklega þóknanlegt að setja þvílíkt fjármagn og verðmæti í kirkjubyggingu þegar hluti fólks berst við sjúkdóma og svelti. En betra er þó að leggja verðmætin í kirkjubygginguna og skapa vinnu en að drepa menn í styrjöldum. Að vísu gerðu menn víst hvort tveggja.

Ég sest á einn kirkjubekkjanna og hugsa sem svo: Það er um miðja þrettándu öld, sem sagt fyrir um 650 árum, sem maður er ráðinn til að stjórna teikni- og undirbúningsvinnu vegna kirkjubyggingarinnar. Hann hefur enga tölvu en væntanlega öll þess tíma teikniáhöld og höfuðið í lagi. Hann hefur samstarfsfólk sem hann stjórnar og hann hefur hugmyndir sem hann ræðir við samstarfsfólk sitt. Hann og samstarfsfólkið sér fyrir sér hvernig heildarsvip kirkjan á að fá og allt er unnið út frá því. Það er að segja frá fyrsta steini sem grafinn er í jörðu og upp til efsta steins sem er í margra tuga metra hæð frá kirkjugólfinu. Engu atriði þar á milli má gleyma og enginn af hundraðtals steinbogum má vera vanhugsaður. Og svo er það þetta frábæra sem þessi samstarfshópur fær áorkað; hann vinnur verk sitt af endalausri samviskusemi, þrautsegju og auðmýkt þó að allir í hópnum viti að kirkjan verður ekki fullbyggð fyrr en að minnsta kosti eitthundrað árum eftir að þau öll eru dáin.

Það eitt að hugsa málið í þessu samhengi gerir hljóða stund á kirkjubekk í Uppsaladómkirkju að andlegri stund. Ég vil meina að hefði þetta fólk og aðrir þeir sem að byggingunni stóðu ekki verið túað fólk, hefði hún aldri risið. Það urðu margir Þrándar í götu á þeim 165 árum sem aðal byggingin stóð yfir en þau höfðu nú skaparann með sér.


Ég var á göngu í borgargarðinum í Uppsala í gærkvöldi. Þá sá ég þessar þrjár konur á gangi álengdar. Hvernig er hægt að láta hjá líða að taka mynd?


Spegill, spegill, seg þú mér
hver hér á landi fegurst er.
Ég er ekki viss um að ég fari alveg rétt með hér, en það var þetta sem mér datt í hug þegar ég tók myndina. Þó að allar sænskar ár sem renna gegnum víðáttumikil skógarsvæði séu moldarlitar, þá speglast í þessu vatni ef það er nægjanlega kyrrt. Merkilegt að þetta eru sömu konur og á fyrri mynd. -:)


Hérna eru þessar konur einu sinni enn og nú stilltu þær sér upp og báðu mig að taka mynd af sér og láta fleiri en einn laufboga sjást.


Svo var það í morgun að ég var á leið í Uppsaladómkirkju og rakst á þessar konur. Þær voru tvær núna því að sú þriðja ákvað að vera heima og dútla svolítið við sjálfa sig. Ég ákvað að slást í hópinn með þessum tveimur.


Síðar í dag, í annarri gönguferð, birtist kirkjan frá öðru sjónarhorni, umvafin sænsku laufskrúði. Við erum búin að sjá fína hluti í dag en stundin í kirkjunni var hugljúfust.

Lélegur fréttamaður

Það er fimmtudagur 8. júlí, komið ögn fram yfir sumarsólstöður. Ég er ekki góður fréttamaður um þessar mundir þó að við höfum tvo gesti. Engin útsending bara í marga daga en nú kemur smá bragabót. Á morgun förum við til Uppsala og verðum þar tvær nætur áður en Árný og Anna Björg fara í flug og gerum eitthvað skemmtilegt. Við Valdís notum þessa heimsókn sem sumarfrístíma og gerum svolítið aðra hluti en venjulega. Svo er það venjulega þegar fólk kemur. Við geymum að leika okkur þangað til fólk kemur. Nú verða engir langir textar en nokkrar myndir til að fylla út í þetta blogg mitt.


Daginn eftir að þær vinkonurnar mættu hér eftir flug sem seinkaði um níu tíma voru þær ólmar að fá að gera eitthvað. Penslar voru teknir upp og svo rann grunnmálningin á eina panelfjölina eftir aðra. Öll stæðan var máluð, stæða sem nægir næstum á alla nýju bygginguna á Sólvöllum.

Valdís kennir
Iðjuleysið virtist vera óþolandi og í fyrradag, þriðjudag, gengu þær í að kljúfa við en ég fór hins vegar í vinnu í Vornesi. Ég sé ekki betur en Valdís sé hér að segja til. Ég veit alla vega að hún sagði að það væri bannað að meiða sig á vélinni sem klýfur viðinn.

Kljúfa við
Hér eru þær fullnuma og klára sig sjálfar. Ég veit hins vegar að Valdís var ekki langt undan.

Hvað er hlægilegt spyr ég nú bara?
Eitthvað skemmtilegt virðist vera á ferðinni. Valdís hlýtur að hafa verið með eitthvað sprell bakvið myndavélina, en hún tók jú myndina þar sem ég var í vinnu. Já, einmitt það, ég var í vinnu. Það hefur verið þess vegna sem þær fengu einhverjar hugmyndir.

Að lokum. Hitinn hefur verið 24 til 30 stig undanfarið og svona veðri er spáð áfram. Við vorum líka að frétta að það væri spáð betra veðri á Íslandi, enda eru þær vinkonur að fara heim og eru auðvitað ákveðnar í að taka góða veðrið með sér.




Steypa, byggja, byggja

Ég kom heim úr vinnu í Vornesi skömmu fyrir hádegi og síðan er búið að vera heil mikið í gangi á Sólvöllum. En fyrst um allt aðra hluti.

Mér er ógleymanleg steypuvinnan í brúarvinnunni á árunum 1956 til 1958. Ég fékk nánast alltaf það hlutverk að moka í hjólbörur og sturta svo úr þeim í hrærivélina. Þó ég segi sjálfur frá, þá var þetta eitthvað erfiðasta eða jafnvel allra erfiðasta starfið í steypuvinnunni. Með mér voru tveir gamlir og slitnir menn sem áttu erfitt með að moka mölinni þannig að mér var sagt að ég yrði að moka hlutfallslega meiru en þeir, sturta svo í vélina og svo setja sementið ofan á mölina. Eftir það tók Björn Hallmundur frá Vík við og sá um að þessi blanda kæmist upp í hrærivélina, fengi mátulegan vatnsskammt og hrærðist vel.

Síðan komu mennirnir með hjólbörurnar og Björn Hallmundur lét mjúka steypuna renna ljúflega í börurnar og svo keyrðu þeir fimlega eftir brautum þangað sem Valmundur stjórnaði móttökunni. Mig langaði alltaf að vera hjólbörumaður en fékk það ekki nema kannski einu sinni af einhverjum undantekningarástæðum. Ég veit ekki hvers vegna þetta var svona, en ég var næstum alltaf yngstur í hópnum og fyrir mér voru steypudagarnir alltaf lengi að líða og erfiðir. Eftir allan þennan malarmokstur hefði ég átt að fá sterka arma og axlir en það hefur þó fylgt mér alla ævi að vera með krankan efri hluta.

Síðan tóku við öðru vísi steypudagar í Hrísey á sjöunda áratugnum. Þá kom Tommi á Fergusoninum og mokaði í hrærivélina með ámoksturstækjum. Þá var ég stundum hjólbörumaður en þá var ég orðinn eldri og ábyrgur heimilisfaðir og mátti auðvitað ekki sýna að mér þótti ennþá pínulítið gaman að keyra hjólbörur í steypuvinnu. Það einkenndi þessa steypuvinnu í Hrísey að það var mikill hamagangur. Eiginlega finnst mér í dag að menn urðu svolítið trylltir og allt varð að ganga með ofsahraða. Menn hjálpuðu hver öðrum þegar verið var að steypa við einbýlishúsabyggingar og sumir eða margir áttu svo að fara á sjó eftir steypuvinnu. Kannski var það ástæðan fyrir hraðanum. En svo kom steypubíll og síðar krani og steypuvinnumenningin gjörbreyttist. Í dag kom steypubíll á Sólvelli og sá atburður fékk mig til að rifja þetta upp.


Það var svo hljótt og gott í sveitinni þar sem við Anders biðum eftir honum og notuðum tímann til að tala um framhald byggingarvinnunnar. Mótin biðu niður í snyrtilegum og þurrum grunninum og það var eins og það væri allt í lagi að bíllinn kæmi ekki alveg strax. Svo hringdi bílstjórinn og í ljós kom að hann hafði farið í öfuga átt, ekki alveg þveröfuga en alla vega langt úr leið. Þá kom upp í mér nýskupúkinn og ég hugsaði meðan ég talaði við hann og lýsti leiðinni fyrir honum hvort þetta mundi hækka verðið á steypunni.


Svo var hann þarna að lokum og þá var friðurinn hjá okkur Anders úr sögunni. Það hófst steypuvinna en þó mikið léttari en í brúarvinnunni á Suðurlandi fyrir meira en fimmtíu árum. Samt vaknaði aðeins í mér gamla stemmingin, bæði í brúarvinnunni og í Hrísey. Ég nefnilega ætlaði að taka myndir af þessu í rólegheitum en eftir á finn ég að ég gaf mér eiginlega ekki tíma til að taka myndirnar. Og hvað segir maður þá -hahaha- eða hvað?

Verðið á farminum fer svolítið eftir því hversu fljótt er hægt að tæma bílinn. Bílstjórinn var svipbrigðalaus og alvarlegur og að mestu lét hann sem hann sæi hvorki mig eða Anders smið þar sem hann bar framan á sér stjórnborð sem hann notaði við að manúera fram og til baka rennugræjunum. Hins vegar verður hann að eiga það að hann vildi gera móttökuna svo létta sem mögulegt var og þegar smá sletta lenti utan við mótin fannst honum leiðinlegt að hafa verið klaufalegur. Hann var þræl lipur við þetta kallanginn.


Ég held að bílstjórinn hafi verið stoltur af búnaðinum þegar hann manúeraði þessum glussastýrðu rennum yfir til Anders sem beið þarna með stunguspaðann okkar. Kannski var það þess vegna sem hann sýndi svo afkaplega lítið félagslyndi.


Svo tók bílstjórinn í sveif aðeins til hliðar við hinar sveifarnar og steypan tók að renna. Anders var á lágum venjulegum vinnuskóm og berleggjaður. Í gamla daga voru það stígvél í steypuvinnu ef ég man rétt. Skórnir hefðu fyllst af möl nema þá kannski hjá "hjólbörumönnunum". Svo lagði ég frá mér myndavélina og dreif mig í steypuvinnu.


Svo var steypubíllinn farinn og það varð hljótt í sveitinni á ný. Eftir súpu og brauðbita fór Anders líka og nú heyri ég laufþytinn frá vestan golunni inn um dyrnar. Þegar ég verð búinn að vista þetta fer ég út og tek til. Svo verður kominn tími til að vökva steypuna. Ofan á þessa sökkla koma múrsteinar sem eru að mér sýnist steyptir úr eldfjallavikri frá Íslandi. Ég þarf að komast að hinu sanna með það og ef rétt er finnst mér það býsna sniðugt. Anders kemur í múrsteinsvinnuna á föstudag eða mánudag.

Sólvallastelpurnar fóru til Örebro nokkru áður en steypubíllinn kom og ég vona bara að þær geri eitthvað skemmtilegt. Annars eru þær stundum, eða hreinlega allt of oft, í einhverjum aðgerðum. Í gær og í morgun voru þær að kljúfa við, þær hafa málað, þvegið bílinn, stússast í matargerð og nefndu það bara.

Sunnudagsskýrsla

Eiginlega er ég ekki í formi til skýrslugerðar á þessu kvöldi en ég veit líka að ef ég sleppi því núna verður engin skýrslugerð næstu dagana. Á morgun koma smiðir og ég þarf að tala við þá og svo þarf ég að koma mér í vinnu fyrir hádegi. Svo er það vinna fram á þriðjudagsmorgun. Svona getur það gengið meðan ég er bæði launþegi og húsbyggjandi. Þessi húsbygging þarf að komast frá sem fyrst og vinnan að minnka, þá verður næstum endalaus tími til skýrslugerðar.

En alla vega; við héldum austur á bóginn í morgun, austur til Södermanland. Södermanland er vatnaríkt svæði eins og héraðið norðan við Örebro sem við heimsóttum í gær. Við ætluðum að borða hádegisverð á einhverjum fallegum stað en þar sem við vorum vandlát borðuðum við ekki fyrr en á þriðja staðnum sem við heimsóttum, Fiskeboda við Hjälmaren. Áður höfðum við litið inn á Hjälmargården við Hjälmaren og Julita við vatnið Öljaren. Hvorugt þeirra staða uppfyllti "hárfínar" kröfur okkar á góðan hádegisverð.


Það tókust næstum engar af myndunum sem við tókum í dag. Sólin "gassaði" geislum sínum yfir land og haf ofan frá eins og veðurfræðingar hafa sagt síðustu dagana og þar sem vötn eru gassar birtan úr þeirri áttinni líka. Þetta átti myndavélin erfitt með að yfirvinna. Ég kann líka tæpast á þá vél sem við erum með núna og allra síst við svona flókin skilyrði. En alla vega; þessi mynd er tekin yfir útsýnið sem við höfðum frá hádegisverðarborðinu okkar í dag. Við sjáum þarna út á vatnið Hjälmaren og út til skógi vaxins tanga í vestri sem gengur langt út í vatnið. Einmitt þar vorum við fyrr um daginn á Hjälmargården að kanna hádegisverðinn. Það var eiginlega mest fjölmenni sem dreif okkur þaðan á vit frekari hádegisverðarævintýra.


Hún Þóra Björgvinsdóttir benti á það í ummælum um bloggið mitt í gær að það væru bara myndir af Sólvallastelpunum. Hún taldi að það ætti að vera mynd af Sólvallastráknum líka. Hér er mynd af öllum ferðahópnum sem ung stúlka í Vingåker vinnandi á veitingahúsinu í Fiskebota tók fyrir okkur. Það svo sem fer ekki mikið fyrir mér á myndinni en hún sannar þó alla vega að ég var með.


Eftir mat fórum við niður í fjöru. Ég hef svo sem náð mörgum betri fjörumyndum í þessu landi en þessi fær þó alla vega að fara með. Sólvallastelpurnar spurðu mig á heimleiðinni hvort ég hefði talið trén en mér tókst það ekki.


Hægra megin þarna uppi borðuðum við og ég er til í að fara oftar til Fiskeboda að borða með fólki sem kannski kemur í heimsókn. Við nefnilega drögum að gera svona smá tilbreytingu í hverdagslífið og því er gott að fá fólk í heimsókn til að það verði af.


Á heimleiðinni sáum við svo þessa hirti og marga fleiri. Það eru allar líkur á annarri hitabeltisnótt nú í nótt og án efa verður hitabeltisloftslag hér innan húss. Á morgun er svo mánudagur og "grár hversdagsleikinn tekur" við. Hann er að vísu ekki grárri en svo að ég hlakka venjulega til morgundagsins. Ég er það barnalegur að ég hlakka oft svo mikið til morgundagsins að ég vona að sofandi nóttin líði fljótt. Og þar að auki er ég svo barnalegur að ég segi frá því.

Hitabeltisnóttin

Það var spáð hitabeltisnótt í nótt. Svo varð það líka. Í gærkvöldi var 22 stiga hiti og í morgun klukkan hálf sjö var 26 stiga hiti. Þar með hlýtur að hafa náðst markmið sænsku veðurstofunnar um nótt með hita yfir 20 stig. Sem sagt, hitabeltisnótt. Kroppurinn er pínulítið þvalur á svona dögum en lífið er gott og minningarnar um þessa hlýju daga verða ætíð góðar.

Jafnvel líka minningarnar um fluguna sem byrjaði að daðra við mig snemma í morgun. Henni geðjaðist ótrúlega vel að því að setjast bakvið vinstra eyrað og þar fyrir utan utan hvar sem var á líkamann sem ekki var undir sæng. En sæng er eiginlega best alls staðar annars staðar en ofan á líkamanum á hitabeltisnóttum þannig að flugan hafði aðgang að mestum hlutanum af mér. Að rykkja til þeim líkmshluta þar sem flugan hélt sig þá og þá var nóg til að hún lét sig hverfa þangað til hún kom aftur eftir mjög stutta fjarveru. Ég lá því alls ekki hreyfingarlaus í rúminu með þessari flugu.

Að lokum gafst flugan upp á mér og leitaði á náðir Valdísar. Þá færðist ró yfir mig en Valdís tók upp á því að rykkjast til í svefnrofum með stuttu millibili og mér duldist ekki hvers vegna. Ég fór að finna til með henni en fann ekki fyrir neinni samkennd í gleði flugunnar. Að lokum skrönglaðist ég framúr og sótti Bush (flugnamorðingjann okkar). Svo lagði ég mig aftur og horfði á Valdísi. Innan skamms settist flugan á öxl hennar.

Ég hagræddi mér hljóðlega og svo sló ég. Flugan féll á augnablikinu inn í eilífðarkómann en Valdís vaknaði afskaplega snöggt til lífsins frá nætursvefninum. Hún hvæsti á mig; hvað ertu eiginlega að gera?
Ég var bara að drepa flugu.
Ekki ætlarðu að drepa mig líka?
Nei, ég ætlaði ekki að gera það. En nú er kominn morgunverður og brauðið í ristinni er orðið kalt aftur og hart líka geri ég ráð fyrir. Ég þarf því að taka nýja ákvörðun; skal ég éta það eða rista nýtt brauð.

Uskavi og Nora

Heitasti dagur sumarsins gekk í garð í morgun og það var ekkert óvænt. Veðurfræðingarnir voru búnir að spá þessu. Það var fyrr í vor, eða snemmsumars, sem margir voru farnir að óska þess að virkilega hlýr dagur gengi í garð. Það var lengi búin að vera hálfgerð kuldatíð eftir skítkaldan vetur. Svo var það eitt kvöld að ég horfði á hana Jennicke lýsa veðurspánni í sjónvarpinu og hvað sagði ekki blessuð konan? Jú, hún sagði að nú kæmu hlýindin loksins á morgun. Ég stóð þarna fyrir framan sjónvarpið bara til að sjá veðurfréttirnar, bakvið stólinn sem ég sit í ef ég horfi á sjónvarp í alvöru, og mér varð hugsað þegar ég heyrði þetta; ég elska þessa konu. Svo áhrifaríkt var að heyra að hlýrri dagar væru í innsiglingu.

En í dag var búið að spá 30 stiga hita og það var líka 30 stiga hiti. Það var löngu ákveðið að fara í smá ferðalag þennan dag. Við vorum búin að ákveða að fara eina 50 til 60 km norður fyrir Örebro og borða þar einhvers staðar. Við búum svo nálægt Örebro að nú og framvegis munum við miða við fjarlægðir útfrá borginni. Við vorum líka með það í huga þegar við ákváðum þessa ferð að geta notast við kælinguna í bílnum ef okkur fyndist hitinn verða þrúgandi. Ferðahópurinn var Sólvallastelpurnar og ég. Ég held að ég sé búinn að kynna Sólvallastelpurnar áður þannig að ég fer ekki yfir það aftur.

Maturinn er alveg að koma, slappa af á meðan
Þarna erum við kominn inn í veitingahús á stað sem heitir Uskavi og er einmitt 50 til 60 km norðan við Örebro. Birtuskilyrðin til að taka mynd af Árnýju, Valdísi og Önnu Björgu voru ekki þau bestu þarna inni þar sem sólskinið flæddi inn um alla glugga. Uskavi stendur við stöðuvatn sem heitir Usken og er hluti af vatnasvæði sem gerir heilt hérað hreint alveg ótrúlega fallegt. Ég sagði þeim frá ferðum sem ég átti þarna uppeftir á leitarárunum. Leitarárin eru árin þegar ég leitaði ljósum logum að sumarbústað eða stað fyrir sumarbústað. Valdís vissi ekki um allar þær ferðir áður en veit um þær flestar núna held ég.

Uppstilling númer tvö
Eftir steikta rauðsprettu, vínarsnittsel, ís og kaffi tókum við okkur út í hitann á ný. Sólvallastelpunum var stillt upp hvað eftir annað svo að það yrði nú ekkert vafamál að þær hefðu verið á ferðinni hér í utlöndum. Þarna vinstra megin við þær er rautt lítið hús með hvít horn, glugga og vindskeiðar, en allir sem komið hafa til Svíþjóðar vita að landið er ríkt af þessum fallegu húsum og Sólvellir eru eitt af þeim. Yfir húsið sjáum við svo vatnið Usken og stóra eyju sem er í vatninu beint á móti veitingahúsinu Uskavi.

Ekki uppstilling en Anna að bleyta stóru tána og Árný er á leiðinni, Valdís ætlar ekki
Þegar við komum svo niður að vatninu könnuðu þær Anna Björg og Árný hitann í vatninu. Það var sundlaugarhiti á vatninu sögðu þær en Valdís lét sér nægja að horfa á og lét ekki hafa sig í neitt unglingasprell. Frá vatninu fórum við í kirkjuna og þar var svalt og hljótt að dvelja svolitla stund.

Uppstilling þrjú
Frá Uskavi fórum við að Noravatninu norðanverðu. Það er svolítið skyldustykki þeirra sem heimsækja okkur að fara með okkur á þennan stað. Í brekku upp af þessum stað, brekku sem þær konur horfa á móti, hafði ég verið að snuðra á leitarárunum og gá að landi fyrir sumarbústað. Það var mér algjör sjúkdómur á tímabili að koma upp sumarbústað með útsýni yfir Noravatnið og eyjarnar sem við sjáum á myndinni.

Uppstilling 4
Síðan var það bærinn Nora þar sem sagan segir að boðið sé upp á besta ís í allri Svíþjóð. Staðreyndin er að árið 1923 gerði kona að nafni Selma ís eftir uppskrift sem hún hélt leyndri. Enn  í dag er uppskriftin leyndarmál og meðan við gæddum okkur á ísnum kom kokkaklæddur maður lítill handvagn og á vagninum var kútur sem við álitum fullan af ís gerðum eftir leyndamálinu mikla. Frá ísátinu héldum við í Norakirkju og þar var hljótt og gott að vera og íhuga í nokkrar mínútur og kveikja á kertum og hugsa til bæði lifandi og látinna.

Og að lokum ein mynd án uppstillingar
Svo bara verð ég að birta eina mynd þar sem þær konur eru ekki með. Þessi er tekin frá veitingahúsinu Uskavi yfir tjaldstæði, gróður, vatn og hnjúka. Þau voru mörg fallegu sjónarhornin sem við veittum athygli í dag. Við enduðum ferðina á að fara gegnum Karlskoga, bæinn sem Alfred Nobel rakti uppruna sinn til.

Hitinn hélt sér í 30 stigunum allan daginn og núna klukkan hálf tíu að kvöldi er hitinn 22 stig og það er spáð hitabeltisnótt í nótt. Hitabeltisnótt er það kallað hér þegar hitinn fer ekki niður fyrir 20 stig alla nóttina. Á morgun finnum við upp á einhverju nýju og við munum líklega halda okkur að sænsku vötnunum. Sænskt vatn umgirt fallegum skógi er fallegt vatn. Hér lýkur skýrslugerð dagsins ef einhver skyldi vilja kynna sér.
RSS 2.0