Öðruvísi dagur

Kristinn dóttursonur Jónatansson hringdi í gærkvöldi og var svolítið að reyna að skipuleggja ferðalag frá Kaupmannahöfn til Sólalla í Krekklingesókn. Þetta gekk ekki alveg snurðulaust en að lokum hringdi hann og sagðist vera kominn um borð í lest sem færi til Ósló, en hann ætlaði að hoppa af í Hallsberg sem er eina 25 km suðaustan við Sólvelli. Þar yrði hann milli klukkan fjögur og fimm að morgni og ungur maður í Örebro, einn af vinunum frá Svíþjóðarári Kristins, mundi sækja hann til Hallsberg og taka hann með til Örebro. Síðan ætluðum við að hafa samband þegar við Valdís værum klædd og komin á ról. Svo var ekkert meira með það og við Valdís hurfum inn í draumalandið með Óla Lokbrá.

Friðsamur svefninn var allt í einu rofinn með einhverjum óhljóðum sem ruglaði mig algerlega í ríminu. Fyrst athugaði ég klukkuna, síðan tölvuna, horfði á útvarpið, en fékk enga skýringu á þessu skrítna hljóði sem hafði rofið kyrrlátan síðnætursvefninn. Allt í einu þaut þessi undarlegi hljóðgjafi þversum yfir herbergið og ekki bætti það úr skák. En þá sagði Valdís að síminn minn væri að hringja og að hann væri þarna í buxunum mínum. Þá byrjaði að rofa til fyrir mér og ég skildi að Valdís hafði hent buxunum inn á rímið mitt og þess vegna hafði hljóðið færst. Ég hef sjaldan vaknað jafn ringlaður og þarna í morgun.


Þegar ég loks hafði opnað símann hafði hann hætt að hringja en ég hringdi til baka. Sá sem var í símanum var Kristinn dóttursonur og hann gekk beint að efninu og spurði hvort við mundum hleypa honum inn, hann stæði við utidyrnar. Þá var klukkan um hálf sex. Jahá, og svo opnuðum við fyrir honum. Vininum í Örebro fannst einfaldast að skila honum bara beint hingað og það var ekkrt að því. Svo sváfum við öll áfram um stund. Upp úr klukkan átta fór ég út að undirbúa smíðar dagsins. Þegar við svo borðuðum morgunverð nokkru síðar spurði Kristinn hvort hann mætti smíða með mér og hvað segir maður þá. Jú, að loknum morgunverði fórum við báðir út að smíða. Hér sjáum við hann skrúfa lista á vegg til að gera hann þykkri, sterkari og til að geta aukið einangrunina.


Hér erum við Skalli og Gráni að skipuleggja verkið og Valdís kom út og bað okkur að brosa fyrir myndavélina. Núna er Kristinn inn í Örebro þar sem vinir hans þar vildu hitta hann sameiginlega eina kvöldstund. Auðvitað fannst honum það afar skemmtilegt að þessir vinir frá því fyrir fimm árum skyldu hafa svo sterkar taugar til hans ennþá að þeir vildu hitta hann strax fyrsta kvöldið hans hér.




Stuttu áður en Kristinn hélt inn til Örebro óku þrír fólksbílar í hlað á Sólvöllum. Þar voru á ferðinni níu manns sem við áttum líka von á, flestir Íslendingar. Þarna á myndinni sjáum við frá vinstri Þóri, Auði og Evu. Tvenn hjón sem eru svo til vinstri á myndinni eru í heimsókn hjá Auði og Þóri. Eins og ég hef sagt svo oft áður eru Auður og Þórir árlegir gestir í Örebro og fá svo gjarnan íslenska gesti sem spila með þeim golf. Við heyrðum sagt hér á Sólvöllum í dag að Þórir þekkti hvern krók og kima á völlunum í og kringum Örebro væri ratvís með afbrigðum.


Auður og Eva brugðu þarna á leik og Valdís var snögg og tók mynd. Það er erfitt að komast undan þessum myndavélum sem virðast leynast alls staðar nú til dags. Meira að segja á Sólvöllum.


Hér er hún Elín með mömmu sinni Evu og pabba sínum Sven. Sven gætir þarna Þóris, þess sem er ratvís í Örebro og héruðunum þar í kring. Eva, Sven og Elín búa í Svíþjóð. Eva sem er hjúkrunafræðingur flutti til Svíþjóðar fyrir fjöldamörgum árum. Elín talar ógjarnan íslensku en skilur hana vel. Sven skilur það mikið í íslensku að það má ekki segja hvað sem er á íslensku í návist hans. Þess er heldur engin þörf. Hann er fínn strákur hann Sven.


Svo stilltum við Valdís okkur upp og brostum. Ég sé þarna að fótleggir mínir eru hvítir mjög. Það mætti kalla mig manninn á hvítu fótunum. Svo fóru allir gestir og rólegheitin hafa tekið völdin á Sólvöllum. Klukkan er níu að kvöldi. Þvotturinn á snúrunni bifast ekki og trjákrónurnar alls ekki heldur. Hitinn er fimmtán stig og sólin er sest bakvið Kilsbergen. Norska spáin spáir 18 stiga hita og örlítilli rigningu á morgun en 20 stiga hita og þurru á mánudag. Það verður nú hægt að smíða á morgun líka og hver veit nema það verði einhver athafnasemi á mánudag líka. En alla vega; dagurinní dag hefur verið öðru vísi dagur á Sólvöllum. Það eru öðru vísi daga hér alltaf öðru hvoru. Að lokum; Valdís bakaði tvær uppskriftir af pönnukökum og hún lumaði á rjómaslettu í ísskápnum. Þeytaranum var því beitt líka.


Kommentarer
Auja

Takk elsku vinir fyrir að taka á móti okkur Íslendingunum, þvílik veisla eins og alltaf, þau voru mjög ánægð að fá að kynnast smá sænskri stugu menningu og þakka kærlega fyrir sig. Takk líka kæru vinir fyrir okkur sjáumst hress að vonandi stuttum tíma liðnum

2010-08-01 @ 01:14:00
Valgerður

Er ekki bara gott að fá smá hjálp frá eins áhugasömum smiði eins og Kristin er og skilur smíðatal tí hí hí. Bið fyrir kveðju til ykkar allra.

VG

2010-08-01 @ 14:38:00
Guðjón

Verði ykkur basra að góðu Auður. Ég segi það þó að Valdís eigi allan heiður af mottökunum.



Kveðja til ykkar allra frá Valdísi og Guðjóni

2010-08-01 @ 21:24:43
Guðjón

Það er engin smá hjálp Valgerður. Það er búinn að ske hellingur síðan hann kom. Ég vinn á mínum hraða en hann á allt öðrum hraða.



Með bestu kveðju frá Sólvöllum

2010-08-01 @ 21:29:21


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0