Góða samtalið
Susanne var fyrir nokkrum vikum síðan hjá næringarfræðingi sem fór í gegnum margt með henni og ráðalagði henni meðal annars að taka c-vítamín daglega. Já, en hún sagðist borða appelsínur nánast daglega. Sérfræðingurinn svaraði því til að ef hún ætlaði að fá nægjanlegt c-vítamínmagn frá apelsínum þyrfti hún að borða kannski upp undir 50 stykki á dag vegna þess að jörðin væri orðin svo mergsogin að það væri ekki lengur meira að hafa frá einni appelsínu. (Kannski ýkti hann lítillega til að leggja áherslu á orð sín)
Þegar Súsanne kom til baka og sagði mér þetta fannst mér það svo auðskilið að jörðin væri mergsogin, en ætlaði äeg að útskýra það í tali eða á blaði þá gæti ég það ekki. Eins og ég hef sagt áður er ég ekki vísindamaðurinn, en það læðist samt oft að mér sterkur grunur um ýmislegt sem síðan fær allt í einu staðfestingu. Þannig reikna ég með að það sé með marga, bæði konur og menn. En vísindamaðurinn getur hins vegar rökstutt mál sitt.
Rafvirki nokkur hringdi til mín um miðjan mars og tilkynnti að hann mundi koma á ákveðnum tíma daginn eftir eftir til að ljúka ákveðnu verkefni.
Svo var bankað á dyrnar á tilsettum tíma daginn eftir og úti fyrir stóð kall, rétt eins og ég, utan nokkru yngri. Ég hafði aldrei séð hann áður. Vingjarnlegur var hann en við heilsuðumst ekki með handabandi, hefðum samt báðir viljað gera það. Hann gekk hreint til verks og á stuttum tíma lauk hann því sem gera þurfti.
Að góðum sið bauð ég upp á kaffi og jólaköku sem hann þáði. Við settumst ekkert of nálægt hvor öðrum við matarborðið. Hann rak augun í vindmyllurnar 16 á Kilsbergen þar sem þær blasa við allar með tölu, einmitt þar sem útsýnið er opnast gegnum skóginn móti vestri. Þarna voru þær nú beint fyrir framan hann séð út um vesturgluggann. Það leiddi tal okkar að rafmagni, hreinu lofti, að náttúrunni og kórónasjúkdómnum, og að náttúran virtist steyta hnefann móti gráðugu mannkyni.
Okkur þótti merkilegt hvað manneskjan væri uppfinningasöm þegar komið væri að því að pína fram eins mikil afköst af náttúrunni og mögulegt væri. Að hugsa sér, sagði rafvirkinn, eitt appelsínutré getur við eðlilegar aðstæður framleitt ákveðið magn af appelsínum en nú tekst fólki að pína fram tíu sinnum fleiri appelsínur af einu tré, og stærri líka, með mikilli áburðargjöf og kannski einhverjum öðrum efnum sem við vitum ekkert um.
Merkilegt! Aftur bar appelsínur á góma.
Hann sagðist hafa verið að hugsa um að setja sólarpanel á þakið heima hjá sér, "en kellan mín er á móti", því sagði hann. Hann sagði að þau væru sammála í flestu, bara öllu, en þarna hefðu þau ekki sömu skoðun. Þau hefðu samt alveg efni á því að fjárfesta í þessu.
Svo töluðum við um nægjusemi, að vera ánægður með sitt. Við vorum undrandi á óróleika alls þess fjölda sem þýtur heimshornanna á milli í leit að gleði og hamingju, hugsandi hreint ekki neitt um þann heim sem við komum til með að skilja eftir okkur til framtíðarinnar þegar við föllum frá. Hann talaði um að hann og kellan hans hefðu það mjög gott, þau væru ekki í þörf fyrir meira en það sem þau hefðu og svo framvegis. Hann talaði fallega um kelluna sína. Ég tók í sama streng. Við vorum hóflega gamaldags báðir tveir, nægjusamir og þekktum okkur í hvor öðrum.
Í þessum línum gaf ég rafvirkjanum mesta orðið en umræðan var okkar beggja. Ég blaðra svo mikið um sjálfan mig og mér fannst þægilegt að láta annan mann staðfesta skoðun mína.
Hann leit á klukkuna og reisti sig upp úr stólnum. Hann átti að vera mættur á öðrum stað eftir nokkrar mínútur, var orðinn of seinn, en sagðist vilja sitja hérna mikið lengur, við hefðum átt svo notalegt samtal. Ég var honum hjartanlega sammála. Svo litum við hvor á annan og kvöddumst með handabandi.
Hann ók til nýrra verkefna en ég þvoði mér um hendurnar og sprittaði mig á eftir. Ég gekk líka til minna verkefna og hugsaði út í það að innihaldið í samræðum okkar hafði í fyrsta lagi verið um þörf meiri dyggðar og góðs ásetnings, hugtök sem því miður hafa misst svo mikið af gildi sínu í of fjölmennum og gráðugum heimi.
Kommentarer
Trackback