"Sólarorkuverið" mitt á þakinu

Það var snemma vorið 2020 sem ég var að hreinsa til hér úti eftir að fagmenn höfðu verið uppi á þaki við að ganga þar frá sólarsellum. Ég var dálítið montinn yfir sólarsellunum mínum og framtaki mínu yfir að hafa drifið í að koma þessu endanlega í framkvæmd. Ég hafði ekkert á móti því að vera framan við húsið þegar fólk gekk framhjá og vildi gjarnan heyra viðbrögðin.
 
En það voru engin viðbrögð fyrr en maður einn sem á heima hér í sveitinni gekk hjá og heilsaði hressilega. Svo hafði hann orð á því að ég hefði orðið fyrstur í byggðarlaginu til að fá mér sólarsellur. Ég fann fyrir svolítilli "vá" tilfinningu því að nú hafði einhver tekið eftir framtakinu. Því næst spurði hann hversu mörg ár það tæki fyrir mig að fá til baka kostnaðinn sem ég hefði lagt út fyrir þessu.
 
Ég gaf honum mjög einkennilegt svar, það að ég hefði reyndar engan áhuga fyrir því. Ég sagðist hins vegar hafa átt peninga til að borga þetta í eingreiðslu og ég vænti þess að það mundi lækka mánaðarútgjöld mín upp undir 600 krónur á mánuði (um það bil 8700 ísl krónur). Jú, hann sagði að svo gæti maður líka hugsað, en þar sem ég veit að hann vinnur með fjármál fyrirtækja var spurning hans mjög eðlileg.
 
Ég sagði honum einnig að ég ætti nokkur barnabörn og barnabarnabörn sem ég væri að taka tillit til. Flest þeirra væru ennþá svo ung að þau gætu ekki tekið þátt í því að taka ábyrgð á umhverfismálunum. Ég tæki meira tillit til þeirra sem ennþá væru svo ung, en til þeirra sem væru komin á ábyrgan aldur. Ég heyrði vel á rödd hans að hann skildi mig.
 
Nokkru eftir þetta samtal var sólarorkuverið mitt á þakinu búið að fá löggildingu og ég naut þess að sjá mælinn sem fylgdi sem sýndi framleiðslu sem var framar mínum vonum.
 
 
 
 
Ég get alls ekki sagt að "sólarorkuverið" mitt á þakinu sé staðarprýði, en ef það getur verið einhver miljarðs hluti af prómilli í að gera heiminn lífvænlegri fyrir barna- og barnabarnabörnin mín -að viðbættum öllum öðrum heimsins barnabarnabörnum, þá væri það alls vert. Svo er annað mál, og það er það að ég sit mjög sjaldan á stól utan við húsið og stari upp á þakið. Það spillir því engu fyrir mig þannig.
 
Í sambandi við þessa framkvæmd hitti ég áhugavert og skemmtilegt fólk. Til dæmis maðurinn sem stjórnaði og vann við að ganga frá sólarsellunum á þakinu. Hann var í kaffitíma á fjórum fótum á stofugólfinu við að skoða mótorhjólið sem Susanne hafði gert úr legókubbum. Hann er nefnilega mótorhjólamaður. Af tillitssemi vildi hann skoða þetta án þess að káfa á því.
 
Mér er líka minnisstæður maðurinn sem kom til að löggilda verkið. Það var á tímum þegar fólk mátti ekki lengur heilsast eða kveðjast með handabandi. Hið góða samtal sem við áttum yfir kaffibolla eyddi síðasta vafa mínum um hvort ég hefði verið að gera rétt með fjárfestingunni eða ekki. Við kvöddumst svo sannarlega með handabandi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0