Snorri Björnsson minningarorð

 
Við erum á Kálfafelli í Fljótshverfi fyrir nærri 70 árum og við Snorri bróðir sem vorum tveir yngstu bræðurnir í sjö systkina hópi, vorum mikið saman og það var margt baukað. Hann var tveimur árum yngri. Við lékum okkur með leggi og skeljar, kjálka og völur, en ekkert með það sem börn leika sér með í dag. Það var ekki til. Við smíðuðum líka kassabíla sem kannski voru ekki svo snotrir, en þeir voru góðir í vegavinnu. Einnig lásum við ævintýrabækur, svo sem Ævintýradalinn, Ævintýrakastalann og sex aðrar Ævintýra eitthvað sem ég man ekki lengur. Þegar ég var ellefu eða tólf ára gaf Snorri mér í jólagjöf upptrekkta litla jarðýtu. Mamma og Snorri höfðu staðið fyrir þessari jólagjöf í sameiningu og spurðu mig síðar hvort mér þætti þetta of barnaleg jólagjöf. Nei, ég hélt nú ekki. Ég hafði aldrei fyrr séð svona nútímalegt leikfang og mér fannst sem Snorri hefði gefið mér mikið stærri jólagjöf en ég honum. Við vorum börn þess tíma þegar leggur og skel voru enná barnaleikföng. Við áttum báðir köflóttar stuttbuxur og jakka, allt í sama lit. Ég reikna með að við höfum verið í þessum fötum í fyrsta lagi um helgar og okkur fannst við vera fínir í þeim. Í þá daga var enginn hringvegur og vegurinn frá Reykjavík endaði á Kálfafelli, holóttur vegur, hlykkjóttur og víða nokkuð niðurgrafinn. Víða stóðu steinar upp úr veginum sem skóku bíla og köstuðu þeim til. En samt kom ferðafólk æði oft, stoppaði á Kálfafelli og gekk þar um og skoðaði meðal annars kirkjuna. Það komst einfaldlega ekki lengra því vegurinn endaði þar.
 
Þannig er það í minningunni. Í minningunni lifir líka að þetta ferðafólk hafði verið með æði mikið af sælgæti. Við lærðum snemma að vera á ferðinni úti við þegar þetta fólk kom, reyndum að svara spurningum og fengum oft drjúgan skammt af sælgæti. Svo kom Fríða systir inn í þennan hóp, en hún var nokkuð yngri og yngsta systkinið. Það er til mynd af okkur þremur þar sem við stöndum hlið við hlið og sjá má að eitthvað okkar hefur sælgæti í munni. Við Snorri erum þar í fínu stuttbuxunum og tilheyrandi jökkum, en Fríða í fínum kjól og með spennu í hári. Svona stundir voru hamingjustundir. Sumir ferðalangar tóku myndir við svona tækifæri og sendu einstaka sinnum heim til okkar á Kálfafell. Detta er heimurinn sem Snorri fæddist inn í. Yngra fólk og fólk upp að miðjum aldri getur varla gert sér grein fyrir hvernig sá heimur leit út. Mannfólkið og dýrin líta svipað út og þá, einnig jörðin, vötnin og himininn. það mesta annað hefur breytst.
 
Snorri fæddist 1944. Árið 1972 var hann orðinn kúabóndi á Kálfafelli. Hann byggði myndarlegt íbúðarhús, fjós og hlöðu sem hann tæknivæddi vel í samræmi við það sem þá þekktist. Vel gekk hann frá öllu, var snyrtimenni fram í fingurgóma. Ný tún ræktaði hann í talsverðum mæli ásamt Stefáni bróður okkar. Hann fékk viðurkenningar fyrir góða mjólk. Hann skilaði góðu dagsverki. Í árslok 2006 hætti hann kúabúskap og við tók sonur hans Björn Helgi ásaamt konu sinni Ragnheiði Hlín Símonardóttur. Þegar Snorri hætti kúabúskap flutti hann á Seljaland í Fljótshverfi ásamt konu sinni Ragnheiði Runólfsdóttur. Á Seljalandi höfðu búið um árabil fjögur móðursystkini okkar, en mamma okkar og 13 systkina hennar fæddust öll þar og ólust upp. Einn hálfbróðir mömmu fæddist hins vegar í Árnessýslu og ólst þar upp. Snorri var mikið á Seljalandi í þó nokkur ár fram til tíu eða tólf ára aldurs og varð svolítið eins og barn þeirra systkinanna sem í áratugi bjuggu þar saman. Ein áramót dvöldum við Snorri báðir hjá þeim. Við vorum þá kannski tíu og tólf ára og vorum þar í nokkra daga. Þó ég væri ungur merkti ég vel og man vel hversu mikinn kærleika Seljalandssystkinin báru til hans. Að lokum eignaðist hann Seljaland og þar bjuggu þau hjónin þar til fyrir nokkrum vikum þegar þau fluttu á Klausturhóla á Kirkjubæjarklaustri og skömmu síðar kom síðasta kallið. Einhvern veginn varð það svo þegar kom að fullorðins árunum að vegir okkar bræðra lágu of lítið saman. Ég get saknað þess en þar verður ekki úr bætt. Nú er hann kominn þrepi á undan mér og kannar þær víddir sem eru okkur huldar í tilverunni. Ég kalla það oft að vera kominn heim. Allar góðar óskir fylgja þér elsku bróðir og ef til vill komum við til með að finna nálægð hvors annars á öðru tilverustigi. Vegni þér vel Snorri bróðir minn frá Kálfafelli.
 
 
 
 Eitt sinn vorum við Snorri ungir menn og hér er mynd af honum frá þeim árum.
 
 
 
 Snorri og Ragnheiður á yngri árum.
 
 
 
 Snorri og Ragnheiður með soninn Rúnar þór á milli sín.
 
 
 
 Snorri og Ragnheiður með soninn Björn Helga á milli sín.

 

Útför Snorra fer fram frá Kálfafellskirkju í dag, föstudaginn 1. nóvember kluckan 13,00. Ég mun fylgjast með útförinni í sjónvarpi hér heima hjá mér í Svíþjóð. Farðu í friði bróðir minn.



Kommentarer
Documentiiq

By the end of the 15th century, 35

2025-01-31 @ 19:09:54


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0