Gestakoma

Það kom fólk í heimsókn í vikunni. Rósa dóttir mín og Hannes Guðjón barnabarnið mitt óku í hlað á þriðjudaginn. Þau eru bæði kunnug flestu hér og það mundi vera erfitt fyrir mig að fela nokkur stærri leyndarmál fyrir þeim hér á Sólvöllum. Meðan á þessari heimsókn stóð var Susanne í Eskilstuna að hjálpa syni og tengdadóttur með nokkurra vikna gamla tvíbura. Hún var ekki að stinga af, hennar hafði bara verið beðið um nokkurt skeið.
 
 
 
Það fyrsta sem við gerðum var að fara í eftirlitsferð um skóginn. Ég varð að sýna þeim fallin tré eftir vindasama daga að undanförnu, alls ekki stormasama en vindasama. Það er einhvern veginn inprentað í mig að þessi skógur sé afar merkilegur enda er það skógurinn minn. "Minn", ef það er hægt að segja svo um þá lifandi náttúru sem skaparinn lagði upp í hendur mínar. Þarna til hægri við hann Hannes er eik, eik sem er þó nokkuð hærri en ég. Ég veit ekki hvað þær eru margar eikurnar af þessari stærð, milli fimmtíu og hundrað get ég ímyndað mér og svo allar hinar fjölmörgu sem eru bæði minni og stærri. Ég hlúi að þeim og gef þeim pláss og ef það verður hagstætt sumar fyrir þær í ár, þá verður yfirbragð skógarins "verðandi eikarskógur" að hausti. Og þeim til aðstoðar verða beykin sem ég gróðursetti fyrir þrettán árum. Eikur og beyki rekja saman ættir ef ég skil rétt þær bækur sem ég les um skóg.
 
 
 
En nú gleymdi ég gestunum. Ég blaðra oft og mikið og þá snýst mikið um minn eigin hugarheim. Þegar það koma gestir verður að vera eitthvað sæmilegt í matinn. Þegar ég byrjaði að laga til íslenska lambakjötið kom Hannes og ég þurfti ekki að segja honum til. Hann hafði heyrt hvað ég hafði hugsað mér að gera og þá vissi hann upp á hár hvernig átti að gera. Svo sést á myndinni að hann er meiri kokkur en ég. Hann er með uppbrettar ermar en ekki ég.
 
 
 
Við fórum nokkrum sinnum út í skóg. Á þessari mynd erum við inni í skóginum hans Mikka á Suðurbæ. Það er mikill kostur að geta notið einfaldleika og þarna er Hannes himinlifandi yfir því að hafa náð upp þunnu og stóru klakastykki. Hann náði upp nokkrum svona en þetta var þó það stærsta. Heimurinn væri mikið einfaldari ef sem flestir gætu notið einfaldleikans á þennan hátt.
 
 
 
Í gær sagði Rósa við mig, "pabbi, það er alveg hræðileg óreiða á skrifborðinu þínu". Ég vissi það vel og roðanaði í laumi. Svo fór hún inn í stofu og ég þreif skrifborðið og tók til á því. Ég er feginn að þið sáuð ekki þessa óreiðu og rykkögglana sem voru innan um leiðslur og ónotuð tæki. Þegar ég var búinn að þessu horfði ég á þetta fína skrifborð og minntist þess hve fínt mér fannst það þegaar Pétur tengdasonur hafði skrúfað það saman fyrir mörgum árum. Það var svo fínt þá líka. Svo tengdi Rósa á einfaldan hátt það sem sést á borðinu og gerði einfalt fyrir mig að nota tækin. Ég get vel notað tölvu ef einhver hjálplegur eða hjálpleg leggur tækin tilbúin upp í hendurnar á mér.
 
 
 
Vitið þið hvað þetta er? Jú, þetta er útsýnið út um gluggann sem er hinu meginn við skrifborðið. Það er lauf og það er sina og það er frekar óásjálegt. En þegar vorið hefur lagt sinn dásamlega faðm yfir þetta í fáeinar vikur, þá verður gaman að sitja hér og skrifa blogg. Ég veit að þetta útsýni sleppir andanum lausum, en þó bara ef ég sest hér niður og gef honum kost á því að fara á flug.
 
 
 
Ég er orðinn skammarlega lélegur við að taka myndir af fólki sem ég hitti og fólki sem kemur í heimsókn. Rósa tók hluta af myndunum sem ég hef notað i þetta blogg. Vegna þessa nota ég hér mynd sem veitingafólk tók af okkur þegar ég fór í jólaheimsókn til fjölskyldunnar í Stokkhólmi og við skruppum út í kaffi á fallegum stað þar sem sá yfir Mälarens sund, eyjar og annes. Flestir sem líta á bloggin mín, ef ekki allir, vita hverjir eru á þessari mynd. En ég kynni samt: Pétur tengdasonur, Hannes Guðjón barnabarn, Rósa dóttir mín og svo ég. Allir eru glaðir nema ég. Það er eins og ég sjái eitthvað bakvið þann sem tók myndina en svo var ekki. Ég bara er oft svona.
 
What do you want to do ?
New mail
 
 
 
What do you want to do ?
New mail
 
What do you want to do ?
New mail
 
What do you want to do ?
New mail
RSS 2.0