Páll Björnsson frá Kálfafelli

"Kynslóðir koma, kynslóðir fara", segir Matthías Jochumsson í sálmi sínum. Svo hefur það alltaf verið og mun alltaf verða. Við vitum af fólki sem stríðir við veikindi og mun ekki eiga afturkvæmt frá þeim, og einmitt þannig var það með hann Pál bróður minn.  Samt brá mér þegar ég fékk að vita að hann væri dáinn.

 
 
 
Þáttaskilin eru svo ótvíræð og það er mikð sem aldrei mun verða framar. Við munum aldrei oftar talast við í síma við Páll bróðir og tala um hvernig samferðafólkið hefur það eða hvað er að ske í stjórnmálunum og svo margt annað.
 
 
 
 
Við munum ekki sitja oftar við matarborðið á Kristnibrautinni með útsýni yfir Úlfarsdal og til Úlfarsfells og borða nýbakaða jólaköku. Hann mun aldrei framar fara með mig um höfuðborgarsvæðið þegar ég kem í Íslandsheimsókn og sýna mér nýjustu hverfin, eða aka vestur á Seltjarnarnes og horfa hljóðlega yfir óspillta náttúru iðandi af lífi.
 
Það síðasta sem við gerðum af þessu tagi var að fara austur undir Nesjavallasvæðið og horfa inn til landsins. Það er rúmlega eitt og hálft ár síðan. Þar voru fjöll og fjallatoppar með forvitnileg nöfn og við vissum um sum örnefnanna, í fyrsta lagi þó Páll, en önnur voru óljós. Síðar í símtali sagði hann mér frá því sem vantaði inn í þá mynd. Hann vildi hafa það allt á hreinu.
 
Minningar verða óljósar en sumar skýrari en aðrar. Samt eru þær kannski ekki nákvæmlega rétt mynd af því sem minningin fjallar um. Mínar minningar eru samt minn raunveruleiki.
 
Það eru sjálfsagt nær sjötíu ár síðan að nokkur af okkur í Kálfafellsfjölskyldunni stóðum austan við Kálfafellsbæinn á einu af þessum allra kyrrlátustu frostkvöldum sem hægt er að hugsa sér með lýsandi tunglið hátt á lofti.
 
Hverfingar voru í fjöruferð á ís til að sækja rekavið sem var löng leið að fara og Páll var þá í sinni fyrstu fjöruferð. Eflaust hefur foreldrum okkar verið hugsað til þess hvernig honum vegnaði í ferðinni og þarna stóðum við og hlustuðum eftir hljóðum frá hjólum hestvagnanna á víðáttumiklum ísunum, og við töldum okkur heyra til þeirra. Þar með væru þeir væntanlega að nálgast byggð. Ég held að ég hafi gert mér grein fyrir að Páll var bara unglingur og að kannski væri þetta hörð frumraun fyrir hann. Fyrir mig sem barn var eitthvað stórbrotið við þessa kvöldstund og ég tel að það sé þess vegna sem ég álít mig muna þetta. Hvort við raunverulega heyrðum svo hljóðin verður aldrei sannað.
 
Hvað var fjöruferð á ís til að sækja rekavið um og fyrir miðja síðustu öld? Það er kannski ekki það sem ungt fólk, eða miðaldra fólk, gerir sér grein fyrir lengur. Það fjallaði um að komast af. Páll var einmitt af þeirri kynslóð sem vissi hvað það var berjast fyrir því því að komast af. Við þekktum það öll Kálfafellssystkinin en í fyrsta lagi þau elstu og Páll var elstur af okkur sjö.
 
Svo fór hann í skóla á Hvanneyri og kom í heimsóknir þegar möguleikar gáfust. Eitt sinn þegar við vorum bara tveir saman meðan á slíkri heimsókn stóð spurði hann hvort hann ætti að sýna mér mynd. Svo sýndi hann mér mynd af ungri fallegri konu. Ekki man ég hvað hann sagði um myndina eða þessa fallegu konu, en ég skildi að Páll bróðir var ástfanginn.
 
 
 
 
Þessi kona heitir Guðrún Albertsdóttir og er frá Erpstöðum í Dölum og það er hún sem bakaði jólakökurnar sem við höfum svo oft borðað saman á Kristnibrautinni. Það eru 65 ár síðan þau kynntust. Í fyrra áttu þau 60 ára brúðkaupsafmæli og þá er þessi mynd tekin.
 
Mörg fyrstu búskaparár Páls og Guðrúnar í Reykjavík var það eins og sjálfsagður hlutur okkar í Kálfafellsfjölskyldunni að leita á náðir þeirra þegar við áttum erindi til Reykjavíkur. Ég meira að segja fékk að búa hjá þeim um tíma. Ég finn mig skuldugan. Það er því tími til kominn fyrir mig að þakka af öllu hjarta fyrir mig og þau hin systkini mín gera það einnig.
 
Páll bróðir. Hugur minn er mikið hjá þér þessa dagana. Í þeim mæli sem mér er unnt læt ég hugsanir mínar vera með þér í þeim ókunnu víddum sem sem er framtíðarlandið þitt og seinna okkar hinna. Þakka þér hjartanlega fyrir samveruna.
 
Guðrúnu og börnunum Birki og Hildi, barnabörnum og barnabarnabörnum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
 
Páll verður jarðsettur frá Bústaðakirkju klukkan 13 í dag. Aðstæður allar eru þannig í heiminum í dag að ég get ekki verið nálægur en hugur minn verður þar.
 
What do you want to do ?
New mail
 
What do you want to do ?
New mail
 
What do you want to do ?
New mail
 
What do you want to do ?
New mail
 
What do you want to do ?
New mail
 
What do you want to do ?
New mail


Kommentarer
Eva

Fallega skrifað. Samúðarkveðjur til þín elsku vinur.❤️

Svar: Þakka þér fyrir Eva mín.
Gudjon

2020-06-02 @ 17:10:49


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0