Að hlakka til morgunverðarins á morgun
Ég get ekki betur skynjað en það hafi vorað öðru sinn á þessu ári. Eftir marga og ríkulega heita daga kom regn og gulu, sólþornuðu birkilaufin féllu til jarðar og ný virðast hafa komið í staðinn. Í tveimur áföngum hefur rignt um 75 mm. Skógarsóleyjar og sifjarlyklar hafa að vísu ekki sprungið út aftur en skógarnir eru safaríkir að sjá og þakklátir hreinlega virðast þeir vera. Á leiðinni heim úr vinnu í gær sá ég mjög vel hvernig skógarjaðrar í fjarlægð höfðu fengið græna litinn endurnýjaðan. Í dag fórum við Valdís til Örebro og á leiðinni til baka gátum við ekki orða bundist yfir hinum veltigrænu, lifandi skógarumgjörðum sem umluktu akra og engi. Akrarnir höfðu líka fengið lífgjöf sem gáfu þeim ferskan blæ og sólgulnuð, troðin Sólvallalóðin er orðin græn aftur. Sólin skín næstum lárétt inn í skóginn utan við gluggann minn á þessu augnabliki og kvöldkyrrðin er að ganga í garð.
Í gærmorgun kom ég heim úr vinnu um hálf ellefu leytið. Ég var þreyttur eftir óvenju erilsama helgi. Mjög erilsama helgi skal ég viðurkenna. Ég var þó ákveðinn í að snúa mér að byggingarvinnu við heimkomuna sem ég og gerði. Svo fórum við Valdís til Örebro og tókum meðal annars síðasta dótið sem við áttum þar í geymslu hjá gamla húsfélaginu okkar, hentum sumu og drösluðum öðru með okkur til Sólvalla. Það var skömmu áður en við héldum heim frá Örebro aftur sem mér fannst sem ég hefði bómull innan í höfðinu en ekki þennan mikilvæga heila sem ég hef svo lengi haft not af. Ég þurfti með köflum að halda aftur af mér til að fara hreinlega ekki í fýlu og ég vissi að orsökin væri þreyta.
Þegar heim var komið frá Örebro hélt ég byggingarvinnunni áfram þar til Valdís bauð upp á ilmandi kjötsúpu af hæsta gæðaflokki. Eftir það gengum við að sjónvarpinu og horfðum á Fjöldasöngur Gautaborg. Að horfa á get ég sagt þegar Óli vinur minn Lokbrá sleppti mér lausum til að sjá og heyra bestu lögin í þættinum. Svo sagði Valdís allt í einu; hann Lars er að koma. Við þau orð uppgötvaði ég að ég hafði verið kominn langt inn í draumalandið en ég stóð upp og fór út á móti Lars. Við vorum smá stund á rölti hér út í skóginn, kringum húsgrunninn og svo spörkuðum við svolítið í verðandi gólfbita sem eru snyrtilega frágengnir undir tjaldi á lóðinni. Meðan við vorum þarna úti hugsaði ég með mér að það væri undarlegt að ég virtist bara vera úthvíldur eftir svefninn yfir sjónvarpinu og bómullin í höfðinu var þar ekki lengur.
Það var ekki fyrr en í morgun þegar ég vaknaði eftir svefn í átta og hálfan klukkutíma sem ég áttaði mig á því að ég hafði bara verið hálf ringlaður þegar ég var úti að spjalla við Lars. Ég fór fram úr rúminu og fann að nú var ég kominn í form, svo gott form að áður en ég fékk mér morgunverð tók ég með mestu ánægju alla reikninga, dró þá upp úr umslögunum og raðaði þeim upp til greiðslu síðar í dag. Svo kom Valdís í gang líka og við borðuðum morgunverð og allt var svo gott. Ég var úthvíldur. Þegar ég var á öðrum kaffibollanum eftir morgunverðinn skeði það. Ég fann fyrir vorinu í öllum mér og allt um kring og mér þótti óvenju vænt um Valdísi. Það var þá sem mér datt þetta í hug að við værum að upplifa vor öðru sinni á þessu ári.
Reikningarnir eru greiddir, kvöldhúmið er að leggja sig yfir sveitina og Valdís horfir á íþróttafréttir í sjónvarpi. Eikur og bjarkir fyrir utan gluggann eru svo hreyfingarlausar að það er hreint alveg ótrúlegt. Það fara sögur af því að tré drekki mikið vatn. Ég las mig til um það fyrir stuttu og komst að því að stórt tré getur drukkið 200 til 400 lítra á sólríkum degi. Tré sem stendur á víðavangi með mikla laufkrónu drekkur meira en tré sem hefur takmarkaða krónu inn í skógi.
Og reikningarnir eru greiddir. Reikningar fyrir byggingarefni og vinnu voru lægri en ég hélt og auðvitað er ég glaður yfir því. Eftir að ég æfði mig í því að þykja gaman að borga reikninga fóru svona skrýtnir hlutir að ske. Það fór að verða afgangur og mér fór að líða betur. Þessi æfing var full alvara sem skilaði frábærum árangri. Óli verður nú vinur minn í nótt og ég er farinn að hlakka til morgunverðarins.
