Sunnudagsskýrsla

Eiginlega er ég ekki í formi til skýrslugerðar á þessu kvöldi en ég veit líka að ef ég sleppi því núna verður engin skýrslugerð næstu dagana. Á morgun koma smiðir og ég þarf að tala við þá og svo þarf ég að koma mér í vinnu fyrir hádegi. Svo er það vinna fram á þriðjudagsmorgun. Svona getur það gengið meðan ég er bæði launþegi og húsbyggjandi. Þessi húsbygging þarf að komast frá sem fyrst og vinnan að minnka, þá verður næstum endalaus tími til skýrslugerðar.

En alla vega; við héldum austur á bóginn í morgun, austur til Södermanland. Södermanland er vatnaríkt svæði eins og héraðið norðan við Örebro sem við heimsóttum í gær. Við ætluðum að borða hádegisverð á einhverjum fallegum stað en þar sem við vorum vandlát borðuðum við ekki fyrr en á þriðja staðnum sem við heimsóttum, Fiskeboda við Hjälmaren. Áður höfðum við litið inn á Hjälmargården við Hjälmaren og Julita við vatnið Öljaren. Hvorugt þeirra staða uppfyllti "hárfínar" kröfur okkar á góðan hádegisverð.


Það tókust næstum engar af myndunum sem við tókum í dag. Sólin "gassaði" geislum sínum yfir land og haf ofan frá eins og veðurfræðingar hafa sagt síðustu dagana og þar sem vötn eru gassar birtan úr þeirri áttinni líka. Þetta átti myndavélin erfitt með að yfirvinna. Ég kann líka tæpast á þá vél sem við erum með núna og allra síst við svona flókin skilyrði. En alla vega; þessi mynd er tekin yfir útsýnið sem við höfðum frá hádegisverðarborðinu okkar í dag. Við sjáum þarna út á vatnið Hjälmaren og út til skógi vaxins tanga í vestri sem gengur langt út í vatnið. Einmitt þar vorum við fyrr um daginn á Hjälmargården að kanna hádegisverðinn. Það var eiginlega mest fjölmenni sem dreif okkur þaðan á vit frekari hádegisverðarævintýra.


Hún Þóra Björgvinsdóttir benti á það í ummælum um bloggið mitt í gær að það væru bara myndir af Sólvallastelpunum. Hún taldi að það ætti að vera mynd af Sólvallastráknum líka. Hér er mynd af öllum ferðahópnum sem ung stúlka í Vingåker vinnandi á veitingahúsinu í Fiskebota tók fyrir okkur. Það svo sem fer ekki mikið fyrir mér á myndinni en hún sannar þó alla vega að ég var með.


Eftir mat fórum við niður í fjöru. Ég hef svo sem náð mörgum betri fjörumyndum í þessu landi en þessi fær þó alla vega að fara með. Sólvallastelpurnar spurðu mig á heimleiðinni hvort ég hefði talið trén en mér tókst það ekki.


Hægra megin þarna uppi borðuðum við og ég er til í að fara oftar til Fiskeboda að borða með fólki sem kannski kemur í heimsókn. Við nefnilega drögum að gera svona smá tilbreytingu í hverdagslífið og því er gott að fá fólk í heimsókn til að það verði af.


Á heimleiðinni sáum við svo þessa hirti og marga fleiri. Það eru allar líkur á annarri hitabeltisnótt nú í nótt og án efa verður hitabeltisloftslag hér innan húss. Á morgun er svo mánudagur og "grár hversdagsleikinn tekur" við. Hann er að vísu ekki grárri en svo að ég hlakka venjulega til morgundagsins. Ég er það barnalegur að ég hlakka oft svo mikið til morgundagsins að ég vona að sofandi nóttin líði fljótt. Og þar að auki er ég svo barnalegur að ég segi frá því.



Kommentarer
þóra H Björgvinsdóttir

Flottar frásagnir hjá þér gaman að sjá kvað gengur vel að byggja við húsið og Sólvallastráknum tekur sig vel út í faðmi Sólvallastelpnanna á ferðalaignu

kveðja

2010-07-06 @ 20:13:43


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0