Uskavi og Nora

Heitasti dagur sumarsins gekk í garð í morgun og það var ekkert óvænt. Veðurfræðingarnir voru búnir að spá þessu. Það var fyrr í vor, eða snemmsumars, sem margir voru farnir að óska þess að virkilega hlýr dagur gengi í garð. Það var lengi búin að vera hálfgerð kuldatíð eftir skítkaldan vetur. Svo var það eitt kvöld að ég horfði á hana Jennicke lýsa veðurspánni í sjónvarpinu og hvað sagði ekki blessuð konan? Jú, hún sagði að nú kæmu hlýindin loksins á morgun. Ég stóð þarna fyrir framan sjónvarpið bara til að sjá veðurfréttirnar, bakvið stólinn sem ég sit í ef ég horfi á sjónvarp í alvöru, og mér varð hugsað þegar ég heyrði þetta; ég elska þessa konu. Svo áhrifaríkt var að heyra að hlýrri dagar væru í innsiglingu.

En í dag var búið að spá 30 stiga hita og það var líka 30 stiga hiti. Það var löngu ákveðið að fara í smá ferðalag þennan dag. Við vorum búin að ákveða að fara eina 50 til 60 km norður fyrir Örebro og borða þar einhvers staðar. Við búum svo nálægt Örebro að nú og framvegis munum við miða við fjarlægðir útfrá borginni. Við vorum líka með það í huga þegar við ákváðum þessa ferð að geta notast við kælinguna í bílnum ef okkur fyndist hitinn verða þrúgandi. Ferðahópurinn var Sólvallastelpurnar og ég. Ég held að ég sé búinn að kynna Sólvallastelpurnar áður þannig að ég fer ekki yfir það aftur.

Maturinn er alveg að koma, slappa af á meðan
Þarna erum við kominn inn í veitingahús á stað sem heitir Uskavi og er einmitt 50 til 60 km norðan við Örebro. Birtuskilyrðin til að taka mynd af Árnýju, Valdísi og Önnu Björgu voru ekki þau bestu þarna inni þar sem sólskinið flæddi inn um alla glugga. Uskavi stendur við stöðuvatn sem heitir Usken og er hluti af vatnasvæði sem gerir heilt hérað hreint alveg ótrúlega fallegt. Ég sagði þeim frá ferðum sem ég átti þarna uppeftir á leitarárunum. Leitarárin eru árin þegar ég leitaði ljósum logum að sumarbústað eða stað fyrir sumarbústað. Valdís vissi ekki um allar þær ferðir áður en veit um þær flestar núna held ég.

Uppstilling númer tvö
Eftir steikta rauðsprettu, vínarsnittsel, ís og kaffi tókum við okkur út í hitann á ný. Sólvallastelpunum var stillt upp hvað eftir annað svo að það yrði nú ekkert vafamál að þær hefðu verið á ferðinni hér í utlöndum. Þarna vinstra megin við þær er rautt lítið hús með hvít horn, glugga og vindskeiðar, en allir sem komið hafa til Svíþjóðar vita að landið er ríkt af þessum fallegu húsum og Sólvellir eru eitt af þeim. Yfir húsið sjáum við svo vatnið Usken og stóra eyju sem er í vatninu beint á móti veitingahúsinu Uskavi.

Ekki uppstilling en Anna að bleyta stóru tána og Árný er á leiðinni, Valdís ætlar ekki
Þegar við komum svo niður að vatninu könnuðu þær Anna Björg og Árný hitann í vatninu. Það var sundlaugarhiti á vatninu sögðu þær en Valdís lét sér nægja að horfa á og lét ekki hafa sig í neitt unglingasprell. Frá vatninu fórum við í kirkjuna og þar var svalt og hljótt að dvelja svolitla stund.

Uppstilling þrjú
Frá Uskavi fórum við að Noravatninu norðanverðu. Það er svolítið skyldustykki þeirra sem heimsækja okkur að fara með okkur á þennan stað. Í brekku upp af þessum stað, brekku sem þær konur horfa á móti, hafði ég verið að snuðra á leitarárunum og gá að landi fyrir sumarbústað. Það var mér algjör sjúkdómur á tímabili að koma upp sumarbústað með útsýni yfir Noravatnið og eyjarnar sem við sjáum á myndinni.

Uppstilling 4
Síðan var það bærinn Nora þar sem sagan segir að boðið sé upp á besta ís í allri Svíþjóð. Staðreyndin er að árið 1923 gerði kona að nafni Selma ís eftir uppskrift sem hún hélt leyndri. Enn  í dag er uppskriftin leyndarmál og meðan við gæddum okkur á ísnum kom kokkaklæddur maður lítill handvagn og á vagninum var kútur sem við álitum fullan af ís gerðum eftir leyndamálinu mikla. Frá ísátinu héldum við í Norakirkju og þar var hljótt og gott að vera og íhuga í nokkrar mínútur og kveikja á kertum og hugsa til bæði lifandi og látinna.

Og að lokum ein mynd án uppstillingar
Svo bara verð ég að birta eina mynd þar sem þær konur eru ekki með. Þessi er tekin frá veitingahúsinu Uskavi yfir tjaldstæði, gróður, vatn og hnjúka. Þau voru mörg fallegu sjónarhornin sem við veittum athygli í dag. Við enduðum ferðina á að fara gegnum Karlskoga, bæinn sem Alfred Nobel rakti uppruna sinn til.

Hitinn hélt sér í 30 stigunum allan daginn og núna klukkan hálf tíu að kvöldi er hitinn 22 stig og það er spáð hitabeltisnótt í nótt. Hitabeltisnótt er það kallað hér þegar hitinn fer ekki niður fyrir 20 stig alla nóttina. Á morgun finnum við upp á einhverju nýju og við munum líklega halda okkur að sænsku vötnunum. Sænskt vatn umgirt fallegum skógi er fallegt vatn. Hér lýkur skýrslugerð dagsins ef einhver skyldi vilja kynna sér.


Kommentarer
þóra H Björgvinsdóttir

Flott ferð hjá ykkur og flottar myndir ,mér finnst Sólvallastrákurinn eigi að vera á einni mynd með Sólvallarstelpunum ekki bara á bakvið myndavélina ,

kveðja

2010-07-04 @ 00:47:11


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0