Skoðunarferð í Uppsala

Það er samdóma álit okkar í Íslandsnefndinni í Uppsala að þessi borg sé afar snyrtileg og aðlaðandi. Eins og ég sagði í bloggi fyrr í morgun voru götusóparnir komnir af stað tímanlega til að hreinsa upp dreggjar næturinnar og fljótlega eftir það var eins og borgin hefði aldrei verið annað en tandurhrein. Við fórum svo á gönguferð eftir hádegið upp í það sem við köllum kastalann og er beint vestur af gluggunum hjá Rósu og Pétri. Þetta er um hálfs kílómeters löng gönguferð og dálítið á fótinn. Þarna uppfrá sáum við alveg nýtt andlit af Uppsala. Þar sem ég er dálítið sveittur og þvalur eftir hita dagsins ætla ég að spara skáldagáfu mína og notast við myndir eins og ég geri oft þegar ég er nýskur á texta.


Uppi við kastalann er útsýni yfir vissa hluta af Uppsala og ef ekki væru mörg afar falleg og stór tré þarna uppi gæfi að líta ennþá meira af borginni þaðan. Að vísu má segja að ef við hefðum farið meira yfir kringum kastalann hefðum við trúlega notið enn meira útsýnis en við gerðum. En það var bara mjög fallegt þarna þó að sjálfur kastalinn væri ekkert til að hrópa húrra yfir. Auðvitað hefur það verið útsýnið þaðan sem fékk Gustav Vasa til að byggja kastalann á sínum tíma og enn í dag má sjá hluta af litlum fallbyssum sem dauðhræddir ungir hermenn hafa verið látnir skjóta af yfir þá óvini sem reyndu að sækja á brattann. Það hefur sjálfsagt margur hræddur ungliðinn látið lífið þarna fyrir stríðsglaða herra. Það eru líka fylgsni þarna uppi sem væntanlega hafa verið afskaplega eftirsótt af þeim sem ekki orkuðu sð sjá meira blóð renna. En við töluðum ekki svo mikið um þetta, gerðum okkur bara grein fyrir að alvarlegir hlutir hefðu átt sér stað þar í lífi margra. Við vorum þarna í öðrum tilgangi enda það besta sem við gátum gert í minningu þeirra sem reistu mannvirkin í hita og svita að koma og sjá.


Turnspírur dómkirkjunnar sjást víða að og broshýrar Sólvallastelpurnar prýddu nærmyndina. Það var gott að á þarna uppi eftir gönguna á brattann í 30 stiga hita. Með hvíldinni þarna vorum við að búa okkur undir næsta áfanga.


Næsti áfangi var þessi garður, Botaniska trädgården i Uppsala. Bótaniskur skrúðgarður er garður þar sem safnað er sem flestum jurta og trjátegundum frá sem flestum löndum heims. Botaniska trädgården í Uppsala er elsti botaniski skrúðgarður í Svíþjóð og tilheyrir háskólanum í Uppsala. Ekki hef ég fundið hversu gamall hann er, en eitt veit ég þó og það er að hann hefur í 350 ár verið bæði botaniskur skrúðgarður og skrúðgarður í vísindalegum tilgangi. Og hana nú.


Það eru mörg sjónarhornin þarna og eftir á að hyggja fórum við bara um lítið brot af þessum skrúðgarði. Við til dæmis litum ekki á gróðurhús þar sem eingöngu eru ræktaður er hitabeltisgróður.



Svo ræddum við hvort það væri maður eða kona andlitið sem mótað er í steininn þarna, en eitt veit ég; það er maður og kona sem standa við hliðina á andlitinu.


Að lokum ætla ég að gera svolítið grín að sjálfum mér. Ég bað um það í gær að þessi mynd væri tekin af mér undir þessu myndarlega beykitré. Þegar ég svo sá myndina hugdsaði ég bara sem svo að ég liti út eins og volaður guðsbarnageldingur á stuttbuxum. Ég lét mig samt hafa það að vera á stuttbuxunum í dag líka. Á morgun verð ég hins vegar að vera í öðrum buxum þar sem þessar eru orðnar sveittar og þreyttar. Á morgun er ferðinni heitið til Stokkhólms áður en vinkonurnar frá Íslandi fara á Arlanda.

Ég stend þarna undir beykitré. Það verður ekki fyrr en í öðru lífi sem við Valdís fáum að líta beykitrén sem við höfum gróðursett á Sólvöllum í þessari stærð. Það er eins og með kirkjubygginguna sem ég bloggaði um í morgun; höfundarnir sáu hana aldrei, þeir sem gróðursetja tré sjá þau aldrei verða gömul.



Kommentarer
þóra H Björgvinsdóttir

Sæll Guðjón skemmtilegar frásagnir af ferðunum Sólvallagengisins, þetta eru flottar myndir og loksins ert þú með á myndunum Anna Björg og Árný lifa eflaust lengi á minningum frá þessari ferð til ykkar hjónakornanna á Sólvöllum .

kveðja Þóra

2010-07-10 @ 22:30:00
Guðjón Björnsson

Ég vona sannarlega að þær geri það Þóra.



Kveðja, Guðjón

2010-07-10 @ 22:33:34
URL: http://gudjon.blogg.se/
lucke

Har lagt upp en video när jag spelar piano på bloggen. Säg gärna vad du tycker om den? :)

2010-07-10 @ 22:39:35
URL: http://modegrabben.blogg.se/
Guðjón Björnsson

Det är fint Lucke



Hälsning, Gudjon

2010-07-11 @ 22:40:06
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0