Sáðmaður gekk út að sá

Ég er búinn að vera með hálfunnið blogg síðan 24. júní og nú var um það að velja að henda því eða taka það aftur í vinnslu. Ég valdi að taka það aftur í vinnslu.

Það var nefnilega þannig að skógarjaðarinn var eiginlega alveg inn að húsgafli bakvið húsið og það er ekki svo sniðugt. Það til dæmis veldur raka og gróðri á húsum. Í vor tókum við okkur til í tilefni nýbyggingar og felldum fjórar bjarkir sem næst stóðu húsinu og klipptum burt nokkur smátré. Þar með var kominn möguleiki fyrir grasflöt bakvið húsið. Svoleiðis er alveg nauðsynlegt því að órækt og illtgresi nærri húsum býður upp á slöngur og mýs og meiri ágang af flugum svo eitthvað sé nefnt. Svo þegar hann Peter gróf fyrir viðbyggingunni gerði hann þessa fínu flöt bakvið húsið og ég hef sagt að hann gerði á 48 mínútum nokkuð sem ég hefði gert á 48 dögum með skóflu og hjólbörum. Þvílík ánægja að horfa á hann breyta þessum karga í slétta hallandi flöt og ekki minni ánægja að ráðast svo á flötina með garðhrífu og valtara. Svo þurfti ég auðvitað að fara út fyrir flötina, leggjast á hné, kíkja eftir flötinni, sækja mold í hjólbörur, bæta í lautir og valta svo enn einu sinni yfir.

Sáðmaður gekk út að sá og sáði ennþá meiru
Svo er það alskemmtilegasta að taka taka gulu, gömlu fótaþvottaskálina, hálffylla hana af grasfræi og byrja svo að sá. Ingemar garðyrkjumanni til mikillar ánægju nota ég alltaf helmingi meira fræ en upp er gefið og þá fær hann að selja mér helmingi meira fræ. Jöfn, hæg, stutt skref og dreifa jafnt og fara svo aðra umferð og jöfn stutt skref aftur og svo einu sinni enn. Þá er tilbúin jöfn og góð sáning og hægt að horfa yfir og hugsa; þetta er nú í góðu lagi. Svo er næsta skref.

Sáðmaður gekk út að sá
Áburður, vetlingur á áburðarhendina, jöfn stutt skref en heldur hraðari og svo þversum líka.

Guðjón dundar við að gera of vel frekar en hitt
Svo er ég svo sérvitur að ég tek mold í hjólbörurnar og strái dálitlu lagi af mold yfir áburð og fræ. Það mætti kannski halda að það taki eilífðar tíma en svo er ekki. Alla vega ekki þegar ég er búinn að fá mér einn kaffibolla og setja svo ótrauður í gang. Þá tekur það enda fyrr en varir. Svo er bara að valta og njóta þess hversu fínt svæðið verður. Peter kemur einu sinni enn um miðjan mánuð og þá fæ ég um 300 ferm að taka höndum um. Þá ætla ég að vera búinn að finna eitthvað apparat sem ég get notað til að koma fræinu á kaf því að ætla að kasta mold úr hjólbörum yfir 300 fermetra er kannski að taka vel upp í sig.

Það verður að annast alla þætti málsins. Það þarf að vatna vel í hitanum
Nú var Valdísar tími kominn að láta í té lífgjöfina eftir sáningu og frágang. Hún gekk út á flötina með garðslönguna og kom spíruninni í gang með móðurlegri vökvun. Ég ætlaði þá að fara að gera annað en það var bara svo gaman að horfa á þetta allt saman og njóta þess að ég veit ekki bara hvað. Það er mjög gott að vera svo barnalegur að geta haft gaman af svo einföldum hlutum. Það er tiltölulega ódýr ánægja, gerir engum illt og er auðvitað bráðhollt fyrir bæði sál og líkama.


Bráðholt fyrir bæði sál og líkama sagði ég. Svo fylgir þetta okkur dag eftir dag alla þá daga sem við erum heima. Fyrst kemur upp smá hýjungur og svo verður það heldur meira. Ef ég vann nótt í Vornesi þá sá ég mun þegar ég kom heim daginn eftir. Þessi mynd er ekki ný og í dag lítur þetta ennþá betur út. Meðan á heimsókn tveggja kvenna stóð um mitt sumarið var vel hýtt og þær systur Valdís og Árný voru iðnar með slönguna. Það bætti að sjálfsögðu árangurinn.

Ég sá mun ef ég vann nótt í Vornesi sagði ég. Fyrir átta dögum sáði ég í annan blett. Í gær rigndi 56 mm og hiti þessa dagana er ein 15 til 17 stig. Í morgun var farið að koma upp ef vel var að gáð og núna undir kvöldið er komin græn slikja á þá sáningu. Mannvirkjagerð (stórt orð yfir viðbygginguna á Sólvöllum) hefur umrót í för með sér. Mér finnst óþarfi að láta líta illa út og því er ég fljótur að ganga frá hverjum bletti fyrir sig þegar það verður mögulegt.

Meira um gróður og nú fjallar það um lúpínu. Það var hellingur af lúpínu við og í skógarjaðrinum. Nú held ég örugglega að hún sé endanlega uppgefin á mér og sé horfin með öllu. Í vor var kynnt athugun á dauða vissra blómategunda sem hafa vaxið í þessu landi frá örófi alda ef svo má segja en fóru svo að drepast og hverfa á vissum svæðum. Ástæðan er að lúpínan framleiðir bakteríu sem síðan drepur þessi blóm þegar magnið er orðið nógu mikið. Það er því lúpínuherferð í gangi í Svíþjóð núna. Ég er enginn vísindamaður en ég held að ég segi nógu rétt frá þessu. Aðgát skal höfð í nærveru náttúru og fara ekki offari við að breyta henni.


Kommentarer
þóra H Björgvinsdóttir

Sæll það er nú flott að sjá kvað þið eruð dugleg að gera fínt í kringum ykkur þarna í sveitinni og virðist vera einkver ofurkraftur í ykkur enþá vonandi hafið þið það gott og ekki ganga frá ykkur við þessar framkvæmdir kveðja

2010-07-30 @ 21:50:18
Guðjón

Það er mjög sjaldan Þóra sem mér eiginlega dettur í hug að ég sé orðinn 68 ára. Mér finnst oft að ég sé á þrítugs aldri. Ætli ég hafi bara ekki smitast af kallinum honum Björgvin í Hrísey. Skilaðu kveðju til hans.



Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni

2010-07-30 @ 22:09:56
Guðjón

Ég ætlaði nú að segja á fertugs aldri.



Kveðja, Guðjón

2010-07-30 @ 22:11:10


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0