Langa helgin framundan

Nú er ekki minna en mánuður liðinn þar sem hitinn hefur verið 20 til 32 stig. Kannski er einhver undantekning á þessu en ég held þó ekki. Meira að segja í rigningunni hér um daginn var bullandi hiti. Þegar ég segi 20 til 32 stig meina ég á mælinn sem er í norðvestur horninu og sól kemst aldrei að honum. Það er ágætt að skrifa þetta því að annars er eins víst að ég segi eftir á að þetta hafi verið sumarið þegar hitinn var 32 stig. Og ef ég miða við hitann þar sem við höfum verið að vinna í sól hefur hann væntanlega verið ein 37 stig.

Í dag mættu til Örebo Auður og Þórir sem aldrei láta sumar líða án þess að vera hér á ferðinni. Ég mætti þeim á járnbrautarstöðinni og er til vitnis um það að þau komu mitt inn í góðviðrið hér enda kvörtuðu þau alls ekki. Ég held nefnilega að þeim hafi þótt býsna notalegt að stíga út í sólskinið og það var alveg ágætt að um tíma var vestan gola eða stinningsgola sem nú er gengin yfir til annarra héraða.

Á morgun fer ég í vinnu og mér varð á að finnast í dag að ég vildi helst af öllu vera heima og þá tek ég vægt til orða. Ég hringdi því í  hann Ingemar, hinn ellilífeyrisþegann í Vornesi, og spurði hvernig stemmingin væri í húsinu. Bara góð, bara góð, svaraði Ingemar og svo ræddum við það aðeins nánar. Eftir það samtal var eins og það væri öllu bærilegra að fara til vinnu á morgun. Svo veit ég af gömlum vana að þegar ég kem þangað eftir klukkutíma ferð gegnum þetta fallega land og hitti væntanlega helgarskjólstæðinga mína, þá verður bara gott að finna sig verða að liði. Þeim leiðist ekki þessum manneskjum þegar ég vinn kvöld og helgar og við eigum margt sameiginlegt og okkur líður vel saman.


Það er í ýmsu að snúast þó að engin byggingarvinna hafi verið síðan á þriðjudag. Það er ekki svo búmannslegt að eiga eftir vinnu við eldiviðinn eftir þennan tíma og ef við hefðum ekki haft heimsókn vaskra kvenna um daginn sem tóku til hendinni við að kljúfa við, þá værum við ennþá skemur á veg kominn. Ég lýsi bara eftir fólki til eldiviðarvinnu að vori og jafnvel í vetur líka við að koma viðnum heim úr skóginum. Það var í gær sem Valdís setti viðarkljúfinn í gang á ný og klauf við á fullri ferði í eina þrjá klukkutíma.


Svo er ég þeim eiginleika gæddur að halda að ég sé bestur við að stafla upp viði. Ekki síst eftir að hann Arnold spurði mig um árið hvort ég hefði verið með hamar til að jafna endana. Ég neitaði því en svaraði hins vegar að ég hefði læðst út um nóttina eftir með hamarinn til að jafna endana. Arnold hló við og vissi að ég væri að grínast eins og hann sjálfur þegar hann beindi til mín spurningunni.




Hann Peter gröfumaður skildi ekki illa við þegar hann fór héðan á þriðjudagskvöld. Hann hreinskóf svæðið þar sem stór malarbingur hafði verið ásamt mörgu öðru sem hann gerði snyrtilegt. Þessi blettur fékk svo áburð í dag, þrjá millimetra af rigningu og svolitla vætu úr slöngunni hjá henni Valdísi. Mér finnst hreinlega alveg nauðsynlegt að laga svo fljótt sem auðið er öll sár sem myndast við framkvæmdir. Í dag hef ég meðal annars jafnað eftir gröft, valtað, sáð, valtað aftur og svo er Valdís farin að sjá því svæði fyrir vökvun og ætlar að annast það um helgina. Eftir viku til tíu daga verður farinn að sjást litarmundur á þeim flekknum.

Á morgun ætla ég að hringja í smiðinn og segja honum að það sé orðið svo fínt og snyrtilegt á Sólvöllum að það verði hreinasta unun fyrir hann að koma og vinna. Ég er í fríi í viku eftir löngu helgina núna eins og kallað er. Ég veit að ef þessir kallar koma eftir helgi verður risið hús um hina helgina. Eftir svoleiðis hamfaratörn verður heilmikil vinna við tiltektir og svo er bara tæplega hálfnað að ganga frá eldiviðnum. Það er ekki mikið um dauða tíma á sveitasetrinu um þessar mundir.


Kommentarer
þóra H Björgvinsdóttir

Sæll Guðjón það er rífandi gangur í framkvæmdum hjá ykkur við að byggja við Sólvelli og gaman að sjá hvað gengur vel ,Valdís er ansi vígaleg við að kljúfa eldiviðinn enda vön kona á ferð .Það er nú komið svo að ég verð að taka með mér fartölvuna út í Hrísey og sýna pabba þessar myndir af framkvæmdunum hjá þér hann hefði gaman að sjá þetta .

kveðja til ykkar

Þóra

2010-07-23 @ 00:47:00
Rósa

Já, það er mikið fínt og snyrtilegt á Sólvöllum. Og mamma lítur mikið fín og snyrtileg út þegar hún er að kljúfa við. Flottur hattur :-)



Kveðja,



R

2010-07-23 @ 07:03:16
Rósa

Já, það er mikið fínt og snyrtilegt á Sólvöllum. Og mamma lítur mikið fín og snyrtileg út þegar hún er að kljúfa við. Flottur hattur :-)



Kveðja,



R

2010-07-23 @ 07:03:28
Þórlaug

Gaman að sjá hvernig gengur með bygginguna og hvað er snyrtilegt á byggingarsvæðinu. Það er ekki alls staðar svona :-))

Kveðja,

Þórlaug

2010-07-23 @ 13:01:56
Guðjón

Takk kærlega fyrir innleggin ykkar konur.



Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni

2010-07-23 @ 19:15:02


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0