Dagur flugunnar
Það var svo gott að sofa lengi í nótt og morguninn var mikið, mikið þægilegur. Það voru aðeins símtöl milli sjö og átta í morgun og svo var langur og góður morgunverður. Svo dútluðum við eitt og annað og það var mikil friðsemd í sveitinni. Bíllinn með byggingarefnið átti að koma um hádegi og það gafst góður tími.
Valdís hengdi upp þvott og ég sletti múrhúðun á grunninn sem ég átti eftir þegar stórrigningin og þrumuveðrið kom um daginn. Þetta með snúru er alveg frábært og ég veit ekki betur en Valdísi þykji svolítið gaman að hengja upp þvott og mér finnst friðsælt að horfa á snúruna, ekki síst þegar verið er að hengja á hana.
Svo birtist Áki (Åke) á vörubílnum og þegar hann var að taka sig inn úr opnunni á grjótgarðinum virtist hann svo gríðarlega stór. Það eru svo sjaldséðir bílar af þessari stærð hér að þeir verða gríðar stórir þegar þeir koma.
Þakpönnurnar út að garðinum Áki, þar verða þær ekki fyrir og gröfumaðurinn getur fært þær nær húsinu þegar hann verður búinn með sitt verk eftir helgina. Allt í góðu Guðjón, sagði Áki og hann notaði nafnið mitt hvað eftir annað. Hann hafði æft það í byggingarvöruversluninni þegar þeir voru að hlaða bílinn í morgun hafði ég grun um. Svo stend ég þarna og held að ég geri eitthvað gagn með því og held mig ómissandi. Raunar var Áki alveg fær um að losa bílinn.
En Valdís var líka nálæg og mér sýnist hún vera þarna að telja papparúllurnar. Hún alla vega spurði mig hvort ég hefði pantað svona pappa og ég leit á pappann og sagðist aldrei hafa séð svona þakpappa fyrr. Ég held nú bara að ég vilji hafa gamaldags pappa á þakinu.
Þarna koma gluggarnir og ég held enn að ég sé að gera gagn með því að vera með nefið niðri í þessu. Reyndar held ég með sanni að ég hafi gert gagn þegar gluggarnir komu og Áki var dauðhræddur um að hann skemmdi þá. Svo þegar búið var að taka allt af bílnum sagði Áki að það væri best að ég tæki líka kubba undan plankabúnti, því að þú átt sjálfur þessa kubba Guðjón, sagði hann. Ég hef tilfinningu fyrir að þú sért frá Íslandi Guðjón, var eitthvað það síðasta sem hann sagði. Ég sagði honum að hann væri athugull að átta sig á því. Hann var ánægður með það og þar með hafði ég sagt eitthvað sem gladdi hann.
Það var með þetta eins og barnið þegar það er komið undir, nú var það erfiðasta eftir. Það var að koma öllu inn í tjaldið grannanna. En þolinmæðin þrautir vinnur allar og maður eins og ég með lappirnar í lagi lætur ekki bugast af nokkrum spýtum. Þegar ég segi lappirnar í lagi meina ég það án nokkurrar kaldhæðni. Ég er nefnileg með lappirnar í góðu lagi eftir all mörg ár í skakklappi.
Hvað meina ég eiginlega með "dagur flugunnar"? Það varð hálf ólíft fyrir flugum hér á Sólvöllum þegar leið á daginn og flugur sem kallaðar eru brons (veit ekki hvernig það er skrifað) voru gríðarlega mannýgar í dag og létu okkur alls ekki í friði. Ég sagði því við Valdísi í dag og konu sem gekk hjá að þetta væri dagur flugunnar. Þær töldu að svo hlyti að vera. -:)

Flottar snúrur!
Og þetta tjald er flott. Það er eins og að byggingarefnið sé í partýi.
Kveðja,
R
Tjaldið er frábær lausn og byggingarefnið er bara í partýi.
Kveðja, GB