Hitabeltisnóttin
Það var spáð hitabeltisnótt í nótt. Svo varð það líka. Í gærkvöldi var 22 stiga hiti og í morgun klukkan hálf sjö var 26 stiga hiti. Þar með hlýtur að hafa náðst markmið sænsku veðurstofunnar um nótt með hita yfir 20 stig. Sem sagt, hitabeltisnótt. Kroppurinn er pínulítið þvalur á svona dögum en lífið er gott og minningarnar um þessa hlýju daga verða ætíð góðar.
Jafnvel líka minningarnar um fluguna sem byrjaði að daðra við mig snemma í morgun. Henni geðjaðist ótrúlega vel að því að setjast bakvið vinstra eyrað og þar fyrir utan utan hvar sem var á líkamann sem ekki var undir sæng. En sæng er eiginlega best alls staðar annars staðar en ofan á líkamanum á hitabeltisnóttum þannig að flugan hafði aðgang að mestum hlutanum af mér. Að rykkja til þeim líkmshluta þar sem flugan hélt sig þá og þá var nóg til að hún lét sig hverfa þangað til hún kom aftur eftir mjög stutta fjarveru. Ég lá því alls ekki hreyfingarlaus í rúminu með þessari flugu.
Að lokum gafst flugan upp á mér og leitaði á náðir Valdísar. Þá færðist ró yfir mig en Valdís tók upp á því að rykkjast til í svefnrofum með stuttu millibili og mér duldist ekki hvers vegna. Ég fór að finna til með henni en fann ekki fyrir neinni samkennd í gleði flugunnar. Að lokum skrönglaðist ég framúr og sótti Bush (flugnamorðingjann okkar). Svo lagði ég mig aftur og horfði á Valdísi. Innan skamms settist flugan á öxl hennar.
Ég hagræddi mér hljóðlega og svo sló ég. Flugan féll á augnablikinu inn í eilífðarkómann en Valdís vaknaði afskaplega snöggt til lífsins frá nætursvefninum. Hún hvæsti á mig; hvað ertu eiginlega að gera?
Ég var bara að drepa flugu.
Ekki ætlarðu að drepa mig líka?
Nei, ég ætlaði ekki að gera það. En nú er kominn morgunverður og brauðið í ristinni er orðið kalt aftur og hart líka geri ég ráð fyrir. Ég þarf því að taka nýja ákvörðun; skal ég éta það eða rista nýtt brauð.
