Sitt af hverju
Klukkan sjö í morgun renndi ég fótunum yfir rúmstokkinn og sagði -jæja! Er eitthvað að, spurði Valdís, en ég bara svaraði því til að smiðurinn kæmi líklega fljótlegta. Ég hringdi í hann í gær og sagði að það væri ekki vitlaust af okkur að hittast og tala um hvenær verkið gæti hafist fyrir alvöru að nýju. Ég hafði ákveðna hugmynd að leggja fram en gat þess ekki í símtalinu.
Tuttugu mínútur yfir sjö ók Anders smiður inn á lóðina og ég sem ekki var búinn að gera klárann morgunverðinn handa okkur. Við byrjuðum að ganga um hér úti og spá í og spjalla. Það var komimn drjúg rigning þegar við gengum inn og fór vaxandi. Svo tíndi ég morgunverð á borðið og við töluðum um mat, hvað væri hollt og hvað ekki. Ég sagði honum að ég notaði mikið ávexti um þessar mundir fyrir álegg, til dæmis epli og nektarínur. Við hjónin værum í heilsuátaki. Hann sagði það vera ókost við ávexti hversu mikil eiturefni væru notuð á þá við ræktun. Bananar eru þó allra mest eitraðir, sagði hann. Það var nákvæmlega eins og hún Lena í eldhúsinu í Vornesi hefur oft sagt. Lena er fyrrverandi bóndi og bóndakona og er manneskja sem erfitt er að trúa að fari með fleipur. Hún bara er þannig.
En aftur að matborðinu hér heima. Anders talaði um að það væri mikilvægt að borða sem fjölbreyttasta fæðu og hreyfa sig, að þá vegnaði manni vel. Sem allra fjölbreyttasta fæðu lagði hann áherslu á. Ég horfði á hann og hugsaði sem svo, að svo fílhraustur og hressilegur maður sem þessi fimmtíu og fjögurra ára gamli maður væri, þá hlyti bara að liggja nokkuð í því sem hann segði.
Við ræddum talsvert um þetta en svo dró ég fram dagbókina og opnaði hana á síðunni þar sem Anders ætlar að fara í sumarfrí. Hann ætlar að fara í sumarfrí í tveimur áföngum með nokkurra daga millibili. Þú ferð í sumarfrí 2. ágúst, sagði ég, og eftir þá viku vinnur þú í nokkra daga. Síðan er það sumarfrí aftur í rúma viku. Svo spurði ég hann hvort það væri ekki lang best að hann ynni að því sem hann væri þegar að vinna við og kæmi svo hingað ekki fyrr en eftir öll sumarfrí, eða skömmu fyrir ágústlok, og yrði þá hér.
Ég horfði ekki á hann þegar ég sagði þetta enda þurfti ég þess ekki. Ég bara fann hvernig léttirinn fyllti borðkrókinn. Ég vil að þessi maður njóti sannmælis því að ég hef ekki reynt hann að neinu slæmu. Við erum oft spurð hvort þessi smiður sé ekki að koma og við höfum sjálf stundum verið viss um að hann kæmi einhvern ákveðinn dag. En sannleikurinn er bara sá að það liggja ástæður að baki.
Ég lagði inn umsókn um byggingarleyfi í vor og átti að fá svar eftir viku. Ég hitti byggingarfulltrúann þegar ég lagði inn umsóknina og hann var svo fámáll að ég ákvað hreinlega að fara þaðan áður en ég var tilbúinn og var þá verulega hissa. Hann fann það því að hann sagði þegar ég fór að hann væri svo skrýtinn í hálsinum að hann gæti nánast ekki talað. Eftir að ég yfirgaf skrifstofu hans fór hann heim og var veikur. Ég fékk upplýsingar um það síðar frá konunni í upplýsingum. Svarið kom eftir fjórar vikur. Á þeim tíma hafði Anders hringt í mig og spurt hvort ég væri ekki búinn að fá svar og aftur hvort ég væri ekki búinn að fá svar. Síðan byrjaði hann á öðru verkefni og ég skil hann svo vel. Samt er hann að reyna að ná endunum saman eins og fyrsta áætlun gerði ráð fyrir. Þó að þetta hafi farið svona hjá byggingarfulltrúanum hefur hann samt sem áður verið mér mjög hjálplegur. Það finnst hellingur af góðu fólki og ég reyni að meta það þó að mér verði stundum fótaskortur sjálfum. Það voru fleiri atriði sem ollu því að ekki var hægt að byrja ákveðinn dag og voru okkur að kenna.
En nú stóð Anders upp, þakkaði fyrir morgunverðinn, og við gengum einu sinni enn léttum sporum kringum húsið og ég spurði hann ráða. Svo ók hann úr hlaði. Nú var komið að því að ég fengi mér kaffibolla með Valdísi og við ræddum þessa niðurstöðu. Regnið hafði allan tímann farið hægt vaxandi og nú var komin mikil úrkoma. Regnið féll niður á svo þægilegan hátt, það bara rann þráðbeint og þægilega. Eftir þriggja tíma rigningu voru komnir 22 mm í mælinn.
Ég hef nóg að gera í marga daga við að vinna að breytingum sem þarf að gera á gamla húsinu varðandi viðbygginguna og ég byrjaði þegar í dag og notaði þær stundir sem minnst rigndi. Klukkan er átta að kvöldi og það rignir enn. Í mælinum eru tæplega 50 millimetrar. Þetta hefur verið góður dagur.

Mikið er ég glöð að heyra að bláberin mín voru vel vökvuð í dag :-)
Kveðja,
R