Haustið 2019
Ég kemst aldrei frá því að finna söknuð þegar sumrið hallar móti vetri, laufið byrjar að falla og allt það græna gefur eftir vegna þess að tími vaxtarins er liðinn. Hin eðlilega hvíld náttúrunnar gengur í garð og þannig verður það að vera, en samt fyrir mína parta -tregi.
Það svo sem sést á þessari mynd af graskerjunum að blómlegasti tíminn er liðinn en það er blómlegt samt. Svo er spurningin hvenær fyrsta frostnóttin kemur. Hinum stóru blöðum graskerjanna tekst ekki að leyna því.
Í morgun, 5 október, vissi ég að fyrsta frostnóttin var um garð gengin. Ég fór samt út til að fá það ennþá betur staðfest. Og það var bra eins og öll önnur haust; graskerin höfðu fengið að lúta höfði. Þetta boðaði að mörg verkefni þurfti að leysa og helst í dag. Meðal annars að uppskera þennan akur.
Það var svo sem ekki mikið verk og ég bað um myndatöku. Ég hvorki skipti um föt eða greiddi mér, ég bara setti mig niður við hliðina á miklum mat, skítugur á hnjánum, og reyndi að líta út eins og ábyrgur maður.
Ég heimsótti bláberjarunnana líka í morgun og meira að segja reyndi að tína nokkur ber. Þau voru lin og ómatarleg en ég tíndi samt nokkur stykki. Það sem eftir er af óþroskuðum berjum á runnunum hlýtur að teljast í kílóum. Berin frá í morgun eru nú að þorna á diski út við glugga í eldhúsinu. En við eigum ber í hafragrautinn næstu tvo morgnana en svo er það búið. Það verður söknuður eftir að hafa haft ný týnd bláber út í grautinn síðan 15. ágúst. Þannig er það og í nótt á að verða fimm stiga frost í nokkra klukkutíma.
Mörg síðdegi hef ég sótt það best þroskaða á runnunum mínum, stundum á hverjum degi, eða annanhvern dag eða þá á þriggja daga fresti. Undanfarin ár hef ég verið í Íslandsferðum á þessum uppskerutíma en nú ákvað ég að ég léti ekki þessa hluti fara framhjá mér. Þetta hefur verið frábært haust. Bláberin í skálinni í miðjunni eru sum nokkuð ljós en eftir eina tvo daga inni, í birtu út við glugga, fá þau á sig bláa litinn.
Ég hef mikið sýslað undanfarið og komist yfir ótrúlega mikið. Ég hef mikið notað stunguspaða, skóflu, haka, járnkall og hjólbörur. Ég hef ekki verið í neinum æfingum í tækjasal en ég hef oft verið skítugur á hnjánum og það er varla að ég hafi fengið burtu skítinn undan nöglunum áður en ég hef snúið mér að saft eða sultugerð.
Þann 15. október flýg ég yfir hafið til Íslands.