Kallinn orðinn elliær

Það er auðvitað einfalt að viðurkenna það að þegar ég er búinn að vera rúman sólarhring í Vornesi, að þá er alveg frábært fyrir mig að halda út í sænska sumarið, frjáls eins og fuglinn, og gera það sem mér sýnist. Ég heimsótti fólk á leiðinni heim, tvær fjölskyldur. Ég ætlaði að heimsækja fleira fólk, fólk sem ekki var heima. Ég á von á að golfvellirnir hafi dregið suma til sín í dag með golfkylfurnar sínar og það sem því tilheyrir. Veðrið býður ennþá upp á það. Ég þori ekki að prufa golfið. Ég má ekki við því að smitast af golfáhuga. Þá mundi það fljótlega verða golfdella og mikið yrði ég leiðinlegur talandi um golf alla daga. Nóg er nú fyrir.
 
Svo kom ég heim í sælureitinn. Það hafði rignt sex millimetra í nótt og þakklátur var ég fyrir það þó að það hefði mátt vera sex sinnum meira. Ég byrjaði á því að rölta um með garðkönnurnar til að gefa gróðrinum mínum smá ábót á úrkomuna. Ég týndi ber í eftirrétt handa mér og ég hugaði að heilsufari í skóginum. Því mesta virtist líða vel þrátt fyrir þurrkana. Gróðurinn hlýtur að geta sett sig í einhverjar þurrkstellingar sem kemur í veg fyrir að til dæmis tré þorni upp. Annars væri mikið búið að fara illa. Hann Arnold bóndi segir að þetta sé þurrasta sumarið síðan 1975 en þó sé sá munur á að þetta sumar sé búið að vera hlýrra. Gras er að vísu gulnað á vissum svæðum en það er þó mesta furða.
 
Svo fór ég inn í matargerð.
 
Zucchini með síldinni, það hljómar kannski ekki matreiðslumannslega en ég veit að hvort tveggja er gott fyrir kroppinn eftir vinnuúthald. Zucchinið er úr matjurtagarði Rósu og afar vistvænt ræktað. Það er gott með pipar og steikt í smjöri. Einfalt. Svo borðaði ég zucchini og síld en þó meira af zucchini.
 
Ég er ekki enn farinn að borða berin. Eftir matinn fór ég fyrst út og vökvaði meira, spekúleraði og talað svo við vingjarnlegan gróður. Það lítur út fyrir að það verði nokkrir svona skammtar af jarðarberjum næstu daga eða jafnvel vikur. Sama með bláberin. Þegar ég verð búinn að blogga ætla ég að borða þetta með slettu af ís. Kannski hita ég lögg af kaffi.
 
Ég tók ekki mynd af jarðarberjaplöntunum en hér eru bláber næstum á stærð við sykurmola. Þau get ég tínt eftir einn eða tvo daga.

Þessi verða líklega góð um næstu helgi. Ég verð að eiga ís um næstu helgi líka og kaffi til að renna á könnuna.
 
Ef það verður sæmileg sól á næstu dögum, helst á næstu vikum, þá verða líka brómber. Ég þekki lítið til brómberja en veit þó að það þurfa að vera mikil sólarsumur ef það eiga að verða brómber. Vinnufélagar mínir gáfu mér tvo runna þegar ég varð sjötugur en það er eitt af mörgu sem ég er statt og stöðugt að segja frá.
 
Svo fer títuberjatíminn að ganga í garð. Títuberin vaxa best á svæðum þar sem skógur hefur verið felldur og hann Ingemar nágranni er búinn að sýna mér bestu títuberjasvæðin. Þá verður búskapur í frystinum get ég lofað. Það vex mikið af vítamínum og mínerölum og antíoxidöntum á Sólvöllum og nágrenni. Elli kerling hlýtur að eiga  erfitt með að komast að fólki á svona svæðum.
 
Já, alveg rétt. Ég tíndi niður síðustu eplin áðan. Svo þarf ég að fá uppskrift að deigi til að hafa í eplapæið. Reyndar duga eplin ekki þannig að ég ætla að nota rabarbara í pæið líka. Þá líklega heitir það blandpæ. Ávextirnir skulu alla vega vera frá Sólvöllum og best ef haframjölið verður af ökrunum í Krekklingedalnum.
 
En nú er ég held ég að verða elliær í skrifum mínum. Það er tími kominn á eftirréttinn en ég held að ég sleppi kaffinu. Gangi ykkur allt í haginn.

Mörg orð um lítið efni

Ef allir athafna- og framkvæmdamenn mundu lýsa í skrifuðu máli öllu sem þeir afreka um dagana á sama hátt og í jafn mörgum orðum og ég lýsi því litilræði sem ég kemst yfir, þá yrði brátt ekkert pláss á jörðinni fyrir nokkuð annað. Þetta hefur oft komið upp í huga mér og ég hef stundum séð fyrir mér andlit fólks sem hefur aðhafst gríðar mikið en ekkert skrifað um það. Svo sit ég hér og skrifa um það sem varla sést
 
Ég hef ekki verið frekur á sætin í farþegaþotunum sem flytja fólk til allra landa heimsins og ég hef ekki á þann hátt skilið eftir mig mikinn koltvísýring í háloftunum. Ég er svo fátækur á þessu sviði að það er nánast einungis til og frá Íslandi sem ég hef ferðast milli landa á síðustu tuttugu og fimm árum. Ég hef því lítið séð af heiminum. Ég tel mig hins vegar sjá það mesta heima hjá mér, bæði stórt og smátt. Samt þekki ég bara örfáa fugla og fleira gæti ég talð upp sem ég þekki ekki í kringum mig. En ég hins vegar sé það.
 
Sólvellir hafa fengið nánast allan frítíma minn í mörg ár. Þar sem mér hefur ekki legið svo óttalega mikið á hef ég látið eftir mér að byggja það mesta sjálfur. Ég get leyft mér að segja, trúi ég, að ég hafi líka gert það mesta sjálfur af svo mörgu öðru sem hefur verið gert hér. Því finnst mért að ég eigi þennan stað. Hann er eiginlega svolítð af hjarta mínu -af lífi mínu. Hann hefur, eins og ég sagði, fengið að eiga frítíma minn, peningana mína líka, mikið af hugsunum minum og hér hef ég upplifað marga ánægjustundina með öðrum, bæði áður en ég varð einn og líka eftir að ég varð einn. Oft hef ég líka verið ánægður aleinn.
 
Vissulega hef ég fengið hjálp. Árný mágkona mín og Gústi svili minn hafa verið hér og málað panel og klofið eldivið. Valgerður dóttir mín og Jónatan hafa verið hér og hjálpað til, klofið við og kennt mér að matreiða. Kristinn dóttursonur hefur hjálpað mér og deilt með mér hugmyndum um það hvernig hægt sé að gera eitt og annað á Sólvöllum. Mest hafa þau þó hjálpað mér Rósa dóttir mín og hann Pétur, enda eru þau nálægust. Þau hafa líka séð ástæðu til að eyða hér mestu af sumarfríum sínum í mörg ár vegna þess að þeim líður vel hér.
 
Hjálp þeirra hefur verið fólgin í því að vinna að mörgu þegar þau hafa verið hérna en kannski hefur stærsta hjálp þeirra fólgist í því að standa með mér í öllu sem ég hef gert hérna. Þau hafa líka hvatt mig og sagt mér að ég sé ekki að gera neina vitleysu. Mestur hluti kvöldmatarins í kvöld kom úr matjurtagarðinum hennar Rósu. Ég hef fengið marga delluna gegnum árin. Til dæmis að púla við lóðina okkar í Hrísey, all langt tímabil fór í inniblómadellu, í ljósmyndun og fleiri voru dellurnar mínar. Pétur tengdasonur sagði fyrir nokkrum árum að besta dellan sem ég hefði fengið væri Sólvellir. Þá umsögn þótti mér mikið vænt um.
 
Mér þótti gaman að því þegar Valdís var að sýna fólki hvað við hefðum verið að gera hér, segja frá því hvernig eitthvað hefði verið áður og hvernig það hefði gengið að framkvæma hlutina. Hún var með í mörgu, meira að segja að hjálpa til við að fella tré út í skógi sem við byggðum svo úr.
 
Það eru rúm sjö ár síðan ég hætti að vinna og varð ellilífeyrisþegi. Svo hætti ég ekki að vinna. En ég hef fengið að vera með um margt á þeim tíma. Á þeim tíma hef ég fylgst með mörgu flakkandi, litlausu og skelfdu augnaráðinu breytast í að verða fallegt, verða öruggt með sig og mæta augnaráði annarra án þess að hvika. Ég hef á þessum tíma fengið að heyra margar fallegar sögur um það þegar börn fara að nálgast foreldra sína á ný, treysta á nærveru þeirra og þora að gleðjast með mömmu eða pabba eða hreinlega hvort tveggja. Þetta með börnin er nú það fallegasta sem talað er um í meðferðinni.
 
Ég hef í þessari vinnu minni eftir að ég varð ellilífeyrisþegi hitt marga sem eru þakklátir og nota mörg tækifærin til að koma því á framfæri. Mitt líf á ekki að ganga út á það að fólk sé mér þakklátt en það segir þó að eitthvað jákvætt hefur áunnist. Ég verð að viðurkenna það að allar þessar jákvæðu upplifanir hafa gert ellilífeyrisárin mín vermætari og fyllt þau með fegurð og mikilli lífsmeiningu.
 
*          *          *
 
Ég var að gróðursetja kirsuberjatré í dag, framhald á vinnunni sem ég byrjaði á í gær. Ég ætlaði að láta það ganga fyrir öðrum störfum að klára leikturninn hans Hannesar en þegar lifandi ávaxtatré er komið heim að húsvegg, þá er ekki um svo margt að velja. Næsta verkefni verður því að vera turninn. Ég þurfti að taka mér smá hvlild í dag og sló þá upp á Google "að rækta kirsuberjatré". Hjá nokkru sem heitir "odla.nu" fann ég texta þar sem það stóð að það að fá sér kirsuberjatré væri afar góð fjárfesting. Því væri mikilvægt að vanda vel til gróðursetningarinnar. Það var sniðugt að sjá því að ég hef ekki vandað mig eins við neina gróðursetningu á Sólvöllum og þessa. Ætli það sé ekki búið að fara um eitt og hálft dagsverk í það að gróðursetja þetta eina tré.
 
Enga holu fyrir eitt tré eða einn runna hef ég grafið svo stóra sem þessa og enga holu hef ég fyllt aftur með jafn góðum jarðvegi og þessa. Meira að segja 45 lítrar af hænsnaskít fóru í hana, nokkuð sem ræturnar komast ekki í fyrr en eftir einhver ár.
 
Þessa hálfbræður fékk ég upp úr holunni þar sem plómutréð hafði staðið og meira en þrjár hjólbörur af minna grjóti. Þeim minni, þeim röndótta, lyfti ég með naumindum en hinn var mér fullkomlega ofviða. Ég kann ráð við því. Ég segi hálfbræður vegna þess að þeir eru svo gersamlega ólíkir þessir steinar. Samt lágu þeir hlið við hlið.
 
Tréð er vel frágengið en verkinu er ekki lokið. Ég verð einhverja klukkutíma að taka til eftir mig en það fær að bíða þar til eftir sólarhringinn sem ég fer til að vinna á morgun.
 
Svona líta Gårdebo kirsuberin út, einmitt það sem ég var að gróðursetja.
 
Svona getur plómutrjástofn litið út að innan.
 
Það fór líka svo núna eins og svo oft áður að ég gat ekki neitað mér um að tala helling um það pínulitla, tala um það sem ég hef verið að gera í dag. Gangi ykkur allt í haginn.

Að gróðursetja kirsuberjatré

Í blogginu fyrir neðan skrifaði ég um ólíkar athafnir okkar Bernts. Að skrifa um það sem ég er að gera segir bara hálfa söguna. Myndir segja hinn helminginn.
 
Þarna gefur að líta kirsuberjatréð sem ég fékk í dag. Það er nú bara þannig að þetta tré er komið og þá verð ég að vera ábyrgur fyrir því að fara vel með það.
 
 
Næst til hægri er nýtt plómutré sem á að taka við hlutverki gamla plómutrésins sem stendur lengra frá við hliðina á hjólbörunum. Hann Arnold bóndi ætlaði að lána honum Jónasi syni sínum dráttarvél og það var meiningin að Jónas velti gamla trénu og svo ætlaði ég að grafa fyrir nýja kirsuberjatrénu á sama stað. En Jónas er ekki heima og kirsuberjatréð er komið. Hvað gera bændur þá?
 
 
Mér datt ekki í hug að gefast upp og gróf hálfs meters djúpan skurð í kringum gamla plómutréð. Síðan lét ég renna vatn í skurðinn og á kökuna kringum tréð, minnkaði kökuna með haka og skóflu og byrjaði að mjaka trénu til hliðanna, róa því fram og til baka. Þetta skotgekk ekki og að endingu varð ég svangur og þreyttur og fór inn að borða.
 
 
Svona getur hráefnið í kvöldmat á Sólvöllum litið út. Zucchiniafbrigði sem ég man ekki hvað heitir.
 
 
Og svona lítur það út niðurskorið. En kannski þekkja þetta allir þannig að ég þarf ekki að vera að sýna það. En alla vega, ég steikti helling af því og borðaði með síld.
 
Síðan fór ég út á ný og nú var farið að bregða birtu. Fílefldur gekk ég í skrokk á trénu, ók því til hliðanna, bleytti jarðveginn og plokkaði mold af rótunum, aftur, acftur og aftur. Svo varð dimmt en veðrið var alveg indælt. Þráinn í mér jókst eftir því sem kvöldhúmið lagðist yfir byggðina og ég fann að mér miðaði. Eitthvað var að gefa sig.
 
 
Tréð lagðist á hliðina og málið var leyst. Á morgun geng ég á vetvang með keðjusögina og brytja tréð niður og eftirleikurinn verður léttur. Hefði ég hins vegar byrjað á að saga tréð niður við rót hefði ég ekki fengið upp rótina án erfiðleika. Svona er það oft á Sólvöllum. Þolinmæðin þrautir vinnur allar. Nú er svo sannarlega kominn hvíldartími. Það verður gaman að ganga til verka á morgun.
 

Ólíkar athafnir manna

Hann Bernt var mikill vinur hans Kjell vinar míns sem lést fyrir nokkrum árum. Meðan Kjell var á lífi hittumst við Bernt einungis í ein tvö eða þrju skipti. En eftir andlát Kjell höfum við orðið góðkunningjar. Bernt á sumarhús eina þúsund kílómetra norður í landi og ég á myndir sem ég fékk frá Kjell þar sem þeir félagar ásamt fleirum eru að vinna við byggingu þessa sumarhúss.
 
Við Bernt fylgjumst talsvert með hvor öðrum á feisbókinni og því veit ég nokkuð hvað hann aðhefst þarna norðurfrá núna. Suma daga leggur hann fiskinet í stöðuvatn sem er skammt frá bústaðnum og eldsnemma morguninn eftir fer hann til að vitja um netin. Síðan gerir hann að fiski og ef hann hefur ekki tekið netinn upp þegar hann vitjaði um um morguninn fer hann aftur eldsnemma morguninn eftir til að vitja um á ný og svo hefst ný aðgerð.
 
Suma daga fer hann í langar gönguferðir með bakpoka og sefur þá gjarnan við frumlegar aðstæður. Aðra daga ekur hann langar, langar leiðir til að taka þátt í hreindýraslátrun og stuttu síðar er hann kominn út á vatnið á ný með netin sín. Hann virðist vart stoppa og ég skil hann ekki af hverju hann sest ekki einstaka sinnum í góðan stól og horfir á skýjafarið eða fuglana sem hrærast í kringum hann. Hann hefur hvatt mig til að koma í heimsókn en ég er ögn smeykur við að hann mundi gera alveg útaf við mig í öllu annríkinu sem hann mundi telja að mér mundi þykja svo skemmtilegt. En ég segi bara; gleymdu því að mér mundi þykja gaman að því að fara í hreindýraslátrun.
 
Ef hann Bernt sæi til mín mundi hann verða ekki minna hissa á athöfnum mínum hér á Sólvöllum. Áður en ég fór til Íslands um 20. apríl var ég búinn að gróðursetja tvo sólberjarunna, tvo rifsberjarunna og tvo stikilsberjarunna. En mér fannst það ekki nóg þannig að ég bætti við tveimur hindberjarunnum og fjórum stórum amerískum bláberjarunnum. Svo fór ég til Íslands í sigurvímu vegna þess að ég þyrfti ekki að gróðursetja meira af berjarunnum á Sólvöllum.
 
Eftir heimkomuna frá Íslandi leit ég inn hjá fólki í Fjugesta og fékk þar mjög gott illiblómasaft. Meðan ég var að drekka saftið varð mér litið út um glugga og sá þá að þar var stærðar svæði í garðinum hjá þeim nánast hvítt af illiblómum. Ég fékk að taka í tvær stórar uppskriftir og úr því fékk ég níu lítra af illiblómasafti. Þá varð ég auðvitað að fá mér illirunna og með honum keypti ég þrjá aðra runna af ólíkum tegundum, en þessir runnar eiga það allir sameiginlegt að bera mikið af hvítum blómum. Ég gróðursetti þá austan við íbúðarhúsið. Svo komst ég að því að það væri ekki nóg að eiga einn illirunna þannig að ég keypti einn til viðbótar og gróðursetti sunnan við Bjarg.
 
Um daginn horfði ég á plómutréð sem ekki hefur borið ávöxt í nokkur ár. Það er orðið gamalt og greinar þess eru að deyja hver á fætur annarri. Þá var Rósa nýbúin að kaupa kirsuber og því fannst mér best að yngja upp þetta gamla plómutré og setja þar kirsuberjarunna í staðinn. Hann var pantaður fyrir mig og kom í dag þannig að ég tók hann á leiðinni heim úr vinnu um hádegisbilið. Þegar ég var búinn að slappa svolítið af eftir vinnuna hófst vinna við að fá burtu gamla plómutréð og undirbúa gróðursetningu á kirsuberjatrénu. Mitt í þessu öllu er ég í mikilli vinnu.
 
Athafnir manna eru ólíkar. Hvernig ætti hann Bernt að geta skilið þetta vinnu- og gróðursetningaæði mitt?

Breyttir tímar, af hesti og á fjórhjól

Ekki var það nú svona á Kálfafelli forðum tíð. Þar voru hins vegar hestar og ég var ekki hestamaður, gerði alla hesta staða og lata ef ég var einn á ferð á hesti. Ég vildi heldur ganga milli bæja, líkaði það vel. Þetta fjórhjól er á næsta bæ og Hannes Guðjón má koma þangað og æfa. Það er ekki hægt að segja að honum leiðist það en hins vegar er það ekkert daglegt brauð heldur. En hann er fljótur að ná tökum á þessu og afi getur ekki gert að því að dást að því hversu leikið barnið verður á örstuttum tíma.
 
 
Um daginn fórum við nokkrar bæjarleiðir vestur á bóginn að heimsækja vini Rósu og Péturs, til staðar sem heitir Hasselfors. Hannes Guðjón var fljótur að kynnast stúlkunum þar og gekk í það með þeim að vökva kartöflur. Innan skamms var litla hornið með kartöflunum orðið fljótandi í vatni og eigandinn beindi athafnaþörf barnanna að öðrum þörfum verkefnum og svo hélt líffullt starf þeirra áfram.
 
 
Í miklum hlýindunum undanfarið hefur vatnið verið eftirsótt. Það lítur út fyrir það á þessari mynd að það sé bæði notalegt og gaman að láta úðarann sprauta yfir sig vatni.
 
 
Andlitsdrættir drengsins gáfu til kynna þegar Johan var að sturta mölinni heima hjá afa að hugmyndaflugið væri á fljúgandi ferð. Svo fór Johan með bílinn út á veginn aftur og dró stóra skúffu af aftanívagninum inn á vörubílspallinn. Svo kom hann aftur til baka og sturtaði einu hlassi af mold annars staðar á lóðina. Hann var nú meiri galdramaðurinn þessi Johan og gaman að fylgjast með honum. Reyndar hefur afi líka gaman að því að horfa á svona tilfæringar.
 
 
En fjórhjólaævintýrinu var ekki lokið við fyrstu myndina. Pétur tók þessar myndir utan þá fyrstu. Hér náði hann mynd af vökulu augnaráðinu Hannesar þar sem hann horfir fram á veginn og metur allt í smáatriðum sem varðar áframhald ferðarinnar. Ég verð nú að viðurkenna þó að ég hafi verið sendur á hesti á milli bæja fyrir sextíu árum að ég hef gaman að því að fylgjast með þessum akstri og sjá ótrúlega örar framfarirnar.
 
Á morgun vinn ég dag í Vornesi og það er síðasti dagur Stokkhólmsfjölskyldunnar að þessu sinni. Þau ætla í sundlaugarferð á morgun þar sem það er spáð vel yfir 30 stiga hita. Á þriðjudag halda þau svo heim á leið og gamli verður aftur einn í kotinu. Hversdagsleikinn tekur við og það verð aftur ég sem stend við eldavélina og eldhúsbekkinn. Ég mun halda áfram að spjara mig en hljóðir verða dagarnir á næstunni. Ég er mikið feginn að Sólvellir eru til staðar fyrir hann nafna minn. Hann er farinn að læra margt sem tilheyrir sveitinni. Áðan fór öll fjölskyldan út í skóg og Hannes tíndi stór bláber af runna, boðraði sjálfur og gaf okkur líka úr litlum lófa sínum. Þannig lauk samverunni þennan daginn.

Hugrenningar

Vissir atburðir vekja upp hugsanir sem annars hefðu ekki látið á sér kræla og ég upplifði einn slíkan í gær. Ég hitti þá líka fólk sem ég hafði ekki hitt áður en fólk sem vissi um mig og ég heyrði margt nýtt og áhugavert. Það er einn og hálfur sólarhringur síðan og ég var þá þegar farinn að skrifa þetta blogg í huganum. Það verður fróðlegt fyrir mig að sjá hvort það verður jafn auðvelt fyrir mig að koma saman sögu núna og það var fyrir mig þegar leið að hádegi í gær.
 
Upp í Dölum er mikið um víðáttumikla og djúpa skóga. Það var þar sem við Hans í Örebro hittumst í fyrsta skipti 1994. Hann hlýtur að hafa átt svolítið erfitt með að skilja mig á þeim tíma en það viðurkenndi hann aldrei síðar. Hann var raunsæismaður og vildi hafa rökrétt svör við því mesta. Því spurði hann mig eftir mörgu sem ég átti erfitt með að svara og að lokum komst ég í þrot. Ég man vel eftir því augnabliki og svo sagði ég setningu sem bara kom sí svona upp í huga mér. Þegar ég heyrði sjálfan mig segja þessa setningu fannst mér að ég hefði sagt það vitlausasta sem hægt var að segja við þær aðstæður.
 
Rúmlega tveimur árum síðar var ég að vinna í Vornesi og einn vinnufélaga minna, Carl Gústaf sem þá bjó í Örebro, sagði að hann hitti stundum mann sem þekkti mig og talaði gjarnan um mig. Hann sagði líka að þessi maður myndi eftir setningu sem ég hefði beint til hans þegar við hittumst upp í Dölum, setningu sem hann mundi aldrei gleyma. Það sem ég hefði sagt við hann hefði líka gengið eftir. Ég áttaði mig á að Carl Gústaf var þarna að tala um Hans.
 
Síðar flutti ég til Örebro og við Hans hittumst og milli okkar myndaðist góð vinátta. Hann nefndi oft þetta sem ég hafði sagt við hann upp í Dölum og þó að mér hefði fundist það óttalega vitlaust fannst honum það ekki. "Maður getur nú sagt að það sem þú sagðir, það stóðst, svo merkilegt sem það nú er", sagði Hans Stundum. Hann kom all oft á Sólvelli og fékk eitthvað góðgæti hjá Valdísi. Við hittumst líka oft á öðrum hvorum kaffistaðnum í Kremaren í miðbænum í Örebro og fengum okkur kaffibolla og rækjusneið. Hans bjó á 16. hæð í því sama húsi, Kremaren, með makalaust útsýni móti Hjälmaren.
 
Við töluðum um geimvísindi þar sem Hans var vel fróður, um viðhald á bílum þar sem hann var alger ofjarl minn og um margt og margt fleira. Við töluðum líka um hvað það væri að vera einmana. Hans var oft einmana en meðal vina var hann hrókur alls fagnaðar. Hann var lágvaxinn sem gerði hann oft feiminn en hann var myndarlegur kall. Við töluðum um trúmál og ég sagði honum frá fallegri bæn sem ég hafði séð einhvers staðar. "Þessi bæn er eftir hann Linus afabróður minn sem var prestur", sagði hans þá.
 
Hann kom ekki á Sólvelli nema ég hringdi til hans og hreinlega sagði að nú skyldi hann koma. Hann var alltaf mikið þakklátur fyrir það og hann var mikið þakklátur fyrir þau skipti sem ég hringdi til hans frá kaffistöðunum í Kremaren og spurði hann hvort hann vildi ekki skreppa niður og fá sér kaffibolla og rækjusneið með mér. Hans var mein illa við hraðatakmarkanir á vegum og sagði að þær kæmu frá skrifstofublókum sem sætu dag inn og dag út á skrifstofum. Þetta stangaðist svo undarlega á við annað í fari hans.
 
Ég var við útför þessa manns í gær. Þegar ég frétti að hann væri veikur á sjúkrahúsi vonaði ég að þessi síðasti spölur í lífi hans mundi ganga hæglátlega yfir. En Hans fékk að heygja all harða baráttu. Það gerði mig sorgmæddan að horfa upp á það. Mér fannst hann ekki eiga það skilið. Á sjúkrahúsinu hitti ég systkini hans sem hann hafði svo oft talað um og það sýndi sig að þau höfðu oft heyrt talað um Íslendinginn. "Ég er þér svo þakklátur fyrir að koma til mín", sagði hann þegar ég kvaddi hann eftir nokkurra klukkutíma dvöl hjá honum á sjúkrahúsinu á laugardegi. "Þú ert vinur minn", sagði hann ennfremur.
 
Ég er ekki viss um að hann hafi vitað af heimsókn minni daginn eftir, en alla vega, þegar ég laut niður til hans og talaði til hans varð allt rólegt í nokkur augnablik. Svo harðnaði baráttan aftur.
 
Þegar ég tók þessa mynd af Hans seinni hluta vetrar lofaði ég honum að nota hana ekki ef hún yrði léleg. Þegar ég svo sendi honum myndina var hann ánægður með hana. Ég hef ekki notað hana fyrr en núna. Svipuð mynd stóð í ramma á kistunni hans í gær og ég var feginn að sjá þá mynd og við það tækifæri. Hún einhvern veginn staðfesti fyrir mér að baráttunni var vissulega lokið og það ríkti friður hjá þessum manni. Bæði á þessari mynd og á myndinni á kistunni má greina trega bakvið augnaráðið þessa manns.
 
Ég skil tregann þinn Hans.
 
Þar sem ég sat í krikjunni ásamt tuttuogníu skyldmennum hans og einum fyrrverandi skólabróður, þá var ég vel meðvitaður um að hann hafði kennt mér mikið á tuttugu ára sameiginlegri vegferð okkar. Það er þess vegna sem ég skrifa þetta, þetta er ekki minningargrein. Í kaffinu eftir útförina sat nokkuð eldri kona við hlið mér. Ég sagði henni og fleirum sem nálægir voru frá bæninni eftir hann Linus afabróður hans Hans. Þá sagði eldri konan við hlið mér; "já, þessi bæn er eftir hann Linus pabba minn".
 
 
Í vor þurfti ég niður til Laxá sem er góðan spöl sunnan við Örebro og ég fékk með mér þá Tryggva Þór Aðalsteinsson og Hans. Hans þótti vænt um svona smá tilbreytingar í lífinu. Vissulega er niðurstaðan af því sem ég hef verið að skrifa núna og það sem ég hugleiddi við útförina í gær sú að ég hefði getað gefið þessum manni nokkuð meiri tíma. En ég er líka ánægður með að ég gaf honum alla vega eitthvað af tíma mínum. Ég er líka ánægður með að eiga þessa mynd af okkur köllunum þremur.
 
Það eru nokkur tilfelli hér í landi þar sem ég hef verið kominn í þrot og ég hef sagt nokkuð sem hefur hljómað
aldeilis fáránlega í mínum eigin eyrum. En viti menn; ég hef síðar fengið að heyra að það sem ég sagði hafði afgerandi þýðingu fyrir þá sem ég talaði til. Það sem ég sagði við Hans upp í Dölum árið 1994 verður leyndarmálið okkar.

Hvílíkur dýrðlegur morgun

Ég kom heim úr vinnunni upp úr hádegi í gær, all sargaður af þreytu, og hafði þá lokið eiginlega nákvæmlega mánaðar vinnu í þessum júlímánuði. Það er ekkert fyrir mig að stæla mig af á þessum aldri, kannski frekar heimskulegt, en eftir á er ég ánægður með að geta gert þetta. Það varð meira en til stóð, það bara varð svo, og síðasti sólarhringurinn varð einn af þessum sólarhringum sem verður að teljast með þeim erfiðustu á mínum vinnustað. En ég finn mig snarlifandi og þátttakanda í samfélaginu sem ég lifi í. Eftir rúmlega átta tíma nætursvefn án þess að rumska, og svolítinn miðdegisblund í gær, finn ég mig vel hvíldan og ég er búinn að dvelja í skóginum bakvið húsið í morgun.
 
Auðvitað var það mikill lúxus að það var fólk hér heima þegar ég kom heim í gær. Stuttu eftir að ég kom heim buðu gestirnir mínir mér upp á vöfflukaffi -og hvað það bragðaðist vel! Svo lagði ég mig. Ég á líka lítinn heiður af þessu kvöldmatarborði. Ég steikti ekki zucchinið á stóra fatinu sem var sótt út í græna matarhornið á Sólvöllum, ég gerði heldur ekki pizzuna sem var á litla borðinu til hliðar og sést ekki á myndinni. En ég sótti þó síldina niður í kjallara og bar út diskana. Ég kom líka út með illiblómasaftið sem er í könnunni frá henni Guðnýju systur í handmáluðu könnunni hinu megin á borðinu. Málið er bara að það var minnsta vinnan í því sem ég gerði. Reyndar gróðursetti ég illiplöntu í gær. Það skal nefnilega verða árlegt að það verði til illiblómasaft á Sólvöllum svo lengi sem ég verð fær um að gera það.
 
Það fyrsta sem ég gerði þegar ég fór í stuttu morgungönguna mína á nærbuxunum og inniskónum í morgun var að skoða brómberin. Ég vona að þau nái að þroskast í ár. Brómberjarunnana tvo fékk ég frá vinnufélögum mínum þegar ég varð sjötíu ára. Þeir bera ekki ber nema á sólríkum sumrum. Þessir runnar eru líka svo ungir að þetta er eiginlega fyrsta sumarið sem þeir eiga kost á að bera ber.
 
Bara að hafa laufhaf við hlið mér á svona morgni er gott. Það þarf ekki meira en svo.
 
Ég settist á bláberjabekkinn og horfði heim. Ekkert hljóð, ekki einu sinni í flugu. Á svo hljóðum morgni reyni ég líka að ganga varlega. Kannski sitja hljóðlega líka. Svolítil vinna og talsvert annað puð, hvað er það fyrir mig og geta síðan átt svona morgna? Svona morgnar eru alls virði og meiga eiginlega aldrei taka enda.
 
Og við fætur mér þegar ég sit á bláberjabekknum eru bláberin á bláberjarunnunum sem Rósa og Pétur gáfu mér fyrir all nokkrum árum. Þannig byrjaði bláberjarunnarækt á Sólvöllum. Bakvið mig á bekknum eru líka margir runnar sem einnig bera þessi stóru ber sem eru á stærð við sykurmola.
 
Við hliðina á bláberjabekknum er þetta beykitré sem ég gróðursetti árið 2007. Eiginlega var það svo stórt þegar ég flutti það út öðrum skógi á Sólvelli að það var varla hægt að kalla það stóra plöntu. En alla vega þá er það núna orðið tré sem er erfitt að mæla stærðina á. Það er nú alveg meira hvað beykin mín hafa vaxið. Ég veit hvers vegna, ég á mína leyniaðferð. Sú hollasta og besta sagði mér kona á garðyrkjustöð fyrir einum fimm árum. Svo hélt ég heim á leið aftur.
 
Á heimleiðinni varð mér litið á þær systur, eik og eik, sem gnæfa hæst á myndinni. Veturinn 2004-2005 voru þær mikið sargaðar af frekum greni- og reyniviðartrjám. Þá grisjuðum við Valdís í kringum þær. Þær hafa launað frelsið á svo ótrúlega ríkulegan hátt. Þær hafa fengið þetta fallega vaxtarlag og stækkað eitthvað svo með ólíkindum mikið og fengið gilda stofa. Eikur vaxa annars hægt. Nær á myndinni til hægri er birkitré sem hafði ekki einu sinni litið dagsins ljós þegar við grisjuðum kringum eikurnar. Þetta birkitré er nú að ganga fallega frá sér sem sambýlingur með eikunum og svo getur það vonandi gengið enn um árabil. Uppi í horninu til hægri sér í enn eina systur eik. Það var sama um hana að segja þegar við komum á Sólvelli. Það tók mig tvö ár að finna hana. Nú er hún stolt og stórt tré austur af miðju húsinu ásamt mörgum heldur minni eikarsystrum.
 
Mikið er notalegt og gaman að fara í svona morgungöngu á Sólvöllum. Væri ég búinn að vera iðjulaus og latur hér heima síðustu mánuðina mundi ég alls ekki hafa upplifað svona dýrðlega morgunstund. Ég verð djúpt hrærður af að skrifa þetta. Ég heyri að lífið er komið í fullan gang á þessum bæ og ég ætla að fara að taka þátt í því. Það er líka farið að líða nokkuð að hádegi.
 
Þetta er bara hluti af því sem rennur gegnum hugann á friðsælli morgungöngu í Sólvallaskógi.

Hlé á bloggi

Það er lítið um blogg um þessar mundir og verður væntanlega einhverja daga. Hins vegar hleðst upp bloggefni sem ég hef hingað til hugsað sem sjálfsagaðan hlut að birta. En myndirnar eru góð dagbók ef ég bíð ekki of lengi og einn fallegan sumardag mun ég væntanelga fara af stað með töluverðum gáska ef ég þekki GB rétt. Svo getur alltaf dottið inn eitt og eitt blogg inn á milli.
 
Það er margt að gera á sveitabýlinu og allt sem gert er er til framfara. Rósa gerði sultu úr sólberjum áðan af runna sem ég gróðursetti í vor, runna sem átti ekki að gefa neitt af sér á þessu ári. Svona hlutir eru til ánægju og lyktin af sultunni angaði svo sannarlega notalega.
 
 
Í gær fórum við í heimsókn suðvestur á bóginn. Sú heimsókn hefur verið á dagskránni í ein átta ár, ekki minna. Þessi mynd er tekin frá þeim stað sem við sóttum heim og er tekin í rigningu. Samt segir hún svo sannarlega frá því í hvaða umhverfi við vorum og fengum heitar vöfflur þar hjá heimafólki.
 
Konan á myndinni þarna var áður nágranni Rósu og fjölskyldu til margra ára og góð vinkona. Þetta er hún Ulla, flugfreyja um nokkurra áratuga skeið en er nú komin niður á jörðina. Mjög væn kona og var þeim góður nágranni og það var heimboð til sumarbústaðar stórfjölskyldu hennar sem við loksins létum verða af að þiggja í gærdag. Svo kom Ulla með okkur á Sólvelli undir kvöldið og borðaði þorsk af Íslandsmiðum matreiddan af Rósu og Pétri. Svo hélt hún áfram með lest til Stokkhólms. Þannig getur einn dagur liðið og það verður ekki svo mikið meira gert þann daginn.
 
Sjáumst.

Stórihólminn

Hér sjáum við einn af álum Svartárinnar sem rennur í gegnum Örebro. Við getum sagt að þessi áll sé sá nyrðri Allar byggingar sem greina má á þessari mynd tilheyra Háskólasjúkrahúsinu í Örebro og það eru stórar byggingar sem tilheyra sjúkrahúsinu sem ekki sjást ekki á þessari mynd en eru samt í sömu samtengdu þyrpingunni.
 
 
Þetta er syðri állinn þar sem bátur er í viðstöðulausum ferðum í góða veðrinu með fólk yfir mjótt sundið. Milli þessara ála er Storholmen og kannski í lagi fyrir mig að kalla hann Stórahólmann. Við núverandi ábúendur á Sólvöllum heimsóttum Stórahólmann í gær, miðvikudag. Hannes og Valgerður dvöldu þar líka í nokkra klukkutíma um daginn. Honum leiðist ekki að koma þarna.
 
 
Á Stórahólmanum er margt að finna fyrir unga fólkið -og nefnilega heilmikið fyrir fullorðna líka. Þessi smálest er í nánast viðstöðulausum ferðum eftir spori sem liggur hringinn í kringum aðal athafnasvæðið á Stórahólmanum.
 
 
Og þarna sjáum við fólk sem brá sér í ferð í gær. Ég, afi, baðst undan að fara þar sem mér hentar ekki sem best að sitja í þessum stellingum. Ég gekk hins vegar frá brottfararstað og þvert yfir hólmann og tók þessa mynd. Svo gekk ég til baka og var kominn á áfangastað áður en smálestin kom þangað.
 
 
Ungur nemur, gamall temur. Þegar ég hafði horft á þetta um stund skrapp ég í afgreiðsluna og leigði mér kylfu líka og kúlu með. Síðan æfði ég mínígolf og að lokum vorum það við Pétur sem vorum eftir í golfinu en mæðginin Rósa og Hannes héldu í leit nýrra ævintýra. Svo gáfumst við Pétur upp að lokum og leituðum líka nýrra ævintýra. Ég er viss með að skreppa aftur á Stórahólmann einungis til að æfa mínígolf.
 
 
Smá bílaævintýri skaðar ekki. Það er spurning hvor skemmtir sér betur.
 
 
Það er seldur góður ís á Stórahólmanum og þegar ungir og gamlir fara að þreytast er nauðsynlegt að fá sér eitthvað sem gefur kraft til að halda áfram. En þá verður fólk að fara í röð enda er nauðsynlegt að læra það í tíma að standa þolinmóður í biðröð og fá svo sína hjálp að lokum. Afi fór ekki í biðröðina, það voru aðrir sem sáu um að kaupa ís handa honum.
 
Svo er það svo frábært með Stórahólmann að þar er líka hægt að láta sér þykja vænt um hana mömmu sína og sýna það í verki.
 
 
Degi á Stórahólmanum lýkur eins og öðrum dögum og þarna er Kungshólmafjölskyldan frá Stokkhólmi á leiðinni yfir eina af brúnum sem tengja Stórahólmann við fastalandið. Eitthvað eru þau að virða fyrir sér þarna enda er makalaust gróskulegt og fallegt á þessu svæði. Það fer líka vel á því í námunda við stórt sjúkrahús þar sem margir eru læknaðir og aðrir fá alla þá mögulegu hjálp sem hægt er að veita fólki sem á við raunir að stríða.
 
 
Á leiðinni að bílnum og aðalinngangar sjúkrahússins eru í baksýn. Það fer ekki hjá því að minningar um hið liðna klífa fram hjá mér og fleirum við að koma þarna á þetta svæði. Þær voru margar ferðirnar inn um þessa innganga og fleiri innganga nokkru fjær á nokkrum liðnum misserum. Samt er gott að koma á Stórahólmnann og sjá ungan mann gleðjast í ævintýraheimi.
 
 
Afi! má ég sjá hvernig þú gerir? spurði Hannes þegar ég gerði upp bílinn á stóra bílastæði sjúkrahússins. Svo kom hann og fylgdist með og gæti eflaust bjargað þessu sjálfur eftirleiðis ef á þyrfti að halda. Eða er ég kannski full bjartsýnn? Hann er ekki orðinn fimm ára ennþá.

Kveðjustund

Dagarnir um þessar mundir eru þeir fegurstu sem sænskt sumar býður upp á. Heima er fólk í heimsókn en ér er í vinnu á laugardagskvöldi. Það er svolítið öfugsnúið en þannig fór það og ég hef engu um að kenna. Valgerður og Jónatan fara heim á morgun og við höfum reyndar haft góðar stundir saman þrátt fyrir að ég hafi verið of mikið að heiman. Þau fara heim á morgun nokkrum klukkutímum áður en ég kem heim frá vinnu.
 
Á ég ekki að baka brauð fyrir sameigilnlega morgunverð í fyrramálið? spurði Valgerður í gærkvöldi. Ég dró frekar úr því, taldi að það mundi draga allt á langinn og ég mundi koma of seint á vinnustað. Svo fór ég í sturtu klukkan átta í morgun og þegar ég kom þaðan sá ég að brauðið var þegar komið í bakarofninn. Svo var sameiginlegur morgunverður út á veröndinni skógarmegin við húsið. Allt var í tíma, morgunverðurinn rólegur og enginn asi á neinu. Síðan ók ég rólega í vinnuna í þessari líka einstöku blíðu.
 
Þær eru margar máltíðirnar sem borðaðar hafa verið úti í þessu frábæra veðri síðan fólkið kom á Sólvelli fyrir rúmlega viku, morgna, kvölds og um miðjan dag. Svona tímabil eru mikil verðmæti. Ég hef ekki gefið mér tíma til að draga mig undan og blogga en það hafa samt komið upp mörg tilefni til að gera það. Ég vona bara að ég komi til með að muna þessi tilefni og gera efni úr þeim. Myndirnar eru líka góður minnisbanki fyrir þetta.
 
 
Ég tók myndir af sameiginlega morgunverðinum í morgun en þær voru ekki vel teknar hjá mér. Þessi mynd er heldur ekki góð en hún er frá ríkulegum kvöldverði í gær. Svona veður er eiginlega ekki það besta fyrir myndatökukunnáttu mína og kannski ekki heldur fyrir myndavélina mína. Ég nota myndina samt. Hún er tekin vestan megin við húsið. Skógarmegin er hins vegar austan megin.
 
 
Hann nafni minn hreiðraði um sig á teppi með björgunarþyrluna sína og fleiri góð tæki meðan við hin borðuðum morgunverðinn. Einhvern vegin fellur mér þessi mynd vel þó að hann brosi ekki móti okkur við myndatökuna. Hann var afslappaður og rólegur þarna og sjálfum sér nógur með tækin sín.
 
 
Hér er önnur mynd frá í gærkvöldi. Pétur stóð upp á stól og tók myndir og Jónatan stóð út á túni með sína myndavél þegar ég kom með litlu myndavélina mína. Þeir tóku myndir af því sama, fallegum ljósbrigðum í átt að Kilsbergen. Ég bað Jónatan að færa sig nær Pétri og hann gerði það, kom nær Pétri og tók mynd af mér. Valgerður og Rósa fylgdust hljóðlátar með þssu dagskráratriði kvöldsins en Hannes var þá kominn inn að matarborðinu með ís í skál og undi sér þar.
 
 
 
 
Allt í einu kom rólegt kvöld í vinnunni og ég náði þremur korterum til að koma þessu bloggi saman. Ég er feginn því. Það ómar af kveðjustund í kollinum á mér. Það er ekki einu sinni öruggt að ég geti hringt heim í fyrramálið áður en Vestmannaeyingarnir fara. Þakka ykkur fyrir komnuna Valgerður mín og Jónatan og þakka ykkur fyrir að gista Bjarg og gefa bústaðnum þar sál. Bústaður fær varla sál fyrr en fólk fer að búa þar. Valgerður hefur gist Bjarg áður en þá var það ekki eins tilbúið til íveru og það er núna.
 
Hér með er tíminn sem ég hef fyrir mig liðinn að þessu sinni. Ég mun láta heyra í mér aftur áður en langt um líður.
.
 

Gestakoma til Sólvallakarlsins, smárabreiður fyrir býflugnabónda

Á stefnuskránni hjá mér er að sofa mikið í nótt eftir frekar langan vinnusólarhring, fara í vinnu aftur á morgun og vera í vinnu þegar Hannes Guðjón kemur með mömmu sinni annað kvöld. Rúmið hans er tilbúið því hann kemur seint eftir sinn langa vinnudag og mamma hans verður líka búinn að eiga langan vinnudag þegar hún leggur af stað frá Stokkhólmi. Það er mikil vinna hjá öllum í augnablikinu og svo er allt í einu frí til að grilla um komandi góðviðrishelgi.
 
Á föstudag fer ég þokkalega tímanlega frá Vornesi og fer til bæjar sem heitir Hallsberg og tek þar á móti Valgerði og Jónatan. Síðan verður haldið til heim til Sólvalla og þá verður kyrrð og næði. Pétur kemur seinna því að hann getur ekki losnað út úr annríkinu alveg strax.
 
Þannig standa málin hér á bæ og ég hvorki bý yfir andríki til að blogga eða gef mér tíma til þess. Ég fór þó með myndavélina út áðan því að ég varð svolítið undrandi þegar ég kom heim upp úr hádegi í dag.
 
 
 
Eftir rúmlega sólarhrings fjarveru hafði gróðurfarið á lóðinni gerbreytst. Græni liturinn var orðinn sterkari eftir talsverða úrkomudaga undanfarið, og ekki bara það, það varu komnar svona líka miklar smárabreiður um allt. Litið til norðurs móti Elísabetu og Klas-Olav; smárbreiður um allt. Lág kvöldsólin gerði lýsinguna á myndunum dálítið undarlega.
 
 
 
 
Litið til suðurs móti Lars og dætrunum; smárabreiður um allt.
 
Getur þetta komið til af því að ég hef ekki verið sérstaklega duglegur við að slá? Ef svo er sé ég ekki eftir því. Smárinn er góður áburðarframleiðandi eftir því sem ég best veit. Hann er líka mjög góður fyrir býflugnabændur. Verði ég býflugnabóndi, þá er smárinn kærkominn. Ég mun ekki flýta mér of mikið að slá allar þessar blómabreiður.
 
Núna verður svefninn mér líka kærkominn.

Kvöldkyrrð

Ég sat áðan á bláberjabekknum og gerði ekki neitt. Ég var á leiðinni til að gera eitthvað en þegar ég var að ganga framhjá bekknum saknaði ég þess að hafa ekki setið á honum lengi. Rigning hefur það verið, annríki sem hefur kannski í fyrsta lagi verið í höfðinu á mér en svo skiptir það bara engu máli hvers vegna ekki. Það sem skipti máli var að núna sat ég þar. Svo þegar ég kom inn ætlaði ég að muna hvað ég var að fara að gera en ég var þá búinn að gleyma því. Kannski ætlaði ég bara að gá hvernig einhver planta eða lítið tré hefur vaxið í rigningunni. Erindi mín út í skóg snúast oft um eitthvað svoleiðis.
 
Svo þegar ég var setstur á bekkinn var ég ánægður með lífið. Þeir höfðu talað um bardaga niður í Írak og að rússi hefði verið drepinn í Úkraínu. En ég sleppti því alveg. Ég mun bara gera eins og ég er vanur að biðja fyrir framtíð mannkynsins í morgunbæninni minni í fyrramálið ásamt því að biðja fyrir stjórnmálamönnunum sem okkur finnst að séu að leika sér að eldinunm.
 
Svo horfði ég á bláberin á bláberjarunnum og fannst að það væri best að flytja þá að nýju bláberjarunnunum sem ég gróðursetti í vor. Þar yrði bjartara á þeim og ekki síst eftir að búið yrði að fella bjarkirnar þrjár sem standa í vegi fyrir útfærslu matjurtagarðsins. Svo leit ég upp eftir þessum björkum og fannst synd að fella þær. Þær eru næstum himinháar. Þær eru búnar að vera nágrannar mínir svo lengi. En það var líka fáránlegt að hafa ekki pláss fyrir matjurtirnar fyrir skógi. Svo gerði ég samning. Bara fella tvær bjarkir en ekki þrjár. Eftir það hugsaði ég ekki neitt. Ég lét bara fara vel um mig og var grafkyrr og hljóður eins og trén í kringum mig og það var notalegt.
 
 
Ég fer í vinnu um klukkan hálf tíu í fyrramálið, þriðjudagsmorgun, og kem heim eftir sólarhrings fjarveru frá Sólvöllum. Það sem ég hef gert til undirbúnings gestakomu verður að duga eins og það er. Ég get gert svolítið eftir að ég kem heim á miðvikudag, en svo fer ég aftur af stað um hálftíu leytið á fimmtudag og verð annan sólarhring. Ég fann á leiðinni heim frá bláberjabekknum að ég nennti þessu ekki. Ég veit hins vegar af fleiri ára reynslu að þegar ég verð lagður af stað, þá verð ég mjög sáttur við að vinna. Svo þegar ég kem í Vornes verður það köllun. Ég þarf heldur ekki að vinna eins mikið og í vikunni þar á undan. Það var kannski ekki skynsamlegt en ég lifði það vel af. Ég veit að jasmínan á myndinni verður búin að fella blómin þegar ég kem í Vornes á morgun.
 
 
Ég man svo vel eftir því fyrir mörgum árum að ég stóð álengdar frá þessu angandi blómahafi og ákvað að fá mér svona runna sem ég gerði. Gallinn var bara sá að hann var á þannig stað við innganginn heim til okkar í Örebro að við urðum að klippa hann á hverju ári. Þess vegna bar hann svo lítið af blómum. Nú ætla ég að fá mér svona runna og gróðursetja hann þar sem ekki þarf að klippa hann. Þá mun hann blómstra eins og Vornesjasmínan. Anganin af runnanum í Vornesi var stundum svo mögnuð að mér fannst sem það væri hægt að taka lyktina í krukku og færa Valdísi.
 
Um daginn hitti ég mann sem vann eldhúsinu í Vornesi fyrir einum fimmtán árum. Hann sagðist muna eftir ýmsu varðandi mig en eitt stæði þó upp úr. Þá var runni í bakgarðinum, hinu megin við húsið, sem var í ótrúlega miklu hvítu blómahafi. Ég hafði verið að vinna nótt og fór heim nokkru fyrir hádegi. Svo sagði hann að ég hefði komið einhverjum klukkutímum seinna og með Valdísimeð mér til að taka mynd af henni standandi upp við þetta ótrúlega blómahaf. "Þessu gleymi ég aldrei" sagði maðurinn. Smám saman fór ég að minnast þessa líka. Það eru margar myndirnar í möppunum sem Valdís raðaði samviskusamlega inn í á árunum sem myndir komu á pappír. Í tímans rás mun ég finna þessa mynd. Það verður gaman að því.

Hvað er nú þetta?

Þeir sem geta sagt mér hvað þetta er fá ylliblómasaft sem verðlaun við næstu heimsókn á Sólvelli.
 
Ég kom í hús í Fjugesta í fyrradag og var boðið upp á heimagert ylliblómasaft. Svo leit ég út um gluggana og sá ylli á mörgum stöðum og hann stóð enn í blóma. Má ég koma um helgina og fá ylliblóm spurði ég. Já, ég var svo velkominn og ég skyldi fá uppskrift að saftinu líka. Svo fór ég fyrr en ég hafði reiknað með og sótti 100 ylliblóm til Ingibjargar og Leif. Yllir er til á Íslandi en ég er ekki viss um að fólk noti blómin af honum. Samkvæmt uppskriftinni á að skola blómin og það gerði ég í þessu sigti og tók af því mynd því að ég hafði þá þegar í huga að segja frá þessu.
 
 
Og þeir sem geta sagt mér hvað þetta er fá annað glas af ylliblómasafti við þessa næstu heimsókn á Sólvelli..
 
Saftgerðinni lauk um hálf tíuleytið í kvöld, eða þannig. Þetta á að standa í nokkra daga og þá á að sía gróðurinn úr og eftir verður mildur og mjög bragðgóður drykkur sem er sagður hollur líka. Sneiðarnar í gumsinu eru sítrónusneiðar. Það passar þegar Rósa kemur í næstu viku að fara í síunina og tappa á flöskur og Hannes verður aðstoðarmaður. Það er sem sagt verkefni næstu viku en næsta verkefni mitt núna er að bursta og pissa og fara að sofa eins og hverjum fullorðnum manni sæmir að gera í tíma. (Klukkan er reyndar að verða tólf hjá mér þannig að ég er ekki svo fullorðinn sem ég læt)

Það er líklega ekki sama mold og mold

Ég varð svo montinn þegar ég var búinn að gera rabarbarasultu um daginn að mér fannst ég verða að auka út rabarbaragarðinn. Ég ákvað að bæta við tveimur hnausum og tók mér skófluna í hönd og byrjaði að grafa fyrir þeim. Það má alltaf vona það besta og það gerði ég líka þegar stakk niður spaðanum og það gekk vel. En það var bara ein stunga sem gekk vel, síðan tók við grjót. Ég hef ekki hugmynd um hvað þessir steinar vega en þeir vógu alla vega of mikið fyrir mig. Ég varð mér úti um planka og notaði vogaraflið. Þetta var í rúmlega tuttugu stiga hita í dag en mér fannst hitinn vera upp undir þrjátíu. Þetta er að verða tilbúið eins og sjá má á myndinni en eiginlega eru það pokarnir lengst í burtu sem ég er að hugsa um.
 
Ég gat farið í byggingarvöruverslun og fengið kúaskít fyrir 22 krónur pokann ef ég keypti fjóra í einu. Ég fór hins vegar til hans Ingemars skrúðgarðameistara í Adolfsberg, mannsins sem fékk Íslandsferð í afmælisgjöf frá konunni sinni fyrir nokkrum árum, og þar kostaði pokinn 56 krónur ef ég keypti þrjá í einu. Allir sem þekkja til Ingemars treysta því sem hann segir og það geri ég líka. Ótal sinnum hef ég farið þangað bara til að fá góð ráð og þau gefur hann með glöðu geði. Ég verð líka að kaupa eitthvað hjá honum þó að það sé dýrara.
 
Pernilla afgreiddi mig og ég spurði hana hvers vegna þessi feikna verðmunur væri á kúaskítnum. Hún hugsaði sig fyrst um en svo ypti hún öxlum og sagðist ekki vita það. Svo borgaði ég fyrir þrjá poka. Þegar ég var búinn að borga sagði hún mér frá því að ábyrgur aðili sem ég man ekki hver var hefði gert könnun á gæðum innihalds sekkjanna. Í verslunum sem hún nefndi sagði hún að það hefðu verið þungmálmar og fleiri varasöm efni í innihaldinu en við vorum alla vega ekki á þeim lista sagði hún ennfremur.
 
Ég sá alls ekki eftir verðmuninum þegar ég var búinn að heyra þetta. Ég bloggaði um það um daginn að ég keypti dýrari matvöru ef ég væri viss um að ég væri að kaupa betri vöru. Það er best að gera það sama með jarðveg sem ég framleiði matvöru í. Ég vil ekki hafa þungamálma í rabarbarasultunni sem ég geri. Ég vildi endilega koma þessu á framfæri. Það er búið að bjóða mér að taka skít úr haugum hjá hestamönnum. Ég læt það eiga sig. Ég veit ekkert um hvaða lyf er hugsanlega búið að gefa hestunum.
 
 
 
Ég er búinn að byggja bráðabyrgðaskýli yfir sambýlinginn minn. Það er spáð nánast linnulausri rigningu næstu daga og eggið verður svo þunnt á diskinum hans ef það rignir mikið á það. Þessi úrkoma á að byrja á morgun. Ég þarf svo að byggja vandaðra húsnæði fyrir hann, húsnæði sem dugir fyrir hann til vetursetu.
 
Ég sé svo til í fyrramálið hvað hefur orðið úr þessari rigningu. Ef spáin gengur eftir er kannski kominn tími á innanhússverk hér á Sólvöllum.

Bjarkir eru drykkfelldar og frekar til vatnsins

Klippt sírena blómstrar ekki árið eftir en hvað er hægt að gera þegar svo er komið að það er ekkert útsýni frá aðalinnganginum. Þannig fer það á hverju ári því að það er vöxtur í öllu á Sólvöllum.
 
 
 
Það er einfaldlega ekkert annað að gera en að klippa. Svo verður útsýnið opið að nýju þegar það er búið. Við áttuðum okkur ekki á þessu þegar við keyptum sírenurunna til að setja vestan við húsið fyrir nokkrum árum. En það skipti ekki máli því að við hefðum keypt hana samt. Við vildum fá hóflegt skjól fyrir vestanátt.
 
Þegar ég var búinn að klippa í dag bar ég vel á með hænsnaskít og svo stóð ég með slönguna í 45 mínútur og vökvaði. Þá fannst mér sem ég væri afar nýtur maður.
 
 
 
Haugurinn er stærri í reynd en hann sýnist vera á myndinni. Þetta verður mikið gott hráefni í moltukerið. Ég var að lesa leiðbeiningabæklinginn yfir að nýju rétt áðan. Það verður greinilega keypt annað moltuker fljótlega því að moldar er þörf. Það er dýrt að kaupa alla þessa mold og þar að auki þarf að flytja hana heim frá verslununum. Svo er spilling í öllum plastpokunum utan af moldinni sem verður að eyða á brennslustöðvum. Geri maður moldina sjálfur veit hver moltuframeliðandi nákvæmlega hvað hann er að nota þegar moldin er tilbúin.
 
 
 
Bjarkirnar þarna við sitt hvorn endann á nýklipptri sírenurunnalengjunni bera þess merki að þær vilja meira vatn. Bjarkir eru drykkfelldar og frekar til vatnsins. Þær skilja ekki eftir vatn handa nágrönnum sínum. Ef það er rétt að þær drekki þrjú til sexhundruð lítra af vatni á dag ef nóg er af því, þá vanta örugglega mikið handa þeim þessum núna. Það er ekkert í því að gera annað en bíða eftir rigningu því að með kranavatni er ekki hægt að fullnægja þessari þörf. Það rigndi einn millimeter áðan og það er eins og lítill dropi í hafið.
 
Á morgun ætla ég að útauka rabarbarabeðið og að slá ásamt því að sinna moltunni. Ég þarf líka að binda upp bláberjarunna. Á morgun er spáð þurru og hálfskýjuðu veðri en rigningu dagana þar á eftir. Það sem við sjáum á þessari mynd þarf ekki að slá en annars staðar er rakari jarðvegur. Það eru margvísleg störfin á Sólvöllum og skemmtileg eru þau.
 
Nú skal borga reikninga því að sælir eru þeir sem hafa borgað reikningana sína. Þeir geta lifað áhyggjulaust í heilan mánuð og þá geta þeir endurnýjað þetta áhyggjuleysi með því að borga aftur.
 
 

Hon er merkileg kona hún Sofia

Ég get alveg boðið fólki upp á að hlæja að mér, sérstaklega ef ég býð upp á það sjálfur. Ég er hins vegar ekki eins ánægður með það ef aðrir nota mig til að fá fólk til að hlæja.
 
Í morgun fór ég á stjá fyrr en ég vildi þar sem ég þurfti að fara með bílinn í skoðun. Ég hefði viljað hvíla mig lengur eftir vinnuvikuna síðustu og mér fannst ég líka eiga það skilið en svona var það bara. Tíminn hjá bifreiðaeftirlitinu var þegar ákveðinn. Ég dreif mig á fætur. Á leiðinni fram á bað fékk ég verk aftan á hægri fótinn á smá punkti rétt ofan við hásinina og ég hugsaði eitthvað á þá leið; kemur þetta nú einu sinni enn. Ég hef orðið var við þetta öðru hvoru á síðustu misserum og svo hef ég bara gleymt því og svo hefur það horfið.
 
Ég snyrti mig til, rakaði og drakk vatn og ákvað að borða vænan morgunverð þegar ég kæmi heim. Svo dreif ég mig af stað og byrjaði á því að  þvo bílinn. Svo var ég kominn að bifreiðaeftirlitinu klukkan hálf tíu, tuttugu mínútum fyrr en ég þurfti. Ég stillti mér upp á bílastæðinu við hliðina á rauðum bíl þar sem kona sat undir stýri og lék sér mikið við pínulítið barn. Ég gekk inn í andyrrið til að slá inn skrásetningarnúmerinu á bílnum og gekk svo til baka. Þá sá ég að fuglar himins höfðu verið yfir rauða bílnum og ekki höfðu þeir skitið á bílinn, þeir höfðu hreinlega drullað á hann á tveimur stöðum, stórum hvítum klessum eins og súrmjólk hefði verið skvett yfir hann. Svo settist ég inn í minn bíl.
 
Verkurinn ofan við hælsinina hvarf ekki, heldur dreifði hann sér upp eftir kálfanum og varð þyngri. Að lokum kom mitt númer upp á stórt ljósaskilti og mér var boðið að aka inn. Þægilegur miðaldra maður tók höndum um minn bíl og vann sitt verk af öryggi og á einhvern þægilega öruggan hátt. Við spjölluðum saman. Maður sem fór inn næst á undan mér drakk kaffi við lítið borð og kona sem fór inn aðeins á undan honum var úti með tvo stóra hunda til að láta þá skíta á grasblett stutt utan við gluggann.
 
Rauðhærð kona með annan vangann nauðrakaðan upp undir mitt höfuð og í einkennisklæðum bifreiðaeftirlitsins gekk í salinn. Hún var mikið tattúeruð, falleg var hún, á að giska 25 ára og ég gerði ráð fyrir að hún væri á skrifstofunni. Hún heilsaði vingjarnlega þegar hún gekk hjá. Svo var minn bíll færður lengra inn eftir skoðunarbandinu og þá kallaði hún næsta bíl inn. Svo gekk hún í að skoða hann af sama öryggi og sá sem skoðaði minn bíl. Hún vann sem sagt ekki á skrifstofunni.
 
Viltu sitja í? spurði skoðunarmaðurinn minn. Ég vildi það og svo keyrði hann all hratt kringum stóru graseyjuna sem hundarnir höfðu skitið á og síðan sagði hann að bíllinn væri í góðu lagi. Þetta var fyrsta skoðun á þessum bíl eftir rúmlega þrjú ár á götunni og 73 000 km akstur. Ég á að koma aftur eftir tvö ár. Svo lagði ég af stað heim.
 
Verkurinn í fætinum náði nú upp undir hné og alveg umhverfis fótlegginn. Þetta var enginn þjáningaverkur en þungur malandi verkur sem ég var orðinn hissa á. Hann náði líka niður undir ylina. Ég var að tína saman gögn til að senda til Tryggingastofnunar ríkisins og verð að viðurkenna að mér var ekkert skemmt við það verk. Ég skrifaði líka bréf vegna atriðis sem ég tel að sé rangt reiknað og ég fann vel að ég var of þreyttur fyrir þetta og þetta var mér allt öfugsnúið. Síðan bar ég fjóra poka út í bíl sem ég ætlaði með á endurvinnsluna í Fjugesta um leið og ég færi á hreppsskrifstofuna til að láta ljósrita slatta af pappír sem ég þurfti að senda til Íslands.
 
Það nálgaðist lokun á heilsugæslunni þegar ég hringdi þangað og hjúkrunarfræðingur sagði mér að koma fljótt svo að ég næði. Bráðamóttökuhjúkrunarkonan ætti að skoða þetta sagði hún. Sú hjúkrunarkona hét Sofia og var trúlega nokkuð innan við þrítugt. Hún lá á hnjánum á gólfinu fyrir framan mig og bar saman fótleggina, þreifaði á báðum samtímis og sagðist ekki sjá neitt athugavert og að þeir væru nánast jafn heitir báðir. Taktu eina ípren og hvíldu þig í kvöld sagði hún og ef þér versnar skaltu fara á bráðamóttöluna á USÖ. Svo fór hún höndum um auma fótinn, stakk fingrunum inn í kálfann neðan frá og upp úr og aftur niður og sagðist ekki finna neitt athugavert.
 
Ég þakkaði henni fyrir þægilegar móttökur og hennar mjög svo vingjarnlega hátt á að athuga mig og tala við mig. Ég meinti þetta og hún hafði virkilega unnið fyrir því. Hún varð svolítið hissa og sagði að mikið væri gaman að heyra þetta. Þegar ég gekk fram ganginn fann ég allt í einu að ég gekk allt öðru vísi, að eitthvað hafði gerbreytst. Ég stoppaði -og jú, verkurinn var svo gersamlega horfinn. Ég sneri við og mætti þá Sofia og sagði: Heyrðu, þetta hefur allt verið í höfðinu á mér, verkurinn er horfinn. Ja du! sagði hún, kannski það hafi eitthvað dularfullt hlaupið á þráðinn hjá okkur.
 
Nafnið Sofia þýðir vísdómur á grísku ef ég skil rétt og eitthvað tengist merking þess kristinni dulspeki.
 
Það er hægt að gera eitthvað merkilegt úr flestum dögum. Ég er kominn með skýringu á verknum og brotthvarfi hans. Ég er líka búinn að vera á námskeiði hjá yfirbýflugunni núna í kvöld. Ég hef að vísu ekki hvílt mig eins og Sofia ráðlagði mér en ég ætla að sofa út í fyrramálið bara eins lengi og mig lystir.
 
 
 
 
Björn stórbýfluganbóndi til hægri gefur góð ráð og Agneta yfirbýfluga til vinstri hlustar af athygli.

Dularfullur atburður í Vornesi

Í gærkvöld þegar vinnudeginum var lokið í Vornesi, um ellefu leytið, undirbjó ég mataræði dagsins í dag. Ég fór fram í eldhúsið og fann í búrinu kjötkraft sem er í duftformi og setti kúfaða teskeið í skipakönnu. Síðan setti ég könnuna upp á hillu, svo ofarlega að ég varð að standa á tá til að ná þangað upp. Ég vildi spara tíma þegar dagaði með því að hafa þetta tilbúið. Þarna var ég alveg öruggur um að starfsliðið í eldhúsinu ræki ekki augun í könnuna og fengi engar áhyggjur af því sem væri í gangi.
 
Í dag er einnar viku stífri vinnutörn minni lokið og því skyldi ég í dag byrja aftur með að fasta tvo daga í viku.
 
Þegar morgnaði byrjaði ég með því að fá mér vatn að drekka og síðan gekk ég til minna verka samkvæmt venju. Ég spjallaði lítillega við sjúklinga sem ég hitti hingað og þangað og bauð starfsfólki sem dreif að góðan daginn. Síðan var morgunfundur starfsfólks og ég gaf skýrslu um atburði helgarinnar. Þá hafði ég smá viðtöl og tíminn þaut áfram. Svo var komið að morgunkaffi sem við köllum það. Allir fengu sér brauð með morgunkaffinu en ég, föstumaðurinn, gegg inn í eldhúsið og ætlaði að gípa skipakönnuna af hyllunni.
 
Þar var engin kanna lengur. Ég leitaði og leitaði og á vaskabekknum stóð kannan með kjötkraftinum í. Sáuð þið virkilega könnuna? spurði ég undrandi, og já, ert þú með þetta? spurði eldhúsliðið. Þá hafði ein þeirra uppgötvað könnuna umsvifalaust þegar hún kom í eldhúsið og síðan höfðu staðið yfir miklar vangaveltur í langan tíma. Ein þeirra hafði þefað hikandi úr könnunni og talið að um kjötkraft væri að ræða, en hvað var kjötkraftur að gera í skipakönnu upp undir lofti í eldhúsinu. Málið var dularfullt og ekkert kom út úr rannsókninni. Svo leysti ég það með einni spurningu.
 
Fólk er ekki hissa á mér að gera þetta, að fasta tvo daga vikunnar, en ber virðingu fyrir því. Þegar færi gafst í morgun spurði Lena í eldhúsinu hvernig ég færi að þessu. Lena er sú sem rak augun fyrst í könnuna. Ég gaf henni einföld svör við einföldum hlut. Þegar hún hafði hlustað á mig sagði hún að ég hlyti að hafa meiri karkter en hún því að henni tækist þetta ekki. Það var skrýtið fyrir mig að heyra um þetta með karakter þar sem ég hef alltaf séð Lenu sem konu með sterkan karakter, mikið sterkari en ég tel mig hafa.
 
Ég fasta ekki með hjálp af sterkum karakter. Ég fasta vegna þess að mér líður vel með það að fasta. Ég hef þar að auki losnað við 5,5 kg af hreinum fituklump og hann sat á litlu svæði framan á mér rétt undir bringubeininu. Þó að ég segi sjáfur frá fer mér mun betur að bera ekki þennan velmegunarklump framan á mér. Reyndar hafði ég hann líka á ákveðnum svæðum í andlitinu.
 
Þetta hefur líka fengið mig til að huga mikið betur að því hvað ég legg mér til munns. Ég hef minnst orða matvælasérfræðings sem sagði í sjónvarpi fyrir einhvejum misserum að krafan um ódýran mat væri orðin svo öflug að matvælaframleiðendur framleiddu lélegri mat til að geta staðið undir kröfunni. Ég kaupi góð dekk undir bílinn, læt þjónusta hann sem best verður á kosið og spyr ekki hvað það kosti, ég bara borga. Á ég svo að rýna í fimmtíueyringana eða fimmkallana þegar ég er að kaupa mér að borða.

Ég er farinn að kaupa súpur sem eru framleiddar eins og í venjulegu eldhúsi, með höndunum eins og sagt er á umbúðunum, og í þeim eru sjö til þrettán efni sem öll eru jafn vel þekkt og kartöflur, laukur eða baunir. Þessar súpður kosta 39 kr sænskar skammturinn og ég borða allan skammtinn hjálparlaust. Ég get líka keypt súpur sem kosta níu krónur eða þrettán og eru gerðar úr allt að tuttugu efnum sem ég þekki ekki nema að hluta, svo sem E efnum, litarefnum og einhverjum  sterkjuefnum. Þannig reyni ég að velja öll matvæli.
 
Ég vil gjarnan vera afi enn um skeið og einhvern tíma verð ég kannski langafi. Ég vil standa undir nafni. Ég hef ekkert loforð um árafjölda en ég reyni að taka þá ábyrgð sem í mínu valdi stendur. Afi er mikilvægur hlekkur í fjölskyldumynstrinu. Langafi ábyggilega líka. Mig dreymdi um daginn að ég mundi innan tíðar fá heimsókn fleiri barnabanra en ég hef fengið um skeið.
 
En nú er svo komið að ég er kominn með svefnóra og ætti að hætta áður en ég geri mig að atlægi. Er svo sem búinn að því nú þegar. Nú þarf ég að sofa í tíu tíma samfleytt. Á morgun fer ég með bílinn í bifreiðaskoðunina í Lillån í Örebro. Ég spurði ekki hvað það kostaði, ég bara pantaði tíma og borgaði.

Þar með hallar að nóttu

Það er laugardagskvöld og ég er heima. Á mogurn fer ég aftur í vinnu og verð einn sólarhring í vinnu frá og með hádegi á sunnudag. Á mánudagsmorgun lýkur einhverri stífustu vinnuviku minni í átján og hálfs árs sögu minni á þessum besta vinnustað á öllum vinnuferli mínum. Þar hef ég fundið eitthvað mikilvægt sem ég hef viljað hlú að og ég hef þar af leiðandi helgað mig því, ekki bara sem tekjulind til framfærslu, heldur líka að stórum hluta sem köllun til að verða að liði þar sem liðveislu er þörf.
 
Heima hjá mér var fólk sem tók mér opnum örmum og matur var framreiddur án liðveislu minnar. Ég hins vegar kom við í matvöruversluninni Cityhallen í Vingåker á leiðinni heim. Framan við verslunina sat stúlka bak við snyrtilega tafla af jarðarberjum frá Skáni. Að vera á leiðinni heim í blíðviðri eftir sólarhrings vinnutörn á meðferðarheimilinu og sjá þennan girnilega varning, fékk mig að sjálfsögðu til að kaupa mér slatta af berjum til að verðlauna mig fyrir framlagið til samfélagsins og til að bjóða gestunum mínum upp á eitthvað girnilegt. Ég vissi líka að þau myndu sjá til þess að það yrði góður kvöldmatur þegar þar að kæmi. Svo varð það líka.
 
Á myndinni er hann nafni minn að borða jarðarber í ís, nokkuð sem honum líkaði mjög vel.
 
Svona geta þrjár tegundir af ís fá sænskum mjólkurbúum litið út og fersk og falleg voru jarðarberin. Það er nú einu sinni Jónsmessuhelgi sem Svíar kalla miðsumar og hér er það helgi sambærileg við verslunarmannahelgina á Íslandi.
 
 
Hann vekur talsverða eftirtekt þessi skemmtilegi ábúandi á Sólvöllum. Myndina tók ég núna í kvöld og það er merkilegt hvað hann sækir í að hafa afturendan í diskinum sem honum er skenkt vatnið á. Hann hefur sína siði sem við mundum ekki vilja hafa sem okkar borðsiði. En það er ekkert skrýtið, hann mundi væntanlega alls ekki vilja verða eins og við þó að honum biðist það.
 
 
Myndirnar af Brodda eru líkar frá degi til dags og útsýnið móti vestnorðvestri til Kilsbergen er einnig líkt frá degi til dags. En birtan er fjölbreytileg og gefur þessu útsýni misjöfn blæbrigði. Þessi bælbrigði voru með allra fallegasta móti nú fyrir stundu. Á því augnabliki sem ég er að skrifa þetta eru blæbrigðin allt önnur. Kannski hvorki fallegri eða minna falleg, en allt öðru vísi.
 
Þar með hallar að nóttu og gott fyrir vinnandi ellilífeyrisþega að fara að undirbúa samveruna með Óla Lokbrá.

GEFÐU MÉR AÐ DREKKA!!! GEEERÐU ÞAÐ!!!

Hafragrauturinn með rjómablandinu er kominn á borðið ásamt tilheyrandi, svo sem tveimur aprikósum, hnefa af rúsínum, banana og hvönn frá honum Bjarna Thor í Hrísey. Allt er þetta vistvænt ræktað þannig að ég ætla að mér verði gott af morgunverðinum að vanda. Eftir eins og hálftíma ek ég úr hlaði með stefnu á Vornes og verð þar til klukkan tíu í fyrramálið eða svo. Ég finn fyrir sterkri löngun til að vera heima og koma betra lagi á allt hér heima. Ég kom heim úr vinnu á sjötta tímanum í gær og var fljótur að drífa mig í heimavinnugallann, vökva, slá hornanna á milli ásamt stígunum í framskóginum, vökva á ný, hreinsa illgresi og auðvitað að gefa honum Brodda.
 
Svo var hann búinn með matinn sinn og kom þá til mín þar sem ég var að setja vatn á garðkönnurnar mínar allar níu talsins. Það tók því tíma að fylla þær og Broddi fylgdi mér þétt í sporinn svo að ég mátti gæta að mér að stíga ekki ofan á hann. Við horfðumst í augu og við töluðum saman en ég skildi hann ekki fyrr en ég var hættur úti og kominn inn. Þá allt í einu áttaði ég mig á því sem Broddi hrópaði til mín aftur og aftur:
 
GEFÐU MÉR AÐ DREKKA!!! GEEERÐU ÞAÐ!!!
 
Og ég hafði ekki skilið neyðaróp vinar míns. Ég hljóp út með vatn og annað egg og samviskubit í huga. Ég taldi víst að hann sem vappaði þarna ennþá mundi taka sig að vatninu sjálfur. Nei! það fyrsta sem ég gerði í morgun var að gá. Seinna eggið var óétið og þar sem eggjadiskurinn og vatnsdiskurinn eru hlið við hlið hefur hann varla komið í vatnið heldur.
 
Þegar ég kom inn til að vera inni fékk ég mér eitthvað kex sem er svo þunnt að það virðist gert úr næstum eingöngu lofti. Ofan á það setti ég ostsneið og heimagerða rabarbarasultu, settist í djúpan stól og byrjaði á sneiðinni. Svo vaknaði ég klukkan ellefu og virðist hafa klárað sneiðina sem ég hafði haldið á. Það var svo í morgun sem ég setti smjörið aftur inn í ísskáp, sem ég lokaði sultukrukkunni og setti líka í ísskápinn. Það sem eftir var af ostinum hafði gulnað á eldhúsbekknum og fór í moltufötuna undir vaskinum.
 
 
Ég fæ gesti um helgina en verð þó mest í vinnu. Það verður líka fleira fólk á ferðinni. Helst mundi ég vilja slá aftur seint í dag, þrífa seinni helminginn af gluggunum, ryksuga, skúra, stálulla eldhúsvasskinn, þrífa eldhúsbekkin svolítið betur og ganga frá blaða og bérfadóti. Eftir að ég kem heim á morgun mun ég taka til hendinni við þetta en það verður bara brot af því sem ég kemst yfir.
 
Á myndinni eru blómin sem ég fékk fyrir smá viðvik um síðsutu helgi. Þau eru farin að lýjast. Á bak við þau er bangsinn, en eigandi hans ætlar að koma í heimsókn, kemur síðdegis á morgun. Við þurfum að skipuleggja hluti sem við þurfum að vinna að seinna í sumar.
 
Það er matur og vatn á tveimur stöðum úti núna og með því bið ég vin minn Brodda um fyrirgefningu. Ég get ekki gefið honum aftur fyrr en á morgun og þá langar mig að fá hjálp við það. Ég á von á að eigandi bangsans muni hjálpa mér.

Að blogga af gömlum vana

Allt í einu varð svo mikil vinna hjá mér að í kvöld gaf ég mér bara stuttan tíma til að skoða allan gróðurinn sem þrífst svo vel umhverfis mig þessa dagana. Raunar ætti ég að segja sem þrífst alltaf vel í kringum mig. En ég hef haft marga daga til að vera innan um allt þetta undanfarið og fljótlega fæ ég góðan tíma á ný. Ég er ekki viss um að allir skilji mig að að ég skuli vinna eins og ég geri, ekki voðalega mikið en býsna mikið. En ég skil heldur ekki þá vinnufélaga mína sem horfðu á heimsmeistsrakeppni í fótbolta til klukkan þrjú í nótt og voru svo þreyttir þegar þeir mættu í vinnu klukkan átta í morgun að þeir gengu á dyrastafi. Ég er búinn að eiga frábæra daga hér heima undanfarnar þrjár vikur og ég fæ út úr lífi mínu á minn hátt, á þann hátt sem fótboltafólkið kannski skilur ekki. Svona er nú þetta allt saman.
 
Ég er ekki að blogga núna af andagift. Ég er eiginlega að blogga af gömlum vana, skyldurækni gagnvart blogginu mínu. Þetta blogg er númer 1168 ef það verður blogg sem ég birti. Ég hef ekki bloggað síðustu þrjá dagana og ég varð svolítið hissa þegar ég sá það. Nún er málið að ég ætla að leggja mig um klukkan níu og þá er mér ekki til stunnar boðið. Það er frumskilyrði ef ég á að koma skaðlaus út úr vinnutörnum eins og í þessari viku að ég sofi mjög vel. Þá þoli ég það mesta. Og til að fá svolítið extra út úr deginum annað en að hitta systkini mín í Vornesi, þá fór ég í smá gönguferð meðfram skógarjaðrinum og út í skóginn og það svíkur aldrei.
 
 
Til dæmis þetta finnst mér ótrúlega fallegt. Þrátt fyrir að svo margt er griðarlegt, stórt og voldugt í heimi hér, þá var líka til tími til að gera nokkuð sem er svo meistaralegt og innilega fíngert sem þessir drjúpandi blómaklasar. Bara að taka eftir að þetta er til er að gera eitthvað gott með líf sitt.
 
 
Ég setst líka öðru hvoru á bláberjabekkinn þarna og horfi heim að húsinu mínu, læt hugann reika og er stundum hissa á því að ég er staddur einmitt þarna á bekknum.
 
 
Svo þegar ég var að sækja tvær efstu myndirnar rakst ég á myndir frá sultugerðarkvöldinu, það er að segja í fyrrakvöld ef ég man rétt. Þarna er töfrasprotinn að vinna sitt verk í rabarbarasultupottinum.
 
 
Eftir sultugerðina fékk ég mér verðlaunasneið, ristsða brauðsneið með osti og rabarbarasultu sem leit út eins og krem. Ég átti von á meira bragði en hvað um það; sultan mín er góð. Vel væri hún brúkleg í tertu sem gott væri að borða á bláberjabekknum.
 
Nú er að bursta og pissa.
RSS 2.0