Gestirnir eru farnir
Alparós
Það var fallegur sumardagur í dag og það var síðasti dagur Guðnýjar og fjölskyldu í Svíþjóð að þessu sinni. Alparósin skartaði sínu fegursta í Borgargarðinum í Örebro og hvernig er hægt annað en hrífast af þessu snilldarverki skaparans. Eftir fáeina daga verður kraftaverkið líka frammi á Sólvöllum en þar er alparós sem er nokkuð á þriðja meter á hæð og ótölulegur fjöldi blóma er að búa sig undir að opnast. Þá verður gaman að birta mynd af alparósinni okkar
Alparós, alparós,
árla morguns þú vaknar
hrein og tær, huggað fær
hvern sem þráir og saknar.
Brostu við elskendum alparós
yndi söngs og ljóða
foldu á björt á brá,
blessaðu ættlandið góða
Þennan texta fann ég á netinu og ég vona að mér verði fyrirgefið að taka hann þar til birtingar með þessum myndum.
Hjälmargården
Það heitir Hjälmargården, Hjälmarbærinn getur maður sagt, og er á suðurströnd Hjälmaren um 50 km austan við Örebro. Þangað fórum við, ég og skagstrendingarnir í dag og borðuðum hádegismat. Þetta er veitingastaður með meiru sem fríkirkjurnar í Miðsvíþjóð reka og við höfum nokkrum sinnum farið með þá sem heimsækja okkur þangað þar sem staðurinn er mjög góður og þar að auki liggur hann afar fallega í sumargrænni náttúrunni nokkra metra frá vatninu Hjälmaren. Dagurinn í dag er sá fallegasti á þessu snemmsumri, með öðrum orðum afar fallegur. Ég set hér með eina mynd úr ferðinni okkar í dag. Við fórum einnig í Vornes, vinnustað minn í 13 ár, og kíktum aðeins í kringum okkur þar, en þar er einnig alveg sérstaklega fallegt og vel hirt umhverfi.
Myndina tók hjálpsöm kona á veitingahúsinu af mettu fólki með Hjälmaren í baksýn. Valdís var heima svo það passaði í bílinn. Hún verður að fá það bætt upp síðar. Ég hef sagt starfsfólkinu þarna að með því að fara með gesti okkar þangað, þá sýnum við það besta sem Svíþjóð hefur upp á að bjóða.
Árdegisskýrsla

Guðný systir í Svíþjóð
Kaknesturninn er 155 m hár og ætli veitingahúsið sem við fengum okkur kaffi í sé ekki í rúmlega 100 m hæð. Til að fyrirbyggja allt of mikinn hita frá sólinni eru rúðurnar þar klæddar örþunnri gullhimnu. Þaðan gefur að líta yfir skógi vaxina borg með mikið af sundum og eyjum og með samtals 1,7 til 1,8 miljónir íbúa. Sem sagt, einföld leið til að skoða staðinn. Hér fylgja þrjár myndir sem bara tala sínu máli.

Frá vinstri dóttirin Birna, Guðný systir mín, kallinn hennar Sveinn og dóttirin Björk


Aftur á Sólvöllum
Merkilegt, það var engin mynd tekin af sumarskrúðanum á Sólvöllum í dag. Það var mikið spennandi að koma þangað aðeins fyrir hádegi í dag. Þvílíkt grænt haf um allt og meðal annars á Sólvöllum. Ég ætlaði auðvitað að smíða í dag en það var ekki hægt að láta hjá líða að fara könnunarferð um skóginn. Skógurinn allur er er einn stór kunningi en svo eru viss tré, trúlega milli fimmtíu og eitthundrað, sem eru meira persónulegir kunningjar og vinir. Strax við innkeyrsluna er eik sem við fluttum út úr skóginum í hitteðfyrra og viti menn -hún er á fullri ferð, frískleg og fín. Hlynirnir sem líka voru fluttir úr skóginum í hitteðfyrra og gróðursettir við lóðarmörkin að vestan eru á fullri ferð og eru farnir að stækka fyrir alvöru, allt að 30 sm nú þann 23. maí. Rétt á bakvið húsið eru tveir hlynir sem eiga ekkert að vera þar og eru þegar búnir að vaxa um 45 sm. Þið skiljið að tommustokkurinn var með í ferð. Og beykið, þessi 20 tré sem við höfum flutt á Sólvelli síðustu þrjú árin, þau eru öll komin af stað og hafa vaxið meira en áður, nefnilega allir þrír árgangarnir. Nú tel ég bara sannað að beyki geti vaxið á Sólvöllum. Þetta var mikilvægasta uppgötvun mín í Sólvallaskóginum í dag en það voru gerðar margar góðar uppgötvanir þar í dag. Lengst niðri eru tvær myndir af beyki niður á Skáni sem teknar voru í ferðalagi sem við fórum þangað fyrir þremur árum. Þegar við fórum í það ferðalag vorum við nýbúin að gróðursetja fyrstu beykitrén á Sólvöllum. Laufgun er ekki lokið ennþá. Askur laufgast seinast allra lauftrjáa og hann er varla hálf laufgaður ennþá. Sum eikartré eru heldur ekki fulllaufguð. Ég ímynda mér að það séu mismunandi kvæmi þarna sem laufgast á misjöfnum tíma.
Næst verð ég að segja frá Valdísi. Hún byrjaði að draga út sláttuvélina, setja á hana bensín og svo hitaði hún kaffi. Að því loknu fór hún að slá og er búin að slá 2000 fermetra í dag. Minna má nú gagn gera. Það er heil mikil gönguferð sem liggur að baki því að slá þennan flöt.
Nú kemur að smíðunum sem hófust nokkru eftir hádegi. Það væri kannski ljúfast að segja ekkert um smíðar í dag en það er samt best að vera ekki að dylja neitt. Ég byrjaði á því að mæla áfellur á einn lítinn glugga sem er hátt uppi eða 2,7 metra frá gólfi. Ég sneið áfellurnar af minni alkunnu nákvæmni, skrúfaði og límdi saman og þar með kalla ég þetta gluggakistu. Svo mátaði ég. Þessi gluggakista sem ég hafði bæði skrúfað og límt saman af minni alkunnu nákvæmni reyndist einum sentimeter of há. Hvað gerir Guðjón þá? Jú, ég skrúfaði sundur og náði að slíta endana úr límingunni sem var jú mjög nýleg. Svo stytti ég viðeigandi stykki um einn sentimeter og skrúfaði bara, límdi ekki því að ég vildi máta fyrst. Þá kom í ljós að festingar fyrir gluggakistuna sem ég hafði gengið frá í apríl stemmdu ekki og þar var ekki hægt að bjarga sér með neinum "reddingum". Þá kom í ljós að ég hefði ekki þurft að skrúfa sundur og stytta, heldur hefði nægt að færa festingarnar. En ég færði svo þessdar festingar með all nokkrum stunum og andvörpum og tókst að reiðast ekki. Það gilda nefnilega viss Sólvallalög sem segja að ef smiðnum rennur í skap, þá hættir hann að smíða og fær sér kaffi eða gengur út í skóg eða hreinlega hættir þann daginn. Nú er það svo að um ókomin ár verður ákveðið smíðafeil á Sólvöllum sem aðeins flugurnar og ef til vill fuglar geta séð. Undirstykkið á gluggakistunni kemur ekki að glugganum eins og til stóð, en það er aðeins að neðan og vegna hæðar á glugganum sést það ekki neðan frá. Annars hefði ég smíðað nýja gluggakistu.
Sjáið þið bara, það er þegar komin ein fluga til að sjá að kanturinn að neðan er ekki eins og kanturinn til hliðanna og að ofan. Ég komst nú vel út úr klúðri mínu í dag. Hér fyrir neðan eru svo tvær beykimyndir.
Ef að er gáð má greina Valdísi milli stofnanna þar sem þeir greinast sundur
Heimkoma
Jahérnana hér
Við hittum marga á fermingu Guðdísar í Eyjum þó að við þekktum ekki alla þar. Ég er búinn að tala um ferminguna áður í blogginu og get bara bætt því við að hún hafði sterk áhrif á mig og varð uppspretta til margs konar hugleiðinga. Svo hittumst við í Skógum eftir 50 ár. 50 ár. Að ganga um gamla skólann eftir svo langan tíma, svo lítið breyttan sem raun var á og sérstaklegsa að hitta gömlu skólafélagana. Já, þetta skilur engan eftir ósnortinn. Þegar við höfðum verið svolitla stund saman í rútunni eftir brottför frá umferðarmiðstöðinni, þá voru þetta gömlu góðu krakkarnir. Auðvitað höfðum við þroskast af visku og vexti og lífsins skóla en þetta voru samt gömlu krakkarnir.
Að koma í sveitina, hún var sjálfri sér lík. En þar hafði líka lífsins skóli tekið á fólki á ákveðinn hátt. Lífsbaráttan virtist harðari þarna í sveitinni undir Vatnajökli en annars staðar þar sem ég hafði komið áður í þessari Íslandferð okkar Valdísar. Þegar ég fór þaðan fannst mér sem ég ætti margt ósagt en tíminn sem varð fyrir valinu til að koma þangað var ekki réttur. Aðrir þættir í heimsókn okkar til Íslands að þessu sinni réðu tímavalinu. Að heimsækja sveitina á miðjum sauðburði ber að forðast.
Nú er ég á höfuðborgarsvæðinu og hér hafa allir tekið okkur afburða vel. Hún mágkona mín og svili sem við völdum að gista hjá hafa stjanað við okkur. Eftir einhvern ákveðinn tíma fór mér að finnast svolítið að ég væri sníkjudýr. Ég veit samt að hún Árný mágkona mín mundi skamma mig fyrir að segja þetta ef hún læsi jafnóðum það sem ég skrifa. Þeim kemur mikið vel saman systrunum, henni mágkonu minni og konunni minni. Svo á konan mín aðra systur í Reykjavík, og þeim kemur líka vel saman, en þar er fullt af öðrum gestum.
Um tvöleytið í dag leggjum við af stað norður til Hríseyjar með fyrrverandi hríseyingum, þeim Þórlaugu og Jóhanni. Það var feisbókin sem gerði þá ferð mögulega. Þórlaug sá þar að við vorum villuráfandi varðandi Hríseyjarferðina og bauð upp á þetta. Þakka ykkur kærlega fyrir Þórlaug og Jóhann. Í Hrísey eigum við ómetanlega góða gamla nágranna. Það er ekki hægt annað en nefna nágrannanna við Sólvallagötuna. Við vorum þrjár fjölskyldur sem byrjuðum að byggja vorið 1972 og fluttum inn vorið 1973. Þetta voru okkar nánustu nágrannar til 20 ára og þau hafa heimsótt okkur til Svíþjóðar. Það verður gaman að hitta þetta fólk ásamt mörgum öðrum.
Að kveðja Eyjar
Við förum héðan með góðar minningar. Það var ferming, fermingarveisla, spjallstundir hér heima, stundir með góðu fólki, gönguferð á Eldfell, bílferð með Jónatan um eyna þar sem ég kynntist áhugamáli hans sem ég vissi ekki um og fleira mætti telja. Vestmannaeyjar er á margan hátt makalaus staður. Útsýnið héðan frá húsi Valgerðar og Jónatans er með ólíkindum stórfenglegt og fallegt. Ég vil hafa með mér héðan allt það jákvæða sem ég hef upplifað. Ég hreinlega æfi að gera svo. Ef ekki mundi ég fara héðan með vind og næðing sem förunaut og sjá Vestmannaeyjar sem illviðrisbæli. Mér bara dettur ekki í hug að gera það og því mun ég minnast Vestmannaeyja eins og sagt er ofar: "Vestmannaeyjar er á margan hátt makalaus staður" og fjölskyldan sem við höfum dvalið hjá er hluti af fjölskyldu okkar.
Klukkan er að ganga eitt og ég er grútsyfjaður. Þess vegna ætla ég ekki að birta þetta fyrr en á morgun þegar ég hef lesið það yfir með vökulu auga. Þangað til ætla ég að leita félagsskapar með Óla lokbrá í draumalandinu.
Það er kominn nýr dagur og ég er búinn að lesa yfir það sem ég skrifaði um miðnætti. Ég breyti ekki stafkrók. Ég skrapp á klóið um sjö leytið og þegar ég kom til baka var tíkin Salka komin í plássið mitt í rúminu. Ég fékk hana ekki framúr, ég varð að taka hana framúr. Þetta hefur ekki skeð áður. Vissi hún virkilega að við værum að fara? Við því fæ ég ekki svar. Við Valdís þökkum fyrir okkur Valgerður og fjölskylda og Vestmannaeyjar.
Fermingardagur

Þetta er að vísu uppstilling en alla vega fermingarmynd af Guðdísi barnabarni og Kristjáni
presti. Hann sagði einhver vel valin orð þegar þau stilltu sér upp til myndatökunnar.
Eftir ferminguna var fermingarveisla. Hvílík veisla. Góður matur, gott fólk og gott ndrúmsloft. Það var austurlenskur matur gerður af austurlenskri konu, algjörum meistarakokk frá Tælandi. Hvar lærði hún sína matargerðarlist?
Jú, hún lærði hana hjá mömmu. Valgerður og Jónatan sáu svo um eftirrétti sem koma til með að bætast undir belti mitt og væntanlega margra annarra. Ég hélt að við Valdís og hjónin Erla og Jón á Reyni í Mýrdal, sem einnig eru afi og amma fermingarbarnsins, yrðum aldursforsetar samkvæmisins. En nei. Við Valdís töpuðum með miklum mun. Alla vega fimm manns voru eldri en við og þeir yngstu voru börn, en samt sem áður fór allt fram í mildu bróðerni. Það ríkti bæði kærleikur og auðmýkt í fermigarveislunni, akkúrat eins og mundi vilja óska að ríktu í öllum manna samskiptum. Hafi ég rangt fyrir mér þá leiðrétti mig einhver.