Dyggðin og öfundsýkin
Við hlustuðum og horfðum á sjónvarpsmessuna í morgun og Valdís söng með. Presturinn talaði við tvítuga konu sem les við Stokkhólmsháskóla. Þegar þær byrjuðu að tala um að verða fullorðinn og taka ábyrgð birtist mér mjög skýr mynd sem var upplifun í Iðnskólanum í Reykjavík fyrir nær 52 árum. Eitthvað þurfti ég að skrifa undir eða staðfesta en áður en ég skrifaði spurði kona hinu megin við afgreiðsluborð hvað ég væri gamall. Þegar ég svaraði því sagði hún að ég yrði að fá einhvern fullorðinn til að skrifa undir fyrir mig því að ég væri ekki orðinn nógu gamall til þess. Ég varð undrandi og mikið móðgaður og sagði að ég væri búinn að vera ábyrgur fyrir lífi mínu síðustu árin, búinn að fara gegnum gagnfræðaskóla, heimavistarskóla, og annast allan kostnað og allt sem til hefði þurft á eigin ábyrgð.
Þegar ég sagði þetta byrjaði miðaldra maður að skellihlæja við hliðina á mér en þó aðeins aftan við mig. Ég leit á hann, ekki mjög glaður, og ég held að ég mundi þekkja andlitið aftur í dag ef ég mætti honum á götu. Svo fastmótuð mynd af honum greyptist í huga mér. En sannleikurinn var sá að ég vann sjálfur fyrir Skógaskóla og átti alltaf afgang á vorin. Það var búmaður í mér, ég var mjög ábyrgur. En síðar í lífinu fölnaði bæði fjármálavit mitt og ábyrgð á eigin málum. Þegar þessi atburður átti sér stað í iðnskólanum var ég reyndar þegar farinn að gefa eftir sem ábyrgur maður. Ég var þá líka fyrir þó nokkru búinn að taka ákvörðun um að verða ekki læknir eins og mig hafði dreymt um í tíu ár, eða allt frá því er Esra Pétursson tók af mér hálfan litlafingurinn.
Í dag sé ég þessa þróun vel og skil orsökina. Orsökin kom ekki utan frá og ég get ekki gert nokkra lifandi manneskju ábyrga fyrir því hvernig fór. Ég er viss með að gera þessu skil síðar en í dag liggur mér ekkert á með að gera það. En aðeins frekar með lækninn. Vissir kennarar í Skógum sögðu mér að ég ætti að verða læknir því að ég hefði eiginleika sem læknum væru mikilvægir. Ég var tekinn á eintal til að segja mér þetta og mér fannst það svo makalaust mikilvæg staðfesting á því að að ég ætlaði að velja rétt og ég held að ég hafi ekki snert gólfið í næstu skrefum þar á eftir. En læknisdraumurinn varð aldrei að veruleika og afar oft síðar á lífsleiðinni þótti mér það mikið miður.
Já, það var mikið sem þessi messa rótaði upp í hugskoti mínu, jafnvel þó að það væri sjónvarpsmessa. Stundum blogga ég af alvöru, stundum af mikilli alvöru og stundum líka um smá hlægilega hluti. Þetta blogg verður nú blanda af hvoru tveggja. Ég las á feisbókinni í dag vísdómsorð um öfund, að sakna ekki þess sem maður ekki á, og vera glaður yfir því sem maður hefur. Ég held hreinlega að ég sé blessunarlega laus við öfund en það hef ég ekki verið alla ævi. Spurningin er bara hvort ég á að segja nokkuð meira um þetta. Það er kannski ástauðulaust að ég klæði mig alveg nakinn á blogginu mínu -eða hvað? En ég held áfram.
Það var 1972 sem þrjár fjölskyldur byrjuðu að byggja við Sólvallagötuna í Hrísey. Það vorum við Valdís og næsta hús neðar í götunni byggðu Rósa og Ásgeir en hinu megin við götuna byggðu Dísa og Ottó. Allar þessar fjölskyldur fluttu inn ári síðar, sumarið 1973, og voru húsin þá nokkuð misjafnlega tilbúin. Einhvern tíma sumarið 1973 þegar ég kom heim eftir vinnu sagði Valdís mér að Ottó og Dísa væru búin að kaupa bíl, Landróver jeppa. Jahá! Það var naumast! Síðar um kvöldið stakk Valdís upp á því að við gengjum yfir til Dísu og Ottós og svo gerðum við. Þetta var á þeim árum þegar fólk gekk gjarnan yfir til nágrannans, bankaði upp á og opnaði sjálft og spurði hvort það væri til kaffi.
Svo gerðum við Valdís þetta kvöld. Þegar við vorum setst inn og byrjuð að spjalla saman spurði Valdís eitthvað út í nýja bílinn þeirra. Öfundin út af þessum bílakaupum gerjaði í mér eins og ígerð í graftarkýli og þegar Valdís byrjaði að tala um bílinn þeirra sagði ég hátt og greinilega: Komum við hingað til að tala um bíla? Ekki man ég hvernig viðbrögðin voru, en þegar við komum heim spurði Valdís mig undrandi hvers vegna ég hefði brugðist svona undarlega við. Ég er viss um að ég sagði Valdísi ekki sannleikann um það mál, en ég gerði mér vel grein fyrir því að vinur minn Ottó ávaxtaði sitt pund betur en mér tókst að gera á þeim árum. Ég þekki til öfundarinnar. Þetta er smá hlægilegt í dag og ég nota þetta í vissa fyrirlestra mína um það sem alkohólistarnir þurfa að venja sig af. Þeir þekkja sig mjög vel í þessu og bresta í hlátur.
Þar með er ég aftur kominn að því sem ég talaði um áður, að vera fullorðinn maður, ábyrgur og velja veg dyggðarinnar. Þegar ég hélt að ég hefði valið auðveldari veginn valdi ég veg erfiðleikanna. Það tók mörg ár fyrir mig að átta mig á því og mörg önnur ár að vinna mig til baka. Hann sagði hann Sveinn í Kálfskinni þegar hann heimsótti okkur eitt sinn í Örebro, að hann bæri virðingu fyrir fólki sem áttaði sig og veldi að taka aftur ábyrgð á lífi sínu. Velja veg dyggðarinnar. Þá var komið fram á nótt og við Sveinn sátum tveir við matborðið heima og töluðum saman í hálfum hljóðum þar sem aðrir voru sofnaðir.
Já, stundum segi ég meira en ég hef nokkra ástæðu til að gera.
því að hann er lífið
lífið sjálft
og í honum býr
allur veruleikinn
og sannleikur tilverunnar
unaður vaxtar og grósku
dýrð hinna skapandi verka
ljómi máttarins.
Því að gærdagurinn er draumur
og morgundagurinn hugboð
en þessi dagur í dag
sé honum vel varið
umbreytir hverjum gærdegi
í verðmæta minningu
og hverjum morgundegi
í vonarbjarma.
Gæt þú því vel
þessa dags.
Ornesbjörk
Blöð Ornesbjarkarinnar
Vorskýrsla
Eina 80 metra út í skógi heimsótti ég álm sem ég sótti í gamla túnið vestan við okkur síðsumarið 2010 eftir að hann Arnold hafði slegið það. Ég stakk þarna upp þrjá álma og flutti heim. Það var erfitt að ímynda sér að þeir gætu lifað af svona ómeðferð, fyrst að vera slegnir niður með stórri sláttuvél og svo að vera stungnir upp á vondum tíma, en þeir gerðu það allir þrír. Þau eru svo sem ekki burðug ennþá laufblöðin á minnstu álmplöntunni sem er hér á myndinni en þau gefa til kynna að álmurinn er á lífi og það tiltölulega snemma. Þetta er sem sagt sú minnsta af þessum þremur plöntum en hún var líka best laufguð í dag. Á jörðinni liggur mikið af laufi sem er á góðri leið að verða næring fyrir skóginn. Hringrás lífsins er í gangi.
Hér eru svo laufblöðin á einum heggnum. Hann er kominn vel af stað og blómgast fljótlega og klæðist þá hvítri skikkju. Um það bil viku eftir að heggurinn blómgast blómgast sírenan. Fólk kallaði þessa viku vikuna milli heggs og sírenu og svo gerir fólk enn í dag, en kannski meira til að nota gamla málið til að segja eitthvað sem lætur vel. Áður töluðu Íslendingar líka um þorra og góu en í dag talar fólk meira um janúar, febrúar og mars. Undir heggnum má sjá skógarsóleyjarnar (vitsippor) sem blómgast nú óðum og eiga eftir að gera skógarbotninn næstum hvítan.
Nú höfum við verið á leið utan úr skógi og heim að húsi. Þessi björk stendur framan við húsið út við götu. Þau verða mörg miljón fræin af þessu birkitré og kannski er það svo sem 5 % laufgað. Það er mikil starfsemi í gangi og bjarkirnar draga mikið vatn upp úr jörðinni og skila út í himingeiminn sem síðan rignir niður einhvern staðar langt í burtu. Þær taka líka mikið af útöndun okkar og breyta í súrefni og hreinsa útblásturinn frá bílunum. Já, þátttaka lauftrjánna er stórkostleg í lífríkinu. Hvað værum við án blaðgrænu?
Það er búin að vera golukaldi í dag og rigningarhraglandi eins og fyrr sagði. Tíu daga spáin gerir ráð fyrir 12 til 18 stiga dagshita og mesta vindi 5 m/sek. Þetta lítur mjög þokkalega út. Beykið sem auðvitað fékk líka athygli mína í skógargöngunni með myndavélina er komið með mjög stór og þrútin brum sem hljóta að gefa eftir mjög fljótlega. Fyrir mér er það alltaf áfangi þegar beykið laufgast. Ég talaði um myndadellutímabilið í blogginu í gær og dellutímabilin mín hafa verið mörg og tekið við hvert af öðru. En ein dellan sem ég hef eiginlega haft alla mína ævi er skógardellan og hana hef ég haft með öllum hinum. Það er holl og góð della.
Lífið heldur áfram
Fyrra eplatréð er frágengið, afgangsmöl og grjót burtflutt og búið að jafna frjósamri mold kringum tréð, nokkuð hærra en jarðvegurinn í kring, en ég geri ráð fyrir að moldin í holunni eigi eftir að síga umtalsvert. Þetta eplatré er frá Vingåker, heitir Sävstaholmsepli (Sevstahólmsepli), og er talin einhver allra besta eplategund í Svíþjóð. Í framtíðinni þegar fólk kemur heim til Sólvalla að hausti til verður hægt að grípa epli af þessu tré og hafa með sér heim að húsinu. Borðinn sem hangir við tréð var settur á það í Vingåker til að láta það líta út sem virkilega afmælisgjöf. Smekkfólk vinnufélagar mínir.
Ég var farinn að skammast mín fyrir þetta en nú er sú skömm lögð til hliðar. Við lögðum mikla alúð í að velja nýjan stað og ganga vel frá þessu tré. Það var á leiðinni að blómstra þegar við stungum það upp og skemmdum auðvitað rætur. Þetta hefði þurft að ske mánuði fyrr. Hvort blómgunin getur orðið eftir þessa færslu er eftir að sjá. Það tekur sjálfsagt tvö ár fyrir það að endurheimta sig vel, en þá trúi ég að það launi alúðina. Næsta hús sem við sjáum þarna er sumarbústaður sem hjón frá Örebro eiga. Þau eru hætt að vinna og eru álíka mikið í þessu húsi og í íbúðinni sinni í Örebro. Í þar næsta húsi býr fjögurra manna barnafjölskylda.
Þessa holu gróf ég í dag og verðandi íbúar holunnar, tvær klifurrósir, liggja þarna aðeins til hægri á myndinni og láta enn sem komið er lítið yfir sér, mjög lítið. Þarna er uppfylling í lóðinni frá því fyrir tveimur árum, góð mold. Þessa góðu mold ætlum við samt að bæta með því sem er þarna í pokunum. Steinninn hinu megin við holuna var það stór að ég, ellilífeyrisþeginn, þurfti að spýta í lófana áður en ég hafði hann upp á bakkann. Hann Kristinn dóttursonur okkar tók marga steina og fjarlægði þegar hann var hér um árið. Væri hann hér núna mundi hann kippa steininum léttilega upp, leggja hann á mjöðmina og ganga með hann út í skóg. Svo mundi ég heyra hann kalla: Má ég ekki setja hann í holuna hérna afi. Þá mundi ég segja já og svo mundi Kristinn láta steinn falla.
Hér eiga brómberjarunnarnir að búa. Það var eftir milkar spekúleringar sem þeim var ákveðinn staður og í dag gróf ég og verður ekki aftur tekið. Svo þegar búið er að flytja grjótið í burtu og raða upp verkfærunum lítur þetta svo ljómandi vel út. Einhvern tíma á morgun ætla ég að ganga frá þessu og gróðursetja. Þessir runnar láta ekki mikið yfir sér þar sem þeir standa hinu meginn við gróðrarmoldarpokana, en þeir verða hins vegar talsvert fyrirferðmiklir eftir því sem ég hef lesið mig til um.
Valdís tekur flestar myndir nú til dags. Það er af sem áður var að ég gangi um með flókna myndavél og telji mig einan um að taka góðar myndir. Svo urðu þær alls ekki allar góðar. Þetta var á því dellutímabili mínu sem kallast myndadellutímabilið. Hægra megin í glugganum sést í grastorfu sem liggur við holuna þar sem rósirnar eiga að koma. Valdís valdi þennan stað vegna þess að hún vill geta séð rósirnar sínar út um gluggann þegar hún situr við handavinnuna sína. Svona rósir voru við suðausturhorn Sólvallahússins þegar við keyptum það. Svo greri hún kolföst við vegginn. Nú er draumur Valdísar að renna upp; að fá samskonar rós sem fær sinn eigin vegg til að festa sig við.
Ég tók þessa mynd úr auglýsingu. Klifurrósin verður bókstaflega alþakinn þessum fallegu rósum og þetta er rósin umtalaða.
Valdís gengur nú gegnum ítarlega læknisrannsókn til að ganga úr skugga um hvort nokkuð alvarlegt sé á ferðinni. Hún er ótrúleg hetja og segir að nú sé um að gera að lifa lífinu eins og ekkert hafi í skorist. Hún er harðari af sér en ég þessi kona. Hins vegar er heilsufar hennar á uppleið. Hún fékk vont kvef og hefur nú að miklu leyti sigrast á því. Það er ekkert smá mál að sigrast á vondu kvefi. Ef Valdís hefði ekki tekið þessa afstöðu hefði ég líklega ekki skrifað þetta blogg og þá alla vega á allt annan hátt. Svo hlökkum við til vors og vaxandi hlýinda þar sem lífið streymir fram í blómum og grænum litum.
Að velta fyrir sér vísdómsorðum
Ég var svo sem ekki beinlínis yfir mig hrifinn af öllum vísdómsorðunum, en ég las þau þó rólega og gaf þeim öllum möguleika á að hrífa mig. Svo datt mér í hug einn morgunfundur starfsfólks í Vornesi fyrir einum sex árum. Þá er alltaf lesinn texti í byrjun fundar og þennan dag var textinn um það hversu mikið við manneskjurnar eigum að þroskast af öllu mótlæti. Sérstaklega einn þátttakenda á þessum morgunfundi vegsamaði þessi orð en ég fann bara hvernig seig í mig, bæði við að hlusta á textann og svo ekki minna þegar fólk byrjaði að vegsama hann með háfleygu orðalagi. Ég vissi vel þennan morgun að það er erfitt í mörgum tilfellum að setja þetta í samhengi; mótlæti og þroska.
Daginn áður hafði nefnilega hún Valgerður dóttir mín hringt til mín og sagt mér frá því að bróðursonur minn hafði lent í grimmu umferðarslysi og lamast fyrir neðan mitti. Því var textinn þennan morgun með sínum útspekúleruðu vísdómsorðum hreina tuggan. Þegar röðin kom að mér sagði ég með töluverðum þunga að það væri oft erfitt að finna þetta samband milli mótlætis og þroska. Stundum væri þetta bara orð á blaði. Nú sex árum eftir slysið er bróðursonur minn jafn mikið lamaður og hann var eftir slysið fyrir sex árum.
En mörg vísdómsorð eru svo góð að þau lýsa upp sálina, alla vega ef ég staldra við og íhuga þau, og þann 23. apríl voru vísdómsorðin í Kyrrð dagsins á þessa leið:
traustari, látlausari-
stilltri, alúðlegri.
Þetta var góð hugleiðing áður en ég byrjaði að bursta tennurnar.
Svo að lokum eru hér orð dagsins í dag, 25. apríl:
eða sólin skinið jafn skært og í dag....
Óli gaf engin grið eftir ballið
Og að dansa. Ég var alltaf stirður í dansi svo lengi sem ég reyndi og ég reyndar held að ég hafi orðið svolítið liprari þegar ég var búinn að fá mér í tána, það hafi ekki verið ímyndun. Ja hérna, og þá hef ég ekkert eftir. Leik ekki á hljóðfæri, syng ekki og dansa ekki. Úff, aumingja ég. En í mínum hugleiðingum um þetta undir kórsöngnum í gær var ég líka meðvitaður um að ég hef fengið mínar gjafir. Fyrir mér er þögnin oft upplifun, þögning sem sumir eru hræddir við. Fyrir mér er greinarendi úti í skógi sem ég er búinn að fylgjast með dögum saman hreina hamingjan þegar ég sé að hann er byrjaður að vaxa. Þessar gjafir hef ég útaf fyrir mig. En þegar ég hef fyrirlestur um mál sem fjöldinn getur ekki talað um og ég sé að ég hef áheyrendurna á mínu valdi, þá deili ég með öðrum eins og söngvarinn eða hljóðfæraleikarinn gerir. Trúlega enginn í kórnum eða hljómsveitinni kemst í fótsporin mín í sumu sem ég tek mér fyrir hendur. Svo hef ég mjög gaman af að hlusta á kórsönginn. Gjafirnar sem ég hef fengið eru líka góðar.
Valdís er þarna í miðröð nokkuð til hægri. Hún sá þegar ég tók myndina og ég held að það hafi truflað hana. Hávaxinn maður með gleraugu í öftustu röð hægra megin við Valdísi heitir líka Valdis. Hann er ættaður frá Eistlandi. Valdís mín segir að söngur sé lækning og gott lyf. Það segir kannski Valdis frá Eistlandi líka. Þessar tvær myndir eru ekki góðar enda þarf afburða góða myndavél til að geta tekið myndir af heilum kór með alls konar truflandi ljós í bakgrunninum.
Meira um lækningamátt þess að vera þátttakandi í tónlist. Fremst fyrir miðri myndinni sjáum við mann á hvítri skyrtu þar sem hann er að syngja einsöng. Hann er vel yfir meðallagi hár, herðabreiður og all gildur um mittið. Hann hlýtur að hafa verið mjög sterkur á sínum bestu árum. Hann kallast Tobbe og er nokkuð á níræðis aldri og ég get lofað að ég mundi ekki vilja að hællinn á honum lenti ofan á ristinni á mér þegar hann stígur til jarðar. En þegar kórinn syngur lög með góðri sveiflu og Tobbe hefur lyft sér upp á tærnar og hálf svífur í dansi, þá virðist hann ekki vera svo mörg kíló. Ég hef líka séð hann taka í hendina á manni við hliðina á sér þegar kórinn syngur eitthvað sérstaklega hjartnæmt. Já, er þetta ekki frábært?
Þegar við komum heim var kyrrlátt, dimm nóttin lögst yfir en útiljósin loguðu á Sólvöllum og lamparnir í förstofugluggunum sem snúa að götunni buðu okkur velkomin heim. Vítt og breitt til allra átta nema austurs lifðu útiljós á bæjum, en að öðru leyti var allt á huldu um það hvað bjó í nóttinni. Minnið segir að allt sé eins og það var í dagsbirtunni í dag og alla aðra daga, en nóttin leggur samt sinn leyndardómsflulla dökka feld yfir allt og gefur hugmyndafluginu endalausa möguleika. Valdís lagði sig fljótt eftir heimkomuna en ég reyndi að byrja að skrifa. Óli lokbrá var næstum uppáþrengjandi og gerði kröfu um hvíld og svo ásækinn var hann að það var ekkert um annað að gera en vera húsbóndahollur og leita á náðir hans án nokkurra skilyrða. Geysparnir voru orðnir gríðarlega stórir og tárin þrengdust fram og það var næstum eins og það væri sandur í augunum -þangað til á koddann var komið. En hvað það var friðsælt að finna ullarfeldinn leggjast að líkamanum. Klukkan var að verða eitt og Óli tók völdin.
Góðir tímar framundan
Í nokkra daga hafa él gengið yfir, slydda og jafnvel úrhellis haglél. Það hefur þó ekki fryst nema þá mjög lítið. Við hér í Örebroléni höfum ekki beinlínis þurft að kvarta undan snjóalögum eða rafmagnsleysi vegna slæmrar veðráttu eins og hefur verið í landshlutum ekki svo langt í burtu. Veðurspáin hefur verið dapurleg og fimm daga spáin á textavarpinu gerði ráð fyrir skítaveðráttu þangað til allt í einu um hádegið í dag að ég sá að nú hafði þetta snúist við. Spáin gerði allt í einu ráð fyrir vaxandi hlýindum og þá leit ég á tíu daga spána á netinu og þar er gert ráð fyrir 16 til 18 stiga hita um næstu helgi. Sem sagt; bráðum heyrum við grasið vaxa og laufverkið opna sig. Þá verða góðir dagar.
Í morgun var dádýr á beit á opna svæðinu vestan við Sólvelli. Um hádegi voru tvö dádýr á hlaupum á akri nokkru neðar og héri lék sér þar sem dádýrið hafði áður verið á beit. Undir kvöldið rölti hjörtur út úr skóginum og vestur yfir veginn. Það má segja að þetta var óvenju líflegt hvað þessa fjórfætlinga áhrærir. Hins vegar voru fuglarnir frekar hljóðir enda var það svo að það var slyddu og éljagangur í allan dag og um sex leytið var orðið alhvítt. Nú er þessi snjókoma gengin norður yfir, snjórinn er byrjaður að láta undan enda er hiti um eða yfir frostmarki. Síðan eiga hlýrri dagar að taka völdin.
Í fyrramálið þegar ég fer á nærbuxunum einum að útihurðinni bakdyramegin til að líta út, á ég von á glaðlegum fuglasöng og auðri jörð. Vordagar eru alveg dásamlegir. Heggurinn er hálf laufgaður, sama er að segja um sírenuna og hlynurinn er kominn vel af stað. Miklir frækólfar eru farnir að hanga frá fíngerðum, hangandi þráðum birkitrjánna og gulgrænir frækönglar seljunnar gefa henni vorlitinn. Ég sé fyrir mér hraðann sem verður á öllu þegar hlýnar. Ég fer að ganga milli kunningja minna sem eru heldur seinni til, taka greinaenda milli fingra mér og athuga brumin. Svoleiðis athuganir teljast án nokkurs vafa til andlegheita.
Það eru annríkistímar framundan með mörg þörf og skemmtileg verkefni. Eplatré og brómberjatré verða að fá sinn endanlega stað eftir miklar vangaveltur. Vissulega getur hvort þessara eplatrjáa skilað einu epli hvort í sumar, en brómberjatrén munu engum berjum skila fyrr en að ári. Ellilífeyrisþegar hafa allan tíma sem til þarf til að bíða eftir því. Eplatrén sem við gróðursettum í fyrra geta líka vissulega skilað einu og einu epli. Hérarnir átu ekki af þeim börkinn í vetur eins og þeir gerðu fyrir tveimur og þremur árum. Svo fer börkur þeirra að verða svo grófur að hérarnir éta hann ekki nema það verði mikill hungurvetur.
Þannig gengur lífið fyrir sig og það lítur alls ekki illa út. Ég var búinn að skrifa fyrir sögnina "vetrarauki" en ég ætla að breyta því. Það lætur svo þunglyndislega. Birtan er farin að smjúga svo snemma inn um stafngluggann á herberginu okkar að við erum farin að vakna fyrr og hressari á morgnana en við gerðum í mesta skammdeginu.
Hannes Guðjón
Eftir fjóra daga á Sólvöllum var komið að brottför. Þarna er Hannes kominn með bakpokann sinn og gengur rösklega út að bílnum. Ennþá er hann er örugglega ekki meðvitaður um að hann sé nú á heimleið, jafnvel þó að hann sé búinn að kveðja nágrannastúlkurnar Ölmu og Siw.
Þarna er Hannes búinn að kveðja ömmu og það er eins og það sé kominn tregi í svipinn þar sem hann horfir móti ömmu sinni og myndavélinni. Hálftíma seinna rúllaði lestin af stað í Kumla og ég veifaði honum og hann bara sat þar og horfði á mig og virtist ekki átta sig á að leiðir væru nú að skilja. Það var víst ekki fyrr en þau stigu út úr lestinni í Stokkhólmi og ég var ekki á lestarpallinum sem hann áttaði sig almennilega á því að leiðir hefðu skilið. Þá varð hann leiður fékk ég að vita.
Í dag hitti ég hjón í Fjugesta, hjón sem eru svolítið eldri en við Valdís og við töluðum um barnabörn. Þau eru afi og amma margra barna og einnar stúlku sem er bara aðeins eldri en Hannes Guðjón. Ég sagði sem svo að mér fyndist ég kannski fyrst núna vera orðinn nógu fullorðinn til að umgangast með skilningi þetta smáfólk. Ég held að ég hafi ekki verið nógu fullorðinn til að umgangast börnin okkar, alla vega ekki eftir að við byrjuðum að byggja einbýlishús í Hrísey talaði ég um. Maðurinn kinkaði strax kolli og alvarlegur var hann. Hann sagði að það væri mikið til í þessu. Konan var á sama máli. Ég þarf að muna eftir að útbúa veg með Hannesi næst þegar hann kemur og nota til þess mölina sem hann mokaði í hjólbörurnar fyrsta daginn sem hann var hjá okkur núna.
Frá sjötugs afmæli
En aftur um Valdísi. Hún fékk kvef um daginn og virtist verða góð af því aftur mjög fljótt, en nú er hún kvefuð og með leiðinda hósta. Væntanlega hefur hún fengið inflúensuna sem angrar svo marga núna og hefur gert um skeið og margir eru svo lengi að ná sér eftir inflúensuna. Valdís fékk þó ekki hita eins og ég en það er nóg samt. Bæði vorum við bólusett móti inflúensunni sem og margir aðrir sem hafa fengið hana. En nóg um inflúensu núna. Þrátt fyrir þetta hélt Valdís mér afmælisveislu og eitthvað snúllaði ég í kringum hana til aðstoðar, en það var Valdís sem stóð fyrir þessu, þar get ég ekki stært mig af neinu. "Sannleikurinn mun gera yður frjálsa" eru orð að sönnu.
Nú! Var þetta allt! og það var sjötugsafmæli. Já, á vissan hátt má segja að þetta var allt. Það var ekkert stórbrotið, engin hótel eða dýr veitingahús. Það var einfaldur afmælisdagur og eiginlega fleiri en einn dagur en ekkert stórbrotið eða magnað. Og þó. Fólkið á myndunum virðist vera í góðum málum og á flestum myndunum virðist beinlínis glatt á hjalla. Málið er nefnilega fyrir mína parta þannig að þetta var gott afmæli. Ég þakka öllum fyrir sem komu, einnig þeim sem sendu einhvern glaðning eða kveðjur.
En hvar eiginlega er hann nafni minn? Jú, ég er búinn að vista nokkrar myndir inn á annað blogg sem er í vinnslu og það blogg er tileinkað honum nafna mínum og brottför hans. Þau fóru ekki fyrr en á fimmta í afmæli.
Gestakoma
Vorverkin drógust öll á langinn, eiginlega allt frá því að eldiviður næstkomandi missera var kominn heim að húsi fyrir einum mánuði. Ég ætlaði að vera búinn að gera svo mikið fínt hér í kring og svo ætlaði ég að vera svolítið eins og haninn á haugnum þann 13. apríl og vera harla glaður og stoltur. Ég verð að vísu bæði glaður og stoltur en á annan hátt en til stóð. Í gær kom hérna maður sem býr í sveit eina 25 km héðan. Það er maðurinn sem keyrir um á stórum tankbíl og hreinsar frárennslisþróna einu sinni til tvisvar sinnum á ári. Svo skoðuðum við sandsíubeddann sem vatnið frá þrónni rennur í gegnum til að verða hreint og tært áður en það rennur út í umhverfið á ný. Hann var að gefa mér góð ráð.
Vegna þess að hann tók sér tíma til að gefa mér góð ráð, þá bauð ég honum í kaffi. Hann varð harla glaður og þegar hann var tilbúinn með bílinn kom hann inn í kaffi. Ég veit varla á hverju hann átti von, en þegar hann kom inn fyrir dyrnar inn í dagstofuna stoppaði hann snögglega og sagði: Hafið þið gert þetta svona fínt? Svo gekk hann eins og svolítið á tánum og leit út um gluggann móti vestri, móti sveitinni sinni, og sagði að þetta væri alveg frábær staður. Svo drukkum við kaffi og borðuðum ristað brauð með osti og vorum glaðir. Svo kom Valdís og borðaði morgunverð með okkur.
Þannig er það að Sólvellir er góður staður og þó að vorverkin hafi ekki gengið eftir eins og til stóð, þá höfum við eftir sem áður ávaxtað eignina með miklum sóma. Því má ég, og við bæði, vera stolt þann 13. apríl. Það er ekki bara maðurinn á tankbílnum sem segir þetta. Bæði yngri og eldri minna okkur svo oft á það að við búum vel á Sólvöllum og að staðurinn er svo fallega í sveit settur. Margumtöluð inflúensan bara breytti áætlunum okkar svo mikið en nú erum við hér og nú og þannig á það að vera.
Ég var góður í reikningi í skóla. Ég var mjög ungur þegar ég byrjaði að reikna út hvað ég yrði gamall árið 2000. Svo reiknaði ég þetta aftur og aftur og þó að ég vissi svarið hélt ég áfram að reikna þetta út ár eftir ár. Fimmtíu og átta ára, vá! Sá sem er 58 ára hlýtur að vera mikið vís maður! Mig minnir að eitthvað á þá leið hafi ég hugsað. En þegar ég var til dæmis átta ára, þá var árið 2000 bara í ljósára fjarlægð. Og þó! Það eru komin tólf ár í viðbót við 58 árin og stundum finnst mér sem ég sé svo langt frá því að vera vís maður. Mér getur fundist ég vera barnalegur þegar minnst varir, klaufi í orðalagi, taka óþroskaðar ákvarðanir, en svo er ég líka oft ánægður með þann sem ég er þó að mér finnist vísi maðurinn kannski ekki vera kominn ennþá. Kannski verð ég vís maður á morgun. Hver veit?
Við hlökkum til heimsóknarinnar á morgun og það verður mikil tilbreyting fyrir okkur og svo sannarlega vona ég að þau sem koma í heimsókn til okkar upplifi það þannig líka. Það verður engin fjölmenn afmælisveisla á morgun, það verðum bara við, þessi fjölskylda sem ég hef þegar nefnt. Ég held næstum að það sé bara í Vornesi sem fólk hér í landi veit að ég verð sjötugur á morgun. Nokkrir Vornesingar ætla að gleðja okkur með nærveru sinni á mánudaginn kemur. Það fer nú vel á því.
Nú rak ég augun í vísdómsorð dagsins í bókinni Kyrrð dagsins. Þar eru orðin í dag fengin úr fornindverskum söguljóðum og þar segir: Hávær orð falla með glymjanda í tómið. Réttu orðin, jafnvel mjög lágvær, geta lýst heiminum.
Ég veit að þegar ég hef sagt eitthvað sem hefur haft jákvæð áhrif á fólk, þá hef ég ekki talað hátt. Hávær rödd og valdmannsleg fer mér afskaplega illa.
Nú fer ég að leggja mig harla glaður. Það er hollt að blogga og alveg sérstaklega þegar það er erfitt að byrja.
Á siglingu um heimshöfin með viðkomu á Íslandi
Kona heitir Bára Halldórdóttir og er tæknimaður hjá Ríkisútvarpinu íslenska, Rás 1. Hún er bróðurdóttir Ingibjargar Pétursdóttur í Fjugesta og lætur sér annt um þau hjón. Eitt sinn var Bára að leita á netinu að myndum frá Fjugesta. Þá fann hún bloggið mitt. Þar fann hún væntanlega líka myndir frá héraðinu kringum Fjugesta og þar fann hún nafnið mitt og komst að því að við værum næstum nágrannar Ingibjargar og Leifs. Síðan er eitthvað á annað ár og það er ástæða þess að við Valdís þekkjum nú þetta fólk.
Við Valdís höfum heimsótt Ingibjörgu og Leif nokkrum sinnum. Bára er nú ásamt Halldóri syni sínum í heimsókn hjá þeim Fjugestahjónum og í dag, páskadag, var okkur Valdísi boðið þangað í íslenskan páskamat.
Íslenska lambalærið var ljúffengt og einnig epplapæið sem hann Halldór útbjó. Bára fór inn á Íslendingabók og athugaði skyldleika okkar á milli. Þegar Leif talaði um Ísland fann ég vel að hann hafði kynnst landinu ótrúlega mikið á þeim fjórum árum sem hann bjó þar og hann gæti heldur betur orðið mér skeinuhættur í spurningaþætti um Reykjavík. Leif og fyrrum skipsfélagi hans, Ragnar Gunnarsson matreiðslumaður, eru miklir vinir enn í dag. Leif fær stjörnur í augun þegar hann talar um þennan íslenska vin sinn.
En nú erum við Valdís heima á ný. Það eru margir þættir sem valda því að við höfum hitt þetta fólk. Í raun er fyrsti þátturinn að Leif kom til Íslands um 1960, einnig að þau fluttu til Svíþjóðar, að ég blogga, þá að Bára fór út á netið til leita að myndum frá Fjugesta og fann bloggsíðuna mína. Og svo auðvitað það að hún ákvað að hafa samband til að segja okkur frá þessu fólki sínu. Leif, þú talar ótrúlega góða íslensku. Takk fyrir páskamatinn og samveruna þið öll.
Öðru vísi þögn 7. apríl 2012
Nú er tími fyrir síðbúinn morgunverð og svo þurfum við Valdís að semja dagskrá þessa laugardags.
Eiginlega var nú búið að semja dagskrá þessa laugardags þegar í gær. Við ætluðum inn í Marieberg, höfuðstöðvar Mammons í Örebro, og erinda þar lítillega og við vorum líka ákveðin í því að fá okkur kaffi og eitthvað gott með því. Það var akkúrat þetta sem við gerðum líka um hádegi í dag. En fyrst fengum við heimsókn. Sænsk börn fara á stjá laugardaginn fyrir páska, máluð og gjarnan í einhverjum búningum sem ekki tilheyra daglegum klæðnaði. Þá kalla þau sig páskakerlingar. Svo afhenda þau páskakort sem þau hafa gert sjálf og svo bíða þau eftir að fá eitthvað í staðinn.
Systkinin Olle og Emma komu fyrst og bönkuðu upp á. Þegar ég var búinn að taka við páskakortinu þeirra spurði ég hvort þau vildu ekki hafragraut, en þau horfðu á mig í mikill undrun. Þá kom Valdís með skálina sem var þá þegar tilbúin hér heima og þau fengu sælgæti en engan hafragrautinn. Valdís tók eftir nokkru þegar þau bönkuðu. Við heyrðum ekki til þeirra, en þar sem Valdís var búin að taka eftir þeim bjargaðist þetta. Í framhaldi af þessu keyptum við dyrabjölu sem er nú þegar komin á sinn stað. Svo komu fjögur börn í viðbót eftir að við komum heim úr verslunarferðinni og allt páskasælgæti er nú búið að þessum bæ. En í staðinn erum við orðin svo nútímaleg að það er komin dyrabjalla á Sólvelli. Munið bara eftir því ef ykkur ber að garði. Sólvallahúsið er vel einangrað.
Í dag komst hitinn í tvö til þrjú stig og það var sól. Snjórinn hvarf því næstum alveg og á miðvikudag er spáð tólf stiga hita og búið að spá því í tvo daga. Eftir það verður nú erfitt að hugsa sér hret. Það fer að styttast í þéttar ferðir mínar út í skóg til að huga að vexti bruma og laufgun. Ég veit hvaða unglauf vekur mesta aðdáun mína og það hef ég oft talað um. Það er beykilaufið. Það er alveg sérstakt að sjá þessi ungu líf, hrokkin, litfögur og glansandi, þegar þau opna sig móti þessum heimi.
Ég er búinn að fara nokkra hringi í skóginum í dag þó að ég hafi ekki verið að fylgjast með brumum. Síðustu ferðina fór ég eftir að dimma tók og sú ferð var auðvitað öðru vísi. Það var jú farið að dimma svo mikið að ég þurfti að fara varlega. En það var annað sem fangaði athygli mína. Það var hljóðið í skóginum. Ég veit varla hvort ég get sagt það að þögnin var öðru vísi en ég segi það nú samt. Ég hef áður komið út í skóginn eftir dimmumótin, en ég man ekki svo áþreifanlega eftir þessu áður. En það var alla vega góð reynsla og skemmtileg.
Ef ég les vísdómsorð dagsins í bókinni Kyrrð dagsins þá stendur þar:
Ég hef aldrei fundið félaga sem veitti mér
jafngóðan félagsskap og einveran."
Þetta er sagt af manni að nafni Henry David Thoreau (1817-1862)
Svo er það mikilvægasta eftir. Valdís er búin að hrista af sér kvefið og það veitir mér mikinn létti. Ég sem var með næstum 40 stiga hita í þrjá daga og finnst ég ennþá vera ónógur mér hálfum mánuði seinna, ég er bæði feginn og hissa. Gott hjá minni kerlingu.
Föstudagurinn langi 2012
Ég varð var við þegar Valdís tók matarpottinn sem stóð úti í skugga bakvið húsið, en svo velti ég því ekki meira fyrir mér. Þegar ég var búinn að hreinsa í kringum allar alparósirnar, bera á þær, bæta á þær plöntunarmold og svolítilli alparósarmold, þá rakaði ég saman grasrótarhnútum, rótum og öðru sem þurfti að hreinsa frá þeim og fór með í hjólbörum í lægð við skógarjaðarinn þar sem ég gekk frá því. Svo leit ég aðeins yfir verk mitt og var harla glaður. Nú þurfti ég að hafa svolítið hraðann á því að ég átti eftir að gera meira. Ég þurfti að jafna lágkúrulegri malarhrúgu kringum eitt af þakrennuniðurföllum. Þá eins og venjulega urðu nokkrir steinar eftir sem urðu að fara á sinn stað, einnig í lægð út við skógarjaðarinn sunnanverðan.
Gömlu hellurnar tíu sem voru í snyrtilegri stæðu vestan við húsið voru næstar á dagskrá. Þær hafði ég notað sem hjálpartæki við eitthvað af haustverkunum mínum og nú loksins kom ég því í verk að fara með þær á malarplanið bakvið viðargeymsluna. Þetta var nú meiri munurinn og bara gaman, gaman. Krossviðarrenningarnir tveir sem ég lagði á jörðina og notaði sem undirlag þegar ég var að sníða ákveðna steinplötu, einnig í fyrrahaust, voru nú orðnir ægilega áberandi. Ég þreif þær undir aðra hendina og gekk frá þeim skammt frá gömlu gangstéttarhellunum þarna á bakvið viðargeymsluna.
Þannig gekk þetta þangað Valdís kom í dyragættina og spurði hvort ég ætlaði ekki að fara að hætta. Maturinn væri orðinn heitur. Nú, hvað er þetta, er bara komið kvöld. Já, og svo var það, og ég orðinn glorhungraður. Svo var kvöldmatur á Sólvöllum. Sultardropinn á nefbroddinum var löngu horfinn og ég fann fyrir vinnugleði. Ef eitthvað skyggði á var það kvefið sem var farið að gera vart við sig hjá Valdísi. Ég var óánægður með það, það er bara að segja sannleikann í því máli.
Þetta lítur kannski út eins og ég sé að reyna að stíga upp úr djúpu þunglyndi en svo er þó ekki. Ef ég lít til baka, þá eru þeir ekki margir dagarnir þar sem bloggin mín bera sorgartón. Ég skrökva ekki í bloggunum mínum. Þetta var um daginn í gær.
Í morgun þegar ég vaknaði eftir minn átta tíma svefn tók ég upp bók sem liggur í náttborðsskúffunni minni. Hún er rauð og heitir Biblían. Núna undanfarna daga sem ég hef tekið lífinu með meiri ró en ég hef gert síðan ég var að ná mér eftir mjaðmaraðgerðina fyrir tveimur og hálfu ári, þá hef ég látið eftir mér að lesa í henni bæði kvölds og morgna. Fyrir all nokkrum vikum byrjaði ég að lesa Jóhannesarguðspjallið. Svo fyrir einum tveimur vikum hljóp ég yfir nokkra kapítula og það varð til þess að ég er núna að lesa nákvæmlega það sem dagurinn í dag gengur út á. Ég get ekki látið það vera að vera snortinn af þessum boðskap. "Í þessum vonda heimi getur ekki fundist neinn góður, æðri máttur sem stýrir því sem skeður". Þetta fæ ég oft að heyra. Nokkrum vikum seinna segja sömu raddir að það sé eitthvað til í þessu öllu saman. Ég skil ekki þessa hluti og get því ekki útskýrt þá heldur. Heppinn er ég þar. Jafnvel þó að ég skildi allt óréttlæti og allt réttlæti, þá mundi ég ekki geta stýrt heiminum. Því er best að skilja bara lítið.
Ég ákvað að fara hring í skóginum og það var annar hringur dagsins. Rétt áður en ég lagði af stað heyrði ég meistaraverk hljóma um húsið. Valdís hafði fundið í tölvunni flutning á verki Davíðs Stefánssonar
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.

Meðan ég rölti þarna um skóginn, tók myndir og heilsaði upp á kunningja mína, og var undir áhrifum þess sem ég hafði upplifað í dag, þá datt mér í hug páskaljóðið hans Björns Jóhannssonar vinar míns frá því í Skógaskóla fyrir 53 árum. Ég sá það á Facebook í dag. Já, hugsaði ég, ég sendi honum Birni orðsendingu og spyr hvort ég megi birta þetta páskaljóð hans í blogginu mínu. Og svo gerði ég og hér er þetta fallega páskaljóð.
töldu hann sekan og andsnúinn sér
sökin var ástin, og trúin á þann
sem allt hefur skapað í heiminum hér
illskan og hatrið á honum ei vann
enn tendrar hann neista í hjartanu á þér.
Já Björn, þakka þér fyrir þetta. Hefði hann ekki tendrað neista í hjarta mínu í dag hefði ég upplifað allt annan dag en ég þó gerði. Þetta blogg hefði litið allt öðru vísi út eða aldrei orðið til. Dagurinn í dag er enginn stór gleðidagur í lífi mínu, en mér finnst hann samt vera verðmætur dagur sem hefur gefið mér innsýn í margt. Þetta blogg hefur verið flakk á milli sorgar og trega, umhugsunar og þakklætis, efasemda og undrunar og inn á milli gefandi vissar gleðistundir.

Litla telpan var svo bækluð að hún gat ekki gengið





Hér er svo nágrannaskógurinn. Það er allt annar skógur, nytjaskógur, en ef hann yrði allt í einu felldur yrði Sólvallaskógurinn eins og eyðieyja. Þess vegna mundum við svo gjarnan vilja eiga þennan skóg. En það má telja öruggt að þessi skógur verði aldrei felldur án þess að tala um það við okkur.
Ég kveiki á kertum mínum