Að breyta lífsstílnum
Það er búi að vera lengi á döfinni hjá mér að breyta lífsstílnum, en þó ekki fyrr en ákveðnum verkefnum er lokið hér heima. Svo hafa verkefnin aukist bara svona án þess að það hafi verið til nein framtíðaráætlun þar að lútandi. Þegar Bjarg yrði tilbúið átti breytingin að verða en svo dróst það þangað til búið yrði að gera lóðina tilbúna þar í kring. Svo dróst það þangað til búið yrði að loka grunninum undir gamla hlutanum af Sólvallahúsinu og svo dróst það þangað til búið yrði að gróðursetja ávaxta og berjarunna eins og mig var búið að dreyma um svo lengi. Svo var það búið og þá sýndist mér að lífsstílsbreytingin gæti farið af stað. Marga fleiri þætti hefði ég getað nefnt.
Svo ákvað ég að byggja geymsluhúsnæðið og þar komst ég í kapp við veturinn þannig að lífsstílsbreytingunni var enn einu sinni slegið á frest. Nú er það hús tilbúið undir veturinn og þá var ekki eftir neinu að bíða. Loksins! En þá skeði annað; ég fékk fráhvarfseinkenni og varð ótrúloega órólegur. Ég þurfti ekki að keppa að neinu lengur og ég gerði mér alveg grein fyrir því að svo var og ég varð órólegur vegna þess að ekkert hvíldi lengur á mér sem varð að klára.
Svo fékk ég heimsókn í dag. Læknirinn Þórir kom í heimsókn með frúnni sinni læknaritaranum. Með vilja færði ég þessa hluti í tal og hvað mér bæri nú að gera og þetta urðu skoðanaskipti fram og til baka. Það voru mikið góðar umræður fyrir mig. Svo fóru Auður og Þórir og eftir sat ég einn og tvísté í huganum. Svo fékk ég mér tvær auka pönnukökur. Síðan með rólegum hreyfingum skipti ég svolítið um föt, setti gönguskóna fram í forstofu, gekk um húsið til að tryggja að allt væri í lagi, setti endurskinsmerki í jakkann minn, fórn í skóna og gekk af stað.
Klukkan 15,19 nákvæmlega gekk ég gegnum innkeyrsluna og út á veginn. Það var engin áætlun sem var fyrirliggjandi, heldur ákveðinn hringur sem er 3,5 km og hann skyldi einfaldlega genginn. Innan skamms var ég kominn aftur að innkeyrslunni og klukkan var allt of lítið þannig að ég fór annan hring og á 55 mínútum lagði ég sjö km að baki. Lífsstílsbreytingin var hafin.
Það er eitt og annað sem hangir á spýtunni í þessari lífsstílsbreytingu minni, en enn um sinn ætla ég að hafa það að mestu fyrir sjálfan mig. Ég get bara sagt að ég kann ýmsar æfingar sem ég hef gert hér heima en engan veginn reglulega. Þá daga sem ég var 12 tíma á dag úti að byggja hús, þá sleppti ég slíkum æfingum. Hjá sjúkraþjálfurunum í Fjugesta er lítill æfingasalur þar sem er fullkomlega kyrrlátt, þar er bjart og einhvern veginn gott sndrúmsloft. Svo ekki meira um það.
Svo á ég bækur sem bíða mín og ég á marga drauma um að heimsækja hina og þessa staði. Og það er til fólk sem gjarnan vill hitta mig en ég hef gefið lítið fyrir það, vegna þess að ég hef alltaf verið að stefna að vissu markmiði. Núna er það orðið þannig að ég get ekki staðið á móti fólkinu lengur og það líður mér vel með. Ég veit að margt er eftir að gera á Sólvöllum og mörgu þarf einfaldlega sð sinna reglulega eins og maður sinnir því reglulega að fara í sturtu eða klippa neglurnar á tánum.
Óróinn hefur ekki alveg yfirgefið mig sem þýðir að væg fráhvarfseinkenni eru enn til staðar, en samt fann ég að þegar ég gekk út í gegnum innkeyrsluna í dag, að þá var eins og ég gengi yfir landamærin til annars lands. Það gerði ég líka þegar ég gekk yfir þröskuldinn innan við stóra andyrrið á Vogi, þá fékk ég á tilfinninguna, þrátt fyrir vafasamt ástand mitt, að ég væri að ganga yfir landamærin inn til nýja landsins. Svo var það og það land hefur verið mér gott. Nú verður land lífsstílsbreytinganna gott við mig líka.
Þetta líkist nokkuð því sem ég hefði getað sagt á AA fundi í Fjugesta.
Nú er glatt í hverjum hól
Ég segist alltaf vera að gera eitthvað hér á Sólvöllum og ég er ekki hissa þó að fólk spyrji stundum hvað ég sé að gera. Eigi maður heima í sveit eins og ég geri og svo að ég tali nú ekki um ef maður er einn, þá er auðvelt að láta hlutina fara að grotna í kringum sig og grotna svo með þeim. Það væru mér þungbær örlög að fara þannig.
En lítum við til Sólvalla frá lóð nágrannans sunnan við, þá lítur staðurinn alveg þokkalega út.
Ef svo er farið aðeins lengra niður í saumarna, þá er hægt að finna eitthvað sem betur mætti fara. Þarna eru þrjú viðarskýli sem eru að verða úr lagi gengin og svo er stór galli við þau. Þegar ég sæki við eða er að stafla viði inn í þau, þá rek ég höfuðið afar oft upp í þakið. Þau halda heldur ekki viðnum nægjanlega þurrum. Þau voru alltaf til bráðabyrgða.
Það var einhvern tíma að við Páll bróðir og hún Guðrún mágkona mín töluðum saman á skype. Einmitt þá spurðu þau hvað ég hefði verið að bardúsa þann daginn og einmitt þann daginn hafði ég verið að koma röð og reglu á bakvið Bjarg. Það er svo sem ekkert slæmt um þetta að segja. Þarna er raðað upp viði sem meira að segja er málaður, aflangar blikkplötur skýla viðnum fyrir regni og svæðið lítur bara vel út.
Þegar ég fór út í morgun fór ég á sama stað til að taka mynd, en viti menn; detta nú af mér allar dauðar lýs. Hvað hafði skeð þarna bakvið Bjarg. Myndin fyrir ofan var tekinn á nákvæmlegsa sama stsað. Sjúkk!!! Merkir einhver breytingu þar?!
Hér fyrir neðan er smá myndasaga.
Ég hafði sagt að það væri fullbyggt á Sólvöllum en það var í byrjun september sem ég tók nýja ákvörðun; að byggja eitt hús enn. Ég setti allt í gang, teiknaði og sendi til byggingsarfulltrúa og fór til hans sögunarMats. Ég sagði í bloggum í ein tvö skipti að ég hefði farið til hans til að kaupa spýtu. Sannleikurinn var sá að ég keypti svo margar spýtur að ég var með ólölegt hlass þegar ég ók heim. Síðan keypti ég málningu í Fjugesta og byrjaði að mála. Svo málaði ég og málaði og málaði aftur, keypti annað kerruhlass og hélt áfram að mála. Ég málaði svo mikið að ég var farinn að undrast stórlega allt það magn af málningu sem ég keypti, hverja tíu lítra fötuna á fætur annarri.
Bílskúrinn var of lítill fyrir svo mikla málningarvinnu og þess vegna breiddi ég viðinn móti haustsólinni og bar hann svo inn að kvöldi.
Undir þakskegginu austan á geymdi ég fullmálaðan við svo að ég gæti málað meira inni í bílskúrnum.
Það var 30. september sem þeir mættu hér klukkan hálf sjö að morgni, þeir Martin gröfumaður og Anders smiður. Þá varð minnst sagt ótútlegt um að litast austan við Bjarg um tíma, ótútlegt og ótrúlegt fyrir ellilífeyrisþegann.
Um tíuleytið að morgni leit það svona út. Tvö stór bílhlöss af möl jöfnuð undir gólf og papparörin fyrir stöpla komin á sinn stað. Svo kvaddi Martin og við Anders steyptum í rörin og allt þetta var tilbúið um hádegi. Nú var ég feginn. Nú mátti rigna bara alveg eins og hver vildi. Anders fór til sinnar vinnu á öðrum vígstöðvum og ég hélt áfram að mála.
Ekki gat ég keypt allt hjá honum sögunarMats. Þann 23. október kom annar Mats, en hann kom frá byggingarvöruversluninni þar sem ég hef keypt svo mikið í Sólvallahúsin. Í þetta skipti kom hann með útveggjapanel, þakpanel, þakpappa, þakrennur, niðurfallsör, nauðsynlega lista á þakið, þakpönnur og efni í vindskeiðar. Og ég inn í bílskúrinn með útveggjapanelinn og vindskeiðaefnið og hélt áfram að mála og kaupa málningu í Fjugesta.
Þegar Anders smiður kom svo 28. október var ég búinn að mála allt sem þurfti og meira til og saga í ákveðnar lengdir þannig að við byrjuðum bara að negla saman og þá rauk undan skósólunum. Það er of langt mál að útskýra hvers vegna meira að segja þessar undirstöður eru líka málaðar, en það var nauðsynlegt að gera svo.
Upp úr miðjum degi leit það svona út og um kvöldið vorum við ennþá lengra komnir.
Að kvöldi annars dags vorum við komnir svona langt og vorum mjög ánægðir. Ég tók fánann hans Hannesar og flaggaði á vesturstafninum. Nágrannar voru farnir að koma og engu af uppátækjum mínum á Sólvöllum hefur verið tekið með meiri áhuga en þessu -og af meiri jákvæðni. Það kom í ljós að margur vildi hafa þessa byggingu heima hjá sér.
Að morgni þriðja dags kom maður að nafni Lars með Anders og nú hélt áfram að rjúka undan skósólunum. Á þessum þriðja degi kom klæðningin á þakið báðu megin, vindskeiðar sem þá voru hvítmálaðar og snyrtilegar og ákveðnir listar upp og niður þakið sem halda í raun pappanum niðri. Þennan dag, fimmtudag, var ég handlangari og kokkur. Ég var búinn að lofa góðum mat þennan dag og ég eldaði gula baunasúpu með smábrytjuðu svínakjöti í, bakaði pönnukökur og þeytti rjóma. Við vorum allir ánægðir, smiðirnir og ég, og gerðum matnum góð skil. Þennan dag kláraðist sultan mín.
Eftir þetta hélt ég einn áfram, setti upp þakrennur, þverlistana sem sjá má á þakinu, bar upp 1350 kg af þakpönnum og raðaði síðan á. Það rauk ekki beinlínis úr skósólunum eftir að ég varð einn en marga daga hefur gengið vel. Sumir dagar hafa verið 12 tíma vinnudagar og öll framvinda hefur verið stórskemmtileg.
Þakið er þarna tilbúið með öllu tilheyrandi og þá bar ég inn allan við sem ekki var undir þaki, setti inn ýmis áhöld og öll garðhúsgögn. Síðan hélt ég áfram ýmissi vinnu við veggi.
Hér er svo norðurhliðin á þessu húsi. Það er ekki komin röð og regla á þarna inni en allt er í skjóli. Þegar ég skrifa þetta þriðjudaginn 25. nóvember er ekkert sem liggur frekar á að gera. Það má koma vetur og ég get dundað þarna einn tíma einhvern daginn, fjóra tíma einhvern annan dag og gert ekkert þar einhverja daga líka. Það eru komnir góðir tímar á Sólvöllum.
En! Í dag setti ég vetrarhjólin undir bílinn en það bærðist undarleg tilfinning innra með mér og sama tilfinning var þar í gær. Þetta er tilfinning sem potar í mig hingað og þangað, fær mig til að halda að ég eigi að gera eitthvað annað en ég geri og lengst inni er órói. Ég á nefnilega erfitt með að skilja að nú má ég hafa það notalegt, að ég þurfi ekki lengur að hamast og keppa við árstíðina. Það er margt eftir í þessu nýja húsi innanverðu og það er margt eftir að gera hingað og þangað á Sólvöllum. En það liggur ekki lífið á! Ég hef ekki lagt jafn hart að mér við neitt annað verkefni sem ég hef unnið að hér á Sólvöllum og það hefur einhvern veginn sest að í mér.
Kannski ég þurfi bara að fara í afvötnun í Vornesi til að ná mér niður. Nei, ég ræð við þetta og núna er ég að fara í mat á Brändåsen svona til tilbreytingar. Á morgun þarf ég að ná í föt í hreinsun og ég ætla líka að kaupa mér stóra tertusneið, en áður en ég legg af stað ætla ég að skoða nýja húsið mitt. Svo þegar ég kem heim ætla ég að skoða nýja húsið mitt aftur, fara síðan inn og skoða í bankann minn til að sjá hvað ég fæ útborgað. Svo ætla ég að hita mér kakó og borða tertusneiðina.
Nú er ég búinn að nota mikið af hvítri lygi síðustu vikurnar með því að segja aldrei hvað ég var að gera. Nú er líka komin skýring á því hvers vegna ég hef verið mjög ósýnilegur í fleiri vikur. Hefði ég sagt frá þessu meðan á verkinu stóð hefði fólk bara haft áhyggjur af mér eða þannig leit ég á það. Það voru bara Rósa og Valgerður með fjölskyldum sem vissu um þetta og einir tveir eða þrír aðrir.
Að gera góða hluti í Sádí-Arabíu
Meðan Rósa var skiptinemi í Hollandi um títugs aldur fór hún eitt sinn í heimsókn til skólabróður síns frá menntaskólanum á Akureyri, Sigga Palla, sem var þá við ljósmyndanám á Ítalíu. Ég talaði við hana áður en hún lagði af stað frá Hollandi og hún lofaði að láta okkur vita þegar hún væri komin á leiðarenda. Það sem ég ætla að segja frá núna er eins og ég man það frá því er Rósa sagði okkur endanlega ferðasöguna, en trúlega er það talsvert öðruvísi en hún man það sjálf.
Hún fór með einni lest frá Hollandi og þurfti svo að skipta alla vega einu sinni um lest og lestarskiptin sem mig minnir að hún hafi sagt frá áttu sér stað uppi í fjalllendi þar sem hún beið ein um miðja nótt á óupplýstri lestarstöð. Svo kom jú lestin sem flutti hana áfram og að lokum kom hún til skólabróður síns á Ítalíu. Þá fékk hún að hringja snöggt samtal til að láta vita að hún væri komin fram.
Ef við Valdís hefðum vitað um þessar aðstæður, þá hefðum við jafnvel orðið flogaveik af tilhugsuninni einni og að geta heldur ekki heyrt hvernig henni reiddi af fyrr en hún var komin alla leið. Hún sagði okkur ekki frá þessu fjalllendisævintýri fyrr en löngu seinna.
Þegar hún hringdi frá Sigga Palla til að láta okkur vita var myljandi stórhríð í Eyjafirði. Ég sagði henni frá því í símtalinu og bætti við að þessi snjókoma kæmi væntanlega ekki niður eftir til þeirra fyrr en daginn eftir og fannst mér þá að ég væri mjög sniðugur. Þau gerðu svo grín að þessu fram eftir kvöldi áður en þau lögðu sig. Þegar þau litu út daginn eftir var kominn snjór og það var eitthvað sem hafði ekki skeð í árafjöld.
Þetta var um löngu liðna atburði, en þegar Rósa sagði mér frá því fyrir nokkrum vikum að hún væri ráðin i stórverkefni á sviði heilsugæslu niður í Saudí-Arabíu, þá flaug margt um huga minn. Fyrir mér var það land ekki eitt af þeim sjálfsögðustu fyrir Norðurlandabúa að fara að vinna í, og þá ekki síst fyrir konu. Stuttu síðar komu fréttir um það að Sádí-Arabar hefðu tekið einhvern ákveðinn fjölda manns af lífi á þessu ári og aðferðin var kannski ekki sérataklega aðlaðandi.
Ég velti því fyrir mér hvers vegna fólk væri að gefa sig í vinnu þarna frá friðsælli Svíþjóð, hvort það væri ekki hreinlega rangt að gefa sig að þessari þjóð. Það var hreinlega geigur í mér og ég hugsaði mikið um þetta. En ég komst að niðurstöðu sem ég hafði ekki vænst í upphafi. Niðurstaðan var sú að það væri líklega ekkert betra til að sá fyrir nýjum viðhorfum og hugsunarhætti en að vinna með fólkinu. Þá á ég ekki við að áróður sé í gangi, heldur að fólk sé einfaldlega að vinna saman.
Ástæðan fyrir því að ég byrjaði á því að tala um ferðina til Ítalíu er sú að mér var svolítið líkt innanbrjósts í gærkvöld þegar Rósa hringdi og sagðist leggja af stað til Sádí-Arabíu á morgun, eins og mér var þegar hún var að leggja af stað frá Hollandi til Ítalíu forðum. Svo var ég að tala við Pál bróður í síma núna í kvöld og þá fékk ég SMS og þar stóð: "Komin heim á hótel. Allt í góðu." Mér létti kannski ekki eins mikið og þegar hún hringdi forðum og sagðist vera komin fram til Sigga Palla, en mér létti. Samt veit ég að þetta er fyrir Rósu mikið minna en það var fyrir okkur Valdísi þegar við fluttum til Svíþjóðar.
Ég vona að Sádí-Arabar verði ánægðir með að vinna með Rósu og fylgdarliði og að hvor aðili fyrir sig verði ánægður með að hitta hinn. Biðjum svo fyrir friði í heiminum í kvöldbæninni okkar og morgunbæninni líka.
En sú upplifun þegar svona lagað hendir bara þegar minnst varir
Í fyrra auglýsti ég eftir kvikmynd. Ég skrifaði atriði úr henni í bloggið mitt og bað þá sem hugsanlega skyldu kannast við lýsinguna að láta heyra frá sér. Hún Guðrún Rósa dóttir hennar Binnu mágkonu minnar sagðist kannast við allra síðasta atrtiðið en það voru líka einu viðbrögðin.
Eftirfarandi hef ég notað í tugi ef ekki hundruð skipta í ákveðnum fyrirlestri í Vornesi og það hefur haft mjög sterk áhrif þegar ég hef notað það í því ákveðna sambandi. Við þær aðstæður verður lýsingin líka allt öðru vísi en mér tókst að skrifa hana. Það hafa margir komið til mín eftir á og spurt mig hvort ég geti ekki með nokkru móti munað eitthvað nafn úr myndinni eða annað sem gæti hjálpað til við að finna hana. En nei, það hef ég ekki getað og ég hef mikið reynt að finna myndina -án árangurs. Hér er lýsing mín úr þessari mynd:
"Fólk vann við hjálparstörf suður í Afríku, í stóru hvítu tjaldi að því er mig minnir. Þar var miðaldra læknir, miðaldra eða rúmlega það, og nokkuð yngri kona sem líklega var hjúkrunarkona við þetta hjálparstarf. Það varð samband milli þessara tveggja, fallegt samband sem ekki hafði neinar viltar senur sem hafðar voru til sýnis á tjaldinu. Smám saman byrjaði læknirinn að hafa áhyggjur af þessu sambandi, hann fékk samviskubit og hvers vegna man ég ekki, en ég trúi að það var aldursmunurinn sem það fjallaði um.
Samviskubitið varð honum að lokum ofviða og morgun einn kom hann ekki til vinnunnar í tjaldinu. Konan fékk af þessu þungar áhyggjur en vonaði að læknirinn kæmi til baka. Dögum og vikum saman beið hún en hann kom ekki. Hún hugleiddi samtöl þeirra og reyndi að komast að einhverju sem gæti hjálpað henni við að finna manninn. Hann hafði talað um klaustur nokkuð norður í Evrópu, í frönsku ölpunum hef ég sagt, og hjá þessu klaustri var hús nokkuð sem var sérstaklega gert fyrir íhugun og athuganir.
Að lokum gafst konan upp á biðinni, lagði land undir fót og hélt norður til Evrópu. Hún þreifaði sig áfram með þolinmæði og fyrirspurnum og að lokum stóð hún í brekku einni og horfði upp til gamals klausturs. Nærri þessu klaustri var líka minna hús sem hún horfði á og var hún nú viss um að hún væri kominn að þessum stað sem hann hafi talað um. Rólega gekk hún að húsinu og opnaði hljóðlega útihurðina sem var nærri einu horni þess.
Þegar hún sá inn sá hún að húsið var eitt herbergi og hún sá einnig hvar vinurinn sat við borð í gagnstæðu horni þessa herbergis. Þar sat hann innan um bækur, blöð og skriffæri. Þegar hann varð hennar var stóð hún enn í dyrunum og horfði inn til hans. Hann sneri sér í stólnum og horfði á móti. Um stund voru þau kyrr í þessum stellingum, en að lokum gekk hún hægt inn gólfið í átt til hans og stoppaði nálægt skrifborðinu. Hann reis upp og þau horfðust í augu án þess að segja orð.
Eftir að hafa staðið þannig um stund tóku þau hlýlega hvort utan um annað og föðmuðust fallega og lengi.
Hann læsti ekki fingrunum djúpt inn í rasskinnar hennar og hún sleit ekki af honum skyrtuna með krampakenndum hreyfingum, nei, þau héldu bara áfram að faðmast fallega og lengi. Þannig endaði myndin."
Ég segi svo alltaf að þetta sé fallegasta ástarsena sem ég hafi nokkru sinni séð í kvikmynd.
Í gær hafði ég áðurnefndan fyrirlestur í Vornesi. Lengst fram sat maður sem ég vissi ekki einu sinni nafnið á. Hann var þungur á brún, fremur dökkur yfirlitum og ég gerði ráð fyrir að hann væri Finni. Hann horfði niður í gólfið nokkuð fyrir framan fætur sér og virtist alls ekki vera að hlusta á mig. Að lokum steig ég á gólfið þar sem mér fannst hann hafa fest augu sín og spurði hann hvort hann kannaðist eitthvað við það sem ég hefði verið að segja. Hann brosti kankvíslega og sagðist gera það og nefndi eitthvað því til sönnunar. Svo leit hann upp. Hann hafði sem sagt hlustað á mig.
Ég endaði svo eins og venjulega með lýsingunni á atriðunum úr kvikmyndinni.
Þegar ég var á leiðinni inn í aðalbygginguna eftir fyrirlesturinn stóð maðurinn sem hafði setið lengst fram og beið eftir mér. Hann heilsaði kurteislega og orð hans bergmáluðu af fallegum finnskum hreim. Hann sagðist heita Jarí. Hann sagðist ennfremur hafa séð þessa mynd og þar sem hann hafi lengi haft á hendi að skrifa umsagnir um kvikmyndir, þá hefði hann einmitt skrifað umsögn um þessa mynd. Hann sagðist hafa kannast mjög vel við lýsingu mína
Ja hérna! Það var undarleg tilfinning sem ég fann bærast innra með mér og ég varð ótrúlega glaður og mér þótti alveg dæmalaust vænt um Jarí.
Og Jarí hélt áfram: Myndin heitir "Snön på Kilimanjaro" (eða Snjórinn á Kilimanjaró) en það getur þó verið að nafnið sé eitthvað aðeins öðruvísi. Um leið og hann sagði þetta sá ég fyrir mér fjallið Kilimanjaró eins og það var sýnt í myndinni og nú var eins og eitthvað væri komið heim. Kona sem líka hafði hlustað á fyrirlesturinn hafði hlustað á samtal okkar og nú kom hún fram og hún sagðist líka hafa séð þessa mynd. Ja hérna! Bara allt í einu stigu fram tvær manneskjur sem höfðu séð myndina. Þau voru sammála um að þetta atriði hefði verið mjög fallegt, og þau vildu meina að ég hefði sagt mjög rétt frá. Merkilegt -eftir áratugi!
Nú er ég byrjaður að leita að myndinni Snön på Kilimanjaro á netinu en þá finn ég bara mynd með þessu nafni sem er frá 2011. Hin er áratugum eldri. Ef eitthvað hjálpsamt fólk verður duglegra en ég við að finna myndina, þá tek ég þakklátur á móti upplýsingum.
Ég nota nafnið Jarí vegna þess að það er svo ekta finnskt.
Fimm ára afmæli á Kungsholmanum í Stokkhólmi
Meiningin var í morgun að ég kæmi mér tímanlega að verki við býsna áríðandi verkefni en svo skeði ekkert. Ég var alltaf alveg að fara en ég bara hékk og hélt áfram að hanga alveg fram undir hádegi. Ég var óánægður með sjálfan mig en allt kom fyrir ekki. Tveir til þrír klukkutímar bara runnu hjá og urðu að engu. Svo ákvað ég allt í einu að líta á uppköst að bloggum og búa mig þannig undir kvöldið. Svo ákvað ég hvað ég skyldi gera þetta laugardagskvöld, dreif mig svo út og svo gengu hlutirnir ótrúlega hratt fyrir sig.
Bloggið sem ég valdi var uppkast með myndum frá 7.september síðastliðnum, en þá átti hann nafni minn fimm ára afmæli. Núna ætl aðeg að fullklára þetta blogg og senda það svo út á alheimsvefinn.
Mér fannst heil mikið til um þetta afmæli þar sem það er svo langt síðan ég hef verið með í barnaafmæli. Ég held að ég fari hreinlega rétt með að ég hef ekki verið með í barnaafmæli í áratugi. Leiðrétti mig bara einhver ef ég er að skrökva. Upp í hugann kom afmæli á Bjargi í Hrísey fyrir 1970. Það var Valgerður sem þá átti afmæli, í febrúar að sjálfsögðu. Það gekk kvef í eyjunni og það var rakið vetrarveður. Prúðbúin börn komu á bjarg, pökkuð inn í mikla fatabagga og það var mikið grænt fyrir neðan nefið. Svo kysstist allur skarinn og Valgerður þakkaði fyrir gjafir með kossi. Ég veti fyrir mér hvað ég ætti að gera því að þetta leit ekki svo vel út. Svo gerði ég ekkert og ég held að það hafi ekki orðið neinn voðalegur eftirmáli af þessu kvefkossaveseni og afmælið varð alveg örugglega hið besta barnaafmæli. En nú til Stokkhólms.
Nánustu leikskólafélagar Hannesar mættu í afmælið, ein tíu eða ellefun börn. Það var borinn fram veislukostur, það sem vitað var að væri best þegið. Á myndinni sjáum við fyrsta borðhaldið. Rósa mamma er að þjóna hægra megin við borðið en fjölskylduvinurinn Elísabet Eir Corters, Dúdda, sem kom til að hjálpa til er vinstra megin. Hannes Guðjón situr fyrir enda borðsins vinstra megin.
Dúdda var nefnilega ráðin til sérstaks verkefnis. Hún stóð fyrir Ninjadagskrá. Ninjar fá Ninjabelti og Ninja ennisband. Þegar allir voru formlega komnir í Ninjahópinn með belti og ennisbsand, þá hófst löng runa af Ninjaþrautum og Ninjar sem leysa hverja Ninjaþrautina á fætur annarri verða að halda órofa einbeitingu allan tímann og gegnum allar þrautirnar. Þar verð ég nefnilega að segja að ég heillaðist alveg af því hvernig Dúddu tókst að halda einbeitingu barnanna þannig að það var ekki nema eitt og eitt andartak sem eitt og eitt barnanna datt aðeins út úr einbeitingunni. En Dúddu tókst að ná þeim inn í einbeitinguna jafnóðum og eitthvað brá útaf.
Ég áttaði mig fyrst almennilega ná því hvað var að ske þegar börnin fylgdu Dúddu eftir niður tvo stiga í óslitinni halarófu og þau slepptu aldrei höndum af handriðinu vinstra megin við sig vegna þess að það var hluti af Ninjaþrautunum að sleppa því ekki. Ninjar eru afar samviskusamir og fylgja leikreglunum af heiðarleika. Úti í bakgarðinum héldu svo Ninjaþrautirnar áfram hver af annarri, alveg ótrúlega lengi en án þess að sjálfsagi Ninjanna þryti. Ég var alveg heillaður af þessu, það skal ég viðurkenna. Þess vegna var ég ákveðinn í að þetta skyldi verða efni í blogg sem ég skyldi fylgja vel úr hlaði. Nú er ég að gra það tveimur mánuðum seinna.
Í bakgarðinum var svo borðhald númer tvö. Þarna var öllum Ninjaþrautum lokið með árangri sem ég hefði aldrei getað látið mig dreyma um. Rósa og Pétur þjóna fyrir borðum og tveir foreldrar eru þarna komnir til aðstoðar. Það er mikil röð og regla þarna vegna þess að Ninjar eru engir ólátabelgir. Ninjar eru auðvitað prúðir og öllum öðrum Ninjum til fyrirmyndar.
Ég vil nefna þessa þrjá sem eru þarna lengst til vinstri hinu megin við borðið. Þarna var kominn einn gestur til viðbótar sem er ekki í leikskólaliðinu hans Hannesar og er lengst til vinstri. Það er Íslendingurinn Kári, sonur hennar Helgu Sverrisdóttur sem var í mannfræðinámi með Rósu og býr í Stokkhólmi. Kári var yngstur þarna, sérstaklega fallegur og prúður eins og Ninjahópurinn allur. Næstur er svo Íslendingurinn Hannes Guðjón, afmælisbarnið sjálft. Sá þriðji er svo Oskar og það sem hann kemst næst því að vera Íslendingur er að hann hefur gist á Sólvöllum.
Bakgarðurinn að Celsiusgatan 3 er lokaður á alla vegu og inni í honum er hlynur. Þessi hlynur er ekki stór, heldur er hann alveg gríðarlega stór. Það má segja að greinahafið fylli garðinn sem er þó vel stór. Það er að líða að lokum veislunnar og frágangur er hafinn. Það fór heilmikið og gott orðspor um Kungsholmann eftir þessa afmælisveislu. Hún var minnisstæð og Ninjaævintýrið hafði verið alveg sérstaklega vel heppnað. Næsta leikskóladag komu margir Ninjanna með Ninjabeltið sitt og ennisband í skólann.
Þannig getur fimm ára afmælisveisla litið út í Stokkhólmi.
Ein mynd til viðbótar. Hannes Guðjón er búinn að fara í Íslandsferðir, hann er búinn að fara til Grænhöfðaeyja og eitthvað fleira. Á þessari mynd er hann í sjónum við eyjuna Rodos síðastliðið haust. Þegar Guðjón afi hans var tólf ára kom hann í fyrsta skipti út í Mýrdal og að Skógum. Í fyrsta skipti til Reykjavíkur þegar hann var nýorðinn fimmtán ára. Í dag er hann Sólvallakallinn.
Það skeður þegar þú hvílist
Það er kominn nýr dagur, föstudagur, og hann liðinn að kvöldi. Í gær var dagurinn sem fyrirlesari einn sem ég sá á sjónvarpsskjánum hafði sterk áhrif á mig. Ég bloggaði um það í gær líka. Lífið með góð gildi er oft svo nálægt en það er bara að veita því athygli og höndla það, skynja gildismatið sem svo oft felst í því litla. Ég ætlaði að að taka til í gærmorgun en datt í sjónvarpsgláp.
Það er hættulegt að kveikja á sjónvarpi hér fyrir hádegi því að þá er efnið oft það besta sem völ er á yfir daginn. En hvernig á ég að meta ellilífeyrisdagana að verðleikum? Má ég horfa á sjónvarp? Ég get fundið mér endalausar skyldur. Jú, víst má ég horfa á sjónvarp en ég er vandlátur á það sem ég horfi á, líklega dável sérvitur. Það finnst nefnilega alls ekki öllum að sjónvarpsefnið fyrir hádegi sé það besta.
Ég reyndar gerði hvort tveggja í gærmorgun, að horfa á sjónvarpsþátt sem gaf mér mikið og að ryksuga og taka til heima hjá mér.
Ég þurfti að fara til hans sögunarMats eftir hádegi í gær til kaupa spýtu. Þess vegna hringdi ég til hans Ívars nágranna til að fá lánaða hjá honum kerruna. Þegar Ívar svaraði varð ég hissa. Það vantaði lífið í röddina sem ég reikna alltaf með að finnist þar. Ívar hlær oft að kúnstunum í mér og ég hlæ að aðfinnslunum hjá honum þegar hann gengur hjá eða þegar hann spyr mig hvort ég hafi verið vaknaður klukkan átta þegar hann gekk hjá. Núna var hann einhvern veginn öðru vísi.
Ég mátti fá kerruna og svo fór ég heim til hans og hann kom út til að opna lásinn. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég hefði bara vakið hann frá miðdegisblundi með símahringingunni. Ívar var í langri meðferð gegn krabbameini í nefinu í hitteðfyrra og svo í skjaldkirtli líka. Svo virtist hann bara verða frískur og líflegur kall og allt hefur virst í besta lagi.
Svo hélt ég áfram til að kaupa spýtuna hjá gæðamanninum Mats. Þegar ég skilaði kerrunni tók ég með tvö rúgbrauð handa Ívari. Rúgbrauðin mín þykja góð í byggðarlaginu og Ívar veit að ég baka. Svo höfðum við gengið frá kerrunni og mér varð litið beint í andlit hans. Hann leit á móti og við horfðum stillilega hvor á annann þó nokkur andartök. Ég sá sorg færast yfir andlitið.
-Ivar, hvernig gengur það með sjúkdóminn sem hrjáði þig í hitteðfyrra.
Ég sá á honum að hann vildi svara og vildi ekki svara. Sorgin kom yfir mig líka. Ég sá hvernig Ívar bjó sig undir að svara en hann kveið fyrir því, hélt greinilega að honum tækist það ekki. Að lokum svaraði hann þó og sagði: -Þeir segja að það sé komið til baka.
Úbbs. Þetta var of mikið. Svo ræddum við saman um stund en svo varð okkur kalt í nepjunni, hann gekk inn með rúgbrauðin sín og ég settist inn í bílinn. Hann var ögn lotinn þar sem ég horfði á eftir honum og hann steig þungt til jarðar. Við Ívar vitum vel um aldur okkar og ég held að við séum hvorugur hræddir við ferðina heim. Slíkum hugsunum fylgir þó alla vega sorg.
En ég fann samt fyrir ótta hjá honum. Það var þegar hann sagði án þess að reyna að vera gamansamur: Hvernig heldurðu að ég líti út þegar búið verður að taka af mér nefið og ég verð bara með tvær holur í andlitinu? Hann gekk hægt upp tröppurnar heima hjá sér og mig langaði bara að vera góður við þennan mann. Mér fannst hann hafa grennst.
Fyrirlesarinn sem tók alla athygli mína í gærmorgun sagði við tryggingarstofnunarfólkið að það gæti haft afgerandi áhrif á líf manneskju með hvaða tóntegund það svaraði í símann. Glaðleg rödd sem byði upp á hjálp gæti breytt framtíðarheill einnar manneskju og alla vega gert ólánsdag að góðum degi. Hins vegar gæti þreytuleg rödd starfsmanns tryggingarstofnunar, eða rödd vinnuleiða, veikt baráttuþrek manneskju sem hringir vegna þess að hún berst í bökkum og er viðkvæm. Ég kem nú til með að spyrja Ívar einhvern næstu daga hvort við eigum ekki að skreppa á Brändåsen til að borða saman. Við höfum gert það einu sinni og ég fann að það var honum mikill félagsskapur. Þannig var það fyrir mig líka.
Það er skrýtið að það skuli þurfa að ýta á starthnappin öðru hvoru til að halda góðu gildunum lifandi. Á allra fyrstu árum mínum í Vornesi skáldaði ég upp sögu um það hvernig það er hægt að hafa áhrif á sinn eigin dag. Ég vandaði til þessarar sögu því að hún átti að vera sönn í sér og ég notaði hana í ákveðinn fyrirlestur. Eitt sinn þegar ég hafði sagt söguna sagði einn sjúklinganna að það væri ekki hægt að segja svona frá nema að baki byggi eigin lífsreynsla. Svo veit ég ekki hvenær það skeði að ég hætti að nota söguna sem alltaf virkaði svo vel, en mörgum árum seinna áttaði ég mig á að ég var löngu, löngu hættur að gera það.
Fyrir stuttu síðan var mér sagt í grúppu sem ég leiddi í Vornesi að kona sem vinnur þar hefði sagt þeim svo góða sögu. Þau vildu að ég fengi að vita hvað þessi saga hefði fjallað um og þegar ég heyrði það þekkti ég gömlu söguna mína. Hún hafði heyrt hana hjá mér þegar hún var sjálf í meðferð á fyrstu árum mínum í Vornesi. Skrýtið! Af hverju hafði ég hætt að nota það sem virkaði svo vel? Jú, ég hef svo sem fyrir löngu áttað mig á því. Það er þegar hlutirnir fara að vera hversdagslegir sem það þarf að ýta aftur á starthnappinn.
Fyrirlesarinn sem ég hlustaði á í gærmorgun ýtti á marga starthnappa hjá mér og vakti margar sofnaðar hugsanir. Svo mun hann líka sjá til þess að einhverjir aðrir ýti á starthnappana hjá honum sjálfum til þess að viðhalda hans góðu eiginleikum við að endurvekja það besta í öðru fólki.
Á náttborðinu mínu liggja nokkrar bækur í haug. Ein þeirra heitir "Það skeður þegar þú hvílist". Hún er eftir prest sem heitir Tomas Sjödin. Hann talar um það í þessari bók að hlutir sem við getum ekki leyst í skarkala og stressi umheimsins, þau leysist best og sjálfkrafa þegar við hvílumst í kyrrðinni heima hjá okkur. Ég hlustaði áðan á hluta af þættinum með Skavlan. Síðan slökkti ég á sjónvarpinu áður en þættinum var lokið til að fá næði við að skrifa síðari hlutann af þessu bloggi. Ég vildi á þann hátt klára að vinna úr þeim sterku áhrifum sem ég varð fyrir í gær af ólíkum hlutum.
Nú síðdegis heimsótti ég þessi ágætis hjón í Örebro, Svanhvíti og Tryggva Þór. Þá var ég líka búinn að vera hjá rakaranum mínum. Þegar ég heyrði sjálfur hvernig óð á mér þarna heima hjá þeim, þá datt mér í hug að það væri of langt síðan ég hefði skroppið af bæ. Víst eru þau sæt á þessari mynd.
Ég vinn dagvinnu á þriðjudag og miðvikudag í næstu. Þá ætla ég að láta koma fram í verkum mínum þá
daga það sem ég hef lært, hugleitt og unnið úr í þessari viku. Ég ætla mér sem sagt að vera fullorðnari og nýtari maður en ég var síðast þegar ég var þar í vinnu fyrir þremur vikum síðan.
Að hafa áhrif á lífsheill annarra
Í morgun byrjaði ég á því að taka fram ryksuguna, fór með hana fram í forstofu og ætlaði að byrja þar á bráðnauðsynlegri hreingerningu sem átti svo að halda áfram um allt húsið. Með ryksuguna á forstofugólfinu ætlaði ég að kveikja rétt sem allara snöggvast á sjónvarpinu og athuga helstu fréttir og veðurspá á textavarpinu. Ég settist. Það var bein útsending frá ráðstefnu og tæplega miðaldra maður var að byrja fyrirlestur um jákvæða framkomu við þá sem eru hjálpar þurfi og um uppbyggjandi viðhorf á vinnustað. Áheyrendur voru starfsfólk ellilífeyriskerfisins.
Mér fannst maðurinn frekar spjátrungslegur og ofhlaðinn sjálfstrausti. Mér fannst hann leiðinlegur og sjálfsgagnrýni fannst ekki hjá mér, ég taldi mig hafa efni á að sjá þessa galla hans. Ég sá fólk í salnum sem augljóslega hafði sömu afstöðu og ég, alveg sérstaklega einn mann. Samt ætlaði ég að hlusta aaaðeins lengur. Hann notaði líf og örlög foreldrafjölskyldu sinnar sem farveg gegnum allan fyrirlesturinn og tók ýmis hliðarspor frá þeim farvegi, bæði til að gera mál sitt skýrara og til að gera fyrirlesturinn skemmtilegri og þar með áheyrilegri.
Mamma var mest heimavinnandi á fyrstu árunum en pabbi, Árni, vann hjá tryggingarfélagi. Það fannst hjá þeim vilji til að takast á við nýja hluti í lífinu og til að fjölskyldan fengi eitthvað smávegis aflögu til að geta veitt sér ögn meira í lífinu. Við erum að tala um tímabilið kringum 1980.
Það var stofnað til fjölskylduráðstefnu á heimilinu og börnin voru með. Þau ákváðu að opna verslun all norðarlega í Svíþjóð, en verslun sem gekk illa og þau kenndu um rangri staðsetningu. Þau tóku stærra lán og fluttu verslunina í annan bæjarhluta. Þar var samkeppnin harðari, verslunin var kæfð í fæðingu og það varð gjaldþrot, svefnlausar nætur, foreldrar sem þráttuðu og fjölskyldulífið fékk svo sannarlega að líða. Að hafa tekið áhættu hafði mistekist! Þannig er það svo oft sagði fyrirlesarinn, en það fer ekki alltaf þannig.
Að taka áhættu getur mistekist í eitt skipti en ekki endilega í annað eða þriðja skiptið. En ógnartíðir höfðu tekið sér bólfestu í lífi þessarar fjölskyldu og það var eins og ætíð; tilvist fjölskylduþrotabúsins virtist ekki hafa nein tskmörk, hvorki í tíma eða þjáningum. Svo hringdi síminn. Að síminn hringdi var tilbreyting í lífi þessarar fjölskyldu nú á níunda áratugnum. Börnin hlupu hvert í kapp við annað til að svara í símann.
Er pabbi heima spurði röddin í símanum. Já, Árni pabbi var heima. Blessaður Árni sagði röddin í símanum, þetta er Andri, gamli vinnufélagi þinn í tryggingunum. Hann hafði nú sett á stofn tryggingafélag sjálfur. Heyrðu Árni, ég þarf mjög nauðsynlega að tala við þig, geturðu komið. Já, Árni pabbi ók langa, langa leið suður til fundar við Andra. Andri sýndi honum sali sem var verið að sníða að starfsemi tryggingarfélags Andra. Að síðustu gengu þeir inn í herbergi sem átti að verða skrifstofa þess sem fara skyldi með ráðningar og starfsmannamál. Þar inni sneri Andri sér að Árna til að segja honum hvers vegna hann hefði beðið hann að koma suður.
Þegar hér var komið fann ég hvernig gráturinn hafði setst að ofarlega í brjóstholi mínu og virtist á leið upp og ég hugsaði að ef ég væri fyrirlesarinn yrði ég að taka mér hlé til að vinna bug á grátinum. -Árni, þetta er skrifstofan þín. Þú ert maðurinn sem ég vil að sitji á þessari skrifstofu og það er vegna þess að ég veit hver þú ert og að þú hefur gengið gegnum þrengingar og reynslu.
Og nú sagði fyrirlesarinn: Svo oft sem ég er búinn að nota þessa sögu sem máttarstoð í þennan fyrirlestur minn, þá er ég alltaf jafn nálægt því að fara að gráta þegar ég kem að því sem nú skeði. Hann tók nokkurra sekúndna hlé og ég var ekki í vafa um að hann segði satt um tilfinningar sínar.
Andri hélt áfram viðtali sínu við Árna þarna fyrir sunnan og sagði nú. -Þú verður mikilvægur maður Árni, maðurinn sem ég vil hafa í þessu starfi. Maðurinn sem verður í þessu starfi verður að geta verið í jafnvægi og hann verður að hafa frið í sálu sinni. Þess vegna Árni, þá tek ég yfir þrotabúið.
-Hvernig halið þið að pabba hafi liðið þegar hann ók heim eftir þennan fund spurði fyrirlesarinn, langt, langt norður í land? Hann ók heim til að segja fjölskyldunni sinni að sólin væri að koma upp yfir þau líka.
Fólkið í salnum hló þegar fyrirlesarinn vildi gefa andrúm til þess og í önnur skipti þurrkaði fólk sér um augun. Sannleikurinn í þessum fyrirlestri var svo óyggjandi. Og af mikilli snilld gat fyrirlesarinn líka tengt fyrirlesturinn og örlög fjölskyldu sinnar þeim störfum sem gestir ráðstefnunnar, ég og svo margir, margir aðrir í þessu landi hafa á hendi við að greiða götu þeirra sem eiga í vandræðum. Ég fann til nýrrar stærðar í ábyrgð minni og ég sá að fólkið í salnum gerði það einnig.
Ég og það fólk í salnum sem tók fyrirlesaranum af neikvæðni í upphafi, við vorum búin að gleyma því eftir nokkrar fyrstu mínúturnar. Ég get sagt fyrir mig að ég skammaðist mín eftir á fyrir fyrstu viðbrögðin og vil helst ekki segja frá þeim en sannleikurinn er sagna bestur. Ég missti fyrri partinn í dag að mestu í sjónvarpsgláp en ég lærði mikið og ég er enn að vinna úr því. Það er komið kvöld.
Ég veit ekki hvort mér líkar það í fyrramálið þegar ég les þetta yfir að hafa birt það. Hver ætli hafi líka áhuga á að lesa þetta? En það þarf heldur enginn að gera það. Ég get alla vega litið á þetta sem góða ritæfingu. Dagurinn í dag hefur verið undarlegur dagur, ekki bara þarna fyrir hádegi. Sem stendur get ég sagt að þetta hefur verið talsverður lífsreynsludagur. Ég hefði getað skrifað helmingi meira en ég hef þegar skrifað helmingi of mikið.
Andri og Árni eru nöfn sem ég gaf þessum tveimur mönnum. Tryggingarfélagið sem Andri setti á stofn er þekkt nafn í Svíþjóð í dag.
Minningar á allraheilagramessu
Það hefur verið talað um það í dag, á allraheilagramessu, að annar hver Svíi kveiki á kerti til að minnast þeirra sem eru farnir á undan okkur til nýju heimkynnana. Fyrstu árin okkar Valdísar í Örebro fórum við í minnislund í Almbykirkjugarði og kveiktum á kertum þar. Síðan fann Valdís út að það væri mikið einfaldara að gera þetta hér á Sólvöllum. Í einhver ár kveiktum við á kertum úti í skógi, settum sand undir og lögðum greinar kringum kertin. Síðan færði Valdís þennan einkaminnislund okkar heim á lóð að rósunum sem hún hafði valið stað þar sem hún sá þær frá glugganum sem hún sat svo oft innan við. Líklega náði hún ekki að kveikja á minniskertum þar nema einu sinni.
Þegar í gær tók ég gömlu luktina, þvoði hana og pússaði, og kveikti svo á kerti og stillti út, einmitt undir rósunum. Ef þetta er gert virkilega í minningu um einhvern eða einhverja, þá hlýtur það að kalla fram minningar. Svo var það með mig. Það byrjaði í gær og hélt svo áfram í morgun og alla vega vel frameftir degi í dag. Síðan á ný þegar ljósið fór að lýsa í myrkrinu. Það hefur ríkt alvara á Sólvöllum í heilan sólarhring.
Ég sá fyrir mér nokkuð sem hefur gert mig undarandi í öll ár hér í Svíþjóð. Það var þegar ég sat septemberdag árið 1993 við símann í Sólvallagötunni í Hrísey og talaði við Ingólf Margeirsson. Hvað segirðu um að flytja til Svíþjóðar og fara að vinna þar spurði Ingólfur. Rétt í því kom Valdís innan ganginn þarna heima og þegar hún var að verða komin þangað sem ég sat sagði ég henni hvað Ingólfur hefði sagt. Ég var þá ekki farin að svara spurningunni. Valdís var svo sallaróleg í fasi, horfði á mig sem ekkert væri og svaraði: Já, því ekki það. Þá svaraði ég Ingólfi og sagði að við mundum líta á þetta. Viðbrögð hennar gerðu mig undrandi.
Svo var það annað sem gerði mig undrandi og það var þegar ég hafði platað Valdísi út að keyra einn októberdag árið 2002 og ég fór í fyrsta skipti í átt til Sólvalla, leið sem við höfðum farið tvisvar áður, en þá á fallegum sumardögum. Þegar ég var kominn á malarveginn, síðasta spölinn að Sólvöllum, spurði Valdís með þreytulegri röddu hvort það væri sumarbústaður til sölu hér. Hún var orðin leið á öllum mínum endalausu sumarbústaðahugleiðingum.
Svo stoppuðum við á veginum framan við húsið, fórum hljóð út úr bílnum og horfðum heim að húsinu. Svo horfðum við í vestur móti Kilsbergen og svo til skiptis á húsið og til Kilsbergen. Eftir að mér finnst langa þögn sagði Valdís: "Hér get ég hugsað mér að vera." Það fyrsta sem mér datt þá í hug var hvaða vandræði ég hefði komið mér í núna. Síðar kom í ljós að það voru engin vandræði.
Ég minntist atviks árið 1995 þegar ég skrapp með Valdísi í fullorðinsfræðsluna í Falun. Ég minnist þess líka að Gísli Stefánsson vinnufélagi minn var með í bílnum. Valdís gekk heim að skólanum og mætti konu frá Srilanka og manni frá Filippseyjum. Þarna stoppaði hún og þau hófu líflegar samræður, þau hlógu og höfðu gaman. Að horfa á þetta var mér stór upplifun og Gísli sagði að þessu fólki virtist líða afar vel. Það leit svo sannarlega út fyrir það. Valdís var farin að bjarga sér á erlendri grund.
Ég minnist hennar á allraheilagramessu sem og aðra daga.
Súkkulaðið skal bjarga því
Sumt hefur gengið á afturlöppunum hjá mér í dag. Ég hef mælt vitlaust og reiknað vitlaust og gert vitleysur út frá því. En það var ekkert óafturkræft og skilur engin merki eftir sig. Síðast þegar ég bloggaði reyndi ég að lýsa atvikum hér heima sem tengdust breytingu á klukkunni. Svo las ég það yfir daginn eftir og sá að mér hafði alls ekki tekist að koma því spaugilega á framfæri. Hefði góður grínisti séð til mín og séð líka inn í huga minn, þá hefði hann getað gert mjög spaugilegan grínþátt útfrá því.
Ég ætlaði að fara að borða kvöldmat um daginn en fannst hálf kalt þannig að ég fór frá matnum til að sækja við. Ég setti á mig ennislampa og fór út með viðarkörfuna og fyllti hana. Eins og venjulega rak ég hausinn upp í lágt þakið á viðarskýlinu og hugsaði rétt einu sinni enn að ég þyrfti að eignast almennilegt skýli yfir viðinn minn. Með það fór ég inn og kveikti upp.
Hlustandi á snarkið frá viðnum sem var að byrja að loga settist ég ánægður við matarborðið og byrjaði nú að borða. Eftir einhverja mínútu tók ég eftir því að ég lýsti með ennislampanum á diskinn sem ég var að borða af. Það var ekki dregið fyrir gluggann þannig að hver sem var gat hafa horft á þetta. Ég kippti mér ekki upp við það en tók þó af mér lampann og slökkti á honum. Mér fannst þetta óttalega broslegt og mikil lifandis ósköp hefði Valdís hlegið ef hún hefði setið á móti mér við marartborðið í þetta skipti.
Fyrir fáeinum dögum las ég um það bæði á íslensku og sænsku að súkkulaði væri sannanlega mjög gott til að viðhalda minni og meira að segja gæti súkkulaðiát bætt tapað minni. Að vísu var í öðru hverju orði talað um kakó í þessu sambandi. Ég þaut til Fjugesta með kerru til að kaupa súkkulaði. Svo keypti ég væna súkkulaðiblokk, stakk henni í jakkavasann innan á og fór svo á annan stað til að kaupa efni sem ég setti á kerruna. Þegar ég kom heim var súkkulaðið orðið mjúkt eins og pönnukaka í vasanum og mátulegt til að borða með skeið.
Ég er búinn að fá mér súkkulaði núna í kvöld. Börn ganga gjarnan milli húsa um þessa helgi, máluð ævintýralega og í skrautlegum búningum. Svo syngja þau og vonast til að fá sælgæti að launum. Börnin í næsta húsi eru ekki heima í dag þannig að það komu engin börn og sælgætið er allt í poka frammi í eldhúsi. Það sama var uppi á tengingnum í fyrra og sælgætið sem ég keypti þá var í skáp frammi í forstofu í eina níu mánuði þangað til að það gekk út á einhvern hátt. Alla vega er það horfið og það fór ekki ofan í mig.
Það sem ég hef skrifað um mig núna er ekki beinlínis nein afrekaskrá. Ég gæti hins vegar vel gert það og kem til með að gera það fljótlega. En ég hef gaman af því að gera hóflegt grín að sjálfum mér og ef einhver skyldi geta hlegið að því, þá er það velkomið. Sæi ég einhvern annan borða við matarborðið heima hjá sér með lýsandi lampa á enninu, þá mundi mér þykja það hlægilegt.
Gott ef ég er ekki farinn að hlakka til næsta sumars, að vera ellilífeyrisþegi og fara á fallega staði til að borða hádegisverði á blíðviðrisdögum.