En sú upplifun þegar svona lagað hendir bara þegar minnst varir
Í fyrra auglýsti ég eftir kvikmynd. Ég skrifaði atriði úr henni í bloggið mitt og bað þá sem hugsanlega skyldu kannast við lýsinguna að láta heyra frá sér. Hún Guðrún Rósa dóttir hennar Binnu mágkonu minnar sagðist kannast við allra síðasta atrtiðið en það voru líka einu viðbrögðin.
Eftirfarandi hef ég notað í tugi ef ekki hundruð skipta í ákveðnum fyrirlestri í Vornesi og það hefur haft mjög sterk áhrif þegar ég hef notað það í því ákveðna sambandi. Við þær aðstæður verður lýsingin líka allt öðru vísi en mér tókst að skrifa hana. Það hafa margir komið til mín eftir á og spurt mig hvort ég geti ekki með nokkru móti munað eitthvað nafn úr myndinni eða annað sem gæti hjálpað til við að finna hana. En nei, það hef ég ekki getað og ég hef mikið reynt að finna myndina -án árangurs. Hér er lýsing mín úr þessari mynd:
"Fólk vann við hjálparstörf suður í Afríku, í stóru hvítu tjaldi að því er mig minnir. Þar var miðaldra læknir, miðaldra eða rúmlega það, og nokkuð yngri kona sem líklega var hjúkrunarkona við þetta hjálparstarf. Það varð samband milli þessara tveggja, fallegt samband sem ekki hafði neinar viltar senur sem hafðar voru til sýnis á tjaldinu. Smám saman byrjaði læknirinn að hafa áhyggjur af þessu sambandi, hann fékk samviskubit og hvers vegna man ég ekki, en ég trúi að það var aldursmunurinn sem það fjallaði um.
Samviskubitið varð honum að lokum ofviða og morgun einn kom hann ekki til vinnunnar í tjaldinu. Konan fékk af þessu þungar áhyggjur en vonaði að læknirinn kæmi til baka. Dögum og vikum saman beið hún en hann kom ekki. Hún hugleiddi samtöl þeirra og reyndi að komast að einhverju sem gæti hjálpað henni við að finna manninn. Hann hafði talað um klaustur nokkuð norður í Evrópu, í frönsku ölpunum hef ég sagt, og hjá þessu klaustri var hús nokkuð sem var sérstaklega gert fyrir íhugun og athuganir.
Að lokum gafst konan upp á biðinni, lagði land undir fót og hélt norður til Evrópu. Hún þreifaði sig áfram með þolinmæði og fyrirspurnum og að lokum stóð hún í brekku einni og horfði upp til gamals klausturs. Nærri þessu klaustri var líka minna hús sem hún horfði á og var hún nú viss um að hún væri kominn að þessum stað sem hann hafi talað um. Rólega gekk hún að húsinu og opnaði hljóðlega útihurðina sem var nærri einu horni þess.
Þegar hún sá inn sá hún að húsið var eitt herbergi og hún sá einnig hvar vinurinn sat við borð í gagnstæðu horni þessa herbergis. Þar sat hann innan um bækur, blöð og skriffæri. Þegar hann varð hennar var stóð hún enn í dyrunum og horfði inn til hans. Hann sneri sér í stólnum og horfði á móti. Um stund voru þau kyrr í þessum stellingum, en að lokum gekk hún hægt inn gólfið í átt til hans og stoppaði nálægt skrifborðinu. Hann reis upp og þau horfðust í augu án þess að segja orð.
Eftir að hafa staðið þannig um stund tóku þau hlýlega hvort utan um annað og föðmuðust fallega og lengi.
Hann læsti ekki fingrunum djúpt inn í rasskinnar hennar og hún sleit ekki af honum skyrtuna með krampakenndum hreyfingum, nei, þau héldu bara áfram að faðmast fallega og lengi. Þannig endaði myndin."
Ég segi svo alltaf að þetta sé fallegasta ástarsena sem ég hafi nokkru sinni séð í kvikmynd.
Í gær hafði ég áðurnefndan fyrirlestur í Vornesi. Lengst fram sat maður sem ég vissi ekki einu sinni nafnið á. Hann var þungur á brún, fremur dökkur yfirlitum og ég gerði ráð fyrir að hann væri Finni. Hann horfði niður í gólfið nokkuð fyrir framan fætur sér og virtist alls ekki vera að hlusta á mig. Að lokum steig ég á gólfið þar sem mér fannst hann hafa fest augu sín og spurði hann hvort hann kannaðist eitthvað við það sem ég hefði verið að segja. Hann brosti kankvíslega og sagðist gera það og nefndi eitthvað því til sönnunar. Svo leit hann upp. Hann hafði sem sagt hlustað á mig.
Ég endaði svo eins og venjulega með lýsingunni á atriðunum úr kvikmyndinni.
Þegar ég var á leiðinni inn í aðalbygginguna eftir fyrirlesturinn stóð maðurinn sem hafði setið lengst fram og beið eftir mér. Hann heilsaði kurteislega og orð hans bergmáluðu af fallegum finnskum hreim. Hann sagðist heita Jarí. Hann sagðist ennfremur hafa séð þessa mynd og þar sem hann hafi lengi haft á hendi að skrifa umsagnir um kvikmyndir, þá hefði hann einmitt skrifað umsögn um þessa mynd. Hann sagðist hafa kannast mjög vel við lýsingu mína
Ja hérna! Það var undarleg tilfinning sem ég fann bærast innra með mér og ég varð ótrúlega glaður og mér þótti alveg dæmalaust vænt um Jarí.
Og Jarí hélt áfram: Myndin heitir "Snön på Kilimanjaro" (eða Snjórinn á Kilimanjaró) en það getur þó verið að nafnið sé eitthvað aðeins öðruvísi. Um leið og hann sagði þetta sá ég fyrir mér fjallið Kilimanjaró eins og það var sýnt í myndinni og nú var eins og eitthvað væri komið heim. Kona sem líka hafði hlustað á fyrirlesturinn hafði hlustað á samtal okkar og nú kom hún fram og hún sagðist líka hafa séð þessa mynd. Ja hérna! Bara allt í einu stigu fram tvær manneskjur sem höfðu séð myndina. Þau voru sammála um að þetta atriði hefði verið mjög fallegt, og þau vildu meina að ég hefði sagt mjög rétt frá. Merkilegt -eftir áratugi!
Nú er ég byrjaður að leita að myndinni Snön på Kilimanjaro á netinu en þá finn ég bara mynd með þessu nafni sem er frá 2011. Hin er áratugum eldri. Ef eitthvað hjálpsamt fólk verður duglegra en ég við að finna myndina, þá tek ég þakklátur á móti upplýsingum.
Ég nota nafnið Jarí vegna þess að það er svo ekta finnskt.
Kommentarer
Bára
Sæll Guðjón
Gæti þetta verið myndin þín? Hún heitir The snows of Kilimanjaro og er frá 1952.
https://www.youtube.com/watch?v=PvK7O5keJf0
kveðja
Bára
Svar:
Gudjon
Guðrún Rósa
þar komstu með þetta :)
Trackback