Að rata heim
Það var og hefur verið latidagur hjá mér í dag. Þegar einn sem er 75 ára og ekki er veikur fer ekki á fætur fyrr en i klukkan ellefu, þá er lífið rólegt. Þannig gerði ég í dag. Gærdagurinn var ekki jafn rólegur, gærdagurinn var hörku vinnudagur. Nágranninn sagði nefnilega um daginn; heyrðu Guðjón, getur þú bara ekki tekið það sem er eftir af moldinni sem við keyptum? Ég er bara ekki tilbúinn að taka meira í bili. Jú, það gat ég svo sannarlega.
Við keyptum eitt bílhlass saman eða þannig að hann ætlaði að kaupa fyrsta hlassið og svo átti ég að kaupa það næsta og svo gat hvor tekið svo mikið sem hann vildi af moldinni. Þannig er góð grannsemja. Nú er nágranninn í sumarfríi niður á Kanaríeyjum en síðustu daga hef ég verið sveittur við að sækja í þennan moldarhaug sem stóð inn á hans landi.
Hvað geri ég svo við gróðrarmold þessa dagana? Jú, ég þurfti tl dæmis að fylla vel að brómberjarunnum á tveimur stöðum og ég þurfti að fylla í svolítið hér og þar, gera fínna og gera auðveldara við að hirða landið og slá. Ég verð ekki yngri og ég geri lagfæringar með það í huga.
Í fyrradag tók ég svo þriggja metra háa eik með sterklegum stofni, eik sem óx undir krónu á annarri eik og átti enga framtíð þar sem hún var. Samkvæmt því sem ég les á þetta að vera nokkurn veginn vonlaust að framkvæma með árangri. En ég hef gert það áður og það tókst. Tíminn í júlímánuði á líka samkvæmt fræðunum að vera versti tíminn og það get ég vel skilið. Samt var það þá sem ég flutti álíka stóra eik og hún er nú staðarbrýði við innkeyrsluna heim að Sólvöllum.
Þegar ég vaknaði í morgun var ég lurkum laminn. Ég vaknaði snemma og fannst ég vera eins og timbraður. Ég læddist út á litlum klæðum og vökvaði eikina mína frá toppi til táar og merkti jafnframt að hún hefur orðið fyrir áfalli við gerðir mínar. Svo lagði ég mig aftur og sofnaði á ný. Ákvörðun var tekin um að halda hvíldardaginn heilagan. Skaparinn sendi mér regn þannig að ég hef ekki þurft að standa með garðslönguna við eikina til að halda henni rakri.
Að borða morgunverð klukkan ellefu og horfa svo á sunnudagsandakt í sjónvarpi, það var reglulega gott. Þessi andakt var tekin upp á Costa Del Sol og var undir yfirskriftinni "Ferðast burt, rata heim". Yngri sænsk kona sem heitir Sara og býr á Costa Del Sol kom fram snemma i andaktinni og sagði að þegar hún hefði flutt þangað hefði hún fundið hamingjuna. Hún útskýrði það ekki frekar en með því að segja að "kannski þurfum við stundum að ferðast burt til að rata heim". Svo skildi hún mig eftir með vangaveltur mínar og ég fæ að fylla í eyðurnar.
Þessi síðustu orð ýttu svo undarlega við mér og og þannig hélt andaktin áfram, það var svo markt sem var vert að hugleiða. Þessa andakt mun ég horfa á aftur einn góðan rigningrdag þegar það er svo gott að vera inni heima hjá sér.
Ég hef lag á því að gera smá ferðalög sem ég er þátttkandi í að stórferðalögum. Svo ferðast aðrir umhverfis jörðina og fáir vita. Ferðin sem við Susanne fórum hérna um daginn upp í Dali var fyrir mig að sumu leyti að koma heim. Árin þrjú upp í dölum voru ekki alltaf blíðviðri og sólarstundir og ferðin þangað um daginn minnti mig á hvort tveggja. Aðgöngumiðinn að þessu landi var ekki alveg ókeypis en verður gjaldsins. Þegar ég sit hér nú og skrifa eru það blíðviðris og sólarstundirnar sem eru ráðandi. Dagarnir í Falun um daginn hefðu gjarnan mátt vera fleiri því að þar var gott og þroskandi að vera.
Fyrir miðri mynd er eikin sem ég misþyrmdi í fyrradag og nú er komið kvöld og ég hef samviskubit sem ég fékk þegr ég hafði lesið mig til í dag um flutning á eikum. Ég vona þrátt fyrir allt að þessi eik verði langlíf og auki á fegurð Sólvalla. Að staðsetja hana þarna var að vel hugsuðu máli allt frá fyrra ári.
Hér fyrir miðri mynd er nokkuð sem heitir hengibjörk, ómótstæðilega fallegt tré. Mig langar í tvö svona tré til viðbótar og í huga mér finnast góðir staðir fyrir þau bæði. Ég kem þá til með að taka tré sem eru kannski um þrír metrar á hæð. Þau kosta en maður á mínum aldri á ekki að kaupa neina smá dverga. Ég gróðursetti þetta tré 2007.
Gróðurinn á Sólvöllum er ekki bara utan dyra. Hér er nokkuð fallegt sem þrífst vel bakvið gluggana en þar er ég ekki mikið að verki. Þetta blóm þrífst alldeilis vel í svefnherberginu. Susanne talar við blómin en ég við trén.
Jón á Reyni
Það eru yfir 30 ár síðan ég hitti Jón á Reyni í fyrsta skipti. Þá sá ég þegar í stað að hann hafði eiginleika sem mig langaði að hafa meira af. Þessi eiginleiki heitir yfirvegun og hann jók á virðingu mína fyrir þessum manni.
Jón Sveinsson á Reyni er dáinn og hann verður jarðsunginn frá Reyniskirkju í dag. Kynni mín af honum eru þannig til kominn að hann er tengdafaðir Valgerðar dóttur minnar, faðir Jónatans Guðna manns Valgerðar.
Það var alltaf gott að hitta hann og hann var alltaf glaður í lund og við höfðum alltaf nóg að tala um. Hann var fróður og fús á að deila með sér af fróðleik sínum og hann var gætinn í umgengni eins og yfirvegðir menn vissulega eru. Ég hef oft sagt um Jón á Reyni að hann væri vís maður.
Þannig birtist hann mér í sannleika sagt þegar ég hugsa til hans núna og svo hefur verið lengi. Jón á Reyni er farinn heim í hinsta sinn og ég finn fyrir söknuði. Ég skil ykkur börn hans vel og alla hans nánustu að þið finnið fyrir djúpum söknuði og sorg. Ég samhryggist ykkur öllum og við Jón segi ég; þakka þér fyrir alla okkar ánægjulegu fundi og spjallstundir. Vegni þér vel þar sem þreyttur og slitinn líkami ekki hrjáir neinn lengur.
Það var alltaf gott að hitta hann og hann var alltaf glaður í lund og við höfðum alltaf nóg að tala um. Hann var fróður og fús á að deila með sér af fróðleik sínum og hann var gætinn í umgengni eins og yfirvegðir menn vissulega eru. Ég hef oft sagt um Jón á Reyni að hann væri vís maður.
Þannig birtist hann mér í sannleika sagt þegar ég hugsa til hans núna og svo hefur verið lengi. Jón á Reyni er farinn heim í hinsta sinn og ég finn fyrir söknuði. Ég skil ykkur börn hans vel og alla hans nánustu að þið finnið fyrir djúpum söknuði og sorg. Ég samhryggist ykkur öllum og við Jón segi ég; þakka þér fyrir alla okkar ánægjulegu fundi og spjallstundir. Vegni þér vel þar sem þreyttur og slitinn líkami ekki hrjáir neinn lengur.
Hér er Jón ásamt eftirlifandi konu sinni, Erlu Pálsdóttur. Myndin var tekin þegar hann fagnaði 90 ára afmælisdegi sínum þann 2. apríl á Eyrarlandi í Reynishverfi.
Jón og Erla ásamt börnum sínum. Á myndina vantar dótturina Þórnýju, en hún fór á undan pabba sínum í sína síðustu ferð heim og getur tekið á móti honum nú. Þessi mynd er líka tekin í 90 ára afmæli Jóns.
Hér er Jón ásamt Sigrúnu Dísi en við erum báðir langafar hennar. Sigrún Dís er dóttir Guðdísar sem aftur er dóttir Valgerðar og Jónatns Guðna.
Dagur að kvöldi kominn.
En víst höfum við það svo gott
Ég get ekki látið vera að segja aðeins frá síðasta degi okkar Susanne hér uppi í Falun. Það er að vísu ekki mikið að segja frá, en við vorum í fleiri klukkutíma á safninu Dalarnas Museum, eða Dalasafninu sem það gæti heitið á íslensku. Þar er saman kominn gríðarlegur fróðleikur og þó að við værum þar lengi sáum við alls ekki allt sem þar er að sjá, en við sáum nóg til að verða hálf ringluð að lokum og þá yfirgáfum við safnið. Þó að ég hafi búið hér á svæðinu í þrjú ár áður, fór ég aldrei inn á þetta safn og núna get ég undrast yfir því að við Valdís skyldum aldrei láta verða af því.
Þetta var það fyrsta sem við sáum þegar við gengum inn á safnið og ég varð mjög hissa hversu mikla athygli ég sýndi þessum hljóðfærum. En þannig er það að þegar safn er skipulagt af snillingum, þá verður það svo áhugavert. Svo varð ég alveg undrandi þefar ég komst að því að öll þessi hljóðfæri, sum heimsfræg, eru framleidd í fámennu og afskektu byggðarlagi upp í norðvestur Dölunum og heitir þetta buggðarlag Älvdalen. Hljóðfærin heita hins vegar Hagströms.
Á safninu er auðvitað framreiddur matur, mjög góður matur, og eftir fyrstu tvo tímana þar inni fundum við út að það væri alveg nauðsynlegt fyrir okkur að borða staðgóðan mat til að halda athyglinni vel vakandi. Svo borðuðum við eins og við værum í erfiðisvinnu og vorum ánægð með. Skammt utan við borðendann rann Faluáin framhjá í miklu hæglæti á leið sinni út í vatnið Tisken sem þarna er í aðeins nokkur hundruð metra fjarlægð.
Frá því að við komun fyrst inn og þar til við borðuðum hádegismatinn sáum við margt og frá því að við borðuðum og þar til við við gengum út sáum við ennþá meira. Það síðasta sem við skoðuðum var mikið safn af hinum þekktu Dalahestum. Þegar við sáum svo Dalahest á mótorhjóli ákváðum við að þetta dygði í dag.
Þetta er reyndar ekkert að segja frá, það er ég vel meðvitaður um, en við töluðum um það við hádegisverðinn hversu notalegt það er að gera það einfalt og að vakna ekki daginn eftir með gamalkunna vonda bragðið í munninum eða fnykinn í nösunum. Að þjást ekki af óþægilegum minningum um hallærislegu tilburðina frá liðinni nóttu eða kjánalegu orðin sem voru látin falla og áttu að vera svo sniðug.
Og að finna svo að morgni að sólin hafi komið upp í allri sinni dýrð, þá er hægt að segja eins og Susanne segir svo oft; "en vist höfum við það svo gott".
Yljandi skógargróður og lítil jólasaga
Ég sagði í bloggi í gær að hin víðáttumiklu grænu svæði hefðu heillað mig frá upphafi veru minnar í Svíþjóð. Það hef ég líka oft sagt áður. Ég hef komið upp á marga útsýnisstsði upp í útsýnisturna, ég sæki beinlínis í það, og þessir útsýnisstaðir eiga það allir sameiginlegt að frá þeim öllum sést einungis grænt landslag. "Eiga það allir sameiginlegt" sagði ég, en það er ekki alveg rétt. Þegar komið upp í miðja Svíþjóð fara að sjást fjallatoppar sem ekki eru grónir og ennþá norðar minni gróður.
Einn af þessum útsýnisstöðum er skíðamannvirki í Falun, nefnt Hoppturninn. Sjálfur hoppturninn er 52 metra hár og stendur uppi á lágu fjalli og efsti hluti hans er 303 metra yfir hafi. Við Susanne vorum lengi upp í turninum í dag og ég tók myndir svona nokkurn veginn í höfuðáttirnar fjórar.
Í hvaða átt sem litið er frá Hoppturninum eru skógi vaxinn landssvæði út að sjóndeildarhring.
Að vísu er ekki alveg rétt að segja að það séu skógi vaxin landssvæði í hvaða átt sem litið er því að ef litið er til suðurs gefur þar að líta eitt af stærri vötnum Svíþjóðar, vatnið Runn, með öllum sínum skógi vöxnu eyjum og nesjum. Það er talað um að það séu jafn margar eyjar í Runn og dagar ársins eru margir. Það er kannski ekki alveg rétt en margar eru þær. Svæðið er ótrúlega fallegt yfir að líta og ég er ekki fær um að taka af því myndir sem segja sannleikann um fegurð þess.
Einhver vill kannski segja að hér sjáist ekki landslagið fyrir skóginum en fyrir mér er þessi mynd af skógi klæddu landslagi. Það er hlýtt landslag og ef ekki væri skógur í þessu landi geri ég ráð fyrir að hér væri víða veðrarassgat.
Ekki meira um skóginn annað en það að þegar ég kom í fyrsta skipti á svona útsýnisstað var ég algerlega heillaður. Ég get ímyndað mér að upplifunin það hafi verið eitthvað tengd orðinu frelsun.
Við Susanne höfum haldið okkur í Falun í dag og dagurinn bara leið að kvöldi fyrr en varði. Enn einu sinni segi ég að mér hefur alltaf liðið vel í Falun og það verkar sem Susanne sé í þeim blóðflokki líka. Því gengum við áðan inn á afgreiðsluna þar sem við gistum og báðum um eina nótt til, það er að segja fram á laugardag. Við fáum að vita það á morgun.
Við vorum lengi í Kristínarkirkjunni í Falun og þar var gott að vera. Kirkjan býður upp á það og er afar falleg. Okkur fannst ótrúlegt ð hugsa til þess að það var byrjað á þessari kirkju árið 1642 og hún var tilbúin til notkunar árið 1655.
Marmarinn í altarinu kom frá stað nálægt Norrköping og er ótrúlega fallegur á að líta og fallega unninn. Stundum er ég bra undrandi yfir því sem hægt er að gera af því sem móðir jörð á í fórum sínum.
Hólmgatan í miðbænum er lík sér sem áður og lífið iðar þar eins og það gerði líka árið 1997 þegar við fluttum héðan.
Yfir hluta af Hólmgötunni er þetta veitingahús og það byggðu menn eftir að við Valdís yfirgáfum Falun. Ég kom þangað í fyrsta skipti í dag.
Þessari skartgripaverslun í miðbænum í Falun fylgir saga. Ég kom þangað einhverra erinda fyrir jólin 1994 eða 1995 og stóð þar bíðandi eftir einhverju. Inn kom maður í mosagrænni vetrarúlpu, nokkuð óframfærinn og var greinilega ekki vanur að versla skartgripi. Ég var kannski ekki svo mikill heimsmaður heldur þannig að ég ætti að tala varlega. En hvað um það, hann bara stóð þarna og virtist ekki vita almennilega hvernig hann ætti að bera sig að. Að lokum gekk fram til hans glaðleg verslunarkona og ávarpaði hann. Maðurinn glaðnaði allur við og það fór vel á með honum og afgreiðslukonunni. Að lokum setti afgreiðslukonan fallegan pakka í plastpoka og rétti manninum. Hann borgaði og gekk fram til dyranna, beinn í baki og mikið glaður. Fyrir mér er þetta svolítil jólasaga og ég á þetta skráð í jólabréfi frá því fyrir meira en tuttugu árum.
Að rifja upp gömul kynni
það var seint um kvöld í janúarlok 1997 sem við Valdís héldum frá Falun og héldum suður á bóginn móti Örebro. Við yfirgáfum Dalina og líf í ókunnu héraði beið okkar. Ég hafð fengi vinnu langt í burtu og það var engin undankoma, það var bara að flytja, og þó að vinnan sem ég fékk hafi verið mér afar mikils virði hefur tengingin við Dalina alltaf lifað með mér. Fyrstu árin var það hrein sorg sem ég upplifði eftir viðskilnaðinn við fólkið hér, landslagið, lífsskilyrðin og almennt þá töfra sem Dalirnir búa yfir. Ég er þar ekki nógu oft en alla vega; ég er í Falun og nágrenni núna. Hér eru nokkrar myndir frá upplifunum dagsins.
Hvert sem litið er í þessu landi sunnanverðu er allt grænt utan stöðuvötnin. Það er þetta græna sem hefur heillað mig alla tíð frá því ég kom hingað. Þessi mynd er frá Svartnesi og fururnar sem næst eru á myndinni voru þar líka þegar ég vann þar. Ekki á ég von á að þær muni eftir mér en ég man eftir þeim.
Það eru rúmlega tuttugu ár síðan ég átti flestar ferðirnar milli Falun og Svärdsjö þar sem vi bjuggum fyrstu þrjú árin í Svíþjóð. Á þeirri leið voru og eru nokkrir staðir þar sem allt í einu opnast útsýni sem mér þótti alveg sérstaklega fallegt. Hér er einn þessara staða þar sem við fórum um í dag á leiðinni frá Falun og upp í Svartnes, minn fyrsta vinnustað í nýja landinu.
Ryssjön, þetta fallega stöðuvatn í kyrrlátum heiðunum milli Sverdsjö og Svartnes hafði ég hlakkað til að sjá. Það var ekki spegilslétt í dag eins og það var svo oft en það minnti þó á löngu liðna morgna þegar ég lagði snemma af stað frá Sverdsjö í vinnuna í Svartnesi. Þessa morgna stoppaði ég oft við vatnið og horfði á spegilmyndina niður í því, skýin langt, langt niðri og skóginn sem speglaðist og myndaði fallega umgjörð um vatnið.
Mér var mikið í mun að sjá þennan stað hér á myndinni sem er skammt ofan við Svsrtnes. Þarna sjáum við trérennu sem liggur inn í jarðveginn og inn til uppsprettu sem þar er. Vatnið er silfurtært og bragðgott og hægra megin við rennuna er grænt mál fyrir þá sem vilja drekka þetta vatn. Fyrr á árum hékk þarna hvít kanna til að drekka úr og ef ég man rétt var hún vinstra megin við rennuna. En hvað um það; þessu er greinilega við haldið þó að þetta sé á stað þar sem aðeins örfá hús standa og engan mann var þar að sjá í dag. Ég smakkaði á vatninu og það var gott.
En nú heim til byggðarinnar í Svartnesi. Þar býr Aasbjörn. Fyrir mér er Aasbjörn ekki hver sem er. Hann er að verða 94 ára og þegar hann var 18 ára árið 1942 flúði hann frá Bodö í Noregi yfir til Svíþjóðar. Hann var þá búinn að ylja þjóðverjum svo undir uggum að honum var ekki lengur vært í Noregi. Aasbjörn settist að í Svartnesi og um það bil ári eftir að hann kom þangað hitti hann Ingrid. Það var árið 1943. Þeirra leiðir skildu ekki fyrr en árið 2002 þegar hún dó úr krabbameini.
Aasbjörn þekkti mig ekki strax en sagði svo; já en þú komst hingað lika í fyrra. Ég kem alltaf til hans þegar ég legg leiðir mínar þarna uppeftir og hann bað mig að koma aftur þegar ég ætti leið um. Það fór mjög vel á með honum og Susanne og hann ítrekaði við hana að að við ættum að koma aftur. Við útihurðina hangir skilti og á því stendur; Aasbjörn og Ingrid.
Eftir að áfengismeðferð var lögð niður í Svartnesi var reynt að reka þar veiðihótel, snjósleðamiðstöð og eitthvað fleira. En fyrir sex árum var aftur farið að hlú þar að fólki og nú tekur IOGT að sér að hjálpa fólki sem hefur misst tökin á lífi sínu að komast aftur á legg. Þar vinnur Inger Eklund og hefur gert öll þessi sex ár. Þegar hún sá okkur úti á spjalli við annað strfsfólk og vistfólk kom hún út og bauð upp á kaffi og súkkulaðiköku. Þetta er í þriðja skipti sem við Inger hittumst og hún þekkti mig strax og hún bauð okkur velkomin aftur. Mér þykir vænt um að þessi gamli vinnustaður minn hjálpar fólki í vanda.
Mér fannst nauðsynlegt að fá mynd af mér tekna inni á mínum gamla vinnustað.
Og mynd úti líka.
Við enduðum daginn með kvöldverði örstutt utan við Falun þar sem útsýnið er í betri kantinum.