Næsti áfangi þegar undirritaður

Ég skrifaði í fyrradag um sólarsellurnar mínar en ég hef vitað að sá áfangi er bara byrjun á stærra markmiði. Til að komast lengra áleiðis verð ég að hugsa um bílaeignina mína því að ég verð, eins og allir aðrir sem eiga afkomendur, að horfa á þann þátt af mikilli ábyrgð. Ég hef val milli þriggja möguleika. Einn er sá að flytja inn í þéttbýli þar sem ég hreinlega þarf ekki að eiga bíl. Annar er sá að fjárfesta í bíl sem er hreinni en gamli bíllinn minn. Í þriðja lagi á ég kost á að gera ekki neitt.
 
Það síðastnefnda var ekki til umræðu af minni hálfu og þá voru tveir valmöguleikar eftir. Ég hef þegar valið á milli þeirra. Um miðjan september skrifaði ég undir samning um að taka bíl á langtímaleigu til þriggja ára og ég fæ þann bíl í desember.
 
Eiginlega voru þessi viðskipti svolítið ævintýraleg fyrir mig og ævintýrið tók bara hálfa viku. Ég hafði ákveðið allt annan bíl en ég tók að lokum. Ég var á leiðinni þangað til að gera samning um bíl sem var vel rýmilegur fyrir farþega í aftursæti og rafhlaðan á við bestu aðstæður og möguleika að endast til 400 km aksturs.
 
Þegar ég átti eftir að aka svo sem 300 metra beina götu til bílasölunnar til að ganga frá viðskiptunum ákvað ég allt í einu, bara á einu augnabliki, að taka götu til vinstri. Það var svolítið merkileg upplifun, svo að sjálfur varð ég hissa.
 
 
 
Í framhaldi af þessari vinstri beygju skrifaði ég svo undir langtíma leigusamning á bílnum á myndinni. Þessi bíll hefur ekki eins gott rými fyrir farþega í aftursæti en ég get samt vel setið þar sjálfur, en það fer þó eftir stærð þess sem situr í sætinu fyrir framan mig. Þar að auki man ég einungis eftir einum farþega í aftursæti hjá mér það sem af er árinu 2021. Þessi bíll á að geta ekið 300 km við bestu aðstæður og möguleika.
 
Það getur verið stutt í mikilmennskuna -líka hjá mér. Ég var rosalega heppinn að taka vinstri beygjuna og mánaðarleigan á þessum bíl er kannski einn þriðji af auknum húsnæðiskostnaði ef ég yfirgæfi Sólvelli. Hann veldur mér líka um það bil 25 % minni kostnaði en bíllinn sem ég var á leiðinni til að kaupa. Stærstan hluta af rafmagninu á þennan bíl reikna ég með að fá frá þakinu heima hjá mér.
 
 
 
Ég sat við glugga móti austri meðan ég skrifaði þetta blogg og hafði útsýnið sem við sjáum á myndinni. Svo var það líka þegar ég skrifaði bloggið þar á undan. Ferskasti blærinn yfir laufhafinu er farinn að gefa sig og þreytueinkenni eru sýnileg á trjánum. Þau eru líka búin að skarta sínu fallegasta í fleiri mánuði. Mig minnir að ég hafi heyrt eldri menn sem unnu í Allabúð í Hrísey tala um eðalvið. Trén þarna eru eðaltré. (Allabúð nefndist hluti af fyrrum kaupfélagsverslun í Hrísey)
 
Sum eru með þétt laufverk og sum eru með stór laufblöð og sum bera hvort tveggja. Þau eru mikilvirk í að hreinsa loftið sem við drögum niður í lungun og þau eru mikilvirk við að framleiða fyrir okkur súrefnið sem gerir okkur lífið mögulegt. Þau eiga það skilið að ég sé góður við þau. Þau hafa gefið mér svo óteljandi góðar stundir í sumar og mörg liðin sumur. Þau eru bæði vinir mínir og bestu listaverkin sem ég mögulega á kost á að hafa fyrir augum mér hér heima.
 
Það er létt að draga andann í návist þeirra og ég vona að okkur sem eigum að vera ábyrg takist að bera þá ábyrgð svo að ungu afkomendurnir okkar þurfi ekki síðar meir að líða þungt vegna erfiðleikanna við að draga andann í brennheitum og sköðuðum heimi.

"Sólarorkuverið" mitt á þakinu

Það var snemma vorið 2020 sem ég var að hreinsa til hér úti eftir að fagmenn höfðu verið uppi á þaki við að ganga þar frá sólarsellum. Ég var dálítið montinn yfir sólarsellunum mínum og framtaki mínu yfir að hafa drifið í að koma þessu endanlega í framkvæmd. Ég hafði ekkert á móti því að vera framan við húsið þegar fólk gekk framhjá og vildi gjarnan heyra viðbrögðin.
 
En það voru engin viðbrögð fyrr en maður einn sem á heima hér í sveitinni gekk hjá og heilsaði hressilega. Svo hafði hann orð á því að ég hefði orðið fyrstur í byggðarlaginu til að fá mér sólarsellur. Ég fann fyrir svolítilli "vá" tilfinningu því að nú hafði einhver tekið eftir framtakinu. Því næst spurði hann hversu mörg ár það tæki fyrir mig að fá til baka kostnaðinn sem ég hefði lagt út fyrir þessu.
 
Ég gaf honum mjög einkennilegt svar, það að ég hefði reyndar engan áhuga fyrir því. Ég sagðist hins vegar hafa átt peninga til að borga þetta í eingreiðslu og ég vænti þess að það mundi lækka mánaðarútgjöld mín upp undir 600 krónur á mánuði (um það bil 8700 ísl krónur). Jú, hann sagði að svo gæti maður líka hugsað, en þar sem ég veit að hann vinnur með fjármál fyrirtækja var spurning hans mjög eðlileg.
 
Ég sagði honum einnig að ég ætti nokkur barnabörn og barnabarnabörn sem ég væri að taka tillit til. Flest þeirra væru ennþá svo ung að þau gætu ekki tekið þátt í því að taka ábyrgð á umhverfismálunum. Ég tæki meira tillit til þeirra sem ennþá væru svo ung, en til þeirra sem væru komin á ábyrgan aldur. Ég heyrði vel á rödd hans að hann skildi mig.
 
Nokkru eftir þetta samtal var sólarorkuverið mitt á þakinu búið að fá löggildingu og ég naut þess að sjá mælinn sem fylgdi sem sýndi framleiðslu sem var framar mínum vonum.
 
 
 
 
Ég get alls ekki sagt að "sólarorkuverið" mitt á þakinu sé staðarprýði, en ef það getur verið einhver miljarðs hluti af prómilli í að gera heiminn lífvænlegri fyrir barna- og barnabarnabörnin mín -að viðbættum öllum öðrum heimsins barnabarnabörnum, þá væri það alls vert. Svo er annað mál, og það er það að ég sit mjög sjaldan á stól utan við húsið og stari upp á þakið. Það spillir því engu fyrir mig þannig.
 
Í sambandi við þessa framkvæmd hitti ég áhugavert og skemmtilegt fólk. Til dæmis maðurinn sem stjórnaði og vann við að ganga frá sólarsellunum á þakinu. Hann var í kaffitíma á fjórum fótum á stofugólfinu við að skoða mótorhjólið sem Susanne hafði gert úr legókubbum. Hann er nefnilega mótorhjólamaður. Af tillitssemi vildi hann skoða þetta án þess að káfa á því.
 
Mér er líka minnisstæður maðurinn sem kom til að löggilda verkið. Það var á tímum þegar fólk mátti ekki lengur heilsast eða kveðjast með handabandi. Hið góða samtal sem við áttum yfir kaffibolla eyddi síðasta vafa mínum um hvort ég hefði verið að gera rétt með fjárfestingunni eða ekki. Við kvöddumst svo sannarlega með handabandi.
RSS 2.0