Ja, drengur! þetta lítur út eins og bit

Það var nú meira hvað mig klæjaði í hægri fótinn hérna um daginn, alveg frá ökla og rúmlega hálfa leið upp undir hné. Svo voru þarna rauðir flekkir og flekkurinn sem var utan á öklanum var svolítið sporöskjulaga og ljósari innan við næstum blárauða jaðrana. Sá flekkur fékk mig til að taka þetta svolítið alvarlega. Ef ég lét eftir mér að klóra í þessa flekki nálgaðist það brjálæðisástand svo að það var best að láta það vera.

Ég sá á Feisbókinni um daginn að fólk talaði um nýtt snýkjudýr sem væri búið að sýna Íslandi þá virðingu að nema þar land. Það var líka talað um að þetta snýkjudýr gæti alls ekki talist saklaust því að því gætu fylgt sjúkdónmar eins og bórelía og heilahimnubólga. Íslenska nafnið er skógarmítill. Hér í landi heitir þetta snýkjudýr fästingur og er hluti af náttúrunni og afar fáir láta fästinginn meina sér aðgöngu að henni. Á tímabili í sumar voru plokkaðir af mér nokkrir skógamítlar á viku hverri. Ég hef sagt að það sé minni hætta á að skógamítill verði fólki að meini en ferð á milli staða á bíl og það er ennþá mín skoðun.

Ef bórelía fær að setjast að í líkamanum án afskipta getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar. En það er hægt að vera vakandi fyrir því án þess að setja allt á annan endann. Ég hafði samband við heilsugæslustöðina í Fjugesta vegna flekkjanna og kláðans á hægri fætinum og fékk þar tíma hjá hjúkrunarfræðingi fjórum dögum seinna. Þangað kom ég á þriðjudaginn var og settist á biðstofuna. Systir Anna kom fram á biðstofuna eftir stutta stund og leit á mig og spurði ekki hvort ég væri Guðjón. Hún bara leit á mig og bað mig að gjöra svo vel.

Rauður á fætinum eða hvað? Já, svaraði ég og lyfti upp buxnaskálminni og dró lítillega niður sokkinn. Anna skoðaði þetta með ábyrgum svip og sagði svo: Ja, drengur, þetta lítur út eins og bit. Hvers konar bit? spurði ég. Fästingsbit svaraði systir Anna. En hún sagðist ekki vera nógu viss þannig að það væri best að ég hitti líka Dr Ewu. Svo sendi hún Dr Ewu orðsendingu gegnum tölvuna og svo spjölluðum við saman um daginn og veginn svolitla stund. Hún kallaði mig dreng hugsaði ég. Ég tók því sem hrósi og og var harð ánægður með. Systir Anna gat verið einum tíu árum yngri en ég.

Ég var sestur aftur fram á biðstofuna þegar Dr Ewa kom hress og skærbrosandi fyrir horn og leit á mig. Mín fyrsta hugsun var að mikið væri hún þægileg og hjálpleg þessi pólska kona sem var kannski rúmlega fertug. Svo fórum við inn á stofuna til hennar og þar var það sama sagan; upp með buxnaskálmina og niður með sokkinn. Nú varð Dr Ewa alvarleg litla stund og svo sagði hún að systir Anna væri bæði þrá og eftirtektarsöm og það væru hennar bestu kostir. Þetta getur mjög vel verið bórelía sagði svo Ewa og við gerum ráðstafanir út frá því. Þú færð fúkalyf sem eyðir þessu ef það er bórelía en ef það er ekki bórelía skaðar fúkalyfið þig ekki. Ég sé líka að þú notar engin lyf sagði hún ennfremur. Svo gaf Ewa sér svolítinn tima til að spjalla og spurði meðal annars hvort það væri ekkert fleira sem ég vildi láta hana athuga.

Þetta var eiginlega að verða tilbreyting í hversdagsleikanum. Þessar konur voru svo glaðar og hjálplegar og það var einnig unglingurinn frammi í afgreiðslunni sem tók við 80 krónunum af mér og vísaði mér áfram. Þetta glaðværa og hjálpsama viðmót byrjaði satt best að segja frammi í andyrrinu þegar ég var að koma og mætti miðaldra manni sem var á leiðinni út með aldraða konu í hjólastól. Ég opnaði hurðina upp á fullt og hélt henni þannig til að auðvelda þeim leiðina út. Þá sagði sú aldraða glaðlega að ég gæti líka ýtt á hnappinn þarna, þá mundi hurðin haldast opin. Reyndar vissi ég það en ég er víst meira gamaldags en þessi aldraða kona því að ég nota þessa hnappa ekki svo oft.

"Ég sé líka að þú notar engin lyf" sagði Dr Ewa. Reyndar hef ég fengið fólinsýrutöflur út á resept í meira en tvö ár og ég sagði að reseptið væri gengið úr gildi og hvort hún mundi vilja skrifa nýtt. Hún sagði það enga ástæðu að ég notaði þetta meira, alla vega ekki um sinn, og það var greinilegt að hún kallaði fólinsýru ekki lyf. Hún virtist horfa á mig og dæma mig frískann. Þetta var nú að verða aldeilis meiri dagurinn. Það var næstum að verða lán að skógarmítill hafði bitið mig.

Á leiðinni út og á leiðinni heim var ég að velta þessari heimsókn til læknisins fyrir mér. Ég er 69 ára, vinn fulla vinnu sem stendur og ég held að ég kvarti aldrei vegna heilsu minnar. Mér finnst að meðan ég var hvað haltastur fyrir meira en tveimur árum að ég hafi kvartað minna enn nánasta fólkið mitt. Fólk sem ég hitti og hafði farið í mjaðmaaðgerð gaf rosalegar lýsingar á ástandinu. Mér datt stundum í hug að það væri ennþá allt í lagi með mig. Samt skrifaði læknirinn i skýrsluna eftir að gerðina að það hefði alls ekkert brjósk verið eftir. Stundum dettur mér í hug að hugur minn sé of þungur. Og stundum dettur mér í hug að það sé nú meiri árans vitleysan.

Ég hef val. Sé ég spurður hvernig ég hafi það daginn eftir að ég hef barið með hamri í fingur get ég sagt að verkurinn sé alls ekki horfinn -en ég get líka sagt að ég sé mikið betri en í gær. Það er munur á. Eitt sinn fór Valdís til læknis og fékk lyf við einhverju eins og gengur. Þegar við komum heim lagði hún sig. Meðan hún hvíldi sig hringdi kona og ég sagði henni að við hefðum verið hjá lækni og nú hefði Valdís lagt sig. Fékk hún lyf? sagði konan. Já. Hvað heita töflurnar. Ég vissi það ekki. En veistu hvað þær eru mörg milligrömm? spurði hún þá. Nei, ég vissi það ekki heldur. Það er alveg merkilegt að ég skuli ekki vera meira veikur en ég er. Nei, ég er mikið stoltur af heilsu minni. Ég fékk nýjan mjaðmalið en svo er ég líka eldhress.

Fyrir einhverjum mánuðum lét Ewa taka röntgen af hálsliðunum í mér. Svo fékk ég bréf frá henni um það að hálsliðirnir væri gróflega slitnir. Mér brá og einhverja stund fann ég fyrir einhverju mjög ónotalegu og framtíðin varð myrk. Svo hugsaði ég sem svo að ég hefði alls ekki vitað af þessu utan að ég dofnaði í vinstri handlegg. Átti ég þá að fara að verða veikur í hálsinum bara vegna þess að ég vissi að hálsliðirnir væri slitnir? Neei! Svolítið er ég stirður í hálsinum en dofinn í vinstri handlegg hvarf fyrir mörgum vikum. Hugur minn er ekki þungur.

Skógarmítill hagar sér þannig að hann stingur í húðina þar til hann fær blóð. Síðan festir hann sig við staðinn og hefur það gott. Hann stækkar hratt, það kemur lítill rauður blettur í kringum hann og oft má sjá hvernig hann spriklar með fótunum ef hann fær að vera nógu lengi í friði og stækka. Það klæjar í blettinn. Skógarmítill deyr fullur því að hann er baðaður í spritti áður en hann er fjarlægður með töng. Eftir áramót fer ég í bólusetningu við heilahimnubólgu þannig að ég á ekki að geta smitast af henni gegnum skógarmítla.

Góðar stundir

Ps. Valdís er búin að taka bláber út úr frystinum og hún er búin að taka utan af granatepli. Það verður góður og hollur eftirréttur í kvöld.

Glósubók

Seinni partinn í gær atti sér stað langþráður atburður hér á bæ. Ég tók mér bók í hönd í bókaskáp í nýja herberginu og lagði hana á skrifborð sem er þar inni. Síðan sótti ég eitt blað af ljósritunarpappír, sænsk-sænska orðabók og að lokum penna. Síðan settist ég við skrifborðið og byrjaði að lesa. Þar áður var ég búinn að vera all langa stund í erindum í Fjugesta og svo auðvitað var svolítil vinna við fasteignina líka búin að vera í gangi um miðjan daginn.

Ég sagði að þetta hefði verið langþráður atburður og ég meina það. Ég er oft búinn að blogga um það þegar ég sest í Varsam stól í nýja herberginu með bók í hönd og byrja að lesa góðar bækur. Það hafa verið stærstu verðlaunin sem fundist hafa í mínum huga eftir byggingarvinnu undanfarinna ára. Ég er aðeins að byrja að smakka á þessu. En ég held að ég verði að útskýra þetta með Varsam stólinn. Inn í Örebro er verslun sem heitir Varsam. Varsam selur margs konar hjálpartæki svo sem hækjur og stafi. Þar keypti ég göngustafinn sem ég gekk með síðustu mánuðina fyrir mjaðmaaðgerðina.

Varsam selur líka stóla sem eiga vel við eldra fólk og fólk sem hefur til dæmis fengið nýjan mjaðmalið. Stólarnir eru í fyrsta lagi góðir að sitja í og svo eru þeir frekar háir og með háum örmum sem eiga að vera til hjálpar fyrir þá sem meiga ekki og geta ekki reist sig upp úr stól nema styðja sig við góða arma. En nú er það bara svo að ég er alls ekki nógu gamall til að þurfa þetta og ég er svo frískur eftir mjaðmaaðgerðina að Varsam stóll er með öllu óþarfur fyrir mig. Við eigum alveg skínandi góða stóla sem eru góðir fyrir bókalestur. Valdís segir hins vegar að það komi að því að hún vilji stól frá Varsam.

Aftur að bókalestri. Það er langt síðan ég ákvað að lesa þessar bækur á sænsku og um leið að auka sænskukunnáttu mína. Þá á ég við að auka orðaforða minn og svo að hreinlega fá betri tök á málinu. Ég get talað reiprennandi í Vornesi allt sem ég þarf að segja og haft samtöl við fólk án nokkurra hnökra, en ef ég kem í allt annað umhverfi og er með allt öðru fólki kemur fyrir að það verði hnökrar á tjáningaskiptunum. Bjarni Steingrímsson fyrrum leikari og leikstjóri sagði mér forðum tíð að hvorugur okkar gæti átt von á því að komast jafn langt í sænskunni og á okkar gamla móðurmáli.

Það eru allt of margir, hef ég heyrt hjá sæsnkukennurum, sem komast á það stig að geta skilið og geta tjáð sig þannig að það dugi svo sem og verða þar með ánægðir og hætta að æfa nýja tungumálið. Ég hef aldrei sætt mig við það, ég vil halda áfram. Ég vil líka geta skrifað nokkuð óhindrað á sænsku og geta gert mér grein fyrir því hvort það er þokkalega skrifað eður ei. Ef ég er ekki að flýta mér skrifa ég að vísu jafn vel eða betur en margur Svíinn og það er vegna þess að ég hef nánast aldrei stoppað í sænskunámi mínu. Nánast aldrei stoppað er kannski full mikið sagt því að ég hef ekki æft mig af ásettu ráði síðustu tvö til þrjú árin. Samt er ég þó alltaf að læra meðan ég tjái mig við fólkið í þessu landi.

En aftur til bókarinnar um Ayla, Þjóð bjarnarins mikla, sem við lásum löngu áður en við fluttum til Svíþjóðar ásamt öðrum þeim bókum sem þá höfðu verið skrifaðar um Ayla. Í minningunni voru margar lýsingar í þessum bókum sem ég hreifst af. Lýsingar á fólki, atburðum og landslagi. Í minningunni fannst mér sem ég væri með á ferðalagi, ég stæði andspænis manneskju og ég upplifði landslagið þannig að ég mundi geta þekkt það að nýju ef ég sæi það. Svo þegar ég byrjaði að lesa í gær og aftur í dag sýndist mér sem þetta væri í gildi ennþá. Til dæmis þegar höfundurinn lýsir trjánum á gresjunni hinu megin árinnar segir hún eitthvað á þessa leið: "Þau fáu tré sem stóðu þar, snúin og skæld af vindinum, á þann hátt sem þau hefðu stoppað mitt í hreyfingu, gáfu bara frekari dýpt í landslagið og undirstrikuðu áhrifin af tómleika." Ég hefði ef til vill átt að velja bók eftir eitthvert nóbelskáldanna en ég er ekki kominn þangað ennþá. :)

Svo tók ég með blað til að skrifa á og orðabók. Ég er aftur byrjaður að glósa eins og í Skógaskóla haustið 1956. Eftir helgina ætla ég að kaupa mér skrifblokk og skýra hana glósubók. Ný tíð er runnin upp.

Myglustopp

Það er letidagur á Sólvöllum í dag þannig að ég hef ekki einu sinni farið í vinnugalla og þaðan af síður gert nokkurn skapaðan hlut og það er komið hádegi. Við skruppum til Örebro í morgun þar sem Valdís fór til heyrnartækjatæknis (þetta orð varð til bara núna í augnablikinu, fínt orð eða hvað?). Þar átti að fara yfir stillingu á heyrnartækjunum hennar og svo átti hún að fá eitthvað sem hér er kallað slynga og er haft undir púða í stólnum þar sem horft er á sjónvarpið. Svo á Valdís framvegis að geta horft á sjónvarpið og hafa svo hátt sem hún vill án þess að ég heyri nokkuð. Oft er það svo að ég vil ekki horfa á sjónvarp en ég heyri þá gjarnan í því gegn vilja mínum. Við þekkjum fólk sem hefur þennan útbúnað og þar er það maðurinn sem horfir meira á sjónvarp. Þau hjón, sem eru á okkar aldri, eru alsæl með fyrirkomulagið.

Eftir heyrnartæknisheimsóknina fer Valdís í nudd hjá naprapatinum eða hnykkinum Magnúsi og svo ætlar hann að sýsla eitthvað við liðamót og stífa vöðva sem hrjá hana og reyna að liðka svolítið fyrir með daglega vellíðan. Hann er glúrinn þessi maður og ég hef líka verið hjá honum og mér fannst meðan ég var haltur að hann sæi hvað hrjáði mig áður en hann leit upp til að heilsa mér -meira að segja í fyrsta sinn sem ég heimsótti hann. Ég velti fyrir mér hvort hann væri smá göldróttur. En hvað um það, ég fór heim á meðan Valdís fer í þessar heimsóknir en hún er afar þolinmóð við að koma sér með strætisvögnum milli staða í Örebro. Það er nú heill kapítuli út af fyrir sig.

----------------------------------------------

Nú er áliðið dags.

Um daginn notaði ég orðið myglustopp  á FB. Hún Sigga Páls skólasystir mín frá því fyrir rúmlega hálfri öld spurði þá; "hvað er myglustopp Guðjón"? Ég sagðist mundi svara því. Íslenskur maður sem ég þekki ekki en veit hver er, hringdi einu sinni í mig og sagðist lesa með áhuga bloggið mitt sem hann hafði fundið af einhverri tilviljun. Hann sagðist vera að byggja sumarhús og þess vegna hefði hann gaman af því að lesa um byggingarframkvæmdir á Sólvöllum. Einhver sendi e-póst um sama efni og einn og annar hefur heyrt af sér á einhvern hátt og sagt svipað. Málið er einfaldlega að það er til slatti af fólki sem gjarnan les aldeilis hversdagslega og einfalda hluti um daglegt bjástur og hefur gaman af. Þar þekkja margir sjálfa sig. En nú ætla ég reyndar að gefa skýrslu um myglustopp.

Sigga Páls, einfalt er að líta bara á þriðju myndina því hún er af "myglustoppi" einu sér og án langrar orðaflækju minnar.


Á þessari mynd sjáum við upp í þakið á gamla hluta Sólvallahússins. Sperrurnar sem áður voru 12 sm breiðar eru þarna orðnar 22 sm. Steinullin sem við sjáum í þakinu er 175 mm þykk en ofan við hana er masónit. Á milli sjálfrar þakklæðningarinnar og masonitsins er loftrúm sem er 5 sentimetrar. Ætlast er til þess að raki sem stígur til lofts í öllum íbúðarhúsum þrátt fyrir plastdúka og tilheyrandi, viðrist burt í þessu loftrými. Annars gæti hann setst að efst í einangruninni þar sem frost og hiti mætast og myglað og frosið á vetrum og endað í fúa.

Ég kynntist þessu í fyrsta skipti hér í Svíþjóð enda var ég ekki vanur að vinna við hús þar sem innréttað var alla leið upp að sperrum. Smiðurinn sem hjálpaði okkur í fyrra var jafnframt vinnunni hjá okkur að skipta um þak á húsi þar sem þakklæðningin var orðin svo fúin að það fannst hvergi naglhald. Þar var ekkert loftrúm til að annast rakann. Endanleg einangrun í þakinu hjá okkur var 30 sm sem gerir að verkum að þetta er ennþá mikilvægara en áður þegar einangrun var kannski 1/3 af því sem notað er í dag..


Út undir þakskeggi á langveggjunum er loftrás eins og allir smiðir þekkja, bæði íslenskir og sænskir. En þegar byggt er eins og við gerum hér á Sólvöllum að hafa hallandi loft sem fylgir þakinu, þá þarf líka að vera öndunarmöguleiki upp að mæni eins og áður er sagt. Um daginn var ég að ganga frá myglustoppum og þá byrjaði ég á að taka burtu þakpönnurnar og bora göt sem voru 90 mm í þvermál. Masónitið sem við sáum innan frá á fyrstu myndinni sjáum við hér utan frá í gegnum götin. Nú er þessi þáttur tilbúinn og þá er að framkæma þann næsta.


Hér er búið að festa myglustopp ufir annað gatið sem við sáum áðan. Myglustoppið húsar frá að neðan en lokar vel að ofan með hjálp af kítti þannig að vatn skal ekki geta runnið inn um opið. Gataplata er á myglustoppinu neðanverðu. Hún nær út fyrir gatið og hindrar mýs og skordýr að komast inn undir klæðninguna á þakinu.


Svo þegar verkinu er lokið er bara að horfa á og vera glaður yfir góðum verklokum og plokka svo þakpönnurnar á að nýju. Þó að ég hafi aldrei séð þetta á Íslandi hefur það kannski verið notað í 20 ár eða meira. Ég er líka viss um að þetta finnst undir einhverju öðru nafni, en ég bara þýddi beint sænska heitið "mögelstopp", það á að koma í veg fyrir myglu og fúa.


Á þessari mynd gefur svo að líta ellilífeyrisþega sem er að böglast upp á þaki við að setja upp myglustopp. Það er eins og ég sé hræddur en sannleikurinn var samt sá að ég var orðinn full kaldur við myglustoppavinnuna mína um daginn. Skórnir sem ég er á þarna eru nú hreinlega bestu þakskór sem ég hef eignast. Þegar við innréttuðum upp í risið í vetur var svo þykkur snjór á þakinu að það kom ekki til umræðu að gera þetta þá. Síðan er þetta búið að liggja svolítið á mér og ág átti von á að ég ætti erfiðara með að gera þetta en raun varð á. Það er nú meiri vitleysan þegar ég er að láta mér detta í hug að ég sé að eldast. En hvað um það, Sólvallahúsið er vel undirbúið til að taka á móti vetri


Bara svo að þið vitið þá er ég ekki einn um að gera eitthvað á Sólvöllum í Krekklingesókn og því nota ég aftur þessa mynd þegar Valdís var að mála á fullu fyrir einum tveimur vikum. Nú situr hún frammi og horfir á sjónvarp með nýju græjunum sínum og það er svo lágt í sjónvarpinu að ég bara heyri óminn frá því. Ja, flest er nú til.

Gaman væri að heyra frá einhverjum hvað myglustoppin mín raunverulega heita á íslensku og hvort þau séu ekki hversu venjuleg sem helst á byggingum. Ef þessi lýsing gæti orðið einhverjum að gagni væri það jú alveg frábært.

Frá Kóreu til Afganistan

Undir kvöldið í gær horfði ég á glefsur úr minningarathöfn um þá sem dóu í árásinni á tvíburaturnana í New York. Þetta var afar falleg og löng athöfn og miklu kostað til. Margir grétu innilega þegar Paul Simon spilaði á gítar og söng og grátandi fólkið var sýnt í nærmynd. Alvörugefnir fyrrverandi og núverandi ráðamenn gengu prúðbúnir um marmarann og voru súmmaðir inn.

Ég varð snortinn af ýmsu sem ég sá þessa stuttu stund sem ég horfði á sjónvarpið. Svo talaði ég um það við Valdísi að það þyrfti að minnast margra sem hefðu dáið í Kóreu, Víetnam, Írak, Afganistan og í öllum stríðunum sem Bandaríkjamenn hefðu háð þar á milli. Til hvers voru öll þau stríð og voru þau öll réttlætanleg? Ég hef alla vega mínar hugmyndir um það.

Stuttu eftir að ég sagði þetta kom glefsa úr viðtali sem fram fór á sama tíma í sjónvarpssal SVT1. Þar var talað við Mona Salin og sænskan rithöfund sem heitir Jan Guillou. Og viti menn; Jan hélt nákvæmlega því sama fram og ég og hann hafði sínar hugmyndir um það líka.

Ég man vel eftir því fyrsta af þessum stríðum sem ég nefndi, Kóreustríðinu, og mikið var ég hræddur þegar pabbi og Sigmundur frá Núpum ræddu um það og spáðu í hvort þetta stríð mundi leiða til þriðju heimstyrjaldarinnar. Þeir áttuðu sig ekki á því að ég, smá strákur, var með stór eyru þar sem ég lék mér í kringum þá þegar þeir unnu við að slá upp steypumótum fyrir súrheysturni heima á Kálfafelli. Það var langt á milli Kálfafells og Kóreu en hræddur var ég samt og dreymdi vonda drauma á nóttunni. Hvernig voru þá draumar barnanna í Kóreu og kringum vígvelli allra styrjalda síðan.

Í dagsins önn

Þann 21. ágúst talaði ég um hann Arne sem gekk frá frárennslinu hjá okkur árið 2006. Þá var hann 62 ára og við 64 ára. Tilefnið til þess að ég nefndi hann þarna um daginn var að frárennslið hætti allt í einu að virka. Þegar Arne var hjá okkur 2006 hafði hann erfiðleika með hjartað. Það var eins og það væri allt í lagi meðan hann var upp í gröfunni sinni en þegar hann þurfti að gera eitthvað með skóflu eða járnkalli á jörðu niðri varð annað uppi á teningnum. Einhverjum árum eftir að hann vann þetta hjá okkur vantaði okkur mold og Arne færði okkur mold. Hann kom aðeins inn hjá okkur og maðurinn leit mikið betur út en áður. Skýringin á því var sú að hann hafði fengið hjártaáfall og í framhaldi af því var hann látinn fara í hjartaaðgerð sem gerbreytti heilsu hans. Hann er nú búinn að vera ellilífeyrisþegi á þriðja ár.

Nú var það svo að ég leitaði til Arne þegar frárennslið hætti að virka og leitaði ráða hjá honum. Hann sagði að hann skyldi bara koma í heimsókn og líta á þetta með mér. Ég var þá búinn að grafa holur sem gerðu okkur mögulegt að rannsaka málið svolítið. Ég sagði honum einnig að við þyrftum knnski á líttilli gröfu að halda, lítilli vegna þess að við vildum ekki skemma umhverfið með stóru tæki. Arne sagðist skyldi sjá um það. Hann ætlaði bara að fara í sumarhúsið sitt sem er sunnan við Gautaborg og vera þar í eina viku. Svo skyldi hann koma. Eitthvað hefur gert það að verkum að mér hefur alltaf verið hlýtt til þessa manns, allt frá því að við hittumst fyrsta sinni.

Vikan leið og ekkert heyrðist frá Arne. Við höfðum fullt að gera þannig að við rákum ekki á eftir. Svo leið önnur vika og ekkert heyrðist frá honum þá vikuna heldur. Haustrigningarnar byrjuðu að ganga yfir ein af annarri og jörðin varð mjúk af bleytu og áfram liðu dagarnir. Hátt í þrjár vikur voru nú liðnar og þá hringdi Valdís til mín í vinnuna og sagði að Arne hefði komið. Hann hafði litið í holurnar sem ég gróf og sagðist svo koma daginn eftir þegar ég yrði heima. Þegar hann kom daginn eftir og við gengum út að holunum var komið talsvert vatn í þær eftir rigningu næturinnar.

Við spígsporuðum þarna og skeggræddum og skipulögðum framhaldið. Báðum var okkur ljóst án þess að ræða það að þarna yrði engri gröfu beitt fyrr en næstsa sumar. Þetta yrði allt að gerast með skóflu. Arne leit á mig meðan við vorum þarna úti og sagði með hluttekningu að hann hefði ekki líkamlega burði til að hjálpa mér við það. Ég sagði sem var að mér hefði aldrei dottið það í hug, ég hefði bara viljað leita ráða hjá honum sem reynds manns í faginu. Svo fórum við inn til að líta á teikninguna sem ég gerði af sandsíunni eða sandbeddanum á sínum tíma þegar umsóknin var send inn til umhverfisnefndarinnar.

Meðan við sátum frammi við matborðið tók ég eftir því að Arne var svolítið álútur og ég spurði hvernig vikan hefði verið í sumarhúsinu. Hann svaraði því til að það hefði ekki orðið nein vika í sumarhúsinu þar sem sonurinn, sem er rúmlega þrítugur, hefði verið svo veikur. Nú, hvað hafði komið fyrir hann? Jú, svaraði Arne, hann var skorinn upp vegna heilaæxlis snemma í vor og síðan hefur hann búið hjá okkur gömlu. Hann getur fengið flog og má alls ekki vera einn. Hann er búinn að vera í gríðarlega mikilli geislameðferð og mótstöðuaflið er mjög lágt. Svo fékk hann kvef sem hann varð mjög veikur af í hálfan mánuð þannig að það varð ekkert sumarhús.

Þetta var nú bara einum of mikið og ég tók upp annað umræðuefni og spurði hann hvort hann ynni mikið ennþá. Hann sagðist vinna talsvert en ekki eins mikið eftir að hann varð ellilífeyrisþegi. Ég spurði hann hvort hann ætti gröfuna ennþá og hann sagði svo vera. Hins vegar sagði hann að hún væri ónothæf eftir að hafa farið á hvolf ofan í skurð. Ja hérna. Hann sagðist hafa verið að dýpka skurð í Hakkvads Via og bóndinn hefði gert kröfu til að hann setti efnið hinu megin við skurðinn og þar að auki yfir hestagriðingu sem var þar. Venjulega setjum við efnið sömu megin við skurðinn og grafan er sagði Arne og svo var það þessi girðing. Skurðbakkinn gaf sig og grafan fór á hvolf. Ég hefði ekki átt að hlýða kallinum. Hann gat sjálfur tekið sig út úr gröfunni en hún var mikið skemmd.

Það var því ekki von að Arne hefði komið á tilsettum tíma og það var ekki við neinn að sakast. Í gær var ég á kafi í skurðgrefti með skóflu og járnkall og planka til að vega upp steina. Svo kom Valdís og setti sig á plankann meðan ég hlóð undir steininn og svo var bara að lyfta aftur. Svo var steinninn brátt á bakkanum. Þannig leið gærdagurinn og ég var eiginlega orðinn mikið hissa á hvað ég hélt lengi út. Ég vonaði að klukkan hefði stoppað og tíminn með. Svo kallaði Valdís út og spurði hvort ég ætlaði ekki að fara að hætta, klukkan væri hálf átta. Það lá við að ég reiddist yfir því að vita hvað klukkan væri orðin mikið. Svo fór ég inn. Mér var oft hugsað til Arne meðan á þessari jarðvegsvinnu stóð. Það var mikið sem á hann hafði verið lagt að undanförnu.

Ég lagði mig full seint í gær eða rétt fyrir hálf tólf. Svo svaf ég í einum dúr til klukkan sjö í morgun. Þá vaknaði ég til að velta mér á hina hliðina og svaf til klukkan átta. Þá leit ég á allar tilgengilegar veðurspár og þær gerðu ráð fyrir því að það færi að rigna upp úr hádegi. Ég ákvað að byrja eftir sjónvarpsmessuna. Valdís sagði að ég hefði hrotið miskunnarlaust í nótt, engum kæfisvefni, en þessum jöfnu malandi hrotum sem geta farið með allar meðalmanneskjur á taugum sem á þurfa að hlýða. Það finnast eyrnatappar á heimilinu og það hjálpar vissulega.

Svo byrjaði sjónvarpsmessan sem var kynnt sem norræn messa og var sjónvarpað frá Sundsvall. Það voru sálmar, og meira að segja var líka dansað. Hvít kona og hálfdökkur maður dönsuðu, fólk af ólíkum þjóðernum var með í tónlist og þetta var í fyrsta skipti sem mér fannst dans við messu bara allt í lagi. Erkibiskupinn sem gaf okkur Valdísi oblátuna í Uppsaladómkirkju um næst síðustu jól predikaði. Hann talaði alvarlega, ekki af svartýni, en hann flutti hins vegar fagnaðarboðskap af alvöru. Hann talaði um hið mannlega samfélag þar sem válegir hlutir ske og hann talaði um að fulltrúar hins góða verði fyrir áföllunum ekki minna en aðrir. En Guð er nálægur sagði hann. Hann sagði að Jesús hefði gefið loforð; að hann yrði að eilífu með öllum sem tækju móti skírninni í hans nafni. Svo var Faðir vorið sungið og það var líka í fyrsta skipti sem mér fannst það fallegt.

Ég stóð upp áður em messunni var lokið þar sem mér lá á í skurðgröftinn áður en rigningin hæfist. Ég þurfti að þurrka mér undir vinstra auganu og það hægra var líka eitthvað vott bakvið augnlokin. Ég fékk mér vatn að drekka, skipti um föt og svipti upp útihurðinni -það var byrjað að rigna. Þá fór ég í regnjakka og dreif mig síðan ákveðið niður í skurðinn til að skrapa í drullunni. Ég vonaði að Jesús væri með mér þó að ég hefði farið frá messunni áður en hún var búin. Ekki kom hann með skóflu en mér fannst þetta allt í lagi þrátt fyrir að allt væri blautt og drullugt og lyktandi ögn af klóaki. Verkið sóttist sæmilega og að lokum horfði ég á rennslið koma undan sanddýnunni eins og það á að gera. Síðan breytti ég heilu röri í framrærslurör með því að bora á það gríðar mörg göt og ég sá vatnið frá dýnunni renna inn í þetta drenrör. Síðan fyllti ég yfir með möluðu grjóti og allt byrjaði að líta vel út.

Verkið er hálfnað og það verður aðveg dásamlegt þegar því verður lokið. Heil mikil vinna en með jákvæðu hugarfari er þetta bara nauðsynleg vinna sem tekur enda. Samt alls ekki neitt eftirsóknarvert. Ánægður er ég með að hafa heilsu til að gera svona hluti. Ég fæ tvo frídaga um næstu helgi og vissulega vona ég að það verði þurrt. Þegar ég hætti klukkan fjögur bauð Valdís upp á síðdegiskaffi sem bara gat kallast veisla. Og gúllasið sem hún bauð upp á í kvöldmat var líka veisla. Mínar raunir voru litar miðað við það sem Arne stóð í og ég verð að segja að messan fylgdi mér allan daginn.


Fyrstu föturnar af mulningnum komnar á rörið og mörg göt eru komin á það. Síðan er bara að hreinsa af næsta meter og koma með nýjar fötur af mulningi. Síðan gekk að sturta beint úr hjólbörunum. Sandbeddinn er vinstra megin. Ástæðan fyrir öllu saman var að þegar verið var að koma frárennslinu frá nýja húsgrunninum út í skurð í fyrrahaust grófu þeir í sundur rör. Þeir spurðu mig hvort ég vissi hvaða rör þetta væri. Ég sagðist ekki vita það og engum datt í hug framræslurörið frá sandbeddanum. Svo var það nú samt. Þeir settu venjulegt frárennslisrör (drenrör) í staðinn og enginn gáði að því hvort rörið sem þeir grófu burt væri með vatnsraufum.


Sjáið bara hvað fínt það varð. Fimm metrar eru búnir og fjórir eru eftir. Nei, þetta lítur ekki sóðalega út.

Ps. Það sem ég sagði um messuna og áhrif hennar var ekkert grín heldur full alvara. Og svo; ég veit að það var minna skrifað um byggingu Hörpunnar en framkvæmdir okkar á Sólvöllum.

Já, víst er hann góður

Klukkan tíu í morgun ók ég úr hlaði í Vornesi og var þá búinn að vinna löngu helgina eins og kallað er og vera einn með húsið það sem samsvarar næstum viku vinnu utan það að kona var í eldhúsinu hluta dagsins og sá liðinu fyrir mat. Ég vissi að ég yrði þreyttur þegar ég kæmi heim og ekki síst vegna þess að nóttin varð afar stutt hjá mér. Það var nefnilega svo að þegar ég var lagstur á koddann rétt fyrir miðnætti í gær, búinn að slökkva ljósið og Óli Lokbrá var búinn að fylla herbergið með nærveru sinni, að ég heyrði talsvert högg. Það var barið í húsið með planka eða einhverju slíku. Svo heyrði ég annað högg og svo heyrði ég högg áfram. Það var verið að brjótast inn í húsið!

Nú er ég byrjaður að skrifa sannann reyfara. Ekki langaði mig til þess en það var ekki um annað að ræða, ég klæddi mig aftur. Ég fór þó í skóna án þess að fara í sokka. Einhver fullur eða bilaður bófi mundi varla fara að skoða á mér lappirnar. Ég fór út að næsta glugga og leit út. Engin hreyfing. Svo gekk ég að næsta glugga og svo að þar næsta og ennþá engin hreyfing. Svo fór ég gætilega niður stigann án þess að kveikja ljósið og leit út um enn aðra glugga á hæðinni fyrir neðan. Engin hreyfing.

Svo var ég kominn inn á sjúkradeildina eftir að fara eftir endilöngu stóru húsi og þegar ég kom inn á ganginn þar kom maður á sextugs aldri eftir ganginum. Hann var innskrifaður og alls ekki bófinn sem ég leitað að. Við heilsuðumst og hann virtist ögn hissa á að sjá mig. Svo fór hann inn í reykherbergið. Ég fór inn á vaktherbergið og út að glugga þar. Það var dimmt fyrir utan gluggann svo að ég sá lítið. Því lagði ég ennið að rúðunni til að sjá betur. Rétt í því kviknaði útiljós sem var rétt við gluggann. Sko, nú var bófinn ekki langt undan en ég sá hann samt ekki þó að ljósið hefði kviknað. Það var þá sem hárin risu á höfðinu á mér.

Nú heyrði ég meiri umferð frammi á ganginum svo að ég hélt þangað. Þar var herbergisfélagi mannsins á sextugs aldrinum kominn á stjá líka. Hann var liðlega þrítugur sá og var svolítið hissa að sjá mig á þessum tíma, klukkan að verða hálf eitt að nóttu. Hann hélt líka inn í reykherbergið og ég á eftir þó að mér líkaði ekki að vera þar inni. Af hverju ert þú á ferðinni á þessum tíma spurði sá yngri. Ég sagðist bara hafa viljað fara eina aukaferð um húsið áður en ég leggði mig. Svo spurði ég hvað hefði vakið þá á þessum tíma. Þeir vissu það ekki. Svo voru hljóð alls ekki rædd.

Ég gekk eftir endilangri sjúkradeildinni og upp á næstu hæð fyrir ofan. Ég kveikti engin ljós til að vera minna áberandi í þessum leitarleiðangri mínum. Að lokum taldi ég mig búinn að grandskoða allt og búinn að fara út og fullvissa mig um að það væri enginn náælgt húsinu. Ég hafði nú ekki heyrt hljóðin í hálftíma eða svo. Ég talaði aðeins meira við mennina sem voru ennþá í reykherberginu og lagði svo af stað í áttina að herbergi mínu sem var á allt öðrum stað í húsinu.

Ég smeygði mér undir mjúka og góða sængina og fann að ég var orðinn verulega þreyttur og það féll á mig höfgi með það sama. Þá reif smá vindhviða  í opna gluggafagið þannig að ég rumskaði aftur. Rétt á eftir var aftur barið í húsið. Ég byrjaði nú að renna grun í hvað væri hér á ferðinni. Nokkru síðar tók væg vindhviða í gluggann aftur og í sama mund var barið í húsið. Vinnupallarnir!

Verið er að leggja nýjar þakhellur á húsin í Vornesi og um átta metra háir vinnupallar umlykja sjúkradeildina. Ég vissi að þeir voru svo sem fimm sentimetra frá þakrennunum þannig að þeir gátu auðveldlega slegist í rennurnar í vægum vindi. Ein vindhviða enn og ein vindhviða enn sönnuðu þessa kenningu og ég varð þess full viss að það væri enginn brjálæðingur að reyna að komast inn i hús í Vornesi. Í morgun sögðu sjúklingarnir á sjúkradeildinni að það hefði verið einhver hávaði frá þakinu að ónáða þá um nóttina. Ljósið kviknaði vegna þess að rofinn er tímastilltur og er ennþá stilltur á bjartasta sumartímann.

Þegar ég kom heim átti ég sem sagt von á því að ég mundi verða þreyttur og ekki hafa mig í neitt. En nei! Ég fann ekki svo mikið fyrir þreytu. Svo fórum við Valdís í búð og ég keypti líka þrjú borð hjá honum Mats sögunarmanni. Ég ætlaði að smíða flatan stiga á þakið því að ég þarf að vinna smávegis þar uppi. Ég er orðinn upp úr því vaxinn að vera með æfingar á þaki og vel öryggið fram yfir karlmennskuna.

Svo fór að rigna og það rigndi drjúgt en eins og svo oft áður féll regnið svo mildilega niður að það var aðeins notalegt að fylgjast með því. Þá vaknaði hjá mér þessi ótrúlega notalega tilfinning. Það rignir of mikið til að ég geti gert það sem ég ætlaði að gera. Hvað geri ég þá? Guð er góður að senda mér regn. Ég geri ekki neitt.

Það eru fimm tímar síðan það fór að rigna og ég er búinn að fara oft út í dyr til að fylgjast með þessari dásamlegu rigningu og það rignir enn. Ég hef hugsað til stórrigninga í brúarvinnunni fyrir meira en hálfri öld þegar það urðu svonefndar inniteppur og maður skiptist á við að lesa, sofna, fá sér mjólkurkex og mjólk, lesa, sofna aftur og líða alveg dásamlega undir tjaldhimninum með róandi regnið yfir sér. Já, víst var Guð góður að senda mér rigninguna.

Svo er Valdís búin að taka bláber úr frystinum og hræra púðursykri út í ögn af Tyrkjajógúrt. Ég veit að bráum verða bláber í Tyrkjajógúrt. Það er gott að vera heima.


Þegar við vinnum kvöld/nótt í Vornesi sofum við hægra megin í háa húsinu á annarri hæð. Sjúkradeildin er nánast í hvarfi við stórt linditré sem er nokkru til hægri við háa húsið. Fjær á myndinni er vatnið Geringe og yfir það sér yfir víðáttumikla skóga í átt til Austur-Gautalands. Ég mundi ekki svo skömmu eftir að þessa nótt í Vornesi blogga um atburði næturinnar á sænsku.

Takið eftir hvað trén gnæfa mikið yfir húsin og til og með yfir húsið sem er tvær hæðir og hátt ris. Ég hélt einu sinni að svona stór tré stækkuðu ekki svo mikið lengur en á þeim tæpu 16 árum sem ég hef verið viðriðinn þennan stað hafa þau stækkað gríðar mikið.

Lok plómutíðar

Fyrirsögning, Lok plómutíðar, minnir á ákveðna árstíð og það leynir sér ekki hvert stefnir. Þokan liggur yfir og skyggni kannski 150 metrar, hitamælirinn stendur á +11 gráðum og allt er mjög rakt. Það mun hausta í ár líka. Lauffall er þó ekki byrjað en hluti af botngróðrinum í skóginum er byrjaður að sölna. Ég gekk út í skóg í gær og burknarnir sem sums staðar ná upp í bringu eru enn hraustlega grænir og stoltir. Það þótti mér góðs viti.

Sum ár er lítið af plómum og önnur ár er mikið afplómum. Tvö síðsutu ár hafa ólíkar aðstæður verið þess valdandi að það hefur verið lítið af plómum. Í ár er mikið plómuár, það mesta síðan hann Kristinn dóttursonur var hér, klifraði í trénu og plokkaði niður plómurnar fyrir afa og ömmu.


Þessi mynd er tekin fyrir fáeinum vikum en þá eru ljósu plómurnar fallegastar að sjá þar sem þær hanga í klösum á greinunum. Tréð hefur verið að sligast undan byrðinni enda styrkt nú undir haustið með staur. Við erum með nýtt tré sem ber bláar plómur. Það er nágranni trésins með ljósu plómurnar.


Núna urðum við að bjarga okkur sjálf þar sem Kristinn er ekki hér og Valdís hélt á ílátunum en ég klifraði og plokkaði niður. Þetta er reyndar í þriðja skiptið í ár sem við tínum plómur úr trénu okkar og það er eiginlega að verða síðasti möguleikinn að gera það. Bragðið af þeim er aðeins farið að dofna. Samt er gríðarlega mikið eftir á trénu. Við bara ráðum ekki við allt saman.


Það er býsna girnilegt að sjá þetta á eldhúsbekknum.


Svona lítur það út þegar Valdís er búin að gera plómumarmelaði og þetta er bara hluti framleiðslunnar. Gott er það, til dæmis ofan á ostinn á ristaðri brauðsneið. Betra en sætabrauðið. Í dag er svo sultugerðardagur á Sólvöllum. Valdís annast það en ég verð ekki í letistólnum heldur. Lífið heldur áfram með sínum sýslum og daglega brasi og sólin heldur áfram að koma upp á morgnana þó að skammdegið sígi nær og nær. Ef manni tekst þokkalega að spila úr lífinu finnst ljós í skammdeginu líka.

Ég hef sem sagt ekki hætt að vinna ennþá

Þegar ég ók heim frá Vornesi einn marsdag árið 2007 fannst mér lífið leika við mig þar sem ég sat bakvið stýrið. Ég var hættur að vinna og ég hlakkaði til ellilífeyrisáranna. Svo var ég hreinn ellilífeyrisþegi í nokkrar vikur og leið afar vel með það. Svo hringdi síminn og Ove dagskrárstjóri, hann sem tók við starfinu mínu, spurði hvort ég gæti komið í vinnu. Ég fór og næstu mánuðina var ég öðru hvoru í vinnu í Vornesi en ekkert í sjálfu sér meira en ég hafði hugsað mér. Síðan varð efnahagshrun á Íslandi og lífeyrisgreiðslur okkar Valdísar þaðan féllu að verðgildi um helming miðað við sænsku krónuna. Eftir það fór ég að vinna á ný í svo sem 65 % starfi og hef gert síðan. Það varð líka allt í einu þessi ógnar þörf fyrir mig í Vornesi á þeim tíma. Ég hætti sem sagt aldrei.

Þrátt fyrir svo mikla vinnu "eftir að ég hætti" varð aksturinn ekki lengur svo afgerandi sem áður hafði verið, enda hef ég oftast unnið nætur þannig að ég hef farið í vinnu í björtu og komið heim í björtu og það munar miklu á ísköldum og snjóugum desemberdegi. Hver nótt sem ég vinn er líka á við rúmlega tvo venjulega dagvinnudaga. Oft þegar ég hef séð til dagskrárstjórans á hans þeytingi varðandi vinnuna hef ég notið þess að vera ekki í sporunum hans. Ef það koma ekki upp óvæntir atburðir á meðferðarheimili sem Vornesi, þá veit ég ekki hvar það óvænta ætti frekar að ske. Það mesta af þessu lendir á dagskrárstjóranum.

Fyrir nokkrum vikum þegar ég var að vinna kom Ove til mín og spurði mig hvort ég væri fáanlegur til að leysa hann af í tvær og hálfa viku. Mín fyrsta hugsun var; ne-hei! aldrei! Svo horfði ég á Ove og sá hvernig hann skrúfaði sig í stólnum og beið eftir svari. Kærastan hans á foreldra í Bandaríkjunum og ég vissi að hún hafði boðið honum þangað og þau áttu að fá alla nauðsynleg aðstöðu hjá foreldrum hennar. Hver mundi ekki vilja þiggja svoleiðis? Hins vegar er ég svo lítill framagosi að dagskrárstjórastaða freistaði mín ekki.

Svo hugsaði ég sem svo að á þessum stutta tíma mundi auðvitað ekkert sérstakt ske sem þyrfti sérstaklega að takast á við svo að þetta yrði leikur einn. Það er í lagi Ove, svaraði ég, og hann spratt upp úr stólnum og fór að sinna sínu. Síðan fór hann til USA og ég í stólinn hans. En svo bara fór það svo að það sem ekki átti að ske, það skeði. Upp kom leiðinda mál og ég varð að takast á við það. Það voru símahringingar fram og til baka, reiðir foreldrar, síðan leiðir foreldrar og að lokum alveg ringlaðir foreldrar. Það var símafundur og umræður og svo bara allt í einu; málið var svo farsællega leyst og allir voru sáttir og ánægðir eftir því sem aðstæður leyfðu.

Ég hugsaði mikið um þetta á leiðinni heim úr vinnu þann dag og líka eftir að ég kom heim og ég var ánægður með sjálfan mig. Eiginlega fannst mér sem ég hefði ekki hætt 2007 og þetta hefði bara verið beint framhald á venjulegri vinnu minni eins og hún var þá. Ég virtist kunna vinnuna mína. Mér fannst líka sem ég hefði tekið þetta af meiri yfirvegun en ég tók hlutina áður.

Svo minntist ég sjónvarpsviðtals við mann nálægt áttræðu, mann sem hafði leitt stórt fyrirtæki og í staðinn fyrir að verða ellilífeyrisþegi í fullu starfi tók hann að sér nýja vinnu í næstum fullu starfi. Hann lifði mjög litríku og ánægjulegu lífi.

"Ég get þetta ekki" eru sorgarorð á hvaða tungumáli sem er. Þetta las ég á Facebook stuttu eftir atvikið sem ég nefndi áðan og er úr bókinni "Vegur til farsældar". Ég geri ráð fyrir að einhver vitur og þekktur maður hafi sagt þetta en ég veit ekki hver eða hvenær. Ég á bók sem heitir "Kyrrð dagsins" og daginn sem fyrrgreint mál leystist í Vornesi segir texti dagsins í þeirri bók: Fátækir menn þrá auðævi, ríkir menn himnaríki en vitrir menn þrá friðsæld. Þessi orð eru höfð eftir manni sem hét Swami Rama og lifði frá 1873 til 1906, indverskur maður.

"Ég get það" en ég er ekki gríðarlega spenntur yfir því að gera það -en ég ætla samt að vinna næstum fulla vinnu síðustu fjóra mánuði ársins. Ég blessunarlega þrái ekki auðævi og ég er ekki ríkur og ég vil sannarlega skipa mér í hóp þeirra sem þrá friðsæld. Hversu vitran ég tel mig vera ætla ég að hafa fyrir sjálfan mig en ég vil gera greinarmun á vitur og gáfaður. Ef ég vinn þessa fjóra mánuði skapa ég betri aðstæður til að lifa friðsælu lífi eftir það og í leiðinni get ég kannski stuðlað að því að barn fái heim pabba eða mömmu, að kona fái heim manninn sinn, eða maður konuna sína. Að velja friðsæla veginn er besta leiðin inn í himnaríkið. Svo á ég svo duglega konu að hún leggur á sig að vera ein heima meðan ég er í vinnu. Ég haga mér dálítið eins og ég hafi loforð um að lifa áfram í áratugi en ég er bara lítill maður og tek því sem mér verður gefið og reyni að spila úr því á minn besta hátt.

Íslenska kreppan teygir sig langt út fyrir landsteinana fyrir suma. Væri ég yngri maður í fullri vinnu fynndi ég ekki fyrir henni. Ég hef möguleika á að takast á við kreppuáhrifin og geri það og því lifum við ekki í kreppu að öðru leyti en því að við verðum vör við umræðuna. Að skrifa þetta hefur verið einskonar sálkönnun fyrir mig. Ég er búinn að taka langan tíma í það og breyta því mikið á leiðinni. Ég hef svo sem enga ástæðu til að birta það en það er alla vega blogg sem inniheldur engin leyndarmál og ekkert sem ég skammast mín fyrir.

---------------------------------------

Ps. Annar indverskur maður að nafni Swami Rama var uppi á árunum 1925 1996. Báðir virðast þeir hafa verið hugsuðir og fræðimenn -vitrir menn. Sá fyrri varð ekki nema 33 ára.

Í Stokkhólmi

Hvað gerir maður um helgi í Stokkhólmi? Það er svo undarlegt að það þarf ekki að vera svo mikil dagskrá. Við fórum um þessa helgi, 26. til 28. ágúst, til að hitta Rósu og fjölskyldu. Við spjölluðum saman, lékum okkur við Hannes, skruppum í bæinn, komum heim til þeirra aftur og vorum meira saman. Þannig leið helgin og þetta var vel heppnuð ferð til Stokkhólms.


Auðvitað er um að gera að leika sér svolítið og endurnýja kynnin og það er að sjá að það gangi ágætlega. Ég að vísu puðraði svo mikið og lengi að ég var farinn að dofna í andlitinu. En samkomulagið var skínandi og bílarnir í fínasta lagi.




Svo var að fljúgast svolítið á við mömmu og svo að vera góður við hana.


Þegar við fórum út tók amma á sig mikla ábyrgð, var vagnstjóri og drengurinn sofnaði.




Svo var ábyrgð ömmu enn meiri þegar Rósa og Pétur fóru í Hemtex að leita að einhverju sem vantaði og amma var ein með drenginn í mannhafinu í Sergilsgötunni rétt hjá Sergilstorgi. Amma situr þarna aðeins til hægri við miðja mynd og heldur í vagninn. Vagninum skal hún ekki sleppa.


Svo komu Rósa og Pétur út úr Hemtex sem er þarna til hægri og skima eftir ömmu og dreng. Nú sjáum við Sergilsgötuna í hina áttina og það er sama mannhafið þar líka. Ég gleymdi að spyrja þau að hverju þau voru að hlæja, en ég tók eftir því þegar ég tók myndina að þau fóru skyndilega að skellihlæja.


Þarna hafa þau fundið það sem þau leituðu að, ömmu og drenginn. Eitt er hallærislegt á þessari mynd, maður að reykja í mannhafinu í glampandi sól og hita.


Þarna koma þau niður Kungsgatan Rósa og Pétur -og sjáum nú til, þarna er Valdís lika lengst til hægri á myndinni. Hún er ennþá með kerruna. Það er fullt af fólki í Kungsgatan líka enda blíðviðri, laugardagur og borgað út í gær.


Ég var búinn að vera á hlaupum með myndavélina og þarna stilltum við okkur upp á bekknum nafnarnir. Takið bara eftir; við erum ekki aldeilis kæruleysislegir á svipinn. Ég er svo sem ekki vanur að dylja mig á bakvið sólgleraugu en svo varð það þó á þessari mynd.


Á leikvelli einum fundum við bát og þeir feðgarnir skruppu í smá sjóferð. Pabbi stendur við stýrið en Hannes stígur ölduna.




Eftir svona útiveru er mikið gott að borða og melónur eru nú heldur betur svalandi. Það er líka auðvelt að borða þær þegar búið er að festa hendur á þeim.


Svo er að atast aðeins í afa áður en hann fer. Pota í hann með skrýtnu dýri og afi næstum veltur af stólnum.


Ég verð nú að viðurkenna að þó að við værum harðánægð með ferðina þegar við lögðum af stað frá Stokkhólmi um hádegisbilið í dag, þá sé ég þegar ég er að eiga við þessar myndir að ferin var mikið ríkulegri en ég áttaði mig á. Það eru sjálfsagt einar 50 eða 60 myndir aðrar sem hægt hefði verið að nota. Valdís er líka búin að setja slatta af myndum á Flipper þar sem hægt er að skoða þær. Við þökkum kærlega fyrir okkur Stokkhólmsbúar.

Á morgun er virkur dagur hér á Sólvöllum. Grasið æddi upp um helgina þannig að Valdís verður á fullri ferð með sláttuvélina, penslar verða á lofti en nú með hvítum lit. Lífið gengur sinn vana gang eftir þessa helgarferð og við sjáum svo til hvaða tilbreytingu við veljum okkur næst.

Ullin

Nú ætla ég að ræða svolítið margnefnda skerjagarðsferð sem við Valdís fórum í á mánudaginn var. Málið er að það eru farnar ferðir með jöfnu millibili vítt og breytt frá þessu landi sem er stefnt á ólíka staði í Stokkhólmi eða nágrenni, en þessar ferðir hafa þó allar eitt ákveðið markmið, það er að stoppa á stað í Stokkhólmi sem heitir Solvalla (Sólvellir) og er kappreiðastaður mikill. Það eru kynntar ákveðnar ullarvörur og tekið við pöntunum ef einhverjar eru, en eftir þá kynningu er svo farið á ýmsa aðra staði og í þessari ferð var farið út í skerjagarðinn út af Stokkhólmi.

Aðalinnihald allra þessara ullarkynninga er kynning á ullarrúmfötum sem eiga að hafa marga einstaka eiginleika. Þau eiga að halda jöfnum hita á fólki alla nóttina, góðri loftræstingu í rúminu, að vera hreinleg, þurfa ekki sængurver, koddaver eða lök og smáverur sem geta þrifist í venjulegum rúmfötum eiga ekki að geta þrifist í ullarrúmfötunum að sögn framleiðenda. Síðasta atriðið er af vísindunum talið mjög vafasamt. Almennt eiga þessi rúmföt að gefa vellíðan og góða heilsu og ef heilsan er léleg að gefa betri líðan. Því er alls ekki haldið fram að þau lækni. Þau endast með ólíkindum vel og það vitum við Valdís frá fólki sem hefur átt þau milli 10 og 15 ár.

Ekki ætla ég að fara nákvæmar út í þetta en geta þess að ullin sem notuð er í þessi rúmföt kemur frá Nýja-Sjálandi og heitir merinoull. Sölumaðurinn sem kynnti vörurnar fannst mér mátulega leiðinlegur en hann virtist þó hafa góða þekkingu á ýmsu sem alla vega ég gat engan veginn hrakið og það gerði heldur enginn annarra viðstaddra. Voru þó margir þeirra búnir að vera all oft á svona kynningu áður. Hann talaði mikið um ullina sjálfa og framleiðsluna. Eiginleikar ullarinnar virtust með ólikindum sérstakir og góðir og lofsöngur mannins um þetta virtist engan enda ætla að taka. Svo auðvitað í annarri hverri setningu kom hann því að að þetta væri hrein náttúruafurð.

Meðan hann talaði um þetta varð mér hugsað til kennslustundanna hjá Kristjönu frá Sólheimum í barnaskólanum á sláturhúsloftinu á Klaustri. Þar lærðum við að íslenska ullin ætti sér engan líka í víðri veröld, eiginleikar hennar og gæði væru ofar öðru sem þekktist. Ég man ekki betur en þessu hafi verið haldið fram alla tíð síðan, eða þar til við fluttum til Svíþjóðar. Þá fjarlægðumst við fullvissuna um bestu ull í heimi.

Ég fór á Google áðan og sló inn orðunum"tog og þel". Þar sá ég að hinn 55 ára fróðleikur Kristjönu um íslensku ullina er í fullu gildi enn í dag. Ég átti líka von á því og þess vegna varð mér hugsað til þess hvað eftir annað meðan á kynningunni stóð hvers vegna þessi sölumaður nefndi ekki þessa einstöku ull sem yxi á íslensku sauðkindinni. Ég auðvitað vissi það, að það væri vegna þessa að enginn hefði komið því á framfæri við hann eða fyrirtækið sem hann vinnur fyrir.

Ég verð að viðurkenna að mér var hugsað til þess hvort fátt eitt og lítið sé gert við íslensku ullina sem skapar virkileg verðmæti, og þá segi ég virkileg verðmæti. Ég veit að mamma prjónaði mikið af peysum á tímabili og fékk nokkurn pening fyrir. Svo veit ég að margir aðrir hafa gert og ýmislegt annað hefur fólk framleitt úr ull. En nú kem ég loksins að því sem ég ætla mér að segja.

Ég pantaði svona rúmföt handa okkur Valdísi og þó að verðinu ætli ég bara að halda fyrir sjálfan mig get ég þó sagt að verðið á þessum rúmfötum á sér ekkert skylt við lopapeysur. Ef allri íslenskri ull yrði breytt í slík verðmæti, þá yrði um einhverja óútreiknanlega miljarða króna að ræða. Rúmfötin eru jú seld sem lúxusvara og þá yfir raunverulegu kostnaðarverði. Það hlýtur að vera hægt að gera svoleiðis líka með dýrmætustu ull í heimi -eða hvað? Ég fann mig bara hafa þörf fyrir að koma þessu á framfæri en ég er enginn uppfinningamaður og hef sjálfur enga lausn. Svo kannski vita Íslendingar allt um þessa marinoull og eiga svona rúmföt líka og þá er þetta bull mitt bara broslegt.

Bullið bara broslegt já. Það var nú ýmislegt broslegt við þessi kaup mín. Eftir kynninguna var matur og ég utan við mig yfir því hvað ég ætti að gera. Ég vissi hug Valdísar en vissi líka að hún þorði ekki einu sinni að nefna kaup. Við höfðum talað um þetta áður og ég hafði oft heyrt um þessi rúmföt. Eftir matinn fót ég aftur upp í kynningarsalinn til að hitta sölumanninn. Þar var þá biðröð en þetta gekk hratt fyrir sig og þegar ég komst að hitti ég á einhvern hátt allt öðruvísi mann þó að það væri sá sami og hafði kynninguna. Við gengum frá kaupunum og svo hélt ferðalagið áfram út í skerjagarð.

Öðru hvoru allan daginn var það að koma upp í huga mér hvort ég hefði verið að henda heil miklum peningum á glæ. Svo þegar við loks komum heim var ég of þreyttur til að geta velt því fyrir mér. Um nóttina vaknaði ég upp og fannst ég hafa hlaupið á mig. Daginn eftir las ég mig til á Google um atriði sem sölumaðurinn hafði talað um. Komst ég þá að því að vísindin voru ekki samþykk öllu sem hann hafði sagt og um hluta af öðru sem hann hafði sagt fann ég engar vísindalegar umsagnir. Hann hafði heldur ekki haldið neinu slíku fram.

Mér líkaði þetta ekki og vildi ekki láta sölumanninn hafa síðasta orðið alveg svona ókeypis. Ég hringdi því í hann og heyrði á öllu að hann var þá heima hjá sér með hlaupandi börn í kringum sig. Svo sagði ég honum frá því sem ég hefði komist að. Viðbrögð hans voru yfirveguð og hann var alls ekki þessi leiðinlegi kjaftaskur sem hann hafði verið á kynningunni daginn áður. Það lá við að mér fyndist sem ég hefði lækkað verðið á vörunni með þessu samtali en svo var þó ekki. Ég var bara sáttari við sjálfan mig fyrir að hafa látið manninn heyra að ég gæti komið einhverri vitneskju á framfæri sem hann hafði sniðgengið daginn áður.

Að lokum: Ef hægt væri að koma allri íslenskri ull í sama verð og hér um ræðir væri það sjálfsagt á við mjög stóra álverksmiðju og gæti að auki sparað einn og annan virkjunarmöguleika til fólksins sem á að byggja Ísland í framtíðinni.

Skal duga í 15 ár

Bestå heitir utanhússmálningin og þau sögðu í málningarversluninni okkar að ef við máluðum tvær umferðir eftir grunnmálninguna mundum við ekki þurfa að mála næstu 15 árin. Það lét aldeilis gríðarlega stórt. Eftir 15 ár verðum við Valdís 84 ára. Það verður árið 2026 og kannski best að taka sumarið 2026 frá strax til að mála Sólvelli. Svo ráðgaðist ég svolítið við málarann og hann hélt því sama fram. Alveg er þetta frábært.


Í morgun, sunnudag, eftir hugvekjuna hófst málningarvinnan. Ég undirbjó í gær með því að fara yfir alla neglingu og bæta svolítið um betur. Ég tók tröppu frá IKEA og minni pensil og byrjaði að mála meðfram öllu og efst. Valdís hélt sig hins vegar við jörðina og gekk að stórum flötum. Hún notaði gamla borðstofustólinn undir málningarfötuna, þennan sem ég nenni ekki að líma saman einu sinni enn. Þarna er hún að mála austurvegginn og hefur skóginn á bakvið sig.


Hér er hún enn við austurvegginn og er að verða búin með hann. Í glugganum speglast þvotturinn á snúrunni og fata sem ég nota til að fylgjast með úrkomu. Það var nú meiri munurinn að fá þvottasnúru og lykta svo af þvottinum á eftir, mmmmmm, hvað rúmfötin lykta gott. Skógurinn speglast í glugganum líka.


Hér erum viðkomin á vesturvegg og sólin er að ná okkur þar. Hér er íslenski fáninn í glugganum móti veginum.


Það er seinlegt að mála þessa mjóu fleti en það er við engan að sakast annan en hönnuðinn sjálfan, þann sem er að mála. En satt best að segja; þetta er bráðfallegt hús og verður ennþá fallegra fullmálað.

-------------------------------------------------

Það er virkilega komið að því að funda með Óla Lokbrá. Á morgun förum við Valdís í dagsferðalag út í Stokkhólms skerjagarð. Við förum með rútu frá Örebro klukkan sjö og ósköp verður notalegt að setjast upp í rútuna og finna hana renna af stað og þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af ferðinni, bara vera með. Það er alveg ótrúlega fallegt að ferðast í skerjagarðinum og því verður eiginlega ekki lýst, það verður að upplifast. Það verða engar smíðar, engin viðarvinna og enginn penslill með í för. Ég hlakka til.

Áðan talaði ég um sunnudagshugvekjuna. Þar var talað við hana Lnnu Maríu Klingvall, konuna sem fæddist handa- og handleggjalaus og með einn heilan fót og hinn örstuttann. Það var mikið að hugsa um meðan á því samtali stóð og það var því sönn hugvekja. Ég vona að ég komi því í verk að fara inn á sjónvarpið í tölvunni og hlusta betur á samtalið. Þegar manneskja með slíkar takmarkanir sem Lena María getur verið söngkona, íþróttakona, listamaður og svo glöð og þakklát fyrir sitt, þá ber mér að vera mikið þakklátur fyrir að geta farið á tveimur fótum og með tvær hendur í ferðalag út í Stokkhómms skerjagarð á morgun.

Góða nótt


Spýtukall og viðarkelling

Ólafur Kárason Ljósvíkingur var ekki duglegur við að bjarga sér þó að hann fengi einstaka sinnum greitt fyrir ástarljóð, erfiljóð eða ljóð um gæsku kaupmannsins. En hann fékk enga greiðslu þegar hann stal taðköggli til að ylja sér á, heldur fékk hann mikla sneypu fyrir. Við Valdís viljum vera sjálfstætt fólk og hluti af því er að eiga í eldinn þegar vetur konungur gengur í garð. Hluti af þeim eldiviði sem við erum búin að koma undir þak er ekki til komandi vetrar, heldur til vetrarins þar á eftir. Þá verður viðurinn góður og fyllir ekki skorsteininn með tjöru og óþverra. En hann vill brenna hratt og þá er að tempra loftið inn í kamínuna. Við erum búin að læra eitt og annað nýtt sem tilheyrir lífinu hér og þetta með við er vísdómur út af fyrir sig. Vika 33 var viðarvika á Sólvöllum.


Viðarkljúfurinn er tækið sem tilheyrir Valdísi. Þessi einfalda vél suðar hljóðlega og lætur lítið yfir sér en er þeim mun öflugri og það eru mun stærri kubbar sem Valdís er búin að leggja að velli í tækinu en þessi þarna. Þó má reikna með að þessi kubbur geti haldið þokkalega hlýju upp undir hálfan dag á miðlungsköldum vetrardegi á Sólvöllum.


Svo sótti Valdís í sig veðrið og vildu nú prófa keðjusögina líka. Mér fannst auðvitað að hún ætlaði að vinna af mér ný lönd og varð var um mig. Þó mátti ég til með að taka af henni mynd og það var ekki að spyrja að því að þessi gamli gólfbiti úr gamla Sólvallahúsinu varð eins og brauð í höndunum á henni. Svo þegar hún var búin að ljúka þessu sagarfari sagðist hún ekki ætla að saga meira. Viðarkljúfurinn tiheyrði henni en sögin mér. Þá auðvitað létti mér og ég þurfti ekki að óttast um völd mín yfir þessu mikilvirka tæki.

Rósa sá þessa mynd á Flickr um daginn og hún var fljót að sjá að mamma hennar hafði ekki hjálm, ekki löggilta hanska og hún var viss um að hún væri ekki í viðeigandi buxum og stígvélum. Það var alveg rétt. Að vísu má segja að eitt sagarfar er eins hættulegt og hvert og eitt sagarfar af hundrað þegar þau verða svo mörg. Að vinna með eldivið á þessum árstíma gerir það að verkum að það er eiginlega útilokað að vera í viðeigandi fötum þar sem manni verður allt of heitt, verður hreinlega lamaður af hita.


Ég ákveð það sem mitt verk að stafla. Ég held því fram að það sé vandasamt og ef ekki er vel raðað velti stæðurnar. Það liggur mikið í því en nú skal ég samt gera stóra játningu, ég er svo bljúgur í kvöld. Ég raða viðnum vegna þess að mér finnst það svo "rosalega gaman" að ég bara get ekki horft á neinn annan gera það sér til ánægju. Hana nú, þá er það á hreinu. Það eru gömlu gólfbitarnir sem ég er að raða þarna og þeir eiga að verða stór hluti af eldiviði komandi vetrar. Þess vegna fá þeir inni í alvöru húsi, enda búnir að vera í þurrki í 44 ár. Ég veit ekki hvort allir átta sig á því að viður þornar mjög vel að vetri til í frostum því að þá er rakastig loftsins lágt. Vor og haust er lélegur þurrkunartími


Það er mesti munur þegar maður sem vinnur svo "vandasamt" verkefni getur farið að standa í lappirnar. Þessi stæða náði vel hæð minni. Hér með er ég búinn að gera viðarvinnu á Sólvöllum mikil skil að undanförnu.


Ég læt svo vel af öllu á Sólvöllum og segi að allt sé svo gaman. Ég verð þó að viðurkenna að þetta verkefni var mér engin tilhlökkun. Sandsían sem tekur við frárennslinu frá rotþrónni losar sig ekki við vatnið eins og hún á að gera og ég er hræddur við að láta vetur koma án þess að fá það í lag. Ég gróf því rannsóknarholur og hélt að málið mundi skýrast með því, en ég varð engu nær. Svo fór að rigna og ég lauk greftinum í regngalla sem var alls ekki sem verst. Ráðviltur rölti ég inn og tók upp símann. Ég hringdi í hann Arne sem gekk frá frárennslinu árið 2006 og það hefur virkað hversu vel sem helst þar til nú að eitthvað er að byrja að stríða okkur. Arne er nú ellilífeyrisþegi síðan nokkur ár til baka og ég ætlaði ekki að krefjast neins af honum, heldur að fá ráð.

Þekkirðu mig, spurði ég Arne þegar við höfðum heilsast. Hann hló þá við og sagðist líka hafa elst eins og ég en svo gamall sagðist hann ekki vera að hann þekkti mig ekki. Mér fannst það góð byrjun. Svo bar ég upp erindið og Arne sagði að þetta ætti bara að virka og hann skyldi koma þegar hann væri búinn að vera viku í sumarhúsi niður í Halland og líta á vandamálið. Svo fljótt gekk þetta. Ég þyrfti líka að útvega mér mjög litla gröfu til að létta verkið talaði ég um. Já, já, svaraði Arne, hafðu ekki áhyggjur af því, ég annst það. Mikið leið mér nú vel eftir þetta samtal og mér fannst Arne vera svo góður kall, sem hann og er.


Þurrt hefur sumarið verið en ekki með afbrigðum þurrt. En eins og ég sagði gróf ég í regngalla í fyrradag, föstudag. Við eigum engan regnmæli um þessar mundir en um daginn færði Valdís mér ut vatn að drekka. Glasið varð eftir úti og stóð úti í rigningunni undir trjákrónu. Í því mældust 53 mm. Ég geri því ráð fyrir að það hafi rignt yfir 53 mm sem ekki var vanþörf á. Vatnið sem safnaðist í tilraunaholurnar mínar þornaði daginn eftir. Það eru margar bjarkir hér úti og þær eru drykkfelldar. Þar að auki eru mörg önnur tré sem auðvitað voru þyrst. 53 mm vera því ekki lengi að ganga upp í þessa trjástofna sem sjóða af lífi eins og Karin Boje sagði fyrir 70 árum.

Úlfur! úlfur!

Það var hérna fyrir nokkrum vikum að ég var að vinna í nýju forstofunni þegar ég sá út undan mér dýr fara framhjá húsinu, í aðeins fimm metra fjarlægð eða svo frá aðalinnganginum. Refur! hugsaði ég, svona nálægt. Nálægt hafði ég séð þá áður en aldrei svona nálægt. Svo horfði ég á eftir refnum og fannst hann skrýtinn. Refir hafa fínan pels en þessi var ein hvern veginn misjafnlega úfinn og það var eins og hann væri farinn úr hárunum á blettum og annars staðar ekki. Hann gekk líka mikið þunglammalegar en refur. Liturinn passaði ekki heldur. En refur var það, það bara hlaut að vera. Úlfur, nei, það bara gat ekki verið úlfur. Svo þegar hann var kominn eina 50 metra suður fyrir húsið fór hann yfir grjótgarðinn sem liggur meðfram veginum og þar hvarf hann. Hann hoppaði ekki yfir garðinn, hann gekk yfir garðinn.

Næstu dagana kom þetta upp í huga mér af og til og ég hugsaði sem svo að ef ég talaði um þetta við nágrannana mundu þeir telja að ekki væri allt með felldu í kollinum á mér. Að lokum nefndi ég þetta við ungu nágrannana hérna sunnan við en það samtal bar engan árangur og þeim fannst ekki einu sinni skrýtið að ég hefði jafnvel haldið að hér hefði verið úlfur á ferð.

Um miðjan dag í dag hringdi ég í hann Arnold bónda og spurði hann hvort hann væri til í að líta hér við ef hann ætti leið framhjá. Hvað viltu? spurði hann, og ég sagði að mig vantaði ráðgjafa. Ég vildi ganga með honum að nokkrum trjám og tala um þau við hann. Er í lagi að koma klukkan sex, spurði Arnold, og ég sagði svo vera. Svo kom hann klukkan sex og við gengum út í skóg. Hann hafði mikið gaman að þessu og reyndur skógarbóndinn vissi alveg hvað hann var að tala um. Fjögur tré, miðlungsstór og mjög stór, voru dæmd til að falla næsta vetur. Það verður ekki einfalt að fella þau því að þau geta öll valdið skaða ef illa tekst til. Því bauðst Arnold til að koma og hjálpa mér. Hringdu til mín og minntu mig á þetta í vetur þegar það passar og mundu líka að merkja trén svo að við þekkjum þau í vetur. Það voru hans lokaorð eftir hringferðina. Að merkja þau er mikilvægt því að það er mikill mundur á að skoða skóginn með þetta fyrir augum eftir því hvort það er sumar eða vetur.

Svo fórum við inn og Valdís kveikti á kaffikönnunni og kom með pönnukökurnar sem hún bakaði í gær. Svo kom hún líka með rabbarbarasultu. Arnold lék við hvern sinn fingur og fannst pönnukökurnar með rabbarbarasultu reglulega góðar sem þær líka voru. Hann skoðaði húsið og gaf því góða einkunn. Svo töluðum við um ferðalög fyrir ellilífeyrisþega, kóra, íslenska fótboltamenn og konur í Örebro og margt fleira. Allt í einu spurði Arnold hvort við hefðum heyrt um úlfinn. Nei, það höfðum við ekki. Svo sagði hann okkur frá litlum úlfi sem hefði látið sjá sig við ein þrjú tilfelli hér aldeilis í nágrenninu.

Jahá! svo að það var þá úlfur eftir allt saman. Svo sagði ég honum frá þessu dýri sem ég hefði kallað ref án þess að trúa því. Ég hef nú vissan grun um að ef Íslendingarnir hefðu verið fyrstir til að tala um úlf hér í Nalaví hefði það hljómað undarlega í eyrum margra. Það er nefnilega ekki vitað til þess að úlfar hafi verið hér í nágrenninu að minnsta kosti í mjög marga áratugi. Ekki get ég sagt að mér finnist það neitt spennandi þar sem það mun hafa áhrif á dýralíf. Í eitt skiptið sem þessi úlfur sást hér var hann nefnilega á harða hlaupum á eftir dádýrskiði. En það er ákveðið að úlfar verði hluti af lífríki þessa lands.

--------------------------------------------------------------


Konan þarna á myndinni, fiskimannsdóttirin frá Hrísey, mátar mig dag eftir dag. Í gær greip hún hamarinn og pappasaumspakkann öðru sinni á nokkrum dögum og negldi þakpappann á skýlið þarna. Það var annað skýlið sem fékk nýtt þak hjá okkur á jafn mörgum dögum. Svo bað hún mig að fara með sig til Fjugesta og skyldum við vera þar klukkan hálf tíu í morgun. Hún er að ganga í "Að hafa það gott kórinn" á svæðinu. Kórinn byrjar að vísu ekki fyrr en 1. september en hún hitti alla vega einn af verðandi kórfélögum í morgun. Hún stendur sig vel þessi kona.


Þessi maður er hins vega ekki í neinum kór. Hann bara klæjar í nefið, það fer ekki milli mála. Varðandi þessi viðarskýli má ég til með að segja frá því að hann Jorma ellilífeyrisþegi og vinnufélagi minn kom í heimsókn í morgun. Hann var þá á leið heim til sín til Karlskoga frá vinnu í Vornesi. Hann stoppaði hjá þessum viðarskýlum og sagði að hér væri nú skotið yfir markið. Svona þyrfti ekki að vanda til viðarskýla. En auðvitað, ef þú hefur gaman af þessu þá er það allt í lagi.

Ég hef skrifað tugi eða öllu heldur hundruð síðna um það hvernig við Valdís höfum byggt lítið einbýlishús á Sólvöllum. Núna er ég farinn að skrifa síðu eftir síðu um lítil viðarskýli á Sólvöllum. Hvað gengur að mér? Já, það var góð spurning. Ef ég segi alveg eins og er sé ég þetta sem lítillæti og nægjusemi. Dyggð er ríkidómur og er undirstaða lífsgæða og að sofa vel á nóttunni.

Það er stórkostleg gjöf

Ég sá á bloggi áðan að það er ein vika og þrír dagar síðan ég bloggaði um að við værum að vinna í viði. Fyrri partinn í dag vorum við líka að vinna í viði. Að vísu höfum við ekki verið að vinna í viði allan tímann síðan. Fimm daga hef ég verið í vinnu og einn rigningardag erum við búin að hafa. Svo hættum við stuttu eftir hádegi í dag til að skreppa til Örebro til að vera svolítið með í lífinu. Við fórum líka með kúfulla kerru af drasli í endurvinnslugámana í Örebro. Það er alltaf verið að hreinsa til á þessu stórbúi sem endalaust er hægt að skrifa um. En þið megið bara ekki segja frá því að við höfum farið á endurvinnsluna í Örebro því að við tilheyrum Fjugesta og þar er líka endurvinnslustöð. Ef einhver segir frá verðum við kannski skömmuð:-)


Vel með farinn viður er verðmætur og vel með farinn viður er góður til upphitunar og umhverfisvænn. En í svona viðarskýli líður viðnum auðvitað ekki vel. Það er náttúrlega skömm að því að sjá svona þak yfir verðmætunum og við urðum sammála um að þetta gæti ekki gengið lengur. Hann Kristinn dóttursonur sló þessu skýli saman hér um árið en ég annaðist þakið og notaði á það yfirbreiðslu sem fæst í byggingarvöruverslunum fyrir örlítinn pening. En eftir fjögurra eða fimm ára notkun er yfirbreiðslan auðvitað orðin gatslitin og heldur ekki vatni. Þessu verður auðvitað að bjarga allra næstu daga.


Hér er svo annað skýli sem er helmingi minna en jafn gamalt og þar er líka ónýt yfirbreiðsla fyrir þak. Burt með draslið. Valdís var byrjuð að rífa en þegar ég fór að rífa líka tók hún myndavélina og skjalfesti mig við vinnuna.


Svo þegar krossviðurinn var komin á þakið og ég búinn að slengja fyrstu tveimur þakpappalengjunum á þreif Valdís hamarinn og tók af mér pappasauminn og negldi. Var ég virkilega ekki ómissandi lengur!? Jæja, þá er bara að kyngja því.


En á fór nýja þakið og sjáið bara, það eru þakbrúnir sem standa 20 sm út fyrir skýlið og vernda viðinn betur fyrir regni og snjó. Í þessu skýli eru meðal annars afgangar af byggingarefni sem ekkert verður gert betra við en að nota til upphitunar. Bakvið skýlið er svo hengibjörkin sem við keyptum hjá honum Ingemar skrúðgarðameistara fyrir einum fimm árum. Hún hefur stækkað gríðarlega á þessu tímabili og er orðin minna tré. Ég tala ekkert um hvaða áburður hefur nært þetta tré en get þess þó að sá áburður er finnanlegur á hverju einasta heimili í heiminum og hugmyndin kom frá skrúðgarðameistara í Örebro. En aftur að þessu viðarskýli. Það er nú svolítið snubbótt eins og það lítur út þarna og það vitum við vel. Það verður séð við því.


Það á nefnilega að fá þetta útlit þegar það er fullbúið, vindskeiðar og fínt og rauður litur. Valdís ætlar að sjá um málninguna. Það kostar nokkur handtök að gera þetta en það er vel þess virði. Það er virðing fyrir umhverfi að gera þetta vel, virðing fyrir sjálfum sér og nágrönnum og bara hreinlega mikið skemmtilegra að umgangast eigur sínar ef þær líta vel út. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja að það sé virðing fyrir sköpunarverkinu, en alla vega þegar ég horfi á iðjagrænan skóginn fæ ég á tilfinninguna að draslhaugar undir skógarjaðrinum sé óvirðing við stórkostlegt sköpunarverkið.

Þetta skýli smíðaði ég fyrir einum þremur árum og Valdís málaði og í dag lítur það út eins og hún hafi málað það í gær. Að byggja ekki eitt hús og mikið stærra fyrir viðinn á sér skýringu. Ég vil hafa þessi skýli það lítil að það sé ekki hægt að kalla þau hús. Þá finnst meira rými fyrir aðrar byggingar með tilliti til byggingarreglugerðar.


Svo auðvitað verð ég að vera með á myndinni líka. Það vantar ekki montið og ég held stundum að ég sé bara 35 ára. Í þessu skýli er í fyrsta lagi reyniviður sem væri hægt að nota í vetur en við þurfum ekki að nota hann fyrr en þar næsta vetur.  Viðarbúskapurinn hjá okkur er nokkuð góður. Það sést vel á dökkum kjarnanum að þetta er reyniviður.


Ég byrjaði að tala um að við værum að vinna í viði og það eru ekki bara smíðar sem standa yfir. Nú erum við búin að ganga frá öllum viði sem við sóttum í skóginn. Þarna er Valdís byrjuð að kljúfa gólfbitana úr gamla húsinu sem við hentum út í vetur. Sumir þeirra voru sterkir og sumir þeirra voru bognir og sumir þeirra voru svona og sumir hinseginn. Jú, það fer nú best á því að nota þá til upphitunar.

Eins og ég sagði áður fórum við til Örebro eftir hádegið, fórum með rusl og svo keyptum við nauðsynlega hluti. Valdís fór í matvörurnar en ég í byggingarvörurnar. Þar á meðal keyptum við krossviðinn í þakið á viðarskýlinu sem ég sýndi á fyrstu myndinni. Það skal fá andlitslyftingu líka og þak sem dugir. Engin vetlingatök á Sólvöllum. Eftir innkaupin í Örebro hittum við fólk sem mætir á vikulegum fundum í Lekebergskirkju í Fjugesta á miðvikudagskvöldum til að tala um lífið af fullri alvöru og þeim sem gera það af samviskusemi vegnar vel í lífinu.


Svo er hér að lokum frábær mynd af hálfgerðu skýfalli í glampandi sólskini. Rigninguna má vel greina þarna á tveimur stöðum úti við skóginn þar sem sólargeislarnir sluppu best niður. Á grasflötinni má svo sjá skuggana frá trjánum sem sýna svo ekki verður um villst að það var sólskin í rigningunni. Við höfum verið að vinna þarna bakvið og í kringum rauða húsið og það er allt í drasli. Að horfa á þá náttúrufegurð sem myndin sýnir og svo draslið kringum rauða húsið staðfestir það sem ég sagði áður að það er óvirðing við stórkostlegt sköpunarverkið að láta draslið ráða ríkjum við skógarjaðarinn. Við erum langt komin með að bjarga þessu við.

Í byrjun sagði ég að það væri ein vika og þrír dagar síðan ég hefði bloggað um viðarvinnuna hér á Sólvöllum. Núna er það ein vika og fjórir dagar. Klukkan hefur rúllað yfir miðnættið og gott betur. Óli Lokbrá er farinn að kasta sandi í augun á mér og ég veit vel að ég ætti að vera sofnaður fyrir góðri stundu. En það er eins og þetta bloggandi mitt megi ekki hafa neinn tíma og þá verður það oft miðnættið sem ræður ríkjum þegar ég er hálfnaður að pikka á tölvuna. Ég þarf að taka á þessu máli.

Kunnugleg kvöldkyrrðin liggur yfir sveitinni og það er að sjá svarta myrkur úti. Ég heyri að Valdís á í einhverjum erfiðleikum með svefninn fyrir aftan mig. Kannski er það svo að Óli getur ekki sinnt henni þar sem hann er að fá mig til að fara að leggja mig. Ég er á leiðinni. Ef að vanda lætur verða farin að heyrast svefnhljóð í mér áður en ég næ almennilega að leggjast á koddann. Það er stórkostleg gjöf.

Á ekki að vera rólegur dagur í dag?

Á ekki að vera rólegur dagur í dag? spurði Valdís þegar ég fór út fyrir morgunverðinn til að sækja stígvél sem lágu á hliðinni undir borði bakvið húsið. Það er rigningardagur sagði hún. Svo fór ég út og tók upp stígvélin, fyrst annað og fór með hendina inn í stígvélið og alveg fram í tá. Svo tók ég hitt og gerði nákvæmlega það sama, fór með hendina alveg fram í tá. Það var engin mús í stígvélunum enda var ég vel öruggur um að svo væri ekki og þess vegna fór ég af öryggi með hendina niður í þau. Svo tók ég stígvélin inn og stillti þeim út við vegg. Rigningarsuddinn var byrjaður að falla niður um níu leytið þannig að spáin frá í gær stóðst nákvæmlega og í spá dagsins sagði að vindur ætti að vera 0,4 metrar á sekúndu. Þessi vindur merktist ekki hið minnsta og súldin féll afslöppuð beint niður.

Það var í lok morgunverðarins sem ungur prestur, kona, hóf sunnudagshugleiðingu með því að kynna hana Píu. Pía er leikkona sem er vel þekkt og hefur leikið í alvarlegum hlutverkum, hlægilegum hlutverkum, sorglegum hlutverkum og hún hefur leikið í ástarsenum sem einhvern tíma hefðu fengið mig til að roðna ef ég hefði horft á það við hliðina á börnunum mínum. Svo ræddu þessar tvær konur um Guð og hvort Guð gæti verið glaður og gamansamur. Pía efaðist ekki um það og sagði frá dæmum um það. Svo las hún stuttan egin texta um samskipti sín við Guð.

Pía sagði frá bernsku sinni þegar hún hljóp um skóginn, dáðist að stórum furum sem teygðu sig mót himni, mjúkum mosa í lautum, skófum á steinum, könglum sem voru fræ að nýjum trjám og hún dáðist að svo miklu sem fyrir augun bar. Hún sagði frá mömmu sinni sem gekk með henni um skóginn, studdi sig við þessar stóru furur, tók jafnvel utan um þær og sótti styrk í lífinu. Þarna skokkaði Pía sem lítil stelpa, fannst hún vera hluti af tilverunni og fannst sem Guð væri með henni. Það var ekki fyrr en síðar sem hún áttaði sig á því að til væri eitthvað sem nefndist kristni. Sjálf Guðstrúin hafði komið bara svona af sjálfu sér, kristnin kom síðar.

Þetta að skokka um ósnortna náttúru var mér ekki framandi og ég get sagt eins og Pía að mér fannst sem ég væri hluti af allri tilverunni. Ég var oft sendur á milli bæja og átti þá oft að fara á hesti. Það var mér raun því að ég vildi vera nær jörðinni en svo að ég vildi sitja uppi á hestbaki. Ég gerði líka hesta lata þegar ég fór eitthvað einn á hesti og báðum virtist líða hálf illa. Ég held að þeir hafi skynjað hug minn. Það var í lagi þegar fleiri voru saman, þá gekk mér vel með hesta.

Eftir að hafa hlustað á Píu og prestinn fór ég inn á Google og sló upp orðinu Djúpárdalur. Mig langaði að sjá það umhverfi sem ég þreifst svo vel í sem stráklingur og unglingur. Og það stóð ekki á því að myndirnar hreinlega ultu fram. Djúpur grámosi á hraunnibbu, jökulvatnið og bergvatnið sem mætast svo makalaust afgerandi inn á Fossum, gróðurlitlar Innhlíðarnar þar sem hvert fjallablóm verður að fjársjóði fyrir augað, grámosavaxnir Hnjúkarnir með sínum seiðandi mjúku línum og allar lindirnar sem síðar verða að lækjum og ám. Lindirnar, hreinni en allt sem hreint er, horfandi mót himni í ungu sakleysi, bara að leggjast niður og teyga vatnið, rísa upp og horfa á spegilmynd sína. Svo dettur vatnsdropi af nefinu sem myndar hringa á vatninu sem er að koma upp á yfirborðið eftir langt ferðalag inni í fjallinu eftir hárfínum göngum sem maður veit ekkert um. Hárfín göng í stóru fjalli? En skemmtilegt! Og lindin býr yfir helgum leyndarmálum úr fjallinu sem hún hefur rannsakað að innan, leyndarmálum sem aldrei verða sögð. Svo heldur hún áfram að renna krókótta leið til Atlantshafsins.

Enn eitt af undrum Kálfafellsheiðarinnar eru Hjallafossarnir þar sem silfurtær Laxá brýst fram úr gljúfrunum milli Innri og Fremri Hnjúka að austan ásamt Hjöllunum og hinsvegar Blómsturvallafjallsins að vestanverðu. Nokkur hundruð metra framan við fossana virðast vera leifar af gömlum berggöngum sem stinga sér úr í ána og svo voru þarna líka gömul sauðahús þar sem lengi gaf að líta heystabba inni í hlöðutóftinni. Þvíilíkt ævintýri, hreina þjóðsagan að hafa farið svo langt frá byggð til að sinna sauðfé.

En minn ævintýraheimur var mikið nær mannabyggð. Að fara austur með Djúpá, framhjá Arnarbælistindi og koma þar með í Garðahvamm, álíka breiðan og hann er djúpur, þar var veröld númer eitt. Að fara meðfram klettunum sem liggja í skeifu ofan við brekkurnar og kíkja þar inn í skútana gaf von um gæsahreiður. Og ef gæs velti sér fram undan klettunum þegar ég nálgaðist var svo mikil upplifun að ekkert varð sér líkt og brött brekka varð álíka létt að klífa eins og að hlaupa eftir sléttum grasbala. Grasflötin með lækjarskorningnum innst í Garðahvamminum gaf ímyndunaraflinu lausan tauminn -hús, hvílíkt stórkostlegt hússtæði sem duldist á þessari grasflöt. Sú tilfinning fylgir mér reyndar enn í dag.

Að loknum Garðahvammi tók við Lambhagi, veröld númer tvö, allt öðru vísi en Garrðahvammur og breytingin átti sér stað á kannski tíu metra vegalengd. Það var eins og að ganga í gegnum hlið í vel skipulögðum skrúðgarði þar sem arkitektinn hugsaði einmitt út þessa snöggu breytingu frá einu umhverfi til annars. Lambhaginn gat varla kallast hvammur, hann var svo beinn. Minni skútar voru þar undir klettunum og Djúpá næstum sleikti brekkurnar. Hraunklappir með geilum á milli gáfu Lambhaga sinn sterka persónuleika og milli hraunklappanna var sandur og stöku sinnum var hægt að greina þar tófuför. Það var stórt og að sjá tófuför var næstum að sjá tófu!

Svo tók Lambhaginn enda og stefnan meðfram Djúpá breyttist frá leið til austurs til þess að ganga til norðurs. Skilin þar voru heldur breiðari yfirferðar en þar tók þó innan skamms við veröld númer þrjú. Sú veröld var ekki bara öðru vísi en báðar hinar heldur allt, allt öðruvísi. Þar tók við grámosinn, hraunnibbur sem stungu upp trjónunni, grámosavaxnir hraunkambar sem stungu upp herðunum með skorum og lægðum á milli. Pínulitlir hvammar með grasi í botni þar sem gott var að setjast niður gáfu þessum undraheimi stillingu og ró. Austan við rann Djúpá í flúðum og boðaföllum í bugðóttu gljúfri með stuðlabergi, vestan við voru grösugir Garðarnir og þessi veröld endaði til norðurs við Gufufoss. Þar varð enn ein breytingin og enn önnur veröd tók við, en við Gufufoss enduðu þessar veraldir mínar sem ég átti oftast samveru með.

Svo hélt dagurinn áfram hér á Sólvöllum og undir hádegi hafði regnið aukist og streymdi beint niður svo avslappað og mjúkt. Ég skildi við veröldina hennar Píu og veraldirnar mínar meðfram Djúpá austan við Kálfafell og við Valdís skruppum til Örebro í allt aðra veröld. Ég á mikið af myndum af þessu svæði bernskuáranna en myndirnar mínar eru ekki aðgengilegar fyrir mig sem stendur. Ég hef farið þessa leið með börnunum mínum og tekið myndir af þeim á þessum slóðum. Ég á engar myndir af mér þegar ég skondraði þarna um fyrir 60 árum. Minningin verður að nægja. Líklega var ég svolítið skrýtinn og einveran hentaði mér. Einveran? Ég tek af hreinskilni undir með henni Píu að ég var ekki einn á ferð. Ferðafélagi minn var góður.

Heyrðu! Það var sunnudagshugleiðing í morgun! Já, ef ekki hugleiðing, hvað þá?

Hvenær?

Ég sat í símastólnum heima í Sólvallagötu 3 í Hrísey í septemberdag 1993 og talaði við Ingólf Margeirsson. Það var þegar hann hringdi og spurði mig hvort ég vildi prófa að fara til Svíþjóðar og vinna þar. Valdís kom innan eftir ganginum og þegar spurningin hafði gengið inn í höfuðið á mér sagði ég við hana hvað Ingólfur hafði sagt við mig. Hún hristi ekki höfuðið og hún sagði ekki nei og hún gekk ekki einu sinni þegjandi að einhverju verki sem þurfti að koma frá. Það var eiginlega á því andartaki sem ákvörðunin var endanlega tekinn af okkar hálfu. Svo skrýtið var það.


Ég hugsaði akkúrat þetta ofansagða þegar ég tók þessa mynd og af tilviljun tók ég myndina á augnablikinu þegar smellurinn kom sem gjarnan heyrist þegar stór viðarkubbur brestur á viðarkljúfnum. Hvenær tók hún ákvörðun um að vera þátttakandi í landnámsferð til annars lands ef færi gæfist hugsaði ég svo í framhaldi af þessu og tók einar tvær myndir til viðbótar. Það var nú oft svo að Valdís anaði ekki að hlutunum ef taka þurfti ákvörðun um eitthvað mikilvægt og þessi ákvörðun var engin smá ákvörðun.


Hún er allt of sakleysisleg á svipinn þarna þar sem hún heldur á Valgerði í Kelahúsinu í Hrísey til að það sé hægt að láta sér detta í hug að þessar hugleiðingar hafi verið farnar að bæra á sér innra með henni. Lífið gekk þá út á að sjá sér farborða og ég get ekki minnst þess að hugmyndaflugið hafi verið svo mikið á ferð í öðrum löndum.


Þegar verið er að bauka eins og við höfum verið að gera í gær og í dag og veðrið leikur við hvern sinn fingur er alveg sérstaklega notalegt að láta hugann reika. Og ekki síst þegar ég er að raða eldiviðarkubbum af alveg einstakri sérvisku og nýt þess að láta framhliðina vera rétta nánast upp á millimeter. Þessar hugleiðingar um lífshlaupið gengu gegnum kollinn á mér af og til í dag þegar vel stóð á og voru eitthvað á þá leið sem að ofan getur. Mér meira að segja datt í hug ákveðin mynd af Valdísi, en það var ekki myndin af henni með Valgerði á arminum, það var mynd af henni einni, mynd sem ég rakst svo ekki á áðan þegar ég var að leitaði að myndunum sem ég notaði í blogg kvöldsins.


Þetta er trúlofunarmynd segir Valdís og þegar hún segir það kannast ég við að svo er og jakkinn sem ég er í, lánsjakki, hjálpar mér til að komast að þeirri niðurstöðu. Það komst lítið annað að hjá mér á þessum tíma annað en að vera ábyrgur heimilisfaðir og drauminn um að verða læknir hafði ég látið svífa burt með vindunum einum þremur árum áður. Sá draumur hófst þegar ég horfði á Esra lækni taka burt illa farinn litlafingurinn með töng á matarborðinu á Kálfafelli og læknisdrauminn bar ég í brjósti mér næstu tíu árin. Sá draumur er stór kapítuli út af fyrir sig, draumur sem ekki varð að veruleika.


Þessa mynd tók Mats Wibe Lund af Kálfafelli 1987 og ég tók mynd af myndinni rétt áðan. Mörgum árum áður var húsakostur og allar aðstæður á Kálfafelli mikið öðru vísi en myndin sýnir og þá stóð ég eitt sinn austan við bæjarhúsið á miðri mynd, hægra megin, smá snáði, og horfði til Öræfajökuls. Þá var pabbi hættur sem póstur yfir Skeiðarársand og ferðir yfir sandinn fátíðar. Aldrei á ég eftir að koma þangað hugsaði ég. Ímyndunarafl mitt hreinlega náði ekki lengra á þeirri stundu en af einhverri ástæðu hef ég munað eftir þessu öll ár síðan. Þetta hlýtur að hafa verið áður en læknisdraumurinn fæddist.

En hvað sem öllum vangaveltum líður er það staðreynd að Valdís er hérna og það var hún sem steikti lambakótiletturnar eftir að hafa klofið við meiri hluta dagsins. Á meðan fór ég með hjólbörurnar út í skóg til að sækja meira. Svo var veisla.

Viðardagur og góðviðrisdagur

Í dag höfum við verið að vinna við nokkuð sem á að gera á allt öðrum árstíma. Við vorum að flytja heim við úr skóginum sem við felldum fyrir laufgun í vor, kljúfa og raða í hjalla. Þetta er nokkuð sem á að gera að vetrarlagi og á vorin en þegar fólk er að byggja hús fer það ekki að bardúsa við að kljúfa og raða upp eldiviði þegar gólfið kannski vantar í hluta af húsinu sem búið er í.

Hann heitir Håkan fyrrverandi vinnufélagi minn sem kenndi mér það mesta sem ég veit um eldivið. Hann sagði að veturinn og vorið væri tími fyrir eldiviðarvinnslu en ef það vri ekki hægt einhverra ástæðna vegna gerði maður það þegar tími gæfist fyrir það og svo gerum við nú. Sá viður sem við erum að ganga frá núna er viðurinn sem við ætlum að nota til upphitunnar veturinn 2012-13.


Við erum með ákveðna verkaskiptingu í þessari vinnu og það er ég sem sæki stubbana, legg þá á borðið hjá Valdísi og síðan er það hennar verk að kljúfa.


Síðan líð ég af þeirri hugmynd að ég verði að raða upp viðnum, annars velti stæðurnar. Hahaha. Góður. Ég er að vísu ekki að raða við á mydinni, ég er að undirbúa. Ég er nefnilega að hreinsa gamalt lauf undan grindinni sem viðnum er raðað á og það geri ég til að óboðnir gestir búi ekki í laufhrúgu sem er aldeilis við hnén á mér.

-------------------------------



En það er fleira að upplifa á Sólvöllum á góðviðrisdegi sem þessum í dag en eldiviðarhaugar. Stóra Sólvallaeikin er í essinu sínu, þetta rúmlega 100 ára gamla tré, en þar sem það er eik eru 100 ár bara unglingsárin hennar ef miðað er við lífshlaup manneskju.


Plómutréð er farið að sligast af því að bera uppi plómuklasana. Reyndar er ég búinn að setja stoð undir eina greinina. Annars væri hún fallin af trénu fyrir einhverjum dögum.


Svo var ég í þann veginn að taka mynd af húsinu þegsar Valdís kom í dyrnar og spurði hvort ég væri ekki að koma í mat. Jú, ég var alveg að koma í mat en ætlaði samt að taka nokkrar myndir fyrst. Annars er Valdís orðinn aðal ljósmyndarinn á bænum. Það er af sem áður var þegar ég var altekinn af ljósmyndadellunni, einni af mínum mörgu dellum, og hélt að bara ég gæti tekið skammlausar myndir. Við unnum bæði í viðnum en það var Valdís sem annaðist matargerðina.


Og nú húsið aftur í aðeins meiri fjarlægð. Það sést vel á grasflötinni að það er heitt og þurrt. Svo eru líka nokkrar bjarkir hægra megin við myndina, drykkfelldar bjarkir sem sjúga upp allt vatn sem annar gróðiur annars mundi njóta af. Eitt sinn spurði ég garðyrkjumeistara hvaða tré ætti að gróðursetja á svona stað eins og þarna vestan við húsið og ég lýsti fyrir honum malarkambi, trúlega gömlum sjávarkambi. Hann var hugsi um stund og svaraði svo að það mætti eiginlega gróðursetja þar allt annað en bjarkir. Svo eru þar nokkrar stórar bjarkir og það er ekki svo ljúft að ráðast á þær og saga niður.


Hér má sjá nokkrar þessara bjarka bjarkir og þarna eru tvær sem eru farnar að gulna. Ef það verða núna nokkrir rigningadagar eins og spáð er, þá munu þær aftur verða grænar og safaríkar.


Hér er svo að lokum Sólvallahúsið séð úr brekkunni vestan við húsið. Deginum er lokið og samvera með Óla Lokbrá er að bresta á.

Það var þetta með leyndarmálið

Ég var eitthvað að blaðra um það á FB í morgun að það væri leyndarmál hvað við ætluðum að taka okkur fyrir hendur á Sólvöllum í dag. Ég reyndi að láta líta út fyrir að lífið hér í sveitinni væri svo spennandi. En spennandi, ég veit ekki hvað ég á að segja um það en lífið er bara gott. Dagurinn í dag var enn einn dagurinn þar sem hitinn fór alla vega í 25 stig og sólin lét vel að okkur. En það er bara ekki að spyrja að því, sænska sumarið er gott sumar.


En ef ég kem nú að því sem við aðhöfðumst í dag þá var það einfaldlega það að við þvoðum stærsta hlutann af húsinu utan með með målartvätt, það er að segja efni sem brýtur niður lífrænan gróður sem myndast utan á húsum. Ég man ekki eftir neinu svona meðan við bjuggum á Íslandi en kannski er þetta gert þar í dag. En eitt er þó víst; sænska sumarið gerir það að verkum að gróður utan á húsum er meiri hér og svo skilja viðarkyndingarnar sín spor eftir á veggjunum líka. Þetta er svolítil vinna en afskaplega lítil vinna miðað við veðurgæðin sem við fáum í staðinn. Á myndinni er Valdís að sprauta efninu á austurvegginn, efni sem myndar þunna kvoðu á panelnum.


Svo kom ég með kústinn og skrúbbaði yfir og þarna er ég á norðurgaflinum. Óhreinindin beinlínis runnu niður þegar efnið var búið að vinna svolítið á og kústurinn hreyfði svo við soranum. Þegar við lögðum okkur í gær var ég með kollinn fullan af því að þetta yrði mikið vinna og leiðinleg. En svo fór með þetta verkefni eins og mörg önnur verkefni á Sólvöllum að það var einfaldlega skemmtilegt og ekki síður fyrir það að það virtist vera mikilvægt. Hún Ingmarie í málningarversluninni í Fjugesta ráðlagði þetta í gær, lánaði verkfæri til þess og góð ráð í veganesti. Ég sagði henni að málarinn hefði sagt að þessa þyrfti ekki með. Þau þekkjast málarinn og hún.

Þú ræður alveg hverjum þú trúir sagði þá Ingmarie, en ef þú vilt fá þann árangur sem ég veit að þú vilt uppná, þá er þetta nauðsynlegt. Þar með valdí ég að trúa henni og sé ekki eftir því.


Þegar ég var búinn að skrúbba kom Valdís með slönguna og skolaði öllum óþverra burtu. Og viti menn; vindskeiðarnar gerbreyttu um lit. Það var þá sem verkið varð skemmtilegt. Þannig unnum við þetta með góðri ástundun


Svo auðvitað þarf að nota stiga þegar hús eru há og myndarleg (pínu brandari). Fyrir nokkrum árum útbjó ég hjálpartæki efst á stigann og þó að það sé ekki viðameira en myndin gefur til kynna, þá er allt annað að vinna efst í stiganum í svolítilli hæð. Fjölskyldumeðlimurinn sem stendur í stiganum er sá sem er með typpið og þá gefur auga leið að það er hann sem sækir í stigann og lætur bera á sér.


Mjög fágað og fínt varð húsið og aðalinngangurinn sómdi sér vel þó að hann sé ekki tilbúinn eins og sjá má á myndinni. Stéttin er ekki komin heldur og ekki viðarpallurinn sem á að liggja ofan á hellunum.


Sumarið, gróðurinn og Kilsbergen speglast í glugganum og bæði gerefti og veggur skarta sínu besta og eru vegleg umgjörð um myndina sem speglast í glerinu. Það hefur farið með þennan dag eins og svo marga aðra að hann hefur liðið sem þarfur dagur og kvöldið leið allt of fljótt. Góður dagur er liðinn.

Skógarferð með afa

Stundum segjum við fast og ákveðið nei, nei, nei, nei! og þá þýðir það þvert nei við einhverju. Stundum segjum við nei, nei, nei nei í undrunartón eða aðdáunartón og þá hljómar það allt öðru vísi. Þannig var það hér um daginn þegar við nafnarnir fórum út í skóg, ég haldandi á honum á handleggnum og þegar ég áttaði mig á því að honum fannst þetta hinn stórkostlegasti heimur, þá auðvitað varð ég mjög glaður. Svo komum við að gríðar háum trjám og ég benti upp og sagði: nei, nei, nei, nei, sjáááðu baara! Hann horfði eftir því sem ég benti og svo fór hann að segja í sama tón og ég: nei, nei, nei, nei.

Í dag fórum við aftur út í skóg og nú höfðum við ljósmyndara með. Mamma hans var með og tók mikið af myndum sem hún svo setti á Flickr og þaðan var ég svo að taka nokkrar myndir rétt í þessu, myndir sem mér fannst alveg sérstaklega mikilvægt að heimsbyggðin ætti kost á að sjá. :)


Þegar við komum aðeins skammt út í skóginn benti hann á stór tré og sagði í undrunartóninum: nei, nei, nei, nei. Svo leit hann á mig og við vorum báðir voða glaðir og svo horfðum við þangað sem hann benti. Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki minnstu von á að hann myndi eftir þessu sem farið hafði okkar á milli fyrir fimm dögum síðan. Ég held að mamma hans hafi líka orðið undrandi þegar hún heyrði hann segja þetta, en ég var jú búinn að segja þeim frá þessu og einnig að blogga um fyrri ferðina.


En ekki vorum við komin langt þegar nafni vildi ganga sjálfur og svo leitaði hann upp gönguslóðina undir burknahafinu og honum tókst það ótrúlega vel.


Svo hvarf hann bara ennþá lengra inn í burknahafið og fyrir þessum smávaxna manni hljóta stórvaxnir, þéttir burknarnir að hafa verið sem hreini frumskógurinn. Þarna var það hann sem réði ferðinni og hann hélt sig við slóðina. Ef hann fór út af slóðinni áttaði hann sig strax á því og leitaði hana þá uppi aftur. Vinstra meginn við hann má sjá eikarplöntu sem er að hasla sér völl og er að vinna í því að komast yfir burknana til að geta virkjað fyrir sig sólarljósið.


Hér lækkar gróðurinn heldur og það er að sjá að Hannes sé að athuga eitthvað merkilegt. Auðvitað hlýtur það mesta að hafa verið merkilegt fyrir hann fyrst hann hreinlega hræddist það ekki.


Já, leiðin er hérna, komiði bara á eftir mér. Hver ratar ef ekki ég afi minn.


En hvað var þarna? Núna var ekki um annað að ræða en að stoppa og þarna talaði Hannes mikið og var undrandi. Það nefnilega var aragrúi af maurum fyrir framan hann sem þustu bæði til hægri og vinstri og þeir virtust vera í miklu annríki. En þegar maurarnir byrjuðu að æða upp eftir stígvélunum hans þótti honum nóg komið. Hann valdi þá að halda áfram í all nokkrum flýti. Það sem ég er að gera þarna með hendina niður á fætinum er að slá burtu maura sem voru farnir að herja á mig líka.


Ástæðan fyrir þessum maurafaraldri þarna er þessi mauraþúfa sem reyndar er farin að taka á sig mynd af fjalli. Þvílíkur aragrúi og ég segi aftur; aragrúi. Allt yfirborð þúfunnar var á iði og umhverfi hennar líka. Þarna var allt kvikkt og það var nánast ekki hægt að fara nær til að taka mynd. Ég var berfættur á sandölum og Hannesi virtist ekki alveg standa á sama svo að dvöl okkar þarna varð ekki svo löng. Þegar aðeins dró frá þúfunni voru mauraslóðirnar greinilegar eins og fjárgata. Ótrúlegt en satt.


Frá mauraþúfunni héldum við heim á leið. Þegar við vorum að fara yfir brúna yfir skurðinn bakvið húsið áttaði Hannes sig á því að við værum að fara heim. Hann sneri þá við og fór annan hring og var fyrstur allan tímann. Hann var svo ótrúlega ratvís í skóginum þar sem margir fullorðnir geta villst -og hafa villst. Ég held að drengurinn hafi í sér eitthvað af skógareðlinu mínu. Það er gott eðli.


Það er víðar grænt á Sólvöllum en inni í skóginum. Hér eru þau amma og drengur akkúrat hinu megin við húsið og hann hvílir sig nú í kerrunni. En kannski við ættum að fara inn. Mögulega lumar amma á einhverju.


Og það gerði hún svo sannarlega. Hún var nefnilega búin að baka kanelsnúða. Hvað þær eru góðar þessar ömmur. Svo bárum við út snúða, í fyrsta lagi þá sem ömmu fannst ekki líta nógu vel út, og drykkjarföng bárum við út líka. Svo héldum við snúðaveislu við tréborðið. Takk fyrir daginn Hannes, Rósa og Pétur og auðvitað þú líka amma.

Ég var bara fyrir

Hálfa daginn höfum við Valdís verið í Örebro að ljúka ýmsum erindum og eins að kaupa ýmislegt varðandi húsið. Svo var ég klipptur snoturlega enda fer ég í vinnu á föstudag og verð að vera góð fyrirmynd. Það teygist á þessum innkaupum varðandi húsið en einhvern tíma lýkur því. Þegar við vorum komin heim og vorum buin að fá okkur miðdegiskaffi byrjaði ég á köppunum undir efri skápana í eldhúsinu. Skömmu eftir það byrjuðu aðrir fjölskyldumeðlimir að undirbúa kvöldmatinn. Í kvöldmat eigum við að fá Pétursgrillaðar lambakótilettur ásamt ýmsu meðlæti, svo sem kús kús sem ég veit ekki hvað er annað en að það er gott til matar og það fer vel í maga.

En málið var það að þegar matargerð var hafin við eldhúsbekkinn og ég var þar að smíða, þá varð ég ekki svo vinsæll þar. Ég var bara fyrir. Það er þess vegna sem ég er sestur við tölvuna og klukkan er bara á sjöunda tímanum. Ég mun þó ekki ljúka við þetta blogg fyrr en seinna í kvöld, eftir kvöldmatinn og eftir að hafa smíðað aðeins meira í eldhúsinu. Það eru aðeins tvö atriði eftir í eldhúsinu, það eru þessir kappar og svo táskotin undir eldhúsbekkina.


Nú er ekki búið að borða kvöldmatinn þegar ég er að skrifa þetta þannig að ég gríp hér til myndar frá því í fyrradag, laugardag, þegar hún Ingigerður kom í heimsókn. Hún er vinkona Rósu og fjölskyldu, fædd í Hälsingland, búsett í Stokkhólmi og með sumarbústað í Dölunum, en hún var einmitt að koma þaðan þegar hún kom hér við. En þarna er loksins mynd af margnefndu tréborði þar sem flestar máltíðir dagsins eru bornar fram og innbirtar. Þar verður líka kvöldmatur dagsins borðaður eftir nokkrar mínútur. Það er ekkert merkilegt við þetta tréborð annað en það að sænska sumarið gefur okkur möguleika á að borða þar nánast hvenær sem er þegar okkur bara físir eða dettur í hug.


Við erum ekki bara búin að hafa hér gesti, við erum líka búin að hafa hér aðstoðarfólk sem ekki lætur sér allt fyrir brjósti brenna. Eitthvað hef ég talað um það undanfarið en enga mynd birt sem staðfestir þetta. Hér er Pétur að flísaleggja forstofugólfið fyrir síðustu helgi. Þetta eru vel valdar flísar á forstofugólf -eða hvað?


Og hér lætur hann eftir sér að líta upp frá flísalagningunni í eldhúsinu. Það eru fínar flísar hér líka þykir okkur. Bæði flísarnar í forstofunni og þessar í eldhúsinu hreinlega duttu upp í hendurnar á okkur fyrir nokkrum vikum síðan.

---------------------------------------------------

En nú er löngu búið að borða kvöldmatinn og það er komin á kyrrð í húsinu. Ég smíðaði ekkert eftir kvöldmatinn eins og til stóð en ekki er þó hægt að láta eitt kvöld líða án þess að stússa svolítið. Svo töluðum við um ferðalög í Noregi, Sognfjörðinn, fólk sem við þekkjum í Noregi og ýmislegt fleira. Svo verð ég að enda þetta blogg með mynd af tveimur athafnasömum mönnum.


Það er ekki slæm myndin af þessum strákum sem báðir vinna þarna að sínu og láta ekkert trufla sig

Ég get orðað það svo að þetta sé dagbókarfærsla dagsins, færsla sem þeir geta lesið sem dettur í hug að taka sér stund til þess. Það er vel hægt að láta það kyrrt liggja sem ég segi í bloggunum mínum og venjulegra að fólk geri svo. Hins vegar verða það alltaf all margir sem heimsækja bloggsíðuna og sannleikurinn er sá að mörgum líkar vel að lesa um einfalt, venjulegt líf. Líf okkar er afar einfalt og engin afrekaskrá sem ég get miklað mig af. Það klæðir mig líka best að reyna ekki að vera annað en það sem ég er. Mér heyrist líka á Óla Lokbrá að hann sé á sama máli og hann er farinn að toga ákaft í mig. Ég heyri líka fyrir aftan mig svefnhljóð frá fiskimannsdótturinni frá Hrísey sem eitt sinn lagði land undir fót til að prufa nýjar víddir í lífinu. Hún er enn á þessu ferðalagi með mér. Fyrir all nokkrum árum vorum við stödd langt upp í snarbröttum brekkum í Sognfirðinum í Noregi og undruðumst mikið það sem fyrir augun bar. Við töluðum um þetta fyrr í kvöld og okkur langar að fara aðra ferð og kanna betur þessar ótrúlegu brekkur. Góða nótt.

RSS 2.0