Hvernig maður getur orðið gamall og hress

Hann Carl Ludvig á hundrað ár afmæli í dag, fæddur 11-11-1911. Hann var sjö ára þegar fyrri heimstyrjöldinni lauk en hann man ekki eftir því. Hann man hins vegar eftir því að það var mikið af góðum graut einn dag sem einmitt var þessi dagur, og það var ekki á hverjum degi því að þá var matarskortur í landinu. Hann veit hvernig á að ná háum aldri og þannig var það að hann var að yfirgefa föður sinn vegna þess að hann var að flytja niður á Skán. Þá var Carl Ludvig 32 ára.

Þeir vissu báðir að þeir mundu ekki sjást oftar í lífinu og það var þá sem faðir hans sagði við hann: Mundu svo drengurinn minn að hvíla þig alltaf þegar þú ert þreyttur. Þegar þetta var, var Carl Ludvig búinn að vera doktor í tvö ár. Carl Ludvig hefur síðan hvílt sig þegar hann hefur orðið þreyttur og segir lífslengdina og heilsuna sem hann býr við vera þessu heilræði að þakka. Hann sást ekki á skjánum þegar fólk i sjónvarpssal átti samtal við hann, en röddin var skýr og minnið var skarpt.

______________________________________


Það er þetta með aldur, það getur haft ólíkar ásjónur. Þegar Valdís hætti að vinna á sínum tíma fékk hún forláta klukku, og þó bara ósköp venjulega klukku frá verkalýðsfélaginu sínu. Svo var klukka þessi bara hengd upp á vegg og þar gerði hún sitt gagn. Þegar við fluttum á Sólvelli lenti hún niður í kassa og svo upp á vegg þar aftur. Þegar við byggðum svo við Sólvelli og endurbyggðum gamla húsið lenti klukkan hennar Valdísar ofna í kassa einu sinni enn.

Svo kom að því að mála og hann Ulf kom og hjálpaði með þann þáttinn. Svo þegar hann var búinn að mála eitt herbergi og eldhúsið varð hlé á málningarvinnunni og við gengum frá í herberginu sem nú var tilbúið og eldhúsinnréttingin var sett upp. Enn einu sinni var klukkan hengd upp á vegg og það var Valdís sem kom því í verk.

Svo var kominn tími til að mála fleiri herbergi og Ulf kom aftur. Við höfðum verið að fá okkur kaffi þegar hann allt í einu gekk að klukkunni, tók hana niður og las aftan á hana. Svo leit hann á okkur og spurði hvort við vissum eitthvað um klukkuna. Nei, það var mest lítið annað en að hún hafði átta kanta, var nokkuð dökk og gekk fyrir einu batteríi. Þá fræddi Ulf okkur á því að grjótið í þessari klukku kæmi frá Grythyttan sem er um 50 km fyrir norðan okkur og það er einmitt fæðingarstaður hans. Það var honum því kært að geta frætt okkur um klukkuna.

Svo hélt hann  áfram. Skífan er gerð úr steini sem varð til sem botnfall á hafsbotni fyrir 2000 miljón árum og það eru aðeins til þrjár námur í heiminum þar sem þessi steinn finnst. Þar með varð þessi klukka fyrir okkur sem allt önnur klukka og mikið skemmtilegri, og við sem höfðum haft hana í nokkur ár upp á vegg og skipt um batterý í henni nokkrum sinnum. Við höfðum aldrei tekið eftir þessu.


Hér er svo forláta klukkan úr 2000 miljón ára gamla grjótinu frá Grythyttan. Þegar við fáum fólk í heimsókn frá Íslandi förum við gjarnan með það til Grythyttan í mat. Síðast fórum við þangað með hóp Hríesynga fyrir tveimur og hálfu ári.

______________________________________


Fyrir nokkrum árum var Valdís upp í Dölum að æfa með þáverandi kórnum sínum, en þá áttu þau að syngja í gamalli kalknámu á Siljansvæðinu sem á seinni árum hefur verið notuð sem hljómleikasvæði á sumrum. Tvo daga sem þau æfðu var ég einn á flakki um Siljansvæðið í mikilli veðurblíðu og las ég þá talsvert um þetta svæði. Ég las um gríðarlega stóra loftsteininn sem féll niður á Siljansvæðið fyrir 360 miljón árum og gerbreytti landslaginu. Ég las líka um það að á ákveðnum stað væri hægt að skoða gríðarlega stóra steinblokk sem hafði henst upp í loftið í óskapaganginum ásamt mörgum öðrum álíka stórum steinblokkum. En þessi ákveðna steinblokk var sýnileg þar sem hún hafði fyrir öllum þessum árum numið staðar nánast með endann upp.

Ég fór á svæðið og vildi sjá þessa steinblokk sem var jú tugir og hundruð metra á ólíka vegu. Svo var ég kominn á staðinn og horfði á undrið. Svo klöngraðist ég nær undrinu, lagði hendi á valinn stað og hugsaði: Hér legg ég hendina á þessa steinblokk sem þeyttist upp í loftið eins og korktappi árdaga þegar Svíþjóð var suður undir miðbaug. Ég verð að viðurkenna að ég fann fyrir hrifningu. Það var sólskin, grafakyrrð utan gutlandi vatnshljóð frá lítill á sem rennur þarna um og ég var aleinn mitt í mótun landsins frá því fyrir hundruðum miljóna ára.

______________________________________


En að lokum; þar er ekki aldrinum fyrir að fara. Þá þrifust draumar um lífið framundan, um möguleika, sólskinsdaga og lífshamingju sem hægt væri að hafa áhrif á með skynsemi, góðum gerðum og nýtingu sinna allra bestu hæfileika.



Brilljantín og liðir í hári. Og bestir og fallegastir Bjössi minn.

Hvernig var sumarið?

Í fyrradag heyrði ég fólk tala svo mikið um erfiðar minningar í sjónvarpinu að ég hljóp til og leitaði að góðum minningum og þær var meðal annars að finna á myndasafninu okkar frá liðnu sumri. En svo er þær auðvitað að finna innra með sjálfum mér líka en það er svo áþreifanlegt og einfalt að setja þær fram í myndum.

Nú eru sem sagt liðnir tveir dagar síðan og ennþá er ég heima og geri ekki neitt. Það er ekki alveg þykjustuveiki sem heldur mér heima en ef ég er alveg hreinskilinn, þá er gott að vera heima og gera ekki neitt, hvorki smíða eða föndra. Og okkur "miðaldra" fólkinu kemur bara vel saman. Við að vísu tölum ekki saman frá morgni til kvölds en trúlega bara mátulega mikið. Valdís fór með kórnum sínum að syngja fyrir aldraða í Fjugesta um miðjan dag og var framlagi þeirra tekið með ánægju. En fyrir mitt leyti, þá fannst mér sem ég hefði gott af því að setja texta við myndirnar frá í fyrradag.


Það fer ekki milli mála að það var góður síðsumareftirmiðdagur þegar þessi mynd var tekin. Sólin farin að lækka á lofti, skuggar trjánna að lengjast og broddgeltirnir að komast á stjá. Bjarkirnar bakvið bílinn eru norrænar, tignarlegar og stoltar og eigendurnir ennþá meira stoltir. Annars er auðvitað spurning hvort nokkur getur talið sig eiganda að fegurð náttúrunnar.


Það var hjálapsamur lítill maður sem dag einn á miðju sumri vildi aðstoða afa með tommustokknum sínum sem þegar var brotinn. Ekki flýtti hjálpin beinlínis fyrir en það er nú bara þannig sumu er ekki hægt annað en taka með gleði og þá er líka hjálp í því.


Svo einhvern annan dag var kannski eitthvað sem ekki vildi vera eins og ÉG vildi hafa það þegar öfugur fótur fór á undan. Þá var býsna gott að fara út í skóg og leita uppi stað eins og þennan þar sem ólíkir einstaklingar blönduðu saman bestu hæfileikum sínum. Þá var best að stoppa og bara vera með. Að vísu flýtti ég mér til baka í þessu tilfelli til að sækja myndavélina. Það sem ekki vildi vera eins og ÉG vildi í það skiptið, kannski öfug mæling á gerefti eða áfellu, gleymdist auðvitað um leið.


Og litli maðurinn, þá tæplega tveggja ára, sá sem gerði sitt besta til að hjálpa til með brotna tommustokknum um daginn, hann var svo ratvís í skóginum. Það var svo vel hægt að greina þegar hann sá að slóðin var ekki lengur fyrir framan hann. Og hvað gerir maður þá. Jú, auðvitað; "maður bakkar aðeins og leitar uppi slóðina aftur og svo höldum við bara áfram mamma og afi. Komið þið bara á eftir mér." Við fylgdum honum bæði eftir og urðum óneitanlega hissa þegar eiginleikinn að rata virtist vera innbyggður í barnið. Já, þetta með innbyggðan eiginleika er nokkuð til að hugleiða.


Það var komið vor þegar þessi byggingarvinna var í gangi og þó að þessi vinnubrögð væru svolítið öfugsnúin og hæpin til að vekja góðar minningar, þá var samt gaman að framkvæma hana. Það var nefnilega búið að spekúlera svo mikið í því hvort þetta yrði fínt eða ekki. Vinnan fram að sjálfri klæðningunni var líka mikið verri en þetta. Heyrðu mig! Svo varð það svona líka fínt eftir allt saman.


Þegar maður er lítill er svo gott að fólkið manns gleymir manni ekki. Ef ég stend svolitla stund við dyrnar er ég viss um að einhver kemur og opnar. Líklega var það ljósmyndarinn sem opnaði í þetta skiptið. Alla vega var drengurinn ekki látinn vera eftirlitslaus á ferðinni í þetta skipti frekar en önnur.


Við fórum ekki mikið á síðasta sumri en þessi mynd er þó tekin í Stokkhólmi. Valgerður var í heimsókn og þær systur sáu um að Hannesi leiddist ekki og Valdís kom á eftir þeim og tók alla ábyrgð á kerrunni og innkaupunum sem í henni liggja. Svo hló hún auðvitað að þeim sem fóru á undan henni.


"Konan sem kyndir ofninn minn." Það var á snemmsumarmánuðum sem ég fór ótrúlega marga tugi ferða, ég held reyndar yfir hundrað, með mold í hjólbörum út í skóg til að búa til slóðir, völundarhús, þar sem hægt er að labba, hlaupa og leika sér. Svo svo sáði ég í þetta grasfræi frá honum Ingemar skrúðgarðameistara. Ég vissi allan tímann hver mundi koma til með að slá þessar slóðir, alla vega að byrja með. Svo þegar hún var búin að slá í þetta skiptið fór hún inn og bjó til mat handa mér. Að flytja mold í hjólbörum daglangt er alls ekki leiðinlegt þegar málefnið er gott.


Fólk á ferð og rísterta á borði. Þetta fólk, Johanne, Kristinn og Guðdís voru í þann veginn að leggja af stað til Noregs. Maðurinn sem sést í bakgrunninum er ellilífeyrisþegi.


Já, alveg rétt, þarna var hann broddi kominn, eða var það kannski hún brodda. Það er nú meira hvað þessi dýr eru friðsamleg og velkomin. Fari maður fram fyrir broddgölt sem ætlar að flýja fer hann svo sem einu sinni í aðra átt og ef hann er stoppaður aftur, nú þá er hann ekkert að þessu og stillir sér upp til sýnis.


Einmitt! Það var við þessa eldhúsinnréttingu sem Valdís bjó til matinn eftir að hún var búin að slá völundarhúsið í skóginum. Það var nú meiri framförin á Sólvöllum þegar þessi innrétting kom í gagnið. Ég held að ég verði að koma með aðra mynd.


Ég veit upp á hár hvað hún er að gera þegar þessi mynd var tekin. Hún var að búa sér til te. Framfarirnar á Sólvöllum voru margar og miklar og þegar ég verð eldri maður ætla ég að búa til myndaröð af öllu umstanginu hér.

Svo reyndi ég að vera svolítið riddaralegur í gærkvöldi og ryksugaði gólfin hingað og þangað eftir þörfum. Reyndar geri ég það oft. Stuttu síðar voru tvö gulnuð laufblöð á gólfum sem ég hafði ryksugað. Það er sérkennilegt með þessi gulnuðu laufblöð sem eru búin að ljúka hlutverki sínu. Hljóðlaust og friðsamlega koma þau inn og svo bara eru þau þarna og minna á að það er sumarið sem er liðið. Og þetta er búið að ske aftur og aftur, vikum saman, og einhvern vegin er það svo að þau eru bara velkomin. Þau eru hreinleg og hávaðalaus og þau eru vinaleg með nærveru sinni svo lengi sem þau eru ekki allt of mörg. Sérstaklega eru eikarlaufin vinaleg því að þau liggja alls ekki marflöt á gólfinu. Þau vinda upp á sig og hafa eitthvað svo fallegan stíl. Ég mátti bara til með að segja frá þessu með laufblöðin.

Ég hafði um nokkur hundruð myndir að velja í þetta og þessar valdi alveg af handahófi og sumarið var gott. Nú er komið kvöld á Sólvöllum.

Hundleiðinlegt mál

Ég las í morgun sænska grein um uppbygginguna á íslenska efnahagskerfinu og því get ég ekki orða bundist. Greinin heitir Stoltir Íslendingar reisa sig fljótt við. Nú, ef að vanda lætur, koma einhverjir íslenskir spekingar til með að skrifa greinar um þetta og hakka það niður sem sem sagt er í sænsku greininni. Þeir sem koma til með að gera það, ef að vanda lætur, hafa aldrei staðið í eldlínunni en telja sig samt sem áður hafa efni á því að vita betur. Í sænsku greininni er mest byggt á upplýsingum frá norska manninum Svein Harald Øygard sem var um tíma bankastjóri Seðlabanka Íslands. Svein Harald stóð til dæmis í eldlínunni upp úr 1990 þegar Norðmenn þurftu að taka á honum stóra sínum í þáverandi fjármálakreppu. Síðan hefur hann unnið störf sem krefjast þess að maður viti hvað maður er að gera.

sænska greinin

Í gærmorgun var sænski fjármálaráðherran mikið á skjánum og þá talaði hann nokkrum sinnum um Ísland. Hann sagði að ef Grikkir hefðu tekið á sínum fjármálavandræðum á sama hátt og íslendingar gerðu, þá væru engin vandræði þar. Það mundi að vísu ennþá vera kreppa en engin óviðráðanleg vandræði. Gegnum misserin hefur Anders Borg oft vitnað í það hvernig Íslendingarnir brugðust við og af góðu einu. Hann er fjármálaráðherra Svíþjóðar, þess lands sem hefur bestu eða einhverja allra bestu stjórn allra landa á ríkiskassanum. Ef ekki ríkiskassinn er í lagi verður heldur ekkert annað í lagi hjá neinu þjóðfélagi segir Borg. Anders Borg hefur staðið í eldlínunni þó að hann sé aðeins 43 ára og hann er mikils virtur.

Þó að Anders Borg sé mikils virtur og hafi staðið í eldlínunni síðan 2006 geri ég ráð fyrir að orð hans séu ekki í hávegum höfð hjá íslenskum hagfræðingum og próffesorum sem aldrei hafa staðið í eldlínunni. Íslenska stjórnarandstaðan og innilegir áhangendur hennar með raðir af háskólagráðum hafa allt frá síðustu stjórnarskiptum matað þjóð sína á þann hátt að núverandi ríkisstjórn hafi gert allt eða það mesta vitlaust og það litla sem hafi verið gert rétt hafi verið gert fyrir óeigingjarna baráttu hrunflokkanna. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að núverandi ríkisstjórn hafi gert allt rétt. Djúp efnahagskreppa leysir sig aldrei í einu vetvangi og alltaf lenda einhverjir í vandræðum. En sálfræðilega unninn áróður sem leiðir til sundurlyndis hjálpar ekki Íslendingum. Hann gerir þá óörugga, fær þá til að líða illa langt umfram það sem þörf er á og skapar ranghugmyndir.

Ég trúi betur mönnum sem hafa sýnt í verki að þeir vita hvað þeir eru að gera

betur en þeim sem vita hvað á að gera

eða bara plokka niður það sem hefur verið gert

Ég hef heyrt marga segja að þessir menn séu alveg asskoti klárir. Skrýtið að þeir skuli ekki hafa verið í eldlínunni.

Ég er ekki á Íslandi og ætti bara að halda mér saman. Ég var líka í vafa þegar ég byrjaði á þessum línum og þegar ég var byrjaður fann ég hvernig púlsinn varð hraðari og það var eins og húðin yrði heitari. Þá lá við að ég henti því sem ég var byrjaður á. Svo hélt ég áfram. Áróður í einu landi á ekki að fá fólk til að líða illa. Því líður nógu illa samt.

Ég hef oftast kosið sænska alþýðuflokkinn, þann sem  Håkan Juholt er að reyna að taka yfir núna, en ég hef ekki kosið hann tvö síðustu kjörtímabil -og mér dettur alls ekki í hug að kjósa hann núna. Ég mun heldur ekki kjósa Vinstri flokkinn. Ég mun kjósa hægri flokkinn Moderaterna eða Umhverfisflokkinn. Ég er ekki meiri vinstri maður en svo.

Mannraunir

Það er mikið sem hefur verið á ferðinni í kollinum á mér síðan í gærkvöldi. Þá voru í sjónvarpi viðræður fólks á milli, og það var svo mikilvægt í viðræðunni að koma því að, að í bernsku eða æsku hefði eitthvað svo hrikalegt skeð. Ég var eitthvað á rjátli hér innanhúss og heyrði brot úr þessari umræðu. Þá fór ég inn að tölvu og fór að skoða myndir frá liðnu sumri. Ég komst að því að sumarið hafði skilið eftir góðar minningar. Svo heyrði ég frá sjónvarpinu talað um fleiri myrkar æskuminningar.

Þá fór ég fram til Valdísar og hafði orð á þessum hræðilegu minningum sem þetta fólk byggi við. Það eiga tveir eftir að tala í viðbót sagði Valdís. Nú settist ég við sjónvarpið og mikið rétt, nú komu tvær manneskjur á skjáinn sem áttu góðar minningar. Það var orðið seint þegar ég var búinn að vista tíu myndir með sumarminningum inn á bloggið og ég var þá enn að hugsa um þetta með minningar.

Svo kveiktum við á morgunsjónvarpi í morgun og þar kom púðrið. Á skjáinn var allt í einu kominn blaðamaður sem hefur skrifað bók um fótboltamanninn Zlatan sem allir litlir strákar, fjölmargir hálffullorðnir menn og margir fullorðnir menn vilja svo mikið líkjast. Hann er nefnilega mikill og flinkur fótboltamaður. Hann er fótboltahetja Svþíþjóðar. Ég hef oft talið Zlatan hrokafullan og í leik fyrir nokkrum árum, leik sem ég reyndar horfði á að hluta, fannst mér hann alveg hrikalega hrokafullur. Svo tók hann víti í þessum leik og hann skaut langt, langt yfir markið eins og ég gerði sjálfur í fótboltaleik á Skógum fyrir 54 árum. Mér fannst það gott á hann. (Þroskaður ég eða hvað?)

Skrifari bókarinnar lýsti í sjónvarpsþættinum nokkrum atvikum í lífi Zlatans sem drengs. Heima var pabbi, fórnarlamb styrjalda í fyrrverandi Tékkslóvakíu, sem alltaf var fullur og mikið vansæll og ísskápurinn alltaf tómur af mat. Stundum var Zlatan í heimsókn hjá mömmu sem alltaf skammaðist og umturnaðist yfir öllu og barði Zlatan meðal annars með sleif. Sleifin brotnaði og vegna þess að það var verið að berja hann með sleifinni þegar hún brotnaði og þá hljóp hann út í búð til að kaupa nýja sleif handa mömmu. Zlatan saknaði alls sem börn vænta sér af foreldrum og meðal annars þess að foreldrarnir komu aldrei á völlinn. Hann vissi að það var nákvæmlega einskis að vænta frá þeim. En hann æfði fótbolta og í fótboltanum hafði hann fundið tilveru sína og hann var þá þegar ákveðinn í því að hann skyldi verða eitthvað. Pabbi kom aldrei á völlinn til að peppa upp strákinn sinn.

Dag einn var Zlatan valinn í úrvalslið. Þetta barst fljótt út. Þegar Zlatan kom í fyrta skipti á æfingu á völlinn með úrvalsliðinu sá hann eitthvað óvænt út undan sér. Hann leit þangað -og . . . . pabbi minn! ertu kominn!? Þegar pabbi hafði heyrt að sonurinn væri kominn í úrvalsliðið, þá bara skeði eitthvað. Hann hætti að drekka, varð besti vinur sonarins og hvatti hann til allra dáða. Bókin um Zlatan er talin geta orðið besta hvatningin sem unglingar í erfiðleikum geta fengið í dag. Það eru bundnar vonir við hana.

Zlatan, fyrirgefðu að ég dæmdi þig rangt.

Sagan um Zlatan er mikið raunalegri en hægt er að segja í þessum línum. En svo kom annar maður á skjáinn og hann er ættaður af svipuðum slóðum og Zlatan. Hann hefur skrifað eigin sögu og sú var allt öðru vísi en Zlatans, en jafnvel mun raunalegri. Sögur þessara manna voru svo sorglegar að það var erfitt að sitja ógrátandi framan við sjónvarpið. En þeir höfðu öðlast nokkuð sem allir vilja öðlast. Þeir höfðu öðlast ríkt líf -og - "þeir voru sáttir". Raunir fólksins frá í þættinum í gær voru voða litlausar í samanburði við raunir manna tveggja í dag.

Guð - gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.


Ég hef mikið orðið var við það í vinnunni minni að þeir sem geta ekki sleppt atburðum frá því liðna, þeim vegnar heldur ekki vel. Það er eins og það geti orðið að vana að velta sér endalaust upp úr því sama og bara sitja fastur þar. Svona fólk kemur aftur og aftur í meðferðina, svo sorglegt sem það nú er, og það er sem það verði erfitt fyrir þetta fólk að verða fullorðið. Önnur línan í æðruleysisbæninni ofan; "til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt", er lykillinn að þessu. Það er hægt að fyrirgefa án þess að elska, fyrirgefa til að brenna ekki sjálfur upp innan frá. Þegar fólk byrjar að leggja hugsun og tilfinningu í "til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt", þá fer eitthvað að ske.

Hvort velur þú réttlæti eða innri frið? er algeng spurning. Svarið verður oft blandað orðunum "en" eða "ef" eða orðunum báðum. En og ef eru bæði orð vafans og þá er persónan ekki tilbúin að sleppa "réttlætinu" og velja innri friðinn.

Einbúi langt frá mannabyggðum

Hér sit ég heima, geri ekki neitt og tel mér trú um það að ég sé svolítið lasinn. Ég átti að vera í vinnu í dag en þokkalega tímanlega í gær hringdi ég til hans Ingemars ellilífeyrisþega og spurði hann hvort hann væri til í að taka daginn minn í dag. Jú, Ingemar varð bara glaður og hann ætlaði að vinna vinnuna mína í dag.

Í fréttum hér, bæði í blöðum og sjónvarpi, er talað um mikla aukningu af bakteríu sem heitir Mycoplasma pneumoniae og er talað um að hún herji almennt á Norðurlöndin um þessar mundir. Þessi baktería breiðist út sem faraldrar öðru hvoru en er nú í óvenju miklu hámarki. Sjúklingarnir á vinnustað mínum hafa verið nánast illa haldnir af kvefi, höfuðverk og hósta og það hefur vel mátt greina á hósta þeirra að það sem dylst í hálsi þeirra er enginn veislumatur. Ekki veit ég hvort það er þessi tiltekna bakteria sem þar er á ferð. Ég hef farið mjög varlega en varð að lokum fórnarlamb, en þó með mikið minni einkenni en fólkið sem ég hef svo mikið hrærst innan um á síðustu mörgum vikum.

Ég hef notað handspritt og mikinn handþvott og venjulega slepp ég en að þessu sinni fékk ég að láta í minni pokann. Ég umgengst Valdísi með varúð og fer alls ekki höndum um hana um þessar mundir. Ég vil ekki hafa það að hún smitist líka. Hún segir líka 7-9-13 og segist ekki vera móttækileg fyrir pestina og ég vona að hún verði sannspá.

Það er langt síðan ég hef tekið tvo daga í að gera ekki nokkurn skapaðan hlut. Það liggur við að ég hafi ekki kunnað almennilega við mig í gær og í dag. Ég hef lengi verið meðvitaður um að þegar dagurinn rennur upp sem ég bíð eftir, dagurinn þar sem ég ætla ekki að hafa neitt fyrir stafni, verði skrýtinn dagur. En ég veit að ég verð fljótur að aðlaga mig að því. Mér dettur heldur ekki í hug að leggjast í áralanga leti þegar hægist um, en að taka öðru hvoru dag og dag þar sem ég bara geri ekki neitt -það lítur vel út.

Ég hef í dag einbeitt mér talsvert að vísdómsorðabók sem ég bloggaði um í fyrradag. Það er nú svo að líklega flest vísdómsorðin fjalla um að hafa hljóðar stundir, að æða ekki í óróleika um allar trissur, að láta eftir sér að vera einn og að vera nægjusamur. Að láta eftir sér að virða fyrir sér spegilslétt vatn, blóm í haga og að alltaf gefa sér góðan tíma til þessa. Þegar ég hef lesið hver vísdómsorð fyrir sig hef ég gjarnan skrifað nafn höfundarins inn á Google og auðkennt það með Wikipedia. Síðan velti ég fyrir mér hver höfundurinn hefur verið og að lokum hvernig ég stend mig sjálfur í samhengi við vísdómsorðin.

____________________________________________



"Öll sönn og heilbrigð lifsnautn
sem okkur stendur til boða
hefur verið okkur alveg jafn tiltæk
frá upphafi vega og hún er nú -
okkur býðst hún einkum í friði."

John Ruskin (1819 - 1900)

John Ruskin fæddist í Englandi og var breskur listaganrýnandi, ljóðaskáld og rithöfundur. Hann var prófessor í listum við Oxford háskóla og hann hneigðist til vinstri í pólitík. Hann myndaði hreyfingu ásamt fleiri hugsuðum sem hafði að markmiði að ganga til baka frá iðnbyltingunni, taka aftur upp handverk og snúa sér að þeirri fagurfræði sem því fylgir. Kannski að stjórnmálamenn nútímans eða framtíðarinnar fari að lesa verk þessa hugsuðar þegar þeir komast að því að lífsheimspekina verði að taka til endurskoðunar ef okkur eigi að vera líft á móður Jörð.

John virðist hafa verið staðfastlega samkvæmur sjálfum sér. Hann var ríkur maður og á eftirmiðdegi lífs síns gaf hann háar upphæðir peninga til meðal annars mentastofnana. Og hvað lífsnautnina áhrærir þá segir hann: "okkur býðst hún einkum í friði."
________________________________________


Indælast í lífinu er hið kyrrlátasta . . .
lífshamingjan felst i hugarró,

Cicero (106 - 43 f. kr.)

Svona gat mönnum dottið í hug að segja fyrir rúmlega 2000 árum.
_________________________________________



Lærðu að vera einn.
Glataðu ekki kostum einverunnar
og félagsskap sjálfs þín.

Sir Thomas Browne (1605 - 1682)

Enn einn Englendingur, rithöfundur vel lærður í afar mörgu eins og til dæmis læknisfræði, trúarbrögðum, vísindum og fleiru. Það fer ekki milli mála að menn voru líka þrælmenntaðir fyrr á öldum.

Ég hef oft sagt að ég mundi vilja vera í litlum bústað í viku, bústað staðsettum til dæmis langt upp í Norrland í svo sem 10 km fjarlgð frá næsta byggðu bóli. Þar mundi ég vilja koma nær sjálfum mér, náttúrunni og alheiminum. Ef einhverjum dettur í hug að nú sé Guðjón að verða stórskrýtinn þá hef ég verið það lengi því að þessi draumur er alls ekki nýr. Að vera hræddur við að hitta sjálfan sig er vandamál sem ég er laus við. Kannski væri hægt að fá lánaðan afréttarkofa á Síðumannaafrétti. Kannski er líka einn slíkur í nothæfu ástandi í Núpstaðaskógum. Það eru margir sem mundu vilja prufa þetta en sjálfsagt mundu ekki allir voga. Ég mundi voga. Þetta er hliðstæða við eyðimerkurgöngu sem margir þekktir menn lögðu að baki á sínum tíma.

En þrátt fyrir allt, þó að Sir Thomas Browne hafi ekki þekkt til farsímans, þá held ég að ég mundi vilja geta sent frá mér sms daglega til að láta mína nánustu vita að ég hafi ekki verið étinn af skógarbirni.

Það er gaman að sökkva sér í þetta en ég held samt að ég bloggi ekki meira um vísdómsorð að sinni. (Hver veit þó?)

Hún Guðdís barnabarn í útlöndum

Sjónvarpsmessan í morgun var fín, reglulega fín. Eiginlega var það umræðufundur á að giska tólf manna og kvenna frekar en sjónvarpsmessa, og var tekinn upp á lýðháskóla mjög langt norður í landi. Það voru miðaldra maður og ung kona sem sáu um messuna en annars höfðu þau öll sem viðstödd voru sín hlutverk í þessari guðsþjónustu.

Fyrr í morgun þegar við komum á fætur var efni á einni stöðinni þar sem yngra fólk var allt í öllu, fólk á svipuðum aldri og ungi presturinn. Það var mikill farði á andlitunum þar, hárið uppsett sem um galdra væri að ræða, hælarnir á hæð við mjólkurfernu eða hver veit hvað og fólkið var alveg rosalega nýtískulegt í öllu sínu fasi. "Og hamingjusamt var það svo að það hálfa hefði dugað." Ég er ekki að gera grín að ungu fólki en ég er að tala um tíðaranda.

Svo hófst guðsþjónustan. Þegar ungi presturinn hóf sitt 15 mínútna tal varð allt svo ekta. Andstæðurnar milli guðsþjónustunnar og morgunefnisins á allt annarri stöð voru afskaplega miklar. Þegar allt verður svo satt og ekta verð ég votur í augnkrókunum. Ætli ég sé ekki eitthvað lasinn í augunum?

En nú kemur að því. Mitt í þessu minntist ég messu frá 9. október. Það var þá sem andagiftin greip mig sterkum tökum og ég ætlaði að tala um hana Guðdísi dótturdóttur mína í bloggi mínu þann dag. Stúlka í þeirri messu minnti mig nefnilega á hana Guðdísi. Svo beið ég kvöldsins og andagiftin yfirgaf mig og það varð ekkert blogg um hana dótturdóttur mína.


En hér er nú Guðdis komin þrátt fyrir tafir. Myndin af þessari ungu konu var tekin á Sólvöllum í júlí síðastliðnum, en þá var hún búin að vera í viku á handboltamóti niður við Gautaborg. Svo kom hún með lest hingað til Örebro. Á myndinni er hún að borða rístertu hjá henni ömmu sinni. En hún var ekki bara á leiðinni hingað á Sólvelli konan sú. Nei! Heldur var hún á leiðinni til enn annars lands til að vinna, til að sýna sig og sjá aðra og til að sækja lífsreynslu.


Hann Kristinn bróðir Guðdísar og Johanne kærastan hans komu hingað til að sækja hana. Hún fór frá okkur gegnum Ósló til Bergen þar sem Kristinn og Johanne búa. Guðdís ætlaði að búa hjá þeim í mánuð og vinna í fiski. Þessa mynd fékk ég lánaða hjá Kristni, en hún er tekin í Ósló einmitt á leiðinni til Bergen. Mér sýnist á stúlkunni að henni leiðist ekkert. Hún er á ferðalagi út í heimi.


Nú verð ég að tala svolítið meira um heimsókn Guðdísar til okkar. Hafi ég átt von á því að til okkar kæmi krefjandi táningsstelpa, þá verð ég bara að segja það að Guðdís var algjör andstaða slíks. Hún var ljúf og góð og ánægð með að vera með okkur gamalmennunum. Við fórum þrjú inn til Marieberg í Örebro. Þar ætluðu Guðdís og amma hennar að fara á svolítið búðarrölt, enda eru eitthvað töluvert á annað hundrað verslanir að velja um þar. Ég, afi, fór heim á Sólvelli um tíma og það var ákveðið að þær hringdu þegar þær væru tilbúnar. Þá ætluðum við að fá okkur eitthvað gott á kaffihúsi.

Að fá sér kaffi, og svo ég tali nú ekki um þegar maður fær sér aðeins með því, heitir á sænsku að fíka. Svo hringdi Valdís og sagði að þær væru tilbúnar og að ég gæti komið. Ég spurði hvað við ættum þá að gera og Guðdís heyrði það og ég heyrði hana segja hátt og skýrt að nú vildi hún fíka með afa. Fyrr um daginn voru þær búnar að fá sér hamborgara í stærsta verslunarhúsinu í Marieberg, en þá var afi ekki með. Afi er nefnilega enginn sérstakur hamborgaramaður. Sjáið innkaupavagninn. Þær hafa ekki keypt svo mikið. Það grisjar í gegnum vörurnar á vagninum.


Við fórum frá Marieberg í Sveppinn inn í sjálfri Örebro til að "fíka". Þaðan er gott útsýni yfir næstum alla borgina. Sveppurinn er neysluvatnsgeymir sem geymir 3200 tonn af vatni í 58 metra hæð. Stór hattur sem stendur á mjórri fæti og er því eins og svampur í laginu. Þar uppi er kaffihús en alls ekki er hægt að segja að það sé jafn mikill íburður þar og í Perlunni í Reykjavík. Og sjáið bara. Þarna hallar Guðdís sér móti ömmu sinni og er eitt breitt bros. Guðdís mín! það var frábært að fá þig í heimsókn skaltu vita og okkur þykir vænt um þig.


Ekki veit ég hvar þessi fallega mynd er tekin en ég tók hana úr myndasafninu hans Kristins bróður hennar Guðdísar. Hafmeyjan á myndinni hefur fætur en hún horfir yfir víkina þarna eins og virkileg hafmeyja.


Kristinn og Johanne verða auðvitað að vera með í þessu bloggi. Ekki veit ég heldur hvar þessi mynd er tekin, en ég fann hana líka í myndasafninu hans Kristins. Eitt virðist ljóst á þessari mynd, en það er að maðurinn og konan virðast alls ekki ósátt. Þau eru ljúf og falleg.

Meðan Guðdís var hjá okkur var hún Erla systir hennar á handboltaæfingu niður í Þýskalandi. Ég þarf að blogga um hana líka. Hún var fermd síðastliðið vor og þá bloggaði ég um hana: http://gudjon.blogg.se/2011/april/ferrming.html  Ég held bara Erla mín að þú verðir að koma um jólin til að ég geti bloggað um þig aftur. Okkur þykir nefnilega vænt um þig líka.

Eilífðin er núna

"Eilífðin er núna. Ég er í henni miðri,
hún er allt umhverfis mig í sólskininu;
ég er í henni, eins og fiðrildið í ljósfylltu loftinu.
Ekkert er í vændum; það er núna."

Richard Jefferies (1848-1887)

Þegar við Valdís vorum á Íslandi snemma í vor fengum við bók með texta, vísdómsorðum, fyrir hvern dag ársins. Við fengum þessa bók frá henni Fríðu systur og Binnu mágkonu minni. Lengi vel var þessi bók á kommóðu rétt hjá matarborðinu en nú orðið er hún á matarborðinu. Valdís ýtir bókinni oft yfir til mín þegar við borðum, annars mundi ég ekki muna eftir henni nema öðru hvoru. Það er gott að eiga trygga konu. Textinn ofan er frá 29. október. Ég las hann nokkrum sinnum yfir áðan en komst ekki almennilega í samband við hann fyrr en Valdís tók hljóðið af sjónvarpinu. Hún nefnilega getur hlustað á sjónvarpið án þess að það heyrist í því. En þegar það var orðið hljótt í húsinu og ég heyrði ekkert annað en suðið fyrir eyrunum, þá fannst mér sem það skipti ekki máli þó að það væri ekki sólskin eins og höfundurinn segir í sínum djúpvitru orðum.

Hver annars var hann þessi maður. Ég gáði á Wikipedia. Jú, hann varð aðeins 35 ára en honum auðnaðist þó að skrifa mjög mikið og hann er sagður hafa verið náttúruhöfundur. Ég taldi mig svo sem vita hvað orðið náttúruhöfundur (naturskribent) væri en ég sló því líka upp og komst þá að því að ég yrði að fara í háskóla ef ég ætti að skilja allar útskýringar sem fylgdu orðinu. Ég lét því mína eigin vitneskju nægja. Richard átti heima á Englandi og samkvæmt heimildum Wikipedia kom hann einu sinni til Frakklands. Annars er ekki að sjá að hann hafi verið víðförull þó að honum hafi ratast vís orð af munni. "Ekkert er í vændum; það er núna."
______________________________________________



"Öllu djúpt hugsandi fólki
er eiginlegt að lifa einföldu lífi
og leita einfaldleikans."

Martin Marty

Þetta eru vísdómsorðin 31. október. Martin Marty eða Martin Emil Marty fæddist 1928 og er bandarískur, lúterskur trúarbragðafræðingur. Hann á líka mikil ritverk að baki. Nú á tímum þegar öll vandamál eiga að leysast með því að auka neyslu almennings til að koma hjólum atvinnulífsins af stað og gera marga ríkari á kostnað Jarðarinnar okkar sem er að kikna undan erfiðinu, þá eru þessi orð gríðarlega mikill vísdómur.
______________________________________________


"Djúpt í sál okkar, að baki sársaukanum,
baki allra truflana lífsins, er víðfeðm kyrrð,
veraldarhaf rósemdar, sem ekkert fær truflað,
ómælisfriður náttúrunnar sjálfrar,
ofar öllum skilningi."


C.M.C. í endursögn R.M. Bucke

Þetta er frá 28. október. Í fáfræði minni veit ég ekki hvað þetta C.M.C. þýðir en enn einu sinni fór ég inn á Wikipedia og leitaði að R.M. Bucke. Þar fékk ég upp nafnið Richard Maurice Bucke sem fæddist í Englandi 1837 og lifði fram til ársins 1902. Hann lifði ekki svo lengi að hann heyrði talað um þotur, að hann horfði á sjónvarp eða að hann upplifði fyrstu ferð manna til tunglsins. Hann upplifði ekki heldur al-Qaida, Usama bin Ladin eða hin fjölmörgu stríð sem háð hafa verið eftir hans daga. En hann raðaði saman orðum í ótrúlega fallegt samhengi. Hér er mynd af þessum manni en ég sé alls ekki hver ljósmyndarinn er þannig að ég get ekki nefnt hann.



Samkvæmt myndinni býr hann yfir góðlegum, yfirveguðum persónuleika. Kannski eru hugmyndir mínar gamaldags en ég er ekki að meina að við skulum hverfa aftur til fortíðar. Hins vegar hugsa ég að það væri gott fyrir okkur öll að staldra við, loka fyrir allan eril og glaum og hugleiða um stund hvað býr að baki hugans eða "Djúpt í sál okkar, að baki sársaukanum". Á meðan getum við til dæmis stutt okkur við ísaldarslípaðan stein, hallað okkur upp að gömlum trjástofni eða setið á stubb í skógi. Og líka bara tekið okkur kyrra stund á koddanum okkar. Hver eru verðmæti lífsins?

Þessi bók mun nú hafna á blogginu mínu alla vega einu sinni enn.

Snemmvetrarannir

Valdís hefur verið að raka laufi af og til undanfarna daga og þar að auki er ekki langt síðan hún sló lóðina. Í fyrradag og í dag höfum við verið að bera laufið út í skóg og þar á það að gera mikið gagn. Hann Ingemar garðyrkjumeistari í Örebro ráðlagði mér fyrir nokkrum árum að nota laufið af lóðinni til að setja kringum eftirlætistré og gera jarðveginn kringum þau þar með rakaheldnari. Svo höfum við gert síðan og þar að auki hef ég borið hænskaskít undir laufið í ár og í fyrra. Ég hef svo oft nefnt beykitrén að ég þori varla að nefna þau oftar, en það eru í fyrsta lagi þau sem fá að njóta þessara sérstöku gæða. En hvers vegna? Jú, þau eru nýbúar í landinu okkar og við bindum við þau vonir sem alveg sérstaka granna og skrúðgarðaprýði innan mjög fárra ára ef okkur tekst að gera þeim svo gott að þau vaxi sérstaklega mikið. Ég tek fram að fagfólk er í ráðum hvað þetta varðar.


Er þetta ekki fallegt haustlauf. Þessi mynd er tekin af beyki skammt austan við húsið. Þetta lauf á eftir að verða hrokknara og brúnna, en beykilaufið hélt lengst græna litnum í haust og nú er það svo að ung beykitré fella ekki haustlaufið fyrr en það laufgast aftur að vori.


Þetta er sama tré hérna skammt austan við húisið. Það verður nokkurn vegin svona þangað til í apríl-maí að vori.


Hér gefur að líta tvö beykitré og svona er það, og er allt árið, þau skera sig alltaf úr og eru áberandi. Eftir að við gróðursettum sex fyrstu beykitrén vorið 2006 fórum við í ferðalag niður á Skán og þar lentum við mitt inn í víðáttumiklum beykiskógum. Eitt kvöld fór ég í gönguferð út frá hótelinu og gekk eftir dal með lágum brekkum á báðar hendur. Á láglendinu voru tún en brekkurnar voru þéttvaxnar háum beykiskógi. Ég var að giska á hæðina á þessum frábæru trjám og taldi að þau hlytu að vera allt að 40 metra há. Það nefndi ég samt ekki við neinn en mikið varð ég ánægður yfir því að hafa gróðursett beyki á Sólvöllum. Þegar ég kom heim skrifaði ég "bokträd" inn á Google og komst þá að því að þau geta orðið 45 m há. Mér hefði því verið óhætt að nefna það að ég giskaði á 40 metrana. Það verða afkomendur okkar sem fá að upplifa það hér á Sólvöllum en við stóðum alla vega fyrir því að þau byrjuðu að vaxa í Sólvallalandinu.


Konan sem kyndir ofninn minn orti Davíð Stefánsson en hér er konan sem rakar lóðina sína. Þarna vorum við búin að moka upp stórum haug í stóran bláan plastpoka þó að pokinn sem við sjáum er hvítur og nú er hún að safna haugnum saman aftur.


Það má líka setjast niður og hvíla sig á Sólvöllum. En útivistin er góð og viðheldur betri heilsu. Ég held að við höfum bæði haft gott af þessari snemmvetrarvinnu og öllu því hreina lofti sem við drógum niður í lungun. Það er mikið lauf fallið niður aftur en það sem þegar er komið út í skóg þarf ekki að raka aftur.

Ég var búinn að hugsa mér -en svo fór allt úr skorðum

Ég var búinn að hugsa mér að halda upp á þriðjudagsmorguninn var með því að gleðjast með sjálfum mér. Svo vaknaði ég þennan morgun og var þá í vinnunni og ég gladdist með sjálfum mér strax þar sem ég lá í rúminu. Það eru mörg gleðiefnin ef ég nenni að hugsa um þau en það væru líka mörg hörmungarefnin ef ég vil taka á mig allar heimsins áhyggjur. En ef ég tek á mig allar heimsins áhyggjur breytir það ekki heiminum nema því að ég einbeiti mér að því að bæta hann. Í rauninni finnst mér að ég vinni að því að bæta heiminn þar sem ég legg mig heils hugar fram við að stuðla að því að börn fái heim pabba eða mömmu sem vilja verða betri manneskjur. Eða líka að foreldrar fái heim stálpuð börn sem voru horfin út í myrkrið en koma nú heim og segja við mömmu og pabba: Ég elska ykkur.

En nú viltist ég af leið og fór að tala um allt annað en til stóð og ég hafði alls ekki verið með í huga þegar ég byrjaði. En svona er það oft; það fæðist eitthvað sem alls ekki var með í myndinni þegar fyrsta orðið var skrifað. Ég var að halda upp á eitthvað og hvað var nú það? Jú, tímabilið sem ég vinn fulla vinnu síðustu mánuði þessa árs var nákvæmlega hálfnað á þriðjudagsmorguninn var. Það var þess vegna sem ég gladdist áður en ég dreif mig á fætur og tók eina eftirlitsferð gegnum ganga og sali á meðferðarheimilinu Vornesi.

Nú er spurning hvernig ég á að halda áfram þar sem ég fór inn á allt annan hliðarstíg eftir tvær fyrstu setningarnar. Kannski var einhver dulin meining bakvið þessa óundirbúnu stefnubreytingu mína. Það var eitt sinn fyrir einum 15 árum að það var handleiðsla í Vornesi. Handleiðarinn vildi enda handleiðslu dagsins á því að við segðum öll frá því hvað okkur fyndist við vera að gera með því að vinna þar. Þegar kom að mér byrjaði ég á því að segja að við vrum að vinna að því að breyta Svíþjóð. Þá hlógu þau öll mikið og ekki minnst handleiðarinn. Hann tók bakföll af hlátri.

Ég skal gefa eitt dæmi því til sönnunar að ég hafði alveg hárrétt fyrir mér þegar ég sagði það sem fékk alla viðstadda til að hlæja að mér. Þetta var 1996, annað árið eftir að 12-spora meðferð byrjaði í Vornesi. Þá voru þrír AA fundir á viku í borginni Eskilstuna í Södermanland í Svíþjóð. Í dag eru rúmlega 30 fundir á viku í Eskilstuna og fólk giskar á að það séu níu til 35 manns á hverjum fundi. Þeir sem eru á fundunum eru edrú. Þetta er bara dæmi frá einum bæ í Södermanland. Ef þetta er ekki að breyta ástandinu í einu landi, ja, hvað er það þá? Meðferðarheimilið er ekki AA en meðferðarheimilið vísar fólki þangað.

Þeir sem hafa verið í meðferð í Vornesi og eru edrú eftir það koma fjórum sinnum til baka á svonefnda endurkomudaga og eru þrjá daga hverju sinni. Eitt sinn var tvítug mamma fjögurra ára telpu í endurkomu. Hún sagði frá því að eftir nokkrar vikur heima hafi þær mæðgur legið í sófa, horfst í augu og talað saman. Litla telpan tók þá í hár mömmu sinnar, greiddi það bakvið eyra hennar og sagði: Mamma mín, nú ertu mín virkilega mamma.

Í annað skipti var kona um fertugt í endurkomu. Ég hafði verið handleiðarinn hennar. Hún kom með stórt umslag til mín og sagði að það væri frá börnunum sínum. Þau vildu gefa mér það sem væri í umslaginu þar sem mamma þeirra hefði gefið mér svo gott orð. Upp úr umslafginu dró ég þrjár eða fjórar blýantsteikningar. Tvær þeirra hafði ég í mörg ár í römmum upp á vegg í samtalsherberginu mínu.

Fyrir einum tólf árum var maður á mínum aldri í meðferð. Við urðum all vel kunnugir. Einhverju ári eða fáum árum seinna hringdi hann til að spyrja mig einhvers. Svo töluðum við líka um það hvað við hefðum fyrir stafni í frítímum okkar. Ég sagðist vera að lesa bók um Stokkhólm, eina af bókaseríu um Stokkhólm eftir mann sem hét Per Anders Fogelström. Áttu þessar bækur? spurði hann. Nei, svaraði ég og sagðist hafa fengið bókina á bókasafni í Örebro. Við höfðum báðir mikinn áhuga á þeirri sögu sem þessar bækur hafa að segja.

Daginn eftir kom innritaður sjúklingur til mín og sagði að það væri einhver ókunnur maður að spyrja eftir mér. Þegar ég kom fram að aðalinnganginum var maðurinn frá símasamtalinu deginum áður þar kominn með brúnan pakka í hendinni. Hérna Guðjón, hér eru bækurnar hans Fogelström um Stokkhólm, mig langar að lána þér þær. Hann hafði þá lagt 97 km að baki með nokkrar bækur sem hann vildi lána mér. Og hvers vegna? Jú, hann vildi mér vel.

Tíminn sem ég hef lofað að vinna fulla vinnu í Vornesi er hálfnaður sem fyrr segir. Síðan ætlaði ég að hætta. Þegar ég byrjaði þetta blogg ætlaði ég að skrifa um það. En svo bara skeði eitthvað. Núna í lok þessa bloggs er ég ekki frá því að ég vilji vinna fáeina daga í mánuði, til dæmis fjóra daga. Við sem vinnum á meðferðarheimilinu gerum fólk ekki edrú en samt er það nú svo að meðferðarheimilið gengur ekki nema fólk vinni þar. Kannski get ég gert einhverjum gagn og meðverkað í að gera heiminn betri. Ég verð að ræða þetta við Valdísi.

Sunnudagur til sælu

Við vorum í Suðurbæjarkirkjunni (Sörbykyrkan) undir kvöldið. Kórinn sem Valdís var í áður en við fluttum frá Örebro, Korianderkören, hafði svokallað kórkaffi og við förum oft þangað þegar þessi kór býður upp á glaðan söng. Og það var einmitt glaður söngur þar núna eins og alltaf. Það voru sungin lög frá sjöunda áratugnum og kórinn var að æfa þegar við komum í kirkjuna vel tímanlega. Þá fannst okkur sem þetta yrði ekki eins skemmtilegt sem við höfðum vænst. En svo varð klukkan sex og kórinn steig fram og þá varð fjör.

Í seinni hlutanum voru sungin tvö lög eftir mann sem hét Ted Gärdestad. Lögin hans textar eru mjög falleg en þeim fylgir oft nokkur tregi. Það var nefnilega svo að hann var allt of ungur þegar hann valdi að greiða götu sína inn í eilífðina á mjög afgerandi hátt. Það urðu því ekki fleiri lög sem hann gerði og Svíar segja að það hafi verið mikill skaði fyrir sænskan tónlistarríkidóm. Ég læt hér fylgja eitt lag sem hann syngur sjálfur en ég kann ekki nógu vel að setja svona slóðir inn á bloggið mitt. Ég vona samt að það virki. www.youtube.com/watch?v=_kSdTPigq60

--------------------------------------------------------

Meðan byggingarframkvæmdir stóðu sem hæst hér í fyrrahaust reisti ég geymslutjald einhverja helgina. Þegar Anders smiður kom eftir þessa helgi varð honum að orði að við værum búin að tjalda og svo ekki orð um það meir. Nokkru síðar vorum við Anders að taka saman bæði verkfæri og efni og settum þá undir þennan tjaldhimin. Þá varð Anders að orði eitthvað á þá leið að þetta væri hreinlega eitthvað það allra besta af mínum uppátækjum.

Svo varð það með þetta tjald eins og svo oft með það sem maður er búinn að venja sig við að við hættum að sjá það. Og þó? Jú, tjaldið var reyndar hið mesta lýti á þessari fallegu sveit og smám saman fórum við að skammast okkar fyrir það. Það var dálítið af smíðaefni í því og hann Arnold bóndi lánaði okkur smá horn í einu af hans stóru útihúsum og þar er nú þetta smíðaefni. Hlutverki tjaldsins var þar með lokið. Eftir messu í morgun átti því að rífa tjaldið og stuttu eftir messuna þegar ég var að renna niður ljúfum kaffisopa spurði Valdís kona mín hvort það væri ekki kominn tími til að byrja.

Þar með gengum við fylktu liði með hamra og kúbein móts við blessað tjaldið sem hafði ekkert hlutverk lengur og að einum og hálfum tíma liðnum var þessi bygging jöfnuð við jörðu. Að fjórum tímum liðnum var allt snurfusað, frágengið og hreint og kerran rétt einu sinni enn full af drasli sem fer á endurvinnslustöðina í næstu viku.

Það má kalla þetta enn einn áfangann hjá okkur á Sólvöllum. Nóttin sem leið var einum klukkutíma lengri en aðrar nætur þar sem klukkunni var breytt í nótt. Því gaf ég mér tíma til að liggja um stund undir feldinum og horfa upp í þakið og velta fyrir mér hversu margir vinnutímar væru eftir hér við byggingarvinnu þangað til venjuleg umönnunarvinna tekur við. Ég komst að því að það eru ekki svo rosalegsa margar vinnustundir og það gerir að verkum að við förum að leika okkur aðeins meira. Það eru nýir tímar í sjónmáli.

Hér eru myndirnar hennar Valdísar sem sýna talsvert af því sem skeður á Sólvöllum: http://www.flickr.com/photos/valdisoggudjon/

Svo má ég til með að sýna muninn sem varð á þegar tjaldið hvarf.


Fyrir tjald.


Eftir tjald. Allt annað að sjá þetta. Nú erum við sveitasómi. Kerran stendur þarna fullhlaðin eins og fyrr er sagt. Smá efnislager er lengst til hægri og vinstra megin við hann er girt með hænsnaneti kringum og yfir eikarplöntu sem er jafn gömul honum nafna mínum. Dádýrin átu blöðin af eikarplöntunni fyrsta sumarið og þá var ekki um annað að gera en byggja yfir. Svo mun þurfa að gera næstu árin. Eikarblöð eru sjálfsagt afar bragðgóð. Kannski þau séu góð í salat!


Sólvallahúsið er gott hús, hlýtt og vinalegt bæði utan og innan. Í Sólvallahúsinu líður fólki vel. Aðal vinnan, ekki eina vinnan, en aðal vinnan er að gera sökkul undir gamla hlutann. Það kannski lætur rosalega stórt en um mitt sumar þegar verið var að byggja hjá nágrönnunum datt Íslendingnum nokkuð í hug. Þá féll þungur steinn. Málið varð allt í einu svo einfalt. Ég hef borið þetta undir nokkra fagmenn og meðal annars hann dótturson minn í Noregi. Allir segja að þessi aðferð sé pottþétt. Ég kem auðvitað til með að blogga um það þegar þar að kemur.

Hissa

Ég var nú bara aldeilis stein hissa í morgun þegar ég reiknaði út að ég hefði sofið hátt í tíu tíma. Og það var enginn lélegur svefn það og varla að ég hafði mig upp þegar ég hreinlega varð að fara minna ferða fram á bað um hálf sex leytið. Svo man ég hreinlega ekki eftir því að ég kom til baka svo að fljótt hef ég sofnað. Já, fólki hlýtur að líða mikið betur yfir að geta lesið um þessar athafnir mínar.

Það var annríkis vika þessi vika sem er að renna inn í fortíðina. Ég vann tvö kvöld í Vornesi og það er bara töluvert að vinna tvö kvöld í sömu vikunni, samtals 33 tímar, og svefninn þessar tvær nætur verður of stuttur. Svo var dálítið annað á dagskrá í þessari viku. Ég var að undirbúa hellulagningu sem átti að fara fram í dag og sem fór fram í dag. Það var löngu ákveðið. Ég þurfti að sækja tvær kerrur af hellum inn í Marieberg í Örebro og eina kerru af sandi í Syðri malarnámuna, jafna betur og troða undir hellurnar og eitthvað fleira sem fylgdi þessu eins og öðrum smáverkefnum á Sólvöllum.

Þessi hellulagning er eitt af þessum frábæru verkefnum sem eru svo skemmtileg fyrir það að það er hægt að ganga nokkur skref til baka, virða fyrir sér og hugsa sem svo: Mikið er þetta nú fínt, og ennfremur; gaman að þetta er búið, og einnig; nú berast ekki óhreinindi inn á nýju parketgólfin. Svo var auðvitað myndavélin á lofti og Valdís tók myndir af mér og ég tók myndir af verkinu fullgerðu. Nú er hellulagningin við aðalinnganginn á Sólvöllum komin í myndabók sögunnar. Kannski virðist það barnalegt að að svona smá verkefni skapi þá lífsgleði sem ég tala um og að ég næstum hoppi af kæti. En ef slíkt smátt nægði til að skapa hamingjustundir fyrir sem flesta væri heimurinn öðru vísi en hann er. Nægjusemi er dyggð og ég þreytist aldrei á að predika þann boðskap.


Ellilífeyrisþegi að störfum. Birtu var farið að bregða þegar verkinu var lokið þannig að það verður að taka nýjar myndir af því á morgun. Miklar lýsingar þetta; "þegar verkinu var lokið".

Það er notalegt kvöld núna eftir góða sturtu og þessa líka góðu hvíld síðastliðna nótt. Ungu nágrannarnir litu inn seinni parttinn í dag og höfðu orð á því að það þær hefðu gengið hratt byggingrframkvæmdirnar hjá okkur. Það er mikið til í því. Það var eins og það væri svolítill tregi í þeim þegar þau töluðu um þetta. Þau eru líka að byggja og það voru þrír og fjórir smiðir hjá þeim seinni helminginn af sumrinu. Nú er viðbyggingin hjá þeim fokheld og þau ætla svo að innrétta sjálf.

Já, það var svolítið þreytuhljóð í þeim. Þau eru bæði í fullri vinnu, eiga tvær dætur, tveggja og fimm ára, og það eru ekki alltaf svefnsamar nætur og ekki svo oft sem þau fara úthvíld í vinnu og þá méð dæturnar á leikskólann fyrst. Við Valdís vorum að ryfja upp hvernig þetta var hjá okkur og þá var oft verið að vinna fram á kvöld. Mikið mundum við vera lélegir smábarnaforeldrar í dag. Við þurfum meira næði á eftirmiðdegi lífsins. Stína nágranni sagði líka þegar þau voru að leggja af stað heim að þau mundu geta sofið oftar út þegar þau kæmust á okkar aldur. Hún virtist hugga sig við það.

Það verður ekki hreinn hvíldardagur hjá okkur á morgun. Eftir langan morgunverð og sjónvarpsmessu frá Gautaborg ætlum við út til að hreinsa upp hingað og þangað. Það er ekki nóg að atast í framkvæmdum og skilja óreiðuna eftir út um allt. Við ætlum að gera svolítið fínt ef allt gengur eftir. Svo er kaffiborð með söng í kirkjunni þar sem við bjuggum áður og við ætlum að skreppa þangað og sýna okkur og sjá aðra.


Næturrölt

Það er næturrölt hér hjá okkur á Sólvöllum. Í mold sem ég flutti frá verðandi stétt og jafnaði í skógarjaðrinum eina 20 metra frá Sólvallahúsinu fann ég í gær stór og djúp spor. Ég varð þungt hugsi og velti fyrir mér hvaða afleiðingar þetta mundi hafa hér í skóginum í vetur. Þar sem ég stóð þarna og horfði á sporin sem ég jú þekkti, þá leit ég við og horfði á eik sem var kannski 120 sm há í fyrradag. Núna var hún bara 100 sm eða svo. Stórir elgir elska nýju eikarsprotana og auðvitað minni elgir líka. Það voru fimm toppar sem elgurinn hafði étið og fyrir vikið kemur hver þeirra til með að fá eina þrjá til fimm sprota að ári Það verða því margir toppsprotar á þessu tré og ef ég vil hlú að því þarf ég að klippa það til í byrjun apríl að ári eða árið þar á eftir.

Í morgun stoppaði ég hann Lars ellilífeyrisþega og veiðimann þegar hann fór hér hjá og sagði honum frá þessu. Já, sagði hann. Ég fór líka heim til hennar Lottu í morgun og ætlaði að tína epli í eina fötu af eplatré sem stendur við húsið. Það var ekki eitt einasta epli eftir á trénu. Skammt undan sá ég elgskú með kálf og í dag er bannað að veiða svo að það var ekkert annað að gera en að biðja þau að bíða til morguns þegar við veiðimenn förum af stað aftur. Þau voru hvort sem er búin með eplin aftrénu. Þannig sagði hann frá. Lotta er dóttir hans og á heima hér rétt hjá. Elgveiðitímabilið stendur nú sem hæst.

Ég er enginn veiðimaður og hef gaman af að sjá þessi dýr fara hjá. En það er bara svo mikið algengara að þau fari hjá á nóttunni. Elgir eru orðnir svo margir að það er farið að valda gríðarlegum skaða í skóginum. Ég verð að viðurkenna að ég vil gjarnan fá frið með eikurnar í svo sem þrjú ár og þá get ég farið að velja hverjar þeirra ég vil hafa. Svo mega elgirnir hafa hinar. Elgskúna mega þeir í veiðifélagi Nalaví ekki skljóta en þeir mega veiða kálfinn. Dádýr sjást ekki hér um þessar mundir þar sem úlfurinn hefur verið á flakki hér. Þegar veiðibráð úlfsins er horfin fer hann líka og svo smám saman koma hin dýrin til baka. Það hlýtur að vera stressandi líf að vera dádýr og héri.

Ég ætlaði hins vegar að forðast stress sjálfur og setja reikningana í greiðslu í tíma. Svo þegar ég tók fram reikningana og fór að raða þeim fyrir framan mig var eins og þeir ætluðu aldrei að taka enda. Ég held nú bara að ég hafi aldrei áður þurft að borga svo marga reikninga í einu og það gerði mig stressaðan. Svo lagði ég saman upphæðirnar á þessum voðans haug og þá varða lífið rólegra á ný. Þeir voru mjög margir en frekar lágir. Nýskupúkinn í mér róaðist við þetta. Svo settist ég við tölvuna og gekk frá greiðslunum. Sælir eru þeir sem eru búnir að borga reikningana sína því að þeir geta sofið vel í nótt.

Ég er búinn að hafa þrjá daga heima frá vinnu en það hafa svo sem ekki verið neinir letidagar. Ég fæ mína letidaga þegar minn tími kemur. Þá fæ ég mér hatt og staf og geng um eignina milli eika og tígullegra bjarka svo ég nú ekki tali um beykitrén og öll hin trén. Þess á milli get ég tekið hálfan daginn í að blogga um lífið og tilveruna og skreppa svolítið hingað og þangað með Valdísi. Svo þarf ég að taka hann nafna minn mér við hönd og skoða tilveruna. Við getum farið mitt inn í burknaþyrpingarnar og horft upp í háar trjákrónur og dásamað þessi undir lífsins. Það verður margt að tala um.

Myrkrið umlykur húsið og hvort elgskú með kálfinn sinn er nú komin á kreik í skóginum okkar veit ég ekki. Ég veit hins vegar að kyrrðin er alger og ef það væri léttskýjað mundi vera skyggni til að sjá stjörnuþokur út í óravíddinni fyrir ofan okkur. Sólstólar eru teknir inn á haustin en það væri ekki úr vegi að grípa til þeirra einnig á vetrarkvöldum. Að leggja sig í sólstól og horfa á stjörnuhimininn er nokkuð sem mér bara datt í hug rétt núna þegar ég skrifa þetta. Hver veit hvað ég á eftir að gera? Ég veit þó alla vega að ég ætla að fara að hitta vininn minn Óla L og undir ullarfeldinum ætla ég að búa mig undir nýja vinnutörn og vera hress miðað við aldur og fyrri störf.

Að gera hlutina oftar en einu sinni

Það mun hafa verið um miðjan hlýindaveturinn 2006-2007 sem ég gekk nokkur skref til baka og horfði á það sem ég hafði gert og var harla glaður eins og svo oft þegar einhverjum áfanga er lokið. Þeir eru búnir að vera margir og margir eru eftir vona ég því að það er hluti af tilganginum að halda áfram.


Það var þetta sem ég horfði á og var ánægður. Ég var ekki í rónni fyrr en þakrennurnar og niðurföllin voru komin á fyrri útbygginguna hjá okkur. Að láta renna af þaki niður á jörð og ata út veggina, nei, það er ógeðslegt. Ég velti aðeins fyrir mér hvar ég ætti að láta niðurfallsrörið vera og svo ákvað ég að það yrði þarna.

Í fyrra þegar hann Peter gröfumaður kom til að fylla að grunninum á seinni útbyggingunni gekk hann um leið frá rörum fyrir þakvatnið. Þannig framkvæma Svíarnir það. Peter spurði mig með hraði hvort ég vildi láta niðurfallsrörin vera eins og ég hefði gengið frá þeim áður. Já sagði ég svolítið hissa. Allt í lagi sagði Peter og gerði svo eins og ég hafði gert áður og stillti upp plaströrunum sem taka við niðurfallinu. Svo var ekki meira með það.

Nokkru síðar kom Göran blikksmiður til að ganga frá þakrennum og niðurfallsföllum. Guðjón, sagði hann rólega og klóraði sér undir hökunni. Ertu viss um að þú viljir hafa niðurfallsrörin svona. Ég spurði hann hvað hann meinti. Já, veistu það að við látum niðurfallsrörin koma á hvíta hornið. Það er nú sænskt að gera það þannig því að það þykir falla betur að þessum hússtíl. Við gengum bakvið húsið og litum á fráganginn minn. Nei, það var fljótgert hvað mig áhrærði að gera þetta eins og Svíi. Mikill bölvaður klaufi hafði ég verið að athuga ekki hvort þetta væri regla. Hér hafði ég skapað mér aukaverkefni.


Peter stillti rörunum eftir mínum óskum og Göran setti niðurfallsrörin eftir mínum óskum og svo passaði ekki neitt. Þú getur lagað þetta næsta sumar sagði Göran en við björgum því þannig að það geti gengið í vetur. Í gær var ég að undirbúa stétt og hugsaði allan daginn um niðurföllin. Það gat bara ekki gengið lengur en ég hálf kveið fyrir greftinum og kannski líka hversu vel mér gengi að færa stútana. Þegar ég var tilbúinn með stéttarundirbúninginn nokkru fyrir hádegi í dag sótti ég hakann. Svo lagðist ég á hnén við fyrsta hornið, með haka og skóflu, og byrjaði. En bíddu nú við, ég þurfti ekki að grafa nema 30 sm.

Þetta skotgekk þrátt fyrir að hér í Krekklingesókn er ekki hægt að grafa utan að fá upp grjót, grjót, grjót. Ég ákvað að grafa allar fjórar holurnar í snatri og biðja Valdísi svo að koma út og segja álit sitt á einhverju. Þá mundi hún hæla mér fyrir dugnaðinn. En þegar ég var á fjórðu og síðustu holunni kom hún að mér í hamaganginum og spurði hvort ég ætlaði ekki að koma í mat. Æ æ! En hún hældi mér samt. Svo borðuðum við og svo skutumst við til Örebro til að kaupa 15, 30 og 45 gráu beygjur til að fá þessi blessuð rör til að passa saman.


Sannleikurinn er sá að þetta lítur hreinlega langtum betur út. Nú gat ég gengið einu sinni enn aftur á bak og verið ánægður með verkið.


Göran vissi örugglega hvað hann söng. Hefði Peter farið aðeins hægar fram og bent mér á hvernig Svíar gera þetta hefði hann sparað mér að skríða á jörðinni ári seinna. Ef ég hefði skoðað nokkur hús í nágrenninu og séð að allir gerðu þetta svona hefði ég líka sparað mér að slíta hnjánum á smekkbuxunum mínum. Nú er bara eftir að tengja þrjú niðurföll, greftinum er alla vega lokið og fyrsta tilraunin er gerð.


Þarna kemur átta fermetra stétt einhvern næstu daga. Næsta sumar á svo að koma pallur á hluta af stéttinni og snoturt handrið framan við dyrnar. Það á að verða huggulegt við aðalinnganginn á Sólvöllum. Þetta var allt þræl hugsað fyrirfram og það verður ekki neinn tvíverknaður við aðalinnganginn. Stéttirnar að húsabaki koma ekki til framkvæmda fyrr en næsta sumar. Gömlu niðurfallsuppsetningunni er ég viss með að breyta þegar ekkert verður að gera á Sólvöllum (Hvenær verður nú það).

Þetta með að Valdís þyrfti að hæla mér er reyndar aulabrandari en samt sem áður hælir hún mér oft og ég reyni að endurgjalda það. Og góður var lambaframparturinn sem hún bauð upp á í kvöldmat.

Umhverfisvænt

Það var síðastliðinn vetur að það mesta var á öðrum endanum hér heima. 40 m2 af gólfi, eða allt gólfið í gamla húsinu lá úti í skafli, bráðabyrgðaeldhúsið var í suðurendanum og svefnherbergið í norðurendanum og ekkert gólf á milli. Í fáeina daga þurftum við að fara út og svo hálfhring kringum húsið til að komast í eldhúsið og jafn marga daga þurfti að fara út til að komast í baðherbergið. Þá var auðveldara en ekki að fá óhreinindi inn um allt og það var ekki vandalaust að forðast skítinn inn í svefnherbergið, í þvottahúsið og á tvö önnur gólf sem þá voru ný.


Bara svo að fólk viti hvað ég er að tala um. Þessi mynd var tekin í byrjun febrúar þegar þeir Johan smiður hinn ungi og Anders smiður voru að enda við að henda út gólfinu. Myndin er tekin úr svefnherbergisdyrunum og dyrnar sem þá voru inn í bráðabyrgðaeldhúsið eru lengst frá til hægri.

Eitt sinn þegar við vorum í verslun á þessum tíma rákumst við af tilviljun á ódýrar mottur sem okkur sýndist vænlegar til að setja hingað og þangað til að forðast óhreinindin. Ég held að við höfum keypt einar fjórar mottur, mottur sem ekki mátti þvo, og svo ætluðum við bara að henda þeim. En þannig var málið að þessar mottur litu bara skínandi vel út þangað til þær voru orðnar alveg rosalega drullugar. Þá sagði Valdís að það hlyti að vera allt í lagi að reyna að þvo þær við lágan hita, það væri þá engu að tapa. Ég var alveg sammála. Við ryksugðum eina mottuna og svo var hún sett í þvottvélina.

Eftir einhverja stund fannsat Valdísi að þvottavélin hagaði sér eitthvað einkennilega. Hún stoppaði vélina og leit inn í hana. Þá lá þar haugur af einhverri virkilega ógeðslegri leðju og í þessari leðju var þvílik ógnar flækja af nokkru sem líktist snæri. Valdís varð skelkuð og hóf nú að tæma þvottavélina og var það heil mikið verk. Síðan losuðum við balann með þessum óþverra út bak við húsið og Valdís þrælaði lengi við að þrífa vélina. Hún var dauð hrædd um að hún væri búin að eyðileggja hana og að frárennsli mundi stíflast. Þessar áhyggjur voru að vísu óþarfar, bæði  þvottavél og frárennsli náðu sér eftir ósköpin.

Bakvið húsið lá viðbjóðslegur haugur. Leðjan sem ég nefndi áðan fannst mér líkjast hundaskít sem hefði verið hrærður út í vatni og leðjan svo gerð þykkri með kartöflumjöli. En eitt var víst að þessi haugur var mikið eitraðri en hundaskíturinn. Ég gekk í kringum viðbjóðinn og hugsaði sem svo að við vissum ekki alltaf hvað við værum að kaupa, og þó að við hefðum reynt að lesa á miðann sem hafði verið aftan á mottunni meðan hún var og hét, þá hefðum við ekki haft minnsta vit á hvað þær upplýsingar þýddu. Það er ekki auðlifað í þessum heimi og það finnst mikið af eiturefnum. Lífið er hættulegt. Ég varð hugsi eftir þetta því að ég vil ekki stuðla að því að eitra þennan heim nema sem allra, allra minnst


Í ágúst bloggaði ég um ullarferð til Stokkhólms og það blogg má finna hér. http://gudjon.blogg.se/2011/august/ullin.html  Í þessari ferð voru kynntar fyrir okkur umhverfisvænar vörur og vörur úr hreinni ull hljóta að vera eins umhverfisvænar og frekast má vera. Við fjárfestum fyrir mikinn pening í þessari ferð og gerðum það vegna þess að við vorum alveg 100 % viss um að varan sem við keyptum væri mjög hrein afurð. Sagan um mottuna hafði mikil áhrif á að þessi kaup voru gerð. Ég ætla ekki að endurtaka það sem finnst í blogginu um þessa ferð í ágúst, en nú ég ætla að kynna þessa vöru svolítið ef einhver skyldi hafa áhuga.


Hér er mynd af einu setti af ullarrúmfötum. Það er yfirdýna úr ull sem er fest með teygjuböndum á rúmið. Þessari yfirdýnu má líkja við tvö teppi sem eru fest saman með röndóttu köntunum. Svo er það koddaver úr alveg sama efni, fyllt með efni sem á að vera jafn umhverfisvænt og ullin. Að lokum er það sængin sem er eiginlega alveg eins útbúin og yfirdýnan utan að hún er 140 sm breið. Þetta lítur býsna mjúklega út eða hvað? Merinoullin er mjúk, það er óhætt að segja. Við notum ekki nein sængurver eða lök en við notum koddaver ef okkur skyldi nú dreyma að við værum að borða veislumat, þá kannski mundi renna munnvatn í koddana og við tímum því ekki.


Hér er svo aðeins meiri nærmynd. Mér finnst alla vega að mjúkleikinn sjáist all vel á myndinni, en kannski er það vegna þess að ég þekki þetta orðið. Ég get lofað að það var spennandi þegar við lögðum okkur í rúmið fyrsta kvöldið. Ég er 92 kíló, en þegar ég lagðist í fyrsta skipti í þennan mjúka feld fannst mér sem ég vegði ekki nema kannski helminginn af því. Það var dásamleg reynsla.

Hver er kosturinn? Jú, það er jafn hiti alla nóttina. Við drögum sængina upp að eyrum, upp að höku eða hnakka þegar við leggjumst útaf og svo er hún þar alla nóttina og hitinn er mátulegur og jafn á öllum líkamanum til næsta morguns. Við sofum í lengri áföngum og jafnvel óslitið alla nóttina. Þó að rúmfötin séu mátulega hlý lofta þau líka vel og skila svita í gegnum sig. Þessi rúmföt eru svo notaleg að það er sannkölluð tilhlökkun að leggja sig á kvöldin, tilhlökkun í viðbót við það að vilja fara að hvíla sig. Okkur verður hlýtt á fótunum á fáeinum mínútum eftir að við leggjum okkur. Þann mánuð sem við erum búin að hafa þessi rúmföt hef ég aldrei orðið syfjaður við akstur úr og í vinnu, en syfjan er mjög lengi búinn að vera ljóður á þessum löngu ferðum mínum áður. Þó tel ég að ég hafi sofið mjög vel á nóttunni áður líka. Seljandinn vill meina að rykmaurar þrífist illa eða ekki í ullarrúmfötum, en vísindin draga það mjög í efa.

Ég hringdi í sölumanninn daginn eftir að við pöntuðum rúmfötin og sagði honum að hann hefði trúlega gefið vissar villandi upplýsingar. Í lok þess samtals sagði hann einfaldlega að hvað sem öllu liði mundum við verða mjög ánægð með kaupin þegar við yrðum farin að nota vöruna. Þar hafði hann rétt. Rúmfötin skulu helst ekki sett í þvottavél. Best er að viðra þau vikulega og við viðrun hreinsar ullin sig. Svo er til nokkuð sem heitir ullarsjampó og það er gott að úða því nokkrum sinnum á ári á rúmftin og ryksuga svo. Það má líka einfaldlega ryksuga án þess að hengja út til viðrunar. Þetta lætur kannski sem lygasaga en það er bara svona sem það er. Ég veit ekki hvort þessi vara er til sölu á Íslandi.

Íslenska ullin skiptist í tog og þel. Ég ímynda mér að þelið sé jafn mjúk ull og sú sem er í þessum rúmfötum. Góða nótt.

Haust

Það eru miklir haustlitir um þessar mundir og mikið er til af laufi til að skarta þessum litum. Eikurnar eru mikið grænar ennþá og beykin eru ekkert farin að láta á sjá. Fleiri tré eru í þessum hópi sem ennþá afneita haustinu og þökk sé þeim. Það mýkir komu þessa árstíma og þó að litir séu fagrir finn ég nú sem endranær fyrir trega yfir að eitt sumar ennþá er að baki.


Þarna á bakvið húsið nær skóginum datt þessari birkiplöntu í hug að festa rætur sínar. Ekki á hún sér mikla framtíð þar sem á þennan stað á að koma gangstétt næsta vor eða sumar. Eins og sjá má heldur hún ennþá græna litnum. Kannski veit hún að mér þykir vænt um litinn hennar og reynir þar með að biðja sér griða þegar að stéttarlagningunni kemur. Þegar ég skrifa þetta dettur mér í hug að ég ætti að flytja þessa litlu birkiplöntu á einhvern góðan stað út í skógi að vori og þakka henni þar með fyrir samveruna.

Í dag meðan birkiplantan streyttist móti haustinu skiptum við Valdís um hjól undir bílnum og nú er hann tilbúinn til vetraraksturs. Skrýtið hvað það er leiðinlegt að koma sér af stað með þessi hjólaskipti en svo þegar verkið er hafið tekur það enga stund. Grannarnir hafa slár út í gamalli hlöðu í seilingarhæð þar sem geyma má eina fjóra ganga af dekkum. Fremri sláin er merkt lengst til vinstri. Þar setndur nafnið "Guðjón". Vinalegir grannar þetta.


Þessi mynd er tekin 2. október. Grasið er álíka grænt ennþá og á leiðinni heim frá Örebro í dag talaði Valdís um að það væri of blautt til að slá. Þar með er vitað hvað hún ætlar sér að gera þegar þornar. Ég tel mig þokkalegt snyrtimenni en sjáið stólinn sem er á hvolfi til hægri á myndinni. Ég er að taka eftir honum núna þegar ég skrifa þetta. Ég þarf líklega að fara að endurraða í mér snyrtigenunum.


Það hefur ekki verið smíðað á Sólvöllum um nokkurra vikna skeið og loks í gær komum við því í verk að fá heim nokkra kassa af ýmsu dóti sem var í geymslu í Örebro. Þar á meðal voru könnurnar hennar Valdísar sem nú eru komnar upp á skáp í nýja herberginu/stofunni. Það er einstaka gripur sem hún er búin að koma fyrir þarna. Skáphurðirnar eru fjórar og ein er spegill. Það kemur reyndar betur út í reynd en það sýnist gera á myndinni. Ef við sitjum beint á móti speglinum blasir hús nágrannanna vel við og allt sem þau aðhafast okkar megin utandyra. Það var ekki meiningin en það bara varð svona þegar til kom. Þegar það koma góðar gardínur fyrir gluggann á móti verður þetta minna áberandi enda erum við ekki í neinni þörf fyrir að fylgjast með hverju fótmáli þeirra.


Svo verð ég nú að vera með á einni mynd. Það var líka sófi með í flutningnum sem við fengum heim í gær. Þegar til átti að taka fundum við bara alls ekki pískinn en það var til áhald sem gat komið í hans stað. Það er sænsk hrífa. Þessi sænska hrífa kom að góðu gagni við að slá rykið úr sófanum áður en við tókum hann inn. Ég barði han í krók og kring þangað hausinn á sænsku hrífunni brotnaði.

Ert þú ellilífeyrisþegi?

Upp úr hálf tíu í gærmorgun lagði ég af stað í vinnu til að vera að vera að heiman í 28 tíma. Þegar ég kom í Vornes byrjaði ég á að hitta hana Annelie hjúkrunarfræðing. Hún gaf mér skýrslu um þá sem höfðu verið skrifaðir inn síðan ég var þar tæpum þremur dögum áður. Þessi skýrsla var mikilvæg fyrir mig þar sem fyrir mér lá að vera að mestu einn með þessu fólki meiri hluta helgarinnar. Hún dvaldi lengst við Jón og lýsti honum fyrir mér. Það er heppni að þú vinnur þessa helgi sagði hún þar sem ég er alveg hand viss um að þið passið vel hvor fyrir annan. Síðan gekk ég inn á reykherbergið á sjúkradeildinni, herbergi sem ég vil þó helst ekki koma inn á.

Þar heilsaði ég bæði kunnugum og ókunnugum mönnum og konum. Maður einn þar inni hafði rólegt og góðlegt yfirbragð og það var ekki um að villast að þar var Jón. Ég gekk til hans, rétti honum hendina og sagði; komdu sæll Jón. Hann stóð upp og heilsaði og spurði: Ert þú ellilífeyrisþegi? Hvernig dettur þér það í hug? Spurði ég á móti. Lít ég út fyrir að vera svo gamall? Hann kímdi og sagði að ég liti ljómandi vel út sem ellilífeyrisþegi. Hann er tveimur árum yngri. Hann langaði að vita hvað ég gerði þarna og nú veit hann það.

Sjúklingarnir sjá um morgunverð á laugardögum og sunnudögum. Ég lít alltaf nákvæmlega yfir hvernig þau ganga frá eftir morgunverðinn og sannleikurinn er sá að þau ganga afar vel frá eftir sig. Svo gef ég þeim einkunn. Eftir þessa athugun mína í morgun byrjaði morgunfundurinn þar sem ég þakkaði fyrir morgunverðinn og gaf þeim einkunnina. Ég byrjaði þó á því að segja að það væru aðeins tvö tækifæri þar sem ég leyfði mér að vera alvarlega vondur maður í vinnunni. Það væri á laugardags- og sunnudagsmorgnum þegar ég með refsaugum mínum reyndi að finna ágalla við fráganginn eftir morgunverðinn. Ég vissi að þeim finnst ég ekki vera vondur maður þó að þau séu stundum hrædd við mig. Þess vegna brustu þau í snöggan hlátur þegar ég sagði þetta. Þau fengu "mikið vel viðurkennt" fyrir fráganginn. Síðan byrjaði alvarlegi hluti þessa morgunfundar.

Hvað ætli ég sé svo að segja með þessu? Það er á mörkum þess sem ég má segja um vinnuna mína. Það sem ég er að segja er að ég hef góða vinnu. Annars mundi ég ekki nenna þessu og sérstaklega ekki að aka svo langar leiðir sem ég þarf að gera. Eins og Jón taldi með réttu, þá er ég nú sannnarlega ellilífeyrisþegi. Konan mín er líka svo duglega að taka þátt í þessu með því að vera oft ein heima. En við bíðum betri tíma á nýju ári þegar ég kem til með að vinna mun mikið minna eða hreinlega hætta. Byggingarvinnan er líka komin á rólegra stig og er meira orðin tómstundasmíði.

Mér lá dálítið á þegar vinnunni lauk seint í hádeginu og hún Susanna ráðgjafi leysti mig af og verður í vinnunni þangað til um hádegi á morgun. Við Valdís ætluðum að vera í Fjugesta klukkan hálf þrjú. Ég skilaði henni að safnaðarheiminu í Fjugesta en sjálfur fór ég til að kaupa dísilolíu á bílinn og til að taka út vasapeninga í hraðbanka. Síðan ók ég rólega um Fjugesta svolitla stund til að sjá mig um og svo hélt ég að safnaðarheimilinu þar sem ég gekk inn.

Þegar ég leit inn í samkomusalinn sá ég mikið af rosknu fólki sem gæddi sér á kræsingum af kökuhlaðborði. Þetta kom mér á óvart enda er ekki svo algengt að Svíar bjóði upp á kökuhlaðborð. Ég gekk inn að borðinu og virti fyrir mér kræsingarnar. Þar sem ég er nú einn af Kálfafellsbræðrum leist mér hreint alveg rosalega vel á brúnu súkkulaðiterturnar og bláberjapæið sem var við hliðina á könnunni með vanillusósunni. Ég stakk hundraðkalli í tágakörfuna á borðinu eftir að ég hafði talaði við konu sem var þarna til þjóðnustu reiðubúinn. Fólk var þarna að safna fyrir fátækt fólk í Afríku. Världens barn.

Meðan ég var að borða af fyrri kökudiskinum var kynntur maður úr sveitinni utan við Fjugesta, en hann hafði unnið við hjálparstörf niður í fátækustu Afríku. Það kom fram að þessi maður var aldraður augnlæknir og hann sýndi fjöldan allan af skyggnum frá starfinu þar. Hann sýndi bæði börn og fullorðna sem höfðu skaðast á augum og mörg andlitin litu vægast sagt alvarlega út. Hann sýndi augnaðgerðir út í guðsgrænni náttúrunni, jafnvel á matarborði eins og Esra læknir notaði á Kálfafelli þegar hann fjarlægði af mér litlafingurinn fyrir meira en sextíu árum. Það sem þessi maður sýndi var svo rosalega alvarlegt að ég var kominn á fremsta hlunn með að byrja nað gráta. Ég man ekki hvort það var fimmta eða sjötta hver kona sem fæðir barn sem deyr af barnsförum þarna. Það var að vísu ekki litið svo alverlegum augum vegna þess að það voru konur sem dóu. Það fyllti mælinn endanlega.

Og þarna sat ég og borðaði súkkulaðitertur. Ég fann að ég var byrjaður að svitna af sykrinum, en áður en læknirinn kom að þessu síðasta og svo hrikalega alvarlega, var ég búinn að sækja á annan kökudisk. Þá var ég líka farinn að velta því fyrir mér hvar Valdís eiginlega væri stödd á þessari stundu. Um það leyti sem ég var farinn að finna sykur- og súkkulaðibragðið með allri húðinni lauk þessi góðlátlegi læknir máli sínu, læknir sem hefur mótast af að vinna við hjálparstörf niður í fátækustu Afríku. Þá var það kynnt að "Hafa það gott kórinn" í Fjugesta ætlaði að syngja nokkur lög. Strax þar á eftir lét Valdís veskið sitt detta í kjöltu mína, en hún hafði þekkt mig á baksvipnum konan sú þegar hún kom ásamt kórnum sínum inn í salinn að baki okkur öllum.

Kórinn stillti sér upp og þarna í miðjum kórnum stóð kona ein brosandi og ánægð. Það var fiskimannsdóttirin frá Hrísey sem var svo kvíðin þegar við lögðum af stað frá Sólvöllum til Fjugesta einum klukkutíma fyrr. Ég sá vel að kvíðinn var runninn út í sandinn og eftir var kona sem var laus við allar hömlur og tók lifandi þátt í söngnum. Kórstjórinn og stofnandi kórsins er góðmenni sem býr eina 300 metra hér norðan við okkur, en við þekkjum hann ekkert sem nágranna. Han fer bara hér framhjá öðru hvoru á bláa Renó sendiferðabílnum sínum og hann á stóran hund, svo stóran hund á hann, að hundurinn skellti honum um koll inn í skógi fyrir einhverjum vikum og þess vegna gengur hann við tvær hækjur. En honum þykir vænt um hundinn sinn og hefur því löngu fyrirgefið honum þennan dálítið grófa leik.

Ég verð að nefna mann einn sem stóð næstum lengst fram til hægri í kórnum. Hann er trúlega ellilífeyrisþegi, einir tveir metrar á hæð, breiður yfir herðarnar, vöðvamikill og dálitið þykkur undir belti. Mjög sterkan bassa hefur þessi maður og þegar hann beitti bassanum getur maður svo sannarlega sagt að salurinn fylltist af rödd hans. Síðasta lagði sem þau sungu var "Rússnesk vísa", sett saman af fjórum eða fimm vísum. "Hej!" var sungið kröftuglega undir lok hverrar vísu. Þá varð þessi stóri maður svo svifléttur þar sem hann dansaði og það var sem einungis tærnar snertu gólfið fislétt. Söngur getur greinilega gert kraftaverk. Ég sá það bæði á konunni minni og bassamanninum mikla. Þar sem þessi stund í safnaðarheimilinu í Fjugesta spilaði á tilfinningar mínar kom ég aftur við hjá tágakörfunni á tertuborðinu. Ég setti í hana peninga sem eiga að geta gefið fleiri en einni móður sem fæðir barn niður í fátækustu Afríku hreint vatn til að þvo sér upp úr. Þar með eiga þær meiri möguleika á að halda lífi.

Sjónvarpsmessan

Sjónvarpsmessan í morgun var fín, reglulega góð. Það var eins og venjulega þegar sjónvarpsmessan hefur verið góð að allar mögulegar hugsanir fóru af stað og ég skal viðurkenna að helst hefði ég viljað setjast við tölvuna strax eftir messuna og byrja bloggið sem ég er nú að byrja á hátt í sex tímum seinna. Ég ætla að gera tilraun til að komast inn í andagiftina sem ég fann mig í um það leyti sem messunni var að ljúka.

Snemma í messunni las unglingur ritningarorð, ljóshærð stúlka með uppsett hár og á þessum ljósbláu, þröngu gallabuxum sem táningar klæðast. Og þó að hún væri ung og væri á gallabuxum fór henni vel að gera þetta. Hún minnti mig á hana Guðdísi dótturdóttur mína, en ég hafði verið að skoða myndir af henni skömmu áður en ég fór að horfa á messuna. Stuttu síðar í messunni var sunginn sálmurinn Ó stóri Guð, sálmurinn sem hefur verið þýddur á fleiri tungumál en nokkur annar sálmur svo þekkt sé. En svo skrýtið sem það nú er hefur okkur Valdísi ekki tekist að sjá að þessi sálmur hafi verið þýddur á íslensku eða að hann sé sunginn þar. Hafi ég rangt fyrir mér vil ég gjarnan vita það.

Ég hef nefnt þennan sálm eða lofsöng áður í blogginu mínu, en höfundur textans er prestur að nafni Carl Moberg og það var mikið þrumuveður sem hann upplifði á eyjunni Oknö austan við suður Svíþjóð sem gaf honum innblásturinn að þessum fallega texta árið 1885. Lagið er sænskt þjóðlag. Hér má heyra sálminn http://www.youtube.com/watch?v=gPwIiR7nUx0&feature=related

Nítján ára þeldökk kona steig fram og sagði sögu sína. Faðir hennar kom til hennar fyrir þremur árum síðan í landi sem hún ekki nefndi. Hann spurði hana hvort hún mundi vilja flytja með sér til lands sem héti Svíþjóð. Henni var brugðið við þessa spurningu og spurningin setti hana í mikinn vanda. Stærsti vandinn var að hún kunni ekki eitt einasta orði í tungumáli þessa lands. Hún sneri sér til prestsins síns og spurði hann hvað hún ætti að gera í þessu máli. Hann ráðlagði henni að spyrja Guð og hún spurði Guð en hún sagði ekki hvernig samskipti hennar við hann um þetta mál fóru fram. En hún fékk svar og svarið var að hún skyldi fara. Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífi mínu sagði hún að lokum og það var ekki annað að heyra á máli hennar en að sænskan væri hennar móðurmál.

Þegar þarna var komið hugsaði ég til sjálfs mín og langra andvökunótta á Laugarnesvegi 47 áður en ég fór fyrst til Svíþjóðar. Sálarástand Valdísar var svipað en við ræddum það ekki mikið þá. Ég ræddi þetta alls ekki og gekk með áhyggjur mínar í hljóði og vissi vel að ef við nýttum okkur ekki það tilboð sem við höfðum fengið, fengjum við slíkt tilboð aldrei framar. Við vorum of fullorðin til að tilboð um vinnu í öðru landi bærist oftar en einu sinni. Við skruppum í heimsókn að Kálfafelli rúmum mánuði áður en ég lagði af stað út. Í þeirri ferð komum við við hjá henni Steinunni föðursystur minni á heimili aldraða í Vík. Hún spurði hvort ég kviði ekki fyrir. Nei, svaraði ég, ég kveið ekki fyrir. Ég held að hún hafi verið ein um að spyrja mig um þetta og auðvitað hefði heldur ekki verið rétt af mér að bera áhyggjur mínar upp við gamla konuna sem þá var orðin ekkja. Ég held varla að hún hafi trúað mér.

Undir messunni varð mér hugsað til Fríðu systur minnar þegar hún fór á lýðháskóla í Svíþjóð fyrir meira en fjörutíu árum síðan. Og það var ekki nóg fyrir hana að koma til Arlanda flugvallar í Svíþjóð. Það var engin einföld leið að taka sig þaðan til lýðháskólans langt vestur í Värmland. Ef ég man rétt fór Jón Sveinsson út með haustskipinu og mömmu hans barst bréf með vorskipinu þar sem hann segir frá því að hann hafi komist alla leið til Kaupmannahafnar. Það má ætla að margir í þessum sporum hafi upplifað sínar andvökunætur.

Í predikun sinni talaði presturinn um það að hann hafi á ungum árum vantað eitthvað æðra og sterkara til að sækja kraft til. Og hann gaf gott dæmi um að þessi kraftur finnst um allt og nefndi nokkrar stórar og stæltar furur sem stóðu við heimili hans á þessum árum. Á erfiðum stundum gekk hann út og horfði á þessi stæltu tré sem lifðu af vinda og kalda vetur og stóðu af sér raunirnar. Svo tóku þau á móti sól og sumri þegar þar að kom og rauðbrúnn börkurinn endurkastaði sólargeislunum og háar krónurnar vörpuðu skuggum á landið í kring. Fyrir honum var þetta eitthvað svo stórt að raunir hans urðu litlar. Það er hægt að finna andlegheitin á margan hátt og ég mun nota mér þessi orði prestsins í fyrirlestur á þriðjudaginn kemur.

Ég horfði ekki á neinar furur á erfiðum stundum en ég hugsaði oft með mér að í kvöld setst sólin að vanda en hún muni líka koma upp á morgun og þá verði ég enn á lífi. Það var styrkur í því. Árin í Svíþjóð áttu ekki að verða svo mörg en þau hafa orðið fleiri en okkur óraði fyrir og þær eru margar stæltu fururnar sem hafa orðið á vegi okkar og hafa með mætti sínum fyllt okkur af aðdáun þegar vindar blása og háar krónurnar sveiflast í viltum dansi. Við sjáum ekki eftir ákvörðun okkar frekar en þeldökka stúlkan í messunni þó að ákvörðuninni hafi fylgt margar hliðar.

Andagiftin sem ég fann fyrir eftir messuna kom ekki til baka þegar ég leitaði hennar undir kvöldið. Það er þannig með andagiftina að hún kemur að eigin köllun en hún kemur ekki eftir annarra kröfum. Hún er auðmjúkari en svo.

Syndaselur

Í meira en ár hefur eiginlega allur kraftur verið settur í að gera einfalda sumarbústaðinn sem við keyptum 2003 að einbýlishúsi. Ekki er þeirri vinnu lokið, en það er ekkert lengur sem hreinlega "verður" að gera í dag eða alla vega sem allra, allra fyrst. Húsið er orðið mjög vel íbúðahæft og mjög gott hús að auki. Allan tímann sem þetta hefur staðið yfir hef ég líka verið í all mikilli vinnu á mínum gamla vinnustað, þeim vinnustað sem ég ætlaði að hætta að vinna á í mars 2007.

Það er svo notalegt að kúra aðeins lengur í rúminu á morgnana þegar ég get gert það með góðri samvisku og geta áhyggjulaust talið plöturnar í loftinu eða horft einu sinni enn og einu sinni enn á hvernig ég munstraði þær fyrir þremur og hálfu ári. Þá er ég að tala um það sem fyrst var byggt út og átti að verða eina og síðasta stækkunin á Sólvallahúsinu. Það var einmitt þetta sem ég gerði í morgun, alveg áhyggjulaust, og um leið hvíldi ég mig og bjó mig þannig undir að vera í mikilli vinnu í næstu viku.

Ég ætlaði svo sem ekki að liggja í leti allan daginn, gleymdu því bara. Svo fórum við seint á fætur og tókum langan, langan tíma í morgunverðinn. Það var ekki fyrr en um ellefu leytið sem ég fór út, skipti um annan kjálkann á betri hjólbörunum, tók mér haka í hönd og skóflu og byrjaði að grafa burtu jarðveg framan við aðalinnganginn og hreinsa þannig ofan af þykku malarlagi sem er skammt undir grassverðinum á allri lóðinni í kringum húsið. Ég var með þessu að undirbúa að helluleggja stétt framan við forstofuna. Svo borðaði ég léttan hádegisverð.

Það fór auðvitað eins og genjulega þegar maður tekur sér haka og skóflu í hönd hér í Krekklingesókn að grjótið sló á móti hakanum í fjórða hvert skipti sem ég barði jörðina með honum. Ég valdi að fjarlægja þessa miðlungs stóru steina til að þeir mundu ekki seinna fara að stinga kollinum upp í hellurnar og lyfta þeim. Þegar ég var kominn bara lítillega af stað með þetta verk fann ég að ég hafði tekið því nokkuð rólega allra síðustu vikurnar. Mér fannst þetta erfitt og ég varð móður. Oj, hvað ég var linur af mér. Ég studdi mig fram á hakann og reyndi að finna afsökun fyrir linkunni og svo hélt ég áfram svolitla stund og svo stoppaði ég aftur.

Ég setti mér markmið til að ljúka við áður en Annelie og Kjell kæmu, en þau eru miðaldra hjón sem við hittum æði oft. Svo komu þau um hálf tvö leytið og þá hafði ég ástæðu til að skipta um föt og fá mér af nýju jólakökunni sem Valdís bauð upp á. Kjell hafði ekki séð húsið all lengi þannig að ég var eins og sperrtur hani við að sýna honum og útskýra allt mögulegt. Kannski átti ég von á hrósi í staðinn og það vantaði ekki á það þegar Kjell barði allt þetta nýja augum.

Sannleikurinn er sá að þegar ég byrjaði aftur eftir þessa heimsókn, þá hafði mér aukist Ásmegin. Nú gekk mér vel að grafa og ég þeytti hakanum hátt á loft til að koma honum djúpt niður með grjótinu sem ég hreinsaði burtu og ég varð ekki lengur móður. Í morgun vissi ég ekki hvort ég mundi ljúka þessum áfanga í dag, en honum er einfaldlega lokið. Ég náði líka að taka inn alla málningu sem ekki má frjósa og koma henni í skáp í þvottahúsinu. Það er nefnilega spáð frosti í nótt.

Eftir kvöldmatinn vappaði ég fram og til baka hér innan dyra og stoppaði oft við eldhúsbekkinn. Þar geymdi Valdís í dunk næstum því heila jólakökuna sem við fengum okkur af í dag. Jólakakan dró og hún dró og að lokum hellti ég kaffi í bolla og gerði það þannig að það heyrðist vel hvað ég var að gera. Svo þegar ég fékk mér af jólakökunni fór ég hljóðlega og lét sem ég væri bara að fá mér svona smá sopa af kaffinu þarna við eldhúsbekkinn. Ég áttaði mig fljótt á því að þetta líktist feluleiknum fyrir meira en 20 árum þegar það voru mikið alvarlegri hlutir en jólakaka sem ég var að laumast með.

Ég færði mig að matarborðinu og borðaði þar jólakökuna næstum því við hliðina á Valdísi þar sem hún horfði á sjónvarp. Ég var með hálf vonda samvisku og svo stóð Valdís upp vegna þess að rjómaísinn í frystinum dró hana til sín. Svo syndguðum við bæði og ég olli syndinni eins og höggormurinn í Eden forðum. Ég var það snemma á ferðinni með jólakökuna að ég mun væntanlega ekki fá brjóstsviða þegar ég legg mig í kvöld í kærkomið rúmið til að hvíla mig fyrir athafnir morgundagsins. Ég fer þó ekki í vinnu fyrr en á mánudag.

Það var bellís sem lýsti upp lífið

Ég kom heim úr vinnu rétt fyrir hádegi í gær, fimmtudag, og taldi mig þokkalega á mig kominn þó að ég hefði ekki sofið meira en tæpa fimm tíma. Það voru líka margir í húsinu og það voru óvenju margir ónógir sjálfum sér kvöldið áður þannig að það var mörgu að sinna. Ég var ánægður með sjálfan mig fyrir að vera svo hress, ég segi ekki montinn, en vel ánægður.

Seinni partinn í gær skiptist veður í lofti og ég varð þreyttur. Í gærkvöldi ætlaði ég því einfaldlega að horfa á sjónvarp og slappa vel af. Ég horfði ekkert á sjónvarp en svaf og hraut sessunaut mínum væntanlega til mátulegrar ánægju. Ég undurbjó mig því einfaldlega fyrir að leggja mig í rúmið en vantaði þó eiginlega burði til þess. Mér tókst þó að ljúka því sæmilega af og þegar ég lagðist á koddann um tíu leytið ákvað ég að láta klukkuna ekki hringja þó að rafvirkinn Patrik ætlaði að koma um hálf áttaleytið að morgni til að ljúka hér nokkrum smáverkefnum. Svo sofnaði ég.

Nokkrum sinnum rumskaði ég í nótt og var ekki nógu ánægður með svefninn. Þegar mér fannst morgun vera að nálgast leit ég á klukkuna og sá þá að koma rafvirkjans nálgaðist óðfluga. Klukkan var að ganga átta. Ég dróst lúinn fram úr rúminu og ákvað að líta í tölvuna og vakna yfir nokkrum fyrirsögnum á RÚV.is og Eyjan áður en ég gerði fleira. Fyrirsagnirnar voru um vitlausar ákvarðanir, ósætti, uppsagnir og vandræði. Ég tók ákvörðun um að steinhætta að opna RÚV.is á morgnana því að það væru bara óþægilegar fréttir að hafa þar. Ég var alls ekki í góðu skapi fann ég og ætlaði að bæta það á annan hátt -vera jákvæður.

Þegar ég var búinn að draga upp um mig sokka og buxur og girða niður skyrtuna sá ég að ég mundi fá svolítinn tíma til að undirbúa komu rafvirkjans því að hann kom greinilega ekki á tilsettum tíma. Ég sagði honum líka í gær að það væri í lagi mín vegna. Svo fór ég út með umbúðir til að setja með öðru rusli á kerruna. Það var hrein veðurblíða en þó ekki bjart yfir. Ég komst ekki hjá því að skynja það þrátt fyrir allt. Svo sneri ég mér frá kerrunni til að ganga til baka og þá skeði það.


Þessi bellis, önnur uppskera þessa árs, blasti við mér þarna í grængresinu og smáranum í hinni sönnu haustblíðu. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að eyða deginum í fýlu. Svo lítið blóm, aðeins á stærð við lítið auga, tekur völdin og segir að dagurinn sé góður. Svo verður hann góður.

Patrik kom og eitt og annað smávegis komst í lag og það breytti svo miklu hér heima. Gaman. Patrik var ekki alveg á sömu fleygiferðinni og oft áður, en hann vann verk dagsins af iðjusemi. Með hádegismatnum smakkaði hann á harðfiskinum sem Valgerður færði okkur um daginn og hann alla vega fölnaði ekki, en hann sagði heldur ekki að hann væri sérstaklega góður. Svo fékk hann sér aðra smá flís og svo vann hann klárt það sem fyrir lá að gera.

Lars eldri og Lennart litu við í hinni daglegu gönguferð ellilífeyrisþega byggðarlagsins. Lars var með æxli í höfðinu og hluti af því var fjarlægður á sjúkrahúsi í Uppsala í vor. Hann var aftur orðinn stöðugur á göngu og nánast búinn að eindurheimta jafnvægið. Við Lennart skoðuðum útihurðina sem var svolítið föst í karminum. Hann skrapp þá heim og sótti sérstök áhöld og svo lagfærði hann hurðina. Góður kall Lennart og það er ekki í fyrsta skipti sem hann er okkur hjálplegur. Svo töluðum við um Jämtland og sumarhúsið hans þar. Hann fékk stjörnur í augun að vanda þegar talið berst þangað. Þegar allir voru farnir fórum við Valdís út að anda að okkur veðurblíðunni. Valdís fór að slá og ég fór að bera alls konar greinar í gryfju út í skógi.

Ég sagði í bloggi um daginn að "ég gæti það" en ég væri ekki spenntur fyrir því. Það er að segja að vinna fulla vinnu í fjóra mánuði. Stundum verkar það vera afar mikilvægt sem ég inni af hendi í vinnunni og stundum er það bara mátulega mikilvægt. Það var afar mikilvægt sem ég ann af hendi í fyrradag og í gærmorgun, það sem gerði mig svo þreyttan. En nú er það búið og gert og það eru nýjir dagar framundan. Það er einn ákveðinn dagur sem ég verð að fá fyrir okkur sjálf og fá þá frí í vinnu. Það er síðasti vinnudagurinn af þessum fjórum mánuðum. Það er föstudagurinn 30 desember.

Þann dag erum við Valdís búin að vera gift í 50 ár. Þetta ræddum við í dag og þegar ég var í einni ferðinni út í skóg með fangið fullt af greinum datt mér í hug það sem stendur í Heimsljósi um öldruðu hjóninn á Giljum þegar Ólafur Kárason gekk fram á þann bæ sem hann  vissi ekki að væri til. Þegar við hættum úti tók ég fram Heimsljós og las.

"Þegar bóndinn var spurður hve leingi hann hefði búið, leit hann á konu sína og sagði:
Mamma, hvað eru árin orðin mörg?
Við höfum hokrað hérna í rösk fjörutíu ár pabbi minn, sagði konan.
Þá svaraði bóndinn gestinum og sagði:
Og fjörutíu höfum við bollokað árin."

Og ég gat ekki að mér gert að lesa svolítið meira og þá næstum því í bókarlok og það er sama kona sem þar er talað um.

"Þegar börnin hennar gáfu upp öndina eftir erfitt dauðastríð færði hún þau í hvítan hjúp og slétti úr hverri fellíngu með samskonar umhyggju og hún væri að búa til veislu. Hún grét þegar hún stóð yfir moldum þeirra, síðan fór hún aftur heim til þeirra sem lifðu. Önnur kvaddi hún í túngarðshliðinu þegar þau lögðu á stað útí heiminn. Beinunum af Helgu dóttur hennar skolaði upp á eyri rúmu ári eftir að hún hvarf. Gamla konan gekk sjálf á eyrina og tíndi upp beinin, og það voru önnur lítil bein, hún saumaði utanum þau öll og lagði þau í kistustokk og fylgdi þeim til grafar og gekk síðan aftur heim til að elska þá sem lifðu. Í þessu húsi ríkti elskan. Þannig var mannlífið að eilífu stærst, - brosa með barni sínu þegar það hlær, hugga það þegar það grætur, bera það dáið til moldar, en þerra sjálfur tár sín og brosa á nýaleik og taka öllu eftir röð án þess að spyrja fram eða aftur; vera öllum góður.
Þegar ég lít yfir mína umliðnu ævi, sagði gamla konan, þá finnst mér það hafi allt verið einn langur sólskinsmorgunn."

Hvað segir maður svo. Að sjálfsögðu byrja ég sjálfur að vera hljóður. Ég geri ráð fyrir því að skáldið hafi talað út frá því sem hann vissi að hefði verið líf margra. Lífið er sterkt og heldur áfram þó að oft blási á móti. Þegar ég hugsa til gömlu konunnar hef ég hef haft svo gott líf að ég hef ekki leyfi til að vera í morgunfýlu. Þeir sem standa fyrir hinum endalausu neikvæðu fyrirsögnum hafa heldur ekkert leyfi til að haga sér eins og þeir gera.

Þegar ég var að skrifa þetta ætlaði ég að lesa vísdómsorð dagsins í dag í bókinni Kyrrð dagsins. En ég rakst á vísdómsorðin frá 19. september og gat ekki sleppt þeim. Þau minna mig á að ég fann bellis út á lóð í morgun. Þau eru sögð af E. B. White ( 1899 - 1985) og hljóða svo:

"Sólargeisli er lýsir inn í rökkrið, ljúfir tónar, angan úr hálsakoti ungbarns. . . .
Þetta er það sem skiptir máli í lífinu."

Þetta skipti gömlu konuna á Giljum máli og það skiptir okkur öll máli og ætti að minna okkur á hugtakið "gildismat".

Stokkhólmsferð síðustu helgina í september

Við lögðum af stað heim frá Stokkhólmi um  hádegisbil i dag, þriðjudag, og ætluðum að stoppa eftir þriðjung leiðarinnar heim og taka olíu og fá okkur kannski eitthvað að drekka. Þegar við komum á þennan ákveðna stað var Valdís sofnuð og mér fannst ekki spurning um að við héldum áfram á stað þar við yrðum komin tvo þriðju hluta leiðarinnar. Þegar þangað kom ákváðum við í sameiningu að fara bara alla leið og taka olíu í Örebro þegar við værum næstum komin alla leið heim. Þessi síðasta ákvörðun gekk eftir. Síðustu 20 til 30 kílómetrana varð mér mikið hugsað til þess hversu "rosalega" það yrði notalegt að koma heim og fá sér svolítið í svanginn.

Svo þegar heim kom fengum við okkur fiskisúpu, harðfisk, jógúrt og að lokum kaffi og mjólkurkexið gamla ferkantaða frá Íslandi. Valgerður kom nefnilega færandi hendi og okkur datt ekki í hug að taka það upp fyrr en við værum komin heim. Svo vorum við mett og svo voru nokkur atriði sem við þurftum að sinna og nú er ég sestur hér við tölvuna og byrjaður að blogga. Það er eins og fyrri daginn að ég get ekki þagað yfir neinu.


Upp úr klukkan níu á sunnudagsmorgun lögðum við Valdís af stað til Arlanda til að taka á móti Valgerði dóttur okkar sem var að koma í stutta heimsókn til Stokkhólms. Við vorum vel í tíma og gátum fengið okkur bláberjapæ með kaffibolla á flugvellinum áður en fólk frá Íslandi fór að tínast inn í gegnum tollinn. Vert þú með myndavélina sagði Valdís og svo stilltum við okkur innan við innganginn. Og þarna kom Valgerður og mamma hennar hálf hljóp á móti henni og ég smellti af mynd. Svo héldum við með það sama af stað til Stokkhólms.


Þegar við höfðum heilsað upp á fólkið, fengið okkur gott kaffi og góðgæti með því átti að skipta um föt á barnabarninu Hannesi Guðjóni. Hann slapp frá smá stund og það stóð ekki á því að hann byrjaði að atast í afa sínum og reyndi að hræða hann með hestinum sem amma gaf honum um daginn. Afi var auðvitað skíthræddur við hestinn og Hannesi fannst það alveg dásamlega gaman.


Þessi atburður var tekin á filmu og Valgerður móðursystir fylgdist með. Hannes var dálítið á varðbergi móti henni til að byrja með og vildi fá tilfinningu fyrir þessari frænku sinni áður en hann gaf sig nokkuð á hennar vald.


Það var aðeins meiri friður yfir fyrsta fundinum milli Hannesar og ömmu en það var milli Hannesar og afa. Þessar ömmur eru þannig að litlir drengir vilja gjarnan halla sér móti þeim og bara finna fyrir mannlegri hlýju.


Það kvöldaði og Pétur stóð í eldhúsinu og annaðist matargerð með aðstoð hjálpsamra handa. Ég, sjálfur afi, reyndi að vera aðeins með í þessu og lagði á borðið. Svo var að taka mynd. Hannes hjúfrar sig að mömmu með handleggina um háls hennar, mæðgurnar sitja hlið við hlið og Pétur fylgist með þessu fólki sem á rætur að rekja til Hríseyjar. Þegar ég var búinn að taka tvær myndir færði ég diskinn minn og tók mér sæti við endann móti Pétri. Svo borðuðu allir glaðir.


Nóttin milli sunnudags og mánudags var að baki og við fórum í bæinn en Pétur í vinnuna. Hannes var byrjaður að kynnast frænku sinni frá Vestmannaeyjum og svo brugðu þau á leik á gangstéttum Stokkhólms, mamma, Hannes og Valgerður frænka. Afi gamli varð að hálf hlaupa til að geta verið á undan og tekið myndir og amma átti fullt í fangi með kerruna að hafa við þessu fríska fólki. Það var gaman, gaman.


Við komum við á leikvelli þar sem Hannes og fjölskylda eru tíðir gestir. Hannes var eins og heima hjá sér og þarna er hann skipstjóri og stendur framan við brúna og kynnir fleyið sitt fyrir konunum sem eins og áður eiga rætur að rekja til Hríseyjar, eyjarinnar þar sem sænsku síldarhúsin stóðu áður og fiskur var og er dreginn að landi og gerður að gjaldeyri. Sænsku húsin sagði ég, og þarna erum við á sænskri grund og í nánum tengslum við landið sem eitt sinn byggði hús í eyjunni þar sem við öll eitt sinn bjuggum.


Doktorinn frá Hrísey settist á bak fílnum á leikvellinum meðan sonurinn lék sér undir eftirliti ömmu og Valgerðar frænku.


Skömmu síðar vorum við komin að afar blaðfögru kastaníutré og forstöðumaður Visku í Vestmannaeyjum, einnig frá Hrísey, ásældist ávexti kastaníutrésins og hristi greinar þangað til ávextirnir féllu niður. Innan í þessum ávöxtum eru fallegar hnetur og nokkrar þeirra voru settar í plastpoka til að skoða síðar. Svona hnetur eru seldar í Svíþjóð fyrir jólin.


Svo auðvitað komum við í heimsókn til "höfuðstöðva" Pinkpuffin, fyrirtækisins hennar Rósu. Þetta er líka vinnustaður Péturs þegar hann er ekki í Uppsala eða að kenna við háskólann þar, og einmitt þennan dag var hann að vinna þarna. Þeir sitja þarna við tölvu feðgarnir Pétur og Hannes Guðjón. Hannes er ennþá svolítið minni og því í hvarfi við föður sinn. Þrjár mæðgur eru þarna innst í salnum.


Bíddu nú við? Hver er ekki þarna á hlaupum fyrir miðri mynd á miðju Sergilstorgi, aðaltorginu í Stokkhólmi. Heyrðu, það er enginn annar en barnabarnið mitt hann Hannes Guðjón Pétursson. Mikið var hann búinn að hreyfa sig og hlaupa þennan dag þessi drengur. Ég var nú bara svolítið öfundsjúkur.


Það var dags að fá sér sæti og góðan kaffibolla. Við fengum okkur kaffibolla þarna á kaffihúsinu hans Magnúsar Jökulssonar frá Islandi. Við höfðum ekki verið á Rhodos, Kanarí eða Mallorca. Við höfum bara verið á rölti á götum Stokkhólms, heimalands flestra okkar sem vorum þarna saman komin þennan dag. Stundum varð ég ögn latur á göngunni en svo sagði einhver eitthvað eða eitthvað bar fyrir augu sem kom mér í gang að nýju. Þegar ég nú hugsa til gærdagsins þarna á götum Stokkhólms finnst mér sem þetta hafi verið einn virkilegur sólskinsdagur. Ég veit ekki hvernig minningin mundi vera frá Rhodos, Kanarí eða Mallorca, en minningin um þennan Stokkhólmsdag er afar góð.

Ps. Það voru margar myndir að velja úr. Hún Valdís kemur líka til með að setja myndir á Flickrsíðuna sína.
RSS 2.0