Sögu vil ég segja stutta

Þegar ég varð sænskur ellilífeyrisþegi árið 2007 byrjaði ég líka að taka út íslenska lífeyrinn minn hjá lífeyrissjóðunum. Ég ætlað nefnilega að hætta að vinna þá og fara að taka lífinu með mikilli ró og gera umönnun á eigninni Sólvöllum að aðal atvinnu minni. Ellilífeyrinn frá tryggingastofnun ætlaði ég síðan að byrja að taka út árið 2009 þegar ég fyllti 67 ár eins og ég gerði.
 
Í þeirri fullvissu að ég þyrfti ekki að gefa upp á sænskri skattaskýrslu ellilaun frá Íslandi gerði ég það heldur ekki. Svo liðu árin. Þegar ég fékk sænsku skattaskýrsluna heimsenda til undirskriftar í vor, þá leit ég á nokkur atriðið i leiðbeiningahefti sem alltaf fylgir henni. Þar rak ég allt í einu augun í það að mér bæri að gefa upp tekjur frá öðru landi og í vissum tilfellum gæti þurft að greiða skatt af þeim tekjum. Á sjálfri skattaskýrslunnin fann ég svo ferning til að krossa í ef ég fengi svona tekjur. Í þann ferning krossaði ég þá í fyrsta skipti og svo var ég ánægður með mig.
 
Fyrir nokkrum vikum fékk ég bréf frá Adam nokkrum hjá sænsku skattayfirvöldunum sem tjáði mér að ég þyrfti að gera grein fyrir þessum tekjum og ég svaraði því samviskusamlega í bréfi. Nokkru síðar fékk ég aftur bréf frá Adam þar sem hann tjáði mér að ég þyrfti að greiða skatt af lífeyristekjunum frá íslandi. Mér sortnaði fyrir augum, sjáandi það að ég þyrfti þá væntanlega að greiða skatt af öllum árunum frá maí 2007. Það er álíka upphæð og þarf til að kaupa nýjan fólksbíl af miðlungsstærð og greiða út í hönd.
 
Ennþá einu sinni sendi ég Adam upplýsingar og þá um nákvæmar tekjur staðfestar með pappírum frá Íslandi og hversu mikið ég hefði greitt í skatt þar árið 2014. Skattgreiðsluna á Íslandi átti síðan að draga frá sænsku álagningunni. Hér er enginn persónuafsláttur þannig að það munaði lítið um það. Og í siðasta bréfinu frá Adam fékk ég svo nákvæman útreikning á því hversu mikið ég átti að greiða í þennan óvænta skatt fyrir árið 2014. Það voru heil mánaðarlaun á all góðum launum. Og svitinn rann.
 
En! -á tveimur stöðum í bréfinu kemur fram að þetta gildi aðeins fyrir þá sem fluttu til Svíþjóðar eftir 5. apríl 2008 og byrjuðu að fá ellilaun frá Íslandi eftir sama tíma. Ég var langt á undan í báðum tilfellum.
 
En nú var ég orðinn svo var um mig að það tók mig tíu daga að byrja að trúa þessum góðu tíðindum. Um helgina samdi ég bréf til Adam þar sem ég útskýrði fyrir honum að ég væri sigurvegari í báðum tilfellunum. Í dag, mánudag, hringdi ég til hans og það var í þriðja skiptið vegna þessa máls, og ég sagði að ég væri með tilbúið erindi til að senda honum og hvernig allt væi í pottinn búið.
 
Já sagði hann, þá þarft þú ekki að borga skatt af þessu eða neinu öðru frá Íslandi og munt aldrei þurfa að gera það. Þá loksins gekk það upp fyrir mér svo óyggjandi væri að ég hafnaði ekki í gjaldþroti. Ég var farinn að vita með höfðinu að svo væri en það gekk ekki niður til hjartans fyrr en hann sagði það berum orðum.
 
Ég verð að segja um Adam að hann var aldeilis ótrúlega viðræðugóður og þægilegur embættismaður í öll skiptin sem við töluðum saman í síma. Bréfin frá honum voru líka notalega skrifuð og ég held reyndar að hann hafi grunað allan tímann að ég mundi af einhverjum ástæðum ekki þurfa að greiða þennan skatt. Allt þurfti bara að vera á hreinu.
 
Ég segi frá þessu í of löngu máli en ég hef líka gaman af að skrifa um þetta og hvernig það leystist. Svo skrifa ég líka um þetta þar sem það er gott fyrir fólk sem er að fá greiðslur milli landa að geta séð þetta. Ég nefnilega veit að ýmsir eru óvissir varðandi þetta mál.
 
Gangi ykkur allt í haginn.
 
Ps. Og svo hætti ég aldrei að vinna.

Á gömlum slóðum í Falun, Svärdsjö og Svartnes

Min bernskuspor í Svíþjóð voru stigin upp í Dölum og ég þreytist aldrei á að geta þess að ég hef saknað Dalanna alla tíð síðan við Valdís fluttum þaðan árið 1997. En þannig er það bara og verður ekki aftur tekið, en Dalirnir finnas ætíð fyrir mig að heimsækja þó að ég geri það ekki nógu oft. Ég var á þessum slóðum nú síðustu daga og ég ætla að fara í gegnum það sem við Susanne gerðum þar þriðjudaginn 1. september.
 
 
Við fórum þokkalega tímanlega heiman að frá honum Uno sem býr bókstaflega mitt í skóginum utan við Borlänge sem er skammt sunnan við Falun. Uno kom að sjálfsögðu með okkur.
 
 
 
Sem fyrsti áfangi var skíastökkpallurinn í Falun sem er mikið mannvirki og getur gengt fleiru en að vera skíðastökkpallur. Þaðan er einnig mikið útsýni yfir Falun og stórt svæði þar í kring. Hér sjáum við á að giska til suðurs.
 
 
Og hér meira mót suðaustri.
 
 
 
Hér sjáum við yfir vatnið Runn með öllum sínum eyjum og annesjum, allt skógi vaxið og erfitt að ná góðri mynd af.
 
 
 
Frá Falun héldum við upp til Svärdsjö og á myndinni stend ég framan við gamla bústaðinn okkar Valdísar.
 
 
 
Hér stöndum við Uno á tröppunum við sóknarhúsið sem stendur örstutt frá Svärdsjökirkju. Þar voru AA fundirnir haldnir á árum áður og eru kannski enn í dag.
 
 
 
Upp í Svartnesi tók ég fyrstu myndina af gamla kaupfélagshúsinu þar sem engin verslun er rekin lengur. Ekki veit ég til hvers þetta hús er notað í dag, en eitt er víst; því er afar vel við haldið.
 
 
 
Kirkjan í Svartnesi.
 
 
 
Húsið í Svartnesi sem alla vega við Íslendingarnir kölluðum Stóra. Í þessu húsi svaf ég nokkrar vikur og þar var gott að vera utan að þegar timburbílarnir fóru þar um snemma á morgnana, þá var erfitt að sofa.
 
 
 
Við sóttum heim gamla vinnustaðinn minn þar sem meðferðarheimilið Saga Svartnes var til húsa þar til fyrir tæplega tuttugu árum. Margt er þar svipað og annað gerbreytt, en það er alla vega létt að þekkja sig á staðnum. Stóllinn sem nú stendur innan við gamla aðalinnganginn í dag var þar ekki áður, en mér þótti gaman að setjast þar og fá mynd af mér.
 
Í mörg ár var reynt að nota þessi húsakynni í Svartnesi fyrir allt mögulegt. Ég á auðvelt að minnast enn í dag dagsins þegar við Gísli Stefánsson ókum heim þaðan 16. júní 1996 eftir síðasta vinnudaginn okkar þar. Það var sorgardagur og að góðu meðferðarheimili var lokað var svo sannarlega sorglegt. Ég hef komið þangað í all nokkur skipti síðan meðferðarheimilinu var lokað og alltaf fundið fyrir þessari sorg. Ég kom þangað fyrir tveimur árum og viti menn; Svartnes hafði fengið nýtt hlutverk. Og þegar við komum þangað núna hafði þetta hlutverk haldið áfram að þróast fram á við. IOGT rekur þar starfssemi sem miðar að því að hjálpa fólki sem kerfið á erfitt með að finna stað. Það er að segja fólk sem hefur hafnað á milli stólanna. Þetta fólk fær að búa í Svartnesi við mannsæmandi skilyrði þar til farvegur er fundinn fyrir það. Því finnst mér í dag að Svartnes sinni á ný göfugu hlutverki.
 
 
 
Ég kem aldrei í Svartnes án þess að heimsækja mann sem ég ber mikla virðingu fyrir. Hann heitir Asbjörn. Þarna stendur hann fyrir miðri mynd og ræðir við samferðafólkið mitt.
 
 
 
Asbjörn er 91 árs gamall. Hann hefur lífsglampa í augunum og er góður viðræðu. Á stríðsárunum barðist hann sem ungur maður móti Þjóðverjum. Sá dagur kom sem hann hafði komist í svo mikla ónáð hjá þjóðverjum að það var einungis eitt fyrir hann að gera ef hann vildi halda lífi; að flýja yfir Kjöl til Svíþjóðar eins og margir Norðmenn neyddust til að gera. Asbjörn kom til Svartnes þar sem honum var vel tekið og hann fór aldrei heim til Noregs aftur. En ann telur sig samt Norðnmann og Norðmaður vill hann vera.
 
 
 
Þetta skilti er við útidyrnar hjá Asbjörn. Í Svartnesi hitti hann Ingrid og þau urðu ástfangin. Ingrid dó fyrir all nokkrum árum en Asbjörn býr ennþá í húsinu sem þau byggðu og heldur öllu í góðu standi. Komdu inn, sagði hann, en þegar hann vissi að við værum þrjú saman dreif hann sig í skóna og kom út og talaði við okkur dágóða stund, beinn í baki og glaður í lund. Haltu áfram að koma við hjá mér þegar þú ert á ferð sagði hann við mig þegar við kvöddum hann. Það ætla ég að gera. Ég ber mikla virðingu fyrir þessum manni.
 
Eftir heimsóknina til Asbjörn héldum við heim á leið til Uno. Á leiðinni heim sagði hann að það hefði þurft að koma Íslendingur til að sýna sér hluti sem hann hefði aldrei séð áður.

Daginn eftir Rusakula, Nora, Uskavi

Við Susanne vorum á ferðinni í gær og mér getur tekist að segja langa sögu af því. Það var dúna logn, glampandi sól og mælirinn í bílnum sýndi 26 gráður. Sem sagt einn af þessum sænsku sumardögum sem ekki geta verið betri.
 
Þessa ferð ákváðum við fyrir nokkrum dögum. Súsanne hefur lítið farið hér í kringum Sólvelli, Fjugesta og Örebro. Það var kominn tími til að sýna henni eitthvað. Ég ákvað að sýna henni Rusakula, Nora og Vötnin þrjú sem eru á Norasvæðinu. Við ákváðum líka að hafa með morgunverð, vel smurt brauð og kakó á hitabrúsa. Svo stakk ég í laumi niður postulínsdiskum og hnífapörum til að þurfa ekki að éta úr hnefa upp á þessum besta útsýnisstað sem Rusakula er í Örebroléni. Svo varð morgunverðurinn að hádegisverði líka.
 
Þessi mynd er mjög léleg en það var líka erfitt að taka mynd beint á móti sól þarna uppi í gær. Rusakula er ekki nema 265 metra yfir hafi en samt er mikið útsýni þar, útsýni yfir stóran hluta af Örebroléni. Hægt er að sjá þaðan í kíki ákveðinn kirkjuturn sem er í 75 km fjarlægð. Það þætti ekki svo mikið upp í Jämtland en það er samt dágóður spölur. Ljósu svæðin á myndinni eru akurlönd og svo eru stöðuvötn inn á milli.
 
Það er eins og annars staðar í Svíþjóð að kringum Rusakula eru víðáttumiklir skógar sem teygja sig yfir holt, hæðir og hnjúka og klæða landið í feld sem gefur góð lífsskilyrði. Að sjá ekkert fyrir skógi segja sumir en ég sé alla vega skóginn og fyrir mér er það lífsgæði.
 
Á auðum svæðum er mikið af beitilyngi sem gefur lit og í gær glitraði það í sólskininu. Þetta beitilyng vex kringum klapparhornið sem Rusakula er.
 
Við vorum hissa á því að flest fólk kom sem snöggvast þarna og fór snöggt til baka. En svo birtist bíll sem kom nær en aðrir bílar. Honum var lagt í rólegheitum og út steig kunnuglegt fólk. Þar voru komin Robban og Gihta. Gihta er ein af konunum fjórum sem borðaði með Valdísi einu sinni í mánuði í fjölda ára. Gihta er finnsk og er eitt af þeim tugþúsunda barna sem voru flutt til Svíþjóðar á stríðsárunum og mörg áttu aldrei afturkvæmt. Þau komu með nesti, borðuðu það og héldu svo aftur heim á leið. Tvær konur komu svo með nestistösku með sér og biðu rólegar eftir að komast á bekkinn og tóku hann yfir þegar við Susanne fórum.
 
Við komum til Nora. Þar var ótrúlegur aragrúi af fólki hreint um allt. Í Nora er seldur ís sem er sagður besti ís í landinu og það var greinilega seldur mikill ís á þessum fallega sumardegi. Við fengum okkur auðvitað ís sem var eiginlega eftirrétturinn eftir máltíðina á Rusakula, en myndin sem við héldum að við hefðum tekið af vel útilátnum ískrúsunum okkar finnum við ekki.
 
Ég legg alltaf leið mína í kirkjuna í Nora þegar ég kem þangað og svo gerðum við nú. Ég hef tekið mynd af altarinu þar en núna tók ég mynd af því sem við sáum á leiðinni út. Það er svalt og gott í kirkjum á heitum sólskinsdögum þar sem útveggirnir eru ótrúlega þykkir. Þessi kirkja er byggð á árunum 1878 til 1880. Það hafa verið snögg handtök á þeim árum.
 
Frá Nora ókum við norður til vatnsins Usken og komum við í Uskavi að áliðnum degi til að fá okkur fyrsta kaffi dagsins. Þar var líka erfitt að taka mynd á móti sól eins og á Rusakula en ég læt þessa mynd fara samt. Það er ótrúleg náttúrufegurð við Vötnin þrjú.
 
Þessi mynd er í aðra átt af sama stað, undan sól. Mikið væri gaman að geta tekið myndir af náttúrunni akkúrat eins og hún er en mér er það ekki fært.
 
Í húsinu þarna uppi fengum við gott kaffi og kærkomið. Við vorum farin að tala um að við yrðum að fá okkur kaffi áður en við kæmumst i vont skap og okkur tókst það. Með kaffinu fengum við stóra köku sem var bragðbætt ríkulega með hindberjum og bláberjum og svo fengum við ískúlu á kökuna. Þegar við komum til Uskavi áttaði Susanne sig á því að hún hafði verið þar fyrir sjö árum með syni sínum sem þá var í sumarbúðum fyrir unglinga.
 
Svo bað ég Susanne að taka af mér nærmynd undir gríðar stórri krónu blóðbeykitrés. Það var undir þessari krónu sem við drukkum kaffið og borðuðum stóru kökurnar. Við vorum þarna á stað sem tekur 70 mínútur að aka til frá Sólvöllum ef farið er beint og meðan við drukkum kaffið sagði ég við Susanne að mér þætti sem ég væri kominn til útlanda. Náttúran hér í landi er afar breytileg.
 
Það nálgaðist kvöld og við héldum heim á leið eftir ótrúlega góðan dag. Það var mikið að segja eftir þennan dag, við þurftum ekki meira en svo til að breyta til. Þegar við lögðum okkur í gærkvöldi ætlaði Susanne að lesa nokkrar síður og ég ætlaði að segja eitthvað þegar hún hætti að lesa en mér fókst það ekki. Ég sofnaði svo fljótt að ég man varla eftir að hafa lagst á koddann. Ég var ekki meiri selskapur en svo það kvöldið.
 
 
 
Nú sit ég við tölvuna snemma að morgni en Susanne sefur hljóðlátum svefni. Á morgun, mánudag, á hún að vinna fram á seint kvöld og byrja eldsnemma daginn eftir. Hún ætlar því að sofa á vinnustaðnum þar sem nóg er af lausum herbergjum. Hún ætlar að sofa á efstu hæðinni þar sem enginn býr núna. Þar bjó áður bílstjórinn sem var kominn á tíræðisaldur. Hann sótti við út í víðáttumikla skógana meðan hann var fullfær til vinnu og þá voru ekki nýmóðins kranar á vörubílunum eins og í dag. Þá máttu menn gjöra svo vel að koma viðnum á bílana með handafli og sjálfsagt eihverri frumstæðari tækni líka. Hann var rammur að afli höfðu börnin hans sagt. Nú var hann maður kominn að síðustu dögum lífs síns og hann vissi það. Hann hafði ekki lengur lyst á mat.
 
Susanne spurði hann hvaða matur honum hefði þótt bestur gegnum lífið. Hann sagði henni það og það var matur þar sem uppistaðan líktist kannski íslenska blóðmörnum. Súsanne fór sérstaklega út í búð og keypti í þennan mat sem hún matreiddi svo handa honum. Svo mataði hún hann. Svo illa var nú komið fyrir þrælsterka vörubílstjóranum. Hann mumlaði ens og barn þegar hann borðaði eftirlætismatinn sinn. Svo borðaði hann aldrei meir.
 
Það er nú best að vera vel úthvíldur í vinnunni sinni.
 
Þegar við vorum á leið til Rusakula var hringt frá Vornesi. Geturðu unnið á mánudag og þriðjudag var ég spurður og sem skýringu fékk ég að fólk væri veikt. Ég kem til með að vinna og ég ætla að gera eins og Susanne og sofa á vinnustaðnum. Hvers vegna skyldi ég aka 150 kílómetra til að sofa eina nótt. Ég hef sjaldan gert þetta þegar ég hef unnið dagvinnu í Vornesi en hef gert það nokkrar nætur upp á síðkastið. Ég veit að þessi mikli akstur er ekki alveg hættulaus og hann er meira þreytandi fyrir mig en vinnan.
 
Ég vann langa helgi í Vornesi um síðust helgi og hafði upplýsingafund með fólki sem kom á sunnudeginum til að heimsækja ættingja sína og fjölskyldumeðlimi. Það er mikil alvara ríkjandi hjá þessu fólki og það verður hreint ekki sagt að það geri að gamni sínu á þessum upplýsingafundum. Það er við svona tækifæri sem mér þykir vinnan mín gríðarlega mikilvæg og að ég verði að vera mikið samviskusamur starfsmaður.
 
Ég veit ekki hvers vegna yngra fólkið sem getur átt mig að föður er svo mikið veikara en ég, en kannski þyrfti það að borða meiri blóðmör og sofa meira á nóttunni. Ég legg mikla áherslu á bæði matinn minn og nætursvefninn og ég reyni að rækta sem best samvisku mína á AA fundunum í Fjugesta. Ég á erfitt með að neita þessari vinnu þó að ég mundi svo gjarnan vilja hafa meiri tíma til að snurfusa kringum mig heima, hreinsa illgresi og grisja skóg. En ég trúi líka að blanda af þessu öllu saman sé best. Svo getum við Susanne farið með nestistöskuna okkar á fallega staði meðan sumarið endist til að krydda lífið. Það þarf kraft og samviskusemi til að mata þá deyjandi og til að rétta þeim hendina sem vilja draga sig upp úr alkohólismans miklu eymd.
 
Mikið getur ein dagsferð orðið að löngu máli.

Nýir tímar fyrir svolítið ringlaðan mann

Það var heil mikið að muna í morgun áður en við Susanne lögðum af stað til Fjugesta til að æfa í salnum hjá sjúkraþjálfaranum. Eftir það ætluðum til Västerås þar sem hún ætlaði að heimsækja mömmu sína. Með tösku í annarri hendinni og hrein föt á vinstri handleggnum stóð ég í útidyrunum og mundi þá eftir farsímanum. Ég sneri við og leitaði á venjulegustu stöðunum þar sem síminn er oftast en fann ei. Ég tók heimasímann og hringdi í farsímann sem eftir nokkrar sekúndur byrjaði að titra í hendinni undir hreinu fötunum. Lætur þetta kunnuglega fyrir nokkurn? Varla. Stundum óska ég þess að geta gringt í myndavélina mína, bíllyklana eða peningaveskið til að þurfa ekki að leita.


Hvar var farsíminn spurði Susanne lítið seinna. Ég vissi að ég gæti búið til skröksögu kringum þetta en gerði það ekki. Vid höfum talað um að skrökva aldrei að hvort öðru, ekki heldur um smáatriðin. Svo héldum við til Fjugesta og höfðum gaman að þessu með farsímann.


Öllum stærri verkefnum er lokið á Sólvöllum en margt smátt eftir. Það er að komast á jafnvægi. Ég hef líka minnkað við mig vinnu og Susanne er flutt þó að hún eigi eftir að fara í gegnum mikið af búslóð sinni.  Ég er mikið þakklátur fyrir heilsu mína og nú er kominn tími til að ég taki tíma til að varðveita þá heilsu sem ég hef, að ég taki ábyrgð. Því er ég byrjaður að æfa í tækjasal hjá sjúkraþjálfaranum í Fjugesta. Susanne er með í þessu og þarf þess með. Við höfum líka farið rækilega gegnum mataræði okkar og Susanne hefur þar forystu. Það eru nýir tímar og skemmtilegir sem okkur tekst vonandi að gera að lífsstíl til frambúðar.


Við vorum búin að æfa og komin af stað til Västerås. Við komum við í Staðarskála eins og ég hef lengi, lengi kallað ákveðinn stað og fengum okkur piparkryddaðan reyktan lax. Þegar við vorum setst sá ég hvíta sósu á diskinum hjá Susanne. Ég spurði hana hvar hún hefði fengið sósuna og hún benti á sams konar sósu sem var á diskinum hjá mér og sagðist hafa fengið hana á sama stað og ég hefði fengið mína sósu. Símaævintýrið endurtók sig sem sagt með nokkurra klukkutíma millibili. Það er eins gott að það er að komast á jafnvægi.
 



Ég sit á Kalle På Spången í Västerås og bíð eftir Susanne. Hún ætlar að koma hingað eftir heimsóknina til mömmu og þá ætlum við að fá okkur kakó og langlokur sem veitingamaðurinn hér er snillingur í að framreiða. Það var hér sem við hittumst í fyrsta skipti eftir að hafa ekki sést í nokkur ár. Það var 27. Nóvember síðastliðinn þannig að ferillinn hefur gengið hratt fyrir sig. Of hratt höfum við oft spurt hvort annað en við höfum ekki getað séð það.


Nú er það að verða ónauðsynlega persónulegt má ætla, en hvað um það. Við höfum nefnilega verið spurð hvort það hafi ekki gengið vel hratt fyrir sig. Við erum ekki í neinum vandræðum með að tala um hlutina. Susanne segir oft: "En hvað við höfum það gott." Já, svo er það og við erum ábyrg fyrir miklu. Við erum ábyrg fyrir því að halda áfram að hafa það gott svo lengi sem skaparinn ekki ákveður eitthvað annað.

 
 
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá Kalle på Spången. Komið þið til Västerås är Kalle góður valkostur.
Kalle på Spången er auðvitað hann Kalli Kalli Kalli Kalli frá Hóli.
 
 
 
 
 
 
 
 

Morgunstund í Östersund

Ég fór frekar snemma á stjá í morgun og byrjaði á því að skoða myndir sem ég hef tekið síðustu dagana. Að fara yfir þessar myndir var upprifjun á því ferðalagi sem við Susanne höfum átt saman síðan 20. júlí þegar við lögðum af stað að heiman áleiðis norður í Jämtland. Nú erum við í Östersund og Östersund er álíka norðarlega og Vestmannaeyjar. Að vera í Östersund segir jú að ég hef komið upp í miðja Svíþjóð því að þessi bær er nokkuð nálægt því að vera í Svíþjóð miðri, bæði frá suðri til norðurs og frá austri til vesturs. Hafi ég draum að skoða megin hluta Svíþjóðar á ég mikið eftir þar sem ég hef á tuttugu og einu ári farið lauslega yfir helminginn af landinu.
 
Það er útsýnisturn á Frösön sem er eyja í Storsjön, en Östersund stendur við Storsjön, fimmta stærsta stöðuvatn í Svíþjóð. Storsjön hefur marga ála og sund sem teygja sig ótrúlega fagurlega um skógi vaxið hnjúkótt landslagið. Á Frösön stendur svo hluti af Östersund. Myndina tók ég í gær þegar við Susanne vorum upp í þessum turni, vorum þar lengi, fengum okkur góðar veitingar og vorum uppnumin af því sem við sáum. Við sáum fjall sem heitir Åreskutan og er skammt norðan við þekkta skíðastaðinn Åre. Åreskutan blasti mjög vel við í 80 km fjarlægð. Minna áberande var Snåsahögarna sem eru inn í Noregi og í 115 km fjarlægð en þeir sáust þó vel þangað til skúraleiðingar drógu inn yfir fjallakeðjuna.
 
 
Þessa mynd tók ég af veröndinni á bústaðnum sem við bjuggum í á Kolåsen upp í fjalllendinu um 30 km fjarlægð frá norsku landamærunum. Kolåsen er 50 til 60 km norðar en Östersund og ég giska því á að hann sé álíka norðarlega og Fljótshlíðin. Bústaðurinn sem við bjuggum í þar er í tæplega 500 metra hæð yfir hafi. og mikill og all hár laufskógur var þar uppi blandaður með stöku greni og furutrjám. Þessi gróður heillar mig gersamlega. Í þessari hæð klæðir skógurinn lægri fjöllin yfir efstu toppana sem mér finnst alveg dásamlegt að sjá. Svo voru önnur fjöll upp í 800 metra hæð og mikið meira og þar eru enn skaflar. Á myndinni má greina blágresið í lággróðrinum.
 
Veðrið hefur leikið við okkur. Við höfum fengið margar útgáfur af veðri en alltaf hefur verið logn. Það hefur verið suddarigning og það hefur verið úrhellisrigning en í fyrsta lagi hefur verið þurrt í lofti og oft glampandi sól, það hefur verið stuttskyrtuveður. Skógar og annar gróður er afar frísklegur og grænn þar sem vætan er meiri en í meðalári.
 
 
Að lokum er hér til gamans ein nærmynd af blágresi tekin nálægt kapellu á Kolåsen sem á vegskilti er kölluð Lappakapellan. Lappakapellan væri efni í heilt blogg. Að dvelja á stað eins og Kolåsen sem er á mörkum óbyggðanna verður fyrst gott ef maður setur sig inn í söguna og aðstæðurnar. Því erum við búin að kaupa bók um þennan stað sem á að vera kominn í pósthauginn sem bíður okkar heima.
 
Nú bíður okkar að borða síðbúinn morgunverð sem við sjáum um sjálf og svo bíður góða veðrið okkar og trúlega sigling með gufubáti á Storsjön.

Að berjast fyrir landið sitt

Við Susanne vorum á leið norður á bóginn frá Orsa í Dölunum til Sveg í Härjedalen þar sem við áttum pantað lítið huggulegt hús til að gista í eina nótt. Susanne er góður bílstjóri, hefur gaman af að keyra bíl og mér er ljúft að láta hana um að keyra. Svo hvíli ég hana inn á milli. Í þessum áfanga er farið um 125 km langan veg sem svo sannarlega liggur óslitið í gegnum skógi vaxið landssvæði. Staður einn sem líklega liggur nokkuð miðja vega á þessari leið heitir Noppikoski. Þetta eru einungis fáein hús mitt í skóginum og að koma þangað er alls ekki að koma út úr skóginum. Þar stoppuðum við vegna þess að þar eru snyrtingar sem eru mikilvægar fyrir þá sem eru á langri ferð.
 
Nokkra kílómetra norðan við Noppikoski sagði Susanne snögglega; nei, þarna er orkuver. Þá var hún þegar komin framhjá skiltinu. Langar þig til að sjá það spurði ég og hún hafði áhuga fyrir því. Endilega sagði ég, en ég veit varla hvers vegna ég fékk allt í einu svo sterkan áhuga fyrir að sjá sænskt raforkuver. Hún sneri við við næsta mögulega tækifæri og svo fórum við inn á þriggja kílómetra langan malarveg sem liggur að uppistöðulóni þar sem stendur á skilti "Nappikoski kraftverk".
 
Það má segja að þegar við komum þangað hafi við orðið þess áskynja að þar væri ekki svo mikið að sjá. Sjálft stöðvarhúsið var einhverjum kílómetrum neðar. Steinsteypta stífluna sáum við varla vegna þess að hún var mikið til hulin undir brú sem liggur yfir árgljúfur sem hefur verið gert að uppistöðulóni. Við röltum yfir brúna eins og af rælni og svo til baka. Þá sá ég nokkuð sem vakti áhuga minn.
 
 
Stuttu neðan við stífluna var dálítill pollur eða tjörn, kannski á stærð við fáein íbúðarhús, og þar eftir tók við uppþornaður árfarvegur þar sem rauðbrúnir steinar lágu næstum eins og einir og yfirgefnir. Þetta vakti upp minningar.
 
Þegar ég var um tvítugt og árin þar á eftir var mikið um fréttir í íslenskum fjölmiðlum um mótmælaaðgerðir i Svíþjóð. Mótmælin þá fólust í því að trufla sem allra mest framkvæmdir við byggingu nýrra orkuvera. Fólk safnaðist saman og njörvaði sig fast við vinnuvélar, stórgrýti og hvaðeina það sem þurfti að hreyfa við þegar vinna hæfist. Fólk raðaði sér og lá þar sem tæki furftu að fara um og gerði sem sag allt sem það mögulega gat til að vera fyrir og trufla.
 
Ekki man ég gerla hvaða áhrif þessar fréttir höfðu á mig en ég er viss um að ég var undrandi. Ég er líka viss um að mér þótti það mikil dirfska að gera þetta og ég held að ég hafi sveiflast milli þess að telja að orkuverin væru mikilvægari, en líka að þetta fólk berðist fyrir mikilvægum málstað sem ég skildi ekki. Þar sem við Susanne stóðum þarna á brúnni fann ég mig knúinn til að segja henni frá þessu, en hún er það mikið yngri að hún man ekki eftir þessu virkjanastríði. Og eitt er víst að við það að segja henni frá þessu og að vera þarna á staðnum og sjá með eigin augum aðstæðurnar, það fékk mig að skilja til fullnustu hvað málið snerist um. Gamla laxveðiáin hafði verið þrrkuð upp.
 
Þetta minnti mig líka á frétt sem ég sá í sjónvarpi fyrir nokkrum árum þar sem sýnt var hvernig eldri menn á vöðlum upp að mitti króuðu laxa af neðan við stíflu við uppistöðulón. Þeir böxuðu við að handsama laxana og setja þá í plastkör með vatni í. Síðan fluttu þeir laxana upp fyrir stífluna, hversu langt man ég ekki, en þar áttu þeir að hrygna og sjá til að það yrðu til seiði ofan mannvirkjana. En þeir vissu líka að flest seiðin sem mundu komast á legg mundu enda líf sitt í túrbínum raforkuversins þannig að þessi vinna þeirra mundi ekki skila svo markverðum árangri. Kannski voru þar á ferðinni einhverjir mannanna sem áratugum áður létu keðja sig fasta við risastórar skurðgröfur vegna þess að þeir vildu að landið ætti áfram fossa og flúðir og að laxinn fengi að halda áfram að hrygna í sænskum ám.
 
En hvað sem öllu líður og hversu veikt eða sterkt minni mitt er um þessa atburði, þá er eitt víst að hugarfar Svía breyttist svo mikið við aðgerðirnar að mönnum dettur ekki í hug í dag að reyna að virkja hvernig sem er og hvar sem er. Samt er til mikið af vatni og fallhæð sem hægt er að virkja og það finnast líka kraftar sem gjarnan vilja virkja.
 
Morguninn eftir heimsóknina til uppistöðulónsins fékk ég sendan hlekk á Feisbókinni frá íslenskri konu sem býr í Svíþjóð, henni Evu, og hafði ekki hugmynd um hvað ég hafði aðhafst eða hugsað daginn áður. Þessi hlekkur leiddi mig svo fram til greinar sem höfundurinn Árni Snær kallar "Í landi hinna klikkuðu karlmanna". Mikið varð ég hissa þegar ég las þessa grein svona alveg í kjölfar upplifana minna og hugleiðinga daginn áður.
 

Ferðast þar sem skógurinn virðist endalaus.
 
 
Þetta var útsýnið meðan ég skrifaði og ég undi glaður við það. Það rigndi og það var notalegt, annars hefði ég verið meira á ferðinni. Ég lærði í brúarvinnu á sjötta áratugnum að regnið er róandi og gefur tilfinningu fyrir að ég hafi allt lífið framundan. Þannig er það líka í dag.

Kvöldþankar frá byggðarlaginu Mattmar, Jämtland í Svíþjóð

Ég sit norður í Jämtland hjá nágrönnum sem ég hef ætlað að heimsækja lengi. Þessir nágrannar eiga hér sumarhús sem líka gæti vel verð heilsárs hús. Að heimskja þetta fólk hingað var komið upp þegar á síðustu árum Valdísar en það bara varð ekki. Ég var líka búinn að vera með það í huga að ferðast norður til héraðs sem heitir Härjedalen. Ég hafði lesið talsvert um þetta hérað og hreifst af ýmsu þar sem mig langað að sjá með eigin augum. Ég bloggaði fyrir sjö árum um áhuga minn fyrir Härjedalen og eiginlega gerði ég heil mikið mál af þessum áhuga mínum. Við Valdís, Rósa og Pétur skoðuðum árið 2007 Härjedlashús á Skansinum í Stokkhólmi. En ég fór aldrei norður þangað.
 
Það var um miðjan vetur sem við Susanne byrjuðum að tala um ferð norður í land. Hún er dálítið kunnug í Jämtland og því byrjaði umræðan fljótlega að snúast um ferð þangað og þá kom þetta upp á ný með að heimsækja nágranna þar sem við erum núna.
 
Ferðin að heiman og hingað upp er um 550 km og meira en helmingur hennar liggur gegnum gríðarleg skógarlönd. Ég hef heyrt sagt að maður sjái ekki skóginn fyrir trjánum en slíkt truflar hvorugt okkar. Við vitum bæði að skógur gerir veðráttu mildari og að búa við gott veður er okkur mikilvægara en að sjá langt til allra átta. En það er líka svo víða sem hægt er að sjá langt til og útsýni yfir skógi vaxin fjöll og fyrnindi er mikið fallegt útsýni.
 
 
Þessi útsýnisturn er rétt hjá stað sem heitir Rättvik og er við norðausturhorn vatnsins Siljan í dölunum. Turninn er 28 metra hár og býður upp á mikilfenglegt útsýni. Ég kom þangað upp í fyrsta skipti sumarið 1996.
 
 
Þessa mynd tók ég frá útsýnisturninum Vidablick á leiðinni upp í Jämtland á mánudaginn var. Fjöllin fjærst við sjóndeildarhring eru í 60 km fjarlægð. Á myndinni sést hluti af bænum Rättvik og smá horn af vatninu Siljan. Allt land sem sést á þessari mynd er grænt og mest af því er skógi vaxið. Þegar ég kom þangað upp í fyrsta skipti árið 1996 varð ég klökkur af að sjá allan þennan gróður. Ég hafði aldrei áður gert mér í hugarlund að svo óslitinn gróður á svo stóru svæði væri til.
 
 
Þessa mynd tók ég einnig frá turninum Vidablick og þarna sjáum við suðurströnd Siljan. Allt land er gróið og grænt og það heillar mig.
 
 
Þessi mynd er líka tekin frá útsýnisturni sem er upp í Jämtland, stutt frá þar sem við dveljum núna, langt norðan við Rättvik og Vidablick. Fjall eitt sem ég get ekki bent á á þessari mynd en sést vel frá turninum með berum augum er í 91 km fjarlægð. Hér erum við komin það langt norður að skógurinn vex ekki lengur yfir hæstu fjallatoppana, en mörg þeirra eru um og yfir 1000 metra. Að öðru leyti er allt skógi vaxið sem ekki er byggðir eða akurlönd.
 
 
Þar sem ég sit núna og skrifa þetta hef ég þetta útsýni frá suðurglugga. Á föstudagsmorgun förum við norðvestur á bóginn þar sem land liggur hærra. Mig grunar að þar fái ég að sjá skóga sem líkjast þeim skógum sem mig dreymdi oft um að ættu að klæða Ísland. Við sjáum hvað setur, hvort ég get birt myndir af því. Skógi vaxið land er gott land og fer vel með íbúana sína.

Bloggið sem ekki varð af

Það var föstudagurinn 3. júlí og ég var í vinnu rétt einu sinni. Veðrið var eins gott og það bara getur best orðið á fallegustu sumardögum. Stærstur hluti sjúklinganna var á AA fundi inn í Vingåker en hinir, þeir sem voru á náttfötum og slopp, horfðu á mynd tengda meðferðinni. Ég tók myndavélina og gekk frá einum glugganum til annars og mér fannst sem ég væri löngu búinn að taka margar myndir frá öllum þeim sjónarhornum sem Vornes ætti í fórum sínum. Það var síðdegi, eitthvað það fallegasta sem þetta sumar hafði boðið upp á og nú var ég ákveðinn í að taka myndir fyrir blogg þar sem ég ætlaði að lofsyngja sumarið. Það ætlaði ég að gera þegar ég kæmi heim daginn eftir, á laugardegi.
 
Svo kom ég heim daginn eftir, fannst ég vera þreyttur og vorkenndi mér, vökvaði mikið, hreinsaði illgresi og fór snemma að sofa. Daginn eftir hélt helgarvinnan áfram. Nú sit ég í Vornesi á miðvikudagskvöldi og aldrei slíku vant er ég að vinna venjulega dagvinnu í fjóra daga. Því gisti ég hér. Susanne er á mínum bíl í Katrineholm hjá vinum, ættingjum og gömlum nágrönnum frá því fyrir löngu. Við spöruðum annan bílinn og ég er bíllaus, enda eins gott því að annars hefði ég farið á flakk og ekið eitthvað og farið mikið lengra en ég hefði ætlað mér fyrir brottför. Ég er bra þannig ef ég fer einn út að aka.
 
 
Ég reyndar tók myndir þarna á föstudaginn í síðustu viku og á leiðinni heim var ég eins og beintengdur við sænska sumarið og orðin og setningarnar flæddu fram í huga mér. Ég fann að það væri mikilvægt að skrifa það niður strax og ég kæmi heim en ég gerði það ekki. Nú er ég að reyna að komast í sömu stemmingu og ég var í þá. Komast í sömu stemmingu og finna sömu orðin en það er ekki svo einfalt
 
Vornesmyndin hér fyrir ofan er svipuð svo mörgum slíkum sem ég hef notað gegnum árin. Árin hér eru orðin nítján og hálft og það var svo sannarlege ekki meiningin. Stundum er ég að tala um að hætta alveg og stundum held ég að ég meini það en oftast er það bara í nefinu á mér. Ég fæ uppörvanir frá ýmsum um að hætta ekki að vinna og jafnvel viðvaranir frá öðrum um að það væri varsamt fyrir mig að hætta. Í gær fékk ég að heyra um konu norður í landi sem var 89 ára. Hún sér um tuttugu ungneyti og sinnir þeim þrisvar á dag. Þar fyrir utan sér hún um mat fyrir nokkrar manneskjur og svo er hún eldhress. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera. En hvað um það, hér er ég enn og mun verða eitthvað um skeið. Ég kem samt ekki til með að vinna rúmlega hálfa vinnu á þessu ári eins og því síðasta.  Ég vil hafa tíma til að blogga ásamt hinu öllu sem ég þarf að gera og er ótakmarkað.
 
 
Þetta er sumarmynd frá Vornesi. Þegar ég hofri núna á þessa mynd nálgast ég svolítið steminguna sem ég komst í snertingu við á leiðinni heim á laugardaginn var. Ég hélt á fyrstu árunum í Svíþjóð að sænska sumarið kæmi upp í vana en það gerir það ekki. Sænska sumarið er ennþá jafn mikið kraftaverk og það var fyrstu árin. Að vera á ferðinni á sólríkum sumardegi í veðri eins og var þegar þessi mynd var tekin, það er að vera með um mikið. Það var meira en hlýtt þá, það var á bilinu að vera milli hlýtt og heitt. Að vera umvafinn þessum hita, baðaður í geislum sólarinnar, njóta alls þessa græna laufhafs og gróðurs, horfa yfir akurlönd, sjá skógarjaðra nálgast álengdar, koma inn í djúpan skóg og síðan út á akurlöndin aftur, innan um trjáþyrpingar og gömul, stök eðaltré með ótrúlegar krónur, það er að vera með í einhverju. Á laugardaginn var, var það fyrir mér eins og að vera í faðmi einhvers, umvafinn örmum hlýjunnar og umhyggjunnar og bara að fá að vera með og hvíla. Landið sem ég bý í vefur mig oft örmum sínum og vaggar mér í svefn þegar ég er þreyttur. Þá þykir mér mikið vænt um þetta land.
 
 
Þegar ég kom heim var mitt fyrsta verk að ganga upp á pallinn og taka mynd af skóginum bakvið húsið. Ég ætlaði að bera þá mynd saman við myndirnar frá Södermanland, þær fyrir ofan. Skógarnir í Södermanland og í Krekklingesókn eru ekki eins. Ég hef oft veitt því athygli.
 
 
Svo gekk ég fáeinum skrefum lengra og tók aðra mynd. Stundum finnst mér skógarnir í Södermanland vera fallegri en skógarnir í Krekklingesókn en ég get samt ekki almennilega viðurkennt það. Ég segi bar að Sólvallaskógurinn sé alveg að því kominn að verða fallegastur. Ég hef dekrað við hann, grisjað hann, verið góður við hann og leyst hann úr viðjum óræktar og hann er á leiðinni með að endurgjalda stritið.
 
 
Svo sneri ég mér að illgresinu. Ég vökvaði fyrst og lagðist svo á hnén og sleit og sleit burtu óvelkominn gróður. Það er í þriðja sinn síðan í vor sem ég geri það og ég hefði þurft að gera það eins og einu sinni í viðbót fyrr á sumrinu.
 
 
Svo þegar ég var búinn að hreinsa vökvaði ég aftur og sáði fyrir grænmeti sem er fljótt að skila sér á diskana. Þegar ég byrja á þessu á ég erfitt með að hætta. Það er nefnilega ekki svo leiðinlegt að hreinsa illgresi sem ég held að það sé áður en ég byrja.
 
 
Susanne segir hins vegar að það sé alveg hræðilegt að hreinsa illgresi. En hún er uppfinningarík þegar kemur að því að bera fram léttan kvöldverð. Sumt sem er á borðinu kemur frá grænmetisbeðunum. Meðan við borðuðum brosti skógarjaðarinn við okkur og það var friðsælt kvöld á Sólvöllum.
 
Bloggið sem ég ætlaði að skrifa þá er ég að skrifa núna og orðin eru ekki þau sömu, uppröðunin er ekki sú sama og meiningin hefur einhvern veginn þynnst út. En svona er það þegar ég skrifa ekki á réttu augnabliki það sem hugurinn býr yfir. Jörðin heldur samt áfram að snúast.
 
 
Milli þess sem ég skrifaði þetta fór ég í gönguferð, tvo hringi hér um svæðið, og þá lá leiðin út gegnum þessi trjágöng.
 
 
Og á meðan ég var að skrifa þetta sat ég við glugga á gömlu skrifstofunni minni, þeirri sem ég hafði þrjú síðustu árin sem fullvinnandi maður hér í Vornesi. Útsýnið frá þessum glugga er það sem myndin sýnir. Sá sem hefur þessa skrifstofu í dag er í sumarfríi og mun kannski aldrei vita að ég fékk stólinn hans lánaðan. Frá og með næstu helgi mun ég ekki koma hér í þrjár og hálfa viku. Ég ætla að leika mér. Við Susanne ætlum upp í norðlægari hluta Svíþjóðar og hafa það gott þar.

Kerstin och Sten

Kerstin och Sten búa í Mullhyttan sem er á að giska 30 km vestan við Sólvelli. Mamma Kerstin bjó hins vegar í Kumla sem er 14 km austan við Sólvelli og það var mamman sem átti Sólvelli þar til hún lét færa húsið á nafn dótturinnar. Síðan keyptum við Valdís af Kerstin. Kerstin og Sten komu hér við eins og kannski tvisvar á ári og einstaka sinnum heimsóttum við þau. Nú hafði ég ekki komið þangað í nokkur ár en ég hitti þau öðru hvoru hingað og þangað. Svo buðu þau okkur Susanne í mat í gær. Þar sem ég rölti um veröndina heima hjá þeim með Sten gat ég ekki látið vera að taka myndir af umhverfinu rúmlega hálfhring umhverfis húsið.
 
 
Þessi mynd er væntanlega til norðvesturs frá húsinu.
 
 
Þessi er þá til suðausturs og yfir myndarlegan viðarlager þeirra hjóna.
 
 
Á þessari mynd sjáum við um það bil til suðurs.
 
 
Hér sjáum við að lokum til suðvesturs.  -En hér er nákvæmlega ekkert útsýni!-  Nei kannski ekki. En þar sem við Sten vorum úti á veröndinni heyrðum við vindgnauðið í trjátoppunum en niðri hjá okkur var nánast logn og notalegt að vera á ermastuttu skyrtunum. Ég þekki vel hvassviðri í fangið og mér þykir veðurgæðin verðmætari en langt útsýni til allra átta. Á Sólvöllum höfum við útsýni til vesturs og ef við viljum meira útsýni vitum við vel hvert við getum farið til að fá það. Þetta útsýni til vestur á Sólvöllum kostar okkur meiri vind en þau búa við Kerstin og Sten. Þetta var aðeins um veðrið og áhrif skógarins.
 
 
Það var ekki bara það að Kerstin og Sten vildu bjóða okkur í mat. Þau vildu líka sýna okkur út á hvað lifið gengi í Mullhyttan og þau vildu kynna okkur lítillega sögu staðarins. Þarna standa þau ásamt Susanne við vatn sem er ofarlega í þessum litla bæ. Á valborgarmessu síðast í maí kveikja Svíar í bálköstum vítt og breytt um landið. Í Mullhyttan fleyta menn bálkestinum út á vatnið og forða þar með væntanlega mörgum smádýrum frá þjáningarfullum dauða í eldhafi. Svo gerir fólk á mörgum stöðum í Svíþjóð.
 
 
Þau fóru með okkur á smá söfn sem eru staðsett í húsum sem hafa langa sögu og eru hundruð ára gömul. Þar var þessi stóll sem ég get lofað að er ekki alldeilis nýr á nálinni þó að ég viti ekki hversu gamall hann er. Það er eins og setan sé gerð fyrir einn og hálfan rass ef ekki tvo.
 
 
En það skýrist á þessari mynd hvers vegna setan er svona breið á efri myndinni. Hér er stóllinn orðinn að lágu borði. Svona löguðu gat fólk fundið upp á í gamla daga.
 
Þau sýndu okkur margt, margt fleira í gær en stærstur hluti þess var að undirbúa okkur undir daga rétt fyrir miðjan júlí. Þá verður margt í gangi í Mullhyttan og meðal annars gamalt sögunarverk sem ellilífeyrisþegar hafa gangsett á ný og saga öðru hvoru svera greni- og furustofna. Það er félagsskapur í Mullhyttan sem vinnur við að koma mörgu góðu í verk varðandi sögu bæjarfélagsins og Sten er þar mjög virkur. Þegar hann sýndi mér margt af því sem þeir hafa gert mér fannst ég verða gamall maður um stund. Þvílík vinna sem þessir menn leysa af hendi og sumt af því eru mjög flókin verkefni eins og að rétta við og lagfæra gömul stórhýsi sem sem voru farin að riða til falls. Einn þessara manna er 20 ára og er fullur af áhuga við að viðhalda sögulegum tækjum og byggingum.
 
 
Að lokum fóru þær á undan okkur heim þær Kerstin og Susanne. Sten hafði gaman af að segja frá og ég fann að þessi maður hafði gott hjartalag. Já, víst máttu taka mynd af mér sagði hann og sneri sér við á lóðinni framan við húsið, einmitt þar sem útsýnið er opnast.
 
 
Þegar við Valdís keyptum Sólvelli kynntumst við þessum hjónum nóg til þess að það hefur haldist kunningsskapur síðan. Ég hef ekki haft neitt annað en gott um þau að segja, en eftir veruna með þeim í gær frá klukkan hálf tvö til hálf sjö get ég bara sagt að hjartalag þeirra er afar hlýlegt og gott og það var notalegt að heyra hversu hlýlega þau töluðu til hvors annars. Ég get sagt nú þegar ég skrifa þetta rúmum sólarhring seinna að fyrir mig var það lærdómsríkt að vera návistum við þau þessa dagstund. Þakka ykkur fyrir Kerstin og Sten.
 
 
Það var værð í bílnum þegar við Susanne héldum heim á leið og landið var fagurt og frítt. Guli liturinn á repjuökrunum var að byrja að gefa sig en túnin og kornakrarnir voru iðjagræn eins og bara best verður á hverju sumri. Húsin til hægri á myndinni heita Torp. Þar koma til með að safnast saman upp undir 15000 manns um næstu helgi, um Jónsmessuhelgina. Þetta er árlegur viðburður og þar hefur aldrei verið vesen, aldrei einn einasti lögregluþjónn og fólk lifir í sátt og samlyndi. Það eru sænsku fríkirkjurnar sem að þessu standa og hátíðin stendur í eina viku. Þar er friðsemd og samvera látin ganga fyrir öllu öðru. Það fer vel á því og það mætti alveg segja meira frá mannlífinu þegar það fer svo friðsamlega fram.
 
 
Það hefur líka verið friðsælt á Sólvöllum í dag, daginn eftir heimsóknina til Mullhyttan. Við höfum verið að fara gegnum alls konar dót, ég í gegnum mitt dót og Susanne í gegnum sitt. Við höfum hent, lagt til hliðar, ákveðið svo að henda, verið í vafa, hert upp hugann og tekið nýjar ákvarðanir. Það ekkert einfalt verk að fara í gegnum gamalt dót og grisja. Þess vegna fengum við okkur volgar pönnukökur og kakó í siðdegiskaffi. Þá var hitinn 28 stig undir húsveggnum. Nú virðist sem Óli Lokbrá sé að taka völdin hér á bæ. Það fer best á því.

Annar hluti um lífið og tilveruna eftir Vestmannaeyjaferð 2014

Þegar ég sá fram á það snemma morguninn eftir að Guðdís varð stúdent að bloggið mitt yrði allt of langt ákvað ég að halda áfram síðar. Samt skrifaði ég niður nokkra punkta til að hafa aðeins hugmynd um hvað mér bjó í brjósti þann daginn.
 
Ég sat upp á Eldfelli á hvítasunnudag og réði ekki við tölvuna mína. Ef ég hefði lagt meiri stund á að læra á tölvur hefði ég kannski ekki lent í vandræðum. Mér hefur nefnilega verið sagt að ef ég nota tölvuna öðru vísi en ég hef gert, þá hefði batteríið síður gefið sig. Ég hafði hins vegar ekki nógan áhuga fyrir að læra, kannski bara latur, og hef notið þess að aðrir með meiri áhuga og sjálfsbjargarviðleitni á þessu sviði hafa verið reiðubúnir að aðstoða mig. Ef ég kann ekki mitt setur það mér takmörk.
 
Um daginn heimsótti ég hana Guðrúnu Jónsdóttur frá Fagurhólsmýri. Hún hefur virkilega orðið þess varhluta að heilsan getur brugðist til beggja vona þegar minnst varir og hún á erfitt með mál. Hún býr nú á elliheimilinu Grund. Guðjón, sagði hún frænka mín, ég hélt einu sinni að þú ætlaðir að vera læknir. Ég svaraði því til að það hefði verið ætlun mín á yngri árum. Þannig var það líka. En á leiðinni brást ég köllun minni og fór í smíðar og síðar í eitt og annað áður en ég fór í það starf sem ég hef nú stundað í meira en tuttugu ár.
 
Læknisstarfið sem aldrei varð var köllun en þar sveik ég sjálfan mig. Þegar ég fór í síðasta starfið mitt var það köllun. Þá tók margt við sem ég þurfti að takast á við í sjálfum mér til að uppfylla köllun mina. Ég las margt og geri enn. Oft sótti ég í kyrrðina í Nikolaikirkjunni í Örebro og hugleiddi manninn í sjálfum mér og ég fór líka á námskeið. Ég æfði 12-spora kerfið, æfði að segja sannleikann um sjálfan mig á AA fundunum, æfði einveru og æfði að vera með fólki.
 
Vissir staðir virtust betur til þess fallnir en aðrir til að hugleiða minn innri mann. Eldfell varð einn af þessum stöðum. Ég varð þess var í fyrstu ferð minni þangað upp að það var eins og ég kæmist í tengsl við eitthvað máttugt. Sitjandi þar uppi, finnandi ylinn frá iðrum jarðar streyma upp í gegnum sitjandann og hitann sem umvafði hendina sem ég gróf í vikurinn, gufan sem þá steig upp úr hlíðunum, þetta kom mér í einhverja sálarstemmingu sem mér líkaði vel. Hugsanirnar komu og fóru og þær óþægilegu fengu að koma og vera svo lengi sem þeim þókknaðist. Ég hef líka gert þetta uppi á Eldfelli í dimmri þoku í ein tvö eða þrjú skipti og það voru kannski sterkustu stundirnar.
 
Háaldraður maður í kirkjunni sem við Valdís sóttum Örebro sagði mér frá því að hann hefði í fjölda ára haft dálæti á ákveðnun stað við sænskt stöðuvatn þangað sem hann fór oft til að veiða fisk. Á leiðinni þangað sagðist hann fara um vissan stað þar sem eitthvað þægilegt kæmi alltaf yfir hann. Þar sagðist hann því alltaf stoppa til að vera með um eitthvað gott og uppbyggilefgt í lífinu. Það var hans staður og einn af mínum betri stöðum hefur lengi verið Eldfell.
 
Ég hef alltaf verið ákveðinn í að gera þetta löngu áður en ég hef lagt af stað frá Svíþjóð í Íslandsferðir mínar. Svo var það einhvern tíma þegar Guðdís og Erla voru kannski einhvers staðar á aldrinum sjö til ellefu ára að ég kom til Eyja. Þá fannst mér sem ég hefði alveg sérstaklega þörf fyrir að láta þetta takast vel og hafði undirbúið mig hugarfarslega. Svo rann upp dagurinn sem ég ætlaði að ganga á Eldfell og hugleiða. Þá talaði Valgerður um það hvort ég gæti ekki tekið þær systur með. Ég verð bara að viðurkenna að þá var það af og frá í huga mér að gera svo, ég vildi þá frekar fara aftur og taka þær með.
 
Ég gekk einn á Eldfel þann dag eins og í öll hin skiptin og sú ferð tókst ekki eins vel og áður. Líklega nagaði það mig í sálina að hafa ekki tekið þær systur með og ekki varð af fleiri ferðum upp þangað í þeirri heimsókn. Ég hef aldrei farið með Guðdísi og Erlu á Eldfell.
 
Þetta allt hugleiddi ég í heimsókn minni til Vestmannaeyja í vor og kannski mest vegna skólaslitanna sem ég sat þegar Guðdís varð stúdent.
 
Fyrir all mörgum árum var maður í meðferð í Vornesi, maður sem gat ekki séð að hann hefði nokkur minnstu vandræði með drykkju. Svoleiðis menn er ekki hægt að vera með í meðferð þar sem þeir eyðileggja fyrir hinum og heildin verður að ganga fyrir einstaklingnum. Ég skrifaði hann út og hann fór leiður heim. Þann sama dag hringdi yfirmaður þessa manns til mín. Þessi yfirmaður var kona og hún sagði mér þær fréttir að maðurinn sem ég skrifaði út fyrr um daginn væri þegar búinn að koma til hennar og segja sínar farir ekki sléttar.
 
Hann hafði sagt henni að hann hefði hitt í Vornesi mann sem hann hefði verið alveg ákveðinn í að taka sér til fyrirmyndar því að þessum manni vildi hann líkjast. Svo sagði hann yfirmanni sínum að þessi fyrirmynd hans hefði einfaldlega skrifað hann út úr meðferðinni. Ekki get ég sagt að það hafi verið alveg án tilfinninga að hlusta á þetta en ég var samt ekki í neinum vafa um að ég hafði gert rétt.
 
Ég varð aldrei stúdent og ég varð aldrei læknir. Ég renni huganum yfir þetta í hvert skipti þegar ég sé nýstúdenta og ég gerði það alveg sérstaklega 17. júní þegar nýstúdentarnir frá MR flyktust glaðir um miðbæ Reykjavíkur -vorið sem ég "hefði" orðið student. Þá var ég með lélega samvisku. Í gegnum síðustu áratugina hef ég reynt að vinna mig upp úr því að hafa ekki á sínum tíma ræktað garðinn minn eins og til stóð, að hafa ekki ávaxtað pundið sem skyldi. Þegar ég hafði skrifað út mannin sem vildi taka mig til fyrirmyndar man ég að ég hugsaði að ég hefði væntanlega komist eitthvað áleiðis. Þegar ég horfði á hana Guðdísi dótturdóttur mína setja upp stúdentshúfuna sína hugsaði ég það sama en að ég hefði átt möguleika á að komast lengra.
 
Guðdís mín; þú verður góð ljósmóðir og býður mörg börn velkomin í þennan heim ef þú ávaxtar pund þitt vel og og ræktar garðinn þinn. Ég er líka sannfærður um að þú munt gera það. Gangi þér allt í haginn á þeirri leið.
 
Á Smáragötu 13 í Vestmannaeyjum eftir stúdentaútskrift þann 23. maí 2015.
Jónatan, Guðdís, Valgerður

Að hjálpa lífi að komast ósködduðu í heiminn

Ég vaknaði nokkru fyrir klukkan fimm í morgun, annan í hvítasunnu, og hugsanirnar flugu af stað. Ég fann vel að ég vildi sofa lengur en vissi að svo mundi ekki verða. Í huganum skrapp ég upp á Eldfell og upplifði stund sem ég hafði þar í skjóli við stein aldeilis á toppnum þegar ég var þar uppi í gær. Ég sat þar með ferðatölvuna mína og hafði hugsað mér sð senda út myndir þaðan með smá texta. Það var kannski ekki það allra mikilvægasta af öllu í þessum heimi en bara til gamans hafði ég í vikur hugsað mér að gera þetta. Ég var í kappi við tímann því að ég vissi að eftir nokkrar mínútur mundi tölvan slökkva á sér vegna þess að batteríið ræður ekki lengur við hlutverk sitt. Ég verð að hafa tölvuna í sambandi næstum án afláts ef ég á að geta unnið á hana. Draumurinn um að geta deilt myndum með smá texta frá Eldfelli brást. Ekkert meira með það, það var heldur ekki það mikilvægasta.
 
Ég vaknaði frá löngum draumi í morgun. Draumurinn var sá að ég kom heim til Hríseyjar og eftir ýmsar krókaleiðir kom ég heim að húsinu sem við Valdís byggðum á áttunda áratugnum. Ég fór hægt, skoðaði gróður sem ég held að hafi verið rétt að byrja að koma í gang. Að lokum tók ég upp lykil sem ég vissi ekki hvort mundi passa því að ég hafði ekki verið heima mjög lengi. Einhver var með mér, einhver sem ég get alls ekki munað hver var. Lykillinn passaði og ég opnaði hurðina.
 
Ég gekk nánast ákveðnum skrefum inn að eldhúsbekknum og uppgötvaði að þar hafði ég skilið eftir opinn glugga fyrir löngu, löngu síðan og það var snjór í misjafnlega djúpum sköflum um allt. Ég sá fyrir mér mikið hreinsunarstarf en fannst það ekki svo mikið tiltökumál. Snjórinn var þurr þó vor væri og gólfin virtust ekki flæða í neinu vatni. Ég hélt áfram um húsið og það var snjór um allt. Snjórinn myndaði alls konar skrýtnar myndir og strýtur sem mér fannst líkjast því að einhver dýr hefðu verið þarna á ferðinni og haft áhrif á snjóinn. Mikil vinna mundi vera framundan við þetta en hvað með það. Snjórinn var hreinn og snyrtilegur og það var bara að koma honum út, ekki yfir svo miklu að fárast. Svo vaknaði ég.
 
 
 
 
Í fyrradag var ég við útskrift hennar Guðdísar dótturdóttur minnar. Hún varð stúdent. Það ætlaði ég einu sinni að verða sjálfur en varð aldrei. En ég hef gegnum áratugina verið við all mörg skólaslit og við skólaslitin í fyrradag vöknuðu upp margs konar minningar. Þessi skólaslit virtust ekki svo frábrugðin þeim gömlu þó að svo mikið í umhverfi okkar sé mikið breytt. Temað var það sama; að stefna fram á við og að það jákvæða eigi að ráða för. Ræðurnar voru mátulega langar og alvarlegar og í þeim var leitað eftir því jákvæða. Unga fólkið var glatt og lífið var greinilega spennandi. Svo fengu þau öll að setja upp húfurnar og myndavélarnar tikkuðu ótt og títt. Svo virtist hver halda til síns heima.
 
Ég spurði Guðdísi í fyrradag hvort ég mætti tala um að hún vildi verða ljósmóðir. Og já, ég mátti tala um það. Fyrir mörgum mánuðum eða kannski næstum einhverjum árum síðan útskýrði hún fyrir mér hvers vegna hún vildi verða ljósmóðir og hún gerði það vel. Ég get alls ekki munað orðin eða setningarnar en hún talaði um göfugt starf við að hjálpa nýju lífi að komast óskaddað ínn í þennan heim. Mér fannst hún útskýra þetta á fallegan hátt þó að ég muni ekki orðin.
 
Mér finnst jafnan að skólaslit fjalli um það að líf unga fólksins sem er að skrifast út eigi að komast óskaddað áfram gegnum öldugang lífsins og boðaföll og að þekkingin sé öruggasti vetvangurinn á þeirri ferð. Að öllum, að öllu samfélaginu beri skylda til að lifa eftir þeirri hugsun. Þannig verði öllu best varið. Eitthvað í þessum dúr fyllti huga minn á skólaslitunum í fyrradag og þessi hugsun fylgdi mér heim og hélst í huga mér alla vega all nokkuð fram eftir degi. Síðan tók við að hitta fólk, að spjalla um alla heima og geima og að hafa það notalegt og að hafa gaman af að vera til.
 
Eins og ég sagði áðan ætlaði ég einu sinni að verða stúdent og það átti að leiða mig fram til að verða læknir. Ég ætlaði líka að verða góður læknir og hjálpa mörgum. En ég varð hvorugt og í áratugi þræddi ég allt aðrar brautir, nokkuð sem ég hafði ekki skipulagt eða hugsað út. Læknisdrauminn hafði ég þó skipulagt og hugsað vel út áður en hann rann út í sandinn. Stundum nota ég orðið örlög yfir svona lagað. Líklega veit ég ekki hvað ég meina með því að nota þetta orð, en kannski er ég bara að afsaka hvernig eitthvað fór. En eins og hún Guðdís dótturdóttir mín hefur hugsað út sína framtíð og lagt niður fyrir sér, þá vona ég og óska þess og er viss um að hún á eftir að hjálpa mörgu viðkvæmu lífinu að komast óskaddað inn í þennan heim. Síðan ber okkur öllum skylda til að styðja þannig við bakið á ölli lífi að það komist óskaddað í gegnum boðaföllin.
 
Ég byrjaði þetta blogg alveg eins og ég hafði hugsað mér það og nú er ég kominn nákvæmlega að áfanga sem ég hafði hugsað. En ég ætlaði að komast mikið lengra. Orðin á milli urðu bara svo mikið fleiri en ég bjóst við að nú verð ég að hætta þessum áfanga. Ég skora hins vegar á sjálfan mig að ljúka í öðrum áfanga því sem rann gegnum huga minn frá klukkan tæplega fimm í morgun til klukkan tæplega sex þegar ég byrjaði að skrifa.
 
 
Auðvitað eru þau öll ánægð, mamman, nýstúdentinn og pabbinn. En ég held líka að foreldrarnir séu pínulítið feimin. Þannig er það einfaldlega best.
 
 
Svo komu amma og afi á Reyni og tóku Erlu litlu systur stúdentsins á milli sín. Það fór vel á því. Einhver varð að taka höndum um Erlu. Amma og afi á Reyni eru búin að ala upp börn og fæða og klæða, framleiða matvæli, borga skattana sína og vera meðborgarar þessa lands með skyldunum sem því fylgir í marga áratugi. Þannig byggðist þjóðfélagið upp til þess sem það er í dag.
 
 
Svo er komið að þessu fólki að byggja upp nýja framtíð og gera sitt besta til að lífið geti þrifist óskaddað áfram.
 

Ársins besti tími

 
 
Næstu dagarnir hafa upp á mikið að bjóða hér í landi. Þetta eplatré ætlar að gera sitt til að svo megi verða. Í baksýn er rúmlega 20 ára birkiskógur sem byrjaði að vaxa á akri hans Arnolds bónda þegar hann hætti að nytja þennan skika þar sem hann var svo grýttur að hann var of lélegur til kornræktar.
 
 
Eplatréð á þessari mynd fékk ég frá Vornesi þegar ég varð sjötíu ára. Svona leit það út í gærkvöldi, þriðjudagskvöld, og það er bara samkvæmt bestu væntingum. Núna er bara að vona að flugurnar verði duglegar við að heimsækja Sólvelli svo að frjógvunin gangi vel. Fallegt er þetta eins og tréð fyrir ofan er líka og ef flugurnar gera sitt verða all nokkur epli sem koma af þessu tré sem og öðrum.
 
 
Þetta er kirsuberjatré sem ég gróðursetti um mitt sumar í fyrra. Það voru mörg ávaxtatrén og berjarunnarnir sem ég gróðursetti í fyrra. Allt er nú á góðri leið með að skila berjum og ávöxtum. Nammi namm.
 
 
Og eitt eplatré enn. Ég varð óttalega veikur fyrir þessu öllu í gærkvöldi og ég skal viðurkenna að ég vona heils hugar að næstu dagar verði góðir fyrir alla þessa blómadýrð. Það er nefnilega ekki nóg að það komi blóm, vindar og flugur þurfa líka að vera meðverkandi.
 
 
Sólvallaskógurinn er á góðri leið inn í sumarið. Langt í frá full laufgaður, en á góðri leið.
 
 
Konan á þessari mynd var sextán ára þegar myndin var tekin. Síðan hafa áratugirnir liðið en þrátt fyrir það heldur hún útliti sínu svo ótrúlega vel. Þetta er hún Súsanna og hún ætlar að gæta Sólvalla meðan ég verð á Íslandi. Ég er nefnilega á Arlandaflugvelli og er á leið til Íslands.
 
 
 
 
 
Þessa mynd tók ég af henni upp í Dölum um daginn. Skógurinn speglast fallega í vatninu og árin sín ber hún vel. Sólvellir verða í góðum höndum.
 
 
Og hér er svo að lokum mynd frá því Valgerður var í heimsókn fyrir fáeinum vikum. Brátt verður kallað út í vél og ég mundi skrifa meira ef ég væri ekki í kappi við tímann. Kannski verður netsamband í þotunni Eyjafjallajökli og þá geri ég kannski ögn betur.

Að liðnum tveimur árum

Í dag eru liðin tvö ár frá því að Valdís kvaddi. Það var þess vegna sem ég las í gær nokkur blogg frá síðustu mánuðunum í lífi hennar og vikunum eftir að hún dó og ég komst að því að það var enginn einfaldur lestur. Ég hef alla tíð síðan Valdís dó hugsað út í þetta að biðja og stundum er eins og það sé tilgangslaust, jafnvel eins og það sé að gera sig að kjána. En þetta hafa manneskjurnar gert í þúsundir ára og ég mun líka halda mig við það meðan ég hef vit og getu til. Svo hafa líka margir af vísasta fólkinu gert þó að margir hinna vísu hafi heldur ekki gert það.
 
Í gær las ég meðal annars eftirfarandi línur og ég nota þær aftur hér, línur sem ég skrifaði á aðfangadag 2012:
 
 
 
"Meðan svefnhljóðin voru erfið og ég vakti meðan Valdís svaf runnu margar myndir hjá í óraunveruleika næturinnar. Ég bað mínar bænir en fannst sem þær kæmust ekki til skila. Nótt eina lagði ég allt mitt í að koma sipulagi á hugann og ákvað að nú skyldi leið bænarinnar reynd af auðmjúkri einbeitni sem aldrei fyrr. Ég minntist orða Jesú í Jóhannesarguðspjalli þegar hann talaði einhver síðustu orð sín til lærisveinanna og ég ákvað að nota þessi orð til að komast nær markinu. Ég kveikti á lampanum mínum, teygði hendina ofan í náttborðsskúffuna og tók fram Biblíuna.
 
Ég var fljótur að finna þessi orð: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um, það mun hann veita yður í mínu nafni. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni; biðjið, og þér munuð öðlast."
 
Þetta sagði meistarinn við lærisveina sína fyrir tæpum 2000 árum og hann var líka að segja þau við mig um miðja vornóttina. Ef ég bið skýrt í hans nafni, ákvað ég, þá mun ég verða bænheyrður. Ég reyndi að setja mig inn í 2000 ára gamla atburðinn. Mér fannst næstum sem ég yrði einn af þeim sem þá voru viðstaddir og svo bað ég.
 
Í Jesú nafni bað ég fyrir heilsufari Valdísar. Og ég bað aftur og aftur þessi sömu orð, í mínútur, í stundarfjórðunga, í einhverja hálftíma eða ég veit ekki hversu lengi. Á meðan las ég línurnar með þessum orðum yfir nokkrum sinnum til þess að tapa ekki huganum frá loforði Meistarans. Valdís hagræddi sér allt í einu í rúminu og hljóðin sem ég óttaðist breyttust, urðu léttari, og ég fann hvernig ró færðist yfir mig og óraunveruleiki næturinnar fjarlægðist. Það var virkilega eins og  eitthvað hefði gerst innra með mér og mér fannst ég líka finna það á Valdísi. Næstu tvo til þrjá daga færðist ró yfir huga minn og einhvers konar sátt við ástandið. Ég gat ekki betur fundið en það sama ætti sér stað hjá henni."
 
 
 
En kraftaverkið átti sér ekki stað og Valdís fékk ekki að vera með lengur. En það var þó nokkuð mikið gott sem átti sér stað; sá endir sem hún óttaðist mest varð ekki hlutskipti hennar. Hún fékk hægan endi í framhaldi nætursvefns. Hún fékk líka að kveðja með reisn og hún hringdi í sína allra nánustu síðasta kvöldið og með glaðlegri rödd kvaddi hún okkur og sagði að allt væri nú í lagi. Því sleppi ég ekki bæninni þó að Valdís fengi ekki að lifa. Nokkuð jákvætt fannst þrátt fyrir allt í öllu saman.
 
Valdís hafði gaman af að fá heimsóknir og sýna fólki heimilið sitt og nágrenni, hvort heldur það var uppi í Dölum, í Örebro eða á Sólvöllum. Hún lýsti þegar hún söng ásamt kórnum sínum í útitónleikahöllinni Dalhalla. Hún söng í ein þrjú skipti með gríðar stórum kór í Globen í Stokkhólmi og þá daga byrjuðu æfingar snemma morguns og stóðu fram að sýningu. Þegar við komum á staðinn um kvöldið fyrsta árið, ég Rósa og Pétur, þá beið hún okkar frammi í stórum gangi. Þá var lífið henni svo gott að hún virtist vart snerta gólfið sem hún stóð á, svo létt var að vera til. Þannig reikna ég með að það sé hjá henni í dag, að það sé létt að stíga niður og að jarðneskir erfiðleikar séu að baki.
 
Enn í dag hika ég við að fjarlægja hluti sem tilheyrðu Valdísi þó að þeir hafi ekki tilgang lengur. Árin fimmtíu og þrjú varða aldrei afmáð og í dag lifa ljósustu stundirnar jafnan best þó að það hafi tekið á að lesa bloggin sem ég las í gær. Ég hafði til dæmis skrifað að ég óskaði þess að ég hefði hlustað betur, að ég hefði skilið betur og að ég hefði verið betri maður.
 
Það eru átök að læra það mikilvægasta af lífinu.
 
Valdís mín, þín er minnst í dag af mikilli hlýju. Þakka þér fyrir árin fimmtíu og þrjú og þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér á leið minni til að verða betri maður. Ég vona að mér hafi miðað áleiðis.
 
Það var ekki í gær.

Látlausa góða fólkið

Við getum kallað hana Dóru og hún er níutíu og eins árs. Hún er að hluta til lömuð á vinstri hlið og getur alls ekki gengið nema með göngugrind. Susanne er meðal þeirra sem hjálpa henni, er heimaþjónustan hennar. Hún hafði verið þar um átta leytið kvöld eitt fyrir nokkrum vikum og hjálpað henni með það síðasta sem þurfti að gera fyrir hana það kvöldið. Susanne ætlaði að hafa samband við mig þetta kvöld þegar hún kæmi heim um klukkan tíu.
 
Svo dróst lengi að hún hefði samband eða fram til klukkan ellefu. Ég spurði hvað hafði tafið hana og það var einföld og ekki svo óvenjuleg saga að baki því. Hún var stödd hjá öldruðum manni og bjó hann undir nóttina þegar síminn hringdi. Það var Dóra. Hún hafði þurft að komast í skyndi inn á baðherbergið en göngugrindin festist í baðdyrunum í flýtinum og svo skeði það sem alls ekki á að ske. Geturðu komið og hjálpað mér spurði Dóra í örvæntingu. Susanne gat það raunar ekki en hún gerði það. Tíminn hjá manninum, þar sem hún var stödd hjá þegar síminn hringdi, varð styttri og hún kom mun seinna til þess síðast um kvöldið.
 
Tíminn hjá þeim manni varð líka styttri en það sem munaði mestu var að Susanne var mun lengur í vinnunni en vinnuskemað gerði ráð fyrir. Hún kom heim til Dóru og þreif hana, gekk frá fötunum hennar og hjálpaði henni í hrein föt. Þegar það var búið var Dóra mikið þakklát og niðurlægingin og skömmin sem hún hafði upplifað var að byrja að gefa sig. Geturðu ekki hitað okkur kaffi spurði Dóra svo að við getum drukkið kaffibolla saman. Susanne hitaði kaffi og svo fengu þær sér kaffibolla sitjandi sitt hvoru megin við litla matarborðið heima hjá Dóru.
 
Hvernig var að sitja þarna og drekka með henni kaffi eftir það sem þú hafðir gert spurði ég. O, sagði Susanne, hún var svo þakklát og þá varð hún líka svo ótrúlega falleg. Það var bara notalegt.
 
Anton er tuttugu ára sjúkraliði og er vinnufélagi Susanne og þau eru miklir vinir. Hann hjálpar Dóru líka oft og það sem Dóra segir um hann segir það sem segja þarf. Hún segir að hann sé svo góður og hjálplegur og að hann sé svo skemmtilegur og fallegur strákur. Ef ég væri bara yngri væri ég alveg örugglega skotin í honum. Eiginlega er ég svolítið skotin í honum. Susanne segir líka að Anton sé alveg ótrúlega góður strákur.
 
Í gær var ég í vinnunni minni og hafði það sem við köllum "samtal tvö" með konu um þrítugt. Hana getum við kallað Söndru. Í lokin af þessu samtali bæti ég alltaf við spurningu frá mér sem fólki þykir mjög vænt um að fá, spurningu sem gefur kost á að tala frjálst um sjálfan sig. Og ég spurði Söndru: Hvernig manneskja ert þú? Hún var ekki í neinum vandræðum með að svara þessari spurningu og sagði frá bæði góðu kostunum sem hún býr yfir og einnig því sem hún veit að hún þarf að breyta til hins betra.
 
Mér fannst eitthvað kunnuglegt búa í orðum hennar og ég spurði hvað hún ynni við. "Ja du" svaraði Sandra og það kom fram að hún vann við heimaþjónustu í ákveðnum bæ í Södermanland. Hún sagði að það væri ekkert yndislegra en að hjálpa fólki sem væri hjálpar þurfi, fólki sem hefði púlað allt sitt líf og byggi nú við dvínandi heilsu og krafta. Sandra lýsti upp þegar hún talaði um þetta. Ég verð hrærður þegar ég heyri fólk segja frá svona og það minnir mig á hluti sem ég fékk að heyra frá Valdísi þegar hún vann á heimili fyrir aldraða í Örebro.
 
Það sem ég segi frá núna hef ég sagt áður í bloggi, en það var atvik sem átti sér stað eftir að Valdís hætti að vinna á þessu heimili. Henni var boðið að koma á tónleika sem haldnir voru þar bæði fyrir vistfólk og starfsfólk. Valdís stóð þar meðal starfsfólksins að baki vistfólkinu. Svo fann hún að einhver kom upp að hlið hennar og tók í hönd hennar. Það var maður sem hafði flutt sunnan úr Evrópu til Svíþjóðar og var nú bæði lamaður upp að mitti og gat heldur ekki tjáð sig. Hann hafði rennt hjólastólnum sínum upp að hlið Valdísar og tók þar í hönd hennar og sleppti ekki fyrr en að tónleikunum loknum. Eitthvað var hann þakklátur fyrir og hann vildi sýna það.
 
Ég lá í rúminu mínu í morgun og bað morgunbænina mína. Í morgunbæninni hugsa ég meðal annars til aðstæðnanna sem mannkynið býr við og til þeirra manna sem belgja sig út og halda svo miklu í heljargreipum. Þá datt mér í hug látlausa góða fólkið sem svo lítið er talað um. Alla vega hluti þessara manna sem belgja sig út koma til með að skíta á sig og nota bleyju í tímans rás og væntanlega að æla matnum sínum öðru hvoru. Þá verða þeir hugsanlega þakklátir fyrir að látlausa góða fólkið finnst, alla vega ef þeir eiga eitthvað jákvætt í hugskoti sínu. Alveg er það frábært að látlausa góða fólkið finnst meðal okkar jafnvel þó að það gleymist oft að þakka því fyrir.
 
Þetta skrifaði ég snemma í morgun en vildi ekki birta það fyrr en ég hafði lesið það á sænsku fyrir Susanne og fengið leyfi hennar til að birta það.

Að borða úti

Hann Ove í Vornesi hringdi til mín í vikunni sem leið og spurði hvort ég gæti komið í vinnu í dag, 13. apríl. Ég nennti því ekki, ekki bara vegna þess að ég ætti afmæli í dag, heldur vegna þess að aksturinn til og frá Vornesi er bara of mikil fyrir einn dag. Að vinna kvöld/nótt er að vinna tvo daga og rúmlega það og þá er ferðin ekki eins afgerandi mikil. En ég hafði neitað vinnu í nokkur skipti undanfarið og nú fannst mér að ég yrði að bregðast vel við. Því er ég búinn að vera í vinnu í dag.
 
Ég læt mér í léttu rúmi liggja afmælisdagarnir nú orðið. Það þarf ekki að halda mér veislu, hvorki af mér eða öðrum. Samt höfðum við Susanne smá tilbreytingu í gær vegna þess að ég átti afmæli í dag. Það passaði líka fyrir hana þar sem hún hélt heim á leið til Västerås um hádegi í dag. Þegar ég skrifa þetta núna á áliðnu kvöldi veit ég að hún er búin að koma inn á fjórtán heimili þar sem fólk er að finna sem þarf aðstoðar við.
 
Í þeim hluta af Örebro sem veit að vatninu Hjälmaren, aldeilis þar í útkantinum, þar er Hús Náttúrunnar. Það er alveg sérstakt hús þar sem það er byggt á ruslahaugum og þar sem áður var olíuhöfn. Fyrir fáeinum áratugum fékk umhverfisvænt fólk þá hugmynd að gera þetta svæði að snyrtilegu útivistarsvæði og það tókst með afbrigðum vel. Þar var svo reist þetta hús sem kallast Hús Náttúrunnar. Hús Náttúrunnar er fyrst og fremst veitingahús sem er í betri kantinum en alls ekki dýrt. Þangað ákváðum við Susanne að fara og borða síðbúinn hádegisverð í gær og svo gerðum við.
 
Við vorum búin að velja matinn daginn áður og þegar við komum að kassanum til að panta þennan mat og borga dró ég upp veskið mitt og tók fram greiðslukortið. Susanne gerði það sama en ég sagðist ætla að borga afmælismatinn okkar sjálfur. Nei, ég var búin að segja að ég ætlaði að borga sagði hún. Eftir svolítil orðaskipti okkar á milli sagði konan við kassan að ef við gætum hætt að rífast væri gott að annað hvort okkar setti kortið í kortalesarann svo við gætum gengið frá þessu. Svo borgaði Susanne matinn.
 
 
 
Það var mikil birta í Húsi náttúrunnar þannig að það var erfitt að horfa óhindrað á myndavél. Eftir heil mikið salatát af okkar hálfu kom aðalrétturinn á borðið. Þetta virðist ekki vera mikið á diskunum en sannleikurinn er bara sá að diskarnir eru feikna stórir og maturinn er því ekki svo fyrirferðarmikill. Á bakkanum undir diskinum hjá Susanne eru myndir af fleiri tugum fiðrilda og nöfnin á þeim öllum. Á bakkanum hjá mér eru hins vegar myndir af fleiri tugum fugla ásamt nöfnum. Nokkru eftir matinn bauð Susanne upp á kaffi og köku með það sem kallaðist "ekta vanillusósa". En hvað það var gott. Á bakkanum sem við fengum þá var mikill fjöldi spendýra sem lifa í sænsku skógunum og við sænsku vötnin og þar voru líka nöfn á öllum dýrum. Það var mikill fróðleikur á þessum bökkum. Við sáum álengdar að það eru líka fiskabakkar í Húsi náttúrunnar. Stórsniðugt.
 
Ég mæli hiklaust með Húsi Náttúrunnar og ég mæli einnig alveg hiklaust með Goda Rum í Kumla, ennfremur veitingahúsinu í Ånnaboda. Svo er Sjökrogen við Hjálmaren afar, afar skemmtilegur veitingastaður en þar hriktir í veskinu svo um munar. Það er gott framboð ef það koma gestir sem hefðu gaman að koma á staði sem eru í betri kantinum og í skemmtilegu umhverfi.
 
 
 
Svo var að sjálfsögðu tekin mynd af Guðjóni Kálfafellsbróður þar sem hann er að borða blandaðan fisk og skeldýrarétt í Húsi Náttúrunnar í Örebro. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvernig mér hefur tekist að flækja saman fingrunum þarna en ég náði þeim alla vega sundur aftur og gerði matnum góð skil.
 
 
Þannig leit Hús Náttúrunnar út í sólskininu í gær.
 
 
 
En vellystingarnar áttu sér takmörk og eftir að heim kom fór ég út að útbúa grænmetisreit en Súsanne settist við skrifborðið og sneri sér að lærdómi. Ég er auðvitað samur við mig og get ekki útbúið alveg venjulegan grænmetisreit, heldur tók ég mig til og lagði út möl í rásir og raðaði svo múrsteinum til að af marka reitinn. Ég ætla ekki að reyna að útskýra hvers vegna en svona bara vildi ég hafa það. Rósa er búin að panta helling af fræum og útbúnaði fyrir grænmetisræktun sumarsins og það er ekki svo mjög langt þangað til við förum að sækja hollustuna út að skógarjaðrinum og safna þannig upp vítamínum og lífskrafti fyrir komandi sumar, haust og vetur.

Liðin tíð, fyrsti hluti

Ég hafði ekki bloggað lengi en í gær skrifadi ég nokkrar línur um liðna tíð. Þessar nokkrar línur vöktu upp ótrúlega margar minningar til viðbótar, minningar sem lengi hafa hvílt í kyrrð undir slæðunni sem verndar okkur frá því að hafa allt of margt uppi í einu. En svo kemur eitthvad upp í umræðunni, í fréttunum, eitthvad sem ég aðhefst, eitthvad sem vekur upp eina minningu sem vekur upp aðra minningu. Sólargeislar varpa skugga og minna á sólargeisla fyrir mörgum áratugum. Fugl flýgur hjá og minnir á fugl sem flaug af hreiðri á bernskuárunum þegar fugahreiður voru svo ótrúlega forvitnileg og spennandi. Slæðan opnast tímabundið og sleppir minningunum fram
 
Atburðarásin í gær var einmitt af slíkum toga og heil fljót minninga leystust úr læðingi. Árið var 1995. Svartnesi hafði verið lokað og við Valdís stóðum á vegamótum og nýjar ákvarðanir varð að taka. Ég tók mína ákvörðun býsna snemma og í eigin heimi og þegar Valdís spurði hvort við flyttum ekki til baka eins og flestir Íslendinganna gerðu, þá brást ég mjög ákveðið við og taldi það af og frá. Eftir á að hyggja svaradi ég spurningu hennar of ákveðið og án samstarfsvilja. En svo varð það; vid fluttum ekki til baka. Síðar þegar fólk hittist og þessi mál bar á góma, þá svaraði Valdís því til að það hefði ekki verið nein lausn að flýja til baka með skottið á milli fótanna. Hún tók sig til og byrjaði að læra sænsku af meiri alvöru en fyrr og komst inn á sænskan vinnumarkað. Nýr áfangi í lífi hennar hófst.
 
Í mánuði áður en Svartnesi var lokað var vitað hvað mundi ske. Ég hafði verið hlaðinn þungum áhyggjum vegna framtíðarinnar, Valdís einnig, en daginn sem því var lokað þá tók ég mína ákvörðun, algerlega upp á eigin spýtur; ég skyldi berjast áfram. Síðan beið ég eftir að heyra hvað Valdís hugsaði. Við vorum hér í þessu landi og þetta med Svartnes hafði bara verið aðgöngumiðinn að einhverju nýju. Þegar ég hafði tekið mína ákvörðun voru allar áhyggjur mínar að baki. Valdís hafði sínar áhyggjur nokkuð lengur og þar hefði ég getað brugðist öðru vísi við og stutt hana betur. Ég er viss um það í dag að árið 1995 var ég ekki í stakk búinn til að taka öðruvísi á því en ég gerði.
 
Sumarið 1995 vorum við frjáls eins og fuglinn alveg frá miðjum júní og fram á haust. Þó fylgdumst við með einni íslensku fjölskyldunni af annarri flytja frá Svärdsjö og Falun. Sá þáttur var að dapurlegur og það mesta við lokun Svartnes var dapurlegt -mjög sorglegt. Litli notalegi, friðsæli og fallegi bærinn Svärdsjö varð þrúgandi. Því ákváðum við að flytja til Falun. Átján mánuðurnir sem við bjuggum í Falun voru einhverjir bestu eða þeir bestu í ífi okkar, jafnvel þó að ég ynni í Vornesi í 240 kílómetra fjarlægð hluta af þeim tíma.
 
Að flytja frá Falun í ársbyrjun 1997 var sársaukafullt og enn í dag, átján árum seinna, eru Dalirnir mér perla í tilverunni og Svärdsjö hefur aftur orðið litli notalegi, friðsæli og fallegi bærinn sem hann var áður en endalokin sóttu Svartnes heim.
 
  Frá Svartnesi

Húsin í Sörmlandsskógunum

Í morgun um níu leytið sat ég efst uppi í aðal byggingunni í Vornesi og skrifaði inn tvö stutt samtöl sem ég hafði haft kvöldið innan. Þegar því var lokið hafði ég lokið vinnu sem byrjaði fyrir hádegi daginn áður. Ég horfði út um glugga sem snýr mót vestri þó að mér finnist endilega að sá gluggi snúi móti austri. Þrátt fyrir að hafa reynt í "fjölda ára" hef ég aldrei getað breytt þessari áttavilliu  í kollinum á mér. Þegar ég hugsaði þetta "í fjölda ára", þá upplifði ég fyrstu ferð mína til Vornes og skrifaði um það á sænsku.
 
Það var sunnudagssíðdegi í desember 1995 sem ég kom í fyrsta skipti til Vornes til að vera þar í viku. Þá bjuggum við Valdís í Falun. Það var myrkur og það var kalt og ég fann fyrir býsna miklu óöryggi. Danska konan Jette Knudsen sem þá vann í Vornesi og vann einmitt þessa helgi, hún útbjó tvær brauðsneiðar og hitaði kaffi og bauð mér upp á þessar veitingar. Þetta varpaði hlýju á fyrstu komu mína til Vornes.
 
Það var myrkur þá og það var kalt, en í dag var sólríkur vordagur. Ég horfði í morgun út um gluggann móti vestri og í norðvestri hvíldi snjóflekkur undir skógarjaðri. Hugsanir komu og fóru og ég fann fyrir sterkum trega. Ég mundi fljótlega halda heim á leið en fyrst ætlaði ég að taka þátt í morgunkaffi með öðru starfsfólki. Danska konan Jette útbjó ekki brauðsneiðarnar með þessu morgunkaffi en ég minntist hlýlegrar móttöku hennar fyrrgreindan sunnudag fyrir nítján árum og þremur mánuðum. Þetta minni kemur oft upp enda var það mikilvægur áfangi á vegi mínum.
 
Þessi staður, Vornes, hefur verið vinnustaður minn og skapaði okkur Valdísi afkomu til fjölda ára, hefur verið mikilvægasti skóli lífs míns, hefur gert mér kleift að kynnast ótrúlega mörgum manngerðum sem ég minnist með hlýhug, gleði og líka með sorg. Vornes hefur oft verið í umræðunni af minni hálfu og satt best að segja ekki að ástæðulausu.
 
Alveg er merkilegt hvað þessi sólríki morgun og snjóskafl við skógarjaðar kallaði fram margar minningar og vakti upp sterkan trega til hins liðna.
 
 
Í morgun sat ég við glugga sem ekki sést á safninum á hæstu byggingunni, stafninum til hægri, sem einmitt vísar móti vestri en mér finnst alltaf móti austri. Eftir að þessi mynd var tekin hafa verið settar nýjar þakpönnur á þökin og allir gluggar eru nýir. Það hefur verið gert mjög vel við þessi mikilvægu hús í Sörmlandsskógunum utan við Vingåker eftir að ég kom þangað í fyrsta skipti í desember 1995.

Þegar helgin lendir í miðri viku

Stundum lendir helgin í miðri viku og hefur gert lengi á mínu heimili. Vinna hefur valdið því. Núna byrjaði helgin á miðvikudagskvöldið um miðnætti. Þá kom Susanne með lest frá Västerås. Síðan á hún að vinna um helgina, svo sleitulaust að mér finnst erfitt bara að hugsa um það. Helgin endaði svo í dag klukkan 13,29 þegar hún tók lestina frá Kumla til Västerås. Núna á föstudagskvöldi finnst mér sem hin raunverulega helgi sé á enda og það sé kominn mánudagur.
 
Ég var alveg viss um að lestin færi frá Kumla klukkan 13,39 þannig að við vorum virkilega á síðustu mínútunni. Susanne ók bílnum. Jafnvel þó að ég sé með typpið þykir mér hversu þægilegt sem helst að láta hana sitja undir stýri. Hún er líka afar öruggur bílstjóri. Trúlega var það líka svo að ef það hefði ekki verið býsna ákveðin kona sem sat undir stýri, þá hefði hún hugsanelga misst af lestinni.
 

Þegar hún gekk inn í lestina sneri ég mér snarlega við og hugsaði mér að ganga svolítið frá til að sjá betur hvar hún sæti. Ég gekk ákvðnum skrefum, sló enninu af krafti í hornið á hörðum, svörtum plastkassa sem var fastur á staur, gleraugun flugu af mér og mér fannst sem blóðið flæddi og ég varð ringlaður eitt augnablik. Áður en ég plokkaði upp gleraugun lagði ég lófann á ennið til að athuga. Það rann ekkert blóð lengra en út í kúluna sem myndaðist hratt ofan við vinstra auga. Svo tók ég upp gleraugun og setti þau á nefið.

 

Síðan leitaði ég eftir Susanne og sá að lokum hvar hún sat og veifaði mér. Ég veifaði til baka og lét sem ekkert væri. Karlmaður kvartar ekki jafnvel þótt kúla sé að fæðast á enninu, kúla sem innan skamms verður blá. Lestin leið hljóðlega af stað og ég gekk af stað með hraði til að finna eitthvað kalt í bílnum til að halda við ennið á leiðinni heim. Ég ætlaði að minnka eins og hægt væri glóðaraugað sem ég mundi líklega fá nú í nótt.

 

Ég hafði ákveðið hérna um daginn hvaða mat ég ætlaði að hafa í aðal máltíðina um þessa mittívikunni helgi. Það var leyndarmál, Súsanne skyldi ekkert fá að vita fyrr en hún bara kæmi að tilbúnu borði með þægilega ilmandi lambakótilettum. Ég vildi matreiða kótiletturnar eins og þær hafa verið framreiddar á Íslandi í marga áratugi, kannski í heila öld eða meira. Þetta átti að verða spennandi. Það átti að verða skemmtilegt að sjá Susanne þegar hún berði augum þennan ókunnuga kjötrétt hjá Sólvallakallinum.


Ég var ekki svo viss um hvernig ég ætti að ganga til vega þannig að ég spurði á Feisbókinni hvernig steikja ætti lambakótilettur í raspi á hefðbundinn íslenskan hátt. Margar reyndar íslenskar húsmæður í áratugi svöruðu spurningunni og ég fékk mörg góð ráð. Helst vil ég smám saman prufa öll ráðin sem mér voru gefin. Varðandi leyndarmálið þá gat ég ekki haldið aftur af mér. Ég uppljóstraði það fyrir Susanne.

 

 
Má ég hjálpa þér, spurði hún, getum við gert þetta saman? Já já, víst gátum við gert það. Síðan matreiddum við lambakótilettur á gamlan, íslenskan hefðbundinn hátt. Raspið gerðum við úr hrökkbrauði því að mér finnst sænska raspið allt of fínt.
 
 
 
Ég veit að ég þarf ekki að sýna Íslendingum hvernig tilbúnar lambakótilettur steiktar í raspi líta út. Ætli það sé ekki bara mont að ég birti þessa mynd á íslenska blogginu. Ég notaði hana á sænska blogginu mínu fyrr í dag og það var svolítið annað mál. Ég keypti þessar kótilettur á matvörumarkaði í Kungsgatan í Örebro. Í dag pantaði ég svo fimm kílóa pakningu af íslenskum lambakótilettum hjá honum Guðbirni kaupmanni í Varberg sem kemur á frystibílnum sínum til Örebro um aðra helgi. Hann skal skila frystum íslenskum vörum ásamt páskaeggjum og fleira sælgæti til sælkera í léninu. Þá fæ ég líka kílóið 61 SKR ódýrara en kótiletturnar sem ég keypti á matvörumarkaðinum. En góðar voru þær samt, þar vil ég vera heiðarlegur og segja rétt frá
 
 
Aðal máltíðin um mittívikan helgina varð tilbúin að lokum, borin fram með grænum baunum og rauðkláli og með fituna útá, þá sem féll til við steikina í ofninum. Ég held að ég hafi þar með fylgt af nákvæmni gömlu, íslensku hefðinni.
 
Hættu nú að taka myndir, sagði Susanne, ertu virkilega ekki búinn að fá nóg af því að taka myndir? Þessi máltíð var reglulega góð, samvinnan við eldhúsbekkinn gekk vel og að borða saman var skemmtilegt. Mér hafði tekist að kaupa DVD disk með myndinni Jólaóratórían eftir Göran Tunström. Að horfa á Jólaóratórian var góður eftirréttur ásamt kaffibolla og suðusúkkulaðibita frá honum Guðbirni í Varberg. Við þurfum ekki langt til að gera dagana góða.
 
Vermlendingurinn Göran Tunström skrifaði meðal annars bók sem á sænsku heitir Skimmer. Sú saga gerist á Íslandi og hefur væntanlega verið þýdd á íslensku. Ég las hana á sænsku fyrir mörgum árum og líkaði vel eins og annað sem þessi rithöfundur skrifaði.
 
 
Kúlan á enninu hefur ekki orðið blá og eftir að ég kældi hana niður með GPS tækinu sem lá í bílnum, þá hefur hún dregist saman. Ég fæ líklega ekkert glóðarauga. Undir kvöldið grisjaði ég í skóginum og klippti til litlar eikur.

Þegar helgin má ekki taka enda

Síðasta helgi var helgi sem ég eiginlega vonaði að ekki mundi taka enda. Samt gerði hún það. Í gærmorgun hélt ég til vinnu og Susanne sem hafði verið hér um helgina fór með mér til að taka lest heim tíl sín frá Vingåker. Þegar hún yfirgaf bílinn í Vingåker var helginni formlega lokið. Síðan hélt áfram mikill annríkisdagur hjá mér í Vornesi. Ég var að lengi frameftir og fékk að lokum tæplega fimm tíma svefn. Þegar ég vaknaði rúmlega fimm í morgun var ég ótrúlega hress og var fljótur í gang. Ég gekk milli húsa, læsti upp dyrum og hitti árrisult fólk sem stóð með kaffibollana sína á dyrapöllum. Svo hringdi síminn í vasa mínum og einn ráðgjafi til viðbótar var veikur. Þá fór mig að gruna og grunurinn varð að veruleika. Ég fór ekki heim klukkan tíu eins og til stóð, ég fór heim í hádeginu.
 
Þegar ég kæmi heim ætlaði ég að skipta snarlega um föt og fara svo út til að hlaða eldiviði í bílinn, eldiviði sem ég ætlaði með til Stokkhólms á föstudag. Þegar ég kom inn fannst mér samt rétt að setjast aðeins í annan hægindastólinn í stofunni og ég lagði jakkann minn og vetrarjakkann í hinn hægindastólinn. Svo fannst mér rétt að fá mér eitthvað þannig að ég hitaði mér kakó og fékk mér hrökkbrauð með osti. Þegar ég var búinn að því var ég ekki tilbúinn að fara út þannig að ég fékk mér tvær sveskjur svona til að bæta meltinguna. Nokkru síðar fékk ég mér líka tvær gráfíkjur og settist svo enn einu sinni í hægindastólinn. Það var einhvers staðar þar sem ég fór að verða óánægður með mig. Ég kom mér ekki að verki.
 
Það var ekki fyrr en á sjöunda timanum sem ég kom mér út, hálf óánægður, og gerði farangursrýmið í bílnum tilbúið til að hlaða viðarsekkjunum inn í hann. Hleðslunni hafði ég þá þegar frestað til morguns. Síðan sótti ég póstinn og þegar ég kom inn með hann lágu jakkinn minn og vetrarjakkinn ennþá í hinum hægindastólum og gerðu mig enn þá óánægðari. Þegar ég var búinn að borða heilan disk af gulri baunasúðu vissi ég að nú væri kominn tími til fyrir mig að vera fullorðinn. Ég fór inn í svefnherbergið mitt og skoðaði kaktusana.
 
Það gerði ég til að sjá eitthvað fínt og til að hætta að velta mér upp úr óánægju minni. Ég hafði verið í vinnunni og gert heilmikið gagn og ég mundi líka fá vel borgað fyrir það. Ég var þreyttur og það var allt í lagi og það var líka allt í lagi að koma heim og gera ekki neitt.
 
Ég horfði á kaktusinn og var undrandi yfir þessari blómadýrð sem var á leiðinni. Þessi kaktus blómstraði líka snemma í vetur og ég átti ekki von á neinum blómum aftur fyrr en næsta vetur. Ég minntist orða Susanne um helgina fyrir tveimur vikum þegar hún stóð hjá þessum kaktusum og bað mig að koma þangað inn. Þegar ég kom þangað sagði hún með mildri röddu að kaktusunum þætti vænt um að fá vatn öðru hvoru, ekki að ég skvetti bara á þá nokkrum dropum, heldur að ég helti gætilega á þá vatni öðru hvoru og talaði við þá um leið. Svo gæti ég alltaf öðru hvoru þar inn á milli talað við þá og þá liði þeim betur. Hefurðu gert þetta áður spurði ég og hún sagðist hafa gert það í fyrstu heimsókn sinni á Sólvelli skömmu fyrir jól.
 
Ég horfði á blómknappa sem þá voru rétt að myndast og hugsaði að það væri þess vegna sem þeir væru að blómstra aftur núna. Svo kom hún enn einu sinni um síðustu helgi og vökvaði kaktusana og líklega hefur hún talað við þá um leið þó að ég yrði þess ekki var. Það er orðið langt síðan önnur kona talaði við þessa kaktusa og síðan hefur enginn talað við þá og ég hef hvað eftir annað verið á leiðinni með að henda þeim.
 
Nú í kvöld sat ég þarna á rúmstokknum og horfði á þessi fíngerðu blóm sem þegar voru komin og önnur sem voru alveg að springa út. Í þessum hugleiðingum var ekki auðvelt að vera í óánægjukasti eða einhverri fýlu og ég sneri mér að kaktusinum við hliðina, kaktusinum á hinum sólbekknum.
 
Hann var ekki kominn jafn langt en hann var vissulega á leiðinni og þarna voru svo ótrúlega fallegir blómknappar. Ég sótti myndavélina og ákvað að gera nú eitthvað verulega gott úr þessu kvöldi. Þegar ég skoðaði myndirnar fannst mér þær betri en ég átti von á og þó sérstaklega þessi. Svo byrjaði ég að skrifa þó að jakkinn minn og vetrarjakkinn lægju ennþá í hægindastólnum og nú næstum við hliðina á mér. Ég sá ekki eftir því að hafa unnið mig þreyttan og ég sá ekki ekki eftir því að hafa allt í einu í morgun lofað að vinna á mánudaginn líka og fram á þriðjudagsmorgun. Ég hef allan morgundaginn til að hlaða viðnum í bílinn og áður en ég fer í vinnu á mánudaginn verð ég búinn að koma viðnum til skila í Stokkhólmi, búinn að heimsækja Hannes og fjölskyldu og taka Susanne með mér til að kynna hana fyrir  fólki.
 
Ætli ég að ná mynd af Susanne verð ég helst að gera það henni að övörum. Þessa mynd tók ég af henni á sunnudaginn var, henni alveg að óvörum, eftir að við vorum búin að vera í pönnukökukaffi hjá Auði og Þóri. Þá var hún líka búin að biðja mig að koma einu sinni enn að kaktusunum til að biðja mig að taka eftir því að þeir væru þakklátir fyrir að hellt væri með gætni á þá vatni og talað við þá um leið. Hún er þarna að búa sig undir að skrifa verkefni um heimahjúkrun, nám sem reynir oft á, enda er hún í fulli strarfi við að hjúkra fólki í heimahúsum um leið. Meðan ég er að skrifa þetta er hún á fullri ferð milli húsa í Västerås til að búa fólk undir nóttina. Ég segi oft að það er mikil náðargjöf fyrir þá sem þurfa á því að halda að það er til fólk sem vill gera þetta og ekki síst þegar það er gert af mikilli hlýju.
 
Þegar Susanne kom í hús til 91 árs gamallar konu um daginn var sú kona að horfa á þátt með Jerry Williams þar sem hann söng með miklum tilþrifum rokklag frá sjötta áratugnum. Mikið væri gaman að rokka núna sagði gamla konan og dillaði sér í stólnum. Susanne lagði frá sér vetrarjakkann og svo dönsuðu þær. Þannig getur heimahjúkrunin gert líka, að dansa við gamla konu til að gleðja hana.

Djúpar hugsanir sem ekki kláruðust

Ég rölti um heima í morgun, kveikti upp í kamínunni og lagði mig aftur. Ég horfði upp í hallandi þakið yfir rúminu minu og sökkti mér niður í djúpar hugsanir. Tuttugu mínútur yfir átta hringdi síminn og ég teygði út hendina eftir honum með það í huga að nú væri skemmtilegt símtal framundan. Ég leit á skjáinn á símanum og öll tilhlökkun hvarf á braut. Þegar símanúmerið sem hringir endar á 80 90 og klukkan er að ganga níu að morgni, þá veit ég að það vantar í vinnu, trúlega sama kvöld. Svo var það einnig í þetta skiptið. Hann heitir Erik og hann gekk beint til verks og spurðu hvort ég gæti unnið í kvöld. Ég sem hafði ekki komist að neinni niðurstöðu í mínum djúpu hugsunum og átti svo að rjúka af stað í vinnu.
 
Ég sagði nei, að ég gæti ekki unnið. Þá var ekkert meira með það og við lögðum á. Svo fékk ég samviskubit og hringdi til baka. Ég hafði alla vega sýnt fram á að ellilífeyrisþegi getur sagt nei. Ég sagði Erik að ég hefði getað breytt plönum mínum og ég skyldi koma og núna sit ég í Vornesi. Allir innskrifaðir sitja dagskrárpunkta núna sem þau stýra sjálf og ég fæ hálftíma sem ég get stýrt fyrir sjálfan mig.
 
Í dag spurði ég Katarína í eldhúsinu hversu hátt hitamælirinn mætti fara þegar ég steikti rostbiff og kjötið mætti ekki vera rautt. 75 til 77 gráður svaraði hún en vildi samt athuga það og fór inn í litla herbergið sem þær hafa inn af eldhúsinu. Hún kom um hæl til baka og sagði að þetta væri rétt, 75 til 77 gráður. Það er nú meira hvað þær eru hjálplegar í eldhúsinu þegar ég ráðgast við þær varðandi matargerð. Á ég að nota nokkuð annað krytt en pipar og salt spurði ég svo. Nú urðu þær tvær til að hjálpa mér og sögðu mér að gera það alls ekki, ekkert annað en pipar og salt.
 
Nú er tíminn sem ég ræð mér sjálfur liðinn og ég þarf að koma mér á réttan stað. Ég finn að það hefði verið afar mikið notalegra að vera heima. Suma daga er einhvern veginn erfiðara að fara í vinnu en aðra daga. Ég get ekki sagt að ég sé hér núna af sama góða vilja og ég vil vera. Svo þegar ég fer heim eftir hádegi á morgun verð ég sjálfsagt ánægður með framlag mitt. Það er ekki svo vitlaust að vera ellilífeyrisþegi og geta hlaupið í skarðið þegar á þarf að halda. Ég ætlaði meðal annars að kljúfa við í dag og raða upp í fallegar stæður en ef ég get stuðlað að því að barn fái heim heilbrigða mömmu eða pabba, þá má stæðan svo sannarlega bíða þangað til ég hef tíma. Ég hef jú allt lífið framundan til að dekra við viðinn.
RSS 2.0