Gönguleiðin er fundin

Við Susanne fórum í gönguferð í gær, svolíti öðru vísi gönguferð. Það er þekkt hér á bæ og meðal þeirra sem hér koma til að stoppa að það vanti skemmtilega gönguleið, helst þar sem hægt er að fara ákveðinn hring. Ekki bara þar sem gengin er ákveðin leið ákveðna vegalengd og svo sama leið til baka. Vissulega er ákveðinn 2,8 km hringur sem fólk gengur hér en hann liggur eftir vegum sem eru að hluta malbikaðir. Þetta er fínn hringur en verður tilbreytingarlítill eftir svo sem hundrað fyrstu ferðirnar.
 
En aftur að gönguferðinni í gær. Við gengum veg örstutt stutt hérna heiman að sem liggur gegnum akurland að skógarjaðri austan við Sólvelli, og eftir þeim vegi örstuttan spöl inn í skóginn. Þar beygðum við af leið til hægri, gengum á plönkum yfir skurð sem er við veginn og að því er virtist bara inn í hreinan frumskóg. Eftir eina hundrað metra komum við að vegi sem ég hef heyrt um og kallast Munkastígurinn. Það er kannski skrítið að ég segi það, en þó að þetta sé kannski tæpan kílómeter héðan að heiman, þá hef ég aldrei komið þangað áður. Það var eiginlega fögnuður fyrir mig að koma inn á þennan veg. Myndina tók ég þegar við vorum ný komin inn á Munkastíginn.
 
Vegurinn er örlítið keyrður og þá af þeim sem eiga skóg þarna en hann er alveg frábær gönguleið. Það eru margar mjúkar beygjur á honum og það er svo skemmtilegt með beygjur á vegum í skógi að hver beygja kallar á að fara að henni og sjá hvað tekur við. Og hvað tekur svo við? Jú, vegarspotti að næstu beygju.
 
Vegaspotti að næstu beygju er ekki alveg rétt orðað hjá mér og ég kvarta aldrei yfir því að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Að vera í skógi er notalegt og Susanne finnst það sama. Á þessari mynd sjáum við að skógarjaðri þar sem skógur hefur verið felldur fyrir nokkrum árum. Þar hefur ekki verið gróðursett á ný, náttúran hefur fengið að sjá fyrir því og nýju trén eru í fyrsta lagi furur. Naktir stofnarnir í skógrjaðrinum bakvið mig segja að þeir voru til skamms tíma mitt inn í skógi. Gamall skógarjaðar er hins vegar grænn niður undir jörð.
 
 
Hér sjáum við inn í vel hirtan nytjaskóg og þá sést langt inn í skóginn. Á slíkum svæðu má reikna með berjum af ýmsu tagi.
 
Hér er minna vel hirtur skógur, lélegt berjaland og illt yfirferðar. Hins vegar er sá skógur meira ekta og er forvitnilegur á margan hátt. Hvað ætli leynist þarna á bakvið er spurning sem oft vaknar á svona stöðum.
 
Þarna erum við á heimleið og við sjáum að næstu beygju eins og annars staðar á þessum vegi. Við fórum í gönguferð eftir Munkastígnum í dag líka og hann var álíka forvitnilegur í dag og í gær. Svona leið er róandi, bætir manninn hjá þeim sem þykir vænt um skóginn svo ég tali nú ekki um heilsufarið. Við ætlum að ganga Munkastíginn á morgun líka, rannsaka hann betur og það er nefnilega svo að það liggja frumlegir stígar út frá honum og ég er viss um að innan skamms verðum við búin að finna leið til að fara hring þarna í stað þess að ganga sömu leiðina fram og til baka.
 
Og bara svo að þið vitið sem hafið gist Sólvelli og allir hinir líka; leiðir liggja til allra átta.
 

Minningar mínar um jól fyrir 70 árum

Það er föstudagskvöldið 23. desember og ég er í Stokkhólmi. Það erun jól á morgun. Ég er þreyttur og er genginn til náða og fer í gegnum vissar hugsanir sem hafa fylgt mér bæði í gær og í dag. Þessar hugsanir mínar eru minningar um jólin heima í afskekktri og fámmennri sveit á Suðurlandi um 1950 -minningar eins og þær koma mér fyrir sjónir.
 
Það mesta var skrúbbað og þvegið, fötin hrein, allir höfðu farið í bað við frekar frumstæðar aðstæður, smávegis af svolítið betri smáhlutum var tínt fram ásamt gömlum, litlum pappakassa með myndum frá liðnum árum. Það voru líka til kerti. Maturinn var betri, hann lyktaði notalega og ég trúði sjálfur á að dýrin fengju svolítið aukalega líka, á sjálfa aðfangadagskvöldið. Um jól gat fólk líka keypt eppli eða appelsínur, bara um jól, og eplin lyktuðu alveg unaðslega. Jólapökkunum fyrir sjötíu árum getum við bara gleymt. Hvað voru jólapakkar í minni sveit seinni hlutann af fimmta áratugnum? Aftur á móti voru alltaf ný föt af einhverju tagi og til dæmis nýir ullarsokkar voru unaðslega mjúkir og þægilegir fyrir lítinn fót.
 
Klukkan sex byrjaði útvarpsmessan. Mér fannst jólasálmarnir vera hreinu meistaraverkin og hvað þau sungu fallega í útvarpinu. Mér fannst líka jólaguðspjallið hrærandi fallegt. Allir fengu að borða svo mikið sem þeir vildu og svo lengi sem þeir vildu og svo var smnávegis sælgæti eða góður eftirréttur og síðan skoðuðum við myndirnar í gamla litla pappakassanum. Jólakort voru líka skoðuð.
 
Á jóladaginn var mikið sem fyrr en fólk gerði einungis það sem var nauðsynlegast að sinna. Þá mátti líka spila á spil eða hvort það var á annan í jólum og maturinn hélt áfram að vera betri. Svo var aftur jólamessa í útvarpinu ásamt fallegu jólasálmunum og jólaguðspjallinu. Venjulega var jólamessa í litlu kirkjunni í sveitinni og svo var jólaball fyrir yngri kynslóðina í byrjun janúar.
 
Þetta eru "mínar" minningar um jól fyrir um það bil sjötíu árum. Ég hakkaði mikið til jólanna og minningarnar um þessi einföldu jól eru ótrúlega friðsamlegar og fínar.
 
Kannski birti ég þetta á aðfangadagskvöld. Við sjáum til. Klukkan er tíu mínútur fyrir miðnætti og það er mikið af ljósum í höfuðstaðnum, jólaseríur, ljós í hundruðum þúsunda glugga ásamt hinum venjulegu götulýsingum. Víst er það fallegt -og minningarnar um barndómsjólin mín þar sem það lýsti ein pera yfir útidyrunum eru líka fallegar.
 
 
Hér fyrir neðan myndir frá jólum 2016 í Stokkhólmi
 
Guðjón, Pétur, Hannes Guðjón
 
 
Pétur, Hannes Guðjón, Rósa

Frá langafa Guðjóni

Það er ekkert smáræði að vera orðinn langafi. Það er meira að segja svo mikið að ég kallaði mig langalangafa hérna um daginn og mér var bent á að ég væri farinn að ruglast í ríminu. En nú er það svo að mér dettur ekki í hug að spauga með þetta en mér er ekki alveg ljóst hvað ég á að segja þegar ég blogga um skírn barnabarnsins míns númer tvö.
 
Mamman Guðdís, annað barnabarnið mitt í röðinni á eftir Kristni bróður sínum, var eins og hálfs árs gömul þegar hún kom í heimsókn til afa og ömmu í Svíþjóð. Ég var þá að vinna í 240 km fjarlægð frá heimili okkar í Falun í sænsku Dölunum. Ég var á leið heim í frí vegna þessarar heimsóknar og velti fyrir mér hvernig það myndi verða að hitta þetta barnabarn, fyrstu stúlkuna. Ég hugsaði mikið um það á leiðinni heim hvernig ég mundi heilla stúlkuna sem afi og ég hlakkaði mikið til að sjá viðbrögð hennar.
 
Svo bankaði ég til gamans á dyrnar heima hjá mér og beið þar til Valdís kom til dyra ásamt barnabarninu Guðdísi. Þegar hún sá að ég ætlaði að víkja mér að henni sneri hún sér við, hljóp í burtu og faldi sig bakvið stólinn þar sem mamma hennar sat. Ég fékk sjaldan að taka hana á kné mér meðan á þessari heimsókn stóð en henni þótti mikið gaman að fela sig og láta mig leita að sér.
 
Svo eignaðist Guðdís systurina Erlu og þær komu í heimsókn til okkar, þá til Örebro. Þá voru þær miklir ærslabelgir og léku sér mikið með mér en ég hafði afar mikið minna úthald en þær. Einhvers staðar er til mynd frá þeirri heimsókn þar sem ég sat með þær systur sitt á hvoru hné, ég get trúað að þær hafi þá verið að nálgast annað og fjórða árið. Á þeirri mynd virðist ég vera alveg búinn að vera af þreytu og það er eins og andlitið sé að falla af mér. Þá var leikur búinn að standa lengi yfir. Ég fann vel hversu mikið úthald mitt í leik með börnum hafði þá þegar minnkað frá því að mín börn voru lítil.
 
Þannig var það á þessum árum en núna er Guðdís orðin mamma og Erla systir hennar er orðin móðursystir og Kristinn bróðir þeirra sem sjálfur er faðir, veraldarvanur maður í Noregi og nú móðurbróðir. Hann kom til Stokkhólms sumarið 1994, varð ellefu ára þar og hélt svo ótrauður með lest, aleinn, frá Stokkhólomi til Falun þar sem við amma hans og afi biðum óstyrk á lestarstöðinni þar til við sáum ljósa kollinn hans þar sem hann gekk yfirvegaður með töskuna sína út úr lestinni.
 
Það voru fleiri heimsóknirnar þeirra systkinanna og foreldranna hingað til Svíþjóðar og okkar Valdísar til Íslands. Litið til baka voru þær alls ekki nógu margar og svo get ég sagt sem varð vitur eftir á. Núna eru þau systkinin orðin fullorðið fólk, ég kall sem fer að nálgast barndóminn aftur og amma þeirra horfin á vit tilverunnar sem við þekkjum ekki til. Ný kynslóð er byrjuð að fæðast, barnabarnabörnin.
 
 
Það er fætt barn og það er komið að skírn. Það er sunnudagurinn 27 nóvember. Á myndinni eru frá vinstri; Jóhann Norðfjörð föðurbróðir, Kristinn Jónatansson móðurbróðir, móðirin Guðdís Jónatansdóttir, faðirinn Sigurður Norðfjörð, föðuramman Sigrún Jónsdóttir sem heldur á barninu og ungur nývígður prestur í Vestmannaeyjum, Viðar stefánsson. Hvað á barnið að heita? spurði presturinn, og Sigrún amma svaraði; Sigrún Dís. Og svo var hún dótturdótturdóttir mín skírð Sigrún Dís.
 
En einn fulltrúann á þessari mynd hef ég ekki nefnt. Það er litla hnátan sem lætur lítið fyrir sér fara og situr á hækjum sér. Ég valdi þessa mynd af fleiri mögulegum vegna þess að hún er þarna. Hún kemur þarna fram eins og óþvinguð börn gera, fylgist vel með og ekkert annað skiptir máli en að það er verið að skíra litla frænku hennar.
 
 
Presturinn Viðar Stefánsson, Guðdís mamma og Sigurður pabbi. Og lengst fram fyrir miðri mynd er svo sjálf Sigrún Dís í fangi mömmu sinnar.
 
 
Mamma, pabbi, barn.
 
 
Nú byrja ég, langafinn, að koma við sögu. Valgerður amma með Sigrúnu Dís, Guðdís mamma og langafi Guðjón.
 
 
Systkinin Erla, Kristinn og Guðdís. Sitjandi Valgerður amma með Sigrúnu Dís og svo sjálfur ég, langafinn Guðjón. En hvar er hann tengdasonur minn, hann Jónatan afi? Jú, svo leiðinlegt sem að nú var þá varð hann veikur að morgni skírnardagsins og það var ekkert "kannski" með það, hann bara gat alls ekki komið. Amman, Valgerður dóttir mín, var því fulltrúi fyrir þau bæði.
 
 
Nú er komið að okkur Sigrúnu Dís, bara okkur tveimur. Þegar ég fékk að heyra um að yngsta barnabarnið mitt, Hannes Guðjón sem nú er sjö ára, væri á leiðinni, þá var fyrsta hugsun mín; hvernig mun veröldin sem hann fæðist inn í reynast honum? Sama hugsun flaug gegnum huga minn þegar ég sat þarna með þetta litla barn í fanginu. Litla stúlkan á myndinni virðist sofa afar vært og hún getur gert það vegna þess að hún treystir fullkomlega öllu umhverfi sínu. Við sem eigum að teljast fullorðin berum mikla ábyrgð og presturinn talaði líka um það við skírnina. Megi henni Sigrúnu Dís ásamt öllum öðrum litlum börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum vegna vel í framtíðinni.
 
                                                                    Legg ég nú bæði líf og önd,
                                                                    ljúfi Jesús, í þína hönd,
 
                                                                    síðast þegar ég sofna fer
                                                                    sitji Guðs englar yfir mér.
                                                                         (Hallgrímur Pétursson)
 
 
Að lokum verð ég að hafa með mynd af afa Jónatani þó að hún sé tekin við annað tilfelli. Þegar hann tekur þetta litla barn í fang sér er auðvelt að sjá stjörnur í augum hans. Það er allt sem segja þarf.
 
 
 

Gudjon, hvernig eiginlega hagar þú þér?

Það var merkilegt, við sem höfðum lagt okkur tímanlega í gærkvöldi sváfum til klukkan hálf níu í morgun, "sagt og skrifað "hálf níu". Eftir góðan svefn ættum við að vera vel úthvíld en ég held ekki að við höfum hugsað út í það. Við aftur á móti byrjuðum að tala saman og við töluðum þangað til við Susanne fór í vinnuna klukkan hálf þrjú. Morgunverðurinn varð hádegisverður líka.
 
Þegar ég horfði á eftir bílnum og veifaði Susanne hugsaði ég sem svo að ég ætti að fara í gönguferð eftir gönguleiðinni sem svo margir hér í sveitinni fara og ekkert meira með það, ég hélt af stað á lambaskinnsskónum mínum sem ég keypti á markaði í haust, einmitt þar sem ég keypti hattinn minn. Hann kom alla leið frá Smálöndunum, hann sem seldi lambaskinnsskóna, og hann var svo ótrúlega trúverðugur þegar hann sýndi mér skóna að ég einfaldlega fann á mér að hann hlaut að segja sannleikann. Svo keypti ég fyrstu lambaskinnsskóna sem ég hef átt í lífi mínu.

Sannleikurinn um lambaskinnskóna er að maðurinn sagði nákvæmlega eins og það er og mér finnst að þetta séu bestu skór sem ég hef eignast. Ég keypti þá sem spariskó en núna notaði ég þá sem gönguskó og það verður að vera bara einu sinni, slíkt skal ég ekki gera með spariskóna mína. En ég hef pappíra frá manninum í Smálöndunum og ég ætla mér að hafa samband við hann og athuga hvort hann hefur líka gönguskó úr lambasskinni. Það skyldi ég meta að verð leikum, kaupa þá og henda öðrum skóm sem eru lélegri. Ég reyni að meta fætur mína að verðleikum. Ég hef enga varafætur.

Mér datt allt í einu í hug að ég hefði átt að spyrja Susanne fyrr í dag hvort við ættum að fara í gönguferð saman. Sannleikurinn er að við þurfum bæði að hvetja hvort annað til að fara í gönguferðir. Gönguleið sveitarinnar er tæpir þrír kílómetrar og það er enginn hetjuskapur að ganga það nokkrum sinnum í viku. Ég er statt og stöðugt að sýsla eitthvað og er næstum alltaf á hreyfingu, en það er ekki það sama og að fara í gönguferðir. Ég veit að Susanne situr meira yfir námslestri sínum en ég veit líka að hún er mikið á hreyfingu þegar hún annast sína gömlu og gleður þá með nærveru sinni.
 
Einmitt það höfðum við líka talað um í morgun. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem vinna við þetta, að hlú að fólki sem getur ekki annast hreinlæti sitt og þarfir án hjálpar og þau eru ekki öll gömul sem hafa hafnað í þeirri stöðu. Ég veit afar vel að Susanne gerir hluti sem ég mundi eiga mikið, mikið erfitt með að framkvæma. Við getum öll verið þakklát þeim sem gera þetta af hjartahlýju.
 
Þetta og mikið annað hugsaði ég á göngu minni og vissi ekki fyrr en ég hafði gengið nokkur hundruð metra af gönguhring númer tvö. Þá var ekkert annað að gera en að fara alla leiðina aftur. Tæpir sex kílómetrar mundi ekki teljast til afreka fyrir mann á mínum aldri. Þannig var það ekki heldur og heim kom ég ánægður með mig og hugsaði mér að klára að skrifa blogg um Íslandsferð mína sem ég kom heim úr þann fyrsta desember.
 
Ekkert varð af því og áður en ég vissi af hafði ég byrjað að skrifa þetta, fyrst á sænsku. Íslandsferðin kemur innan tíðar. Ég hafði líka hugsað mér að skrifa nokkur jólakort og almennt að hugsa um jólin, sem ekki varð af. Og bakvið mig er rúmið okkar óumbúið að hálfu. Guðjón, hvernig eiginlega hagar þú þér?
 
En sannleikurinn er sá að í öllum sínum einfaldleika hefur þetta verið mjög góður dagur.
 
 
 
Í öllum einfaldleika sínum eru lambaskinnsskórnir mínir svo undur mjúkir, hlýir og þægilegir.

Ferðahugleiðingar

Hugleiðingar sem ég skrifaði á sænsku fyrir þremur dögum síðan. 
 
 
"Í dag eru tíu ár síðan pabbi minn varð engill á himnum. Þakka þér fyrir pabbi hversu vel þú annaðist hana mömmu mína og takk fyrir að þú annaðist mig líka."
 
Það var fyrir tveimur árum þegar við Susanne byrjuðum að kynnast á leynilega hlutanum af Feisbókinni að ég vildi vita aðeins meira um þessa konu sem hafði tekist að heilla mig býsna mikið þá þegar. Ég skoðaði Feisbók færslurnar hennar fyrir næstu vikurnar þar á undan og þar las ég þessi reglulega fallegu orð. Fallega skrifað af henni þótti mér og það hafði óneitanlega áhrif á mig um það hver hún væri.
 
Fyrir nokkrum vikum vorum við Susanne í heimsókn hjá mömmu hennar í þjónustuíbúð sinni í Västerås. Þá hafði hún verið veik í fleiri áratugi og það var þess vegna sem Susanne sagði þetta "þakka þér fyrir pabbi hversu vel þú annaðist hana mömmu mína". Þegar Susanne var á táningsárunum skildu mamma hennar og pabbi og hún fylgdi pabba sínum. Það er langt síðan nú.
 
En þarna röltum um í litlu íbúðinni hennar mömmu hennar og lagfærðum hitt og þetta. Ég sá fiðrildi með ótrúlega stóra og fallega vængi við lítið opið gluggafag og var svolítið hissa á nálægð þess og að það skyldi ekki fara aftur út um opna gluggann sem var svo nærri. Svo hugsaði ég ekki meir um það.
 
Guðjón, komdu og sjáðu, sagði Susanne litlu seinna og benti á fiðrildið. "Ég held að pabbi sé hérna núna að sækja mömmu." Það væri best þannig hugsaði ég. Hún sem virtist þá ekki gera sér grein fyrir nærveru okkar þó að við værum þar. Hún er á himnum núna. Hún er dáin.
 
Einmitt þegar ég er að skrifa þetta erum við Susanne á leið til Västerås til að tæma litlu íbúðina hennar mömmu hennar. Það verður ekki mikið eftir. Kannski nokkrar myndir, ein bókahylla er hjá Susanne og nokkrir aðrir smáhlutir verða eftir. Líf hefur gengið móti endalokum sínum og mamma gerði sitt besta miðað við aðstæður og það sem skaparinn bauð henni upp á. Susanne er búinn að segja; þakka þér fyrir mamma.
 
Susanne fylgde föður sínum, Nisse, í nokkur ár áður en hún hélt einsömul á vit lífsins. Það er kannski þess vegna sem hún hefur erft meira frá honum. Hann elskaði að fiska í óbyggðunum þar sem hávaði fólksins náði ekki fram. Susanne hefur sýnt mér talsvert af vídeóupptökum frá slíkum ferðum. Hún fiskar ekki "en ég kann að fiska" segir hún. Hún elskar óbyggðirnar samt. Það er þar sem hún er mest heillandi kona og ég elska kyrrðina líka. Þakka þér fyrir Nisse að þú smitaðir Susanne af þessu. Hún nefnir nafn þitt oft og segir; pabbi sagði svo, pabbi gerði svo.
 
Susanne keyrir bílinn og hugsanir mínar svífa gegnum ár og yfir land og haf. Ég hef hugsað um líf margra einmitt undir ferðinni frá litla húsinu í Krekklingesókn og til Västerås. En nú erum við á leiðarenda og hluti af hugleiðingum mínum finnast í þessum skrifuðu línum. Nú skal vinna í íbúð Inger mömmu Susanne og eftir það verður ákveðinn kapituli á enda. Það eru margir sem eru á biðlista eftir svona íbúð og Inger hefur ekki þörf fyrir hana lengur.
 
 
 
 
 "Ég held að pabbi sé hérna núna að sækja mömmu." Svo sagði Susanne þá og þetta er einmitt mynd af því fiðrildi sem var í íbúð mömmu hennar þegar við vorum þar síðast í heimsókn.
 
 
 
Við erum komin til Örebro og Susanne er búin að vinna bróðurpartinn af kvöldvaktinni. Ég bíð hennar og er búinn að vera í heimsókn hjá eldra fólki í Örebro og sýsla ýmislegt fleira. Núna bíð ég hennar í íbúð á vinnustað hennar, sams konar ibúð og vistfólkið býr í, en þessari ibúð getur Susanne gist í þegar hún vinnur seint kvöld og byrjar snemma morguninn eftir. Hér er notalegt að vera og mikið ef þetta væri ekki alveg ágætt fyrir mig ef ég væri einstæður kall og ætlaði að flytja inn í stórstaðinn.

Gamalt hús skal halda sálu sinni

Rósa og Pétur keyptu í sumar litla íbúð sem var við hliðina á þeirri sem þau hafa búið í í nokkur ár í Stokkhólmi. Verktaki opnaði á milli íbúðanna og setti í hurð. Svo þurfti að breyta og lagfæra til að íbúðirnar pössuðu saman, meðal annars að fræsa ótrúlega mikið af raflögnum inn í veggina. Húsið er 120 ára gamalt múrsteinshús og ég hugsaði sem svo að ég ætti að vera þeim til hjálpar með þetta en fannst ég búa við algera vanþekkingu varðandi vinnu við svo gömul hús. Jafnvel þó að ég hafi pappíra upp á það að ég sé husasmiður þorði ég ekk að bjóða hjálp mína. Ég hafði heldur ekki unnið sem smiður í tæp 40 ár fyrir utan vinnu við eigin byggingar hér á Sólvöllum þar sem allt er úr viði. Nei, ég þorði ekki og það var heldur aldrei talað um það.
 
Þau réðu verktaka í þetta sem einhver hafði bent á og sem hafði virst efnilegur þegar þau hittu hann þar heima. Síðan hóf hann framkvæmdir.
 
Fáeinum vikum seinna hringdi Rósa til mín, greinilega áhyggjufull, og sagði að verkið hefði gengið úr skorðum, verktakinn hefði ekki staðið undir nafni og ég skildi að þetta hefði orðið einn hrærigrautur. Þá skeði eitthvað innra með mér. Ég sagði án þess að vera beðinn að ég kæmi. Einhverjum degi seinna var ég þar og það var mikið á hvolfi við að líta yfir vinnustaðinn. Eftir hálfan dag þar sem ég bara gekk fram og til baka og eftir að hafa sofið þokkalega nóttina eftir vorum við Pétur mættir í Bauhaus. Síðan byrjaði ég að kasta múrblöndu með höndunum í allt of djúpar skorurnar sem verktakinn hafði brotið í veggina fyrir raflögnunum. Í stórum dráttum gekk ekki að nota múrskeið og magnið í hverju kast var kannski á við hænuegg. Dagarnir liðu hver af öðrum og hver múrblöndupokinn af öðrum hvarf inn í veggina.
 
 
 
Þegar 120 ára gömlu gereftin á gluggum og hurðum sem alls ekki stóð til að taka burtu höfðu samt verið tekin stundi íbúðin þegar hún fann sig vera að tapa sálu sinni. Svo stórt inngrip í svo gamla íbúð sem þessa veldur óæskilegum afleiðingum. Gereftin kringum þessa hurð voru þræl límd við vegg og karm eftir fjölmargar málningarumferðir í meira en hundrað ár og gamla múrhúðunin byrjaði að losna. Þegar hún féll niður á gólfið losnaði líka neðsta lagið af múrsteinunum sem voru lagðir í boga yfir hurðina fram í stigahúsið árið 1896 og var ætlað að gefa styrk yfir hurðinni. Eitt leiddi af öðru. Aðeins einn steinn var eftir og ekkert að negla nýju gereftin í þegar þau kæmu. Hér var bara að byrja ypp á nýtt.
 
 
Eftir að hafa sett upp múrnet og eftir margar umferðir af múrblöndu byrjaði veggurinn að fá á sig lögun, líka vinstra megin við dyrnar.
 
 
Með múrskeið í annarri hendinni og heimagert, frumlegt múrbretti í hinni. Samkvæmt myndinni er mikið eftir, kannski endalaus handtök að vinna. En ég legg sjálfan mig að veði að þessi litla íbúð sem hefur orðið fyrir svo miklu mótlæti skuli fá til baka sálu sína og verða notalegur bústaður sem gefur íbúum sínum trygga búsetu í öll ár framvegis. Ég veit að ég mun framvegis líta gömlu húsin í Stokkhólmi öðrum augum þegar ég geng eftir gangstéttunum þar því að nú hef ég séð og haft hendurnar á múrsteinum, nöglum og viði sem byggingaverkamennirnir handléku í lok nítjándu aldarinnar. Víst er það frábært. Og að hugsa sér að hús og íbúðir hafi sál sem ekki má tapast, víst er það frábært líka.
 
Þar sem ég sat í lestinni í gær og hugsaði um þetta kom upp í huga mér annað tilfelli þar sem ég varð kjarklaus og það var haustið 1993. Þegar ég byrjaði á þessu bloggi byrjað ég án þess að hugsa um það að skrifa um það atvik. Þær línur vistaði ég og nota seinna.

Verktakinn sem ég hef talað um er örugglega góður þar sem hann kann sitt fag, en nú er ég viss um að tilfinning mín fyrir gömlum húsum, jafnvel þó að ég kunni ekkert um þau, gefur mér meiri færni til að framkvæma þetta en ég hélt áður. Ég óska bara að ég hefði skilið það fyrr.

 

------------     *****     ------------

 

Það er sunnudagurinn 23. oktober og ég sit einn heima. Susanne er í vinnu. Í gær vaknaði ég í Stokkhólmi. Eftir morgunverðinn gekk Rósa út og víst grunaði mig hvað hún ætlaði að gera. Ég úðaði vatni á það sem ég hafði múrhúðað daginn áður. Þegar hún kom til baka bað hún mig að koma fram að matarborðinu í eldhúsinu. Gerðu svo vel sagði hún og benti afar fíngerðan pappakassa sem lá á borðinu.
 
 
Gerðu svo vel hafði hún sagt. Á myndinni hér fyrir ofn sjáum við það sem var í pappakassanum. Það er tölva sem er í háum gæðaflokki.
 
 
Og nú sit ég við borðið heima, 74 ár gamall, og skrifa blogg með þessari gjöf frá dóttur minni. Það er merkilegt þetta líf. Kærar þakkir fyrir Rósa mín.

Samasafnið í Jokkmokk

Það var frábær sólskinsdagur í Jokkmokk í lok júlí. Það var þægilegur stuttermaskyrtu dagur og íbúar Jokkmokk heilsuðu gjarnan á götum og göngueiðum. Jokkmokk er sex kílómetrum norðar en Grímsey. Við höfðum borðað morgunverð hjá Cecilia á farfuglaheimilinu Ásgarði og haft skemmtilega stund með aldeilis ókunnugu fólki þar. Við gengum til Samasafnins. Að koma inn í hið fína andyrri að safninu var öðru vísi fyrir mig, svolítið sem önnur tilvera, og þess lengra sem við komum inn varð þessi tilvera enn meira frábrugðin því sem ég hafði áður upplifað.


Ég var í fyrsta skipti í Jokkmokk og á þessu safni. Susanne hafði verið nokkrum sinnum bæði í Jokkmokk og á safninu og hún rataði meira og minna hér hingað og þangað sem og á öðrum stöðum þar sem við höfum komið til á ferð okkar um Norrland.
 
 
 

Samasafnið er ekki bara áhöld og áþreifanlegir hlutir. Það er líka orð. Eitt af tví fyrsta sem við sáum þegar við gengum inn frá andyrrinu voru eftirfarandi orð sem eru töluð fyrir munn þeirra fyrstu sem fylgdu eftir ísaldarjöklinum inn í norðlægustu héruð landsins þegar hann hopaði:


                                         Stoppar við ströndina.
                                         Sanddyngja hækkar.
                                         Eldur fyrir matinn
                                         áhöld úr hvítum steini.


                                         Við fylgjum bráðinni.
                                         Þetta land virðist gott,
                                         hér getum við kannski verið.


Að lesa þessi friðsömu orð, horfa á textann í heild, velta vöngum, lesa hann aftur, eftir það var ég þakklátur fangi safnsins og gestur í framandi heimi. Mér fannst sem það væri svipað með Susanne, jafnvel þó að hún hefði verið hér áður. Allt í einu höfðu liðið nokkrir klukkutímar og við vorum ótrúlega þreytt, ánægð og svöng.


Á veitingahúsi safnsins borðuðum við síðbúinn hádegisverð, Jokkmokkbjúga með miklu kjötinnihaldi. Ung dökkhærð kona vann þar, trúlega Sami töluðum við um. Að lokum fórum við að tala við hana um frábæra safnið þeirra og mikið rétt;  hún var Sami. Annars hefði ég ekki fengið inngöngu i listaskóla Samanna í Jokkmokk útskýrði hún fyrir okkur. Jæja, segirðu það. Já, svaraði hún, það er skilyrði. Sáuð þið sýningu skólans spurði hún. Nei, við héldum ekki. Það var svo mikið að sjá að við höfðum ekki komist yfir það allt.


Hún lýsti fyrir okkur hvar sýningu skólans væri að finna og við gengum aftur inn í safnið. Mikið rétt. Við fundum þessa ótrúlegu sýningu sem voru hreinu listaverkin allt saman. En hvað hét hún? Og aftur til veitingahússins til að vita það og svo einu sinni enn inn á safnið. Þar sáum við þrjá hluti sem þessi unga Samakona hafði gert í skólanum og lagt til á sýninguna. Við sögðum henni frá því hversu fín okkur þótti vinnan hennar vera og hún var reglulega ánægð með það og við vorum reglulega ánægð með þau kynni sem við höfðum fengið. Að lokum gengum við þreytt, ánægð og þakklát áleiðis til gististaðar okkar og kíktum við í kaupfélaginu á leiðinni.
 
 
 
 

 
 
 
 
Hið mesta á þessum þremur myndum er skólavinna Samakonunnar, hennar sem vann á veitingahúsinu. Það er erfitt genom gler að taka myndir sem sannarlega sýna hversu fullkomlega gallalaust allt þetta er gert. Á neðstu myndinni er brúðarkróna sem er nútímalega útfærð en samt samkvæmt listrænum stíl Samanna.
 

Ég hef verið á byggðasöfnum á Íslandi og í Austursund í Svíþjóð og þar á milli er margt líkt. En að koma á Samasafnið í Jokkmokk, það er allt öðruvísi.
 
 
Í skólavinnu Susanne varðandi líknarhjálp er hluti af vinnu hennar að kynna sér siði og hefðir Samanna sem lúta að síðustu stundunum í lífinu, jarðarfarir og fleira í því sambandi. Við höfum að hluta lesið saman um þetta en Susanne þó mikið meira og hún hafði sagt mér frá. Þetta varð til þess að ég var ennþá opnari fyrir öllu sem viðvíkur sögu Samanna. Susanne notaði ferðina líka til að safna að sér efni í verkefnið sitt.
 

Ég byrjaði að sjá myndir frá Sömum sem barn. Ætíð síðan hefur mér fundist sem Samar séu öðru vísi, sérstakir. Sögur af lífsbaráttu þeirra, litríku fötin þeirra, silfurdjásn og skreytingar, jojkið (lappasöngurinn) þeirra með tilheyrandi dulúð og margt fleira. Allt þetta hefur mér fundist öðru vísi og þessi dagur í safninu þeirra hefur staðfest þetta. Þetta er lítið brot af því sem hægt er að segja um þetta frábæra safn.
 
 
Ég vil aftur til Jokkmokk.
 
 
 
 
 
 
 
Ég get ekki látið vera að birta þessa mynd sem er af mikið stærra og vistlegra húsi en það virðist vera. Þetta var sumarbústaður manns sem dvaldi mikið í Norrland. Þegar sumarhitinn fer að verða óþolandi væri gott að hafa svona hús á Sólvöllum og hafa veggina vel þykka.

Á Jamtli i Austursund

Við Susanne vorum á sumarferðalagi. Það var í lok júlí og við vorum í Austursund, höfðum gist þar eina nótt og eftir morgunverð gengum milli ólíkra safnahúsa á stóru safnasvæði sem heitir Jamtli. Við byrjuðum í þinghúsinu.

 

 

Dómarastóllinn var tómur og hafði verið lengi. Á borðinu lágu gamlar lögbækur. Bekkir stóðu meðfram veggjum. Það var svo ískalt áþreifanlegt að allt var gamalt. Ég sá engan "sjarm" yfir þessu bara alvarlegan sannleika. Ég gat ímyndað mér fanga í slitnum fötum sem hlustaði á daudadóm yfir sér og að hann skyldi hálshöggvas -eða kannski dóm sem var nokkru mildari.

 

Í hinum enda þinghússins var veitingastaður með lítilsháttar innanstokksmunum, svo sem tvö borð, nokkrir stólar og bekkir. Í körfu á borðinu lá hrökkbrauð með ábreiðu yfir. Á fati lágu nokkrar kartöflur sem ekki höfðu komið þangað aldeilis þá um daginn og á öðru fati lágu nokkrar gulrætur sem höfðu byrjað að innþorna. Á matseðlinum stóð meðal annars; matur 6 krónur, og ennfremur; matur og einn sopi brennivín 7 krónur. Ég verð að viðurkenna að ég skildi að einn sopi brennivín mundi hafa gert lífið pínulítið ljósara í nokkur augnablik frá annars dapurri tilveru.

 

 

Í einu horni var opið eldstæði og á málmarmi við eldinn hékk ketill sem hægt var að færa inn yfir logann. Sívalur biti, hluti af máttarviðunum, gekk yfir endilangt herbergið, mátulega lágt til að strjúkst við höfuð mér.

 

Öllu þarna inni var vel fyrir komið til að ná tilgangi sínum, að sýna okkur hvernig það hafði verið áður fyrr þegar mörg börn dóu ung og fólk varð snemma slitið af sínu daglega amstri og erfiðu aðstæðum. Áhrifin frá dómssalnum í hinum enda hússins lágu ennþá í huga mér og héldu sinninu í greip sinni

 

Susanne gekk rólega fram lil opna eldstæðisins og sagði með trega í röddinni; "það var ekki svo mikið betra áður". Síðan tókst henni að brosa þegar hún horfði inn í mndavélina, nokkuð sem ég hefði átt erfitt með. Það gerði væntanlega ekki fanginn sem ekki einu sinni tókst að líta upp móti dómaranum í dómssalnum hinu megin við panelvegginn þegar dómurinn var lesinn yfir honum.

 

Við gengum stuttan spöl yfir tún að nokkur hundruð ára gömlu bændabýli. Þar mætti okkur annar veruleiki frá löngu liðinni tíð. Það var líf á bænum, þar gekk fólk um og annaðist sín störf frá löngu liðinni tíd á aldeilis snilldarlegan hátt. Þar var andrúmsloftið allt annað og bjartara en í þinghúsinu.

 

Fólkið klæddi fólk sig eins og fyrir nokkrum öldum síðan. Mennirnir báru dálka við belti og kona gekk um með fyrri tíma körfu á armi sér. Þau töluðu öðru vísi mál, mjög greinilegt og skiljanlegt, en öðru vísi. Það fjallaði ekki um gengið í dag, umferðina eða ný jarðgöng á vegum landsins.  Það fjallaði um aðra tíma og annan raunveruleika. Hugsanir mínar voru á fleygiferð, mér fannst sem ég yrði hálf undarlegur.

 

"Hvaðan komið þið", spurði reffilegur maður, greinilega bóndinn á bænum. Ja, svaraði ég, við komum frá allt öðrum tíma. Já, ég sé það svaraði hann, þið hljótið að koma frá fyrri tíð, ein 250 ár til baka. Fleira töluðum við um en það gekk ekki að fá neitt nútíma samband við þennan mann. Ég hugsaði sem svo að hann væri vel kunnandi hvað varðaði liðna tíð, að hann væri sálfræðingur og alveg frábær leikari.

 

 

Í einu húsi komum við í léttara andrúmsloft. Þar léku átta menn og konur á harmónikkur og tveir menn á bassa. Sumir dilluðu sér en aðrir voru meira alvarlegir. Þarna voru í fyrsta lagi ellilífeyrisþegar eins og ég og þeir komu til að lyfta huganum frá hversdafgsleikanum og það virtist virka.

 

Þetta og mikið annað sáum við og upplifðum á hringferð okkar um safnasvæðið Jamtli í Austursund. Það var eins og við hefðum lært eitthvað utan að lesa. Við höfðum verið með í því sem við höfðum lært. Ég hef ekki verið duglegur við að heimsækja söfn en Jamtli tók mig trausta taki og ég er ekki hálfnaður með að rannsaka það.

 

 

Við gengum nú yfir til annars bæjarhluta þar sem raunveruleikinn var allt annar. Ég var ennþá að meðtaka það sem ég hafði upplifað. Þarna borðuðum við nútíma hádegisverð í tjaldi á bryggju í Stóravatni, umvafin blíðviðri og sumarhita. Við vorum ferðafólk í sumarfríi á leið til “norra Norrland”. Þar skyldu verða fleiri söfn að sjá en nú var kvöldið að nálgast í Austursund.

 

 

 

Susanne og Doris í Norrland

Ég hef skrifað dálítið um Norðurlandsferðalag okkar Susanne en kannski ekki eins mikið og ég hefði viljað. Ekki veit ég almennilega hvað ég kem til með að gera með þetta en eftirfarandi vil ég alla vega nota sem blogg.
 


Þetta er járnbrautarstöðin í litlum sænskum, norðlenskum bæ sem heitir Jörn. Jörn er í Vesturbotni nokkru sunnar en Piteå. Fyrir um það bil tíu árum sátu tvær konur sitt á hvorum tröppunum á þessu húsi og biðu eftir rútu. Þær vissu ekkert hvor um aðra. Rútan kom ekki á áætluðum tíma og tíminn leið. Önnur konan spurði að lokum hina hvort hún biði eftir sömu rútu. Já, svo gerði hún. Svo töluðu þær svilítið meira. Að lokum flutti önnur konan sig til konunnar á hinni tröppunni. Síðan hafa þær verið mikið góðir vinir.

Önnur konan var Susanne og hin var Doris. Mjög stuttu eftir að við hittumst, Susanne og ég, sagði hún mér söguna frá járnbrautarstöðinni í Jörn og síðan talaði hún oft om Doris og þá frábæru manneskju sem hún væri. Eitt af því fyrsta sem var ákveðið eftir að Susanne byrjaði að skipuleggja Norðurlandsferð okkar var að heimsækja hana.

Við höfðum verið tvær nætur í Jokkmokk sem er mjög norðarlega í Svíþjóð og síðan fórum við til baka með innlandslestinni niður til Arvidsjaur. Þaðan fórum við með rútu áleiðis til Piteå. Á leiðinni þangað sáum við konu eina standa á stoppistöð. Þetta er Doris, sagði Susanne. Við yfirgáfum rútuna og þessar tvær konur heilsuðust eins og bara bestu vinkonur geta gert. Síðan sneri Doris sér að mér og sagði að hún knúsaði mig bara líka.

Tvær nætur gistum við hjá Doris Og hún gerði bókstavlega allt til þess að þessir tveir sólarhringar sem við vorum saman mundu gefa okkur góðar minningar inn í framtíðina. Ekki heiftarlegar minningar, heldur fínar minningar.

Það leyndi sér ekki að Doris er náttúruunnandi. Hún hlúir að, hún verðsetur eins og sá sem ekki er í þörf fyrir það heiftarlega og hún kemur gjarnan við á stöðum sem margir mundu þjóta framhjá.

Hon tók með varning í mat og nokkra eldiviðarkubba sem hún átti í bílskúrnum. Síðan kveikti hún upp eld á stöðum sem voru gerðir fyrir það og gerði kvöldmat og kaffi. Síðan borðuðum við og töluðum saman eftir matinn. Annað kvöldið sem við gerðum þetta fengum við heiðarlegt þrumuveður í eftirrétt.
 
Ég sá tvær álfkonur bakvið tré og spurði hvort ég fengi að taka mynd af þeim og ég mátti gera svo.

Það var gaman að fylgjast með Susanne þessa daga sem og alla hina dagana á ferd okkar. Þessar tvær konur virkuðu svo vel saman að stundum fannst mér næstum sem ég væri þriðja hjólið undir einhverju en ég vissi mjög vel að svo var ekki. Susanne var mjög örugg með sig og hún geislaði af gleði. Ég naut þess að sjá þetta.

Takk Doris fyrir að þú ert sannur vinur Susanne. Takk fyrir allt sem þú sýndir okkur. Takk fyrir það sem þú kenndir mér. Ég kem til með að stinga upp á því einhvern tíma síðar að við Susanne tökum með pott, ketil, við og kost og að við síðan gerum mat eins og þú gerðir. En heiðarlega sagt er líklegast að Susanne verði fyrri til að stinga upp á þessu.
 
 
 
 
Hér bordudum vid fyrri kvöldmatinn sem Doris baud okkur upp á úti í náttúrunni undir berum himni. Vid töluðum ekki hátt og skellihlógum ekki en okkur leid vel sem hluti af umhverfinu fram að dimmumótunum.

Ferðin norður

Ég sit í lest sem fyrir stuttu lagði af stað frá Kristinehamn i Vermland og er á leið norður með áfangastað í Mora í Dölunum. Þar stígum við upp í það sem kallast innlandslestin. Næstu daga kemur ferðin til með að liggja langt norður á bóginn, lengra norður en ég hef nokkru sinni komið í raunveruleikanum. Ég hef hingað til bara gert það í draumum mínum.

 

Við hlið mér situr Susanne, konan sem hefur orðið lífsförunautur minn. Að mörgu leyti erum við lík. Það er til dæmis þess vegna sem við erum samferða núna á leiðinni norður á bóginn. Það hefur verið draumur minn í mörg ár og í fjölda ára hafa ferðir hennar einmitt legið til norðlægasta Norrland, gjarnan til svæða þar sem eru á mörkum óbyggðanna. Ég hafði ekki hugmynd um að þetta væri áhugamál hennar fyrst þegar við byrjuðum að hittast.

 
 Myndin er tekin fyrir ári síðan við Lapkapellen, Kolåsen í Jämtlandsfjöllunum.

 

Við eigum það sameiginlegt að geta setið hljóð eða vera hljóðlátlega á ferðinni á þessum svæðum. Þögnin hræðir okkur ekki og að hitta okkar innri manneskju gerir okkur ekki óróleg. Þessar aðstæður einfaldlega hrópa á okkur að vera með. Susanne er vinur minn án skilyrða.

 

Hún hefur eiginleika sem ég vil gjarnan bæta hjá sjálfum mér. Hún dæmir ekki en hún getur orðið hissa. Hún er svo langt frá því að tala illa um en hún getur orðið sár. Hún vill hjálpa þeim sem hafa þurft að lúta í lægra haldi í lífinu og er undrandi yfir því að hafa fyrr í lífi sínu valið að vinna við hátækniiðnað.

 

Hún getur hjálpað fólki með sínar líkamlegu þarfir af því taginu sem ég gæti alls ekki gert og síðan segja þeim að þau séu áhugaverð, skemmtileg, falleg eða hvað það nú getur verið. Hún getur sagt eitthvað sem lyftir þreyttri manneskju í augnablikinu frá þeim örlögum sem hún hefur fengið að lúta til einhvers sem er þolanlegra. Þetta verður að gera segir Susanne og svo gerir hún það.

 

Og einmitt þess vegna er hún að endurmennta sig til þessarar hjálpar. Að vera þeim til hjálpar sem eru komnir að lokastigum lífsins, það er köllun hennar. Þetta getur engin bara menntað sig til, eiginleikinn verður líka að vera til hjá manneskjunni. Svo verður það sem hún hefur menntað sig til vinna hennar og köllun. Þar erum við lík. Mín vinna síðustu tuttugu og tvö árin hefur líka verið köllun mín.

 

Ég get ekki leynt Susanne neinu, enginn getur það. Þar hefur hún sjötta skilningarvitið. Þegar mér líkar ekki við eitthvað og er virkilega ákveðinn í að leyna því, þá tekst mér það ekki. Þá segir hún einfaldlega; Guðjón, þú veist að þú getur ekki leynt mig neinu. Og ég get það ekki meira en nokkur annar.

 

Mjög snemma að morgni fyrir mánuði síðan hugsaði ég um Norðurlandsferðina okkar sitjandi á veröndinni bakvið húsið heima. Þá komu þessar hugsanir upp. Seinna setti ég þær í orð sem ég nú birti.

 

Nú heldur ferð okkar áfram til norðurs gegnum Vermland hið fagra. Hugsanlega læt ég aftur heyra frá mér um ferðina. Ég hef þegar kynnt ferðafélagann. Hvað er að finna þarna fyrir norðan? Jú, til dæmis Fatmomakke, Saxnäs, Samasafnið og kirkjan í Jokkmokk. Svo er þar að finna Vilhelmina. Vilhjálmur Vilhjálmsson söng “Ó Elsku Stína”  en Sven Ingvars söng um Kristina frá Vilhelmina https://www.youtube.com/watch?v=orPm_8iHH-w

15. mai.

Í dag er 15. mai. Ég lá í rúminu mínu í morgun eftir að hafa vaknað snemma og eftir að hafa vaknað frá undarlegum draumi sem ég hef fyrir sjálfan mig. Þegar ég vaknaði voru dyrnar frá herberginu opnar þannig að ég horfði beint fram á gaflinn í stofunni og á mynd sem þar er og á að vera í framtíðinni eða svo lengi sem ég get ákveðið. Önnur mynd er við hliðina á þessari mynd, en ég sá hana ekki frá rúminu þar sem ég lá. Sú mynd á líka að vera á sínum stað í framtíðinni.
 
Fyrir mörgum eru vissir dagar mikilvægir, vekja tilfinningar meira en aðrir dagar. Þannig er það ekki endilega fyrir mér. Allir dagar geta boðið upp á þetta fyrirvaralaust hvað mig áhrærir en oft gera þessir vissu dagar það líka. Í dag hefði hann Vilhjálmur Kristinn sonur minn orðið fimmtíu og eins árs gamall. Það er hvítasunnudagur í dag og ég ákvað í morgun að þennan dag skyldi ég taka rólega því að ég hefði margt að hugleiða.
 
 
Minningar um Vilhjálm Kristinn geta komið upp hvenær sem er og hvar sem er, alls ekki endilega neina vissa daga. Myndin sem oftast kemur upp er frá því hann var að koma úr sveitinni frá ömmu sinni og afa, ég tel að hann hafi þá verið níu ára gamall. Mamma hans fór niður á bryggju í Hrísey til að taka á móti honum og væntanlega Rósa og Valgerður, önnur eða báðar, voru líka með við móttökuna. Frá bryggjunni hljóp hann umsvifalaust heim til að heilsa mér þar sem ég var að snyrta lóðina eftir bggingarframkvæmdir síðustu tveggja ára.
 
Þegar hann kom hlaupandi fyrir húshornið, móður og lifandi eftir hlaupin, voru hans fyrstu orð: "Hvað ertu nú að bardúsa pabbi minn?" Þetta var kannski ekki svo sérstakt eða merkilegt en þetta er sú mynd sem ég sé oftast fyrir mér af honum. Hún getur komið upp hvaða dag ársins sem er, hvenær sem er, að nóttu eða degi. Ég hef sjaldan, jafnvel aldrei upplifað að ég hafi misst son minn. Það sem ég hef upplifað og upplifi enn í dag er að hann fékk ekki að vera með lengur. Einmitt þegar hann var að verða forvitinn um lífið var hann kvaddur burt. Þar liggur sorgin sem enn þann dag í dag skýtur upp kollinum. En minningin um heimkomu hans úr sveitinni þegar hann kom hlaupandi til mín er ekki sorgarminning. Það er falleg minning.
 
Þessi mynd af Vilhjálmi Kristni er lík þeim dreng som kom hlaupandi frá bryggjunni í Hrísey til að
vita hvað pabbi væri að "bardúsa", líklega árið 1974
 
 
 
 
En aftur að myndunum á stofugaflinum. Krtistinn dó 22. mars en Valdís þann 16. apríl, þannig að í dag eru þau mjög samofin í huga mér. Myndin til vinstri er jú af Hrísey, tekin af Kaldbak við austanverðan Eyjafjörð. Þessi mynd er fyrir mörgum sem sjá hana köld mynd en fyrir Valdísi var þetta mynd af Hrísey. Hún kom þaðan og hún vildi líka enda þar að lokum og þá ósk fékk hún uppfyllta. Blómamyndin hægra megin við Hríseyjarmyndina var Valdísi alltaf mikilvæg. Hún átti alltaf að vera í sviðsljósinu. Útsaumurinn lengst til hægri er nokkuð sem Valdís saumaði sjálf sem ung kona. Sú mynd verður líka þar sem hún er.
 
Englunum hennar hefur hins vegar fækkað. Ég vissi vel að ég þyrfti að fækka þeim en ég bara gat það ekki. Valdís safnaði englum og það var henni einfaldlega hjartans áhugamál. Dag einn spurði Susanne hvort hún mætti gera það svo ég væri laus. Og svo gerði hún og það tókst henni að gera með mikilli prýði. Englarnir sem hún tók burt eru í kassa út í bílskúr. Í fleiri kössum þar er margt fleira sem Valdís hafði uppi. Einhvern dag, eftir daga, vikur eða mánuði vil ég fara í gegnum þá kassa og trúlega taka eitthvað til baka. Þó að ég viti að það sé ekki tilfingamál fyrir Valdísi lengur er það tilfinningamál fyrir mig. Það snýst líka um virðingu fyrir manneskju sem var við hlið mér í fimmtíu og þrjú ár. Væri sú virðing ekki fyrir hendi væri ég ekki manneskja.
 
 
Ég minnist þess þegar ég kom með Valdísi heim af sjúkrahúsinu í síðasta skiptið. Rósa og fjölskylda voru í heimsókn. Ég opnaði fyrir henni bílhurðina þegar heim kom og hún leit til hliðar á Hannes sem þar var og beið eftir henni. Það var óræður svipur. Ég hef oft velt fyrir mér hvað hún hugsaði þá þegar hún horfði á hann og ég hef oft horft á þessa mynd og velt fyrir mér hvað hún hugsaði. En hvað Hannes áhrærði, þá var eins og einhvers staðar inni vissi hann að hverju stefndi.
 
Nisse, viltu jarða mig þegar ég dey? sagði Valdís aldeilis yfirveguð og æðrulaus þar sem hún og presturinn Nisse sátu saman við matarborðið hér heima. Og svo gerði hann nokkrum mánuðum seinna. Valgerður var komin í heimsókn og mig langaði að ná sæmilega glaðlegri mynd af þeim. Valdís reyndi að vera glaðleg en það tókst ekki. Það sé ég ennþá á myndinni sem ég tók, en hún kvartaði ekki.
 
En það eru margar glaðlegar minningar. Minningar frá yngri árum og minningar af árunum upp í sænsku Dölunum, frá Svärdsjö og Falun. Ef ég opna viss myndaalbúm sé ég það svo vel. Það var Valdís sem safnaði myndunum í þessi albúm. Ég er ekki viss um að hún hafi nokkru sinni í lífinu hlegið eins mikið og hún gerði á árunum upp í Dölum.
 
Ein minning er mér ljóslifandi þó að ég væri ekki viðstaddur sjálfur. Pétur er góður að segja frá því og ég hef séð þetta á mynd. Ég var á sjúkrahúsi norðan við Örebro eftir skipti á mjaðmarlið en Valdís var í heimsókn í Stokkhólmi að hitta Hannes í fyrsta sin. Þá var hann tveggja vikna gamall. Honum hafði ekki gengið allt of vel að sofa en þegar amma hans tók hann í fangið og settist með hann, þá sofnaði hann. Þannig sat hún með hann í einhverja klukkutíma og hann bara svaf. Það kom ekki til greina að hann yrði tekinn frá henni, það mátti ekki raska svefnró hans. Ég á erfitt á þessu augnabliki með að sjá nokkra minningu sem gæti verið fallegri en þessi.
 
 
Þessi mynd tilheyrir ekki blogginu en hún sýnir að það voru ekki allar stundir erfiðar.
 
 
Áðan horfði ég á sjónvarpsmessu í tilefni hvítasunnu. Þar voru fulltrúar frá mörgum trúarbrögðum og beðið var fyrir friði í heiminum. Múslimapresturinn sagði meðal annars: Án fæðu deyjum við og án friðar verður lífið tilgangslaust.
 
Lífið hefur ekki verið átakalaust og oft kemur upp spurningin innra með mér um tilganginn og ekki síður hvernig ég var sem maður gagnvart þeim sem eru endanlega farnir þangað heim sem engum sleppir til baka. Listamaðurinn hnoðar leirinn og mótar listaverk á þann hátt sem við hin vitum ekki fyrir. Hvað meistarinn sem formar leirinn "mig" ætlar að ná fram veit ég ekki fyrr en ég stend augliti til auglitis við hann. En ég veit að þeir sem eru farnir heim á undan mér hafa haft mikil áhrif á þessa mótun. Líklega erum við öll notuð til að hjálpa til við að móta hvert annað. Einhvern veginn þannig lít ég á lífið. Ég vona að ég hafi verið og verði líka til hjálpar við góða mótun einhvers í þessu lífi.
 
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
 
 
 
 
Englarnir voru Valdísi mikils virði og hún safnaði þeim aldeilis fram á það síðasta.
 
 
Valdís og Valgerður í Hrísey 1963, árið sem við fluttum þangað.
 
 

Eldiviðardagur

Ég get sennilega ekki talist hefðbundinn Svíi þar sem ég er núna daginn fyrir hvítasunnu að kljúfa við. Slíkt á að vera búið að ég tel. Hins vegar sagði fyrrverandi vinnufélagi minn við mig fyrir einum ellefu árum síðan að það væri svo sem allt í lagi að fella tré hvenær sem væri bara ef maður sagaði viðinn í lengdir strax. Ég hef síðan farið eftir þessu, ég hef fellt tré á hvaða árstíma sem er ef því er að skipta en ég hef líka reynt að brytja í eldiviðarlengdir strax. Svo eru kubbar sem ég er að kljúfa núna búnir að vera undir þaki í eldiviðargeymslunni í misjafnlega langan tíma. Eldiviðargeymslan er eitt nauðsynlegasta hús sem ég hef byggt á Sólvöllum og hún er trúlega besta eldiviðargeymsla hér í næsta nágrenni.
 
Þessi geymsla er á öfugum stað sagði maður sem kom með Anders smið til að klæða þakið dag einn fyrir tæplega einu og hálfu ári. Hvers vegna segirðu það? spurði ég. Hún ætti að vera heima hjá mér sagði hann. Þennan dag klæddu þeir þakið með venjulegri þakklæðningu eins og um íbúðarhús væri að ræða og svo settu þeir pappann á. Síðan hefur enginn smiður komið á Sólvelli. Þakhellurnar sem vógu 1350 kíló setti ég svo upp á dagparti. Þann dag eins og svo marga aðra daga var ég mjög ánægður með þá heilsu sem skaparinn hefur gefið mér. Ég treysti mér ekki til að reisa veggina einn eða að fara einn í þakið, ég fékk yngri menn til að gera það.
 
Loksins í dag komst ég af stað með að kljúfa við sem var búinn að bíða þar eftir mér. Ég byrjaði á því í dag vegna þess að í morgun var rigning og það var spáð rigningu allan daginn. Það var líka gott að ég komst af stað. Það var eiginlega byrjunin á því að gera það síðasta af Sólvöllum snyrtilegt og fínt. Ég þurfti að byrja á því að taka til áður en ég byrjaði í morgun og þá fann ég að ég var á þessum tímapunkti.
 
Ég man vel hvernig það var hér árið 2007 og 2008, jafnvel lengur. Þá var óhirðan alveg vestur að lóðamörkunum sem eru minna en tíu metra frá húsinu, þeim meginn sem vegurinn er. Eins og þetta er í dag er ég frekar ánægður með það en þegar ég verð líka búinn að gera snyrtilegt þarna að húsabaki, þá verð ég mjög ánægður. Ég hef haft það að markmiði all lengi að þegar ég verð 75 ára, sem verður ju næsta vor, að þá verði allt tilbúið og svo á ég að geta haft opið hús í tilefni að sjötíu og fimm ára afmælinu mínu allt sumarið.
 
Svona er það nú á Sólvöllum daginn fyrir hvítasunnu. Susanne er upp í dölum hjá syni sínum og fjölskyldu hans. Þar er líka sex ára sonarsonur hennar sem var líklega helsti hvatinn að því að hún fór þangað núna. Í dag hafa þau öll verið á "kúslepp". Kúslepp er þegar bændur sleppa kúnum sínum út í fyrsta skipti á vorin. Þá er áhugasömum gjarnan boðið að koma en ég var fjarri góðu gamni.
 
Hérna um daginn var ég að slá lóðina í fyrsta skipti í ár, þá full seint af því að hún var svo mikið sprottin. Þá bara steinhætti sláttuvélin mín allt í einu að ganga og neitaði að fara í gang aftur. Ég lagði hana inn hjá sláttuvélalækninum og þar átti hún að vera í viku. Því bauð vinnufélagi minn mér að lána mér sína sláttuvél. Svo sló ég helminginn af lóðinni og lagði svo sláttuvélinni undir húsvegg. Daginn eftir, í gær, neitaði hún að fara í gang. Ég verð sennilega að fara með sláttuvél vinnufélagans til sláttuvélalæknisins líka þegar ég tek mína.
 
Þar með ætlaði ég að gera aðra hluti og setti kerruna aftan í bílinnn. Þá vildu stefnuljósin ekki virka en samt fór ég af stað til Fjugesta til að kaupa 170 mm frárennslisrör. Það reyndist ekki vera til í Fjugesta. Þá fór ég með ólöglega kerruna inn í Marieberg til að kaupa rörið. Þá var það ekki til þar heldur. Þá bað ég æðruleysisbænina nokkrum sinnum og var tími til kominn eftir óhöpp dagsins og ólöglega kerruna. Þar með var komið kvöld og eftir að hafa gefið Brodda matinn sinn í nýja Broddahúsinu og borða sjálfur, þá gerði ég vinnulista fyrir daginn í dag. Á listanum var að taka nokkurn tíma í að kljúfa við. En mér finnst gaman að kljúfa við og það er gott að hugleiða við það að kljúfa og svo gerði ég í dag, allan daginn. Það var margt á móti mér í gær en í dag hefur hugurinn verið ljúfur yfir vel lyktandi eldivið.
 
Allt er gott sem endar vel.
 
 
Það er þurrt og gott í eldiviðargeymslunni minni. Veggirnir eru með tvöföldum gisnum panel, hlífa við úrkomu en trekkja vel. Það skemmtilegasta við að kljúfa við er að raða honum upp. Sumar eitt var hér fólk sem hjálpaði við kljúfa en ég átti erfitt með að láta þau raða viðnum. Ég varð næstum afbrýðissamur en varð samt að gefa mig.
 
 
 
Annar endinn á viðargeymslunni er fyrir við, hinum endanum er mögulega ætlað annað hlutverk. Glugginn sem á að vera á þessum vegg er búinn að vera til í geymslunni í meira en ár. Að ég valdi að taka mynd af þessari hlið er vegna þess að það er snyrtilegra þarna meginn.

Broddabústaður og fleira bauk í sveitinni

Á fimmtudaginn var fékk ég einn vörubílsfarm af mjög góðri gróðrarmold sem ég meðal annars ætla að nota í lítinn kartöflugarð. Sama dag, á fimmtudagskvöldið, sáum við Brodda í fyrsta skipti á sumartímabilinu. Eftir allt mögulegt smávegis á föstudagsmorguninn fór ég út í vinnufötunum sem ég nota í verstu verkefnin hér heima, stígvél einnig, og byrjaði að plokka grjót úr verðandi kartöflugarði, nokkuð sem virtist í ómældu magni af ýmsum stærðum. Eftir að hafa raðað snyrtilega nokkrum hjólbörum af þessum steinum við hliðina á garðinum, jafnað þennan litla garð og gert hann tilbúinn fyrir gróðrarmoldina, fannst mér sem ég hafði unnið nóg af líkamlegu striti þann daginn. Ég breytti til.

Susanne var inni og skipulagði verðandi Norðulandsferð okkar sem við ætlum að fara á fyrri hluta síðsumarsins, meðal annars með því sem kallað er Innlands lestin. Hún vissi að ég hafði ætlað að vinna í kartöflugarðinum. Allt í einu heyrði hún ákveðin hamarshögg dynja úti. Jahá, hefur hann nú byrjað að smíða kartöflugarð líka.

 

Hún kom út með iPadinn sinn sem er með ótrúlega góða myndavél. Ég skal viðurkenna að ég lyfti hamrinum nokkuð hærra en annars þegar ég tók eftir að hún var að taka mynd af mér. Ég var byrjaður að smíða Broddabústaðinn sem ég hef haft í huga í nokkur ár.

Broddahús, af hverju það? Broddgeltir standa höllum fæti. Þeir eru óbreytt dýr síðan ótrúlega margar miljónir ára aftur í tímann. Í áratugi á síðustu öld dóu þeir af eiturefnum sem voru notuð í landbúnaði og umferðin drepur marga. Þeir eru ekki sterkir til dæmis gagnvart þurrkum og þeir eru næmir fyrir sjúkdómum. Jafnvel þó að við trúum að þeir séu vel varðir með broddunum sínum eiga þeir marga óvini í náttúrunni. En flest fólk, trúi ég alla vega, ber virðingu fyrir þessum vinalegu dýrum og þykir skemmtilegt að hafa þau í nábýli við sig. Þess vegna byggja menn hús til að vernda þessa þægilegu dýrategund. Svo einfalt er það.

 

Hugsanlega kem ég til með að setja skilrúm þarna inni. Það ætti að vera pláss fyrir tvo en ég hef ekki nægjanlega þekkingu á því ennþá.

 

Það er að finna mikið úrval af teikningum á netinu, teikningum fyrir broddgaltahús, til og með fjölbýlishús fyrir þá. Ég valdi ekki einföldustu teikninguna og ég ákvað meria að segja að hafa "stromp" á Broddahúsinu okkar. Það er ráðlagt að láta lofta vel um húsið.
 
Ég kem til með að fylla upp að húsinu með mold og kannski að láta mold hylja það alveg. Þess vegna valdi ég teikningu með löngum inngangi. En ég vil fyrst sjá að húsið þjóni hlutverki sínu, líka að ég hafi valið góðan stað fyrir það. Þar sem það á að vera þurrt í húsinu ákvað ég að hækka svolítið undir það. En þá verður haugurinn líka hærri þegar ég fylli að því. Ég valdi þykkan borðvið og við sem hefur vaxið hægt. Þannig borðvið fæ ég hjá litla sögunarverkinu hér í sveitinni. Þetta Broddahús mun væntanlega lifa mig.

Það tók nokkra klukkutíma að smíða þetta og undir það setti ég rúmar hjólbörur af möl. Ég meira að segja notaði hallamál við að slétta mölina. Það var kannski ekki nauðsynlegt en ég geri gjarnan það sem mér finnst skemmtilegt í lífinu.

 

Fjarlægðina frá íbúðarhúsinu reyndum við að velja mátulega og það var mikilvægt að sjá það af veröndinni. Lokið er svolítið snúið en það er í vinnslu að lagfæra það. Broddinn okkar á ekki að búa undir neinu fúskþaki.

Ég skrifaði þetta á sænsku í morgun og hvatti þá sem lesa að hlú að broddgöltunum sínum. Það eru alls ekki svo margir sem vita að það er hægt að búa þeim hús að eiga heima í.

Í fyrradag vann ég meðal annars við kartöflugarðinn og að smíða Broddahús. Í gær var það áframhald við Broddahúsið og síðan að hreinsa skurð sem er bakvið húsið. Það er mikið lauf að hreinsa úr þessum skurði á vorin. Skurðurinn tekur meðal annars við vatni frá sandsíunni sem hreinsar endanlega klóakvatnið frá húsinu. Þetta er mikilvægt og óhjákvæmilegur hluti af því að búa í sveit eins og við gerum.
 
Í dag er það sunnudagur og ég hef gert eins og mig hefur dreymt um lengi; að halda sunnudaginn heilagan. Engin skítug vinnuföt í dag, það var langur morgunverður, síðan sjónvarpsmessa og svo vorum við í ríkulegu miðdegiskaffi á stað sem heitir Tant Grön sem gæti kannski þýtt Græna kelling á íslensku. Svo keyptum við avókadó handa honum Brodda okkar.
 
Eigið gott kvöld.
 

 
 
 
 

Blogg frá 4. november 2015

Dagur tvö í höfuðborginni er brátt á enda. Við Susanne sitjum í lestinni sem rúllar nú móti Hallsberg. Það var frábær dagur í gær alveg fram á kvöld. Þegar Susanne kom frá skólanum um fjögur leytið borðuðum við reglulega góðan mat i Kulturhuset. Eftir það gengum við heim til hins sex ára Hannesar Guðjóns og pabba hans. Mamma hans er hinu megin á hnettinum í vinnuferð.
 
Þegar við komum þangað gáfum við honum vissa tegund af legó sem hægt er að gera ýmislegt með. Það var afar, afar glaður drengur, svo ótrúlega glaður að hann smitaði okkur hin og við urðum líka reglulega glöð. Síðan raðaði hann saman og skapaði furðuverur, las sig áfram og gerði allt nákvæmlega samkvæmt lýsingu. Han veit hvað hann gerir þegar hann vinnur með legó og hann veit að afi verður ekki til mikillar hjálpar þegar hann reynir það. En hann skeggræddi ásamt okkur hinum og lofsöng legó og þess fjölbreyttu möguleika.
 
Dagurinn í dag var rólegur dagur. Ég æfði mig í að rata á nýjum svæðum í miðborg Stokkhólms. Það er gríðarlegur munur á Sergilstorgi og Nalaví þar sem póstkassinn okkar er, póstkassinn í Nalaví sem meira að segja er hægt er að finna á Google. Þar get ég lagt bréfin sem ég sendi sendi frá mér, þau fáu sem ég sendi frá mér í pósti. Í Nalaví eru lögreglubílar afar sjaldgæfir en þrír voru þeir á Sergilstirgi þegar ég gekk þar hjá í dag.
 
Ég velti talsvert fyrir mér lífinu í Stokkhólmi. Um hádegisbil gekk ég framhjá aðaljárnbrautarstöðinni á leið minni til verslunarinnar BR (ríki barnanna) þar sem ég keypti meira af legó til að hafa í fjárhirslu minni til að nota seinna ef ég skildi þurfa á að halda. Við aðaljárnbrautarstöðina virtist vera mikið um að vera. Yngra fólk af báðum kynjum gengu þar fram og til baka og töluðu í farsíma sína. Þau drukku kaffi úr pappabollum og sumir reyktu líka. Hvað var það sem rak þau áfram? Ég veit ekki og ég hafði ekki áhyggjur af því en orðið lífsgæði kom upp í huga mér. Mikið af því sem ég sá í dag fékk mig að hugsa á þá leið en engin svör létu á sér kræla.
 
Lífsmeining, lífsgæði, hvað er rétt og rangt, hvers vegna þetta og hvers vegna hitt, þetta eru engar léttar spurningar að gefa svar við. Susanne hefur líka sagt mér frá því að í skólanum kom heil mikið fram um þetta með rétt og rangt. Og þegar við tölum um rétt og rangt á síðustu stundum lífsins, þá getur mér fundist ég vera lítill.
 
Susanne var mjög glöð í gærmorgun þegar við lögðum af stað til Stokkhólms. Hún fékk tillbreytingu frá hversdagsleikanum og hún hafði væntingar varðandi skóladagana. Í dag heyri ég að væntingarnar hafa gengið eftir  og að hún er meðal annars heilluð af fyrirlestri prests ásamt meðfylgjandi umræðum um "það sem gefur voninni líf". Þessi prestur hefur meðal annars verið sjúkrahúsprestur á barnasjúkrahúsi þannig að hann hlýtur að hafa í fullri alvöru upplifað alvöru lífsins. Samt hafði hann verið mjög líflegur í tali sínu í skólanum. Frábær efni í þessum skóla, það er næstum eins og ég mundi vilja vera með. Áður en við gengum heim til Hannesar Guðjóns og pabba hans heimsóttum við Kulturhuset og þar voru stórfínir réttir á matseðlinum, en þaðan er myndin sem er hér fyrir ofan.
 
Dagarnir mínir tveir í höfuðborginni voru fínir. Það voru engir heiftarlegir dagar en það voru fínir dagar. Þeir voru líka tilbreyting frá mínum hversdagsleika og gáfu mér möguleika á að hugsa um eitthvað nýtt. Ég hugsaði líka um innlandslestina sem ég hugsaði líka um í gær. Ég til og með hugsaði um Kolåsen í fjallendinu í vestra Jämtland meðan ég gekk eftir gangstéttunum í Stokkhólmi.
 
Kolåsen hafði áhrif á bæði Susanne og mig eftir dagana þar í sumar. Það voru ekki heldur neinir heiftarlegir dagar en það voru góðir dagar, afar góðir dagar. Á mörkum til óbyggðanna þar sem rólega stemmingin og kyrrláta náttúran faðmaði okkur að sér og veittu okkur lífsgæði. Við manneskjurnar erum ólíkar og lífsgæði fyrir okkur geta verið af ólíkum toga.
 
Dagarnir tveir í Stokkhólmi gáfu mér ekki svör við stóru spurningunum um lífið og tilveruna. Það var líka eins gott því að þá get ég haldið áfram að taka mér tíma til að hugleiða það sem ég kem aldrei til með að geta svarað.
 
Fljótlega erum við frammi í Hallsberg. Að ferðast með lest er virkilega góður ferðamáti. Á leiðinni höfum við talað um hið alvarlega efni sem Susanne leggur stund á og það hefur verið þægileg umræða. Lestin rennur hljóðlát áfram og það er svo áhyggjulaust, hún vaggar okkur lítillega, ljósin líða framhjá gluggunum í snemmvetrarmyrkrinu og okkur finnst sem okkur liggi ekki svo mikið á að komast á leiðarenda.
 
 
Vinnusamur Hannes Gudjon byggir úr kubbunum sínum.
 

Blogg frá 3. nóvember 2015

 Þetta blogg skrifaði ég á sænsku og kallaði það "Kall úr sveitinni í höfuðborginni".
 
 
 
 Það var ekkert miskunnarleysi í morgun klukkan korter yfir fjögur þegar vekjaraklukkan í símanum mínum trommaði eins og höggspæta. Reyndar þægilegt miðað við hljóð í vekjaraklukku en greinilegt var það samt sem áður. Það var ekkert að velja um, það var bara að fara í fötin og taka nestisboxið og vatnið úr ísskápnum? Síðan var ferðinni heitið móti Hallsberg og í lestina, upp með nestið og síðan var það rólegur morgunverður um borð í lest.
 
Eftir Västerås blundaði ég eitt augnablik -fannst mér. Ha ha, sagði Susanne þegar við komum inn í norður Stokkhólm, þú svafst næstum alla leiðina frá Västerås. Hún kvartaði ekki, hún var glöð. Hún er bókstavlega alltaf glöð þessi kona og alltag mjög glöð þegar hún er á leið í skólann. Henni þykir vænt um það sem hún er að læra sem mér þykir þó ótrúlega flókið. Samt reyni ég að vera svolítið til hjálpar, alla vega að vera til hvatningar.
 
Á aðaljárnbrautarstöðinni í Stokkhólmi hvarf hún inn í mannhafið á leið í innanbæjarlestina. Á járnbrautarstöðinni fékk ég mér gódan kaffisopa, horfði á fólk, las, velti fyrir mér lífinu og tilverunni og hafði það notalegt. Allt var í gríðarlega mikilli andstöðu við kyrrðina og rólegheitin í sveitinni á Sólvöllum. Ég hafði valið borð á frábærum stað á litlum veitingastað á stòðinni. Ég sá svo um að ég hafði gott útsýni yfir athafnir fólksins og að það væri rafmagn að finna í veggnum bakvið mig. Ég heyrði nið frá samtölum fólks, hljóð frá  ferðatöskum sem rúlluðu, stólum sem drógust til, og tilkynningar um komu og brottfarartíma lesta. Lífið var í fullum gangi.
 
Maður nokkur, kannski á mínum aldri, settist við næsta borð og sneri bakinu nokkuð móti mannfjöldanum sem gekk rösklega framhjá. Hann var eins og dálítið einsamall, ekki óvingjarnlegur, en svolítið órólegur. Ég sá að hann veitti mér athygli.
 
Ég ákvað að flytja mig, tók kaffibollan og brauðdiskinn og setti í rekka lengra inni á veitingastaðnum og þegar ég gekk til baka framhjá borðinu hafði maðurinn flutt sig þangað sem ég hafði setið og nú verkaði hann ánægður. Hér er eins og það sé gott að vera sagði hann og brosti breitt. Já, sagði ég, og svo fékkst þú volgan stól. Einmitt sagði hann, og svo hef ég rafmagn hérna í veggnum. Hann benti á innstunguna sem var þáttur í því að ég hafði setst þarna hátt í klukkutíma áður. Hann hafði þegar tekið upp iPadinn sinn. Við skiptumst á nokkrum orðum og lyftum svo hendi í kveðjuskini þegar ég fór. Það er líka hægt að ná sambandi við fólk á aðaljárnbrautarstöðinni í Stokkhólmi.
 
Ég flutti mig upp á næstu hæð og fékk mér sæti á bekk með blað í hönd. Ég sá fólk um allt við bekki og borð. Meiri hlutinn horfði á farsíma sína og það var ögn skrýtið. Hvað gerir allt þetta fólk veifandi farsímunum sínum? Já, hvað gerði ég sjálfur einni hæð neðar áðan veifandi farsímanum mínum.
 
 Jú, ég hafði sent dagskrárstjóranum í Vornesi skilaboð og fengið skilaboð frá honum. Ég hafði líka fengið e-póst frá Íslandi sem ég hafði beðið eftir i tvo daga. En ég hafði í fyrsta lagi skrifað hluta af þessu bloggi og lesið. Ég hafði lesið um lítið lestarfyrirtæki sem er með skemmtiferðir á vissum árstímum frá mið Svíþjóð og langt norður í land. Þar hafði ég lesið um hvað hægt er að skoða i Vilhelmina ef við Susanne skyldum ferðast þangað, en hún þekkir vel til þessara sérstöku lestarferða. Við getum kallað þetta innlandslestina. Ég hafði í fyrsta lagi lesið og skrifað. Hinir gera það trúlega líka hugsaði ég og að eftir nokkur ár verði það álíka eðlilegt að veifa farsímunum sínum og það er í dag að lesa í blöðum og bókum í dag. Ég komst að því að ég hefði verid fordómafullur gagnvart svona löguðu.
 
Og seinna sama dag.
 
Ég sit nú á jarðhæð í versluninni Åhléns og hef nú drukkið ennþá einn bolla kaffi. Ég hef verið á efstu hæðinni og litið á leikföng handa hinum sex ára Hannesi Guðjóni barnabarni mínu. Ég hef rölt hingað og þangað og fer fljótlega til Kulturhuset. Rétt hjá borðinu mínu hafa setið tvær konur, kennarar trúi ég, og þær hafa talað ákaft um uppeldi, athafnir og atvik í samfélaginu. Hljóðlega hef ég setið álútur yfir iPadinum mínum og skrifað, núna á þriðja staðnum þennan morgun.
 
Og hvað getur maður svo gert í Stokkhólmi. Það virðast ekki vera nein vandræði. Sex tímar hafa liðið og núna eru það um það bit tveir tímar þangað til Susanne kemur frá skólanum. Svo verður það lígflegt -ærlegurr matur, notalegheit og meira rölt og svo heimsókn til barnabarnsins. Mig grunar að hann bjóði upp á gistingu.
 
Er það mögulegt að maðurinn sem tók sætið mitt á járnbrautarstöðinni í morgun sitji þar ennþá og skrifi á iPadinn sinn.

Hún Málfríður móðursystir mín

Í tilefni af því að hún Málfríður Pálsdóttir móðursystir mín verður jarðsett á Kálfafelli í dag þá birti ég hér blogg sem ég skrifaði og birti þann 1. apríl 2011.
 
*          *          *
 
Ég heimsótti hana Málfríði frænku mína á Sólvang og hún er einmitt að austan þessi móðursystir mín. Sú heimsókn vakti margar hugsanir sem enn búa með mér fjórum dögum seinna. Hún lifir ein eftir af fimmtán alstystkinum og einum hálfbróður þessi bráðum níutíu og þriggja ára gamla kona. Hvernig er að hugsa út í það spurði ég hana og hún strauk á sér handarbakið og svaraði á þá leið að það væri nú bara svona. Svo var ekkert meira með það.

Þegar ég kom inn á herbergið til hennar var hún að þræða saumnál en gleraugun lágu á borðinu. Saumnálina þræddi hún en þegar ég spurði hana eftir gleraugunum sagðist hún sjá betur með þeim og svo setti hún þau upp. Hún sýndi mér líka saumaskapinn sinn og mér var óskiljanlegt hvernig hún fór að því að sauma svo haglega sem hún gerði. Hún var gersamlega afslöppuð og virtist í sátt við lífið. Manstu þegar þið Snorri genguð heim frá Seljalandi í norðaustan hvassviðrinu spurði hún.

Já, ég mundi vel eftir því. Ég veit hvorki um vindstyrk eða hitastig en ég veit að það var rokhvasst norðaustan, beint í fangið, og mikið frost. Líklega var þetta á gamlársdag og ég gæti trúað því að ég hafi verið tólf ára og Snorri tíu ára. Við gengum frá Seljalandi í Fljótshverfi þar sem við höfðum verið gestir einhverja daga og heim til okkar að Kálfafelli, eina sjö kílómetra gæti ég trúað. Helgi bróðir hennar fylgdi okkur hálfa leiðina en svo sáum við um okkur sjálfir seinni hlutann. Öll vötn voru gaddfreðin. Stundum reyndum við að ganga aftur á bak til að hlífa framhlutanum því að fötin náðu engan veginn að halda á okkur hita. Það var eins og það gæti ekki annað en blásið inn á kroppinn þar sem buxur og úlpa mættust. Annars vorum við klæddir eins og best var á kosið á þeim tíma.

Hún móðursystir mín sagði svo að mikið lifandis ósköp hefði hún verið fegin þegar mamma hringdi til hennar og sagði að við værum komnir á leiðarenda. Ekki get ég skilið hvað lá á að láta ykkur fara út í þetta voðalega veður hélt hún áfram. Varla hefur verið svo nauðsynlegt að fá ykkur heim að það þyrfti að gera það sagði hún ennfremur. Svo endurtók hún nokkrum sinnum hvað hún hefði orðið fegin þegar mamma hringdi til hennar og sagði henni að við værum komnir heim. Svo sýndi hún mér saumaskapinn aftur.

Hún fór ofan í skúffu og sótti passísálmana og sagði að þeir væru lesnir frammi í setustofu á hverjum degi. Mér finnst voða gott hjá þeim að gera þetta sagði hún og það koma margir til að hlusta. Hefurðu lesið passíusálmana spurði hún og var nú búin að fletta upp á passíusálmi númer eitt. Ég sagðist ekki hafa lesið þá skipulega en gripið niður í bókinni hingað og þangað og svo að ég hefði ekki komist hjá því að heyra þá þegar þeir voru lesnir í útvarpinu gegnum árin.

Svo byrjaði hún að syngja passíusálm númer eitt. Ég horfði á hana svona afslappaða eins og hún var og velti fyrir mér lífshlaupi hennar. Hún giftist aldrei og eignaðist engin börn en mörg börn gistu samt heimilið hennar á Seljalandi. Það virtist mikið ljóst að hún leið ekki af neinum leyndarmálum sem fylgdu henni inn í ellina. Hún virtist í fullkomnum samhljómi við það sem hún var að gera, að syngja fyrir mig passíusálm númer eitt, og hún gerði það greinilega af mikið góðum vilja. Hún vildi honum frænda sínum vel, þeim sem bjó nú í Svíþjóð og hafði gengið heim til sín frá henni í illviðri fyrir einum 56 árum. Hún gat ekki þekkt mig með nafni þegar ég kom inn til hennar en þegar hún heyrði nafnið sagði hún að ég byggi víst ennþá í Svíþjóð. Jú ég gerði það og hún reiknaði með að það færi vel um mig þar.

Ég var orðinn hissa á hvað passíusálmur númer eitt var langur en það var allt í lagi þar sem þessi góði ásetningur hennar að syngja fyrir mig vakti margar hugsanir. Þessar hugsanir fylgja mér enn fjórum dögum seinna og eru þegar hluti af því að gera mig að svolítið fullorðnari manni. Að lokum söng hún síðasta versið og lagði svo aftur bókina með virðingu, lagði hana niður í skúffu og sagði svo: Ég söng sum versin oftar en einu sinni en mér fannst það allt í lagi þar sem þú mundir ekkert setja þig á móti því. Það er bara gott að heyra þetta sagði hún og ég var henni alveg sammála, og í raun og sannleika var ég henni alveg sammála.

Ég hlustaði á útvarpið hérna heima hjá henni systur minni áðan. Sú systir mín heitir í höfuðið á henni Málfríði móðursystur minni á vistehimilnu Sólvangi í Hanfarfirði, þessu eina systkini sem eftir er af 16 systkinum. Það var sagt frá því í útvarpinu að sólin okkar væri þúsund sinnum efnismeiri en allt annað sem fyrirfynndist í sólkerfinu okkar og að hún mundi endast í fimm miljarða ára héðan í frá. Mér fannst þetta vissulega athyglisvert og talaði ítillega um það við hann Sigurð mág minn áður en hann fór í vinnuna.

Svo var ég einn eftir og ég borðaði morgunverð og hlustaði á útvarpið. Það var umræða um þjóðmál og allir vissu allt um hvað var gert vitlaust og hvað þyrfti að gera. Mér þótti merkilegt að þetta spaka fólk skyldi ekki vera löngu búið að leysa Gordíonshnútana þar sem viskan var ótæmandi. Ég varð þreyttur á þessu og slökkti á útvarpinu. Mér fannst tímanum betur varið við að skrifa um hana Málfríði móðursystur mína sem söng fyrsta passíusálminn fyrir mig á mánudaginn var.

Nú ætla ég út að hitta konuna mína og annað fólk. Ég gisti hjá systur minni og konan mín gisti hjá systur sinni. Ég vona að allir verði góðir við alla í dag og að margir syngi fyrsta passíusálminn fyrir einhverja sem þeim þykir vænt um og auðvita fyrir alla hina líka.
 
 
Svo bæti ég einni mynd við þetta gamla blogg mitt.
 
Þessi mynd er tekin í 95 ára afmæli Málfríðar Pálsdóttur. Í minningunni frá heimsóknum mínum til hennar á Sólvang, þá var hún brosleit eins og á myndinni. Hún sat gjarnan í rúmi sínu eða á rúmkantinum og hafði sængina yfir sér upp að mitti. Svo þegar hún sagði eitthvað mikilvægt, þá strauk hún sængina alúðlega. Henni leið vel í rúminu þó að hún gengi líka um ganga á Sólvangi og bauð gjarnan upp á kaffi og jafnvel mat þegar svo bar undir. Þannig var nú það og nú heyrir það sögunni til.
 

Ég ætlaði bara að sjá textavarpið -en viti menn

Susanne svaf á vinnustað í nótt, aðfaranótt fimmtudags, og kemur til með að gera það næstu nótt líka. Ég hringi ekkert í fyrramálið sagði hún í síma áður en hún lagði sig um klukkan ellefu i gærkvöld. Jú, ég bað hana endilega að hringja og svo hringdi hún klukkan hálf sjö. Þá var ég steinsofandi. Ég tók mér tíma til að hugsa um hlutina hér heima og varð allt í einu svartsýnn. Það var of margt ógert og ég hafði aldrei gert vissa hluti vetrarklára úti þó að ég héldi það í haust.
 
Svo tók ég mig upp og byrjaði með viss heimilisverk, þá til dæmis að setja í ílát morgunkornið sem ég bakaði í gærkvöld. Svo borðaði ég morgunverð þar sem uppistaðan var þetta morgunkorn. Svo byrjaði ég í svefnherberginu þar sem ég hef verið að endurskipulega margt sem við höfum ákveðið saman, en einhvern veginn hef ég gert það í mjög lágum gír. Þetta hef ég talað um áður.
 
Svo inn á milli verka vildi ég sjá textavarpið en ég hafði ekki litið á fréttir í heila tvo daga. Ég komst ekki hjá því áður en ég var búinn að klika á takkann textavarp, að sjá það sem þá stundina var á skjánum. Mynd af manni fékk mig til að setja hljóðið á og athuga hvað hann var að tala um. Í ljós kom að hann er starfsmannastjóri hjá stórri fyrirtækjakeðju í Svíþjóð. Hann nefndi ýmsar orsakir þess að margir ættu erfitt með að fá vinnu en málið væri að þá væri oft gengið framhjá góðum starfsmönnum.
 
Þó að ég væri farinn að hlusta á þennan þátt sem var bein útsending frá ráðstefnusal einhvers staðar í landinu, þá var ég líka með hugann inni í svefnherberginu þannig að ég greip ekki nærri allt sem þessi maður talaði um. En tvö atriði eru þó nokkurn veginn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum mínum.
 
Maður sem við getum nefnt Kennet var talinn eitthvað undarlegur. Hann barðist um á vinnumarkaðinum nánast í tugi ára en allt endaði með vonbrigðum og hann var við það að gefast upp. Hann sat einhvern tíma í matsal fyrirtækis og hélt á dagblaði. Dagblaðið var upp og niður í höndunum á honum og fólk hvíslaði hvert að öðru að hann vildi láta sem hann kynni að lesa. Við þessar aðstæður var auðvitað erfitt að fá vinnu. Kennet var greinilega heimskur.
 
Síðar kom í ljós að Kennet var lesblindur, eða þannig, en hann nefnilega gat lesið upp og niður og því hélt hann á blaðinu öfugu þegar hann las. Fyrir okkur flest var það öfugt en fyrir Kennet var það rétt. Hann var ekki lesblindur en las öðruvísi en flestir aðrir. Þá var farið að taka öðruvísi á málum og Kennet komst fljótlega í ábyrgðarstöðu. Síðar kom hann fram í sænska þinginu og lýsti baráttu sinni og þeim þjáningum sem hann gekk í gegnum. Enginn hafði komist óhrærður frá þeirri lýsingu og maðurinn sem hafði fyrirlesturinn í morgun átti að tala í þinginu á eftir Kennet. En þegar Kennet hafði lokið mnáli sínu og fyrirlesarinn átti að taka til máls, þá hafði hann ekkert að segja. Kennet hafði sagt allt á svo áhrifaríkann hátt að allir voru orðlausir.
 
Í fyrirlestrinum í morgun talaði fyrirlesarinn líka um unga Sómalan sem vann við kassa í stórverslun. Sómalinn talaði lélega sænsku og það var ekki litið hýrum augum. En eitt var öruggt; kassinn hjá honum var alltaf réttur, réttari en hjá öllum öðrum.
 
Þessir menn voru báðir hæfileikamenn. Fólk þurfti bara að skilja mannin sem átti erfitt með lestur og svo þurfti að hvetja Sómalann til að fara í skóla og læra betri sænsku. Einfalt eða hvað þegar öllu er á bottninn hvolft. Þannig er það með fjölda fólks.
 
Það var margt annað sem þessi maður sagði frá en eins og ég sagði var ég með hugann við annað. Dæmin tvö sem ég hef nefnt eru kannski ekki nákvæmlega hárrétt í lýsingu minni en ég held að það skakki ekki svo miklu. Það er hættulegt fyrir mig að kveikja á sjónvarpi á morgnana því að þá er oft svo gott efni á skjánum. Það er alla vega hættulegt ef ég ætla að gera annað.
 
Ha ha, herbergið er tilbúið. Svartsýnin í morgun var ímyndun.

Gamlársdagur á Sólvöllum í Krekklingesókn.

Er mögulegt að ég sé smáskrýtinn eða hvað? Ég sit einn heima og uni því vel. Mig vantar ekkert og ekkert gerir mig órólegan, mér leiðist ekki og ég á enga flugelda. Helst vildi ég að Susanne væri heima en það er bara ekki þannig. Við héldum okkar gamlársdag hátíðlegan fram til klukkan hálf þrjú þegar hún fór í vinnuna. Ég veit að hún býr yfir eiginleika til að fá skjólstæðingana til að finna sig í öruggum höndum á skammtímavistheimilinu þar sem hún vinnur. Þannig er það og svo get ég unað glaður við mitt.
 
Ég var á AA fundi í Fjugesta í gær og þar talaði ég einmitt um þetta að ég get unað glaður við mitt. Margt hefur skeð á lífseiðinni sem ég hefði óskað að hefði farið öðruvísi, sumt alvarlegt og annað minna alvarlegt. En ég lít þannig á að ég eigi að spila sem best úr því sem er, en ekki að gróa fastur í því sem fór á annan veg einhvern tíma áður.
 
Árið sem gengur til enda í kvöld er ár mikilla breytinga hér á bæ og í lífi mínu. Breytingarnar hér á bæ eru bara hálfnaðar eða svo en þær verða mjög góðar að lokum. Mér liggur ekkert á en mér er meira í mun að þessar breytingar verði sem bestar að lokum. Ég var í lítilli verslun í Fjugesta fyrir nokkrum vikum og sá eða sú sem afgreiddi mig óróaði sig yfir að þurfa að láta mig bíða eitthvað. Nokkrar manneskjur voru þar í kringum okkur og ég sagði að mér lægi ekkert á, ég hefði allt lífið framundan. Fólkið leit á mig og hló við. Ég horfði til baka til fólksins og hugsaði með mér í gamni; ætli þau haldi að ég sé orðinn gamall!
 
Árið hefur verið mér gott. Stundum hafa komið tregastundir og stundum sorgarstundir. Ég á auðvelt með að viðurkenna það og segja frá því. Svona stundir koma upp í lífi allra en fólk talar ekki svo mikið um það. En í heild hefur lífið verið mér gott og það er það sem ég met að verðleikum.
 
Ég hef heilsu sem er mér alveg ómetanlegt. Ég er með kviðslit og er búinn að vera all lengi en það hefur ekki verið svo alvarlegt. Aðallega er það svolítið leiðinlegt, sérstaklega þegar ég setst niður meðal fólks og það ropar hátt í kviðarholinu. Svo þarf ég stundum að leggjast á bakið til að fá hlutina þarna niðri til að fara á sinn stað. Ég er kominn á biðlista og mun fá þetta lagfært snemma á komandi ári. Mjaðmarliðurinn sem ég fékk fyrir rúmum sex árum virkar svo vel að ég man aðeins sjaldan eftir að ég sé með mjaðmarlið úr stáli. Ég á því láni að fagna að þegar eitthvað er að þá er það lagað og svo er það í lagi.
 
Það hefur verið óvenju lítið um heimsóknir á árinu en ég get líka lifað við það. Valgerður og vinkona hennar voru hér nokkrar nætur í vor og Rósa og fjölskylda voru hér nokkrar nætur í sumar. Á þessu ári hef ég reynt að klára sem mest en ég hef ekki byrjað á neinu nýju. Fólk hefur gjarnan spurt mig hvort ég sé ekki að byggja neitt núna en svo er ekki, ég er bara að vinna að hinum mörgu innansleikjum sem eftir eru og heildin sem mig hefur dreymt um svo lengi hefur komið nær og nær.
 
Ég get gefið dæmi um hvað ég hef verið að gera hér innan húss. Yfir hluta af íbúðarhúsinu er lágt loft sem ég hef ekki vitað almennilega hvað ég skal gera við. En nú er ég búinn að tæma þetta loft að mestu af öllumögulegu og allar bækur, á að giska ellefu lengdarmetrar af hillum, eru nú þar uppi. Við þetta opnaðist rými hér niðri og á næsta ári langar mig að fara með huggulega dýnu upp á loftið, liggja þar á henni og gera lista yfir bækurnar. Síðan vil ég geta gengið að þessum lista og valið mér bók að lesa, farið upp og sótt hana. Þegar ég flutti bækurnar upp sá ég að ég á mikið af góðum og fróðlegum bókum sem mig sárlangar að lesa. En ég hef allt lífið framundan til að gera þetta, hversu langur tími sem mér verður svo gefinn.
 
Ég þarf vart að geta þess að Susanne flutti inn á árinu. Þessi kona hefur reynst mér svo vel og verið mér svo góð að oft er ég alveg undrandi og að sama skapi afar þakklátur. Þetta er nokkuð stórt að segja frá og ég gæti auðveldlega sagt frá mörgu góðu þar sem hún hefur reynst mér vel. Ég reyni að vera góður til baka. Við vorum all mikið á ferðinni í sumar og ég sem hef oft gegnum árin bloggað um staði norður í landi sem mig hefur lengi langað að heimsækja, hitti allt í einu konu sem er að sama skapi veik fyrir stöðunum sem mig hefur dreymt um. Hún þekkir sig þar ótrúlega víða og ratar þar víða um án þess að þurfa að líta á landakort eða vegskilti. Hugur okkar stefnir þangað upp á nýju ári.
 
Í fyrri hluta janúar ætlum við til Rósu, Péturs og Hannesar Guðjóns. Við ætlum að taka með okkur lambalæri og fá Rósu og Pétur að matreiða það og þar með ætlum við að læra að gera þetta frábæra hráefni að góðum mat. Þetta er fyrsta ferðaáætlunin á nýju ári.
 
Nú er best fyrir mig að fara fram í eldhúsið og baka pönnukökurnar sem ég hef hugsað svo mikið um í dag. Við borðuðum góðan mat í dag, íslenskt lambakjöt sem mér tókst þokklega vel við að matreiða í leirpottinum hennar Susanne. Í kvöldmat ætla ég svo að hafa góða súpu og pönnukökur. Það er mjög vanalegur matur hér um slóðir á fimmtudögum.
 
Ég er vanastur og skrifa allt of mikið þegar ég byrja á annað borð. Held líklega að það sé svo merkilegt sem ég skrifa. Nú læt ég pönnukökurnar stoppa mig við skriftirnar og eftir pönnukökur les ég þetta yfir og ákveð þá hvort ég birti eða ekki.
 
Gleðilegt nýtt ár öll þið sem kíkið á þetta blogg og kærar þakkir fyrir allt sameiginlegt sem við höfum átt í lífinu. Susanne biður að heilsa.
 
Sólin er að ganga til viðar vinstra megin við grenitréð vinstra megin á myndinni. Ég held að ég fari rétt með að dagurinn í dag er tíu mínútum lengri en styttsti dagurinn var fyrir nokkrum dögum síðan.
 
Það eru margar myndir í skóginum um þessar mundir. Þetta birkitré er úti í vetrarmyrkrinu eina tíu metra frá veröndinni sem er utan við svefnherbergisgluggann minn þar sem ég sit núna.
 
Ég vil helst af öllu minnast sumarsins og ferð okkar Susanne upp til Jämtland. Þessi mynd er tekin frá útsýnisturni til norðurs frá Austursund. Þegar við komum þangað upp var mín fyrsta hugsun að við værum komin til útlanda.
 
Þessi mynd er tekin í fjöllunum í vestra Jämtland frá húsi sem við leigðum í fáeinar nætur á Kolåsen, allt of fáar nætur. Myndin er tekin í 500 m hæð yfir hafið og staðurinn er álíka norðarlega og Vestmannaeyjar. Hugur okkar er þegar farinn að beinast þangað aftur þegar við hugsum til komandi sumars.
 
 
Nálægt Kolåsen er kirkja sem nefnist Lappkapellen. Þar er lítill kirkjugarður og við hliðina á kirkjugarðinum er bekkur og á honum er skilti sem á stendur "Hugleiðslubekkurinn". Þar fengum við okkur auðvitað sæti á hugleiðslubekknum og tókum þessa mynd.

Bloggað á annan jóladag

Rúmlega hálf sjö í morgun vaknaði ég við að það plingaði í farsímanum mínum. Ég gáði og það var góðan daginn sms frá Susanne og um að hún væri nú að byrja að vinna. Það er regla hér á bæ að láta vita af sér og það er regla sem líka ríkti milli okkar Valdísar. Susanne vann til tíu í gærkvöld og átti svo að byrja svona snemma. Hún svaf því á vinnustaðnum í nótt. Eftir að hafa svarað henni sofnaði ég aftur.
 
Næst þegar ég vaknaði var klukkan langt gengin í níu. Það var notalega hljótt heima og það eina sem ég heyrði var lágt tif í klukku einhvers staðar á vegg. Eftir stund tók ég farsímann og opnaði. Ég sá að feisbókin hafði sent mér eitthvað frá sama degi fyrir ári. Ég gáði. Þá sá ég að ég hafði skrifað blogg um jól í fyrra og ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að gera það núna líka. En að skrifa um hvað? Svo flaug hugurinn af stað og ég sveif yfir víðáttur bæði í tíma og rúmi.
 
Ég var í Vornesi á þorláksmessukvöld. Þar var engin skata í matinn en það var góður matur samt sem var farinn að smakka jól. Ég tók blóðþrýsting hjá nokkrum á sjúkradeildinni. Kona sem var fjórum yngri en ég lá á bekknum og meðan ég setti mælirinn á arm hennar virti ég hana fyrir mér. Hún man fífil sinn fegri get ég sagt því að ég hef hitt hana nokkrum sinnum áður. Á árum áður rak hún lítið fyrirtæki í fjarlægu landi og var fjárhagslega frjáls, glæsileg, hraust og gerði spennandi hluti í lífinu. Nú lá þarna á bekknum skuggi þeirrar manneskju, rúin af öllu og heilsunni einnig. Hún var slitin, vansæl og þreytt. Þetta er það sorglega við vinnuna mína.
 
Næst kom á bekkinn kona sem gat verið lítið yfir tvítugt. Hún var ung og glæsileg en það fannst samt virkilega ástæða fyrir hana að koma til okkar í Vornesi, alla vega ef hún ekki vildi koma eftir fjörutíu og fimm ár og vera flöktandi skuggi af sjálfri sér eins og eldri konan á undan. Hún leit ekki út fyrir að vera farin að skaðast líkamlega af neyslu sinni. Við höfðum aldrei hittst áður. Ég spurði hana hvað hún ynni við þó að ég vissi ekki einu sinni hvort hún hefði vinnu. Ég er sjúkraliði og vinn á heimili fyrir fólk með alsheimer svaraði hún glaðlega.
 
Jahá, en hvernig er að vinna á svona stofnun, er það ekki erfitt spurði ég. Þessi unga kona varð eitt sólskinsbros og hennar fallegu augu urðu ennþá stærri. Hún sagði að það væri alveg stórkostlegt að vinna með fólk með alsheimer. Það væri skemmtilegt og mjög gefandi. Augnablikin þegar svona er sagt eru gleðinnar augnablik.
 
Daginn eftir kom ég heim rétt fyrir hádegi. Það var aðfangadagur og ég fann angan af jólamat mæta mér þegar ég nálgaðist húsið. Útihurðin var ekki alveg lokuð en til gamans hringdi ég dyrabjöllunni áður en ég gekk inn. Á móti mér kom Susanne með breitt bros á vör. Hún hafði opnað útihurðina svolítið til að ég skyldi finna betur að mér væri fagnað
 
Ég stend oftar við eldhúsbekkinn vegna þess að hún vinnur meira og er auk þess í skóla. Þarna var Susanne búin að vera í fríi í fimm daga og nú fannst henni sem hennar tími væri kominn og ég sá að hún naut þess að standa við eldhúsbekkinn. Annars kallar hún mig oft kallinn í eldhúsinu og ég kann því vel. Við höfum ýmis gamanyrði varðandi þetta sem eru einungis okkar. Eftir svona frí sem verður sex dagar samtals vinnur hún svo langa helgi. Frá föstudagssíðdegi til sunnudagskvölds vinnur hún rúmlega þrjátíu tíma. Þannig helgi er núna og svona er það á fjögurra vikna fresti. Það er þekkt í Svíþjóð að sjúkraliðar vinna mjög stranga vinnu fyrir lítil laun. Málsmetandi fólk skrifar stundum um þetta og talar um það með fjálglegum orðum, einnig að þessu verði að breyta en svo breytist ekki neitt. Það eru líka til menn sem vinna við þetta en þeir eru mun færri. Menn velja almennt betur launaða vinnu.
 
Susanne vinnur á heimili í Örebro sem heitir Rynningevíkin og stendur nærri þeim hluta af Hjälmaren sem heitir Rynningevíkin. Þangað kemur mikið af fólki frá sjúkrahúsinu í Örebro, fólki sem alls ekki getur farði heim en sjúkrahúsið hefur samt ekki aðstæður til að hafa. Fulltrúar frá sjúkrahúsinu koma fyrirvaralaust til Rynningevíkurinnar til að fylgjast með hvort allt sé vel gert og Rynningevíkin fær bestu einkunn fyrir sitt og mjög góða umfjöllun í blöðum.
 
Þangað kemur fólk sem kannski varð af með fót á sjúkrahúsinu nokkrum dögum áður, er kannski lamað, er blint, ratar ekki inn á herbergið sitt, getur ekki borðað hjálparlaust og sumir gera þarfir sínar í bleyju. Aðrir þurfa aðstoð til að komast á klósettið og sumir geta ekki baðað sig sjálfir. Sumir hafa blæðandi magasár eða stjórnlausan niðurgang. Margir þurfa að fá að halda í hönd og segja eitthvað sem er þeim mikilvægt. Sem betur fer er þar líka fólk sem einungis er gamalt og hefur það gott.
 
Það eru nokkrar vikur síðan við Susanne töluðum um vinnuálagið hjá henni og lágu launin. Við töluðum um aðra svipaða vinnustaði með léttari vinnu og við töluðum um aðra vinnu og berti laun og við komumst að því að það væru ýmsar leiðir að velja um. En eftir ummræðuna sagði Súsanne: En veistu það að mig langar bara svo mikið að hjálpa þessu fólki? Ég einfaldlega get ekki hætt. Ég vissulega vissi þetta og Súsanne hefur vitað lengi að ég veit það. Samt kemur þessi umræða upp hjá okkur öðru hvoru. Hún vann áður hjá hátæknifyrirtæki í tuttugu og fimm ár og í dag segir hún að hún geti ekki skilið hvernig henni tókst að gefa svo langan tíma af lífi sínu í þá vinnu.
 
Það er til svo mikið af góðu fólki en við heyrum ekki svo mikið talað um þetta fólk. Ég skrifaði jólabréf sem fjallaði nokkuð um að segja ekki svo mikið frá því góða. Ég kalla þetta bara jólablogg. Ég stend gjarnan við eldhúsbekkinn og hef til mat handa Susanne þegar hún kemur heim frá Rynningevíkinni. Svo þegar hún kemur inn hlær hún við og segir; "kallinn minn í eldhúsinu". Mér þykir vænt um það orðalag.
 
Það nálgast hádegi og það er alger kyrrð hér í sveitinni. Um tíma í morgun heyrði ég í mótorsög. Annars allt kyrrt. Ég valdi að skrifa þetta blogg í staðinn fyrir að koma röð og reglu á í svefnherberginu. Við sofum í öðru herbergi þar sem allt er á tjá og tundri í hinu eiginlega svefnherbergi. Þar sit ég þó og skrifa þetta blogg en óreiðan er fast við bakið á mér.
 
Ég vann aftur í gær, langan vinnudag, og hafði fyrirlestur og þrjár grúppur. Við vorum fá í vinnu en allt gekk vel vegna þess að við höfðum góða samvinnu og komum vel fram við þá sem þurfa á hjálpinni að halda. Vinnan mín um jólin var ánægjuleg og mér mikilvæg þegar öllu er á botninn hvolft. Kveikurinn minn virðist því ekki alveg slokknaður. Jólin kalla á hugleiðngar innra með mér sem mér líður vel með. Það var jólastemming í Vornesi og svo áttum við virkilega góðan aðfangadag hér heima. Þessi jól hafa verið blanda af mörgu góðu. Í vinnu, mat, í félagsskap heima og heiman og í hugarástandi sem hefur framkallað margar hugsanir um hið góða í heiminum.
 
Að lokum; ég er stoltur af hugsunarhætti og manngæsku konunnar sem vill deila lífinu með mér.
 
 
Við Susanne vorum upp í Orsa (Úrsa) um daginn og prufuðum þá þennan kuppaleik sem er alveg stórskemmtilegur. Við þurfum að eignast svona kubba.
 
 
Lotta og Jonas. Ég deildi vinnu með þessu fólki núna um jólin. Þau eru bæði tvö mjög fágaðar og góðar manneskjur. Jónas er svo hár að ég held að ég nái honum bara í höku. En ég ítreka það að þau eru bæði alveg einstakar manneskjur.
 
 
Malin og Sara sáu um jólamatinn í Vornesi. Þessar liðlega tvítugu konur eru báðar með fasta vinnu í eldhúsinu og þær eru líka ljúfar manneskjur og svo eru þær dulegir kokkar. Jólamaturinn var góður eftir því. Það voru fleiri sem unnu að jólamatnum en það voru Malin og Sara sem sáu um jólaborðið á aðfangadag.
 
 
Þetta jólatré stendur i dagstofunni í Vornesi og við hliðina á því stendur jólasveinn.

Að tala um viðburði dagsins

 
Ég sit heima hjá Rósu og fjölskyldu á Celsiusgötunni í Stokkhólmi og er einn heima. Ungur smiður kemur og fer. Núna hefur hann verið að flota innan við svalahurð, en það er verið að setja svalir við íbúðirnar í þessu 120 ára gamla fjölbýlishúsi,  og það er heil mikið átak. Smiðnum fannst greinilega sem ég væri að líta eftir vinnubrögðum hans en svo var alls ekki. Ég sagði honum að þar sem ég er sjálfur gamall smiður þá hefði ég svo gaman af að sjá hvernig ungir smiðir ynnu í dag með nýrri kunnáttu, nýjum efnum og áhöldum. Þá fékk hann svona líka áhuga fyrir mér og ennþá kemur hann og fer og nú segir hann mér hvað hann skal sækja og hvenær hann komi aftur. Hann hefur líka sagt mér að annar ungur smiður sem ég hitti hér í gær sé bróðir hans og búi í Uppsala.
 
Ég fylgdi Susanne á brautarstöðina í morgun, en þar tók hún lest til skólans síns sem er norðarlega í Stokkhólmi. Svo flýtti ég mér til baka til að geta orðið Hannesi Guðjóni og Pétri samferða í skólann hans Hannesar. Þaðan fór Pétur svo í sína vinnu en ég heim til að borða morgunverð. Það var þá sem samskipti mín og smiðsins byrjuðu. Rósa er stödd í New-York við vinnu sem ég get ekki útskýrt, það er einfaldlega of flókið fyrir mig. En ég treysti henni og svo mörgum öðrum fyrir framtíðinni, þessu vel mentaða fólki með miklar hugsjónir. En það eru líka til völdug öfl í þessum heimi sem hefur hugsjónir af allt öðrum toga. Hvernig sem á því stendur er meira talað um það sem miður er gert en það sem vel er gert. Samt er mikið meira sem er gert af hinu góða en því illa. Ég hef líka staðið mig að því að taka lítið eftir fréttum af af voðaverkum hinu megin á hnettinum en fréttum af voðaverkum i París. 
 
Annars hefur þetta blogg mitt tekið allt aðra stefnu en til stóð þegar ég byrjaði. Ég ætladi að þýða á íslensku blogg sem ég skrifaði á sænsku í Stokkholmsferð fyrir mánuði síðan. Við Susanne reynum að gera okkur dagamun úr ferðunum hennar í skólann og hafa svolítið gaman af þeim. Það var eiginlega um það sem þetta eins mánaðar gamla blogg fjallaði. En nú er orðið of seint að fara út í þessa þýðingu. Ég er búinn að skrifa of mikið og vil heldur ekki henda því sem ég er búinn að skrifa.
 
Það er notalegt að sitja hér og skrifa. Þegar ég er heima er mikið sem ég vil koma í verk. Ég hef sagt það einhvers staðar áður að það stendur yfir skipulagsbreyting og sortering á mörgu heima. Ég er líka að fullganga frá mörgu sem var ófrágengið bæði úti og inni. Listinn hér og hyllan þar innan húss, nokkrar hjólbörur af mold á einn stað úti og margar aðrar lagfæringar. Svo vil ég fá rólegri stundir. Þegar ég skrifa þetta síðasta átta ég mig á því að ég hef oft skrifað það áður.
 
En nú er ég ekki heima og því er ekkert sem bíður mín. Það er notalegt og það er tilbreyting. Eftir klukkutíma eða svo fer ég til móts við Susanne á lestarstöðinni. Þar munum við kaupa okkur mat á bakka sem við tökum með í lestina ásamt vel heitu kaffi. Svo borðum við á leiðinni heim, drekkym kaffi og tölum um viðburði dagsins.
 
 
 
 
 
 
Hér fyrir neðan er léleg farsímamynd frá aðal járnbrautarstöðinni í Stokkhólmi um átta leytið í morgun. Margir á leið  í og úr vinnu og margir á leið í skóla.
 
RSS 2.0