Að endingu frá Kálfafellsdvöl í september 2017

Þegar sem unglingur áttaði ég mig á því að Stefán bróðir hafði eiginleika sem vantaði alveg í mig. Hann þekkti fé á löngu færi, gat sagt hvar hann hefði séð sama fé árið áður eða eitthvað á þá leið og hann sá hvernig því leið.
 
 
Eins og þessi mynd ber með sér, mynd sem ég tók í september síðastliðnum, þá er hann árvökull og tekur vel eftir. Í bílferð í heiðinni sagði hann allt í einu að hann hefði séð fimm kindur sem ekki væru ennþá komnar í girðinguna með öðru fé. Það átti nefnilega að fara að rétta. Ég er átta árum yngri og hafði ekki séð neina. Svo verður að segja eins og er að Stefán er fjármaður, hann er góður við fé. Hann er kominn á eftirlaun en hann er samt á fullu við að aðstoða við fjárbúskap.
 
Svo var réttardagur á Kálfafelli og það var í fyrsta skipti sem ég sá réttað í húsi. Fallegt var féð og hvaða bóndi sem var mátti vera stoltur af svona fríðum hópi.
 
Móðurfólkið mitt kemur frá Seljalandi, nokkra kílómetra frá Kálfafelli. Þau voru 16 systkinin og þau eru öll farin heim og við sjáum þau aldrei meira. Að koma í heimsókn á Seljaland var ekki að koma á hvaða bæ sem var, en hluti systkinanna bjó þar alla sína ævi. En Seljaland fór ekki úr ættinni því að nú býr Snorri bróðir þar með henni Ragnheiði sinni. Snorri og Stefán eiga það sameiginlegt að hætta ekki að annast fallegt fé þó að þeir séu komnir á aldur og Snorri er með eigin fjárbúskap. Trúlega líður þeim best þannig.
 
 
Að horfa út um suðurgluggann frá matarborðinu, þar sér maður yfir stórt landssvæði sem varð til svo nýlega að ég reikna með að afar og ömmur langafa og langamma minna hafi upplifað það tímabil. Hér er ég að tala um eystri hluta Skaftáreldahrauns.
 
 
Austur með hlíðunum austan við Seljaland rennur Hlíðarvatnið. Stundum sást silungur í vatninu og þó að það væri ekki meira en að sjá gára fyrir silungi á hreyfingu í þessu kyrrláta vatnsrennsli -það var ævintýri.
 
Ragnheiður og Snorri, takk fyrir stóru tertuna sem ég fékk að borða svo mikið af þegar ég kom til ykkar í haust. Og útsýnið frá matarborðinu þar sem við borðuðum af tertunni, það er ekki alveg hversdagslegt. Seljaland er alveg einstakur staður skulið þið vita ábúendur.
 
Og Hafdís í austurbænum á Kálfafelli, þakka þér fyrir að gefa þér tíma og rölta um með mér og sýna mér nýja húsið sem þið Rúnar Þór eruð að byggja. Þegar þú af innlifun sagðir mér frá fyrirætlunum ykkar var virkilega skemmtilegt að hlusta á þig.
 
Heiða í vesturbænum, þakka þér líka fyrir að ganga um með mér og sýna mér hvað þið Björn Helgi hafið fyrir stafni og að sýna mér nýju gistihúsin ykkar tvö, þau sem þegar eru tilbúin. Og gaman er að sjá á netinu einkunnirnar sem þið fáið frá viðskiptavinum ykkar.
 
Lárus í efri bænum, þakka þér líka fyrir að koma til mín í heimsókn í sumarhúsið hennar Fríðu þar sem ég dvaldi í nokkra daga meðan meðan á Kálfafellsdvöl minni stóð, dvöl sem ég notaði til að viðhalda góðum minningum og tilfinningum mínum fyrir bernskuslóðum mínum. Þú ert fróður maður og viðræðugóður Lárus og drengur góður.
 
Hér með lýkur skrifum mínum um Kálfafell 2017 utan eina mynd sem ég læt fljóta með í lokin.
 
 
Ætli ég hafi ekki verið svo sem tólf ára þegar ég gekk við annan mann á svipuðum aldri eftir rákinni sem liggur þarna svolítið skáhallt eftir klettinum. Við fengum ekki lof fyrir tiltækið get ég fullyrt og þegar ég horfði á þetta í haust var ég mjög ákveðinn í að gera enga nýja tilraun. Mér hraus hugur við.
 
Þegar ég ók vestur á bóginn og þessari nokkurra daga heimsókn minni til bernskuslóðanna var lokið, fann eg fyrir sama trega og ég hef alltaf fundið fyrir þegar ég yfirgef Fljótshverfið.

Að skokka um Kálfafellslandið

Um gönguferð um Kálfafellsland, bernskuslóðirnar, um miðjan september í ár. Önnur af tveimur. Fyrir mig voru þessasr gönguferðir svolítið eins og að hitta sjálfan mig og að minnast þess hver ég var sem stráklingur þegar ég naut þess, gjarnan aleinn, að skokka um Kálfafellslandið og líkaði vel einveran.
 
 
"Ég hafði eitt sinn einn draum" söng maður að nafni Kornelíus á sínum tíma og hann söng líka um að hann trúði að draumurinn væri sannur. Ég hef haft marga drauma gegnum árin og einn draumur sem oft heimsótti mig var að innarlega í þessum hvammi, sem er í Kálfafellslandi, myndi ég byggja lítið snoturt hús. Í þessu litla snotra húsi mundi alltaf ríkja kyrrð og friður á svona friðsömum stað, og til að komast í snertingu við hringiðu heimsins yrði ég að yfirgefa hvamminn og hella mér inn í hringiðuna. Svo þegar ég yrði þreyttur á henni eða líkaði ekki við hana gæti ég dregið mig til baka í hvamminn minn og lifað friðsömu lífi. Eigi ég að vera alveg sannur í því sem ég segi þá skal ég viðurkenna að draumurinn kom og fór langt fram eftir ævi, en reyndar trúði ég varla að hann yrði að veruleika. Þegar ég leit yfir hvamminn á gönguferð minni nú á septemberdögum skal ég viðurkenna að mér fannst draumurinn enn í gildi og vera jafn fallegur og fyrrum.
 
 
Þegar ég yfirgaf hvamm draumahússins kom ég í nokkrum skrefum yfir í þennan hvamm sem varla er þó hvammur, enda segir nafnið á honum að þetta sé hagi en ekki hvammur. Straumhljóðið í ánni er sterkt, voldugur niður. Samt er þessi niður afar lágur miðað við hávaða heimsins. Að vera þarna á göngu í haustblíðunni, þá virðist vera friður í heiminum. Að muna eftir að hafa séð tófuför í sandinum fyrir 65 árum, að hafa horft á hraunkantinn með skuggunum undir brekkurótinni og trúað að þar væri ævintýri að finna, allt gaf hugmyndafluginu lausan tauminn. Svo þegar þangað var komið voru litlu skútarnir svipaðir því sem þeir höfðu alltaf verið en burknablöðin sem teygðu sig í átt að birtunni höfðu stækkað eilítið síðan síðast. Svo hélt gangan áfram.
 
 
Eftir því sem lengra dregur inn með ánni eykst niðurinn en hávaði heimsins fjarlægist að sama skapi. Kannski var ég tíu ára og ef svo, þá eru 65 ár síðan. Eitthvað ár fram eða til baka skiptir ekki máli. Ég gekk sem oftar inn með ánni og kom að lambá sem var þar með aldeilis nýfæddu lambi sínu. Lambið var svo fallegt að ég bara mátti til með að taka það í fangið. Svo settist ég með það í grasið og kannski var það einmitt í hallanum sem við sjáum þarna á myndinni. Lambið var svo undur fallegt og ég strauk yfir fíngerðu hárin undir auganu sem að mér sneri. En! en! allt í einu buldi í jörðinni og mamman kom æðandi og stangaði mig um koll svo ég kútveltist í grasinu. Sárt var það og sár var ég líka vegna þess að mamman skildi bara alls ekki að ég vildi vera góður við lambið hennar.
 
 
Það var oft takmarkið fyrrum að koma að þessum fossi, sitja þar og hlusta á þungan niðinn og skynja kraftinn, vilja næstum falla með vatninu, reyna að horfa á sama punktinn sem þó var aldrei sá sami, og bara vera til.
 
Og enn einu sinni hafði ég komið að gamla takmarkinu, að fossinum í heiðinni, og upplifað einmitt það sama og áður. Eftir dágóða stund við fossinn gekk ég heim á leið og hafði upplifað hreina helgistund með sjálfum mér, með náttúrunni og þeim kröftum sem höfðu verið með mér á þessum slóðum alveg frá því að ég man eftir að ég fékk að vera einn á svona ferðum.
 
 
Ég hélt athyglinni vakandi og horfði yfir lautir og hóla, gil og grónar flatir. Það hafði orðið breyting í heiðinni. Þarna um miðjan september var ekki lengur grænt en allt var svo vel gróið. Gömlu grýttu svæðin, moldarbreiðurnar og gömlu rofin sem blésu upp frá ári til árs, allt var þetta grasi gróið. Ég anaði að grænir fingur Stefáns bróður míns hefði verið þar að verki og breytt vörn í sókn. Ég ekki bara anaði, ég vissi.
 
Hvað er verðmætamat? Hvað eru ríkar upplifanir? Þetta hugsaði ég mikið um á leiðinni til baka. Ég skokkaði ekki eins og ég gerði fyrir 65 árum. Ég ýmist rölti eða gekk frísklega.

Ég hafði kvatt alla á Skagaströnd

Það er mánudagskvöldið 25. september og klukkan er eitthvað nálægt ellefu að kvöldi. Ég hef dregið sængina næstum upp undir höku þar sem ég hálf sit með tölvuna í rúminu heima hjá Valgerði og Jónatan í Smáragötunni í Vestmannaeyjum. Ég hef heyrt verri vindhviður en þær sem takast á við húsið núna en þær eru þó mun verri en þær vindhviður sem leika við húshornin heima hjá mér í sveitinni á Sólvöllum í Svíþjóð. Inn á milli koma hressilegar regnskúrir, koma snöggt og hverfa eins snöggt og blikkað sé auga. Þetta lætur kunnuglega frá fyrri árum utan það hversu snöggt styttir upp. Það er bara eins og stóru þaki sé rennt hratt undir regnið og eftir stendur vindurinn einn þar til næst skúr gengur yfir.
 
Ég renni huganum til daganna sem liðnir eru af Íslandsheimsókn minni og það bregður fyrir trega og minningar flæða fram. Ég er búinn að vera á bernskuslóðunum austur í Skaftafellssýslu eins og ég hef skrifað um áður, hitta fólk í Reykjavík og í morgun kom ég frá henni Guðnýju systur minni á Skagaströnd. Ég sé hvernig árunum hefur fjölgað hjá jafnt yngri sem eldri og að skatturinn sem skaparinn leggur á okkur fyrir árin okkar á jörðinni er greiddur á misjöfnu verði. Mér finnst ég koma létt út úr álagningunni og við viss tækifæri getur mér fundist sem álagningin sé óréttlát. Ég reyni að ávaxta mitt pund vel en hvort það hefur lækkað álagninguna á mig fæ ég trúlega aldrei að vita og ég veit að örlögin geta gripið inn í og breytt henni. En ég er mjög þakklátur fyrir það sem ég hef og hvað örlögin hafa verið mér góð. Góði guð, þakka þér fyrir það sem ég hef.
 
Þar sem ég sit hér nýlega kominn frá Skagaströnd hvarflar hugurinn mikið þangað. Það er gott fólk heim að sækja þar og frændræknin er með afbrigðum. Það má í stórum dráttum segja að stórfjölskylda Guðnýjar systur minnar og Sveins mágs míns búi þar öll og fjölskyldufaðmurinn á Skagaströnd er stór og hlýr. Hún Birna systurdóttir mín og maðurinn hennar, hann Slavko, sóttu mig á Blönduós þangað sem ég kom með Jónatan tengdasyni mínum á leið hans til Akureyrar. Þau léku á als oddi og vinarþelið fyllti bílinn. Síðan komum við heim til Guðnýjar systur minnar og Svenna. Þau eru nokkrum árum eldri en ég en vinarþelið þar og frændræknin þeirra var söm við sig sem áður.
 
Daginn eftir kom hún Björk systurdóttir mín til að heilsa upp á mig, gamla frænda. Talið barst til Hríseyjar og hún varð íbyggin. Rétt áður en hún hélt heim til sín sagði hún við mig; heyrðu, ég kem um tíu leytið á morgun og svo getum við skropið til Hríseyjar. Og svo varð það að við Björk frænka mín, Guðný systir mín og ég skruppum til Hríseyjar.
 
 
Við heimsóttum kirkjugarðinn í Hrísey þar sem legsteinn þarfnast viðgerðar. Ég velkist ekki í vafa um það að þeir sem eru farnir heim að lokinni jarðvist eru allt annars staðar en í kirkjugarðinum. En við að lesa nöfnin þeirra þarna mitt í grænu grasinu, að sjá fæðingardaga og dánardægur, þá er það mikið sem streymir gegnum hugann. Og það er sem hjartslátturinn breytist, umhverfið hljóðnar, augun verða rök. Einhverjar mínútur líða án upphafs eða endis og allt í einu er mál að signa hæglátlega yfir og í huganum að senda sínar innilegustu kveðjur. Svo er dvölinni í Hríseyjarkirkjugarði lokið.
 
Nöfn á förnum vegi í Hrísey í þessari stuttu heimsólkn voru til dæmis Linda Ásgeirs, Rósa Kára, Ragnar Víkings, Heimir Áslaugs, Bjarni í hvönninni, Smári á ferjunni, Nanna Björns, Steinunn Hauks, Fríða og Sigurbjörg Guðlaugs. Og Dúnný, þakka þér innilega fyrir þægilegu spjallstundina og kaffið og soðiðbrauðið með hangikjötinu sem hún Steinunn bar á borð. Ég borðaði svo mikið af soðiðbrauðinu að ég næstum roðna þegar ég hugsa til þess. Og Rósa mín Kára, þakka þér fyrir kjötsúpuna og elskulegar móttökur.
 
Stutt Hríseyjarheimsókn var á enda og leiðin tekin á Skagaströnd þar sem stórveisla var á borð borin hjá henni Birnu frænku minni og ég hitti marga, frændfólk og venslafólk. Ég hefði eflaust hitt hann Stefán systurson minn líka ef hann hefði verið heima en í stað þess var hann að veiða fisk við Færeyjar.
 
 
Ég hafði kvatt alla á Skagaströnd og einmitt þar sem ég var á leið gegnum útidyrnar leit ég við til að rétta upp hendi til kveðju, þá sá ég þetta. Þessi mynd sem blasti við mér hafði sterk áhrif á mig, ég stoppaði við, lagði frá mér töskuna, og bara varð að taka mynd. Þarna er hún litla Björk frænka mín og kúrir í hálsakoti Evu Daggar mömmu sinnar, en Eva Dögg er dótturdóttir Gunýjar systur minnar og hans Sveins. Eva Dögg vildi koma og hitta mig, gamla frænda. Lengra á bakvið Evu er hún Björk systurdóttir mín og mamma Evu, hún sem fór með mig til Hríseyjar. Þá er það hann Sveinn mágur minn sem fór með mig á jeppanum sínum vítt og breytt um Skagaströnd og nágrenni og sýndi mér margt áhugavert ásamt að sýna mér mikla hlýju.
 
Svo er það hann Ísak sem stendur framan við hann Svein langafa sinn og hann er líka sonur Evu og bróðir hennar Bjarkar litlu. Næst lengst til hægri er hún systurdóttir mín hún Birna, hún sem sótti mig á Blönduós og útbjó stórveisluna. Að lokum er það Guðný systir mín, móðirin í stórfjölskyldunni á Skagaströnd. Guðnýju fellur afar illa að standa framan við myndavélar og helst vildi hún losna við það þarna líka. En akkúrat svona var það þegar ég leit við í útidyrunum og þessi mynd var nokkuð föst í huga mér langleiðina í Staðarskála. Jafnframt var ég mjög þakklátur fyrir móttökurnar og alla vináttu á Skagaströnd. Þið eruð ekki gleymdir heldur Ingvar og Slavko, menn Bjarkar og Birnu og ekki heldur önnur frændsystkini sem ég hitti á Skagaströnd.
 
Ég er farinn að þreytast við tölvuna og Óli lokbrá sækir að mér. Mér fannst ég heyra hann segja; farðu nú að sofa gamli. Vindurinn gnauðar ennþá og ég slekk ljósið. Síðar við tækifæri les ég þetta yfir og birti kannski við tækifæri.
 
Það tækifæri er núna.
 
 
 

Núna er ég ferðamaður á Íslandi

Þetta blogg skrifaði ég í Vestmannaeyjum, á sænsku fyrir Svía, og var ákveðinn í að þýða það síðan á íslensku. Nú þegar ég er kominn heim og sest niður til að þýða það sé ég auðvitað að það passar alls ekki fyrir Íslendinga því að Íslendingar vita auðvitað svo mikið um eigið land umfram Svíana. En hvað um það; ég þýði það eins orðrétt á íslensku og ég bara best get og akkúrat svona skrifa ég um Íslandsferð fyrir Svía.
 
Það er miðvikudagurinn 20. september og ég sit bakvið stóran glugga sem snýr móti norðri og ég hef útsýni yfir stærstan hluta af Vestmannaeyjabæ.
 
 
Það er hægur vindur og það rignir. Þess vegna sé ég aðeins hálfa leið yfir sundið milli eyjunnar Heimaeyjar og fasta landsins. Vestmannaeyjar er sameiginlega nafnið yfir eyjaklasann sem er samtals fimmtán eyjar og um 30 sker og drangar. Byggð er aðeins að finna á einni af þessum eyjum; Heimaey, og bærinn heitir Vestmannaeyjar með sína um það bil 4300 íbúa. Regnið truflar mig ekki. Á stól nærri stólnum sem ég sit á liggja regnföt þannig að ég get virkilega gengið út í regnið og viðrað mig, en ég er nokkuð ákveðinn í að hafa það rólegra en svo í dag.
 
Húsið sem ég er staddur í er hús dóttur minnar og tengdasonar og hér hef ég gist þó nokkrum sinnum. Þegar þau höfðu farið til vinnunnar í morgun eldaði ég hafragrautinn minn. En fyrst opnaði ég útihurðina til að finna ögn betur hvernig veðrið var. Þegar ég rétti út hendina að handfanginu á hurðinni kom hundurinn Salka og vildi taka þátt í einhverju. Það varð ekkert. Þegar ég hafði lyktað aðeins af röku loftinu lokaði ég hurðinni og Salka lagði sig aftur og hraut friðsamlega.
 
 
Þegar ég hafði eldað grautinn opnaði ég ísskápinn eins hljóðlega og mögulegt var en varla hafði mér tekist það þegar Salka var þar og horfði á allt góðgætið bakvið hurðina. Hún virðist hafa sjötta skilningarvitið hún Salka. Hún er vinaleg og væri hún hundurinn minn væri hún trúlega líkari óléttri gyltu í sköpulagi en þeirri stæltu tík sem hún er. Ég væri enginn góður hundeigandi því að ég mundi kasta mörgum góðum bitanum að henni.
 
 
Ég kom með ferju til Vestmannaeyja frá fastalandinu eftir nokkurra daga heimsókn til bernskustöðva minna á Suðurlandi. Akkúrat núna þjónar hér ferja sem er leigð frá Noregi vegna þess að hin eiginlega ferja er í slipp til viðhalds fyrir veturinn.
 
 
Hin eiginlega ferja sem heitir hinu rammíslenska nafni Herjólfur er stærsta ferjan á Íslandi en er lítil á heimsmælikvarða. Vestmanneyingarnir lifa mest á því sem hafið gefur og það vegur mikið sem þessi ferja flytur og farþegafjöldinn nálgast 300 000 á ári.
 
 
Rétt fyrir klukkan hálf níu í gærkvöldi bakkaði ferjan að viðlegukantinum og þá var dimmt. Klukkan hér er tveimur tímum á eftir sænsku klukkunni og svo verður það þar til sænska klukkan færist einn tíma til baka til vetrartíma.
 
 
 
*          *          *
 
 
Nú hef ég verið eina viku á Íslandi og ég hafði farið í æði langar gönguferðir á bernskuslóðum mínum áður en ég kom til Vestmannaeyja. Ég byrjaði með að heimsækja bernskuslóðirnar eins og áður sagði. Mjög margir staðir á Islandi eru nú næstum yfirtroðnir af ferðamönnum en þó eru til vissar perlur þar sem allt er ósnortið og afar friðsamt. Það er varla að ég vil fletta ofan af hvar þessar perlur er að finna.
 
 
Gilin í brekkunum beint á móti hafa myndast á þúsundum ára, hinn þykki, mjúki mosi hefur barist fyrir lífinu síðan á ísöld, grasið sækir fram á hlýindaskeiðum en hörfar á kaldari árum. Þessi náttúra í þögn sinni er viðkvæm og endurheimtir sig hægt.
 
Fyrir nokkrum dögum síðan sat ég í þessum mjúka mosa allnokkuð frá byggð, varð hlýr á rassinum og á einfaldan hátt ótrúlega hamingjusamur. Ég heyrði dauft hljóð frá rennandi vatni, fann hreinan ilm frá umhverfinu og hafði þetta gamalkunnuga landslag fyrir framan mig. Mér fannst ég vera nálægt Guði og að við vorum þar báðir, við vorum þar saman. Ekkert mátti trufla þetta því að þetta er besta hamingjan sem er til.
 
Slíka hamingju er hægt að finna, en alla vega ég get ekki verið þar öllum stundum. Ég veit bara að það er hægt að finna hana og þegar hún hverfur er hægt að finna hana aftur. En þessu fæ ég að vinna fyrir eins og til dæmis núna með gönguferð minni. Eftir að hafa setið þarna góða stund kom herþota frá Keflavík og þvældist í hringi í gisnum skýjum fyrir ofan mig. Þá var kominn tími fyrir mig að standa upp og halda áfram. Hin frábæra stund í félagsskap Guðs var liðin í þetta skiptið.
 
Þá gekk ég niður brekkuna og að ánni sem sést til vinstri á myndinni fyrir ofan. Þar dró ég buxurnar upp að hnjám til að vaða yfir.
 
Ég vissi um leyndarmál sem ekki er svo sýnilegt fyrr en maður er þar.
 
 
 

Björgunaraðgerðir halda áfram í Sólvallaskógi

Ég sagði í bloggi í fyrradag að þegar ég veifaði Susanne við brottför hennar upp í Dali hefði ég búið yfir leyndarmáli. Það var bara bull því að hér á bæ eru engin leyndarmál. Hins vegar sagði ég henni ekki að ég ætlaði einn út í skóg með keðjusögina til að ljúka verki sem byrjaði daginn áður. Hvernig ég ætlaði að framkvæma þetta hafði ég hugsað mjög vel út og skipulagt. Ég hafði það í kollinum og var mjög öruggur, svo öruggur að ég vildi ekki óróa Susanne með því að segja henni frá því að ég ætlaði að brjóta regluna um að vera ekki einn með mótorsög út í skógi.
 
Þegar í skóginn var komið byrjaði ég á að færa talíuna og festa, stakk járnkallinum niður þar sem ég vildi hafa hann, sleggjuna einnig og meitilinn. Járnkallinn, sleggjuna og meitilinn reiknaði ég ekki með að þurfa nota en það var samt best að vera við því búinn. Síðan signdi ég mig, tók ég keðjusögina og setti hana í gang.
 
 
Neðra sagarfarið var frá deginum áður en það efra var nýtt og af ásetningi sagaði ég ekki alveg í gegn. Síðan gekk ég að talíunni og dró. Ég heyrði brest og þá vissi ég að allt var á réttri leið. Dró síðan aðeins meira og svo tók ég myndina.
 
 
Svo dró ég ennþá meira með talíunni og efri hlutinn stakkst niður í skógarbotninn. Flóknara var það nú ekki og ekki í frásögu færandi. Meðal annars þannig líða dagarnir á Sólvöllum á eftirmiðdegi lífs míns eins og ég segi stundum. Þegar við komum á Sólvelli vissi ég bara um eina eik og það var það sem ég kalla stóru Sólvallaeikina. Allar hinar eikurnar voru þrautpíndar í þéttu mirkviði af reyniviði og greni og ég hafði ekki hugmynd um hvar þær voru eða að þær yfir höfuð væru til. Ég frelsaði þær síðan með grisjun jafnóðum og ég fann þær, klippti burtu skemmdar greinar eða greinar sem héngu niður á jörð, setti stög í sumar þeirra til að rétta þær, gaf sumum áburð og flutti gjarnan mold að rótum. Nú hafa bætst við tíu Sólvallaeikur sem eru allt frá minni tré upp í all stór tré. Svo er mikill fjöldi sem er á leiðinni í að vera minni tré og þá á ég við eina fimm til átta metra.
 
Þær voru mjög þakklátar fyrir góða atlætið, stækkuðu ótrúlega hratt og sargaðar laufkrónur náðu sér fljótt. Samt eru eikur í sjálfu sér hægvaxta tré. Ég byrjaði að ganga um þéttan skóginn árið 2003 og reyndi að sjá hvernig ég gæti með tímanum látið hann líta út. Allt er þetta á réttri leið eins og ég hugsaði mér það þá. Ég vil bara segja að ég veit ekki hvernig eftirmiðdagurinn í lífi mínu gæti verið betri eða þýðingarmeiri á annan hátt í annars órólegum heimi. Þegar ég fór einn með mótorsögina út í skóg í fyrradag átti ég erfitt með að setja hana í gang í þeirri hreinlega heilögu kyrrð sem hvíldi yfir sveitinni.
 
 
Til vinstri er stubbi undan grenitrénu fræga sem nú er fótur fyrir stöng sem er stöguð í nýuppgötvuðu eikina til hægri til að hjálpa henni næstu tvö árin get ég trúað. Kallast það ekki endurhæfing eða eitthvað svoleiðis. Ég get lofað ykkur að eftir tvö ár verður orðin mikil breyting, þá verður hun orðin að minna tré með krónu. Nú er nún reyndar yfir sjö metra há en með sargaða krónu sem erfitt er að ná mynd af. Að vori ætla ég að setja nokkra sekki af góðri mold á svæðið umhverfis þennan veikburða stofn.
 
Svo hef ég verið í skóginum í dag hreinlega að taka til og þar er af nógu að taka. Á morgun, sunnudag, ætla ég að taka það rólega. Horfa á sjónvarpsmessu, tína hafþyrniber og kannski bara að baka handa mér pönnukökur.
 
 
*          *          *
 
 
 
Í dag tók ég líka við í hús til upphitunar á haustdögum. Hjólbörurnar alla leið inn í stofu. En það var þurrt grasið á leiðinni milli húsa og þetta fór ósköp hreinlega fram. Ég bý nú í sveit en ekki á þriðju hæð í blokk.
 
 
Staflinn varð full hár en eftir fyrstu uppkveikjuna verður hann hættur að skyggja á myndina.
 
Þegar ég læt sjaldan heyra í mér verður meira að segja en nú vita þeir sem vilja vita hvað drífur á daga mína um þessar mundir. Gangi ykkur allt í haginn.

Björgunaraðgerðir í Sólvallaskógi

Einhvern tíma í nótt þurfti ég að skreppa fram svona eins og gengur en ég var svo syfjaður að ég mundi óljóst eftir því þegar ég svo vaknaði fyrir alvöru klukkan hálf sjö í morgun. Eftir aðra ferð "fram" lagði ég mig á ný og dró sængina upp undir höku og horfði upp í þakið. Ég var einn heima og mér finnst svo notalegt að vera einn heima öðru hvoru. Okkur Susanne finnst það báðum og við förum ekki dult með það fyrir hvort öðru.
 
Eftir vangaveltur um lífið tók ég farsímann minn og las blogg frá 2010. Þá var verið að byggja á Sólvöllum. Lesturinn var notalegur og það var gott að vera til þó að tregi leitaði á mig. Árið 2010 var verið að byggja á Sólvöllum og enn í dag eru verkefni í gangi þó að ekki sé verið að byggja. Það var vissulega þess vegna sem ég man svo óljóst eftir næturferðinni "fram", ég var þreyttur eftir athafnasemi gærdagsins.
 
Það var nefnilega svo að fyrir nokkrum vikum var ég á rölti á litlu svæði í skóginum þar sem hann er ógrisjaður, mjög þéttur og krónurnar eru slitnar af þéttri sambúðinni og einnig flæktar hver í annarri. En hvað sá ég þarna langt uppi? Jú, eikarlauf. Og síðan veitti ég athygli grönnum eikarstofni sem var mjög nálægt háu greni. Ég varð friðlaus vegna þessarar eikur. Eikur vaxa ekki á einum degi og þarna var ég að uppgötva eik sem hafði verið að berjast fyrir lífi sínu  -hugsanlega í ein tuttugu ár. Tuttugu árum í lífi eikur kastar skógardellumaður ekki á glæ bara sí svona.
 
Ég hreinsaði greinar af greninu langt upp eftir stofninum og eftir því sem ofar dró uppgötvaði ég eikina bara hærri og hærri. Svo liðu all nokkrir dagar og ég gat ekki gleymt henni. Ég varð að fella grenið sem var með skaðaða krónu hátt uppi í hafi af greinum. Í fyrradag bað ég Susanne að koma og vera nálæg því að ég ætlaði að fella hátt tré. Svo sagaði ég í tréð eins og gera skal en það skeði ekki svo mikið. Einhvers staðar uppi þar sem ég ekki sá til var allt fast. Þetta hafði ég svo sem vitað en það hafði heldur ekki skaðað að vona. Ég notaði fleyga og ég notaði talíu en ekkert gekk. Ég varð þreyttur og ráðalaus og það kom kvöld. Um nóttina vaknaði ég og varð andvaka yfir því hvernig ég ætti að leysa þetta með tréð sem ekki vildi falla.
 
Morguninn eftir, sem sagt í gærmorgun, lagði Susanne af stað upp í Dali, en þar ætlaði fjölskyldan hennar að fagna sjöunda afmælisdegi barnabarnsins hennar. Þar sem ég stóð í dyrunum og veifaði þegar hún ók úr hlaði bjó ég yfir leyndarmáli.
 
Mig minnir að það hafi svo oft staðið í barnablaðínu Æskunni fyrir svo sem sextíu og fimm árum; framhald í næsta blaði.
 
Stóra Sólvallaeikin böðuð í morgunsól og sæl eftir kærkomna úrkomu gærdagsins.
 
 
Og aðrar minni eikur á Sólvöllum
 
 
 
 

Það var þannig fyrr á árum

Það var þannig fyrr á árum að ef ég rak nagla í spýtu eða sagaði planka þá skrifaði ég blogg um það. Flestar af mínum mörgu dellum sem ég hef gengið með gegnum lífið hafa smám saman hjaðnað niður á mátulegt stig eða jafnvel horfið alveg. En Sólvalladellan hefur aldrei hjaðnað og má heldur ekki gera það. Svo er ein della til sem ég verð að nefna og það er bloggdellan. Ég vil heldur ekki verða af með hana en þarf kannski ekki að vera svo nákvæmur í frásögnum af gerðum mínum í lífinu sem ég var, en þó get ég sagt að það skemmdi hvorki mig eða aðra. Þannig er því nú varið. Nú vil ég koma því á framfæri að ég er snarlifandi.
 
Þegar við komum á Sólvelli í upphafi var mjög þéttur skógur að baki húsinu og mjög nálægt því. Nú hefur þessi skógur verið grisjaður og á ákveðnu svæði felldur með öllu. Þegar það var gert urðu eftir þessi nöknu tré sem við sjáum á myndinni og þannig er það að þegar þéttur skógur er felldur birtast tré sem eru nakin langt upp eftir stofninum. Nöknu trén á myndinni eru flest aspir og ég kalla þær langskankana. Langskankarnir eru um og yfir tuttugu metra háir og ekki til prýði þegar þeir eru komnir í skógarjaðar. Í fyrra fjarlægði ég börkinn neðst á trjánum allan hringinn. Ég gerði það til að þau skjóti ekki ótal rótum þegar þau verða felld. Í haust eftir lauffall felli ég átta langskanka. Þeir eru nefnilega fleiri en sjást á myndinni en þeir sjást af veröndinni bakvið húsið. Og bara svo að þið vitið; ég læt yfirleitt ekki bera of mikið á þeim þegar ég birti myndir frá Sólvöllum. Hvað skal svo koma í staðinn?
 
 
Fyrir um það bil tíu árum keypti ég ekta hengibjörk, um tveggja metra háa, og gróðursetti þar sem ég taldi að myndi passa en vissi samt ekki hvað ég var að gera. Nú er þó komið í ljós að hengibjörkin er á alveg frábærum stað og henni hefur liðið ákaflega vel gegnum árin. Ég giska á að hún sé nú tíu metra há og falleg er hún alveg með afbrigðum. Fyrir nokkru síðan sátum við á veröndinni að húsabaki, borðuðum morgunverð og horfðum mikið á hengibjörkina. Þá kom ég fram til að ég yrði að setja einar tvær hengibjarkir að baki langskönkunum og ég sá fyrir mér hversu fallegur skógarjaðarinn kemur til með að verða þarna eftir tíu ár. Ég verð svolítið eldri þá en ég trúi að fyrir vikið verði ég bara ennþá glaðari yfir framtakinu. Ég er þegar byrjaður að rækta hlyni og eikur á þessu svæði sem byrja ekki að njóta sín fyrr en langskankarnir hverfa.
 
 
 
Í apríl ætla ég að gróðursetja þessi nýju tré og ég skal taka vel á móti þeim og holurnar eru tilbúnar fyrir þau bæði. Ég get ekki sagt að ég byrji á svona grefti með sérstakri ánægju en þegar ég er kominn vel af stað er ég glaður yfir að hafa heilsu til að geta grafið eins meters breiða holu og næstum hálfs meters djúpa, sérstaklega við þau skilyrði sem eru í skóginum hér.
 
 
Ég lyfti ekki þessum steini upp úr holunni og mér tókst ekki að vega hann upp heldur en á hnjánum tókst mér að velta honum upp og til hliðar. Svo horfiði ég á steininn og var ánægður með heilsu mína. Það var grobb af minni hálfu að stilla skóflunni upp framan við hann.
 
 
Hún Stína fyrrverandi nágranni minn spurði mig einu sinni, þá um tvítugt, hvort ég vissi hvað væri mest af í Krekklingesókn. Nei, ég vissi það ekki. "Grjót", sagði hún þá. Það virðist orð að sönnu en svo vex skógurinn vel í þessu eigi að síður. Það er spurning hvort það yfir höfuð þarf að grafa, og þó. Það er ekki spurning að það mun gera þessi verðandi Sólvallatré mun stærri eftir tíu ár. Söguna um Stínu og grjótið hef ég sagt svo oft að hún fer að verða útvötnuð svo um munar.
 
 
Hér er nærmynd af hluta af hengibjörkinni fallegu. Greinarnar á þessu kvæmi eru afar beinar, mjög mislangar og gefa trénu alveg sérstakan blæ. Þétt lufhafið vex á fjöldamörgum örgrönnum þráðum sem hanga beint niður og eru niður í einn millimeter í þvermál. á þessu tré eru þræðirnir þegar orðnir meira en tveggja metra síðir og verða ennþá lengri. Ég hef þegar pantað sama kvæmi og hæðin verður tveir til tveir og hálfur meter. Ég yrði skaparanum afar þakklátur ef ég fæ að sjá þessi tvö tré þegar þau hafa náð tíu ára aldri. Það sama gildir um allt sem ég hef staðið að hér að hvert ár sem ég fæ að sjá það þróast og vaxa eru mér til mikillar ánægju.
 
Jæja, ekki meira að sinni. En ef einhver hefur verið undrandi yfir þögn minni, þá er það alveg ljóst að ég er snarlifandi. Haldið áfram að njóta sumarsins.

Að rata heim

Það var og hefur verið latidagur hjá mér í dag. Þegar einn sem er 75 ára og ekki er veikur fer ekki á fætur fyrr en i klukkan ellefu, þá er lífið rólegt. Þannig gerði ég í dag. Gærdagurinn var ekki jafn rólegur, gærdagurinn var hörku vinnudagur. Nágranninn sagði nefnilega um daginn; heyrðu Guðjón, getur þú bara ekki tekið það sem er eftir af moldinni sem við keyptum? Ég er bara ekki tilbúinn að taka meira í bili. Jú, það gat ég svo sannarlega.
 
Við keyptum eitt bílhlass saman eða þannig að hann ætlaði að kaupa fyrsta hlassið og svo átti ég að kaupa það næsta og svo gat hvor tekið svo mikið sem hann vildi af moldinni. Þannig er góð grannsemja. Nú er nágranninn í sumarfríi niður á Kanaríeyjum en síðustu daga hef ég verið sveittur við að sækja í þennan moldarhaug sem stóð inn á hans landi.
 
Hvað geri ég svo við gróðrarmold þessa dagana? Jú, ég þurfti tl dæmis að fylla vel að brómberjarunnum á tveimur stöðum og ég þurfti að fylla í svolítið hér og þar, gera fínna og gera auðveldara við að hirða landið og slá. Ég verð ekki yngri og ég geri lagfæringar með það í huga.
 
Í fyrradag tók ég svo þriggja metra háa eik með sterklegum stofni, eik sem óx undir krónu á annarri eik og átti enga framtíð þar sem hún var. Samkvæmt því sem ég les á þetta að vera nokkurn veginn vonlaust að framkvæma með árangri. En ég hef gert það áður og það tókst. Tíminn í júlímánuði á líka samkvæmt fræðunum að vera versti tíminn og það get ég vel skilið. Samt var það þá sem ég flutti álíka stóra eik og hún er nú staðarbrýði við innkeyrsluna heim að Sólvöllum.
 
Þegar ég vaknaði í morgun var ég lurkum laminn. Ég vaknaði snemma og fannst ég vera eins og timbraður. Ég læddist út á litlum klæðum og vökvaði eikina mína frá toppi til táar og merkti jafnframt að hún hefur orðið fyrir áfalli við gerðir mínar. Svo lagði ég mig aftur og sofnaði á ný. Ákvörðun var tekin um að halda hvíldardaginn heilagan. Skaparinn sendi mér regn þannig að ég hef ekki þurft að standa með garðslönguna við eikina til að halda henni rakri.
 
Að borða morgunverð klukkan ellefu og horfa svo á sunnudagsandakt í sjónvarpi, það var reglulega gott. Þessi andakt var tekin upp á Costa Del Sol og var undir yfirskriftinni "Ferðast burt, rata heim". Yngri sænsk kona sem heitir Sara og býr á Costa Del Sol kom fram snemma i andaktinni og sagði að þegar hún hefði flutt þangað hefði hún fundið hamingjuna. Hún útskýrði það ekki frekar en með því að segja að "kannski þurfum við stundum að ferðast burt til að rata heim". Svo skildi hún mig eftir með vangaveltur mínar og ég fæ að fylla í eyðurnar.
 
Þessi síðustu orð ýttu svo undarlega við mér og og þannig hélt andaktin áfram, það var svo markt sem var vert að hugleiða. Þessa andakt mun ég horfa á aftur einn góðan rigningrdag þegar það er svo gott að vera inni heima hjá sér.
 
Ég hef lag á því að gera smá ferðalög sem ég er þátttkandi í að stórferðalögum. Svo ferðast aðrir umhverfis jörðina og fáir vita. Ferðin sem við Susanne fórum hérna um daginn upp í Dali var fyrir mig að sumu leyti að koma heim. Árin þrjú upp í dölum voru ekki alltaf blíðviðri og sólarstundir og ferðin þangað um daginn minnti mig á hvort tveggja. Aðgöngumiðinn að þessu landi var ekki alveg ókeypis en verður gjaldsins. Þegar ég sit hér nú og skrifa eru það blíðviðris og sólarstundirnar sem eru ráðandi. Dagarnir í Falun um daginn hefðu gjarnan mátt vera fleiri því að þar var gott og þroskandi að vera.
 
 
Fyrir miðri mynd er eikin sem ég misþyrmdi í fyrradag og nú er komið kvöld og ég hef samviskubit sem ég fékk þegr ég hafði lesið mig til í dag um flutning á eikum. Ég vona þrátt fyrir allt að þessi eik verði langlíf og auki á fegurð Sólvalla. Að staðsetja hana þarna var að vel hugsuðu máli allt frá fyrra ári.
 
 
Hér fyrir miðri mynd er nokkuð sem heitir hengibjörk, ómótstæðilega fallegt tré. Mig langar í tvö svona tré til viðbótar og í huga mér finnast góðir staðir fyrir þau bæði. Ég kem þá til með að taka tré sem eru kannski um þrír metrar á hæð. Þau kosta en maður á mínum aldri á ekki að kaupa neina smá dverga. Ég gróðursetti þetta tré 2007.
 
 
Gróðurinn á Sólvöllum er ekki bara utan dyra. Hér er nokkuð fallegt sem þrífst vel bakvið gluggana en þar er ég ekki mikið að verki. Þetta blóm þrífst alldeilis vel í svefnherberginu. Susanne talar við blómin en ég við trén.

Jón á Reyni

Það eru yfir 30 ár síðan ég hitti Jón á Reyni í fyrsta skipti. Þá sá ég þegar í stað að hann hafði eiginleika sem mig langaði að hafa meira af. Þessi eiginleiki heitir yfirvegun og hann jók á virðingu mína fyrir þessum manni.
 
Jón Sveinsson á Reyni er dáinn og hann verður jarðsunginn frá Reyniskirkju í dag. Kynni mín af honum eru þannig til kominn að hann er tengdafaðir Valgerðar dóttur minnar, faðir Jónatans Guðna manns Valgerðar.

Það var alltaf gott að hitta hann og hann var alltaf glaður í lund og við höfðum alltaf nóg að tala um. Hann var fróður og fús á að deila með sér af fróðleik sínum og hann var gætinn í umgengni eins og yfirvegðir menn vissulega eru. Ég hef oft sagt um Jón á Reyni að hann væri vís maður.

Þannig birtist hann mér í sannleika sagt þegar ég hugsa til hans núna og svo hefur verið lengi. Jón á Reyni er farinn heim í hinsta sinn og ég finn fyrir söknuði. Ég skil ykkur börn hans vel og alla hans nánustu að þið finnið fyrir djúpum söknuði og sorg. Ég samhryggist ykkur öllum og við Jón segi ég; þakka þér fyrir alla okkar ánægjulegu fundi og spjallstundir. Vegni þér vel þar sem þreyttur og slitinn líkami ekki hrjáir neinn lengur.
 
 
Hér er Jón ásamt eftirlifandi konu sinni, Erlu Pálsdóttur. Myndin var tekin þegar hann fagnaði 90 ára afmælisdegi sínum þann 2. apríl á Eyrarlandi í Reynishverfi.
 
 
Jón og Erla ásamt börnum sínum. Á myndina vantar dótturina Þórnýju, en hún fór á undan pabba sínum í sína síðustu ferð heim og getur tekið á móti honum nú. Þessi mynd er líka tekin í 90 ára afmæli Jóns.
 
 
Hér er Jón ásamt Sigrúnu Dísi en við erum báðir langafar hennar. Sigrún Dís er dóttir Guðdísar sem aftur er dóttir Valgerðar og Jónatns Guðna.
 
 
Dagur að kvöldi kominn.

En víst höfum við það svo gott

Ég get ekki látið vera að segja aðeins frá síðasta degi okkar Susanne hér uppi í Falun. Það er að vísu ekki mikið að segja frá, en við vorum í fleiri klukkutíma á safninu Dalarnas Museum, eða Dalasafninu sem það gæti heitið á íslensku. Þar er saman kominn gríðarlegur fróðleikur og þó að við værum þar lengi sáum við alls ekki allt sem þar er að sjá, en við sáum nóg til að verða hálf ringluð að lokum og þá yfirgáfum við safnið. Þó að ég hafi búið hér á svæðinu í þrjú ár áður, fór ég aldrei inn á þetta safn og núna get ég undrast yfir því að við Valdís skyldum aldrei láta verða af því.
 
Þetta var það fyrsta sem við sáum þegar við gengum inn á safnið og ég varð mjög hissa hversu mikla athygli ég sýndi þessum hljóðfærum. En þannig er það að þegar safn er skipulagt af snillingum, þá verður það svo áhugavert. Svo varð ég alveg undrandi þefar ég komst að því að öll þessi hljóðfæri, sum heimsfræg, eru framleidd í fámennu og afskektu byggðarlagi upp í norðvestur Dölunum og heitir þetta buggðarlag Älvdalen. Hljóðfærin heita hins vegar Hagströms.
 
 
 
Á safninu er auðvitað framreiddur matur, mjög góður matur, og eftir fyrstu tvo tímana þar inni fundum við út að það væri alveg nauðsynlegt fyrir okkur að borða staðgóðan mat til að halda athyglinni vel vakandi. Svo borðuðum við eins og við værum í erfiðisvinnu og vorum ánægð með. Skammt utan við borðendann rann Faluáin framhjá í miklu hæglæti á leið sinni út í vatnið Tisken sem þarna er í aðeins nokkur hundruð metra fjarlægð.
 
 
 
Frá því að við komun fyrst inn og þar til við borðuðum hádegismatinn sáum við margt og frá því að við borðuðum og þar til við við gengum út sáum við ennþá meira. Það síðasta sem við skoðuðum var mikið safn af hinum þekktu Dalahestum. Þegar við sáum svo Dalahest á mótorhjóli ákváðum við að þetta dygði í dag.
 
Þetta er reyndar ekkert að segja frá, það er ég vel meðvitaður um, en við töluðum um það við hádegisverðinn hversu notalegt það er að gera það einfalt og að vakna ekki daginn eftir með gamalkunna vonda bragðið í munninum eða fnykinn í nösunum. Að þjást ekki af óþægilegum minningum um hallærislegu tilburðina frá liðinni nóttu eða kjánalegu orðin sem voru látin falla og áttu að vera svo sniðug.
 
Og að finna svo að morgni að sólin hafi komið upp í allri sinni dýrð, þá er hægt að segja eins og Susanne segir svo oft; "en vist höfum við það svo gott".
 
 

Yljandi skógargróður og lítil jólasaga

Ég sagði í bloggi í gær að hin víðáttumiklu grænu svæði hefðu heillað mig frá upphafi veru minnar í Svíþjóð. Það hef ég líka oft sagt áður. Ég hef komið upp á marga útsýnisstsði upp í útsýnisturna, ég sæki beinlínis í það, og þessir útsýnisstaðir eiga það allir sameiginlegt að frá þeim öllum sést einungis grænt landslag. "Eiga það allir sameiginlegt" sagði ég, en það er ekki alveg rétt. Þegar komið upp í miðja Svíþjóð fara að sjást fjallatoppar sem ekki eru grónir og ennþá norðar minni gróður.
 
Einn af þessum útsýnisstöðum er skíðamannvirki í Falun, nefnt Hoppturninn. Sjálfur hoppturninn er 52 metra hár og stendur uppi á lágu fjalli og efsti hluti hans er 303 metra yfir hafi. Við Susanne vorum lengi upp í turninum í dag og ég tók myndir svona nokkurn veginn í höfuðáttirnar fjórar.
 
 
Í hvaða átt sem litið er frá Hoppturninum eru skógi vaxinn landssvæði út að sjóndeildarhring.
 
 
Að vísu er ekki alveg rétt að segja að það séu skógi vaxin landssvæði í hvaða átt sem litið er því að ef litið er til suðurs gefur þar að líta eitt af stærri vötnum Svíþjóðar, vatnið Runn, með öllum sínum skógi vöxnu eyjum og nesjum. Það er talað um að það séu jafn margar eyjar í Runn og dagar ársins eru margir. Það er kannski ekki alveg rétt en margar eru þær. Svæðið er ótrúlega fallegt yfir að líta og ég er ekki fær um að taka af því myndir sem segja sannleikann um fegurð þess.
 
 
Einhver vill kannski segja að hér sjáist ekki landslagið fyrir skóginum en fyrir mér er þessi mynd af skógi klæddu landslagi. Það er hlýtt landslag og ef ekki væri skógur í þessu landi geri ég ráð fyrir að hér væri víða veðrarassgat.
Ekki meira um skóginn annað en það að þegar ég kom í fyrsta skipti á svona útsýnisstað var ég algerlega heillaður. Ég get ímyndað mér að upplifunin það hafi verið eitthvað tengd orðinu frelsun.
 
 
Við Susanne höfum haldið okkur í Falun í dag og dagurinn bara leið að kvöldi fyrr en varði. Enn einu sinni segi ég að mér hefur alltaf liðið vel í Falun og það verkar sem Susanne sé í þeim blóðflokki líka. Því gengum við áðan inn á afgreiðsluna þar sem við gistum og báðum um eina nótt til, það er að segja fram á laugardag. Við fáum að vita það á morgun.
 
 
Við vorum lengi í Kristínarkirkjunni í Falun og þar var gott að vera. Kirkjan býður upp á það og er afar falleg. Okkur fannst ótrúlegt ð hugsa til þess að það var byrjað á þessari kirkju árið 1642 og hún var tilbúin til notkunar árið 1655.
 
 
Marmarinn í altarinu kom frá stað nálægt Norrköping og er ótrúlega fallegur á að líta og fallega unninn. Stundum er ég bra undrandi yfir því sem hægt er að gera af því sem móðir jörð á í fórum sínum.
 
 
Hólmgatan í miðbænum er lík sér sem áður og lífið iðar þar eins og það gerði líka árið 1997 þegar við fluttum héðan.
 
Yfir hluta af Hólmgötunni er þetta veitingahús og það byggðu menn eftir að við Valdís yfirgáfum Falun. Ég kom þangað í fyrsta skipti í dag.
 
 
Þessari skartgripaverslun í miðbænum í Falun fylgir saga. Ég kom þangað einhverra erinda fyrir jólin 1994 eða 1995 og stóð þar bíðandi eftir einhverju. Inn kom maður í mosagrænni vetrarúlpu, nokkuð óframfærinn og var greinilega ekki vanur að versla skartgripi. Ég var kannski ekki svo mikill heimsmaður heldur þannig að ég ætti að tala varlega. En hvað um það, hann bara stóð þarna og virtist ekki vita almennilega hvernig hann ætti að bera sig að. Að lokum gekk fram til hans glaðleg verslunarkona og ávarpaði hann. Maðurinn glaðnaði allur við og það fór vel á með honum og afgreiðslukonunni. Að lokum setti afgreiðslukonan fallegan pakka í plastpoka og rétti manninum. Hann borgaði og gekk fram til dyranna, beinn í baki og mikið glaður. Fyrir mér er þetta svolítil jólasaga og ég á þetta skráð í jólabréfi frá því fyrir meira en tuttugu árum.

Að rifja upp gömul kynni

það var seint um kvöld í janúarlok 1997 sem við Valdís héldum frá Falun og héldum suður á bóginn móti Örebro. Við yfirgáfum Dalina og líf í ókunnu héraði beið okkar. Ég hafð fengi vinnu langt í burtu og það var engin undankoma, það var bara að flytja, og þó að vinnan sem ég fékk hafi verið mér afar mikils virði hefur tengingin við Dalina alltaf lifað með mér. Fyrstu árin var það hrein sorg sem ég upplifði eftir viðskilnaðinn við fólkið hér, landslagið, lífsskilyrðin og almennt þá töfra sem Dalirnir búa yfir. Ég er þar ekki nógu oft en alla vega; ég er í Falun og nágrenni núna. Hér eru nokkrar myndir frá upplifunum dagsins.
 
Hvert sem litið er í þessu landi sunnanverðu er allt grænt utan stöðuvötnin. Það er þetta græna sem hefur heillað mig alla tíð frá því ég kom hingað. Þessi mynd er frá Svartnesi og fururnar sem næst eru á myndinni voru þar líka þegar ég vann þar. Ekki á ég von á að þær muni eftir mér en ég man eftir þeim.
 
 
Það eru rúmlega tuttugu ár síðan ég átti flestar ferðirnar milli Falun og Svärdsjö þar sem vi bjuggum fyrstu þrjú  árin í Svíþjóð. Á þeirri leið voru og eru nokkrir staðir þar sem allt í einu opnast útsýni sem mér þótti alveg sérstaklega fallegt. Hér er einn þessara staða þar sem við fórum um í dag á leiðinni frá Falun og upp í Svartnes, minn fyrsta vinnustað í nýja landinu.
 
Ryssjön, þetta fallega stöðuvatn í kyrrlátum heiðunum milli Sverdsjö og Svartnes hafði ég hlakkað til að sjá. Það var ekki spegilslétt í dag eins og það var svo oft en það minnti þó á löngu liðna morgna þegar ég lagði snemma af stað frá Sverdsjö í vinnuna í Svartnesi. Þessa morgna stoppaði ég oft við vatnið og horfði á spegilmyndina niður í því, skýin langt, langt niðri og skóginn sem speglaðist og myndaði fallega umgjörð um vatnið.
 
 
Mér var mikið í mun að sjá þennan stað hér á myndinni sem er skammt ofan við Svsrtnes. Þarna sjáum við trérennu sem liggur inn í jarðveginn og inn til uppsprettu sem þar er. Vatnið er silfurtært og bragðgott og hægra megin við rennuna er grænt mál fyrir þá sem vilja drekka þetta vatn. Fyrr á árum hékk þarna hvít kanna til að drekka úr og ef ég man rétt var hún vinstra megin við rennuna. En hvað um það; þessu er greinilega við haldið þó að þetta sé á stað þar sem aðeins örfá hús standa og engan mann var þar að sjá í dag. Ég smakkaði á vatninu og það var gott.
 
En nú heim til byggðarinnar í Svartnesi. Þar býr Aasbjörn. Fyrir mér er Aasbjörn ekki hver sem er. Hann er að verða 94 ára og þegar hann var 18 ára árið 1942 flúði hann frá Bodö í Noregi yfir til Svíþjóðar. Hann var þá búinn að ylja þjóðverjum svo undir uggum að honum var ekki lengur vært í Noregi. Aasbjörn settist að í Svartnesi og um það bil ári eftir að hann kom þangað hitti hann Ingrid. Það var árið 1943. Þeirra leiðir skildu ekki fyrr en árið 2002 þegar hún dó úr krabbameini.
 
Aasbjörn þekkti mig ekki strax en sagði svo; já en þú komst hingað lika í fyrra. Ég kem alltaf til hans þegar ég legg leiðir mínar þarna uppeftir og hann bað mig að koma aftur þegar ég ætti leið um. Það fór mjög vel á með honum og Susanne og hann ítrekaði við hana að að við ættum að koma aftur. Við útihurðina hangir skilti og á því stendur; Aasbjörn og Ingrid.
 
Eftir að áfengismeðferð var lögð niður í Svartnesi var reynt að reka þar veiðihótel, snjósleðamiðstöð og eitthvað fleira. En fyrir sex árum var aftur farið að hlú þar að fólki og nú tekur IOGT að sér að hjálpa fólki sem hefur misst tökin á lífi sínu að komast aftur á legg. Þar vinnur Inger Eklund og hefur gert öll þessi sex ár. Þegar hún sá okkur úti á spjalli við annað strfsfólk og vistfólk kom hún út og bauð upp á kaffi og súkkulaðiköku. Þetta er í þriðja skipti sem við Inger hittumst og hún þekkti mig strax og hún bauð okkur velkomin aftur. Mér þykir vænt um að þessi gamli vinnustaður minn hjálpar fólki í vanda.
 
Mér fannst nauðsynlegt að fá mynd af mér tekna inni á mínum gamla vinnustað.
 
Og mynd úti líka.
 
Við enduðum daginn með kvöldverði örstutt utan við Falun þar sem útsýnið er í betri kantinum.

Jónsmessuhelgin

Jónsmessuhelgin hefur farið afar rólega fram hér í sveit. Ég er einn heima. Susanne er í heimsókn upp í Dölum, nánar tiltekið í Orsa þar sem úlfar og birnir eru ekki all fjarri. Ég valdi að fara ekki og ég valdi líka að fara ekki til Íslands eins og ég hafði þó hugsað mér. Það bloggaði ég um í gær.
 
Eins og mörgum er kunnugt er Jónsmessan mikil hátíð hér, kallast miðsumarhátíð, og svipar að sumu leyti til verslunarmannahelgarinnar á Íslandi. Það eru til margar mjög gamlar hefðir sem tilheyra þessum degi, hefðir sem að vísu hafa tekið breytingum, en alla vega er þessi helgi byggð á alda gömlum grunni ef svo má segja.
 
Tilheyri maður ekki þeim starfsgreinum sem alltaf verða að vera til staðar, þá vinnur maður ekki um miðsumarhelgina. Samt vinn ég en ég fer afar varlega fram, ég sýni Svíunum fulla virðingu í því. Ég hafði á fimmtudaginn viðað að mér mold á vissum stöðum í skóginum næst íbúðarhúsinu. Ég hafði flutt þangað verkfæri, garðslönguna, og ég hafði skipulagt það þannig að ég bara hyrfi út í skóginn og yrði umhverfinu ósýnilegur.
 
Ég held að allir nálægustu nágrannaranir hafi farið í ferðalög eða heimsóknir því að á fimmtudagskvöldinu var ekki bara hljótt, það var fullkomlega hljótt. Í eins kílómeters fjarlægð í beinni línu er Torp og þar höfðu safnast saman um fimmtán þúsund manns á kristilega samkomu, en þaðan heyrðist ekki hið minnsla hljóð heldur. Mikið var þetta notalegt.
 
Svo kom föstudagurinn, aðal hátíðisdagurinn. Ég gekk að því sem ég hafði undirbúið og skipulagt daginn áður og það skrifaði ég um í gær og birti myndir. Það ískraði í valtaranum og það var óþolandi hávaði í allri kyrrðinni. Ég hellti olíu á ákveðna legu og þá þagnaði hann. Nokkru síðar byrjaði fólkið í Torp að leika við börnin sín og þá varð meira líf í sveitinni. Nágrannarnir norðan við komu líka til að vera í sumarbústanum sínum að kvöldi miðsumardagsins. Þannig lauk föstudeginum, miðsumardeginum, í mikilli kyrrð og friði.
 
*          *          *
 
Laugardagurinn gekk í garð og ég borðaði sameginlegan morgunverð og hádegisverð. Ég gekk út um hádegisbil -en viti menn; ungu nágrannarnir sunnan við voru þá heima eftir allt saman. Ég gekk til þeirra og þau höfðu bara notið kyrrðarinnar eins og ég en ég sá aldrei til þeirra. Þau sáu ekki til mín heldur en samt er minna en hundrað metrar á milli húsanna og ekkert ber á milli. Síðan hélt ég áfram þar sem ég var kominn á föstudeginum og nú var ég ekki alveg jafn hljóðlátur en fór varlega samt.
 
Ég hef notið mín þessa helgi og aðallega vegna þess að ég var svo ákveðinn í því að stuðla að þessari kyrrlátu stemmingu sem ég hef lýst. En eiginlega, þegar öllu er á botninn hvolft, er þetta ekkert öðru vísi en aðrir dagar hér um slóðir að öðru leyti en því að það var bara hljóðlátara en venjulega. Hér er jafnan kyrrð og friður. Mesti hávaðinn er þegar einhver er að smíða og þá heyrast hamarshögg. Þegar ég stend fyrir hamarshöggunum sjálfur finnst mér stundum sem þau séu alveg ærandi. Svo heyrist líka í flugvélum nokkrum sinnum á dag en það bara gengur svo fljótt yfir.
 
Í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð í þessu friðsama landi hafa menn fyrir íþrótt að skjóta hver annan. Þegar maður býr í Krekklingesókn er allt slíkt svo fjarlægt, það er eins og það eigi sér stað fjarlægu landi. Það er erfitt að trúa því að þetta eigi sér stað í sjálfu landi skóganna.
 
Einn af nágrönnunum hér vann það sem samsvarar tæpum sex miljónum íslenskra króna í happdrætti á sunnudaginn var. Við hittumst nokkur heima hjá honum í vikunni og allir samglöddust honum og fjölskyldunni svo sannarlega. Það fannst ekki fyrir minnstu öfund. Þau hafa heldur ekki haft það svo létt nú síðustu árin að þau voru vel að þessu komin. Þau buðu upp á MARGRA kílóa smurbrauðstertu.
 
Susanne kemur heim síðdegis á morgun og ég hlakka til. Hún er ánægð með fjölskyldunni sinni í Dölunum og það er vel. Okkur finnst báðum gott að vera ein inn á milli en mér finnst góðs viti að ég sakna hennar. Á morgun, sunnudag, mun ég halda áfram því sem ég hef unnið við í skóginum næst húsinu. Það verður svolítill ævintýraheimur þar skulið þið vita.
 
 
Ég tók vinnuhlé í dag og gekk lengra út í Sólvallaskóginn. Þar fann ég þetta sjónarhorn.

Framhald um dellur og kraftaverk

Fyrir nokkru síðan skrifaði ég blogg sem ég kallaði Dellur og kraftaverk. Nú kemur eiginlega framhald af því bloggi.
 
Þar sem ég sit núna sit ég oft, og beint fyrir framan mig er gluggi móti austri. Þar utan við er bara skógur. Trén sem næst mér eru eru væntanlega um fimmtán metra há en trén sem ber við himinn í svo sem þrjátíu metra fjarlægð eru væntanlega tuttugu og fimm metra há. Laufhafið bærist ekki fyrr en augað nálgast krónurnar efst uppi á hæstu trjánum þar sem það bærist mjúklega. Það hefur varla orðið albjart í dag, veðrið hefur verið rakt en gott. Núna er að byrja að bregða birtu klukkan hálf tíu á sunnudagskvöldi.
 
Eitthvað svipað þessu hef ég skrifað oft, oft áður en það er eins og það sé alltaf nýtt fyrir mér.
 
 
Myndin er nákvæmlega af útsýninu sem ég hef út í gegnum gluggann bakvið tölvuna mína en hún passar samt ekki almennilega við lýsinguna, þó er lýsingin rétt og myndin er rétt. Þannig er það stundum að mynd getur ekki sagt það sem orðin segja en samt er hvort tveggja rétt.
 
*     *     *
 
Það er hátt í tvær vikur síðan ég skrifaði þennan texta og af einhverri ástæðu vil ég ekki fleygja honum. Núna ætla ég að bæta aðeins við hann. Það er hæg rigning, þungbúið eftir góðviðrisdag og það er enn einu sinni farið að bregða birtu. Á þessum tæpum tveimur vikum hef ég haldið áfram að hlú að skóginum, ég hef grisjað, ég hef lagfært göngustígana sem ég gerði fyrir einum átta árum. Mold í hjólbörum, skófla, járnkall i hendi, garðhrífa, hænsnaskítur í fötu, grasfræ í skál, valtari, garðslanga, spígspora fram og til baka.
 
Hreinsa illgresi frá matjurtum, sá meiru, vökva, rölta um með greinaklippurnar, handleika eldivið og að lokum fann ég út að það væri alveg nauðsynlegt fyrir mig að gróðursetja þrjá sólberjarunna í viðbót við á tvo sem til voru. Því lauk ég fyrir nokkrum dögum.
 
Þannig líða margir dagarnir ásamt einhverju öðru sem ég hef ekki nefnt og jafnvel man ekki. Svo setst ég á veröndina, gjarnan með kaffi, horfi á skóginn, geng út í skóginn og finnst ég vera ríkasti maður í heimi. Menn kaupa málverk, listaverk, á miljónir og hundruðir miljóna króna.
 
 
Hér er listaverk þar sem skaparinn sjálfur var að verki. Síðan gaf hann mér möguleika á að vernda listaverkið, hlú að því og hjálpa því að lifa, en mér hefur ekki tekist allt of vel til. Neðst til hægri er grindverk sem ekki passar inn í listaverk skaparans og ennþá síður passar alúmíníumsnúran til vinstri. En alla vega; ég get fundið mér stað á veröndinni þar sem hvorki grindverkið eða snúran skemma myndina. Eina stundina lítur listaverkið út eins og það gerir á myndinni, síðan dregur ský fyrir sólu og listaverkið hefur tekið á sig allt aðra mynd og vestan blærinn skapar enn eina útgáfuna.
 
Að morgni er listaverkið á einn veg, að kvöldi er útlitið allt annað. Á hæglátum rigningardegi er þetta listaverk kannski lang fallegast. Þannig er það; endalaus breytileiki og ég verð aldrei þreyttur áhorfandi.
 
 
Ti hægri: Hvít ylliblóm. Bráðum verður gert ylliblómasaft! Skaparinn leyfði mér að kaupa yllinn, grafa fyrir honum og gróðursetja hann. Jú, ég fæ vissulega að vera með í sköpunarverkinu, svo miskunnsamur er Hann.
 
 
Valtarinn sem tilheyrði önnum dagsins, dökki flekkurinn í miðri mynd einnig.
 
 
Hér vann ég líka í dag en það sér enginn nema ég sem þekki til.
 
 
Viðgerð neðst til vinstri. Eik í miðri mynd ásamt miklum breytileika í gróðri.
 
Ég talaði um dellur í bloggi fyrir tæpum tveimur vikum. Ég hef aldrei jafnað mig eftir delluna sem ég smitaðist af fyrir um það bil sjötíu árum þegar Sveinn bróðir sáði fyrir birkinu. Það er þess vegna sem ég get endalaust bloggað um trén í Sólvallaskóginum.
 
Að sumrinu verð ég bara að vera hér. Skógurinn, matjurtirnar, berjarunnarnir og ávaxtatrén kalla á það. Því hef ég slegið á frest Íslandsferð sem ég var búinn að tala um og ég er búinn að kaupa flugmiða til Íslands þann 13, september og verð þar fram til 1. október.

Hún er ekki á fermingaraldrinum lengur

Hún er ekki á fermingaraldrinum lengur hún Susanne en hún er samt ekki af baki dottin. Hún útskrifaðist sem sjúkraliði árið 2008. Nú síðustu fjögur árin í röð hefur hún af ótrúlegri þrautsegju framhaldsmenntað sig í að annast veika og aldraða. Fyrst tók hún tvö ár í að læra sérstaklega um umönnun veikra í heimahúsum. Það var undir lok þess tímabils sem við hittumst. Hún var þá þegar ákveðin í að læra meira.  Nú síðustu tvö árin hefur hún svo sérmenntað sig í líknarhjálp.
 
Þegar hún lauk fyrra tveggja ára náminu spurði kennarinn hana hvort hún vildi ekki taka hlé í eitt ár en hún var þá þegar ákveðin í að halda áfram án þess að taka hlé. Eftir á að hyggja er ég ekki viss um að hún hefði byrjað á ný ef hún hefði tekið þetta hvíldarár. Í dag mundi ég heldur ekki vilja til þess hugsa að hún ætti eitt ár eftir.
 
Eftir gríðarlega mikið starf, lengi vel í 80 % vinnu og 50 % námi, mest heimanám, og eftir mikla röð mótlætis á síðasta árinu, þá hefur hún staðist prófið. Þetta með mótlæti í lífinu er bara gangurinn hjá öllu venjulegu fólki, en Susanne fékk á sig þessa röð mótlætis á svo stuttum tíma og einmitt þegar henni var svo mikilvægt að hafa frjálsar hendur.
 
Í gærmorgun fór hún til Stokkhólms í eina af þessum mánaðalegu tveggja daga ferðum í skólann þar sem áttu að fara fram próflok. Ég fór með hana á járnbrautarstöðina í Hallsberg og kvaddi hana þar og fann að hún bjó yfir styrk og bjartsýni. Þrjátíuogtveir byrjuðu í þessum hópi fyrir tveimur árum og nú voru átján eftir. Seinni partinn í gær borðaði þessi hópur betri mat á hóteli í Stokkhólmi, hafði smávegis lokaveislu. Lokaatriðið í prófinu var munnlegt þar sem líka var notast við skyggnur.
 
Við töluðum sem allra snöggvast saman snemma í morgun, ég óskaði henni góðs gengis og hún var aldeilis stálslegin. Stuttu fyrir hádegi hringdi síminn og ég sá að það var Susanne. Ég svaraði en fékk ekkert svar á móti. Halló, halló kallaði ég hvað eftir annað en ekkert svar. Ég hlustaði. Ég heyrði að Susanne talaði og ég heyrði að hún var full af sjálfsöryggi og að hún vissi hvað hún var að tala um. Ég heyrði einstaka orð en ég heyrði ekki samhengið. Svo gafst ég upp og lagði á. Þannig gengur það með farsíma, þeir geta allt í einu farið að hringja í einhvern af einhverri hreyfingu eða að hönd er sett í vasa. Susanne hafði ekki hugsað sér að hringja en mér þótti skemmtilegt að heyra hversu vel hún tók sig út með bekknum sínum.
 
Nokkrum mínútum síðar kom sms frá Susanne þar sem stóð: LOKSINS, ÉG HEF STAÐIST PRÓFIÐ.
 
Seint í dag var hún á járnbrautarstöðinni í Hallsberg á ný. Hún var þreytt, henni var létt og eiginlega vildi hún enga myndatöku eins og sést á myndinni. Hún var mikið ánægð og það minnsta sem kallinn gat gert var að gefa henni blómvönd með fallegustu blómunum sem fengust í Skrúðgarðabúðinni í Åbytorp.
 
 
 

Um dellur og kraftaverk

Á fjórða tímanum um nótt fyrr í vikunni þurfti ég að fara ferða minna fram á bað sem kannski er ekki svo rómantískt að segja frá, en allt of syfjaður var ég og átti erfitt með að koma mér af stað. Á leiðinni til baka leit ég út um nokkra glugga því að þó ég væri ógurlega syfjaður var ég mikið forvitinn að sjá hvernig gróðurinn hefði það eftir hægláta rigningu í einn sólarhring. Þó að þessi rigning væri ennþá allt of lítil hafði eitthvað mjög gott átt sér stað. Hæglátt laufhafið austan við húsið leit allt öðru vísi út, ég sá að því leið betur.
 
 
Ég hallaði mér fram að glerinu í þvottahúsglugganum og horfði á eikina sem þar er beint framundan. Ég sá vatnið perla á laufinu, laufinu sem virtist hafa vaxið síðan daginn áður og það var eitthvað svo undur hreint. Þvottasnúran var á milli gluggans og eikarinnar og hún var bara alls ekki á réttum stað. Þessi alúminíumgræja skemmdi útsýnið frá þvottahúsglugganum og þegar útsýnið er af þeim toga sem það er hér um bjarta snemmsumarnóttina, þá bara má það ekki. Snúran hefur flakkað til og frá gegnum árin og er alltaf fyrir.
 
Ég lagði mig aftur og horfði um stund upp í herbergisloftið. Ég hugsaði um dellur sem ég hef fengið gegnum lífið, bókstaflega frá því að ég man eftir mér. Þessar dellur mínar hafa allar gefið mér eitthvað en þær hafa líka gengið yfir. En ein della hefur ekki gengið yfir og það er skógardellan.
 
Ég á í fórum mínum eina minningu sem ég hef reynt að fá skýrari mynd af undanfarna daga. Ég giska á að ég hafi verið fimm ára. Við lágum á hnjánum þrjú systkini nálægt klapparhorni vestan við Smalamýrina á Kálfafelli, nokkrum tugum metra neðan og sunnan við rifsberjarunnana sem voru í skjóli undir öðru og hærra klapparhorni. Hægra megin við mig var Sveinn bróðir og hinu megin við hann hlýtur það að hafa verið Guðný systir mín.
 
Sveinn, kannski ellefu ára eða eitthvað eldri, stjórnaði aðgerðum þarna og við hin horfðum forvitin á því að hann var að gera nokkuð mjög merkilegt. Hann hafði skorið þökur ofan af litlum ferhyrningi og síðan stráði hann birkifræi á moldina. Því næst lagði hann mosa yfir fræin, þar ofan á trélista og ofan á trélistana lagði hann svo þökurnar. Síðan yfirgáfum við svæðið og veturinn leið.
 
Að vori gengum við á ný að klapparhorninu vestan við Smalamýrina og enn var það Sveinn sem var leiðtoginn. Hann tók burtu þökurnar, listana og að lokum tók hann gætilega burtu mosan. En heyrðu manni minn! Það hafði eitthvað skeð þarna í moldinni undir yfirbyggingunni. Eitthvð var að byrja að vaxa þar og á næstu dögum eða vikum byrjuðu að vaxa þar pínulítil birkilauf. Sveinn hafði komið af stað kraftaverki. Þarna smitaðist ég af fyrstu dellunni  minni og ég hef aldrei losnað við hana. Fyrir mér var þetta alveg stórmerkilegt.
 
Ég er hér að tala um nær sjötíu ára gamla minningu og eitthvað er þar öðru vísi en það var í raunveruleikanum. En alla vega; það er minningin mín. Sveinn var í fyrsta lagi tæknilega sinnaður en andlega þenkjandi var hann líka. Hvar hann fékk hugmyndina af því að gera þetta er mér algerlega óljóst, en vestan við bæinn á Kálfafelli, í lágri brekku, var til nokkuð sem kallað var Skógargirðingin. Það var reitur þar sem ungt fólk í sveitinni hafði gróðursett birkiplöntur snemma á síðustu öld.
 
Þessar skógarplöntur urðu að trjám sem hölluðu undan veðri, vindum og snjóalögum, en þau sköpuðu þó alla vega sérstakan heim sem var ævintýraheimur fyrir mig og ég var þar oft. Þar verptu endur og fleiri fuglar og það var ákaflega forvitnilegt. Í Skógargirðingunni varð líka til mikið magn af birkifræjum sem sjálfsáðu sér þar í kring og fræið sem Sveinn notaði til að koma af stað kraftaverkinu þurfti hann ekki að sækja langt.
 
 Hvílík verðmæti
 
 

Nógur tími

Það er miðvikudagur 11. maí og ég var áðan að taka saman í huganum hvað mér hefur verið efst í huga síðustu dagana og hvað ég hef verið að aðhafast. Það hefur verið alveg óvenju kalt og það er eins og allt hafi staðið í stað síðan fyrir síðustu helgi.
 
Það hljóta að vera átta eða níu ár síðan og það var einmitt í maí. Það voru þrálátir vestan vindar þetta vor og algengasta vindáttin hér er jú úr vestri. Ekkert hvassviðri var það en stöðugur blástur. Þegar maður er orðinn vanur góðu og hæglátu veðri verður maður líka kröfuharðari á það.
 
Ég átti leið til grannanna sunnan við og gekk þvert yfir lóðirnar. Þegar ég kom inn á þeirra lóð breyttist veðrið á nokkrum skrefum, það lygndi og sólarylurinn naut sín. En hvað það var notalegt. Ég stoppaði og velti fyrir mér hvað væri eiginlega á ferðinni. Á vestur lóðamörkum grannanna var þéttur trjágróður í einfaldri röð, aðallega hlynur og eik, sem ekki var hjá okkur. Ég vissi að skógur skýldi en að það væru svona skörp skil og gríðarlega mikill munur, það hafði mér aldrei komið til hugar. Og það var bara einföld röð af trjám. Það var eins og nágrannarnir byggju í öðrum heimi.
 
Við Valdís ræddum um þetta og svo tókum við ákvörðun. Við skyldum koma upp skógi á vestur mörkunum eins og hjá nágrönnunum og við völdum að mestu hlyn úr okkar eigin skógi sem við gróðursettum með tveggja metra millibili. En til að missa ekki fallegasta útsýnið frá sjálfu húsinu settum við sírenurunna vestan við það. Tvö tré keyptum við til að hafa þessa línu aðeins fjölbreytta en þau urðu aldrei falleg. Í fyrrasumar ákvað ég að skipta þeim út móti hlyn úr skóginum.
 
Ég var svolítið óþolinmóður þannig að ég valdi tré sem voru fimm og hálfur metri annað en hitt sex og hálfur metri. Þetta var auðvitað alveg kolvitlaus ákvörðun að velja svo stór tré og bauð upp á að misheppnast. Við þennan flutning hafði ég bara stunguspaða og hjólbörur. Ég beið vorsins núna með spenningi til að sjá hvort trén hefðu lifað af flutninginn og veturinn.
 
Það mætti kannski kalla þessa mynd fæðingu, en hún er af lífinu sem er að kvikna á stærra trénu, því sem var sex og hálfur meter. Svona lítur laufgun hlynsins út þegar hún er að opnast. Síðar verða blöðin á stærð við undirskál eða brauðdisk. Á haustin er mikið verk að annast laufin sem mynda þykkt lag umhverfis þessi tré en stundum hef ég látið veturinn annast verkið að miklu leyti og þá hafa síðvetrarvindar úr vestri blásið því inn í skóginn þar sem það hefur orðið að næringu á ný.
 
Hér sjáum við aftur á mótu fæðingu hjá hestkastaníu. Hestkastaníubtöðin skoða ég á hverjum degi því að breytingin er svo ör.
 
 
Ég stikaði mikið og spekúleraði áður en kastaníunni var valin staður, ég giska á fyrir níu árum síðan. Síðan var tekin óvænt ákvörðun um að lengja húsið í átt að henni og eftir nokkur ár fara greinar að teygja sig ansi nálægt því þar sem hestkastanían vex upp undir hálfan meter á ári, hingað til alla vega. Þegar ég skrifa þetta minnist ég þess vel af hversu mikilli alúð ég gekk frá þessu tré sem þá var upp undir mannhæðar hátt og stóra holu gróf ég fyrir því sem og mörgum öðrum trjám og runnum á Sólvöllum. Á hverju ári lít ég á nálægðina við húsið en svo slæ ég því á frest. Hvað gert verður verður leyst í framtíðinni.
 
Þannig litaði kvöldsólin fyrir nokkrum kvöldum síðan. Það var fallegt kvöld þó að það væri kalt. Myndin minnir mig á að það er ekki allt tilbúið á Sólvöllum. Ég á eftir að loka grunninum undir litla húsið. Það er auðvelt að verða blindur fyrir svona atriðum en þessu atriði tek ég eftir nánast daglega.
 
Dögunum fjölgar þar sem mér þykir sem ég hafi allan tíma sem finnst í veröldinni. Ég er orðinn ellilífeyrisþegi í fullu starfi en síðasta ár var hins vegar mikið vinnuár. Ég þarf að vera vakandi fyrir því að láta letina ekki taka yfir líf mitt að fullu. Á sunnudaginn var sat ég í stofusófanum og fann hvernig letin dró mig neðar og neðar í sófann. Ég fann að ég þurfti að drekka vatn en ég nennti ekki að reisa mig upp til að fá mér vatn að drekka. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég var orðinn allt of latur í sófanum í það skiptið.
 
Kemurðu með til Kumla? spurði þá Susanne allt í einu. Hún ætlaði þangað í stórinnkaupaferð. Þá reif ég mig upp, drakk þrjú glös af vatni og svo fórum við til Kumla. Letin hvarf af mér og ferðin var góð og ég hefði skammast mín fyrir ef ég hefði ekki farið því að það var mikið að bera. Hún gerði nefnilega stórinnkaup.
 
Lífið í sveitinni er gott en ekki kyrrstætt. Alltaf þegar ég hef lokið einhverju lít ég vel yfir og gleðst yfir að vera virkur. Þess vegna má letin aldrei yfirvinna mig í stofusófanum enda skeður það ekki oft.
 
Að lokum um hlynina við vestri lóðarmörkin. Eftir að þeir voru gróðursettir í upphafi gerði tvo mjög kalda og vetur og með þungum snjóalögum. Þá voru dádýrin og hérarnir svöng og átu börkinn af helmingi þeirra. Sagan um hlynina var því ekki alveg áfallalaus en nú eru þeir búnir að fá svo þykkan börk að hérarnir vilja hann ekki, jafnvel þó að harðnaði í ári.

Enn eru það vorannir

Nú er best að litast um á Sólvöllum. Það er mikið í gangi. Sumardagurinn fyrsti hefur verið haldinn hátíðlegur á Íslandi en fyrir mér er vor.
 
Það er spurning um að banka upp á þarna og athuga hvort einhver er heima. Fuglahólkur heitir þetta hér í landi og ef maður er eins og fuglahólkur þýðir það að maður er ekki alveg með á nótunum. Þessi fuglahólkur er festur á eikarstofn og þegar við Valdís komum hingað að Sólvöllum var þessi eik kræklótt og illa slitin eftir að hafa verið mitt inn í reyniviðar og greniþykkni. Ég frelsaði hana úr þessari ánauð árið 2004. Til hægri á myndinni sér í aðra eik sem ekki var alveg jafn illa komið fyrir. Samvæmt myndinni virðist hún halla sem hún ekki gerir, það er bara svo margt sem myndasmiður þarf að hugsa út í en tekst ekki alltaf. Þessar eikur eru nú beinar og með fallega krónu eins og svo margar eikur sem ég hef frelsað úr ánauð hér á Sólvöllum og ég er stoltur af þeim þegar ég rölti um og styð hendi á þær. Ég býð upp á mynd af þeim seinna þegar laufhafið hefur umvafið þær. En nú er að banka upp á litla húsið í skógarjaðrinum.
 
Já góðan daginn. Mamma var ein heima. Og þó, það er ekki víst að henni hafi fundist hún vera ein. Alla vega voru eggin henni svo mikils virði að hún yfirgaf þau ekki þó að hún yrði óróleg yfir heimsókn minni. Það er veglegt lag af einangrun sem hún liggur á og skapar væntanlega jafnan hita á verðmætunum sem hún hlúir að.
 
Broddi étur sitt avókadó daglega en samt er hann ekki að sýna sig of mikið fyrir okkur. Ég hef einu sinni séð hann en Susanne hefur oftar orðið hans vör. Það er nokkuð ljóst að hann á sér heimili undir veröndinni og þar gæti hann verið með ungana sína þegar líður á sumarið, ekki fyrr en í ágúst eða svo. En svo er eitt, við vitum ekki hvort það er hann eða hún sem býr undir veröndinni. Pörun broddgalta er löng og áköf, getur tekið fleiri klukkustundir, en þegar ætlunarverkinu er lokið hittast þeir ekki fyrr en að ári. Þeir eru einfarar.
 
Broddgölturinn á myndinni er ekki ekta. Hún María fyrrverandi vinnufélagi minn sá hann á búðarhyllu stuttu eftir að hún sá mynd af Broddabústað mínum í fyrra. Hún keypti hann og gaf mér sem var vingjarnlegt af henni. Nú er hann þarna á veröndinni og ef ég er annars hugar þegar ég kem að honum getur mér brugðið verulega í brún. Ég vil alls ekki stíga á broddgölt og þetta getur fengið mig til að hoppa.
 
Í þessum römmum er mjög góð mold en ræktunin í þeim tókst ekki svo vel í fyrra. Alls konar illgresi var nefnilega búið að taka yfirráðin í þeim og það var ekki til svo mikils að reita það burtu, það var búið að taka völdin aftur innan fárra daga. Því stakk ég þetta upp fyrir hálfum mánuði og svo lagðist ég á hnén fyrir fáeinum dögum með ótrúlega góða vinnuvetlinga sem ég fékk í allt mögulegt búðinni í Fjugesta. Svo byrjaði ég á öðrum endanum í hverju hólfi og færði alla mold til með höndunum, hrærði í henni og plokkaði upp allar rætur og allt sem ég bara fann og benti til byrjunar á gróðri. Það varð heill haugur. Nú finnst mér að ég hafi unnið gott verk.
 
Í tveimur hólfum er hvítlaukur sem varð eftir í fyrra og svo hef ég sáð fyrir dill og gulrótum. Kartöflur eru annars staðar. Ég veit að þetta er ekkert sérstakt en það er þetta sem ég bauka við þessa daganna utan að vinna í skóginum.
 
Hér eru kryddjurtirnar blóðberg, graslaukur, oreganó, steinselja og persilja. Dill hafði ég jú sáð fyrir og ef einhver getur stungið upp á fleiri góðum kryddjurtum tek ég gjarnan við uppástungum.
 
Þvottahúsbekkurinn er með í þessu og þar hef ég sáð fyrir bóndabaunum, grænum baunum, rósakáli, risagraskeri og öðru minna graskeri. Mig vantar ennþá tvær sortir af graskeri sem ég þarf að leita að í dag inn í Marieberg og Örebro.
 
Nú skreppum við út í skóg -eina fimmtíu metra. Árið 2006 þegar við Valdís felldum 13 stór grenitré til að nota í viðbyggingu á Sólvöllum átti ég í miklum samningaviðræðum við sjálfan mig. Eigum við að taka þessi tvö líka eða . . . . ? Þau voru nú stærst og hefðu gefið af sér marga sterka planka en þau uxu líka svo fallega hlið við hlið og þau fengu að lifa. Ég sé ekki eftir því. Þetta eru orðin voldug grenitré og annað þeirra hefur aukið ummál sitt um tæpan hálfan meter á tíu sumrum. Planki sem væri sagaður úr því miðju yrði tæplega fimmtíu sm breiður. Ég stoppa oft hjá þeim og virði þau fyrir mér, neðan frá og upp -og niður aftur. Þannig er það að ef maður grisjar vel í greniskógi eykst vastarhraðinn mjög hjá þeim sem eftir lifa og svo er það jú í öllum skógi. Mörg önnur grenitré sem fengu að lifa eru orðin mikið stærri en þau sem við felldum fyrir tíu sumrum.
 
Bændur velja til ásetnings á haustin þegar þeir líta yfir fjárhópinn sinn og það sama hef ég gert í vor. Svo sem ég hef einbeitt mér að grisjun og umhirðu í skóginum í vor á ég líka von á ávöxtun fyrir þá vinnu. Nú þegar ég horfi yfir tölvuna mína út um gluggan sé ég hvernig sumarið er að taka yfir með grænu laufhafi og öðru lífi. Ég finn fyrir viðkvæmum streng í brjósti mér þegar ég horfi á þetta og skrifa það. Ég verð hrærður. Vorið er guðdómlegt en haustið færir mér trega. Það er gott að skrifa á morgnana.
 
 Vor

Vorannir

Það var þannig hér í eina tíð að ég gat ekki þagað yfir neinu sem ég var að gera eða eða því sem skeði í kringum mig. Nú hef ég setið á mér lengi, svo lengi að seinni partinn í dag fékk ég fyrirspurn um það hvort tölvan mín væri í óstandi. En svo skrýtið var það að seinni partinn í dag var ég búinn að ákveða að láta heyra frá mér í kvöld, síðan var ég spurður eftir þessu með tölvuna. En nú er það svo að ég er orðinn ellilífeyrisþegi í fullu starfi og þá gefur það auga leið að ég hef ekki mikinn tíma aflögu fyrir tölvuna. (brandari)
 
Það var mánudaginn 1. maí sem við borðuðum fyrsta morgunverðinn úti þetta árið. Í tilefni dagsins var enginn hafragrautur, heldur mannagrjónagrautur með kanel út á en enginn sykur. Þetta sést líka í skálinni hjá mér. Það var svo sem ekki sérlega hlýtt þennan morgun og það er þess vegna sem ég er svolítið fínn í tauinu.
 
Í fyrradag, þann 2. maí setti ég niður svolítið af kartöflum. Ég þarf að setja meira niður en vonast jafnvel til að fá aðstoðarmann í það frá Stokkhólmi. Hann er duglegur við kartöflusáninguna, lætur spírurnar snúa upp og hefur jafn langt á milli. Það líkar afa vel. Sama dag sló ég svo lóðina í fyrsta skipti á árinu.
 
Ellilífeyrisþegi í fullu starfi sagði ég og þá lét ég gamlan draum rætast og fór út í skóg með keðjusögina og felldi yfir þrjátíu tré. Þetta var grisjun sem ég hafði skipulagt býsna vel en þegar upp var staðið hafði ég fellt um það bil helmingi fleiri tré en ég ætlaði mér. Þegar ég var á annað borð byrjaður ákvað ég að gleyma því að það er mikil vinna að taka höndum um svo mörg tré því að þetta að fella tré er bara byrjunin á mikilli vinnu. Ég er búinn að hreinsa greinar af öllum trjánum og ganga frá þeim á snyrtilegan hátt. Á myndinni eru tveir reyniviðir þar sem annar var helmingi stærri en hinn. Þessir reyniviðir höfðu ótrúlega margar greinar sem ég þurfti að annast en svo var því snyrtilega lokið og þá var ég ánægður og sneri mér að næsta tré. Þessa reyniviði hef ég ætlað mér að fella í mörg ár. Þeir áttu ekki heima þar sem þeir voru og þeir skemmdu önnur og fallegri tré. Nú liggja stofnarnir þrjátíu út í skógi og bíða þess að ég flytji þá heim. Áður en ég geri það þarf ég að ljúka mörgum og mikilvægum verkefnum.
 
En það voru ekki bara tré sem ég þurfti að grisja. Mörg hundruð plöntur og smátré þurfti ég líka að fjarlægja og það var mikið meiri vinna en að taka trén. Þar er ég liðlega hálfnaður sýnist mér. Þeir einstaklingar sem eftir eru fá meiri birtu og hafa minni samkeppni um næringuna og koma til með að vaxa betur. Krónurnar verða þá fallegri þegar haustar. Sjáið stellingarnar. Svona getur Skaftfellingur litið út þegar hann vinnur í skógi i Svíþjóð.
 
Vorkoman var seinni nú en mörg undanfarin ár en samt er hún tveimur vikum fyrr á ferðinni en var í meðal ári fyrir hundrað árum síðan. Heggirnir voru fyrstir til að laufgast og eru þegar farnir að setja vorsvip á skóginn.
 
Í hitteðfyrra gróf ég fyrir einum fimmtán berjarunnum af ýmsu tagi og svo ætlaði ég ekki að grafa fyrir fleyri runnum þar sem ég ætlaði að hafa það náðugt á eftirmiðdegi lífs míns. En hérna um daginn komst ég að því að ég mætti til með að vera með rósaberjarunna þar sem berin af þeim væru svo holl. Svo keypti ég runnann og þá komst ég ekki undan með að grafa fyrir honum. Það gerði ég svo í dag.
 
Ég bað Susanne að taka mynd af mér þegar ég var að verða búinn að grafa þessa holu. Grobb. Ég kveið svolítið fyrir þessum grefti. Hola sem er einn metri í þvermál og hálfur á dýpt tekur í þegar jarðvegurinn er samanbarinn og mikið af grjóti og járnkallinn er með í för. Að lokum liggja svo milli þrjú og fjögurhundruð kíló af uppgrefti á bakkanum. Ég er afskaplega ánægður með að geta gert þetta, jafnvel svolítið montinn. Bakvið mig eru berjarunnar sem ég gróðursetti í fyrra í holurnar sem ég gróf árið þar á undan. Þar eru berjarunnar sem hér kallast aronia, bláberjarunnar og stikilsber.
 
Meðan ég baukaði við mitt í dag fór Susanne í Marieberg og keypti sumarblóm sem hún síðan gróðursetti í marga potta og hér er mynd af þremur þeirra. Meðan ég skrifa þetta situr hún við heimanám sem lýkur um miðjan júní. Hún tók mynd af mér en ég ekki af henni. Ég bæti fyrir það seinna.
 
Hér lýkur skýrslugerð frá Sólvöllum í Krekklingesókn.

Um rólegan dag, blogg frá 7. ágúst 2011

Ég sló af handahófi upp gömlum bloggum í morgun og las yfir. Þegar ég las þetta blogg var sem ég hefði verið að enda við að skrifa það. Til gamans birti ég á ný þessi tæplega sex ára skrif mín og vangaveltum um lífið.
 

Á ekki að vera rólegur dagur í dag? spurði Valdís þegar ég fór út fyrir morgunverðinn til að sækja stígvél sem lágu á hliðinni undir borði bakvið húsið. Það er rigningardagur sagði hún. Svo fór ég út og tók upp stígvélin, fyrst annað og fór með hendina inn í stígvélið og alveg fram í tá. Svo tók ég hitt og gerði nákvæmlega það sama, fór með hendina alveg fram í tá. Það var engin mús í stígvélunum enda var ég vel öruggur um að svo væri ekki og þess vegna fór ég af öryggi með hendina niður í þau. Svo tók ég stígvélin inn og stillti þeim út við vegg. Rigningarsuddinn var byrjaður að falla niður um níu leytið þannig að spáin frá í gær stóðst nákvæmlega og í spá dagsins sagði að vindur ætti að vera 0,4 metrar á sekúndu. Þessi vindur merktist ekki hið minnsta og súldin féll afslöppuð beint niður.

Það var í lok morgunverðarins sem ungur prestur, kona, hóf sunnudagshugleiðingu með því að kynna hana Píu. Pía er leikkona sem er vel þekkt og hefur leikið í alvarlegum hlutverkum, hlægilegum hlutverkum, sorglegum hlutverkum og hún hefur leikið í ástarsenum sem einhvern tíma hefðu fengið mig til að roðna ef ég hefði horft á það við hliðina á börnunum mínum. Svo ræddu þessar tvær konur um Guð og hvort Guð gæti verið glaður og gamansamur. Pía efaðist ekki um það og sagði frá dæmum um það. Svo las hún stuttan egin texta um samskipti sín við Guð.

Pía sagði frá bernsku sinni þegar hún hljóp um skóginn, dáðist að stórum furum sem teygðu sig mót himni, mjúkum mosa í lautum, skófum á steinum, könglum sem voru fræ að nýjum trjám og hún dáðist að svo miklu sem fyrir augun bar. Hún sagði frá mömmu sinni sem gekk með henni um skóginn, studdi sig við þessar stóru furur, tók jafnvel utan um þær og sótti styrk í lífinu. Þarna skokkaði Pía sem lítil stelpa, fannst hún vera hluti af tilverunni og fannst sem Guð væri með henni. Það var ekki fyrr en síðar sem hún áttaði sig á því að til væri eitthvað sem nefndist kristni. Sjálf Guðstrúin hafði komið bara svona af sjálfu sér, kristnin kom síðar.

Þetta að skokka um ósnortna náttúru var mér ekki framandi og ég get sagt eins og Pía að mér fannst sem ég væri hluti af allri tilverunni. Ég var oft sendur á milli bæja og átti þá oft að fara á hesti. Það var mér raun því að ég vildi vera nær jörðinni en svo að ég vildi sitja uppi á hestbaki. Ég gerði líka hesta lata þegar ég fór eitthvað einn á hesti og báðum virtist líða hálf illa. Ég held að þeir hafi skynjað hug minn. Það var í lagi þegar fleiri voru saman, þá gekk mér vel með hesta.

Eftir að hafa hlustað á Píu og prestinn fór ég inn á Google og sló upp orðinu Djúpárdalur. Mig langaði að sjá það umhverfi sem ég þreifst svo vel í sem stráklingur og unglingur. Og það stóð ekki á því að myndirnar hreinlega ultu fram. Djúpur grámosi á hraunnibbu, jökulvatnið og bergvatnið sem mætast svo makalaust afgerandi inn á Fossum, gróðurlitlar Innhlíðarnar þar sem hvert fjallablóm verður að fjársjóði fyrir augað, grámosavaxnir Hnjúkarnir með sínum seiðandi mjúku línum og allar lindirnar sem síðar verða að lækjum og ám. Lindirnar, hreinni en allt sem hreint er, horfandi mót himni í ungu sakleysi, bara að leggjast niður og teyga vatnið, rísa upp og horfa á spegilmynd sína. Svo dettur vatnsdropi af nefinu sem myndar hringa á vatninu sem er að koma upp á yfirborðið eftir langt ferðalag inni í fjallinu eftir hárfínum göngum sem maður veit ekkert um. Hárfín göng í stóru fjalli? En skemmtilegt! Og lindin býr yfir helgum leyndarmálum úr fjallinu sem hún hefur rannsakað að innan, leyndarmálum sem aldrei verða sögð. Svo heldur hún áfram að renna krókótta leið til Atlantshafsins.

Enn eitt af undrum Kálfafellsheiðarinnar eru Hjallafossarnir þar sem silfurtær Laxá brýst fram úr gljúfrunum milli Innri og Fremri Hnjúka að austan ásamt Hjöllunum og hinsvegar Blómsturvallafjallsins að vestanverðu. Nokkur hundruð metra framan við fossana virðast vera leifar af gömlum berggöngum sem stinga sér úr í ána og svo voru þarna líka gömul sauðahús þar sem lengi gaf að líta heystabba inni í hlöðutóftinni. Þvíilíkt ævintýri, hreina þjóðsagan að hafa farið svo langt frá byggð til að sinna sauðfé.

En minn ævintýraheimur var mikið nær mannabyggð. Að fara austur með Djúpá, framhjá Arnarbælistindi og koma þar með í Garðahvamm, álíka breiðan og hann er djúpur, þar var veröld númer eitt. Að fara meðfram klettunum sem liggja í skeifu ofan við brekkurnar og kíkja þar inn í skútana gaf von um gæsahreiður. Og ef gæs velti sér fram undan klettunum þegar ég nálgaðist var svo mikil upplifun að ekkert varð sér líkt og brött brekka varð álíka létt að klífa eins og að hlaupa eftir sléttum grasbala. Grasflötin með lækjarskorningnum innst í Garðahvamminum gaf ímyndunaraflinu lausan tauminn -hús, hvílíkt stórkostlegt hússtæði sem duldist á þessari grasflöt. Sú tilfinning fylgir mér reyndar enn í dag.

Að loknum Garðahvammi tók við Lambhagi, veröld númer tvö, allt öðru vísi en Garrðahvammur og breytingin átti sér stað á kannski tíu metra vegalengd. Það var eins og að ganga í gegnum hlið í vel skipulögðum skrúðgarði þar sem arkitektinn hugsaði einmitt út þessa snöggu breytingu frá einu umhverfi til annars. Lambhaginn gat varla kallast hvammur, hann var svo beinn. Minni skútar voru þar undir klettunum og Djúpá næstum sleikti brekkurnar. Hraunklappir með geilum á milli gáfu Lambhaga sinn sterka persónuleika og milli hraunklappanna var sandur og stöku sinnum var hægt að greina þar tófuför. Það var stórt og að sjá tófuför var næstum að sjá tófu!

Svo tók Lambhaginn enda og stefnan meðfram Djúpá breyttist frá leið til austurs til þess að ganga til norðurs. Skilin þar voru heldur breiðari yfirferðar en þar tók þó innan skamms við veröld númer þrjú. Sú veröld var ekki bara öðru vísi en báðar hinar heldur allt, allt öðruvísi. Þar tók við grámosinn, hraunnibbur sem stungu upp trjónunni, grámosavaxnir hraunkambar sem stungu upp herðunum með skorum og lægðum á milli. Pínulitlir hvammar með grasi í botni þar sem gott var að setjast niður gáfu þessum undraheimi stillingu og ró. Austan við rann Djúpá í flúðum og boðaföllum í bugðóttu gljúfri með stuðlabergi, vestan við voru grösugir Garðarnir og þessi veröld endaði til norðurs við Gufufoss. Þar varð enn ein breytingin og enn önnur veröd tók við, en við Gufufoss enduðu þessar veraldir mínar sem ég átti oftast samveru með.

Svo hélt dagurinn áfram hér á Sólvöllum og undir hádegi hafði regnið aukist og streymdi beint niður svo avslappað og mjúkt. Ég skildi við veröldina hennar Píu og veraldirnar mínar meðfram Djúpá austan við Kálfafell og við Valdís skruppum til Örebro í allt aðra veröld. Ég á mikið af myndum af þessu svæði bernskuáranna en myndirnar mínar eru ekki aðgengilegar fyrir mig sem stendur. Ég hef farið þessa leið með börnunum mínum og tekið myndir af þeim á þessum slóðum. Ég á engar myndir af mér þegar ég skondraði þarna um fyrir 60 árum. Minningin verður að nægja. Líklega var ég svolítið skrýtinn og einveran hentaði mér. Einveran? Ég tek af hreinskilni undir með henni Píu að ég var ekki einn á ferð. Ferðafélagi minn var góður.

Heyrðu! Það var sunnudagshugleiðing í morgun! Já, ef ekki hugleiðing, hvað þá?
RSS 2.0