Loksins kom rigningin
Þannig er það líka með gamla túnið á myndinni. Það er búið að vera gult og fallegt, næstum alþakið fíflum í marga daga eða vikur. Nú eru biðukollurnar eftir og eftir nokkra daga verður þetta eins og aldrei hafi vaxið fíflar þar. Svo taka önnur blóm yfir. Í júlílok kemur svo Arnold og slær þetta gamla tún en hirðir ekki grasið. Svæði sem eru hirt á þennan hátt eru kölluð engi, blómaengi. Útsýnið til vesturs frá okkur er yfir þetta blómaengi. Meira að segja Evrópusambandið borgar Arnold fyrir að slá þetta engi og fleiri engi og heitir það að viðhalda opnu landslagi. Ef ekki mundi þetta gamla tún verða skógi vaxið og við Valdís missa útsýnið til vesturs. Þessi mynd var tekin fyrir rigningu.
Á öllum myndunum utan þá fyrstu lýsir sólin upp flekki eða stofna einhvers staðar í bakgrunninum. Það er oft mikið fallegt eftir regn. Annars er jú alltaf fallegt á Sólvöllum.
Hreinsunardagur
Það lítur kannski út fyrir að vera alger bilun að leggja sig í svona lagað, en sannleikurinn er sá að þetta hefur gríðarlega mikilvæga þýðingu fyrir mig á tveimur sviðum. Annars vegar það að ég held mér í góðu formi og ég get verið afar þakklátur fyrir þá heilsu sem ég hef, sjötugur kallanginn. (Ég held reyndar að það geti bara ekki staðist) Hitt er svo að þegar þetta var búið var munurinn alveg ótrúlegur. Það er nokkuð sem við höfum bæði ánægju af og í síðasta áfanga af þessum greinaflutningum mínum var Valdís komin frá slættinum og farin að hjálpa mér við að raka restunum saman. Hún er ekki heldur af baki dottin.
Að lokum vorum við bæði þarna úti og nutum þess að sjá árangurinn. Skógurinn næst húsinu og öll lóðin er þrifalegri og fallegri en nokkru sinni fyrr. Slátturinn hafði sína þýðingu í þessari breytingu þar sem að allar biðukollur eru nú horfnar og nú er vertíð fíflanna á lokastigi.
Varðandi það sem ég sagði áðan um gott form, langar mig að segja frá samtali sem átti sér stað hér á Sólvöllum á fyrstu árum okkar hér. Þá var hér læknir í heimsókn og ég talaði um að ég vildi vera búinn með vissa hluti hár áður en ég yrði til dæmis 65 ára, svo sem að brölta upp á þaki og fleiri klifurverkefni. Þá sagði læknirinn að það væri ekki gott að fara bara að hvíla sig þegar á ellilífeyrisaldurinn kæmi, því að þá fengi maður auma elli. Best væri að halda áfram með það sama og maður hefði áður gert svo lengi sem stætt væri á. Ég hef haft þetta að leiðarljósi og ég er býsna duglegur upp á þaki enn í dag ef á þarf að halda. Við hefðum getað fengið dráttarvél með kló til að taka þetta og setja á vagn og flytja í burtu, en nú er ég búinn að yngja mig upp með því að gera það með kroppnum og skógurinn mun í framtíðinni fá góða næringu úr gryfjunni sem nú er orðin kúffull af greinum.
Heyrðu! ég byrjaði aldrei að teikna það sem til stóð, aðrar annir voru of miklar, en ég fór líka á AA fund í Fjugesta eftir kvöldmatinn og ég held bara að ég hafi bætt þar einu stigi við persónulegan þroska minn.
Ég veit því að vöxturinn er gríðarlega mikill
Hann ræddi mjög svo alverleg mál þessi maður en var þó léttur í lund og hló oft. Ég held að hann hafi hlegið mest þegar hann sagði að á sínum tíma hefði Margaret Thatcher kallað Nelson Mandela hryðjuverkamann. Svo breyttir eru tímarnir sagði Desmond Tutu að menn sögðu svona hluti þá, fyrir svo löngu síðan. Hann skýrði það ekki frekar enda eiginlega óþarft. Ef ég skil eitthvað rétt í dag eru það í fyrsta lagi einræðisherrar í gömlum einræðisríkjum sem segja svona. Þeir kalla lýðræðissinnaða frelsisleiðtoga hryðjuverkamenn og vita sjálfir að þeir eru að ljúga. Þeim er bara orðið svo í blóð borið að halda að þeir eigi rétt á því að eigna sér heilar þjóðir.
Það voru líka sagðar fréttir í morgun og þar var sagt frá sænskum dýragarði sem settur var í gjaldþrot. Þar voru nokkrir krókódílar og það eitt virtist liggja fyrir að lóga þeim. Það þótti þó ekki nógu gott þar sem talið er að þessi tegund krókódíla sé í útrýmingrhættu. En viti menn; pólskur dýragarður ákvað að taka við þeim og þar með var það ákveðið. Það voru miklar serímoníur við flutningana og starfmenn dýragarðsins sýndu hugdirfsku sína við að koma krókódílunum í þar tilgerð búr. Lögregla þurfti að hafa umsjón með þessu og gefa út viðeigandi pappíra.
Þegar allt var klárt kvöddu menn og lögreglumaður tók í hendina á forstöðumanni flutningsins og sagði "Sjáumst síðar, krókódíll", eða öllu heldur See you later, aligater . Kannski var það sniðugt og það fékk mig alla vega til að fara út á netið og hlusta á þetta gamla lag. Þá sá ég einnig marga gamla kunningja sem voru í góðu gildi í útvarpi og hjá danshljómsveitum fyrir 50 og 60 árum og þaðan af meira. Það væri ekki vitlaust að taka stundir til að hlusta á þetta. Það komu líka upp í huga mér nöfn eins og Stebbi Jóns og Berti og fleiri flytjendur þessa tíma.
Já, svona geta ellilífeyrisþegar dinglað sér einn laugardagsmorgun. En ég gleymdi því ekki þrátt fyrir allt að ég hafði tekið ákvörðun í gærkvöldi. Ég ætlaði loksins að láta verða af því að skipta yfir á sumardekk. Þetta lítur ekki eins illa út og ætla mætti í fljótu bragði, utan að það er alveg hund leiðinlegt að skipta um hjól undir bílum. Ég er með ónegld vetrardekk og hef verið það í mörg ár og farnast vel. Það eru þrjár ástæður fyrir að ég dreg svo lengi að skipta yfir á sumardekk og þær eru eftirfarandi: Það er hundleiðinlegt að skipta um hjól undir bílum, ónegldu vetrarhjólin eru mun hljóðlátari en sumarhjólin og vetrarhjólin spara mikið eldsneyti.
Trúi þeir sem trúa vilja en svona er þetta bara og það segir að ég er með mjög góð vetrardekk. Nú er sem sagt búið að skipta um hjól undir bílnum og það hafði líka sínar afleiðingar. Ég blóðgaði mig, ég komst í þungt skap og eftir á var ég alveg ruglaður í því hvað ég ætlaði að gera eftir hjólaskiptin. Ég var lengi að komast í gang aftur og gerði það eiginlega ekki fyrr en eftir eftirmiðdagskaffið sem Valdís bauð upp á. En þá byrjaði líka að rjúka heldur betur úr skósólum mínum og nú að kvöldi er ég eiginlega aftur í þeirri stemmingu sem ég var í þegar ég var að hlusta á Desmond Tutu í morgun.
Valdís var með mér þegar ég skipti um hjólin og hún þvoði felgurnar þannig að nú eru vetrarhjólin komin í geymslu ungu nágranna sem hafa þrískiptan dekkarekka í geymslunni sinni. Á hægri enda rekkans eru dekkin undan rauða bílnum þeirra, á miðjunni eru hjólin undan ljósgráa bílnum þeirra og til vinstri er hvítur miði og á honum stendur stórum, skýrum stöfum: GUDJON. Þar eru dekkin okkar.
Eftir hjólaskiptin fór Valdís inn og bakaði tvær hrístertur, eitt form af hjónabandssælu og steikti svo kótilettur í helgarmatinn. Svona fer hún hamförum stundum þessi kona og þá rýkur líka undan skósólunum hennar. Smá tíma gaf hún sér til að lesa dagblaðið í góða stólnum á nýja útivistarsvæðinu. Ég hins vegar breytti mótororfinu úr sög í gríðarlega mikilvirkt sláttutæki og hóf að snyrta skógarbotninn næst húsinu. Þegar ég er þannig í návist við skóginn kemur svo mikið upp. Til dæmis að eiginlega ætti þetta tré nú að fara, já og hitt þarna líka, eða að það þurfi að hlúa að þessu trénu og hinu og svo framvegis.
Seinni partinn í dag horfði Valdís svolitla stund út í skóg og sagði að hann væri orðinn ótrúlega fallegur. Vel hirtur skógur, laufsklógur í fyrsta lagi, það er búin að vera stefnan í níu ár á Sólvöllum. Umhverfi sem gott er að vera í, þar sem hægt er að hafa fallega náttúru fyrir augað, laufþyt og fuglahljóð fyrir eyrað, gróðrar- og blómaylm fyrir lyktarskynið og friðsæld fyrir sálina. Það síðastnefnda er auðvitað það mikilvægasta af þessu öllu en hin hjálpa til með að ná þeim árangri.
Ég hef sagt að beyki sleppi ekki sólinni niður til jarðar. Hér er gott dæmi um laufskipan beykis. Þetta er bara ein grein og þar er mikið af blöðum sem eru lögð skipulega út til að beisla sólarsjósið. Þegar tréð svo verður stórt og svona laufþekjur eru orðnar í mörgum hæðum, þá sleppur ekki mikið gegnum það neðsta. Makalaus er náttúran.

Hvað í ósköpunum er nú þetta? Jú, þetta eru vaxtarsprotar á beyki. Þeir eru ótrúlega viðkvæmir vaxtasprotarnir á tré sem getur orðið 45 metra hátt. Það sem ég er að segja við þessar myndir er ég búinn að segja oft áður, en ég hef nú aldrei notað myndir við það fyrr held ég. Vaxtarsprotarnir eru ljósgrænir, algerlega jurtkenndir og eru líkir þessu græna sem getur lekið úr nefinu á kvefuðum börnum. Svo þegar liður á sumarið og sérstaklega að hausti, þá rétta þessir hangandi, viðkvæmu þræðir úr sér og taka stefnuna upp og út á við. Þá fyrst er hægt að sjá hvað tréð hefur stækkað undir vaxtatímanum. Hins vegar, þar sem ég er skógardellumaður, þá leyfi ég mér að mæla vöxtinn við og við og ég veit að vöxturinn í ár er gríðarlega mikill.
Þegar ég segi skógardellumaður, þá er ég að gera svolítið grín að sjálfum mér. Ég hef einfaldlega haft áhuga á skógi svo gott sem alla ævi og það er það sem málið snýst um.
Með tæplega hálfu höfðinu hef ég fylgst með talningunni frá söngvakeppninni. Ég vil bara segja það að þessi Marokkóættaða kona sem er fædd í Svíþjóð, uppalinn í Svíþjóð, sem hefur gengið í sænska skóla og þar með talinn tónlistarskóla og alls staðar fengið á sig gott orð, hún er verðugur fulltrúi þessa lands. Svo má heldur ekki gleyma því heldur að hún er klók.
Ps. Gaukurinn hefur af og til í dag sent út ástaróðinn sinn. Hann virðist vera að þreytast en ég bara vona að honum vegni vel. Hann er ekki alltaf aðlaðandi í háttum en hans einfalda o-ú er notalegt hljóð.
Hann biðlaði sem aldrei fyrr

Það er svo best að enda þessa ferð út í skógi á Sólvöllum. Þarna var rót sem ég rak tærnar svo oft í að ég fór þangað með mold í gær til að hylja hana. Svo eftir heimkomuna í dag fór ég í stutta eftirlitsferð gegnum skóginn og þegar ég koma að þessari mold lá þar kopareðla og sólaði sig. Kopareðlur eiga ekkert skylt við slöngur og eru spakar og sauðmeinlausar. Það eru margir og ólíkir ábúar á skikanum okkar.
Að lokum er hér nokkuð til umhugsunar: "Sá sem er ánægður með sinn hlut er hamingjusamur þrátt fyrir fátækt, sá sem er óánægður harmar hlutskipti sitt, þótt ríkur sé." Svo segir kínverskt spakmæli og svona er það einfaldlega.
Samtíningur á sumardegi
Svo þegar þær Maria læknir og Valdís verða búnar að vinna að því að Valdís fái betri heilsu, þá verður verðmætamatið ennþá einfaldara og smáhlutirnir dýrmætari en nokkru sinni fyrr.
Skófluna sem Hannes notar þarna átti áður Kristinn heitnn sonur okkar. Þessi skófla féll eitt sinn fyrir borð á Hríseyjarferjunni við bryggju á Árskógssdandi. Reyndar sökk hún sem gerði mig svolítið undrandi. All löngu síðar sáu ferjumenn hana og fiskuðu hana upp. Hún komst því aftur til skila sem okkur þótti talsvert undrunarefni og hún er tryggur förunautur okkar enn í dag.
Gaukurinn er nærstaddur og á þessu kvöldi heyri ég og hann segir sleitulaust o-ú. Líklega er hann einmana þessa stundina og vonast eftir að sæt kærasta leiti á hljóðið.
Hvað sé ég við daginn í dag?
Ég var frjáls sem fuglinn að vissu leyti en ekki að því leyti til að Valdís var í undurbúningsathugunum fyrir krabbameinsmeðferð og ég vissi að aðstæður hennar voru ekki svo auðveldar. Þessar athuganir voru ekki bara að láta mæla blóðþrýsting eða púls, þær gengu út á að blása hvað eftir annað eiginlega meira en mögulegt er að gera og að láta dæla í sig geislavirkum efnum vegna sneiðmyndatöku. Ég vissi að henni þótti þetta alls ekki gaman en hún gekk samt fram til bardagans eins og konu af víkingaættum er lagið. Ég fékk ekki að vera viðstaddur þannig að mér fannst mikið betra að fara heim en að vera á röltinu í Örebro.
Ég sagði í fyrradag að sumarið hefði komið á réttum tíma fyrir okkur. Þvílík gjöf sem öllum ber að þakka. Nágranni okkar sem er á okkar aldri var að vinna með skóflu heima hjá sér þegar ég kom heim úr Örebroferðinni. Ég stoppaði þar og við tókum spjall saman. Hann sagði það vera merkilegt hvað maður væri aðfinnslusamur því að nú fyndist honum of heitt. Samt vildi hann alls ekki líta þannig á það en verkið var honum dálítið erfitt og svitinn bogaði af honum. Við urðum sammála um að það yrði makalaust notalegt fyrir hann að fá sér stórt glas af köldu safti þegar hann væri búinn með moksturinn og svo mundi hann eiga góðar minningar um þennan góðviðrisdag. Þannig er það.
Mér finnst að ég þoli hitann betur en margir aðrir og ég get unnið með skóflu og haka þó að hitinn nálgist 30 stig. Ég verð að vísu afar blautur og háll á hörund en einmitt þá kemst ég í jafnvægi. Og jafnvel þó að það geti sótst erfitt verða minningarnar um góðviðrisdaginn góðar og fallegar. Svo kom ég heim að lokum og skimaði á gróðurinn sem við erum búin að hafa áhrif á síðastliðin átta ár. Ég ætlaði að ljúka ákveðnum verkum áður en ég sækti Valdísi aftur á sjúkrahúsið, en ég féll fyrir því að gera svolitla úttekt á skógargróðrinum okkar. Tré sem við höfðum gróðursett eða frelsað með grisjum voru nú farin að ná upp á miðja stofna bjarkanna sem bera krónuna hátt uppi þar sem þær lifðu allt of lengi í þéttum skógi. Svo þéttur var skógurinn eina 30 metra suðaustan við húsið að meðal ratvís maður gat villst þar. Þar er nú vaxandi fallegur trjágróður með hæfilegu millibili og fallegum krónum sem ná allt niður undir jörð. Ég varð hugfanginn og gleymdi mér.
Nú er farið að skyggja örlítið og ég sé að þessum gróðri líður vel þarna. Sérðu björkina þarna hjá bláberjabekknum spurði Valdís mig um daginn. Já, ég sá hana. Hún þarf að fara sagði Valdís. Ég varð næstum hissa þar sem hún hefur haldið vörn fyrir bjarkirnbar þegar ég hef reynt að segja í samningatón að ein eða önnur eik þurfi meira pláss. Svo spurði ég hana hvers vegna björkin ætti að fara. Jú, hún skyggði á svo fallegan hlyn sem var bakvið hana séð út um glugga sem Valdís situr oft við. Þar að auki er króna hennar langt ofan við miðjan stofn. Jú, það er ekki spurning að nú er þessi björk búin að gera sitt og í haust eða vetur verður hún að eldiviði sem notaður verður í kamínuna veturinn 2014 til 2015. Framsíðan á skóginum okkar er orðin ótrúlega falleg og hlynir sem hafa gott pláss eru mjög fallegir.
Svo fékk ég mér léttan hádegisvarð og lagði aftur af stað til að sækja Valdísi. Þegar ég kom á sjúkrahúsið var hún komin fram á biðstofu og tilbúin til heimferðar. Ég sá á henni að þessir fjórir klukkutímar á sjúkrahúsinu höfðu ekki verið til neinnar skemmtunar. Við lögðum af stað og keyptum hamborgara í poka svo að ekki þyrfti að fara í neina matargerð þegar heim kæmi. Ég valdi barnahamborgara eins og Hannes fékk að borða um síðustu helgi, en Valdís fékk sér annan öllu stærri þar sem hún hafði ekki borðað í eina átján tíma. Smám saman fannst mér hún verða mun hressari en hún var í gær og í morgun. Leiðinlegu sjúkrahússtússi var lokið að sinni.
Vísdómsorðingærdagsins í bókinni Kyrrð dagsins eru eftirfarandi: "Hamingjan læðist inn um dyr sem þú vissir ekki að þú hefðir skilið eftir opnar." Svo sagði Johan nokkur Barrymore sem uppi var 1882 til 1942. Ég held að það liggi mikið í þessu þó að það sé kannski ekki alveg borðliggjandi á okkar bæ sem stendur. En viti menn; ég las þetta fyrir Valdísi rétt í þessu og þá sagði hún: Ooooo. Hún sagði svo vegna þess að henni fannst þetta vera góð vísdómsorð. Þá er það bara svo. Valdís er búin að hvíla sig eftir heimkomuna og ég held að hún sé ekki geislavirk lengur. Svo er hún búin að horfa á fréttir og sjónvarpsþátt sem hún vill ekki missa af.
Ég var á vappi með skurðgröfumanni hér úti um átta leytið og svo settumst við vestan við húsið í kvöldsólinni við borðið á nýju stéttinni sem ég lauk við um helgina. Þar drukkum við kolsýrt vatn með bragði af granatepli. Ég varð svolítið hissa á því að hann bara sat og sat og við spjölluðum. Svo sagði hann: Mikið er fínt hérna.
Nú er mál að við leggjum okkur. Valdís ætlar nefnilega á kóræfingu á morgun og þá förum við fyrr á fætur. Sko hana! Hún var að tilkynna mér þetta og mér þótti það ekki leitt, jafnvel þó að við þurfum að fara aðeins fyrr á fætur.
Lífið á Sólvöllum
Við fórum ekki snemma út í morgun þrátt fyrir að dagurinn byrjaði með miklu sólskini og blíðu. En þegar við fórum út gengum við til þeirra verka sem við höfðum valið okkur þegar í gærkvöld. Valdís dró í gang sláttuvélina og byrjaði að slá það sem eftir var af lóðinni bakvið húsið. Ég dró hins vegar í gang motororfið sem nú var vopnað með sagarblaði og svo réðist ég á mikið af hindberjarunnum, reyniviðarplöntum og alls konar skógargróðri sem óx í flækju í þremur flekkjum úti í skógarjaðrinum. Eftir að hafa slaktað þessu í grófum dráttum lagði ég orfið til hliðar og tíndi saman sprekin sem nú lágu í óreglulegum haugum og raðaði þeim í bingi sem ég ætla að fjarlægja á morgun. Valdís var líka búin að slá og sýslaði við hitt og þetta.
Allt í einu kallaði Valdís og bað mig að koma að hestkastaníunni sem við gróðursettum fyrir nokkrum árum. Áður en ég komst alla leið til hennar sagði hún í gleðitón að það væru komin blóm á hana. Við keyptum kastaníuna í gróðrarstöð í Örebro sem rúmlega mannhæðar háa plöntu fyrir kannski sex árum. Það þurfti að panta hana frá gróðrsrstöð í öðru héraði. Þegar við gengum með hana út þaðan horfðu margir á eftir okkur því að kastanían var mjög falleg planta. Einhverjum varð að orði að mikið væri hún fín þessi. Ég hafði lesið það um kastaníur að þær yrðu ekki kynþroska fyrr en eftir all nokkur ár og bæru því ekki blóm lengi vel. Valdís hafði leitað blómanna á hverju vori og nú loksins sáust fyrstu blómklasarnir. Valdís var sæl með þetta. Svo kom pósturinn og með honum kom bréf sem gerði það að verkum að við þurftum til Fjugesta.
Valdís gengur ekki heil til skógar. Það er reynsla okkar að heilsugæslan segist takast á við krabbamein en ekki að fólk deyji úr krabbameini. En svo er það staðreynd að það lifa ekki allir af en reyndar mjög margir. Sumir eru haldnir þessum sjúkdómi þegar þeir koma í meðferð til Vornes og eru þá venjulega búnir að ganga með hann mjög lengi. Þeirra von er kannski ekki sérstaklega stór. Þar fyrir utan vitum við Valdís bara um einn mann hér í Svíþjóð sem hefur dáið úr krabbameini á síðustu árum og það er pabbi ungu nágrannakonu okkar hér sunnan við. Síðan vitum við um marga sem hafa læknast eða alla vega fengið sumarauka á ævi sína svo árum skiptir.
Ferðin til Fjugesta tengdist undirbúningi þeirrar meðferðar sem stendur fyrir dyrum. Valdís er dugleg og segist vera undir það búin að hún lendi í erfiðleikum en þá muni hún takast á við það. Ég hef verið spurður hvort hún sé eins dugleg og hún láti af sjálf. Það var nefnilega þess vegna sem blómin á kastaníunni glöddu mig. Væri hún í öðrum heimi af kvíða hefði hún alls ekki tekið eftir þessum blómum sem eru í meira en þriggja metra hæð. Ég var alls ekki farin að taka eftir þeim. Svo sofum við á nóttunni og það er góðs viti. Það er hreinlega undirstaða þess að lífið geti verið í jafnvægi. Það er svo spurning hvort eigi að blogga um sjúkdóma en málið var að fólk vissi þegar að eitthvað var að og ef ég ekki gerði það gat ég ekki bloggað lengur. Þá hefði allt mitt blogg orðið eintóm lygi.
Fjölskyldan okkar í Stokkhólmi var hér um helgina og þar með auðvitað minnsta barnabarnið. Hann Hannes Guðjón er mikið glaður lítill maður og þar með mikill gleðigjafi. Mikið var gott að þau komu. Ég ætlaði mér að vera búinn að blogga svolítið um þessa heimsókn en það hefur ekki komist í verk. Í kolli mér finnst líka óskrifað blogg um leikhúsferð okkar Valdísar til Stokkhólms þann 5. maí. Þetta og margt annað er óskrifað en það kemur að því. Valgerður og Guðdís voru á Majorka í síðustu viku og stóðu þar á sömu dómkirkjutröppum og ég stóð á árið 1960. Hálf öld og rúmlega það reiknast mér. Mér var lofað mynd af þessari kirkju og háum tröppunum.
Klukkan er nú orðin hálf tíu og kvöldkyrrðin er sest að í skóginum fyrir utan gluggann sem ég sit við og aðeins farið að húma þar lengst úti. Hitinn er kominn niður í 19 stig. Svo kyrrt er þarna úti að það bærist ekki lauf utan í hæstu toppunum sem eru 20 og allt að 30 metra háir. Það sést líka vel að við unnum gott verk í dag. Þegar við komum frá Fjugesta fór ég aftur af stað með mótororfið til að ljúka endanlega þessu hreinsunarstarfi mínu. Svo ætla ég að vinna að þessu á morgun líka en Valdís fer hins vegar í mánaðarlegan hádegisverð með fjórum vinkonum sínum. Ég er mikið feginn því. Þannig er það á þessum bæ um þessar mundir og undurfallegt sumarið kom á hárréttum tíma fyrir okkur.
Helgin 12. og 13. maí 2012
Svo fór ég á stjá til að opna hurðir hingað og þangað og veðrið var eins og það getur fallegast orðið snemmsumars í þessu landi. Ég mætti einum og öðrum sjúklingi hingað og þangað á þessari hringferð minni og ég var samstundis búinn að gleyma því sem mér datt í hug fyrr um morguninn, þessu með að þrauka. Klukkan ellefu var allri grúppustarfssemi lokið og mér fannst sem ég hefði verið að upplifa minn besta dag í Vornesi í þau rúmlega 16 ár sem ég hef verið heitbundinn þeim stað. Þegar ég fæ á tilfinninguna að stór meirihluti, eða flestir sjúklinganna séu að gera sitt allra besta til að ná nýjum tökum á lífi sínu, þá smitast ég af einhverju sem erfitt er að lýsa. Ég veit líka að heima bíður fjöldi barna, eiginmenn og eiginkonur, foreldrar og systkini, vinir, vinnufélagar og verkstjórar, sem eiga þá ósk heitasta að fá heim manneskjuna sem varð fórnarlamb alkohólismans, fá hana heim sem nýja manneskju og heilbrigðari en jafnvel nokkru sinni fyrr. Þetta gengur oft eftir og það verður bara að viðurkennast að það er stórkostlegt að taka þátt í því.
Seinni partinn í gær hringdi ég heim og Valdís hafði fréttir að færa. Hún hafði brugðið sér út, tekið sláttuvélina út úr geymslu og slegið á annað þúsund fermetra. Ja, hérnana hér! Ég heyrði vel á henni að hún var ánægð með framlag sitt til dagsins og ég gat bara dáðst að henni. Að halda svo heim á leið um hádegi í dag var frábært. Að geta fylgst með landinu klæðast sumrinu á allri þessari leið var auðvitað alveg stórkostlegt og ég hlakkaði til að koma heim, fá mér eitthvað með Valdísi og líta svo á framfarir vorsins heima. Ég reyndar fór mjög snögga ferði út í skóginn og umhverfis húsið áður en ég kom inn, hreinlega vegna þess að ég var svo forvitinn um hvernig gengi að ég gat ekki á mér setið.
Svo fórum við Valdís til Mullhyttan sem er eina 25 km til vesturs frá Sóvlöllum. Þar átti Hafðu það gott kórinn hennar Valdísar að syngja fyrir fjöldasöng, en það er í fyrsta skipti sem það er gert á þeim stað. Fjöldasöngur virðist vera bráð smitandi hér í landi þessi árin og nú hefur Mullhyttan orðið fyrir barðinu á smituninni. Ekki dreif fólkið beinlínis að til að taka þátt í söngnum, enda gæti ég trúað að margur hafi verið smá feiminn við að koma og syngja út á götu framan við hús áhugasamrar konu sem hratt þessu af stað. En kórinn hélt sínu striki, söng sín lög og svo héldum við Valdís heim á ný og dáðumst að grænkandi ökrum og laufríkum skógum.
Það sem fyrir augun bar þegar ég kom heim úr vinnunni var til dæmis þetta. Plómutré sem við gróðursettum í fyrra eftir að hérarnir átu það sem fyrir var, það ætlar að skila ávöxtum í ár. Þau eru falleg blómin á ávaxtatrjánum.
Hér er blómaklasi á gömlu plómutré sem er búið að skila okkur mörgum plómum, mörgum munnbitanum beint af trénu og enn eru til sultukrukkur niðurn í kjallara frá í fyrra. Þetta tré er orðið lúið og spurning hvort við verðum ekki að yngja það upp að vori.
Hér er eplatré frá í fyrra og það rembist eins og rjúpan við staurinn við að opna blómhnappana og vonandi tekst því. Það blómgast seinna en plómutrén.
En þessi gríslingur sem er afmælisgjöf frá Vornesi og gróðursett fyrir þremur vikum ætlar líka að bera blóm og kannski verða á því einhver epli þegar líður á sumar.
Þetta er ekki ávaxtatré, þetta er lítill heggur sem er að komast í fullan skrúða. Þegar við keyptum Sólvelli var hér einn heggur en hann hallaði svo mikið að hann var mikið fremur lýti en prýði. Hann var því felldur fyrir nokkrum árum en afkomendur hans eru margir og fá ekki allir að komast á legg. Klippurnar sjá fyrir því. Undir heggnum eru skógarsóleyjar sem nú eru á undanhaldi þar sem tími þeirra er að verða liðinn.
*
Svo er hér nokkuð af allt öðrum toga. Þetta er hluti af kórnum í Mullhyttan í dag og Valdís er þarna baka til fyrir miðri mynd. Hún segir að kórsöngur sé læknandi. Það fer ekki milli mála að meðlimir þessa kórs njóta þess að syngja og stóri maðurinn á bláu skyrtunni er eitthvað besta dæmið sem ég hef séð um það að söngurinn lyftir í hæðir. Það gekk ekki að ná mynd á réttu augnabliki, en andartaki eftir að ég tók myndina var þessi gríðarlega stóri og herðabreiði öldungur kominn upp á tærnar á öðrum fæti en hinum sveiflaði hann í takt við lagið, og handleggnum sveiflaði hann beint upp til að fylgja eftir lokatóninum í hressilegri sveiflu. Myndina tók ég á miðlungs góðan farsíma og eins og ég sagði, ég náði myndinni ekki á því augnabliki sem til stóð.
Að rækta sinn innri mann
En hvað vorum við að gera í Blomsterland í dag? Jú, við vorum að kaupa ræktaðar jarðarberjaplöntur, ein sex stykki. Þau skulu í mold á morgun. Fyrir síðustu helgi gróðursetti ég tólf jarðarberjaplöntur og þá á ég við ber sem eru svipuð íslensku, viltu jarðarberjunum sem hér heita smultron. Við hugsuðum okkur að þessi ber skyldu verða eins náttúrulega gróðursett og hægt væri, enda er þegar svolítið af þeim hingað og þangað fremst í skóginum. Svo gróðursetti ég þau bara í skógarbotninn án þess að bæta jarðveginn. Svo fórum við í Marieberg í innkaupaferð í gær og meðan Valdís var að gera matarinnkaupin kom ég við í Blomsterland í nokkurs konar undirbúningsferð fyrir ræktuðu jarðarberjakaupin. Þá talaði ég um þetta með smultron, hvernig ég hefði gróðursett þau.
Það var hjálpleg kona þarna í útideildinni sem virtist vita mjög vel hvað hún var að tala um. Hún teygði sig eftir einni smultronplöntu, dró hana upp úr bakkanum, sýndi mér rótina og sagði svo: Þú ert enga stund að taka plönturnar upp aftur og setja svolítið af gróðursetningarmold í kringum ræturnar. Þú ættir að gera það og þá verður þetta mikið betra hjá þér. Hún sagði þetta greinilega með góðri samvisku og af sannri afhjálpsemi. Ég hikaði aðeins og þótti heldur miður, en sagði svo að það hefði verið gott að hún benti mér á þetta og ég reyndi að láta sem svo að það væri ekkert mál fyrir mig að framkvæma gróðursetninguna aftur. Samt skal ég viðurkenna að mér fannst svolítið sem hún hefði bætt á mig verki.
Svo þegar við Valdís komum heim í gær dreif ég mig í regnbuxurnar þar sem það var drjúg rigning. Ég tók upp allar smultronplönturnar, stækkaði holurnar og bætti jörðina með rúmlega hálfri fötu gróðursetningarmold fyrir hverja plöntu. Það tók ekki svo langan tíma og nú veit ég að þetta er vel gert. Það er hægt að fá góð ráð í þessari verslun og þá sérstaklega á þeim tíma vorsins sem mest er selt af plöntum. Konan sem ráðlagði mér þetta með smultronplönturnar var samt ekki sú sama og ráðlagði mér fyrir tveimur árum að pissa á trjáplönturnar sem mér þætti vænst um og ég vildi sjá vaxa hratt fyrstu árin. Svoleiðis ætla ég þó ekki að gera með jarðaberjaplönturnar.
Á vilta bláberjalynginu er þvílík mergð af sætukoppum að ef ekki kemur frostnótt hér eftir, þá verður mjög góð bláberjauppskera. Sama er að segja um nokkra keypta bláberjarunna sem við eigum. Mikil verður velsældin á Sólvöllum þegar líða fer á sumar og að hausti. Ber í sultu, ávextir í sultu og pæj, ber á brauð og ber með rjómaís á kvöldin. Bláber eru líka alveg frábær í tyrkjajógúrt, einnig í skyri sem er orðin vinsæl söluvara hér.
Eftir tal um sprettu og ræktun lít ég á vísdómsorð þessa dags í Kyrrð dagsins, en þar stendur nokkuð um ræktun og ég get lofað að ég var búinn að skrifa allt ofanritað áður en ég las þessi vísdómsorð.
hana verður að rækta innan frá.
Þessum degi lauk með 15 stiga hita á miðnætti. Það verður spennandi að líta út á morgun.
Leikhúsferð
Já, við fórum í leikhús og fyrirsögnin er Leikhúsferð. Ég á eftir að fara nokkrum orðum um það, en það læt ég bíða þar til síðar. Hins vegar vil ég segja frá nokkru sem ég upplifði á leiðinni heim. Við fengum okkur að borða á stað nokkrum eina 50 kílómetra austan við Sólvelli svo að við þyrftum ekki að byrja á matargerð þegar heim kæmi. Stuttu eftir að okkur bar þar að garði kom full rúta af ellilífeyrisþegum sem fengu sér líka að borða þarna.
Síðan komu lítið eldri hjón með ungan mannn í hjólastól. Hann var trúlega rétt um þrítugt og algerlega bundinn stólnum. Hann var líka mjög fatlaður á höndum og fingrum og gat ekki skorið matinn sinn. Hann sat næstum beint á móti mér, ekki svo langt í burtu. Meðan hann beið eftir að fylgdarfólk hans kæmi með matinn sögðu nokkrir ellilífeyrisþegar á næsta borði eitthvað sem vakti hlátur. Hann komst ekki hjá því að heyra það og fór líka að skellihlæja og hann hló innilega. Svo kom maturinn hans á borðið og þegar búið var að brytja matinn gat hann borðað hjálparlaust. Hann virtist njóta þess að borða og spjalla við ferðafelaga sína.
Mér varð hugsað að ég gæti gengið þarna inn, farið á snyrtinguna og pissað hjálparlaust, þvegið mér um hendurnar, skoðað matinn og valið sjálfur, borgað fyrir mig, farið að því borði sem mér bara datt í hug og borðað án aðstoðar. Þetta er bara smá brot af þeim mismun sem við búum við, ég og þessi maður. Var hann kanski glaðari en ég? Hann vakti margar hugsanir hjá mér þessi maður og ég átti erfitt með að setja mig í spor hans. Mikið má ég vera þakklátur fyrir það sem ég hef.
Krafteverkið heldur áfram
Já, þannig var nú það. Nú er orðið dimmt úti og gluggatjöldin dregin niður og vorið hafði sem sagt vinninginn. Lífið fylgir líka vorinu meira. Að vísu getur pörun byrjað meðan snjóalögin hylja jörð, en hreiður, ungar og búamstur fylgir vorinu. Blómin, laufgunin og vöxturinn fylgir líka vorinu og svo sumrinu, og meira að segja broddgölturinn sem bardúsaði eitthvað við fætur mér um daginn fer á kreik með vorinu, einnig slangan sem dustaði til bláberjalynginu á flotta sínum hér um daginn. Flugan sem settist á andlit mitt og hendur áðan þegar ég byrjaði að skrifa tilheyrir þessu líka. Hún olli því að flugnaspaðinn var dreginn upp úr skúffu. Hún var ein á ferð og hélt að mér líkaði svona vel við hana þegar ég var að slá til hendinni til að verð af með hana og það var eins og henni fyndist það gaman. Ég veit svo sem ekki hvort okkar hafði meiri rétt til lífsins en flugan er alla vega ekki lengur í tölu lifenda.
Rétt um dimmumótin fór ég í síðustu gönguna um skóginn. Þá varð ég þess var að hin sex sentimetra löngu beykibrum voru orðin græn í blá endann, þann sem vísar frá trénu. Ég var eiginlega orðinn hissa á því hvað þau voru orðin stór og stinn án þess að springa út, en nú gátu þau greinilega ekki haldið í sér lengur, jafnvel þó að þau kannski vildu stríða mér. Þetta er nýr áfangi í laufguninni og kemur á þeim tíma sem bækur gera ráð fyrir, en ég hef lesið mig til um það að beyki laufgist í myrjun maí. Svo fer eikin bráðlega af stað og þá fer af stað stór áfangi þar sem svo margar eikur eru í skóginum okkar. Síðar byrjar öspin og að síðustu askurinn. Með öðrum orðum; kraftaverkið er bara á bernskuskeiði ennþá.
Ég sagði í bloggi í gærkvöldi að ég ætlaði að ganga frá DVD spilaranum við sjónvarpið. Það gerði ég líka og kom þá tilheyrandi leiðslum í réttan farveg, leiðslum sem voru búnar að vera utanáliggjandi æði lengi og óttalega leiðnlegar fyrir augað. Svo þegar við litum á þetta að verki loknu, þá var munurinn svo ótrúlega mikill og svo er eins og eitthvað sé komið í lag og nú getum við farið að horfa á myndir sem við veljum. Annars horfi ég sára lítið á sjónvarp. Það eru nokkur álíka atriði eftir innanhúss en alls ekki mörg. Sólvallahúsið er orðið í býsna góðu standi. Annars var ég líka að gera eitt og annað klárt úti og líka að vökva nýjar gróðursetningar. Ótrúlegt hvað mér getur fundist ég vera mikilvæur þegar ég er að vökva. Valdís tók hins vegar að sér að setja í töskur fyrir ferð til höfuðstaðarins. Það fer best á því þar sem ég gleymi helmingnum.
Nú, eins og svo mörg, mörg kvöld áður, er kyrrðin alger. Valdís les bók fyrir aftan mig og ég finn fyrir löngun til að fara undir ullarfeldinn minn líka. En þó að bókin Kyrrð dagsins sé hér eina 25 sentimetra frá vinstri hendi minni, þá var ég ekki búinn að taka eftir vísdómsorðum dagsins. Það var ekki fyrr en Valdís benti mér á þau að ég sá hversu ótrúlega vel þau eiga við árstíðina og þá stemmingu sem fyllir herbergið í kvöldkyrrðinni.
engar áhyggjur,
þú ert aðeins í stuttri heimsókn.
Stansaðu,
njóttu þess að finna blómin anga.
Allt í einu virðist það mesta vera orðið einfaldara
Að eitthvað er farið að segja og gera breytti öllu í dag. Móttökurnar voru líka dásamlega góðar. Við vorum ekkert of lystug í morgun og um hádegið áður en við lögðum af stað, en eftir þetta gengum við greiðum skrefum á kaffiteríuna á jarðhæð hússins sem við vorum í, og fengum okkur kaffi og smurt brauð. Svo var málið hvort við hefðum nokkra matarlyst áður en ég færi á AA fund klukkan sjö, en okkur þótti samt rétt að borða. Svo þegar við vorum byrjuð að borða höfðum við dúndrandi matarlyst. Eitthvað jákvætt hafði hent.
Landið var vorlegt og óvenju fallegt þegar við vorum á leiðinni heim og við töluðum um breytingarnar sem hefðu orðið á ýmsum stöðum. Svo þegar við komum heim á Sólvelli ókum við mjög hægt veginn vestan við húsið og virtum fyrir okkur sveitasetrið okkar. Bjarkirnar eru mest áberandi laufgaðar enn sem komið er, og þó að þær séu orðnar all mikið laufgaðar eru þær aðeins komnar stutt á veg. Kraftaverk vorsins á langt í land ennþá áður en hið iðjagræna haf hefur tekið yfirhöndina. Það var gott að koma heim og ég ætlaði ekki að tíma að fara á AA fundinn.
Klukkan hálf tíu í fyrramálið ætlar Valdís að mæta á söngæfingu Hafðu það gott kórsins, en læknirinn sagði henni að lifa hreinlega eins og áður og vera til. Um helgina förum við svo til Stokkhólms og förum þá í leikhús, en miðana fengum við í jólagjöf frá Rósu og fjölskyldu. Á morgun verð ég eitthvað við vorverk en fyrst ætla ég að koma DVD spilaranum haganlega fyrir og tengja hann. Þá getum við farið að horfa á myndir sem Valgerður og fjölskylda gáfu mér í afmælisgjöf í fyrra mánuði ásamt fleiri myndum sem við eigum en höfum aldrei séð. Það eiga eftir að koma rigningardagar og eitthvað kaldari dagar og þá verður gott að hafa eitthvað efni til að horfa á, efni sem við veljum sjálf að sjá.
Þannig gengur nú lífið á Sólvöllum. Þegar við vorum á leiðinni heim eftir sjúkrahúsheimsóknina var 22 stiga hiti. Það var sumar að því leyti til. Nú er klukkan að verða tíu að kvöldi og hitinn er ein 13 stig. Það verður nú mikil útþensla í skóginum í nótt og spennandi verður að ganga milli glugganna í fyrramálið og gera fyrstu könnun á snemmsumri morgundagsins.
Valdís er búin að lesa þetta yfir og staðfesta að ég fari með rétt mál. Góðar stundir.
Heimsókn til Valdísar -og mín líka
En ég svo sem fæ mínar heimsóknir líka. Í fyrradag var ég á leiðinni til að vatna trjám og fór með garðkönnu yfir brú sem gerð er úr fjórum battingum. Þegar ég var á brúnni heyrði ég kunnuglegt hljóð nokkra metra frá mér. Það var allt í lagi þar sem það var í hæfilegri fjarlægð. En hvort var það snákur eða höggormur sem var þarna á ferð? Ég sá aldrei hausinn þegar hann hvarf í lyngið þannig að ég var ekki viss, en taldi þó að þetta væri snákur eftir litnum á afturhlutanum að dæma. Svo reyndi ég bara að trúa því að þetta hefði verið snákur því að það er þægilegra að hitta þá en höggorma. Síðan losaði ég könnuna og sótti aðra. Þegar ég var á sama stað, á sama enda á brúnni, með könnuna fulla af vatni, skrjáfaði aftur í lynginu og nú alveg við fæturna á mér. Þá bakkaði ég dálítið rösklega verð ég að viðurkenna. En það sem skeði var að vatn hafði gusast úr garðkönnunni og við það skrjáfaði í lynginu og það var bara svo líkt flóttahljóði slöngunnar.
Eftir að skyggja tók gekk ég svo út i skógarjaðarinn og stóð þar og bara lifði með kyrrðinni. En heyrðu! Ég var ekki einn! En það var bara hann Broddi sem snuddaði við fætur mér og meðan ég stóð kyrr var honum sama um mig. Þetta hefur oft skeð og það er nú ansi nærri því að ég hoppi upp við svona skemmtileg tækifæri. En Broddi er ósköp skemmtilegur og ómögulegt að vilja honum illa. Sumir segja líka að broddgeltir éti slöngur, en það er hins vegar vitað að slöngur éta mýs.
Síðustu daga hefur í sjónvarpi verið talað um skaðlega eyðingu á gömlum skógum. Það er ótrúlegt en sjálfsagt satt að á einu gömlu tré getur verið samfélag allt að 1500 tegunda örvera, skordýra og fugla og einhvers sem ég kann ekki að nefna.
Í raun veit ég ekki hvers vegna ég hef skrifað þetta en það var þetta með fuglana sem fékk mig til að byrja. Svo kom ýmislegt annað af sjálfsdáðum eins og svo oft. Í dag hefur verið mjög ljúfur snemmsumardagur og svo er bara að sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Góðar stundir.