Nú verður ekki aftur snúið

áþreifanlegt að ekki verður aftur snúið. Eins og ég sagði um daginn fellur svona tré niður með miklum þunga, dúar aðeins og hreifist síðan ekki meir. Tvær nýjar myndir fylgja hér á eftir.
GB
Lögst til hvíldar

Að sjá hana svona sýndi bara hvers konar risabjörk þetta var.
Var þetta virkilega nauðsynlegt?

Ekki get ég neitað því að spurningin kom upp, var þetta nauðsynlegt? Ef hún hefði fallið á húsið hefði hefði komið upp önnur spurning; af hverju felldum við hana ekki áður en svona fór?
Drottningin er fallin

Hér eftir fylgja nokkrar af mörgum myndum sem Valdís tók þegar þetta áberandi og fallega tré var fellt í dag.
Hér sjáum við meinið

Þetta hefur væntanlega valdið meiri fúa en við vitum ennþá. Það kemur betur í ljós þegar stokkarnir verða brytjaðir í hæfilegar eldiviðarlengdir.
Ráðagerðir

Þriðji maðurinn er hann Jónas nágranni okkar og mikill heiðursmaður, sonur Arnolds. Kona Jónasar er Lena sem oft gengur framhjá Sólvöllum og vinkar eða heilsar. Maðurinn lengst til hægri er svo hann Krister, fagmaðurinn frá Hardemó sem hefur að atvinnu að fella tré við erfiðar aðstæður. Heima hjá Jónasi þurfti líka að fella tvær bjarkir sem voru orðin ógnandi fyrir húsið hans. Fyrst voru þær bjarkir felldar og síðan kom að okkar björk. Allir hjálpuðust að á báðum stöðum og að lokum bauð Valdís upp á kaffi með smurðu brauði og einni virkilegri Hnallþóru. Fjölskylda Jónasar kom öll og það var sérstaklega gaman því að börnin Jónasar og Lenu eru fjögurra og sex ára og þeim fannst gaman að koma inn já þessu fólki sem talar undarlega. Svo fannst þeim tertan rosalega góð.
Allt samkvæmt ströngustu kröfum

Ljósmyndari allra myndanna er Valdís, enda sést hún ekki á neinni mynd sem viðkemur þessari aðgerð.
Þannig leit hún út þegar hún var lögst

Vegurinn er lokaður

Hér byrjar Krister að búta björkina í lengdir sem kraninn hjá Arnold réð við.
Ögn að kljúfa

Viðargeymslan er þarna á bakvið staflann og kemur ekki til með að taka allan viðinn en við höfum fleiri króka til að raða í þegar þar að kemur. Þessi viður verður ekki reglulega góður til brennslu fyrr en sumarið 2009.
Eftir stendur þessi stubbur

Þessir ofvextir verða flegnir af við tækifæri en hvað verður svo gert við stubbinn er ekki ákveðið ennþá.
Langt norður á bóginn
Eins og ég hef áður talað um höfum við Valdís ótal sinnum talað um að skoða okkur um þarna norðurfrá. Svo þegar við vorum að ræða þetta hér um daginn kom í fréttum að kóngurinn vildi byggja þrjú sumarhús handa börnunum sínum á einhverjum frábærum stað þarna, og þá er ég að tala um mjög langt fyrir norðan. Og af hverju vill kóngurinn velja stað þar fyrir sumarhús? Jú, það hlýtur að vera vegna þess að það er mikið í umhverfið varið. Nú nefni ég Kjell rétt einu sinni enn. Ég hringdi í hann og talaði um þetta við hann. Kjell sagði að það væri svo fallegt þarna víða "að maður bara fer að gráta" eins og hann orðaði það. Örstuttu eftir þetta rak Valdís augun í fréttina um Stórelginn í dagblaði, hringdi í mig á Sólvelli til að segja mér frá þessu.

Þessi mynd er tekin af fjallinu Hvíti hatturinn (Vithatten) sem er 511 metra yfir hafinu. Hugmyndin er að byggja 45 metra háan elg þarna uppi og pallurinn og handriðið sem við sjáum á myndinni er sett inn á myndina og táknar útsýnispall efst á hornunum á elgnum sem þá verða 45 metrum ofar. Í elgnum eiga svo að vera veitingahús, tónleikasalur, ráðstefnusalir og bara allt mögulegt. Upp í elginn á að fara með lyftu sem byggja á innan í risafuru sem byggja á úr límtré. Þegar upp er komi á svo að ganga inn um kjaftinn á elgnum og er þá hægt að ganga inn í öll þau rými sem finnast þarna uppi og efst uppi er sem sagt útsýnispallurin.
Aðal hugmyndafræðingurinn að þessu fór í þyrlu upp í 45 m hæð yfir Hvíta hattinum til að kanna útsýnið og segir að sem dæmi um það sem sést frá hinni ímynduðu krónu sé: nokkrir kirkjuturnar, fjallahringurinn, hafið, bærinn, skógurinn, vatnið, áin, mýrin, já, listinn gæti verið hversu langur sem helst, segir hann. Meira segja kirkjuturn í bænum Skellefteå sést í kíki þaðan, en sá bær er í 85 km fjarlægð frá Hvíta hattinum. Útsýnið á myndinni er ekki ólíkt því sem sést frá því sem heitir Grönklitt sem liggur 10 til 15 km norðan við bæinn Orsa í Dölunum (og þá er ég aftur kominn í Dalina). Um Orsa þarf ég að blogga síðar. Allt þetta tal um elginn kemur til vegna þess að ég fann nokkrar myndir á netinu tengdar efninu. Þessar myndir eru dæmi um þau landssvæði sem við eigum eftir að kanna.
Nú er Valdís komin heim af kóræfingunni og þá læt ég staðar numið í kvöld, en Hvíta hattinn á ég eftir að blogga meira um þó að það sé ekki sérstaklega tengt Stórelgnum.
GB
Að verða volgur á rassinum
En það var í þessari ferð sem ég sá Skaftáreldahraun, þessa ungu landmótun í allt öðru ljósi. Ég settist á þúfu þarna uppi og lét hugann reika. Ég reyndi að giska á hvað mikið langalang- væri til þeirra áa minna sem hefðu upplifað Skaftárelda og þá miklu landmótun sem þá átti sér stað. Ég sá fyrir mér að þetta var ótrúlega nærri. Í sumarblíðunni þarna uppi og mitt í hugleiðingum mínum varð ég alveg hugfanginn af tilverunni og fékk sterka löngun til að segja einhverjum frá því. Því sendi ég sms til hans Kjell vinnufélaga míns og sagði honum í nokkrum orðum frá því því útsýni sem ég hafði fyrir augum. Kjell er nefnilega áhugamaður um Ísland og hefur verið á suðvesturhorninu tvisvar sinnum. Snemma næsta dag fékk ég sms frá Kjell. Það var stutt og laggott: "Takk fyrir að ég fékk sofna aftur." Þá áttaði ég mig á því að þegar ég sendi smsið var klukkan hjá Kjell að ganga tólf að kvöldi. Það hugleiddi ég ekki í hrifningu minni klukkan að ganga tíu upp í Klaustursheiði, að Kjell væri steinsofandi í rúminu sínu.
Nú þegar ég vara að skrifa þetta athugaði ég þetta með áana sem ég gat um áður, og komst að eftirfarandi: Langa-langa-langafi minn í móðurætt, Eyjólfur Þórarinsson, fæddist 1774 og var því átta ára þegar Skaftáreldar hófust. Kona hans og langa-langa-langamma mín, Anna Oddsdóttir, fæddist 1776 og var því 6 ára við upphaf eldanna. Í bloggum mínum undanfarið hef ég verið að tala um landmótun sem átti sér stað fyrir 360 miljónum ára en hér er það landmótun sem er nokkurra kynslóða gömul.

Svo er það þessi mynd sem greinilega er tekin að kvöldi til af lóðinni hjá Valgerði og Jónatan í Vestmannaeyjum og til hægri sést í nýja hraunið. Þar er landmótunin ennþá volg. Alla vega síðast þegar ég var upp á Eldfelli, þá varð ég aðeins volgur á rassinum eftir að hafa setið þar nokkra stund. Í það skiptið fann ég þó greinilegan mun að mér fannst hversu mikið lengur ég þurfti að sitja til að finna fyrir þessum yl frá iðrum jarðar.
Svo ein frásögn frá þessari ferð minni á Eldfell. Ég vildi fyrirfram fá næði til að sitja einn þarna uppi svo lengi sem ég vildi þegar þar að kæmi. Svo þegar upp var komið og ég hafði setið þar um stund, sá ég hvar löng halarófa fólks liðaðist upp bugðótta gönguleiðna. Einn maður gekk nokkurn spöl á undan hinum. Þegar þessi maður kom svo að lokum á móts við mig sagði hann: "Ert þú fjallavörður?" Ég svarað því játandi og svo töluðum við ekki meir. Síðan kom öll halarófan og fór framhjá mér og allir reyndu að láta sem þeir sæju mig ekki. Ég heyrði að maðurinn sem spurði var ekki íslendingur en hann talaði þó mjög góða íslensku. Allt hvarf þetta fólk svo norðaustur af Eldfellinu og ég hélt bara að þar væri einhver leið niður. En eftir all langan tíma kom þó halarófan til baka og ég spurði þá manninn sem hafði ávarpað mig hvaðan þetta fólk væri. Öll voru þau frakkar, einnig hann sem var leiðsögumaður. Að koma frá Frakklandi og upp á Eldfell í Vestmannaeyjum, það hlýtur að hafa verið að eins og að nálgast sköpun jarðar.
GB
Að standa á ungu landi
GB

Að lokum úr Dalaferðum
Í því bloggi talaði ég um ferð með Valgerði dóttur okkar, Jónatan tengdasyni og Kristni dóttursyni umhverfis vatnið Siljan. Þá talaði ég um að við hefðum um mitt sumar farið í skíðalyftu upp á hæð eina á leið okkar. Eftir það skoðaði ég myndir skildar þessu og kynnti mér staðinn betur. Þá komst ég að nokkru áhugaverðu. Þetta er heilt fjall, ekki hæð, 514 m hátt og hvergi gefur betra útsýni yfir Siljansvæðið og það sem jarðfræðilega kallast Siljanhringurinn. Við Valdís köllum það hins vegar Siljanhringinn þegar við ökum umhvergis vatnið Siljan. Nú fer ég að eiga mikið erindi upp í Dali til að kanna ýmsa hluti betur.

Svo eru hér nokkur kveðjuorð til Víðabliks. Á seinni hluta 19. aldar kom farandsali að nafni Ólafur að víðabliki. Hann settist þar niður til að hvíla sig og veitti auðvitað athygli hve frábærilega fallegt og stórbrotið útsýni var þarna. Hann hét því þá að ef hann eignaðist einhvern tíma peninga skyldi hann byggja sér heimili þarna og útsýnisturn á hæðinni þar fyrir ofan.
Ólafur hélt áfram ferð sinni og síðar eignaðist hann peninga. Árið 1897 kom hann til baka og hóf framkvæmdir. Turninn hafði nokkru áður teiknað 17 ára unglingur sem líka hét Ólafur og hann varð líka byggingarmeistarinn. Turninn var vígður með athöfn árið 1898. Þarna voru reistar fleiri byggingar og var staðurinn hugsaður sem sjúkra- og hvíldarheimili. Ekki naut farandsalinn Ólafur framkvæmdar sinnar lengi því hann lést árið 1899
Yfirgefum við hér með Dalina.
GB
Hamfarir á Siljansvæðinu
Við getum gert tilraun. Látum renna nokkurra sentimetra djúpt vatn í eldhúsvaskinn, tökum til dæmis sykurmola eða vínber og látum hann detta úr til dæmis 40 sem hæð niður í vatnið. Það er ekki svo auðvelt með beru auganu einu að sjá hvað skeður, en það virðist sem sykurmolinn þrýsti vatninu fyrst til hliðar og myndi kringlótta holu sem síðan fyllist snöggt af vatni og endar á að mynda strýtu upp úr vatninu nákvæmlega þar sem molinn féll í það. Það eina sem hægt er að greina vel og með vissu er að þessi vatnsstrýta myndast og hverfur svo á smá broti úr sekúndu.
Þegar loftsteinn sem var um fjórir kílómetra í þvermál féll með ægihraða á Siljansvæðið skeði eitthvað svipað þessu Þó að jarðmassinn sé bæði harðari og seigari, gefur hægari hreyfingar og jafnar sig ekki út eins og vatnið gerði í tilrauninni. Eftir að berglögin þrýstust niður og út á við og barmarnir á 50 km breiðum gíg að endingu upp á við, enduðu ósköpin með því að bergmassinn seig til baka af krafti svo miklum að inn í miðju varð landið hærra, en á útjaðri gígsins varð landið lægra en umhverfið. Vötnin Siljan, Orsavatnið, Skattungen, Orevatnið og á austurjaðrinum það sem kallast Bodavötnin mynda hringlaga vatnasvæði á útjaðri gígsins. Á svæðinu innar í gígnum er landslagið hnjúkar og ásar með lægðardrögum á milli. Einmitt á þessu svæði er Boda og Styggfossinn sem um getur í bloggi fyrir fáeinum dögum og er hér lítið neðar og tengist þessu bloggi í dag. Það er hrein upplifun að ferðast um þetta svæði, bæði vegna þess að það er mjög fallegt, og þar að auki ef hugsað er til þessara miklu hamfara sem mótuðu það. Við sprenginguna sem varð við áreksturinn varð hitinn svo mikill að jarðskorpan kraumaði í 100 000 ár, í heil eitthundraðþúsund ár sem er mér algerlega óskiljanlegur tími. Aðrir kanski skilja en ekki ég. Þegar þetta átti sér stað var Siljansvæðið suður undir miðbaug.
Að lokum komst á jafnvægi og ísaldarjöklar skriðu fram og til baka á Siljansvæðinu eins og á öðrum norðlægum slóðum þar til fyrir um 10 000 árum. Skógar og annar gróður byrjuðu að fikra sig uppeftir Svíþjóð og dýralíf og mannfólk fylgdi í kjölfarið. Fólk uppgötvaði mikið kalk á Siljansvæðinu sem og víðar og þess vegna er til nokkuð sem kallast Dalhalla, afrækt kalknáma sem gerð hefur verið að útitónleikasvæði. Það var þar sem Valdís og kórinn hennar æfði fyrir tónleika ásamt mörgum öðrum kórum meðan ég kynnti mér landslag og náttúru Siljansvæðisins fyrir fáeinum árum. Ég ímynda mér, veit ekki, að Styggfossinn og áin hafi hreinsað burtu jökulleirinn og haldið ákveðnu svæði af bergblokkum, stærri steinum og klöppum hreinum frá gróðri svo að við getum gengið þarna um í dag, skoðað og látið hugann reika.

Í upphafi láu kalklögin sem sjást á myndinni lárétt en við loftsteinsáreksturinn fór allt á tjá og tundur og þessi stóra blokk var í þessari stellingu þegar yfir lauk. Ekki veit ég hver maðurinn á myndinni er, en hann virðist áhugasamur. Ekki veit ég heldur hvað áin heitir sem rennur við fætur hans en fossinn sem er á næsta leiti heitir alla vega Styggfossinn.
GB
Dalhalla

Alla jafna gengur fólk þarna niður en bæði sumrin sem við vorum þarna fékk ég að fara á bíl niður með fólk sem átti erfitt með gang í hallanum. Ekkert var sjálfsagðara og ég fékk merki til að hafa innan við framrúðuna meðan á tónleikunum stóð.
GB
Og aftur Dalhalla

Valdís hefur tvisvar sinnum verið á sviðinu þarna með kórnum sínum.
Siljanhringurinn

Hér má sjá Siljan stærst og neðst og líkist það svolítið dýri á þessari mynd, kannski ketti. Ofar til vinstri er Orsavatnið, ofar og lengra til hægri eru Skattungen og Orevatnið. Á hringnum til hægri eru minni vötn sem kölluð eru Bodavötnin en sjást vart á myndinni. Ég hef séð svarthvíta mynd af svæðinu og þár sást hringurinn enn greinilegar í landslaginu.
Boda og Styggfossinn
Hún kom frá Elvdalnum konan hans. Þar er töluð mállýska svo ólík sænsku að það er ómögulegt fyrir venjulegt sænskutalandi fólk að skilja hana. Elvdalurinn var um aldir afskekkt hérað, afgirt af afar víðáttumiklum djúpum skógum og veglaust frá umheiminum. Sum orð í Elvdalsmállýskunni eru mjög íslensk en það er samt ómögulegt fyrir íslending að skilja hana. Þessi orð koma fram á stangli og verða án samhengis. Þeir skrifa til dæmis "fara heim" alveg eins og á íslensku og íslenskir bókstafir sem ekki finnast í sænsku eru notaðir í elvdælsku. Elvdælingar kunna auðvitað sænsku líka í dag en ég hef heyrt elvdælskuna talaða og séð elvdælskan texta og skil ekkert fyrir utan orð og orð á stangli sem virðast íslensk.
Hér með er Víðabliks umfjöllunni lokið fyrir utan það að við þurfum að koma okkur þaðan. Með það fyrir augum vil ég fara aftur efst upp í Víðabliksturninn og horfa til norðausturs til smábæjarins Boda sem þar er í 30 km fjarlægð. Mitt á milli í beinni stefnu á Boda er bærinn Rättvik sem liggur við norðaustanvert Siljan. Rétt hjá Boda er fossinn Styggfossinn. Fyrir nokkrum árum fór ég með Valdísi og fleira kórfólk upp til Boda. Þetta kórfólk tók þátt í hljómleikum í djúpri kalknámu sem heitir Dalhalla og liggur nokkra kílómetra norðan við vatnið Siljan, mitt á milli Boda og Siljan. Einn og hálfan dag í hvort skipti fyrir tónleikana æfði þetta kórfólk í Dalhalla og þar sem það er best að ég haldi mig í hæfilegri fjarlægð frá kóræfingum, rannsakaði ég mjög vel umhverfið á stóru svæði kringum Boda.
Af ákveðnu tilefni var ég ákveðinn í að athuga vel svæðið kringum Styggfossinn. Þar er nefnilega hægt að skoða með eigin augum og þreifa á með berum höndum afleiðingar ólýsanlegra náttúruhamfara þegar gríðarlegur loftsteinn slóst inn í jörðina fyrir um 360 miljónum ára. Við þennan atburð endurmótaðist stórt svæði þar sem Siljan liggur á suðurmörkunum. Myndin hér fyrir neðan er frá Styggfossinum og sýnir þverhnýptan klett til

vinstri, en til hægri eru mjög há grenitré sem hylja annan klettavegg sem þar er einnig að finna. Það er nokkuð undarleg tilfinning að vera þarna, halla sér upp að kletti sem þessar löngu liðnu hamfarir brutu lausan frá berggrunninum, þeyttu til og frá eins og spýtubút og sem á öllum þessum miljónum ára hefur fundið sér það bjargfasta jafnvægi sem hann hefur í dag.
Það væri gaman að vera í góðu skapi seinna í vikunni og fjalla aðeins meira um þetta og það sem Valdís aðhafðist í Dalhalla meðan ég ók í rólegheitum um sveitirnar sem brotnuðu í spón fyrir 360 miljónum ára en urðu síðar að einum fegurstu sveitum í Svíþóð. Á morgun og miðvikudag verð ég í vinnu.
GB
Útsýnisturninn Víðabliki
Næst fórum við þetta með Valgerði dóttur okkar, Jónatan tengdasyni og Kristni dóttursyni. Auðvitað höfðum við viðkomu á Hótel Gösta. Síðan brugðum við af leið sunnan vatnsins og fórum í skíðalyftu, um mitt sumarið, upp á hæð eina þar sem bæði var útsýni og veitingastaður. Minnir mig þó að útsýnið hafi verið best úr sjálfri lyftunni.
Þriðju ferðina kringum Siljan fórum við svo með Binnu systur Valdísar. Auðvitað var matur á Hótel Gösta en síðan ókum við sleitulaust leiðina frá Mora, suður fyrir Siljan og austur með að vanda. Þegar við komum að Siljan suðaustanverðu tókum við eftir skilti sem á stóð Vidablick sem við auðvitað köllum hér eftir Víðablik. Við ókum nú veginn móti Víðabliki og hann endaði við hús og turnbyggingu efst á skógi vöxnum kolli sem er 352 m yfir sjávarmáli. Ekki mundi íslenska hálendið fölna mikið yfir þessum fáu metrum, en þegar það er lang hæsti toppurinn á stóru svæði verður útsýnið þaðan víðáttumikið. Svo var það þetta með turninn sem þar stóð.

Ég brá mér inn í afgreiðslu í lítilli búð og veitingastofu sem þarna er og spurði hvort ég gæti fengið að fara upp í turninn og það var svo velkomið. Mér var sagt að turninn stæði þarna til þess að nota hann. 28 metra hár er hann og það er verulega á fótinn að skrúfa sig upp allar þær tröppur sem þar er að finna. Þær systur, Valdís og Binna, völdu að sitja í sólinni meðan ég fór upp. Móður og með hraðann púls kom ég upp að lokum. Þegar ég leit í kringum mig varð ég yfir mig undrandi. Ég var einn og hafði engan við að tala, enda get ég fullyrt að ég var algerlega orðlaus. Fyrst leit ég norður yfir Siljan sem blasti við í allri sinni víðáttu. Norðan vatnsins tók við víðattumikið hæðótt landslag, allt skógi vaxið og grænt. Til vesturs; sama, hæðótt landslag og skógur skreyttur með minni stöðuvötnum. Útsýnið til suðurs var heldur minna en ekki get ég komið fyrir mig hvort það var vegna skyggnis eða landslags, en þar var einnig sama að sjá, grænt, grænt, skógur, skógur. Ekki all langt til austurs tóku við skógi vaxin fjöll sem ég gat um áður og útsýnið þangað var ekki svo ýkja langt. En hvað um það. Þetta var þriðja sumarið okkar í Svíþjóð og aldrei áður hafði ég séð svo gríðarlega víðáttumikið gróðið svæði, svo ég ekki tali um skógi vaxið svæði. Teygingar af akurlöndum, vötn og kirkjuturnar sem stungu sér upp úr skógarbreiðunum lífguðu upp á hina fögru mynd. Ólýsanlega fögur á þeirri stundu þótti mér, og nú þegar ég skrifa þetta finn ég fyrir þörf fyrir að endurnýja myndina í hugskoti mínu með nýrri heimsókn á Víðablik.
Hér læt ég staðar numið á þessum sunnudegi, en ef vel liggur á mér ætla ég að halda áfram með Víðablik einhvern allra næstu daga.
GB
Austursund
En hvað um það. Næstum því í miðri Svíþjóð frá norðri til suðurs er staður sem heitir Austursund (Östersund). Þessi staður er um 500 km norðan við Örebro í beinni línu, 550 km ef ekin er styttsta leið. Ef við tölum um hversu langt áleiðis til Austursunds við Valdís höfum komið frá Örebro, þá höfum við bara komið hálfa leiðina. Svo eigum við þar að auki eftir þá 800 km landsins sem liggur norðan Austursunds. Það er mikið sem gera skal á ellilaunaaldrinum. Samkvæmt þeim sem þarna hafa verið er afburðafallegt þarna norðurfrá. Rósa og Pétur hafa verið áramót í Austursund og þau voru í gönguferð og sendu okkur sms. Gegnum smsið sáum við að það var forkunnarfagurt á þeirra leið. Rósa hefur einnig unnið þarna norðurfrá, meðal annars í Austursund. Myndin fyrir neðan er frá þessum stað. Ég er fíkinn í að skrifa meira um þetta og mun því gera það næstu daga. En hvað áhrærir þann hluta landsins sem liggur sunnan Örebro, þá erum við nú nokkuð vel kunnug þeim hluta.
G B

Svíar halda vel í sína gömlu báta. Að vera um borð í einum svona í logni, í 25 stiga hita, með rjómaís í skál og kaffibolla við hendina, ja, það er ekki sem verst.
GB
Eitt hænufet á dag
Ég hef fylgst náið með sólaruppkomu og sólsetri frá því á vetrarsólstöðudaginn þann 22. desember. Þann dag kom sól upp í Örebro kl. 8,58 og sól gekk til viðar kl. 15,00. Þá skyldi maður ætla að daginn eftir kæmi sól upp hálfu hænufeti fyrr og settist hálfu hænufeti síðar en á vetrarsólstöðudaginn. En viti menn; fjórum dögum eftir vetrarsólstöðudaginn kom sól upp tveimur mínútum síðar, eða kl. 9,00. Það var ekki fyrr en á áttunda degi eftir oftnefndan vetrarsólstöðudag sem sól fór svo að koma fyrr upp á morgnana. Sólin byrjaði hins vegar að ganga til viðar einni mínútu síðar þegar daginn eftir sólstöðudaginn og bættist við ein mínúta á dag í rúma viku, síðar ein til tvær mínútur á dag eftir það. Í dag, þann 9. janúar, kemur sól upp 5 mínútum fyrr en þann 22. desember og gengur til viðar 23 mínútum síðar en þann dag. Það er að segja, dagurinn er þegar orðinn 28 mínútum lengri.
Okkur hefur verið tíðrætt undanfarið um bjartari daga og vorkomu. Það minnti okkur hins vegar á góða daga á síðasta vori og þá ekki minnst skerjagarðsferðina sem við fórum um miðjan maí í fyrra í hópi fólks frá Örebro. Þessa ferð hef ég bloggað um áður og skrifað um í bréfi og það er kannski að fá upp í hálsinn að fjalla meira um það. En samt ætla ég að birta nokkrar myndir frá þessari ferð til að minna okkur Valdísi á, og kannski einhverja aðra sem skoða myndirnar, að vordagar eru framundan.

Siglingin var farin frá Stokkhólmi og þar gistum við líka á hóteli nóttina fyrir ferðina. Meðan við vorum að borða kvöldmatinn komu Rósa og Pétur til að heilsa upp á okkur. Það voru reyndar fleiri úr ferðafélagahópnum sem virtust vera ánægð með heimsókn þeirra á hótelið.
Sjómannsdóttirin frá Hrísey

Á leið út úr Stokkhólmi

Þar sem sund taka við af sundum

Á hverju lifir þetta?

Gömlu hjónin

Gott nýtt ár

Og það er eins og ævinlega, Sólvöllum er alltaf komið að á einn eða annan hátt. Ég fór þangað þokkalega tímanlega í morgun vegna þess að pípulagningamaður ætlaði að koma og hjálpa mér svolítið og leiðbeina mér. Á sléttum akurlöndum suðvestan við Örebro var all hvasst svo að ég fann vel fyrir því við að keyra bílinn. Þegar ég kom á Sólvelli var logn en veðurhljóð frá norðri til suðausturs. Hæstu trjátoppar bærðust lítillega. Þegar það var áliðið dags kom pípulagningamaðurinn og hafði orð á því að það væri gott veður á Sólvöllum. Hann hafði nefnilega verið í Örebro og kom þaðan sömu leið og ég. Hann sagði að það hefði blásið frísklega á sig af suðaustri á leiðinni yfir opnu akurlöndin en þarna hefði hann komið í hlé. Þá veitti ég því athygli að veðurhljóðið að baki skóginum hafði aukist að mun. Skógurinn veitir marga logndagana á Sólvöllum. Þó að ég sé að tala um vind, þá er það bara "vindur". Við höfum lesið mikið af fréttum um storma og fárviðri á Íslandi og miðað við það ætti ég ekki að vera að eyða orðum í vind. Við erum þakklát fyrir þessa veðursælu sem við höfum.
Nú er ég búinn að tæma orðgnóttina sem ég hélt að ég hefði búið yfir þegar ég settist við að skrifa þetta. Fyrst svo er er ekki annað að gera en hætta að þessu sinni. Kannski líka betra minna en jafnara.
Með bestu kveðju frá okkur. GB