Á annan í jólum
Já, svo fórum við á Sólvelli í dag. Nú hef ég ekki unnið þar í fimm daga og núna fórum við til að eiga þar góða stund og vinna ekkert. Við kveiktum upp í kasettunni eins og það er kallað hér og þið sjáið á myndinni.

Hægra megin við skorsteininn eru tvær mannhæðar háar stæður af birki sem er vel þurrt og tilbúið til að ylja upp á Sólvöllum. Á gólfinu vinstra meginn er líka smá stæða sem meira spari og til uppkveikju. Það logar fallega í kasettunni og það er voða gaman að sitja og horfa á .þennan loga, ekki síst fyrst eftir að kveikt er upp. Eiginlega er eins og það sé mikilvægt að horfa vel fyrst eftir að kveikt er upp, eins og það hjálpi til. En auðvitað er ástæðan bara að þetta er róandi og notalegt.

Valdís var búin að skreyta jólatré. Hún kveikti á því og tók mynd og gætti þess að Drottinn blessi heimilið væri með á myndinni. Ég fór yfir í svefnherbergið verðandi og spáði aðeins í komandi verkefni þar. Þegar ég kom til baka var kaffið tilbúið og rístertan sem Valdís tók með var komin á borðið. Við ætluðum bara að fá okkur smá bita en auðvitað urðu það tveir vænir bitar.
Ég fór eina hringferð í skóginum eftir veisluna og virti fyrir mér stærstu trén. Það er gott að stoppa aðeins hjá þeim á leiðinni framhjá, horfa upp eftir þeim og ekki er verra að styðja hönd á stofninn. Að vísu verða það bara fáein tré annars tæki svona ferð allan daginn. Svo má heldur ekki gleyma litlu trjánum og þeim sem við höfum gróðursett. Þegar ég hef ekki verið þarna á ferðinni í fleiri daga er eins og ég þurfi að heilsa vel og endurnýja kynnin. Og viti menn; það var eins og í Vornesi að dádýrasporin voru á grasflötinni hennar Valdísar í þunnri mjöllinni nærri húsinu. Svo var það líka út í skóginum, fullt af dádýrasporum.
Nú erum við heima og búin að borða afar gott hangikjöt með kartöflum, hvítri sósu og laufabrauði. Á meðan ég hef bloggað hefur Valdís horft á Ladda og ég hef heyrt hlátrasköll inn á milli. Utan við gluggann ríkir vetrarmyrkrið og jólaljós ásamt götulýsingu rýfur þetta myrkur á nokkrum stöðum. Myrkrið er ekki þrúgandi. Vetrarmyrkur hefur oft verið þrúgandi fyrir mig en það er það ekki núna. Ég finn fyrir svolítilli birtu innra með mér sem lýsir upp. Ég olli mínu innra vetrarmyrkri sjálfur áður fyrr en svo tók ég ákvörðun eins og fólkið sem ég var með í Vornesi á aðfangadag. Eftir það byrjaði að finnast ljós í myrkrinu.
Gangi ykkur allt í haginn.

Elskulegur, mikið er þetta fallegt blogg, kærleiksríkt til manna og náttúru. Loginn innra með ykkur hjónum er hlýr og umvefjandi, af ykkur er margt hægt að læra. Ég og mínir ásamt ykkur sitja í huganum við logann í kassettunni ykkar, smjattandi af vellíðan eftir væna sneið af rístertu, ég er viss um að þessi sýn verði sönn einn daginn, allavega þetta með rístertuna.
Takk fyrir fallegu kveðjuna, jú þetta er það sem ég er að læra....væri til í að koma í tertu á morgun en sendi í staðinn umvefjandi kveðju frá okkur öllum í Signalvägen 20
Komdu í tertu hvenær sem er með fólkið þitt Brynja. Valdís sagði áðan að hún mundi baka nýja rístertu ef þið kæmuð. Sólin skín á Suðurbæjarskóginn og hann er þar að auki hrímhvítur. Ekki slæmt það en sólin mun verða fljót að afþíða. Klukkan er ellefu og við erum búin að vera vel á annan tíma yfir morgunverði en nú er ég að leggja af stað á Sólvelli og þarf að mála svolítið í dag. Með bestu kveðju til ykkar allra.