Að vera afi og amma

Ömmunni leiddist ekki sérstaklega mikið þegar Hannes Guðjón vildi sitja á hné hennar og bæði hló og hjalaði. Og við sem erum orðin 67 ára förum alveg óvart að tala barnalega.

Svo leit hann á afa sinn sem mundaði myndavélina á alla vegu og talaði eins og smákrakki. Ætli honum hafi ekki þótt afi svolítið skrýtinn. Ekki væri ég hissa.

Svo var allt í einu komin upp róla og þá var minn maður bara uppréttur og tyllti niður tánum. Eitthvað nýtt, gaman gaman. Og pabbi fylgist með viðbrögðunum og sér til að ekkert fari úrskeiðis.

Mikið er hann fínn hann nafni þinn. Nú fáið þið að vera hjá honum í marga daga og svo fer hann líka örugglega bráðum að koma í heimsókn á Sólvelli.
Innilegar jólakveðjur til ykkar allra.
Kveðja,
Þórlaug
Þakka þér fyrir Þórlaug og kveðjur til ykkar líka. Jú,ungi maðurinn kemur með vordögum að Sólvöllum vænti ég. Það verður þó of snemmt að taka hann sér við hönd þá og ganga út í skóg til að skoða mauraþúfur, fiðrildi, fugla og fleira skemmtilegt.
Kveðja,
Guðjón
Svakalega er systursonur minn orðinn flottur og mannalegur. Ég hef ekki séð myndir af honum frá því við vorum úti og það er mikill munur á.
Kv
Valgerður
Já, Valgerður, það er heil mikill munur. Það er gaman að fylgjast með og ég mun nú laumast til að birta fleiri myndir af honum við ólíkar aðstæður. Hann er farinn að horfa á fólk úr mikið meiri fjarlægð og brosa og hlæja þó að við séum ekki sérstaklega nærri. Amma hans sýndi honum út um glugga í dag og hann undi sér lengi og bara horfði út.
Kveðja,
pabbi