Kominn heim
Ég kvaddi Uppsalafjölskylduna á stéttinni fyrir utan innganginn þeirra. Hannes Guðjón var þar dúðaður í vagni og foreldrarnir voru á leið með hann í gönguferð. Hann var sofnaður og ég hef frétt að hann hafi sofið lengi og vaknað sæll og ánægður. Hæpið er að hann skynji að afi sé farinn en það verður gaman að sjá á nýársdag hvort hann þekkir mig. Ég er vongóður því að ég fékk skilaboð frá Íslandi í morgun um að barnabörnin þekktu afa og ömmu alltaf aftur.
Ég fór beina leið á Sólvelli til að ganga úr skugga um að þar væri allt í lagi eins og það raunar var. Þegar ég var á milli Örebro og Sólvalla var frostið mest, 20 stig. Á Sólvöllum var einhver mesti snjór sem ég hef séð þar, næstum upp í hné, og ég var hreinlega ekki skóaður til að ganga frá innkeyrslunni og heim að húsinu enda fékk ég ríkulega snjó í skóna. Þegar ég kom svo heim í Örebro var í póstkassanum mikill haugur af pósti. Þar var bréf frá tryggingastofnun og ég opnaði það hinn glaðasti og forvitinn um verðandi ellilífeyri. Nei. Það var ekkert svoleiðis. Hins vegar var gefið í skin að ég hefði gefið rangar upplýsingar í tekjuáætlun næsta árs sem ég þyrfti að sanna með miklum pappír ef það ætti að verða tekið trúanlegt. Ég vissi vel að upplýsingarnar voru réttar og nú er ég búinn að senda tvöfaldan tölvupóst til að útskýra málið. Ég vona að það verði tekið trúanlegt.
Á leiðinni frá Uppsala var ég með efni frá jólum 1993 í kollinum sem ég ætlaði að blogga um í kvöld. Svo verður þó ekki því að tryggingastofnun tókst að drepa niður andagift mína og nú er ég mun jarðbundnari fyrir vikið. Jólin 1993 verða því að bíða. Rósa bað mig að senda vetrarmyndir frá Sólvöllum og hér koma þær. Þær eru teknar rétt um það leyti sem birtu tók að bregða og eru hver annarri líkar.



Hér með er bloggi dagsins lokið og ég mun leggja mig mjög snemma í kvöld. Á morgun er það vinna og blákaldur veruleiki. Ég hef ekki verið á vinnustaðnum í næstum þrjá og hálfan mánuð en ég á samt ekki von á að alkohólistarnir hafi breytst. Þeir eru hræddir, fátækir af von, sorgmæddir og með litla trú á sjálfum sér þó að stundum megi halda að þeir séu frakkir og góðir með sig.

Vá, það er fínt á Sólvöllum núna. Það væri bara fínt að fara inn og kveikja í kakkalónanum og slappa af!
Kveðja,
R
Ég hefði ekki haft neitt á móti því. Það þarf að moka miklum snjó til að geta gengið um þarna ef ekki hlánar. þá þarf að vera hýtt inni og helst kakó þegar búið er að moka.
Kveðja,
pabbi
Flottar myndir af Sólvöllum
Þetta eru aldeilis fallegar myndir og myndu sæma sér vel á hvaða jólakorti sem er.
Flottar myndir ,vonandi áttu góðan dag eftir svona langt hlé frá vinnu ,farðu bara vel með þig fyrstu dagana í vinnunni. Ég óska ykkur Valdísi gleðilegs árs kveðja Þóra
Vá hvað þetta eru flottar myndir frá Sólvöllum. REyndar er voða flott hér líka núna því það snjóaði í fyrradag og nú liggur hvít snjóbreiða yfir öllu. Mér finnst það alltaf svo notalegt.
kv
Valgerður
Så vackert! Jag får hemlängtan.
Önskar Valdis o Gudjon ett bra 2010, Hannes Gudjon är så söt.
Eva