Hvar er kreppan?
Í morgun var 11,5 stiga frost. og svo hefur verið 8 stiga frost í dag. Mé sýndist óráðlegt að eyða eldsneyti í að fara á Sólvelli til að kljúfa við. Ég er ekki viss um að það sé svo gott að kljúfa við í frosti. Það á líka að vera hlýrra næstu daga og það verður nú búið að ganga frá öllum við áður en rafvirkjinn kemur sem er jú mikilvægt. Þegar hann verður búinn að ganga frá slöngunum og veggjadósunum sínum hefst lokaáfanginn við svefnherbergissmíðina. Rosalega verður það gaman. Engin kreppa þar heldur.
Það er næstum að ég hafi ekki kunnað við mig í dag þar sem það var skipulagt að vinna við viðinn. Valdís stakk upp á því að ég læsi og víst eru það farnar að safnast upp bækur sem bíða þess að ég lesi þær. En ég þori ekki að leggjast í lestur ennþá. Ég er hræddur um að þá verði það bara vinna í Vornesi og svo bókalestur á milli. Ég þekki svoleiðis atburðarás frá Hrísey og svo er ég fljótur að aðlagast því að það sé í lagi að hlutirnir séu ekki tilbúnir. Svo verður bara erfitt að komast í gang aftur. Bækurnar bíða mín þolinmóðar. Við fórum svolítið á stúfana um hádegisbilið til að líta inn í byggingarvöruverslanir.
Vegna kuldans í morgun var ekki um annað að ræða en fara í þokkalega peysu. Peysan á myndinni fyrir neðan ver fyrir miklum kulda, mikið meiri kulda en hér var í morgun.

Þessa peysu fékk ég í jólagjöf frá Valgerði fyrir all nokkrum árum. Við erum ekki viss um hvenær en kannski Valgerður geti upplýst það í athugasemdum hér fyrir neðan. En hvað aldrinum viðvíkur þá er peysan falleg og skýlir vel.
Svo barst peysan hér fyrir neðan í tal í dag (peysudagur).

Þessa peysu prjónaði Valdís þegar við bjuggum á Bjargi í Hrísey. Hún prjónaði svona peysur handa allri fjölskyldunni nema sjálfri sér. Rósa var heldur ekki fædd og hún eignaðist aldrei svona peysu. Eitt get ég fullyrt; þessi peysa er búin að halda á mér afskaplega mörgum hitaeiningum. Ekki vissi ég þegar Valdís tók myndirnar að ég hefði reynt að spenna fram bringuna (mont). Látið ykkur ekki detta í hug að ég sé kominn með ellilífeyrisþegamaga eins og einn vinnufélaga minna í Vornesi sagði í haust, sá vinnufélaginn sem á í mestum erfiðleikum með magann sinn.
Lýkur hér spjalli um kreppu, peysur og ellilífeyrisþegamaga.

þú ert ljómandi fallegur í báðum peysunum, sú seinni finnst mér gerðalegri og efnilegri til að halda að þér hita enda handökin hennar Valdísar falin í henni, ekki slæmt að fá þau sem bónus. Hafið það gott í kuldanum og hlýið hvort öðru sem endranær.
þú ert ljómandi fallegur í báðum peysunum, sú seinni finnst mér gerðalegri og efnilegri til að halda að þér hita enda handökin hennar Valdísar falin í henni, ekki slæmt að fá þau sem bónus. Hafið það gott í kuldanum og hlýið hvort öðru sem endranær.
Takk Brynja. Ég las bloggið þitt í dag sem oftar og sýnist að það séu meiri háttar hlutir að ske.
hvaða vesen er þetta á rafvirkjnum. getur þú ekki hringt í hjört?
kveðja,
r
Það mundi nú gleðja Hjört ef ég gerði það jafnvel þó að hann megi ekki framkvæma verkið.