Æ, þetta pappírsdrasl

Þegar ég borgaði reikningana í febrúar gekk ég ekki frá þeim í möppu með það sama. Daginn eftir treysti ég því ekki lengur að allt væri í röð og reglu þar sem allt var á tjá og tundri heima í Örebro á þeim tíma vegna búferlaflutninganna. Þar með settum við reikningana með öðru skyldu og hálfskyldu bréfadóti niður í lítinn pappakassa sem við settum svo við hliðina á tölvunni hér á Sólvöllum. Þetta var í rauninni hreina óreiðan og mér líkaði ekki við þennan pappakassa. Svo þegar ég kom heim úr vinnunni um þrjú leytið í dag renndi ég í árans hauginn og raðaði inn í möppu eftir bankayfirlitinu sem ég hafði á skjánum meðan á þessari hreinsun stóð.

Ég held að það sé orðið allt of mikið af pappír sem gerir lífið of flókið. Ég gekk í framhaldi af reikningunum í gegnum þvílíkt magn af umslögum með yfirlitum, tilkynningum, staðfestingum, tilboðum og fleiru og fleiru sem við höfum hikað við að henda. Það er þetta sem ég kallaði skylt og hálfskylt bréfadót. Lífið er gert of flókið því að það er vinna að fara í gegnum þetta, velja og hafna og halda utan um.

Hins vegar var skemmtilegt að koma út í Vornesi í morgun um sjö leytið. Það var hláka og ég sá fram á að í byrjun apríl, eins og ég hef oft sagt, fer ég að ganga út í skóg til að spjalla við kunningja mína þar og þreifa á greinaendum og brumum og sjá hvernig lífið þrífst meðal þeirra. Þetta líf er jú komið af stað þar sem jörð er þýð og sólin farin að vera drjúg við gjafmildi sína.

Ég lagði af stað heim á leið frá Vornesi upp úr klukkan eitt í dag. Þá var gola, átta stiga hiti og sól. Það var ekki lélegt það. Eftir að taka etanol í Vingåker og kaupa svolítið matarkynns var heimferðin hafin fyrir alvöru. Ruðningarnir meðfram vegunum voru orðnir að skítugum þústum sem ekki er hægt að hafa orð á lengur. Farið var að sjást í akra sem komu sterk grænir undan snjónum. Þetta var glæsilegt og mikið að fylgjast með.

En hvað var nú þetta? Þegar ég nálgaðist Óðinsbakka var sem vinur minn Óli Lokbrá væri mættur. Hvað var hann eiginlega að gera svona snemma dags. Var hann bara á útstáelse þennan laugardag og að skemmta sér eða hvað? En það var ekkert að grínast með, ég varð bara grútsyfjaður. Ég lagði á bílastæði við vegkantinn skammt frá Óðinsbakka, drap á bílnum og tók lyklana í hægri hendi sem ég lagði á hné mér og lét lyklana hanga. Þetta kenndi þorsteinn dýralæknir mér eitt sinn þegar hann heimsótti okkur í Örebro. Vinstri olnboga setti ég í gluggasylluna við hliðarrúðuna, þumalfingur undir kjálkann og hendina lagði ég svo við vanga minn. Stellingin var góð og nú ætlaði ég að leyfa mér að sofna og vakna svo við það að lyklarnir dyttu úr hendi mér. Þá á maður að vera orðinn afþreyttur lofaði Þorsteinn og ég er búinn að gera þetta nokkrum sinnum og loforð hans stenst.

Bílar þutu hjá en fljótlega fann ég að ég slappaði notalega af. Svo var ekkert meira með það fyrr en allt í einu þegar olnboginn slapp af gluggasyllunni og rann snöggt niður með hurðinni og ég sló enninu í rúðuna að mér varð illilega hverft við og hélt að ég hefði sofnað á ferð og væri að keyra útaf. Lyklarnir voru enn kyrrir í hendi mér. En
ég áttaði mig leiftursnöggt á því að allt væri með felldu en ég varð ekki meira syfjaður í þessari ferð, ég lofa.

Þegar ég kom að Sólvöllum var slóðin orðin mikið breiðari en í gærmorgun og snjórinn hafði lækkað gríðar mikið. Það er ekkert til að vera stoltur af lengur. Grænt grasið í slóðinni heilsaði mér notalega og nú er sá tími í Svíþjóð sem kallaður er "senvinter" eða síðla vetrar. Svo gengur vorið í garð.

Á mánudag eftir vinnu fer ég til Uppsala til að heilsa upp á fólkið þar og sækja Valdísi.


Kommentarer
Valgerður

Mér þykir þú orðinn slappur hér á íslensku bloggsíðunni

2010-03-26 @ 14:48:24


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0