Örlög

Stundum erum við minnt svo harkalega á að lífið er hverfult. Það er ekki bara eitt, heldur fleiri atburðir í einu sem allt í einu eru orðnir veruleiki. Dagurinn í dag er einn slíkur. Gamall nágranni dó í dag og íslenskur vinur okkar í Örebro er veikur. Ég var í vinnunni til klukkan fimm í dag, alveg frá hádegi í gær. Þetta var óvenju langur vinnutími með nokkurra klukkustunda svefni í nótt. Ég fann þó ótrúlega lítið fyrir þreytu en varð að sjálfsögðu hugsi eftir að ég frétti af þessu og ýmsar hugsanir um staðreyndir lífsins voru á flögri í huga mér. Svo kom í ljós að ýmislegt knúði líka dyra hjá vinnufélögum mínum og þá var farið að ræða staðreyndir lífsins í stað þess að hugleiða þær. Það dróst á langinn að ég færi heim.

Um fimmleytið renndi ég úr hlaði í Vornesi og fór beint í matvöruverslun í Vingåker. Ég hafði innkaupalista í brjóstvasanum með smáræði sem ég þurfti að kaupa. Nú er ég einbúi og annast því fleira á eigin spýtur. Á miðanum var meðal annars "ósætt kex" sem ég síðan ætlaði að borða sem millimálarétt með pínulitlu smjöri og osti. Ef til vill var ég í meiri hollustuhugleiðingum en ella eftir fréttir dagsins og ég gerði óbifanlega kröfu í ósæta kexið en fann það bara alls ekki. Að lokum gekk ég til traustvekjandi verslunarkonu og bað hana að hjálpa mér að finna þetta. Hún var ekki viss en að lokum benti hún mér á tvær hillur með einhverju sem leit út fyrir að vera ósætt kex. Ég tók tvo pakka og setti í körfuna en datt svo í hug að lesa utan á þá. Það var þá sykur í þessu kexi líka. Ég sem sagt fann ekki ósætt kex. Svo borgaði ég fyrir vörurnar og fór.

Ég kom til Läppe og horfði hugsi út yfir ísi lagðan Hjälmaren. Snævi þakinn ísinn var annars vegar hvítur þar sem lág síðdegissólin náði ekki að skína á hann, en þar sem sólin náði ísnum var hann ögn gylltur. Skógi vaxnar eyjarnar langt út í ísbreiðunni virtust svo þögular. Allt að átján kílómetrum norðar sá svo dauflega í landið hinu megin vatnins. Ég stanæmdist og hugleiddi eitt augnablik að fara niður að lítilli bryggju, opna þar bílrúðuna sem sneri út að vatninu og bara hvílast í kyrrðinni sem þessar eyjar virtust breiða út yfir umhverfi sitt. En það varð ekki af og svo hélt ég áfram.

Eins og einum kílómeter vestar kom ég upp á litla hæð og vestan megin hennar var langur þráðbeinn vegur þar sem sólin skein nákvæmlega beint á móti. Ég sprautaði vatni á framrúðuna og þar með sá ég ekki nokkurn skapaðan hlut í örfáar sekúndur. Eftir það var ég kominn á staðinn þar sem ég horfði fyrir nokkrum árum á stóran vörubíl keyra á hjört og kasta honum beint framan á bílinn hans Inegmars vinnufélaga míns. Við vorum þá að koma af jólaborði í Vingåker. Vörubílstjórinn og Ingemar sáu hvorugur hjörtinn en þar sem ég var í mátulegri fjarlægð sá ég í ljósunum hvernig hann slóst á milli bílanna. Bílinn hjá Ingemar skemmdist mikið og sjálfum var honum illa brugðið. Hann átti að fara í stóra hjartaaðgerð stuttu seinna og þarna sat hann nú á framsætinu í sínum bíl með fæturna út á veginum, hélt um brjóstið og sagði hvað eftir annað: Mér er svo illt í hjartanu, mér er svo illt í hjartanu. Þá langaði mig mikið til að setjast með hann á hné mér, taka utan um hann og reyna að fá hann til að taka því rólega. Lífið er hættulegt og hefur alltaf verið það.

Í þessum hugsunum mínum var ég einmitt kominn að húsinu þar sem Ingemar býr og stuttu síðar var ég kominn að hringtorgi sem er eina fimmtán kólómetra sunnan við Örebro. Í öll ár hef ég beygt til hægri á þessum stað á leið heim úr vinnu og það gerði ég líka núna. Um einum kólómeter síðar áttaði ég mig á því að ég bjó ekki lengur í Örebro og ég átti því að fara beint áfram í hringtorginu. Ég sneri við á afleggjara og fór inn á réttan veg.

Þegar ég kom heim var eitt mitt fyrsta verk að kveikja upp í kamínunni. Við einhver sérstök veðurskilyrði getur myndast lofttappi í skorsteinum og svo var það hér heima í þetta skipti. Því vall reykurinn inn í húsið en ég brá við skjótt og gerði það eina sem gildir við þessar aðstæður, en það er að setja samanbögluð dagblöð á eldinn. Síðan fór reykurinn rétta leið en næsta hálftímann hafði ég útihurðina opna og bæði eldhús- og baðviftuna á fullu. Svo varð gott loft í húsinu en kalt um stund.

Þetta eru smá ágrip af deginum í dag og sólin skín ekki alls staðar. Það gerði hún heldur ekki á Hjälmaren þegar ég fór þar um. En góð var síldin sem ég borðaði með heitum kartöflum í kvöld og núna ætla ég að fá mér te og prufa ósæta sæta kexið sem ég keypti í Vingåker í dag og hafa smá ostflís ofan á. Ég ætlaði að enda á fallegri frásögn en bloggið er orðið svo langt að það verður að bíða.


Hvort er svo fallegra, vetur eða sumar? Jú, auðvitað er vorið og sumarið fallegra en þetta er bara svo fallegt líka.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0