Nýr áfangi

Á þessari mynd er áfanga náð. Allir gólfbitarnir eru komnir á sinn stað og við Anders litum yfir og huguðum að því hvort nokkru var ábóta vant. Þessi áfangi var skemmtilegur og það var gaman að standa við annan hvorn endann og líta eftir bitaröðinni. Reglulega vandað og sterkt gólf og hvílíkur munur miðað við það gamla. Það var kannski ekki svo erfitt að vinna við þessa bitauppsetningu þó að Anders ynni hratt sem knúði mig líka til að vinna hraðar en ég geri þegar ég er einn. En áfanginn þarna á undan var öllu erfiðari. Það var að jafna botninn og fá á hann réttan halla. Vopnin við þá vinnu voru garðhrífa, reka og fata. En nú komum við að áfanganum sem kom á eftir þessum sem myndin er af. Þar með er komið að næstu mynd.

Gólfið er allt komið á sinn stað og mörgum handtökum er lokið. Mikið rosalega var gaman að ganga langsum og þversum yfir þetta nýja gólf. Hér sjáum við í áttina að nýju herbergi og nýrri forstofu.

Hér sjáum við aftur í aðra átt, að eldhúsi, og nú er hægt að ganga einu sinni enn eftir endilöngu gólfinu og sannreyna að það er stabílt og hljóðlátt. Hvílíkt gólf og undir þessum gólfplötum er næstum 20 sm einangrun. Ja hérna, hvílíkt og annað eins. Ekki var þetta með í myndinni þegar við yfirgáfum Hrísey. Ótrúlegt! Nú er bara að kasta upp eldhusinnréttingu og fá rafvirkjan til að koma og ganga frá öllum rörum sem sér í hingað og þangað, leggja svo parkettið og bara njóta alls þessa.
Eða hvað? Kannski er rétt að taka eina mynd upp á við.

Nei! Nei! Gólfið er þá ekki síðasti áfanginn. Hér er loft sem er búið að tæta niður. Úff! Endalaust puð!

Það var nefnilega þannig í dag að þegar áfanganum "nýtt gólf" var náð var hádegismatur. Valdís hafði eldað grjónagraut handa okkur öllum. Eftir það dubbuðum við Anders okkur upp með hamra og kúbein og þegar Anders var búinn að fara eina ferð þvert yfir loftið með stingsögina sína var bara að rífa það niður. Panelfjölin sem ég held þarna á er búin að þjóna íbúum þessa húss í 43 ár. Nú er hún á leiðinni í miðstöðina hjá Anders.
En nú er hægt með sanni að segja að síðasti stóráfanginn er hafinn. Á mánudag kemur bíll með byggingarefni frá BFs byggingarvöruverslun og þeir Anders og Jóhann ráðast í að innrétta loftið að nýju. Þá verður mitt hlutverk líklega að mestu handlangarans og "reddarans" því að tveir hraðvirkir menn þurfa að hafa allt til taks til að ná árangri. Nýja loftið verður allt öðru vísi loft. Það sjáum við síðar.
Nú er Anders farinn með loftpanelinn heim til sín, við erum búin að sópa gólfið að nýju, troða einangruninni sem kom af loftinu í poka og koma öllu fyrir eins og það getur best verið þar til á mánudag. Nú er svo gaman að ganga á nýja gólfinu að við eigum endalaus erindi eftir endilöngu húsinu og án þess að telja eftir okkur. Eins og oft áður; það er gaman að þessu. Um helgina ætla ég að mestu að hafa sumarfrí og aðeins að framkvæma smá verk sem ættu ekki að taka meira en svo sem fimm klukkutíma. Á morgun ætla ég að bjóða Valdísi í mat inn í Marieberg. Það verður hluti af fríhelginni og Valdís á það skilið fyrir þolinmæðina og alla matarbitana sem hún hefur vikið að okkur köllunum sem höfum atað allt út og verið með hávaða og læti í kringum hana.

Sælt veri fólkið mikið eruð þið nú bunir að vera duglegir og gaman að sjá hvað þetta er orðið fínnt hjá ykkur , ertu alveg viss um að það sé síðasti áfanginn að setja upp í loftið mér sýnist þú alltaf bæta við verkefnum , ertu ekki að verða búin að endurbyggja húsið allt að innan ? þið Valdís getið alveg tekið smá snúning við góða tónlist á gólfinu það er orðið svo fínnt ,njótið þess vel að far út að borða og láta stjana við ykkur á matsölustaðnum kveðja Þóra
Húsið verður þar með allt nýtt eða ný endurbyggt.
Kveðja, Guðjón
Þetta hús (það er ekki hægt að kalla þetta bústað lengur) verður algerlega frábærlega flott!
Kveðja,
R
Já Rósa, í auglýsingunni árið 2003 stóð einfaldur lítill sumarbústaður. Hann er nú orðinn að frekar minna einbýlishúsi og allt nýtt eða nýendurgert úti og inni. Það er spáð yfir 20 stiga frosti um helgina og þá ætlum við að hafa hitamæli undir húsinu til að sjá hitastigið þar í svona kulda. Við kíkjum á hann gegnum "lúguna" í gólfinu. Það var að vísu ekki besti tíminn til að fá svona mikinn kulda þegar miðjan af húsinu er opin upp í þak en við látum loga vel í kamínunni
og svo höfum við aðrar hlýjar vistarverur til að vera í.
Kveðja,
GB
Mér finnst rétt að mamma setji Paul Anka á fóninn eða Presley og þið takið ykkur einn léttan snúning yfr nýja gólfið. Rosa flott, bara ein spurning, hvað kemur ofan á gólfplöturnar?
VG
Við höfum rætt þetta með dansinn Valgerður, jafnvel að bjóða nágrannabyggðarlaginu að koma og dansa. Ofan á gólfplöturnar kemur annars vegar eikarparket sem er búið að bíða ásetningar i tvo mánuði, er geymt í nýjasta herberginu, og í eldhúshlutann koma gólfflísar.
Kveðja,
pabbi
Fann þetta blogg af tilviljun, gaman að lesa það sem þú skrifar Guðjón og gaman að sjá myndirnar. Látið heyra frá ykkur þegar þið hafið tíma.
Já Svanhvít, við látum heyra í okkur, við tölum oft um ykkur en það hefur ekki verið neinn tími afgangs lengi. Þegar ég er að skrifa þetta virðist það eigingjarnt af okkur. Í þessum mánuði ættu að verða nokkur þáttaskil. Óskum ykkur alls hins besta.
Með bestu kveðju til ykkar frá Valdísi og Guðjóni
Og til viðbótar Svanhvít, myndirnar eru ykkur trúlega kunnuglegar þó að húsið sé búið að taka miklum breytingum. Þið eruð velkomin en það er þó erfitt um vik sem stendur.
Kveðja, Guðjón