Loksins
Það var svo einfalt þetta sem ég burðaðist við í morgun, að byrja að skrifa nýtt blogg. Það var svo einfalt að það nær engu tali. Að setja inn myndir hefur mikið breytst en verður líklega mikið einfaldara þegar ég verð kominn í gang með það. Já, þetta var svo einfalt og ég hef engan áhuga á að afsaka eða kenna blogg.se um neitt. Vandinn var bara stífla í kollinum á mér, álíka stífla og þegar ég sveiflaði gleraugunum milli þumalfingurs og vísifingurs hægri handar meðan ég leitaði að þeim. Stundum finnst mér sem ég þyrfti að geta hringt í bíllyklana, myndavélina, veskið og myndavélina. Kannski ég ætti að sækja um einkaleyfi á þeirri hugmynd. Alsheimer! Nei! Ég get lært tíu nöfn á einni og hálfri mínútu og þulið þau upp utan að hika. Ég veit að þeir sem eru viðstaddir svoleiðis atvik telja mig ekki með alsheimer og jafnvel klappa fyrir mér í hreinni undrun. Það verður ekki blogg í kvöld utan þessi fátæklegu orð. Við erum fjögur hér á bæ sem stendur og erum öll búin að bursta og pissa. Öll hin eru þegar lögst á koddann og ég ætla að fylgja í fótspor þeirra. Góða nótt.

Kommentarer
Guðmundur Ragnarsson
Sæl og blessuð bæði.
Ósköp notalegt að sjá að þú ert að komast í gang aftur. Mikið vildi ég hafa þennan hæfileika þinn að geta munað og þulið upp mörg nöfn á skömmum tíma. Ég er margar vikur að læra almennilega nöfnin á öllum nýjum nemendum mínum.
Bestu kveðjur til ykkar,
Mummi
Svar:
Gudjon
Trackback