Álfar í skóginum
Nei, það kom mér að vísu ekki á óvænt að sjá þessa álfa þarna, en það heyrir ekki hversdagsleikanum til að sjá þau Dísu og Ottó á rölti hér út í skógi. Líklega gat ekki verið meiri þörf fyrir komu þeirra í nokkurn annan tíma en núna, en þegar Ottó hringdi fyrst og talaði um að þau kæmu í heimsókna á sumrinu voru engar sérstakar blikur á lofti. Síðar breyttist atburðarásin hér á Sólvöllum en það breytti ekki þeirri ákvörðun þeirra að koma í heimsókn. Nú eru þau hér eins og sólargeislar þó að það rigni. Kannski halda þau að við sofum ennþá í morgunkyrrðinni, kyrrðinni sem ríkir í faðmi regnsins sem fellur á þakið, en ég er búinn að ganga um hægum skrefum og kanna útsýnið út um nokkra glugga á Sólvöllum og draga frá þeim til að hleypa deginum inn.
Svo var bara að byrja á því sem ég ætlaði að byrja á þegar Óli kom í gærkvöldi og tók mig föstum tökum framan við tölvuna. Nú er ég búinn að skrifa litla stund og það er best að ég fari á stjá og láti heyra að Óli sé búinn að sleppa tökunum á mér. Ég get sett grautarpottinn á eldavélina, diska á matarborðið og látið skáphurðina lokast með dálitlum skelli þegar ég verð búinn að setja haframjölið í pottinn. Þá mun fljótt færast líf í Sólvallahúsið og svo held ég áfram með bloggskrif mín einhvern tíma seinna í dag, eða kvöld eftir því sem færi gefst.
Það er aftur komið kvöld og þar að auki orðið áliðið. Þrumur hafa mullrað um stund í nokkrum fjarska og það er farið að rigna aftur eftir þurran seinni hluta dags. Við erum búin að fara um nágrannabyggðir í dag og sjá eitt og annað huggulegt. Myndin hér fyrir ofan er frá því í gær þegar við Ottó vorum að laga til á óreiðusvæði bakvið aðal viðargeymsluna okkar. Þar var ég búinn að útbúa hluta af verðandi hlaði þannig að við Ottó skipulögðum og staðsettum viðarskýli og svo tókum við að flytja eldivið frá einum stað á annan. Ég hélt að ég væri manna frískastur hvað áhrærir kalla á mínum aldri, en svo kemur þessi maður frá Hrísey og er nokkuð eldri en ég, og ég sé ekki annað en hann hafi slegið mér við. Hann er ekki af baki dottinn þessi fyrrverandi íshafssjómaður.
Ég var í nokkrum vanda staddur þegar ég var setstur við tölvuna fyrir einum hálftíma síðan. Ég ætlaði að segja frá ferðalagi okkar í dag en klukkan rúllaði yfir miðnætti fyrr en varði. Ég enda því bloggið með því að birta mynd af því sem við Ottó höfum verið að gera í gær og í dag umfram ferðalag okkar sem ég nefndi áðan. Þessi mynd sýnir allt aðra hluti en myndin þar fyrir ofan þó að hún sé tekin á sama svæði. Við stútungskallarnir erum búnir að færa margar hjólbörur af eldiviði næsta vetrar frá einum stað til annars og það finnst ákveðið markmið með þessari aðgerð, meðal annars að laga til. Fleira leynist í farangrinum sem sagt verður frá síðar. Stútungskallar sagði ég, en samt kallar sem finna sig yngri en árin segja til um. Það fer vel á því.
Óli er farinn að nálgast fólkið hér í húsinu en ég slepp ennþá. Uppþvottavélin er að frammi í eldhúsi en að öðru leyti er allt kyrrt. Eldingarnar hurfu smám saman í austurátt og þrumurnar með. Konan sem er lögst útaf fyrir aftan mig andar hljóðlátlega og hvíldin fyrir annir morgundagsins virðist vera á næsta leyti. Það er mál að ég leggi mig líka til að ég verði einnig tilbúinn að takast á við þær annir sem morgundagurinn býður mér upp á.
