Afmælisdagurinn hennar Valdísar

En hún fékk fleiri afmælisgjafir og kort fékk hún og þarna situr hún við handavinnuborðið sitt og skoðar þessa hluti. Þegar ég horfi á þessa mynd er ég minntur á það að ég er ekki fullkominn. Í fyrradag sagði hún við mig að henni þætti vænt um að ég kæmi inn með tágakörfuna sem hún ætti út í geymslu. Þá gæti hún minnkað það sem hún geymdi í borðinu og sett í körfuna sem gæti þá staðið á gólfinu undir glugganum. Karfan er ennþá út í geymslu. Aldrei verð ég fullkominn en ég þarf samt að bæta mig. Hún á það inni hjá mér.

Afmælisveislan hennar var haldin á einum af betri stöðunum í Örebro, Karlslunds herragarði. Þar var í dag ársins fyrsta jólaborð og svo var líka fyrir fimm árum síðan þegar hún varð 65 ára. Þann dag var líka þess árs fyrsta jólaborð. Hannes situr þarna næst innst hjá mömmu sinni. Hann var nú ekki búinn að finna sig heima þegar myndin var tekin en nokkru seinna gekk hann afar frjálslega en prúðmannlega um sali. Ég er eitthvað sperrtur og reigður á myndinni en Valdís notalega afslöppuð þrátt fyrir allt sem á undan er gengið.

Hún íslenska Eva sem er ósköp góð við Valdísi situr þarna innst, næst er hún Elín dóttir hennar og svo maðurinn hennar hann Sven. Eva heimsótti Valdísi um daginn og þegar hún vissi að við ætluðum að vera þarna í mat fannst henni sem þau ættu að slást í hópinn. Þau sitja því þarna við sama borð og við og voru notalegir félagar við þetta jólaborð. Takk fyrrir samveruna Eva og fjölskylda.

Myndavélin okkar réði ekki við krásirnar í Karlslund þar sem hlaðborðið var svo stórt, en huggulegir fiskréttir voru þarna í miklum mæli meðal margs annars.

Það var líka gott framboð á eftirréttarborðinu og það var sama þarna, borðið var of stórt fyrir myndavélina. Í tvo tíma dunduðum við við að borða og ég vona og held að Valdís sé ánægð með afmælisveisluna sína. Hún á það skilið. Þakka þér fyrir daginn Valdís.
Þessi mynd tókst engan veginn en ég læt hana þó fylgja.


Kommentarer
Auja
Innilegar hamingjuóskir enn og aftur, sé að þetta hefur verið góður dagur með góðri fjölskyldu og vinum, knús frá Florida
Eva
Vid thökkum kaerlega fyrir ad vid fengum ad vera tharna med ykkur, thetta var virkilega skemmtilegt.
Björkin.
Mikið er þetta huggulegt,og þið falleg fjölskylda.
Trackback