Páskar hjá Valdísi
Það var pínulítil páskahátíð á sjúkrahúsinu í Örebro í dag. Valdís var nefnilega búin að koma því þannig fyrir að það voru til páskaegg fyrir hvern og einn af heimilifólki og gestum á Sólvöllum sem vitað var að yrðu hér um páska. Áætlun hennar stóðst. Svo fórum við Sólvallafólk til hennar upp úr hádegi með þessi páskaegg og þau voru lögð á borðið hjá henni og síðan tók hún við stjórninni.
Fyrir Valdísi er það, og hefur lengi verið, viss athöfn að taka upp páskaeggin, smakka á þeim, lesa málshættina og bara tala saman. Eiginlega vil ég kalla það hefð. Þessi hefð tókst kannski óvenju vel í dag og Valdís var mjög ánægð. Það má líka sjá á þessari mynd. Það er ótrúlegt hversu vel hún lítur út þessi kona því að það eru ekkert smávægilegt sem hún er búin að ganga í gegnum í all langan tíma. Að vera ekki alveg viss um hvort það takist að fara alla leið fram á bað þegar þess þarf, og ennþá síður að vita hvernig ferðin til baka gengur, það er nokkuð sem hún hefur getað tekið með svo ótrúlegu æðruleysi. Þar hefðu ekki nærri, nærri allir getað fetað í fótsporin hennar. Nú er Valdís mikið hressari, en ennþá er hún samt í þörf fyrir allan styrk, hlýju og uppörfandi orð sem er á okkar valdi að veita henni. Hún er mikið þakklát fyrir allt slíkt.
Það sést vel á báðum þessum myndum að líkamsstellingarnar, athafnirnar og nærveran eru lifandi og gæddar áhuga á lífinu og ánægju með nærveruna. Ég er stoltur af konunni á þessum myndum. Það eru frídagar um páskahelgina hjá mörgum sem vinna þarna á deildinni og við höfum ekki verið alveg viss um hvers vegna hún kom ekki heim fyrir helgina eins og orðað hafði verið. En málið er að hún á að fara heim með viss tæki sem þarf að útvega og einnig á að kenna henni að nota þau. Það verður ekki fyrr en á þriðjudag sem það kemst í gang og nú er áætlunin að hún komi heim á þriðjudag eða miðvikudag.
Þetta vissum við með vissu fyrst í dag og þar með er ég búinn að koma því á framfæri til þeirra sem kannski eru undrandi yfir veru hennar á sjúkrahúsinu í svo langan tíma. En það hefur margt verið gert fyrir hana og með því að vera þarna var endanlega klippt á allt heimilisstrit á Sólvöllum og svo fær það að vera alla vega þangað til eitthvað annað verður uppi á teningnum. Hér með held ég að ég sé búinn að koma því á framfæri sem þörf er á til þeirra sem vilja Valdísi allt hið besta.
Það var eitthvað um málshættina. Valdísar málsháttur var þessi: "Sjaldséðir eru hvítir hrafnar." Hún hló mikið þegar hún las hann upp. Minn málsháttur var þessi: "Það átti að standa eitthvað gáfulegt á mér, en það gleymdist." Það fannst okkur öllum hlægilegt.
*
Eftir heimkomuna hófu Pétur og Rósa matargerð, en ég fór út á Bjarg þótt páskadagur væri og sinnti þar litillega nokkrum fínlegri verkefnum sem ekki ollu hávaða. Páskamaturinn var lambaframpartur matreiddur að hætti Valdísar. Það var sem sagt mikið Valdís hér í dag.
Svo varð auðvitað að taka myndir af öllum eins og gengur og ég get alveg sagt að við erum ánægð með atburðarás þessa páskadags.
Þessi ungi maður gat leikið sér heilmikið í Örebroferðinni og hann lék sér líka heilmikið eftir að hann kom heim. Þarna er hann að horfa á Samma brunavörð með íslensku tali og hann mátti varla vera að því að setjast til borðs með okkur fyrr en því verki var lokið.
Þannig getur páskadagur liðið hjá okkur Sólvallahjónum og gestum okkar.
Ps. Já, og svo renndu allt í einu góðir gestir hér í hlað í morgun þar sem þau voru á ferðinni Auður og Þórir. Þau fengu auðvitað af nýbakaða rúgbrauðinu Litlu rúgbrauðsgerðarinnar.
Að fá sér salíbunu
Við heimsóttum Valdísi í dag og við erum sammála um að hún er enn að hressast, annan daginn í röð, og það hefur ekki gerst lengi. Það er eiginlega ekki meira um það að segja, ekki síst vegna þess að ég er að hugsa um að taka næstum því bloggfrítt kvöld. Nú þarf að fara snemma að sofa hér þar sem það á að breyta klukkunni í nótt og þessi nótt verður því einum tíma styttri en að vanda lætur. Hins vegar er ég að hugsa um að birta nokkrar myndir af honum nafna mínum þar sem hann er í leiktækjum á hamborgarastað í Marieberg. Það var mikill kraftur í honum og ég varð næstum öfundsjúkur.
Hér hefst ákveðin ferð sem býður upp á talsverðan fjölbreytileika.
Hér er hægt að kíkja aðeins út fyrir borðstokkinn svo að afi sjái að allt er í lagi.
Og aftur svo að kallinn verði ekki áhyggjufullur.
Svo er að hlaupa eftir búnni sem hreyfist eins og öldugangur þegar gengið er eftir henni, öllu heldur hlaupið.
Svo fær maður þessa fínu salíbunu í lokin, og á fleygiferð, svo mikilli ferð að í fyrsta skiptið varð afi eiginlega hræddur. Og það var nú bara mest gaman. Svo byrjaði hann aftur eins og á fyrstu myndinni, ekki einu sinni eða tvisvar, heldur mjög oft og alltaf af jafn miklum krafti.
Bjartsýni
Klukkan var hálf sjö í morgun þegar afi fór fram á bað og heyrði barnsrödd frá herberginu í hinum enda hússins. Andartaki seinna heyrðist líka fótatak frá þessu herbergi, fótatak sem sagði tipp-tipp-tipp. Hann Hannes er nefnilega léttur á fæti og hann læddist ekki beinlínis þegar hann var að athuga hvort afi væri kominn á kreik. Svo kveikti afi upp í kamínunni en Hannes og pabbi hans byggðu þyrlu úr legókubbum. Síðan rifu þeir þyrluna sundur, stykki fyrir stykki og byggðu svo svifnökkva úr sömu legókubbum. Legókubbar eru nefnilega mestu galdraverk. Svo borðuðum við öll morgunverð.
Þegar aðeins var farið að líða á morguninn, klukkan var orðin hálf níu, var ég farinn að velta fyrir mér að Valdís væri ekki farin að hringja. Það var orðið seinna en venjulega, en í upphafi sjúkrahúsvistar hennar sömdum við um það að hún hringdi á morgnana svo að ég truflaði ekki með hringingum ýmis rútínuverk sem fara fram á sjúkrahúsinu á morgnana. Svo tifaði klukkan áfram en loks hringdi síminn og það var Valdís. Röddin var glimrandi hress og hún sagðist hafa sofið vel í nótt. Mér létti og mér fannst ég ekki hafa heyrt hana svo hressa afar lengi. Hún hafði líka sofið vel í fyrrinótt en morguninn þá var henni erfiður og var það langt fram eftir degi.
Við töluðum oftar saman í síma í dag og hún hélt áfram að vera hress og hún sagði einnig að hún hefði ekki orðið líkt því eins móð við að fara fram á baðið um morgunin eins og hún hafði orðið svo marga morgna áður. Svo komum við Rósa til hennar um klukkan þrjú og þá sat hún í hægindastól, sat í góðri stellingu og leit með reisn á móti okkur, en hún var leið vegna þess að hún hafði farið að velta fyrir sér hlutum sem við fáum ekki breytt. En slíkt skeður líka öðru hvoru hjá okkur öllum hinum, við komumst ekki undan því. Þegar við þrjú höfðum talað saman um stund varð bjartara yfir henni og innan skamms varð hún hressari og með meiri reisn en hún hafði verið lengi. Það fannst mikil gleði í því að fylgjast með henni og finna fyrir þeirri vissu að nú væri meðferðin á blóðtappanum að byrja að skila árangri, eða þannig virkaði þetta á mig.
Frammi í eldhúsi er nú rúgbrauðsdeig í fimm mjólkurfernum sem Rósa dreif í að útbúa eftir kvöldmatinn. Þessi uppskrift fannst í svörtu uppskriftabókinni hennar Valdísar og áður en við Rósa fórum frá henni í dag gaf hún okkur góð ráð varðandi rúgbrauðsgerðina. Þessar rúgbrauðsfernur fara svo í bakarofninn innan skamms sem boðar það að það mun anga af rúgbrauði í eldhúsinu þegar fyrstu íbúar þessa húss fara á stjá í fyrramálið.
Dagurinn í dag endar með mikið meiri bjartsýni en gærdagurinn gerði.
Ég sakna ömmu
Upp úr klukkan eitt í dag kom Hannes Guðjón med sitt fólk á járnbrautarstöðina í Örebro. Í þetta skipti fóru þau úr lestinni í Örebro vegna þess að við ætluðum öll að heimsækja Valdísi á sjúkrahúsið. Nokkuð brá drengnum þegar hann sá ömmu sína þarna, en svo settist hann á rúmstokkinn hjá henni og þau léku saman á lítið hljóðfæri sem hún gaf honum. Lítið hljómborð eða orgel eða hvað ég á nú að kalla það. Svo var það bara voða gaman, ekki síst fyrir ömmuna sem hafði hlakkað mikið til að sjá litla drenginn sinn.
Eftir heimsókina til ömmu, léttan hádegisverð og heimsókn til ömmu aftur, fórum við áleiðis til Marieberg til að gera innkaup. Á leiðinni niður hraðbrautina sagði Hannes allt í einu; ég sakna ömmu. Svo var ekkert meira um það en það voru fleiri þarna á ferð sem söknuðu ömmu.
Þegar við komum að stóru verslunarmiðstöðinni í Marieberg sleppti ég þeim út úr bílnum við annan endann á húsinu og reiknaði með að þau björguðu sér sjálf gegnum allt það hús og inn í stóran matvörumarkað við hinn endann þar sem við ætluðum að hittast. Þetta var að vísu tilraun til að vera fyndinn, en þarna eru þau sem á heimavelli. Það er Valgerður einnig eftir sínar heimsóknir til okkar bæði í Örebro og á Sólvöllum. Mér varð eitthvað hugsað til þess í dag og aftur núna þegar ég er að skrifa þetta, að mikið var það langt frá öllum hugmyndum að þetta gæti orðið okkar heimavöllur þegar Rósa og Pétur fluttu út síðsumars 1993. Við horfðum á eftir þeim hverfa út í órafjarlægðina þegar þau fóru en rúmlega hálfu ári síðar fetuðum við í fótspor þeirra.
Þegar við komum á Sólvelli var það eins og venjulega að Hannes vissi hvar hlutina var að finna. Á Sólvöllum er hann á heimavelli. Við erum búin að tala við Valdísi nokkrum sinnum síðan við fórum frá henni í dag og núna rétt áðan hringdi hún, nokkuð hress, og sagðist ætla að fara að sofa. Þá var hún búin að horfa á Antikrundan í sjónvarpi, þátt um gamla muni, uppruna þeirra og verðgildi. Diskur einn, málaður af löngu liðnum listsamanni, var virtur á einar níu miljónir íslenskra króna. Það væri ekki ónýtt að borða saltkjöt af þeim diski.
Það er hljótt á Sólvöllum og Hannes, sem talaði mikið við mömmu sína inni í rúmi rétt áðan, er hættur að tala og væntanlega komin á vit draumanna. Það eina sem heyrist er uppþvottavélin sem skvettir vatni taktfast og án afláts. Ég vona að Valdís njóti þess að vera í sínu draumalandi og geti sagt í fyrramálið eins og hún sagði í morgun: Mikið svaf ég vel í nótt. Svo þegar hún fór að hreyfa sig tók mæðin við. Við vonum allt það besta fyrir hennar hönd og að hún verði minna móð í fyrramálið.
Á morgun kemur Hannes að heimsækja ömmu
Valdís hringdi í mig klukkan rúmlega átta í morgun og sagði að nóttin hefði verið erfið og hún væri mjög þreytt. Það var líka auðheyrt á henni. Ég fann sárlega til með henni og fékk líka samviskubit yfir því hversu gott ég í sjálfu sér hafði það hér heima. Ég spurði hvort ég ætti ekki að koma strax. Það vildi hún alls ekki og sagði ákveðin að hún væri búin að fá morgunverð og lyfin sín og nú vildi hún geta hvílt sig í friði. Svo var ekki meira með það og hálf hnípinn undirbjó ég morgunverð minn. Síðan fór ég út á Bjarg að vinna.
Um tíu leytið gat ég ekki beðið lengur og hringdi ég til hennar og þá var allt mikið betra. Síðan hringdi hún upp úr klukkan ellefu og bað mig að færa sér smávegis héðan að heiman þegar ég kæmi. Ég spurði hana hvort ég ætti ekki að koma strax með þetta en hún sagðist bráðum fá matinn sinn og eftir það vildi hún fá rólega stund til hvíldar. Ég skyldi ekki koma fyrr en pósturinn væri kominn því að það væru blöð í póstinum sem hún vildi fá til að lesa. Ég var þá enn að vinna á Bjargi. Á miðvikudögum kemur pósturinn seint þannig að ég fór að sama skapi seint af stað.
Þegar ég kom til Valdísar var kona í heimsókn hjá henni. Valdís sat hin hressasta á rúmstokknum og leit vel út. Mér létti. Valdís var eiginlega ótrúlega hress miðað við það hvernig hún lýsti nóttinni. Það hafði verið aukið við súrefnið aftur, en það hafði verið minnkað niður í einn fjórða af því sem hún fékk þegar hún lagðist inn fyrir viku. Það var einnig reynt að rétta til nokkur önnur atriði. Það var í dag eins og venjulega að þegar klukkan var orðin margt var eins og það væri synd að þurfa að fara.
En Valdís er hvergi bangin og segir að það sé allt í lagi með sig. Hún ætli kannsi að horfa eitthvað á sjónvarp og svo ætli hún bara að fara að sofa. Þannig er það á venjulegu kvöldi hjá henni. Meðan ég var að skrifa þetta hringdi hún til að segja góða nótt. Þá var vinkona hennar búin að hringja til hennar og tala um að hún kæmi í heimsókn fyrir hádegi á morgun. Stundum, sérstaklega þegar ég er ekki hjá Valdísi, getur þetta allt verið svo sorglegt. Svo þegar ég sé hana áhugasama og hressa getur allt orðið svo uppörvandi. Sú sterka trú sem hún hefur á batanum flestum stundum hlýtur að vera besta leiðin til bata. Þannig og með mörgu öðru ívafi getur dagur liðið hjá okkur Sólvallafólki.
Á morgun kemur Hannes Guðjón með fjölskyldu sína í heimsókn. Mér finnst skemmtilegt að segja það á þennan hátt. Ég hlakka til að sjá hann ganga að rúmi ömmu sinnar og heilsa henni, að sjá við brögð þeirra beggja. Í hinum ósýnilegu tengslum ömmu og barnsins felst líka mikill lækningamáttur. Tíu dögum eftir að Hannes og fjölskylda fara kemur svo Valgerður. Svo fer vorið að koma á sinn heillandi hátt með möguleika á að sitja utandyra, fylgjast með öllu því lífi sem þá kviknar og draga ferskt lífsloftið niður í þurfandi lungu. Það er enn eitt atriðið í bataferlinu.
Að fá sér hádegisblund
Myndin fyrir neðan er ekki af bestu gæðum enda tekin á þriggja ára gamla farsímann minn sem er búinn að dúsa í vösum mínum í margs konar veðrum og við öll möguleg verkefni, bæði í meðferð og byggingarvinnu.
Þeir sem geta sagt mér hvaða fólk er á þessari mynd geta fengið að verðlaunum að hitta Auði og Þóri við eitthvað gott tækifæri hér á Sólvöllum að sumri.
Ég lofaði í gær að koma til að losa búslóðina þeirra Auðar og Þóris af flutningabílnum klukkan níu í morgun. Svo kom ég tuttugu mínútur fyrir níu og þá var að heita má búið að tæma bílinn og stafla búslóðinni á stéttina. Mér fannst ég koma þarna eins og einhver auli sem hefði mætt allt of seint en málið var bara að flutningabíllinn mætti löngu áður en til stóð. Ég gat alla vega borið inn með þeim af stéttinni þegar bíllinn var farinn. Síðan buðu þau upp á "fíka"og þá tók ég myndina.
Svo fór ég í heimsókn til Valdísar. Hún vissi hvað ég hafði verið að gera og spurði því nánast um leið og ég kom inn hvort hjólin hefðu komið fyrst út úr gámnum. Hún spurði í gríni vegna þess að þegar við gengum frá okkar gámi til flutnings, þá settum við hjólin allra síðast í gáminn og það var varla hægt að loka honum. Svo ultu þau út úr honum um leið og gámurinn var opnaður upp í Svärdsjö í Dölunum. Þetta var vorið 1994 og þetta datt Valdísi í hug þar sem hún var stödd á sjúkrahúsinu í Örebro 19 árum seinna. Það var nú hreina batamerkið.
Það er í mörgu að snúast fyrir fólk sem liggur á sjúkrahúsi sá ég í morgun. Það er eins og Rósa segir að það er full vinna að vera á sjúkrahúsi. Starfsfólk kom og fór, kom til að athuga, til að koma með eitthvað, eða sækja, til að spyrja eftir einhverju, til að taka próf og svo má lengi telja. Það var ekki fyrr en seinni partinn í hádeginu sem það byrjaði að verða rólegt. Um eitt leytið sagði Valdís að nú yrði rólegt fram til hálf fimm og þá lagðist hún á hliðina og reyndi að hvílast. Fólki er þörf á hádegisblundinum þegar það vakið á hverjum morgni klukkan sex.
Það var meira um hjól. Nákvæmlega um leið og Valdís nefndi þetta með hjólin kom kona leiðandi hjól inn ganginn á sjúkrahúsinu og setti inn í geymslu. Það var nú hægt að kalla tilviljun. Ég get sagt frá annarri tilviljun. Per og Kristbjörg eru á ferðalagi í útlöndum. Per birti á facebook mynd af sér standandi við hliðina á bílaleigubílnum og ég hugsaði að þessa bíltegund hefði ég aldrei séð. Nokkrum mínútum eftir að ég skoðaði þetta kom ég út frá kaffihúsi í Örebro og var á hraðri ferð til Valdísar. En viti menn, nákvæmlega eins bíll stóð þarna fyrir framan mig og ég þekkti hann svo vel eftir myndinni. Aftan á honum stóð MINI. Nú hef ég séð tvo slíka.
En nú finn ég að ég er farinn að rugla og því er mál að linni. Góða nótt.
Svo er það bara sjö-níu-þrettán
Þegar ég kom til Valdísar nokkuð seint í dag voru hjá henni þrír gestir. Það voru Auður, Þórir og Eva og Valdís er ánægð með sig í svona hópi. Fyrr um daginn var Annelie hjá henni. Þetta er alveg frábært og eflir bata. Ég talaði um það í gær að það hefði verið stór dagur í batanum og í dag var svipað að að koma til hennar og í gær. Ef batinn frá blóðtappa í lungum er það hægur að það sjáist ekki dagamunur er heldur ekki hægt að reikna með því að sjá framför dag eftir dag. Ég verð að segja að ég er ánægður með að þessa dagana virðist enginn dagur vera verri en fyrri dagar. Það virðist vera komið á jafnvægi í heilsufari Valdísar. Svo er það bara sjö-níu-þrettán.
Enn er þó nokkuð næturfrost en frostlaust á daginn. En næturfrostið fer hægt minnkandi og hitinn á daginn vex að sama skapi, en hægt. Í dag var annar dagur í snúruþurrkun hér á Sólvöllum. Svo þegar ég kom heim um átta leytið gleymdi ég að taka inn þvottinn og þegar ég svo tók hann inn núna um hálf tíu leytið var hann farinn að slá sig. Mér fannst því rétt að hengja hann upp á innisnúruna en það er spurning hvort það var lúmskt bragð hjá mér til að þurfa ekki að brjóta saman í kvöld.
Eitthvað var ég lágur í morgun enda bauð ég upp á það. Ég hóf stórhreingerningu á laugardagsmorguninn en kláraði ekki alveg. Klukkan sjö í morgun ákvað ég að ljúka hreingerningunni og fá mér svo morgunverð á eftir, drakk bara slatta af vatni áður en ég byrjaði. Svo var ég ekki búinn fyrr en um klukkan ellefu og þá fyrst eldaði ég hafragrautinn. Svo meðan ég var að borða hann kom iðjuþjálfi hingað til að líta á aðstæður hjá okkur. Meðan iðjuþjálfinn var hér að pæla í húsinu og talaði mikið fann ég hvernig það kom niður á mér að hafa ekki byrjað á morgunverði áður en ég hóf hreingerninguna. Ég predika yfir sjúklingunum í Vornesi að maður geri ekki svona og svo geri ég það sjálfur. Að vísu afar sjaldan, en það er ekki að sökum að spyrja; afleiðingarnar fyrir mig verða nákvæmlega þær sem ég segi sjúklingunum að þær verði ef við virðum ekki gildi morgunverðarins.
Síðan fór ég á endurvinnsluna í Fjugesta og á leiðinni þangað horfði ég á birtuna frá sólinni sem baðaði skóga og akra. Þá fann ég pínulítinn vorfiðring langt inn í brjóstinu, einhver svo fín kittlandi tilfinning. Svo þegar ég kom út úr bílnum á endurvinnslustöðinni og byrjaði að vappa þar um í sólskininu jókst þessi fína tilfinning og endaði með því að ég varð býsna sæll og glaður eftir því sem hægt var að búast við. Hún er fín þessi tilfinning þegar maður veit að það mun vora einu sinni enn og svo þegar maður skynjar að nú er það á næsta leiti, ja, þá finnum við hamingjutilfinningu -eða er það ekki svo? Svo þegar ég kom heim aftur veitti ég því athygli að fuglarnir virtust hafa orðið sömu tilfinningar áskynja og ég. Þeir voru önnum kafnir og hélu uppi samræðum, hver á sinn hátt. Spætan gerir vart við sig snemma á hverjum morgni og það eru forréttindi þeirra sem búa við skóginn að njóta þeirrar návistar.
Nú býst ég við að það gisni eitthvað með fréttir af Valdísi en ég mun ekki leggja þær alveg á bátinn. Valdís er allrar umfjöllunar verð. Þegar hægur batinn er kominn í jafnvægi verður ekki svo mikið að segja um hann daglega að það verður endurtekningaþula. Klukkan er tíu að kvöldi og mál fyrir mig að ganga til fundar með þessum sama góða Óla sem ég funda alla jafna með á kvöldin. Ég þarf að vera árrisull í fyrramálið og vil helst ekki að klukkan fái tækifæri til að hringja.
Kyrrð dagsins hefur eftirfarandi texta fyrir daginn:
"Sérhver stund ársins á sér sína fegurð, hún er mynd sem birtist og sést aldrei aftur."
Þessi orð eru tileinkuð Ralph Waldo Emerson 1803 - 1882. Þau minna mig á mynd sem ég sá eitt sinn en birtist aldrei aftur, en þá mynd sá ég fyrir einum tólf til fimmtán árum. Kannski ég fari orðum um þá mynd við tækifæri.
Góða nótt.
Góð helgarlok
Í gær og í fyrradag var erfitt að fara frá Valdísi á sjúkrahúsinu og nú í kvöld vildi ég ekki fara. Það var vegna þess að allir hennar taktar, tal og líkamsstellingar voru á annan veg en hina dagana. Hún hringdi heim upp úr átta í morgun og sagði að hún væri einhvern veginn öðruvísi en áður. Svo hringdi ég einhvern tíma fyrir hádegi og þá var hún enn á því að eitthvað væri betra. Síðan fékk hún fjóra gesti í heimsókn og mörg símtöl. Þegar ég kom til hennar um klukkan hálf fimm var hún dauðþreytt eftir þetta en ánægð með daginn. Henni finnst gott að vita að fólk muni eftir henni.
Ég tók iPadinn og byrjaði að leggja kapal og stakk upp á því við hana að leggja sig og reyna að sofna aðeins. Þegar hún hafði dormað svolitla stund reisti hún sig upp sagðist nú vera búin að jafna sig. Hún gerði að gamni sínu, hún gekk rösklega þegar hún fór fram á bað, allar handa og höfuðhreyfingar voru svo líflegar að ég fór að hlæja. Hún sagði brandara og svo hló hún líka. Ég var nú svo aldeilis hissa. Skoðanir okkar á ástandi hennar fóru saman. Hún sagði í morgun að eitthvað hefði breytst og ég sá það svo ekki varð um villst. Svona á þetta að vera. Fyrir mér er þetta ávísun á að meðferðin á blóðtappanum er að virka.
Þar með er ég búinn að gefa skýrslu um Valdísi og ég held að allt sé sagt og svo er bara að treysta því að þessi bati haldi áfram. Sjálfur afrekaði ég það að hengja þvott út á snúru í morgun. Þegar ég kom heim frá Örebro í kvöld gekk ég beint að snúrunni og viti menn; þvotturinn var þurr utan að hann var kaldur og einhver raki fannst á hornum. Einu sinni höfum við hengt út þvott á árinu en það rigndi á hann og því varð hann ekki svo mjög þurr. Hann fór reyndar beint í þeytivindingu í það skiptið. Ég sé það sem vorboða að hafa getað þurrkað þvott úti.
Þann 28. mars ætlar Hannes Guðjón að koma með fjölskyldu sína í heimsókn og vera hér yfir páska. Þann 12. eða 13. apríl ætlar svo Valgerður að koma og ég veit ekki hversu lengi hún verður. Það verður því langt frá því að verða fámennt á Sólvöllum á næstunni og þetta fólk er allt mjög velkomið. Ég þarf að taka svolitla skorpu á Bjargi næstu daga, en ég hef lítið komist áleiðis þar upp á síðkastið. Það er aldrei að vita hvenær við þurfum að geta boðið gestum þangað inn í það góða hús.
Aftur að Valdísi. Rétt fyrir átta töluðum við saman og þá sagðist hún vera upptekin milli klukkan átta og níu. Þá er nefnilega sjónvarpsþáttur sem kallast Meistari meistaranna. Þetta þótti mér góðs viti, búin að fá áhuga á sjónvarpsþáttum. Rúmlega níu hringdi hún svo til að segja góða nótt. Þá sagði ég einhvern aulabrandara sem ég man ekki lengur en ég man bara að þá hló hún gamla Valdísarhlátrinum. Það var líka góðs viti. Ég geng óvenju glaður til móts við Óla lokbrá áður en langt líður á kvöldið.
Ætlarðu að skrifa í kvöld líka?
Ætlarðu að skrifa í kvöld líka spurði Valdís skömmu áður en ég fór heim frá sjúkrahúsinu. Ég gerði ekki ráð fyrir því, það væri erfitt að halda áfram þannig á hverju kvöldi. Henni fannst það skiljanlegt. Svo var ég að velta því fyrir mér á leiðinni heim að það væru all nokkrir sem biðu eftir því að fá að heyra eitthvað. Ef ég ætlaði að hringja í alla tæki það gríðar langan tíma. Ég ákvað að skrifa.
Valdís var söm við sig þegar ég kom til hennar í eftirmiðdaginn, svo ótrúlega æðrulaus, en hún sagðist hafa verið óróleg um miðjan daginn. Hún fór í sturtu og hafði sig aðeins til um hádegisbilið og eins og heilsu hennar er háttað núna er það bara erfitt, hreinlega erfitt, og það gerði hana órólega. Mér var efst í huga á leiðinni til hennar í dag hvort það væri hægt að merkja breytingu eftir fyrstu tvo dagana sem blóðtappinn er meðhöndlaður. Ekki gat ég merkt þá breytingu en eins og ég sagði; hún var svo ótrúlega róleg og ekki voru það kvartanirnar hjá henni. Ég hef líka heyrt að þetta taki langan tíma. Það verði ekki um dagamun að ræða, en frekar mun frá viku til viku. Það var gott að komast að því. Hún fékk þriðju sprautuna af lyfinu mót blóðtappanum meðan ég var hjá henni. Það er ekki liðinn lengri tími en svo.
Ég velti því fyrir mér hvernig það væri hægt að halda slíkri ró á sama tíma og það er heil mikið mál að fara í sturtu og snyrta sig svolítið. Ég var hreint ekki viss um að mér auðnaðist að taka mótlætinu svona vel. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem vissu fólki er bara gefið. En það hlýtur líka að hjálpa til við að ná bata. Ég kveið fyrir að fara og skilja hana þarna eina eftir. Þegar ég horfði á hana og hugsaði að núna væri komið mál að fara fannst mér sem hún væri svo lítil. En það var hún ekki. Það er nú ráð að þú leggir af stað, sagði hún, annars verður svo dimmt fyrir þig á leiðinni heim.
Og hún hafði helst áhyggjur af því að það yrði myrkur fyrir mig á heimleiðinni. Það var svo sem orðið dimmt hvort sem var, en mig grunar að ég hafi yfirgefið deildina seinastur allra gesta. Samt var ekkert verið að amast við mér, en klukkan að verða hálf átta fór ég út úr húsinu. Meðan ég var á hraðbrautinni suður úr Örebro hringdi Þórir læknir. Hann hringdi alveg á réttum tíma. Bara að heyra rödd Þóris er sefandi. Ég talaði við hann akandi þarna á beinni hraðbrautinni, en eftir á sá ég eftir því að hafa ekki beðið hann að hringja eftir svolitla stund.
En nú er ég alla vega heima og mig grunar að Valdís sé þegar sofnuð. Svo er ég búinn að skrifa í kvöld líka. Það er afar hljótt í húsinu og það styttist væntanlega í að ég gangi til fundar við Óla lokbrá. Hann er góður félagi og gefur sér oftast tíma til að vera nálægur þegar hans er þörf. Það er mín reynsla.
Gestkvæmt hjá Valdísi
Ég er í einhverjum vandræðum með að skrifa fyrstu orðin en samt vil ég komast í gang. Af gamalli reynslu veit ég að ef ég byrja þá bjargast ég út úr vandræðunum. Því er ég nú byrjaður og get sagt að það er all hart vetrarveður hér ennþá. Það er með ólikindum hvað þetta vor er skrýtið. Venjulega er frost allan sólarhringinn en þó sýnu meira á nóttunni. Núna klukkan tíu er til dæmis ellefu stiga frost. Ég ætla ekki að tala um neitt í manna minnum en ég get sagt að þetta er kaldasta vor síðan við komum til Svíþjóðar. Hér er talað um vorvetur og sá er tíminn núna, en þessi vorvetur er kaldur og það er hjarn á mest allri jörð.
Ég var í margs konar sýsli hér heima á Sólvöllum í morgun og var í símasambandi við Valdísi. Hjá henni var þá Annelie sem ég nefndi í blogginu í gær. Sú fór þaðan einhvern tíma um hádegi. Þegar ég var svo að verða tilbúinn að fara af stað, seinna en ég ætlaði, hringdi síminn og á línunni var ungur maður, sölumaður hjá tryggingarfélagi, og hann vildi ræða einhvern "díl" við mig. Mér var aðeins eitt í huga, ég vildi fara að komast af stað og vera í friði, en vildi þó ekki segja manninum að halda sér saman og leggja svo á. Mig langaði samt að gera það og losna þannig við orðaræpuna. Hann vann þó alla vega hjá tryggingarfélaginu sem ég skipti við og ég er heldur ekki vanur að koma þannig fram við fólk. Ég fékk hann þó til að þagna og ég losnaði við hann með góðu. Svo komst ég af stað til Örebro.
Eftir viðkomu á tveimur stöðum komst ég loksins til Valdísar með peysu og inniskó. Hún sat uppi með súrefnisslönguna í nefinu og horfði á sjónvarp frá skíðasvæðinu í Falun. Þar þekkir hún sig og það er nú með hana eins og mig að Dalirnir heilla alltaf. Mér fannst hún í meðallagi hress, ekki hressari en í gærkvöldi þegar ég yfirgaf hana. Tveir læknar heimsóttu hana í dag og niðurstaðan var sú að það sem ég sagði í blogginu í gær var nokkuð rétt, en þó er líklega ekkert vatn í neinu lunga. Hún er í lyfjameðferð vegna blóðtappans og og sú meðferð er ekki farin að skila árangri ennþá, en það er víst samkvæmt því sem búast má við. Ég veit ekki hvort hún getur farið að finna mun um helgina eða eitthvað seinna. Heilt yfir held ég að það sé hlúð mjög vel að henni og það er jafnt og þétt er fylgst með ýmsu og það gefur öryggistilfinningu.
Tíminn leið og fyrst fékk Valdís sinn kvöldmat og svo varð ég svangur. Ég ætlaði á stærstu kaffiteríuna á spítalanum sem ég hélt að væri opin langt frameftir og fá mér þar brauðsneið með miklu áleggi. En viti menn, hún var lokuð. Ég varð hálf fúll og það hvarflaði að mér að snúa við, en ég fann á mér að þá yrði ég ennþá svengri, óánægður og dómharður. Ég gekk því áfram inn í bæinn og kom að versluninni Hemköp þar sem ég vissi að væri kaffitería. Þar valdi ég brauðsneið með "miklu áleggi" og svo saddi ég hungrið.
Þar sem ég var á hraðri, skaftfellskri göngu á leið til baka hringdi Valdís. Heyrðu Guðjón, sagði hún, Auður, Þórir og Eva eru hérna. Það hafði þá gengið eftir sem mig grunaði að Auður og Þórir mundu koma nánast beint úr lestinni í heimsókn til Valdísar og auðvitað kom Eva með þeim. Hún er þannig hún Eva að hlýjan geislar út frá henni og þannig eru Auður og Þórir líka. Þess vegna hlakkaði Valdísi mikið til að þau kæmu. Þau komu frá Íslandi í dag og eru að flytja til Örebro. Þórir, okkar gamli heilsugæslulæknir á Dalvík er orðinn læknir í Örebro. Það eru að vísu ekki fyrstu skrefin hans sem læknir hér. Við hittum þau hjón í fyrsta skipti á íslensku jólaballi í Örebro fyrir einum átta eða níu árum. Þá höfðum við ekki séð Þóri í fjölda ára og höfðum ekki hugmynd um að hann væri starfandi hér.
Valdís hresstist mikið við þessa heimsókn og þegar þau hin voru farin talaði hún mikið um hvað það hefði verið gott að hitta þetta fólk. Nú líkaði mér við allt útlit hennar, hreyfingar, stellingu og áhuga á hlutum. En hún var þó oðrin þreytt. Síðustu orð þóris áður en hann hvarf fyrir horn voru að góður svefn væri besta lækningin. Ég held líka að það hafi verið mikil lækning fólgin í þessari heimsókn og ég veit að Valdís lagði sig óvenju snemma og ég er viss um að hún var ákveðin í því að sofa vel í nótt. Þegar ég yfirgaf hana um hálf sjö leytið var hún að vísu þreytt, en samt var útlit hennar orðið mikið betra en þegar ég kom fyrr um daginn.
Frostið er nú tólf til þrettán stig en ég vona samt að þegar Valdís losnar af sjúkrahúsinu verði orðið svo hlýtt að hún geti farið að sitja úti og anda að sér vorveðrinu. Það verður mikil lækning í því líka.
Þannig er staða Sólvallafólks á þessu kvöldi
Klukkan hálf fjögur í nótt vaknaði ég og það fyrsta sem ég hugsaði var að það væri alveg galið af mér að ætla að fara að vinna í dag. Ég ætti að vera heima og ég ætti að vera meira hjá Valdísi í staðinn fyrir að vera langt austur í Södermanland stærstan hluta dagsins. Mér fannst ég mundi ekkert sofna meira. Þessar vangaveltur minnkuðu svo og ullu að lokum ekki beinlínis hugarangri. Svo sofnaði ég. Eða svo skrýtið sem það nú var, þá gat ég ekki fundið að ég sofnaði aftur en þegar klukkan hringdi hálf sex áttaði ég mig á því að ég hafði steinsofnað.
Klukkan hálf sjö, rétt áður en ég fór af stað í vinnu, hringdi Valdís. Við höfðum samið um það að hún mundi hringja að morgni strax þegar henni gæfist kostur á að tala í síma. Ég sagði henni frá því sem ég hefði verið að velta fyrir mér í hálfgerðum óraunveruleika næturinnar. Ég ætti að dvelja hjá henni á sjukrahúsinu í dag. Hún svaraði undrandi og með einföldum orðum; og hvað ættirðu svo sem að gera hér? Hún er stundum svo fullkomlega raunsæ og þá segir hún það í stuttu máli.
Við vorum þrír ellilífeyrisþegar ásamt tveimur hjúkrunarfræðingum sem sáum um húsið í Vornesi í dag. Annað starfslið var á námskeiði í nokkurra kílómetra fjarlægð. Frekar var ég lágur við komuna í Vornes en það rættist fljótlega úr mér og svo leið dagurinn með fljúgandi hraða. Við hringdum svolítið til skiptis hvort í annað og þegar ég var hálfnaður á leiðinni heim hringdi Valdís og sagði að hún hefði fengið að heyra svolítið um sneiðmyndatöku sem gerð var um hádegi í dag. Það var blóðtappi í lunganu og blóðtappar i lungum valda öndunarerfiðleikum.
Ég vissi ekki alveg hvað þetta þýddi en alla vega átti Valdís að fá sprutu nú í kvöld, og líklega marga daga áfram, sem eiga að leysa upp blóðtappann. Mér létti þá mjög mikið að heyra þetta og eitthvað það fyrsta sem mér datt í hug var að það yrði sólskin á Sólvöllum í sumar. Það mátti segja að ég hafi hugsað þarna á sléttlendisvegunum umhverfis Óðinsbakka að það væri skammt á milli tára sorgarinnar og kvíðans annars vegar og tára feginleikans og vonarinnar hins vegar. Og það besta var að að tár feginleikans og vonarinnar komu á eftir hinu. Sem sagt, sólskin á Sólvöllum í sumar.
Svo heimsótti ég Valdísi strax eftir að ég hafði farið heim og sótt smávegis sem hún vildi hafa hjá sér á stofunni. Mér fannst hún líta betur út en hún gerði í gær og allt yfirbragð vera léttara og líkara Valdísi eins og hún var fyrir erfiðleikana sem hún hefur gengið í gegnum. Sjúkdómurinn krabbamein var ekki með í umræðunni í dag og verður ekki fyrr við stofugang á morgun. En bara að losna við vatn og blóðtappa úr lungum er mikið spor í rétta átt. Hún Eva sem ég hef stundum talað um kom líka í heimsókn til hennar og á morgun ætlar Annelie að koma í heimsókn. Svo ætla ég að vera þar meira en í dag. Það getur verið gott að koma og skreppa svo frá og koma svo aftur.
Þannig er staða Sólvallafólks á þessu kvöldi.
Að hjálpa fjallkonunni minni
Ég sagði í gær að Valdís ætti að koma til athugunar á sjúkrahúsinu í Örebro í dag sem og varð. Við fórum frá Sólvöllum upp úr klukkan níu og um tíuleitið vorum við sótt á biðstofuna og svo fékk Valdís herbergi til að dvelja á meðan ýmsar athuganir voru gerðar. Svört kona, læknir, sem Valdís kunni mjög vel við tók hana að sér og með henni var ungur læknakandidat sem við hittum líka á föstudaginn var þegar Valdísi var bent á að heimsækja bráðamóttökuna.
Nú fer þetta sem ég er að segja að líta all alvarlega út. En málið er að Valdísi hefur verið þungt, allt of þungt, sérstaklega fyrst á morgnana, en þegar líður á kvöldið hefur hún alltaf orðið nokkuð skárri. Því fór hún á bráðamólttökuna á föstudaginn var og þessi heimsókn í dag var framhald á sama máli sem endaði með að hún var lögð inn. Það voru tekin próf og gerð almenn læknisskoðun og það var líka tekin röntgenmynd. Niðurstaðan er að hún hefur vatn í öðru lunganu og það er einhver bólga í lunga líka. Súrefnismagn í blóði er ekki nægjanlegt heldur.
Nú er ekki verið að tala um krabbamein, heldur á að ganga í að hjálpa henni til að losna við þessi tvö atriði og að bæta almenna heilsu hennar. Það á líka að fara skipulega yfir öll lyf og trúlega að breyta einhverju. Mér létti þegar farið var að tala um innlögn þar sem mér fannst að það væri tími til kominn að hlú að Valdísi á faglegan hátt og ég verð að segja að vatn í lunga er nokkuð sem ég hef haft á tilfinningunni lengi. Henni varð hins vegar nokkuð um þetta en svo hringdi ég í hana tveimur tímum eftir að ég yfirgaf sjúkrahúsið, og þá var komið hið besta hljóð í hana. Þá var hún var búin að borða og hún fékk súrefni. Við vorum búin að sitja á fyrrnefndu herbergi og um tíma á kaffiteríu á jarðhæð frá klukkan tíu að morgni til að verða fjögur. Hún var orðin þreytt.
Þannig er það nú með fjallkonuna mína. Ég geri mér virkilega vonir um að hún komi heim sem ný manneskja eftir þetta. Valdís sagði um unga svarta lækninn að hún væri svo stolt af þessari stelpu, svona ung og orðin læknir og svona fín og góð sem hún væri. Ég tek svo sannarlega undir þetta með Valdísi. Þessi manneskja var svo hlý í framkomu, nærgætin og traustvekjandi. Valdís sagði ekki við hana að hún væri stolt hennar vegna en hún er viss með að lauma því að henni seinna. Það er mikið fengið fyrir sjúkling að fá að njóta hjálpar læknis með þessa eiginleika.
Það var búið að biðja mig að vinna á morgun en eins og útlitið var hefði það ekki komið til greina. En þegar innlögnin var ákveðin ákvað ég að gera það. Nú er ég að sjóða saltkjötið sem við vorum búin að avvatna og ætluðum að borða í kvöld. Svo borða ég saltkjöt og set svo afganginn í frysti. Það verður nú best þannig.
Og eitt enn; þriðji dagurinn án kaffis er liðinn. Ekkert vandamál en betri heilsa. Meira um það mál seinna.
Rafeindavegir
Ég var á fundi í síðustu viku, fundi sem ég ætlaði að blogga um áður en ég gleymdi honum. Nú tæplega viku seinna finn ég að minningin um fundinn er þegar farin að dofna. Ef ég kem ekki í verk að gera þetta mun ég innan einhverra missera að hafa gleymt fundinum með öllu.
Það var boðað til þessa fundar með fjölrituðum miðum í alla póstkassa í Krekklingesókn og málefni fundarins var breiðband til byggðarinnar. Lars hinn ungi nágranni okkar hringdi stuttu fyrir fundinn og stakk upp á að við færum þangað saman og svo gerðum við. Við söfnuðumst þarna við borð nokkrir nágrannar en þó sat beint á móti mér maður sem býr all nokkurn spöl héðan og konan hans virtist vera þar við hlið hans. Við þekkjum þetta fólk ekkert. Ég kunni ekki við að sitja beint á móti manni án þess að heilsa þannig að ég rétti honum hendina og sagði nafn mitt.
Ég hafði dálítinn áhuga á þessum manni vegna þess að hann hefur svo oft verið þar sem fólk kemur saman, á konsertum í sveitinni, á revíunni í Fjugesta, á fjöldasöng í Torp og víðar. Hann hefur allt útlit fyrir að vera félagslyndur maður sem hefur hlutina í lagi í kringum sig og í samræmi við það öruggur og frjálslegur í fassi. Þegar ég sagði nafn mitt beyglaðist hann mátulega mikið í framan og þá vissi ég að hann var einn af þeim sem alls ekki heyrir nafnið mitt. Ég tók því upp blað og penna úr vasa mínum og skrifaði nafn mitt þar á og sýndi honum.
Þegar hann sá nafnið skrifað sagði hann langdregið "jaaááá, það ert þúúúú" sem býrð uppi á brekkunni ofan við Nalavi. Já, ég var maðurinn. Þá fann ég að hann hafði líka veitt mér athygli áður. Við heyrum ekki mikið af því, en víst vitum við að við erum talsvert umtöluð hér í kring sem okkur finnst ekki skrýtið. Lars hinn ungi staðfesti það líka á leiðinni heim að allir hér í sveitinni vissu um Íslendingana sem búa upp á brekkunni ofan við Nalavi.
Það vakti athygli mína á fundinum hversu mikið af vel menntuðu fólki býr hér í kring. Einnig að hér býr fólk sem vinnur ábyrgðarstörf á mörgum sviðum. Þeir sem stóðu að fundinum tilheyrðu þessum hópi. Fundurinn var mjög vel undirbúinn og þeir sem höfðu framsögu voru með sitt á hreinu og allt fór þeim afar vel úr hendi. Maður sem býr einn kólómeter norðan við okkur og gengur hér framhjá flesta daga vikunnar er fjálmálastjóri stórs fyrirtækis upp í Dölum í um það bil 200 km fjarlægð. Hann setti fundinn og talaði ótrúlega málefnalega um efni hans.
Hann sagði að það væri auðvelt fyrir alla að skilja að vegir, lestarkerfi og flugvellir þyrftu að vera í góðu lagi í dreifðum byggðum. En við þurfum líka góða rafeindavegi í Krekklingesókn hélt hann áfram. Það er nefnilega svo að hér í sókninni er fjöldi fólks, ótrúlegur fjöldi, sem vinnur mikilvæg störf heima hjá sér þannig að mörg heimilanna eru mikilvægir vinnustaðir. Þess vegna eru rafeindavegirnir svo nauðsynlegir til að þessir dreifðu vinnustaðir í sókninni geti þrifist.
Þetta og margt annað fannst mér fróðlegt að heyra. Þessi maður, sem er jú fjármálastjóri stórs fyrirtækis upp í Dölum, fer þangað um það bil vikulega en stundar vinnu sína að mestu heiman að frá sér. Að ég skrifa þetta er til að hafa minnispunkta fyrir mig og ef einhverjir hafa áhuga á að lesa þetta er það svolítil kynning á því umhverfi sem við búum í.
Þessi fjármálastjóri sem gengur svo oft hér framhjá hefur oft stoppað við túnfótinn til að spjalla. Hann hefur sagt að það sé smekklega byggt á Sólvöllum og gaman að fylgjast með. Það var jú gaman að heyra. Hann hefur líka talað um að við sem erum "aðeins" farin að eldast virðumst hafa gaman að þessu. En svo sagði hann okkur með dálítilli undrun frá manni sem var að byggja langleiðina inn við Örebro og hann er nú sjötíu ára sagði hann.
Það var ekki leiðinlegt að heyra þetta og ég reyndi að rétta óvenju mikið úr bakinu og standa undir mínu unga útliti. Ég var nefnilega 69 ára þegar þessi umræða átti sér stað.
Nú er mál að ganga til fundar við Óla lokbrá. Við förum í sjúkrahúsferð í fyrramálið, frekar snemma, og að vanda vonumst við eftir góðum fréttum.
Tími til kominn að komast á fullorðinsárin
Ég velti því fyrir mér í gær og marga daga þar á undan. En í gær var meiri alvara bakvið vangavelturnar en ég þorði samt ekki að taka einbeitta ákvörðun. Ég var hræddur um að ég skyldi bakka frá ákvörðuninni að morgni og finna einhverja afsökun fyrir því. Í morgun vaknaði ég nokkuð snemma og læddist frekar snemma fram til að kveikja upp í kamínunni. Ég var úthvíldur og notalega endurnærður og mér fannst sem ég mætti alls ekki skemma þá góðu tlfinningu. Ég hugsaði út í vangaveltur mínar frá í gær og hræðsluna við að taka endanlega ákvörðun. Þarna frammi við kamínunna í morgun meðan eldurinn var að sækja í sig veðrið tók ég loksins ákvörðun, mjög ákveðinn; ég skal ekki drekka kaffi í dag!
Og nú er þessi dagur að kvöldi kominn og ég hef ekki látið kaffileysið hrjá mig en hins vegar hefur mér liðið mjög vel með þennan kaffilausa dag. Það hefur verið að aukast síðustu mánuði eða jafnvel misseri, að kaffið fer ekki lengur vel í mig. Það virðist bara liðin tíð utan einhver alveg einstök tilfelli, og ég er ekki hissa eins og ég er búinn að þamba það síðustu rúmlega 50 árin. Ég gerði eina tilraun til að hætta kaffidrykkju árið 1993 og þeirri tilraun lauk í Stokkhólmi þann tíunda febrúar 1994. Ég gæti sagt söguna um það en Rósa dóttir mín kann hana betur en ég geri sjálfur. Þetta var í minni fyrstu ferð til Svíþjóðar þegar ég var á leiðinni upp í Svartnes til að setjast að í þessu landi.
Það eru líklega að verða tvö ár síðan ég hitti mann í Reykjavík, ættaðan af vesturlandi. Hæglátur maður var þetta og kom þannig fram að það var ekki spurning um að hlusta á það sem hann sagði. Hann var sérstaklega trúverðugur. Hann lýsti kvillum sem hann hafði lengi leitast við að fá bót á en fékk ekki. Síðan hætti hann að drekka kaffi og kvillarnir hurfu. Ég man svo vel þegar ég hlustaði á þennan mann segja frá, en þá var ég 68 ára, að mér fannst þetta vera sem boðskapur ætlaður mér án þess að maðurinn gerði sér nokkra grein fyrir því. Í dag kom að mér að ganga götuna hans. Nú er ég búinn að segja þannig frá þessu að ef mér tekst ekki að vinna bug á kaffiþorstanum, þá er niðurlæging mín töluverð.
Í janúar 1991 lagði ég af með brennivínið, 15. maí 1992 hætti ég að reykja og í dag er 18. mars 2013, dagurinn sem ég lagði kaffið til hliðar. Ég lofa að segja frá ef ég fell.
Dagurinn i dag er búinn að vera mun betri fyrir Valdísi en gærdagurinn. Það er vel þekkt af okkur öllum að sumir dagar eru erfiðari en aðrir og gærdagurinn var hreint ekki dagurinn hennar Valdísar. Hún fékk sms seinni partinn í dag um að ný gleraugu væru komin í gleraugnahúsið. Við fórum strax til að sækja þau og á leiðnni heim sagðist Valdís sjá heiminn í nýju ljósi.
Sviðaveisla
Það er nú meira hvað ég er alltaf með hafragraut á blogginu mínu, en satt best að segja er ástæða til þess að þessu sinni. Eða þannig. Ég las blaðagrein hér um daginn og þar stóð að ótrúlega stór hluti alls þess eiturs sem úðað er á matvæli sé úðað á vínber. Hins vegar séu vínber svo sáralítill hluti þeirra matvæla sem úðuð séu með eitri að eitrið í þeim sé alveg gríðarlega mikið. Svo þó að við séum að skola vínberin undir rennandi vatni hafi það ekkert að segja þar sem eitrið sé innst í vínberjunum. Þá það. Ég sem hef lengi bragðbætt hafragsrautinn minn með rúsínum er steinhættur því. Í grautnum þarna á borðinu, skammturinn sem ég borðaði í morgun, brytjaði ég apríkósur og sauð þær með grautnum. Aprikósurnar keypti ég í gær og þær eru vistvænt ræktaðar. En í grautnum leynist líka einn banani og hann er líka vistvænt ræktaður.
Það hefur verið umræða um það undanfarið að krabbamein fari mjög vaxandi. Það hefur líka verið umræða um það að eiturefnanotkun við matvælagerð sé afar mikil. Umræðan um gerfiefni er líka á þá leið að mikið sé af krabbameinsvaldandi efnum í þeim. Samkvæmt þessari umræðu er samband á milli sjúkdómsins og þess sem ég hef nefnt hér. Gjarnan er svo sagt að það megi ekkert borða og ekkert gera vegna þess að það valdi krabbameini og það sé gengið út í öfgar. En staðreyndir tala sínu máli og svo geri ég líka ráð fyrir að það sé hægt að kaupa vistvænt ræktaðar rúsínur út í hafragrautinn minn. Ekkert skemmtiefni þetta en fyrir mér nokkuð að hugleiða.
*
Hvað er nú þetta? Jú, maðurinn á miðri mynd sem veifar vinstri hendinni þar sem hann er að ræða við unga konu, hann heitir Guðbjörn og kemur frá Varberg nokkrum sinnum á ári. Frystibíllinn bakvið hann tilheyrir honum og á þessum bíl flytur hann íslenskar vörur um Danmörku, Noreg og Svíþjóð. Í dag var hann við Scandic hótel í Örebro að skila til viðskiptavina í Örebro og nágrenni það sem þeir hafa pantað hjá honum. Konan sem Guðbjörn er að tala við er ung kona nýlega flutt til Kumla, hægra megin við hann er hún Rósa Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur og maðurinn lengst til hægri er Íslendingur sem ég þekki ekki. Svo var ég þarna og nokkrir fleiri mættu til leiks.
Svona gertur matarborðið á Sólvöllum litið út þegar komið er úr verslunarferð til Guðbjörns. Ýsa var það heillin og nokkrir sviðahausar. Páskaegg einnig. Fyrir mér skiptir þetta ósköp litlu máli en fyrir aðra er þetta með íslenska matinn mikið atriði. Það er til mikið af góðum mat í Svíþjóð en víst var sviðakjamminn góður sem hafnaði á dískinum mínum þegar við borðuðum kvöldmatinn.
Ég varð vitni að skemmtilegri ástarsögu í dag við bílinn hjá Guðbirni, en þar sem ég er ekkert að blaðra um annarra einkamál þegi ég yfir þessari ástarsögu. Svo kom ég dálítið skemmtilega á sjálfan mig þegar við horfðum á sjónvarpsmessuna í morgun. Ég stóð mig að því að dæma í stað þess að hlusta á Guðsorðið en ég þegi yfir því líka.
*
Fyrir aftan mig er konan mín lögst á koddann og les bók. Ég vildi svo sannarlega að hún væri hressari en hún er. En þrátt fyrir allt vorum við í dag að tala um staði sem við þyrftum að heimsækja í sumar og henni fannst sviðakjamminn afar góður sem hafnaði á hennar diski þegar við borðuðum kvöldmatinn. Hún kom líka út á Bjarg í dag til að gera úttekt á verkunum mínum. Þá tók ég mynd af henni en myndin var ónýt þar sem ég hafði nýlega verið að sópa þar og það virðist sem ryk í loftinu gerði myndina eins og það hefði rignt á linsuna. Ég var nefnilega búinn að ákveða að setja mynd af henni á bloggið ef ég skyldi blogga á þessu kvöldi. Mér er ómögulegt að fara að taka mynd af henni við að lesa bók í rúminu þannig að það verður engin mynd af henni núna.
Valdís sýnir mikið æðruleysi og sá sem getur gert það heldur í vonina sem er skilyrði fyrir því að vel geti farið. Ég fer líka að leggja mig þegar ég verð búinn að birta þetta blogg. Í minni hljóðu kvöldbæn verður heilsa Valdísar í fyrirrúmi eins og önnur kvöld og morgna.
Og þá bara skellihló hún
Í dag var kominn tími á að þær borðuðu saman vinkonurnar fimm, Valdís og hinar fjórar sem hafa haldið hópinn í fleiri ár. Í dag borðuðu þær hjá Laila. Við Valdís fórum héðan að heiman rétt fyrir klukkan ellefu og hún byrjaði á að fara í augnathugun. Síðan fórum við í Brikkebakken til Laila. Þegar við vorum á leiðinni hringdi ein þeirra og spurði hvar við værum. Valdís gaf upp staðarákvörðun. Þegar við komum á bílastæðið hjá Laila stóðu þær þar þrjár og biðu okkar. Þær stóðu í þéttum hnapp og þegar Valdís var að fara út úr bílnum sá ég hvernig þær fylgdust með og ég sá líka vel hvernig þær biðu eftir að sjá í hvaða ástandi Valdís væri. Þær voru órólegar.
Ég var með kerruna og ætlaði í BFs byggingarvöruverslun sem er þarna rétt hjá og fylla kerruna af efni. Þegar ég hafði lagt af stað fékk ég ákafa löngun að sjá hvernig þeim gengi þessa áttatíu metra að útidyrunum hjá Laila. Ég stoppaði og bakkaði. Þarna röltu þær áfram, vögguðu pínulítið, hver með sína hreyfihömlun, og Valdís með sinn sjúkdóm að auki. Hún gekk fyrst og svo sá ég hana stoppa, snúa sér við og horfa á móti hinum. Hún sagði mér áðan að hún hefði stoppað til að kasta mæðinni.
Svo héldu þær áfram og fyrst að hurðinni var Valdís og ég sá hana hringja dyrabjöllunni. Þá lagði ég af stað með djúpum trega yfir því sem ég hafði verið að fylgjast með. Í byggingarvöruversluninni eru hressir kallar og ég fékk ekki að koma nálægt því að hlaða á kerruna, aðallega með gipsplötum, bæði á veggi og í loft. Þeir hjálpuðu mér líka að binda þetta fast og eftir nokkur hressileg orðaskil hélt ég af stað. Magus, sonur Bert, verslunareigandans, gekk yfir í hinn enda hússins og opnaði hurðina svo að ég gæti keyrt út. Ég stoppaði og spurði hann hvernig pabbi hefði það. Ja, hann er uppi á skrifstofunni svaraði Magnus. Það nægir svaraði ég og hélt áfram.
Á leiðinni heim birtist mér allt í einu myndin af konunum fjórum sem röltu með sínum hraða heim að útidyrunum hjá Laila. Ég sá hvernig þær allar gerðu sitt besta í stöðunni. Konan mín var ein af þeim. Eitt sinn tjúttuðu þær á böllum við músik sjötta og sjöunda áratugarins, sungu og voru glaðar. Gerðu líflega hluti á þeim fáu frístundum sem gáfust. Nú hafa þær fleiri frístundir en áður en þær tjútta ekki lengur. Þær sitja ekki lengur í saumaklúbb fram á nætur, hlæjandi og talandi um skemmtilega hluti. Þegar Valdís ýtti á dyrabjölluhnappinn vissi ég mæta vel að hún hugsaði fyrst og fremst um að fá að setjast á stól.
Það sem eftir var leiðarinnar hugsaði hugsaði ég um þennan gang lífsins og mikil sorg tók mig föstum tökum. Þessar konur voru allar jafnöldrur mínar en mér fannst samt að ég væri mikið, mikið betur á mig kominn en þær. Hreinlega væri yngri. Ég sá fyrir mér þegar Valdís sneri sér við á stéttinni og leit ámóti hinum. Það kom svo fram sem mig grunaði, hún var að stoppa til að hvíla sig. Ég nálgaðist Sólvelli og ljósa, hlýja slæðan sem hylur sorgina breiddi sig yfir hana að nýju, huldi hana, og ég fann hvernig innri ró bjó um sig í brjósti mér. Ég fann hvernig sólin sem hækkar með degi hverjum sendi sína hlýju geisla inn í gegnum framrúðuna og þrátt fyrir þrálátan vetrarkulda fann ég að vorið vera framundan.
Eftir léttan hádeismat, að tæma kerruna og vinnu á Bjargi í eina tvo tíma, mundi ég eftir símanum sem lá inni á eldhúsbekk. Ég gekk inn og nákvæmlega þar sem ég greip upp símann hringdi Valdís og var að verða tilbúin að fara heim. En það var eitthvað mikið meira en það. Ég heyrði að röddin hafði orðið lífleg og glöð og það var kraftur í Valdísi þar sem hún talaði með klið af tali hinna kvennanna í bakgrunninum. Hún hafði verið að gera góða hluti og það var að þakka framtaki hennar sem þessar konur hafa hittst í öll ár og engin þeirra vill leggja það niður. Næst ætla þær að hittast hér heima hjá Valdísi.
Það var hér um daginn þegar við vorum búin að borða heimasaltaða lambakjötið að ég var á rölti um húsið. Valdís spurði hvort ég nennti að rétta sér tannstöngul. Ég tók tannstöngul, lagði á brauðdisk, gekk til Valdísar og með penni hneigingu rétti ég fram tannstöngul á diski. Valdís skellihló og mér fannst hún hlæja nákvæmlega eins og í gamla daga. Hún gerir þetta all oft og mér þykir mjög vænt um það.
Við erum búin að borða kvöldmatinn, Valdísarkjötbollur, og hún er búin að horfa á sjóvarpsþáttinn Antikrundan. Það þykir henni gott sjónvarpsefni. Við erum búin að gera okkar besta úr þessum degi, búin að upplifa góðan dag. Ég er mátulega þreyttur og eftir að ég verð búinn að fá mér heitan drykk, bursta og allt svoleiðis, verður gott að breiða ullarfeldinn upp að eyrum. Ég les pínulítið áður en Oli lokbrá nær tölum á mér en Valdísi tekst venjulega að ljúka nokkrum síðum. Svo verður hún líka að gefa sig fyrir mildum ágangi Ola.
Þriðjudagur í léttari dúr
Það er skrýtið hvernig það vefst einstaka sinnum fyrir mér að gera hluti sem ég hef gert hundrað sinnum áður. Áðan ætlaði ég að birta nokkrar myndir og ég hef gert það mikið mneira en hundrað sinnum áður en allt í einu gekk það ekki. Ég var búinn að vista mynd inn á bloggið en sá svo bletti á henni þannig að ég henti henni. Síðan lagaði ég blettina á frummyndinni en þá gat ég ekki vistað hana aftur. Svona getur það gengið en alla vega er ég kominn með myndirnar sem ég ætlaði upphaflega að nota -eftir heil mikið vafstur og langan tíma.
*
Hvaða mórauði hlunkur ætli þetta sé á brauðdiskinum þarna? Honum fylgir saga sem ég veit ekki hvenær byrjaði, en fyrir mér byrjaði sú saga í kaupfélaginu í Marieberg í fyrradag, sunnudag. Ég skilaði Valdísi að innganginum í kaupfélagið, lagði bílnum og gekk síðan í verslunina Jula til að kaupa skrúfur. Þegar ég kom svo til baka í kaupfélagið var Valdís að velja mjölsortir sem ég botnaði ekkert í þannig að ég spurði hana hvað stæði til. Baka rúgbrauð, svaraði hún eins og ekkert væri. Í hennar huga var sagan sem sagt þegar byrjuð, kannski fyrir löngu. Svo fórum við heim og Valdís var varla komin inn í húsið þegar hún byrjaði á rúgbrauðsgerðinni. Klukkan tíu um kvöldið kveiktum við svo á bakarofninum og hann mallaði þar til klukkan átta í gærmorgun, í tíu tíma. Þá angaði eldhúsið af rúgbrauði. Þetta mórauða á brauðdiskinum er því rúgbrauð, gott rúgbrauð. Rúgbrauð hefur ekki verið bakað á okkar bæ síðan upp í dölum fyrir 17 árum.
Sagan um það sem er á þessari mynd byrjaði hins vegar fyrir hálfum mánuði. Þá fór Valdís í fótsnyrtingu og á meðan var ég að útrétta smávegis, meðal annars að kaupa lambaljöt. Þegar Valdís var tilbúin og við að leggja af stað heim spurði Valdís hvort ég væri búinn að kaupa kjötið. Já, ég var búinn að kaupa lambakjötið og það helmingi meira en hún bað um. Og hvers vegna? Jú, ég ætlaði að salta lambakjöt. Í dag var svo fyrsta saltkjötsmáltíðin hjá okkur til margra ára. Ekta íslenskt rúgbrauð og saltkjöt, þjóðrækni eða hvað.
*
Þessi byggingarkrossviður er ekkert til að hrópa húrra fyrir, ekki fyrir augað. En hann er sterkur til síns brúks. Hann er hluti af stífingu húsa og gefur þeim styrkleika til að standa móti stormum. Svolítið eykur hann líka einangrunargildið.
En þegar gipsið er komið innan á krossviðinn skeður eitthvað dálítið magnað. Húsið verður bæði huggulegt og notalegt. Sterka lyktin af krossviðnum hverfur og hann tilheyrir þar með því ósýnilega af vel uppbyggðu húsi. Varðandi raka og myglu þá er bara það að segja að með tilheyrandi loftræstihólfum og góðum byggingarmáta, þá er vánni afstýrt. Það er þessi mynd sem lék mig grátt áðan en ég gat notað hana með því að láta hvítu blettina vera eins og þeir eru
Valdís heimsótti mig út á Bjarg í gær til að gera úttekt á verkum mínum. Þá tók ég af henni þessa mynd. Það má greina að sólin skín úti fyrir. Annars er frostið á nóttunni um 15 stig um þessar mundir en um frostmark á daginn. Það er sólbráð þar sem sólin nær á auðum blettum þannig að snjórinn fer minnkandi þrátt fyrir kuldann.
Þar með held ég að engin leyndarmál séu ósögð þannig að við getum lagt okkur til svefns með ró í huga.
Vel ávöxtuð morgunstund
Sjónvarpsmessurnar hér eru frá kirkjum vítt og breitt um landið, fjóra sunnudaga í röð frá hverri kirkju. Fyrir hálfum mánuði var fyrsta messan af fjórum frá hallarkirkjunni í Stokkhólmi. Á fremsta bekk sátu kóngur og drottning og samkvæmt kynningu fyrir messuna mátti ætla að megin þorri fólks við messuna væri hirðfólk eða á einhvern hátt tengt konungi eða hirð. Ég horfði á þessa messu með mátulegum áhuga og fannst ögn sem við þessa messu væru hálfgreðir uppskafningar sem teldu sig ofar almúganum, "úr betri hópi samfélagsins" að eigin mati. Þegar við horfðum á aðra messuna frá hallarkirkjunni hafði ég þessa tilfinningu líka en þó heldur vægari. Ég er mátulegur konungssinni og læt þau mál ekki trufla mig. Ég get samt sagt að þegar þetta fólk er haft illilega milli tannanna, þá er ég meiri konungssinni en ella.
Svo hófst sjónvarpsmessan í dag. Hvernig svo sem á því stóð, þá nálgaðist ég og messan hvort annað meira en áður. Valdís tók undir í fyrsta sálminum og eitthvað var þannig að ég skildi að mér bæri að lægja hrokann og auðmjúkur taka þátt í messunni með því að horfa og hlusta með opnum huga. Efni messunnar var um brauðið sem enginn getur lifað utan, hvernig því er skipt og hvernig það kemur til okkar. Sagt var frá mannanu sem Ísraelsmenn fundu á sandinum morgun einn fyrir 3000 árum þegar þeir þjáðust af hungri og töldu það vera sendingu af himnum ofan.
Presturinn sem predikaði var kona sem talaði með Dalahreim. Þegar á predikun hennar leið hugsaði ég að þetta væri hreinlega besta predikun sem ég hefði heyrt. Þegar hún gaf orðum biblíunnar merkingu á sinn hátt varð merking þeirra ótrúlega falleg. En svo er það ár hvert að ég er í nokkur skipti að heyra bestu predikun sem ég hef nokkru sinni heyrt á ævi minni og því mætti ætla að predikun dagsins hafi verið afar góð. Hún var það líka.
Undir lok messunnar gekk fram svartur prestur sem söng mjög fallegan texta upp úr bók. Sænskan hans var alveg eins og sænska hvítra Svía og þó að við sæum aðeins kápur bókarinnar vissum við mæta vel að bókstafirnir voru nákvæmlega eins og þeir bókstafir sem eru í bókunum sem hvítir prestar syngja upp úr. Jesús sagði líka að fagnaðarerindið ætti að berast til allra þjóða og kynþátta þessa heims og í framhaldi af því skiptir húðlitur ekki nokkru máli.
Að messunni lokinni hafði ég brotið odd af oflæti mínu og hvort það var hirðfólk eða annað fólk sem tók þátt í guðsþjónustunni skipti mig ekki lengur máli. Allir bera sínar byrðar, hvort það heitir áhyggjur af heilsu, biturð vegna löngu liðinna atburða, samviskubit vegna rangarar ákvörðunar, framkoma við náungann, ógætileg orð eða þá sorgarin sem knýr dyra í lífi allra manna og kvenna. Að ógleymdu því sem aldrei var gert en hefði svo vel verið hægt að gera einhverjum til gleði eða til að auðvelda einhverjum lífið. Hirðfólkið sem er vel verndað og gæti mín vegna borðað sunnudagsmat daglega allan ársins hring, það fær líka sínar byrðar að bera.
Eftir messuna sat ég stutta stund í stólnum, gekk síðan að tölvunni og skrifaði nokkrar línur til að tapa ekki niður því sem í huganum bjó. Sorgin sem býr sér hreiður í lífi allra er ekki alltaf sýnileg eða ráðandi í lífi fólks. Hún er sem varðveitt undir þunnri slæðu og það þarf svo lítið til að slæðan gisni og sorgin geri vart við sig. Sorgin undir slæðunni er tilfinning þeirra sem eru heilbrigðir. Brynja forherðingarinnar þarf að vera afar þykk til að hún ekki nái í gegn til að minna manneskjuna á sig. Kóngur og drottning og hirðin öll sem ekki þarf að hafa áhyggjur af brauði jarðarinnar eru hins vegar í jafn mikilli þörf fyrir hið andlega brauð og við hin til að geta mætt mótlætinu hverju nafni sem það nefnist.
Þegar ég var búinn að punkta niður línurnar sem komu upp í huga mér eftir messuna var ég úti á Bjargi í eina þrjá tíma og stundaði byggingarvinnu. Ég var léttur í spori og hreyfingum og það sem ég gerði lék í höndunum á mér. Ég var þess fullviss að ég hafði ávaxtað morgunstundina vel.
Búinn að vera hljóður lengi
Mér stendur varla orðið á sama hvað ég er búinn að vera hljóður lengi. Ég fer að halda að það sé eitthvað að. Það eru fimm dagar frá síðasta bloggi en ég get ekki sagt að það sé neitt sem kemur í veg fyrir bloggandi en að það hefur verið heilmikið annríki. En nú er komið föstudagskvöld, gangur mála í vikunni hér á Sólvöllum er samkvæmt áætlun, ég er ný kominn úr sturtu og búinn að borða steikt lambakjöt hjá Valdísi. Hún er búin að horfa á spurningaþátt í léttum dúr eftir kvöldmatinn og er nú að horfa á Skavlan. Heilsa hennar er ekkert sem ég mundi sjálfur vera ánægður með en henni tekst flestum stundum að gera ótrúlega gott úr því sem henni er gefið þessar vikurnar. Ég mundi glaður gefa henni eitthvað af heislu minni ef slíkt væri á mínu færi en tilveran býður ekki upp á slíkann möguleika. Ég get hins vegar verið til staðar og gert mitt besta í að vera þokkalegur maður. Ég vona að ég standi mig sæmilega í því hlutverki, kannski nokkuð vel.
Ég sagði að það væri búið að vera annríki í vikunni. Um síðustu helgi, og á mánudag og þriðjudag, hamaðist ég við að undirbúa komu hans Lennarts, smiðs og nágranna, sem ætlaði að koma á miðvikudag til hjálpa mér á Bjargi. Svo gat hann ekki komið á miðvikudag og mikið var ég feginn því að ég var nefnilega ekki tilbúinn.
Svo kom Lennart á fimmtudag klukkan tíu, í gær, og þá varð nú handagangur í öskjunni. Svo hætti hann rétt fyrir klukkan fjögur og rétt áður en hann fór spurði ég Valdísi hvort hún vildi ekki koma og heimsækja okkur. Þá var Bjarg orðinn óþekkjanlegur staður. Það var kominn krossviður á veggi og mynd á herbergið þar. Valdís bar lof á dugnað okkar og ég held satt best að segja að hún hafi orðið svolítið hissa á árangrinum af þessum klukkutímum. Ég reyndi að vera búinn að undirbúa þetta verk vel og svo geri ég jafnan þegar einhver kemur til að aðstoða mig. Þá skilar hjálpin góðum árangri.
Það sést á Valdís að gærdagurinn var ekki hennar dagur. Þannig er það að inn á milli koma dagar sem eru erfiðari en aðrir dagar. Dagurinn í dag er mikið betri dagur. Næst þarf ég að taka mynd af henni á einhverjum af þessum betri dögum og birta á öðru bloggi á nýjum degi.
Á þessari mynd eru þau svo langt í burtu, Valdís og Lennart, en herbergið sést líka betur. Glugginn vísar móti vestri og sé setið við skrifborð við þennan glugga er útsýnið móti Kilsbergen. Útsýnið þarna er fallegra en frá íbúðarhúsinu, það er alveg stórkostlegt útsýnið frá aðalglugganum á Bjargi.
Svo er hér mynd í gagnstæða átt, móti skóginum. Það er eftir að saga krossviðinn frá glugganum sem er á veggnum beint yfir ofninum. Þessi krossviður lyktar sterkt þegar búið er að breiða hann út um alla veggi, en ég ætla að viðra vel út um helgina. Eftir helgina ætlum við Lennart svo að klæða krossviðinn með gipsplötum. Gipsplöturnar hafa líka þann eiginleika, eins og allir vita sem hafa unnið með þær, að þær gera húsnæði svo notalegt þegar þær þekja veggina. Við ætlum líka að klæða loftin með gipsplötum í næstu viku.
Lennart er ellilífeyrisþegi eins og fleiri hér í sveitinni. Hann býr í svo sem þrjú hundruð metra fjarlægð frá okkur. Ég hef sagt það áður og get sagt það einu sinni enn að þessi maður er ljúfmenni og vill öllum mjög vel. Hann lítur hér við öðru hvoru þó ekki sé til annars en að óska okkur góðs gengis. Svo hefur hann líka komið okkur á bragðið með týtuberjasultu, lingonsultu. Lyngið er líka kallað rauðberjalyng á Íslandi. Bæði höfum við smakkað týtuberjasultu áður, en þegar Lennart og konan hans, Anny, koma með krukkur af þessari sultu og gefa okkur, þá er sannarlega hægt að segja að það sé farið að nota hana á Sólvöllum. Við vitum um týtuberjaengi hér í nágrenninu. Þangað er ferðinni heitið að hausti. Týtuberjasulta hefur einn stóran galla; þegar maður er kominn á bragðið er öll önnur sulta frekar bragðdauf nema þá helst rabbabarasultan.
Að lokum. Á miðvikudagseftirmiðdag leit svona út á Bjargi. Nú er næstum vandratað milli salakynnanna þar.
Skýrslugerð er hér með lokið þennan annan föstudag í mars.
Frá liðinni tíð
Ég var að leita að ákveðinni mynd í dag, settist nokkrum sinnum við tölvuna og renndi í gegnum næstum endalaust myndasafn. Ekki fann ég myndina en ég fanna margar aðrar myndir og eins og ég hef sagt áður þá eru myndirnar heilmikil dagbók þó að bloggið sé auðvitað mikið betri dagbók. Ég gældi við það hverju myndir voru tengdar og það var býsna skemmtilegt.
Þessi mynd er að vísu frá því um hádegi í dag. Eigum við ekki að hengja þvottinn út núna, sagði Valdís. Ég dró úr því og sagði að það blési of mikið. En Valdís gaf sig ekki og að lokum fórum við bæði út á snúru til að hengja upp þvott. Svo var alls ekki neinn vindur og allra síst í skjólinu á bakvið húsið. Þegar við vorum á leiðinni inn sagði Valdís að þetta yrði að vera svona í þetta skiptið og hún benti á köflóttu skyrtuna mína. Maður setur aldrei þrjár klemmur á skyrtu. Þá veit ég það. Ég get vel hengt upp á snúru en ég fer ekki alltaf troðnar slóðir í þeim efnum og stundum snúa flíkurnar öfugt, upp eða niður eða ósmekklega. Svona maður er ég. Það mundu margir aðrir en Valdís hlæja að aðferðinni minni.
Á Valborgarmessu söng Korianderkórinn hennar Valdísar alltaf á ákveðnu íþróttasvæði. Valdís er þarna næstum lengst til hægri. Þegar kórinn var búinn að syngja hélt einhver þingmanna héraðsins ræðu og eftir það var kveikt í heil miklum hríshaug. Haugurinn var fyrir aftan mig þar sem ég var þegar ég tók myndina. Það var pínu hátíðalykt af mörgum og eftir þetta hélt fólk á braut í smá flokkum, spjallandi um daginn og veginn, og margir bættu aðeins á lyktina þegar leið á kvöldið. Grilluðu gjarnan líka. Svíar fara gjarnan einfalda leið þegar þeir halda upp á vissa daga sem haldið hefur verið upp á í áratugi eða aldir. Aðrir tyllidagar eru heiðraðir með aldagömlum hefðum.
En hrísið hefur oftast verið afgreitt á annan hátt hjá okkur á Sólvöllum en gert var á Valborgarmessuhátíðinni. Stundum höfum við brennt það, en oftar malað það eins og Valdís er að gera þarna. Svo er ég enn að fylla gryfju út í skógi og það hlýtur að vera orðinn mjög góður jarðvegur neðst í þeirri gryfju. Afrakstrinum eftir mölunina höfum við stráð í gönguleiðir til að jafna þær og til að skila sem mestu út í skóginn aftur. Þessi mynd er frá 2006.
Þessi mynd er líka frá vorinu 2006, frá 1. maí og sýnir hvernig við héldum upp á dag verkalýðsins. Þarna vorum við rétt búin að ganga frá viðnum sem sagaður var úr trjám úr skóginum okkar og svo byggðum við fyrstu bygginguna okkar úr þessum viði.
En það eru ekki allar myndir af vinnu og púli á Sólvöllum. Þessi er frá í hitteðfyrra þegar Valgerður var á ferðinni í Stokkhólmi. Hún er tekin á leikvelli þar sem Hannes hefur haft margt fyrir stafni og meðal annar skipstjórn eins og sjá má á myndinni.
Í júlí 2011 kom Guðdís í heimsókn til að gleðja ömmu og afa. Þessi mynd er tekin í Sveppinum í Örebro, en sveppurinn er vatnsforðabúr borgarinnar og þar er veitingahús með frábæru útsýni. Guðdís var góð við ömmu og afa. Svo fór hún héðan til Noregs að vinna, en Kristinn dóttursonur og konan hans komu og sóttu hana hingað.
Það var í þá daga þegar við Valdís vorum unglingar. Það var 1994 sem Kristinn dóttursonur kom til Svíþjóðar. Hann varð ellefu ára í Stokkhólmi hjá Rósu og Pétri. Daginn eftir kom hann svo einn með lest upp til Svärdsjö í Dölunum, en þá bjuggum við Valdís þar og ég vann í Svartnesi. Það sumar var lífið mikið ævintýri og allt var nýtt og lífið ólgaði í æðum. Þetta sumar kom mamma líka í heimsókn og það var mikið heitt þetta sumar einhver mesti eða mesti samfelldi hiti í margar vikur. Rósa og Pétur heimsóttu okkur nokkrum sinnum meðan við bjuggum þarna.
Það eru um 15500 myndir sem þarf að fara í gegnum og henda meiri hlutanum af þeim. Það eru margar myndir af því sama og svo þarf bara að velja bestu myndirnar til að eiga áfram. Kannski er líka hægt að koma meiri röð og reglu á þær. Ég var orðinn hálf ringlaður við leitina áðan og tölvan bað um að fá að hvílast. Hún bað um að fá að hvílast í fimm mínútur og trúi þeir sem trúa vilja, en þetta er alveg dagsatt.
*
Ég minni svo einu sinni enn á Vasagönguna sem hefst klukkan átta í fyrramálið, klukkan sjö að íslenskum tíma. Myndin fyrir neðan er af hluta þeirra rúmlega 15000 þátttakenda sem eru að leggja af stað í 90 km gönguna fyrir nokkrum árum.
Föstudagur
Í gær töluðum við um að það yrði gott að vera heima á morgun eftir ferðir á heilsugæslur og sjúkrahús fjóra daga vikunnar og reyndar líka fótsnyrtingu í gær. En viti menn; í morgun vorum við boðin í síðdegiskaffi til Svanhvítar og Tryggva Þórs. Við fórum auðvitað og það var gott að hitta þessi ágætu hjón og tala um daginn og veginn. Takk fyrir samverustundina Svanhvít og Tryggvi.
Á sunnudaginn kemur þarf ég á fætur fyrir klukkann átta. Þá nefnilega hefst Vasagangan og ég ætla að sjá yfir 15000 manns leggja af stað í þessa 90 km löngu göngu. Það er tilkomumikið að sjá þennan órtúlega mannfjölda mjakast af stað, mjög tilkomumikið, og við erum búin að sjá marga myndbúta af því í dag og það var jafn áhrifamikið að sjá það í síðasta skiptið sem það fyrsta. Það eru búnar að vera margs konar keppnir þarna á Vasagöngusvæðinu alla vikuna. Það var um miðja vikuna sem fréttamaður stoppaði konu sem var búin að ganga fyrstu tíu kílómertana af þessum 90. Þegar viðtalinu við konuna lauk þakkaði fréttamaðurinn fyrir og óskaði konunni góðs gengis á þessum allra síðasta spotta leiðarinnar, það er að segja 80 km spottanum. Ætli þessi síðast spotti hafi ekki verið næstum því jafn langur og frá Vík og að Kirkjubæjarklaustri. En þetta voru aukaatriði. Ég ætla að horfa á SVT1 á sunnudagsmorguninn klukkan átta. Ég reyni að koma þessu á framfæri á hverju ári
Þegar tölvurnar tóku yfir myndir almennings í staðinn fyrir pappírsmyndirnar urðu framköllunarfyrirtækin að finna sér ný viðfangsefni. Könnurnar okkar hér fyrir ofan eru jólagjöf frá Hannesi og fjölskyldu. Svona könnur höfum við fengið með ólíkum myndum um þrenn síðustu jól. Á myndunum þarna er Hannes að raða eldiviðarkuppum inn í skýli. Þegar hann sá aðra gera þetta tók hann sér kubb í hönd og komst að því að hann gæti staflað líka.
Það sést meira á þessari mynd. Það sér óljóst yfir morgunverðarborðið okkar og hafragrautarlellan mín er þarna á diski til vinstri. Það sér líka í eina rúsínu sem stendur upp úr frekar ósnotri hrúgunni. En ég skyldi ekki gera grín að grautnum því að hannn stendur alltaf fyrir sínu. Í morgun brytjaði ég fjórar aprikósur út í grautinn áður en ég sauð hann. Það var vissulega tilbreyting í þeirri uppskrift. Ef að er gáð sér líka í handleggina á Valdísi hinu megin við borðið.
Hér er svo hin hliðin á sömu könnum. Á annarri könnunni má sjá Hannes hjálpa mér við að undirbúa steypingu gólfplötunnar á Bjargi. Á hinni könnunni sést Hannes leika sér við ömmu sem þurfti á því að halda á síðastliðnu sumri. Þegar ég setti könnurnar á morgunverðarborðið núna einhvern morguninn nýlega, hugsaði ég sem svo að það væri kannski rétt að spara þær svolítið svo að þær entust lengur. En sannleikurinn er bara sá að það eg gaman að drekka fyrsta kaffi dagsins úr þessum könnum og geta um leið skoðað þessar fínu myndir. Þetta var ekki svo vitlaus hugmynd hjá ljósmyndafyrirtækinu. Þeir sem þar vinna fá verkefni og peninga en við sem kaupum fáum ánægjuna af að horfa á myndirnar með fyrsta kaffisopanum hvern einasta morgun. Það er ekki svo lítið. (Það vorum reyndar ekki við sem keyptum þessar könnur, við sem fengum þær gefins :)
Svo gerðum við nokkuð i dag sem við höfum ekki gert lengi. Sá sem getur sagt hvað er verið að gera á þessari mynd getur fengið að borða hjá okkur saltkjöt eftir hálfan mánuð. Já, við söltuðum rúmlega fjögur kíló af lambakjöti í dag og það höfum við ekki gert lengi. Það eru tvær ástæður fyrir því að við höfum ekki gert það lengi, og þær eru að við borðum of mikið af því meðan það er til, og í öðru lagi höfum við ekki gott af saltinu, jafnvel þó að við afvötnum mjög vel.
Þá eru engin frekari leyndarmál eftir að segja hér frá Sólvöllum þannig að það er kominn tími fyrir okkur ellilífeyrisþegana að hvílast. Við erum bæði þvæld og lúin eftir daginn, eftir vikuna væri nú réttara að segja þar sem dagurinn í dag var meira hvíldardagur og vera með góðum vinum. Hann leit líka inn hjá okkur í kvöld hann Lennart nágranni, sá góði, óeigingjarni og hjálpsami maður. Heimsókn slíkra manna getur bara haft gott eitt í för með sér. Valdís er búin að leggja frá sér bókina og slökkva ljósið sín megin. Nú bíða náðarinnar samfundir með Óla lokbrá.