Tími til kominn að komast á fullorðinsárin
Ég velti því fyrir mér í gær og marga daga þar á undan. En í gær var meiri alvara bakvið vangavelturnar en ég þorði samt ekki að taka einbeitta ákvörðun. Ég var hræddur um að ég skyldi bakka frá ákvörðuninni að morgni og finna einhverja afsökun fyrir því. Í morgun vaknaði ég nokkuð snemma og læddist frekar snemma fram til að kveikja upp í kamínunni. Ég var úthvíldur og notalega endurnærður og mér fannst sem ég mætti alls ekki skemma þá góðu tlfinningu. Ég hugsaði út í vangaveltur mínar frá í gær og hræðsluna við að taka endanlega ákvörðun. Þarna frammi við kamínunna í morgun meðan eldurinn var að sækja í sig veðrið tók ég loksins ákvörðun, mjög ákveðinn; ég skal ekki drekka kaffi í dag!
Og nú er þessi dagur að kvöldi kominn og ég hef ekki látið kaffileysið hrjá mig en hins vegar hefur mér liðið mjög vel með þennan kaffilausa dag. Það hefur verið að aukast síðustu mánuði eða jafnvel misseri, að kaffið fer ekki lengur vel í mig. Það virðist bara liðin tíð utan einhver alveg einstök tilfelli, og ég er ekki hissa eins og ég er búinn að þamba það síðustu rúmlega 50 árin. Ég gerði eina tilraun til að hætta kaffidrykkju árið 1993 og þeirri tilraun lauk í Stokkhólmi þann tíunda febrúar 1994. Ég gæti sagt söguna um það en Rósa dóttir mín kann hana betur en ég geri sjálfur. Þetta var í minni fyrstu ferð til Svíþjóðar þegar ég var á leiðinni upp í Svartnes til að setjast að í þessu landi.
Það eru líklega að verða tvö ár síðan ég hitti mann í Reykjavík, ættaðan af vesturlandi. Hæglátur maður var þetta og kom þannig fram að það var ekki spurning um að hlusta á það sem hann sagði. Hann var sérstaklega trúverðugur. Hann lýsti kvillum sem hann hafði lengi leitast við að fá bót á en fékk ekki. Síðan hætti hann að drekka kaffi og kvillarnir hurfu. Ég man svo vel þegar ég hlustaði á þennan mann segja frá, en þá var ég 68 ára, að mér fannst þetta vera sem boðskapur ætlaður mér án þess að maðurinn gerði sér nokkra grein fyrir því. Í dag kom að mér að ganga götuna hans. Nú er ég búinn að segja þannig frá þessu að ef mér tekst ekki að vinna bug á kaffiþorstanum, þá er niðurlæging mín töluverð.
Í janúar 1991 lagði ég af með brennivínið, 15. maí 1992 hætti ég að reykja og í dag er 18. mars 2013, dagurinn sem ég lagði kaffið til hliðar. Ég lofa að segja frá ef ég fell.
Dagurinn i dag er búinn að vera mun betri fyrir Valdísi en gærdagurinn. Það er vel þekkt af okkur öllum að sumir dagar eru erfiðari en aðrir og gærdagurinn var hreint ekki dagurinn hennar Valdísar. Hún fékk sms seinni partinn í dag um að ný gleraugu væru komin í gleraugnahúsið. Við fórum strax til að sækja þau og á leiðnni heim sagðist Valdís sjá heiminn í nýju ljósi.
Kommentarer
Þórlaug
Til hamingju með kaffileysið og velkominn í kaffilausa hópinn. Ég hætti að drekka kaffi 3. nóvember 1997 eftir mikið kaffiþamb í ótal ár og hef aldrei saknað þess.
Kærar kveðjur til ykkar,
Þórlaug
Svar:
Gudjon
Björkin.
Stórt knússsssssssss til ykkar mín kæru.
Trackback