Góð helgarlok

Í gær og í fyrradag var erfitt að fara frá Valdísi á sjúkrahúsinu og nú í kvöld vildi ég ekki fara. Það var vegna þess að allir hennar taktar, tal og líkamsstellingar voru á annan veg en hina dagana. Hún hringdi heim upp úr átta í morgun og sagði að hún væri einhvern veginn öðruvísi en áður. Svo hringdi ég einhvern tíma fyrir hádegi og þá var hún enn á því að eitthvað væri betra. Síðan fékk hún fjóra gesti í heimsókn og mörg símtöl. Þegar ég kom til hennar um klukkan hálf fimm var hún dauðþreytt eftir þetta en ánægð með daginn. Henni finnst gott að vita að fólk muni eftir henni.
 
Ég tók iPadinn og byrjaði að leggja kapal og stakk upp á því við hana að leggja sig og reyna að sofna aðeins. Þegar hún hafði dormað svolitla stund reisti hún sig upp sagðist nú vera búin að jafna sig. Hún gerði að gamni sínu, hún gekk rösklega þegar hún fór fram á bað, allar handa og höfuðhreyfingar voru svo líflegar að ég fór að hlæja. Hún sagði brandara og svo hló hún líka. Ég var nú svo aldeilis hissa. Skoðanir okkar á ástandi hennar fóru saman. Hún sagði í morgun að eitthvað hefði breytst og ég sá það svo ekki varð um villst. Svona á þetta að vera. Fyrir mér er þetta ávísun á að meðferðin á blóðtappanum er að virka.
 
Þar með er ég búinn að gefa skýrslu um Valdísi og ég held að allt sé sagt og svo er bara að treysta því að þessi bati haldi áfram. Sjálfur afrekaði ég það að hengja þvott út á snúru í morgun. Þegar ég kom heim frá Örebro í kvöld gekk ég beint að snúrunni og viti menn; þvotturinn var þurr utan að hann var kaldur og einhver raki fannst á hornum. Einu sinni höfum við hengt út þvott á árinu en það rigndi á hann og því varð hann ekki svo mjög þurr. Hann fór reyndar beint í þeytivindingu í það skiptið. Ég sé það sem vorboða að hafa getað þurrkað þvott úti.
 
Þann 28. mars ætlar Hannes Guðjón að koma með fjölskyldu sína í heimsókn og vera hér yfir páska. Þann 12. eða 13. apríl ætlar svo Valgerður að koma og ég veit ekki hversu lengi hún verður. Það verður því langt frá því að verða fámennt á Sólvöllum á næstunni og þetta fólk er allt mjög velkomið. Ég þarf að taka svolitla skorpu á Bjargi næstu daga, en ég hef lítið komist áleiðis þar upp á síðkastið. Það er aldrei að vita hvenær við þurfum að geta boðið gestum þangað inn í það góða hús.
 
Aftur að Valdísi. Rétt fyrir átta töluðum við saman og þá sagðist hún vera upptekin milli klukkan átta og níu. Þá er nefnilega sjónvarpsþáttur sem kallast Meistari meistaranna. Þetta þótti mér góðs viti, búin að fá áhuga á sjónvarpsþáttum. Rúmlega níu hringdi hún svo til að segja góða nótt. Þá sagði ég einhvern aulabrandara sem ég man ekki lengur en ég man bara að þá hló hún gamla Valdísarhlátrinum. Það var líka góðs viti. Ég geng óvenju glaður til móts við Óla lokbrá áður en langt líður á kvöldið.


Kommentarer
Björkin.

Gleði í mínu hjarta.Takk fyrir bloggið mágur minn og sofðu vel.Knús á systir á morgun.

2013-03-24 @ 22:25:54
þóra Björgvinsdóttir

Sæll Guðjón gott að heyra að allt gengur vel hjá Valdísi og vonandi heldur það áfram að batinn komi hjá henni , gott að þú getir farið glaður í svefn ,dreymi þig vel ,knús á ykkur
kv Þóra

2013-03-24 @ 22:46:57
Ingimar Ragnarsson

Bestu kveðjur frá okkur í Hvammi.

2013-03-24 @ 22:48:53
Dísa gamli nágranni

Við erum búin að fylgjast með blogginu og biðjum allar góðar vættir að vera með ykkur á Sólvöllum og þú skylar kærum kveðjum til Valdísar og von um að hún komist sem fyrst heim á Sólvelli.

Svar: Þakka þér fyrir Dísa. Heimsóknin ykkar Ottós í fyrra lifir ennþá með okkur.
Með bestu kveðju til ykkar frá Valdísi og Guðjóni
Gudjon

2013-03-25 @ 00:28:28
Bára Halldórsdóttir

Sæll Guðjón
Ég fylgist alltaf með ykkur hjónum, og við mæðgin biðjum fyrir góðar kveðjur til Valdísar og þín.
Hver veit hvenær við sjáumst næst?
kveðjur bestar
Bára og Halldór Stefán
ps.páskadúkurinn hér er fallegur dúkur frá Valdísi sem mér þykir vænt um.

Svar: Þakka þér fyrir Bára og bestu kveðjur til baka til ykkar. Það er langt síðan við höfum verið í heimsókn hjá þeim í Fjugesta. Vonandi verður af því með vorkomunni þegar það verður. Ingibjörg hringdi fyrir nokkrum dögum til að huga að okkar líðan. Þeir eru magir dúkarnir frá Valdísi víða hjá fólki alla vega í þremur löndum.
Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni
Gudjon

2013-03-25 @ 00:29:17
Jenný Ragnarsdóttir

Frábært að heyra Guðjón minn að þetta er að ganga vel.Viltu skila innilegum kveðjum frá okkur Víði og gangi ykkur sem best .

Svar: Þakka þér fyrir Jenný og bestu kveðjur til baka til ykkar.
Gudjon

2013-03-25 @ 01:47:08
Guðjón

Björkin Þóra og Ingimar, ég sá kveðjurnar frá ykkur í gærkvöldi. Þakka ykkur fyrir og okkar bestu kveðjur til baka.

2013-03-25 @ 07:41:59
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0