Páskar hjá Valdísi

Það var pínulítil páskahátíð á sjúkrahúsinu í Örebro í dag. Valdís var nefnilega búin að koma því þannig fyrir að það voru til páskaegg fyrir hvern og einn af heimilifólki og gestum á Sólvöllum sem vitað var að yrðu hér um páska. Áætlun hennar stóðst. Svo fórum við Sólvallafólk til hennar upp úr hádegi með þessi páskaegg og þau voru lögð á borðið hjá henni og síðan tók hún við stjórninni.
 
Fyrir Valdísi er það, og hefur lengi verið, viss athöfn að taka upp páskaeggin, smakka á þeim, lesa málshættina og bara tala saman. Eiginlega vil ég kalla það hefð. Þessi hefð tókst kannski óvenju vel í dag og Valdís var mjög ánægð. Það má líka sjá á þessari mynd. Það er ótrúlegt hversu vel hún lítur út þessi kona því að það eru ekkert smávægilegt sem hún er búin að ganga í gegnum í all langan tíma. Að vera ekki alveg viss um hvort það takist að fara alla leið fram á bað þegar þess þarf, og ennþá síður að vita hvernig ferðin til baka gengur, það er nokkuð sem hún hefur getað tekið með svo ótrúlegu æðruleysi. Þar hefðu ekki nærri, nærri allir getað fetað í fótsporin hennar. Nú er Valdís mikið hressari, en ennþá er hún samt í þörf fyrir allan styrk, hlýju og uppörfandi orð sem er á okkar valdi að veita henni. Hún er mikið þakklát fyrir allt slíkt.
 
 
Það sést vel á báðum þessum myndum að líkamsstellingarnar, athafnirnar og nærveran eru lifandi og gæddar áhuga á lífinu og ánægju með nærveruna. Ég er stoltur af konunni á þessum myndum. Það eru frídagar um páskahelgina hjá mörgum sem vinna þarna á deildinni og við höfum ekki verið alveg viss um hvers vegna hún kom ekki heim fyrir helgina eins og orðað hafði verið. En málið er að hún á að fara heim með viss tæki sem þarf að útvega og einnig á að kenna henni að nota þau. Það verður ekki fyrr en á þriðjudag sem það kemst í gang og nú er áætlunin að hún komi heim á þriðjudag eða miðvikudag.
 
Þetta vissum við með vissu fyrst í dag og þar með er ég búinn að koma því á framfæri til þeirra sem kannski eru undrandi yfir veru hennar á sjúkrahúsinu í svo langan tíma. En það hefur margt verið gert fyrir hana og með því að vera þarna var endanlega klippt á allt heimilisstrit á Sólvöllum og svo fær það að vera alla vega þangað til eitthvað annað verður uppi á teningnum. Hér með held ég að ég sé búinn að koma því á framfæri sem þörf er á til þeirra sem vilja Valdísi allt hið besta.
 
Það var eitthvað um málshættina. Valdísar málsháttur var þessi: "Sjaldséðir eru hvítir hrafnar." Hún hló mikið þegar hún las hann upp. Minn málsháttur var þessi: "Það átti að standa eitthvað gáfulegt á mér, en það gleymdist." Það fannst okkur öllum hlægilegt.
 
*
 
 
 
Eftir heimkomuna hófu Pétur og Rósa matargerð, en ég fór út á Bjarg þótt páskadagur væri og sinnti þar litillega nokkrum fínlegri verkefnum sem ekki ollu hávaða. Páskamaturinn var lambaframpartur matreiddur að hætti Valdísar. Það var sem sagt mikið Valdís hér í dag.
 
 
Svo varð auðvitað að taka myndir af öllum eins og gengur og ég get alveg sagt að við erum ánægð með atburðarás þessa páskadags.
 
 
Þessi ungi maður gat leikið sér heilmikið í Örebroferðinni og hann lék sér líka heilmikið eftir að hann kom heim. Þarna er hann að horfa á Samma brunavörð með íslensku tali og hann mátti varla vera að því að setjast til borðs með okkur fyrr en því verki var lokið.
 
Þannig getur páskadagur liðið hjá okkur Sólvallahjónum og gestum okkar.
 
Ps. Já, og svo renndu allt í einu góðir gestir hér í hlað í morgun þar sem þau voru á ferðinni Auður og Þórir. Þau fengu auðvitað af nýbakaða rúgbrauðinu Litlu rúgbrauðsgerðarinnar.
Trackback
RSS 2.0