Ætlarðu að skrifa í kvöld líka?
Ætlarðu að skrifa í kvöld líka spurði Valdís skömmu áður en ég fór heim frá sjúkrahúsinu. Ég gerði ekki ráð fyrir því, það væri erfitt að halda áfram þannig á hverju kvöldi. Henni fannst það skiljanlegt. Svo var ég að velta því fyrir mér á leiðinni heim að það væru all nokkrir sem biðu eftir því að fá að heyra eitthvað. Ef ég ætlaði að hringja í alla tæki það gríðar langan tíma. Ég ákvað að skrifa.
Valdís var söm við sig þegar ég kom til hennar í eftirmiðdaginn, svo ótrúlega æðrulaus, en hún sagðist hafa verið óróleg um miðjan daginn. Hún fór í sturtu og hafði sig aðeins til um hádegisbilið og eins og heilsu hennar er háttað núna er það bara erfitt, hreinlega erfitt, og það gerði hana órólega. Mér var efst í huga á leiðinni til hennar í dag hvort það væri hægt að merkja breytingu eftir fyrstu tvo dagana sem blóðtappinn er meðhöndlaður. Ekki gat ég merkt þá breytingu en eins og ég sagði; hún var svo ótrúlega róleg og ekki voru það kvartanirnar hjá henni. Ég hef líka heyrt að þetta taki langan tíma. Það verði ekki um dagamun að ræða, en frekar mun frá viku til viku. Það var gott að komast að því. Hún fékk þriðju sprautuna af lyfinu mót blóðtappanum meðan ég var hjá henni. Það er ekki liðinn lengri tími en svo.
Ég velti því fyrir mér hvernig það væri hægt að halda slíkri ró á sama tíma og það er heil mikið mál að fara í sturtu og snyrta sig svolítið. Ég var hreint ekki viss um að mér auðnaðist að taka mótlætinu svona vel. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem vissu fólki er bara gefið. En það hlýtur líka að hjálpa til við að ná bata. Ég kveið fyrir að fara og skilja hana þarna eina eftir. Þegar ég horfði á hana og hugsaði að núna væri komið mál að fara fannst mér sem hún væri svo lítil. En það var hún ekki. Það er nú ráð að þú leggir af stað, sagði hún, annars verður svo dimmt fyrir þig á leiðinni heim.
Og hún hafði helst áhyggjur af því að það yrði myrkur fyrir mig á heimleiðinni. Það var svo sem orðið dimmt hvort sem var, en mig grunar að ég hafi yfirgefið deildina seinastur allra gesta. Samt var ekkert verið að amast við mér, en klukkan að verða hálf átta fór ég út úr húsinu. Meðan ég var á hraðbrautinni suður úr Örebro hringdi Þórir læknir. Hann hringdi alveg á réttum tíma. Bara að heyra rödd Þóris er sefandi. Ég talaði við hann akandi þarna á beinni hraðbrautinni, en eftir á sá ég eftir því að hafa ekki beðið hann að hringja eftir svolitla stund.
En nú er ég alla vega heima og mig grunar að Valdís sé þegar sofnuð. Svo er ég búinn að skrifa í kvöld líka. Það er afar hljótt í húsinu og það styttist væntanlega í að ég gangi til fundar við Óla lokbrá. Hann er góður félagi og gefur sér oftast tíma til að vera nálægur þegar hans er þörf. Það er mín reynsla.
Kommentarer
Björkin.
Elsku mágur minn.Takk fyrir bloggið.Viltu knúsa hana fast frá mér á morgun.Mikið erfitt að vera langt í burtu núna Góða nótt og sofðu vel.
Svar:
Gudjon
Trackback