Vorteikn

Ég var á leið út í viðarskýli í gær til að sækja mér í eldinn og allt í einu stakk ég við fæti. Hvað var nú þetta? Hvítlaukurinn kominn upp! Ég geng nefnilega akkúrat frmhjá þessu á leið út i viðarskýlið. Það var ekki að eigin frumkvæði að ég setti hann niður í fyrra. Það var að fyrirmælum konu einnar í Stokkhólmi. Ég setti hann líka niður að minnsta kosti mánuði seinna en leiðbeiningar segja til um og það var fyrir minn trassaskap. Þegar ég sá að hvítlaukurinn var kominn upp var ég afar feginn að hafa fengið fyrirmæli um að gera svo. Ég nota hvítlauk nánast á hverjum degi nú orðið. Þess vegna hef ég líka spurt nokkrum sinnum hvort ég lykti af hvítlauk. Fólk segir svo ekki vera sem þýðir að ekki er um ofneyslu að ræða. Að geta sótt hvítlaukinn út að skógarjaðrinum heima þýðir að maður veit að það eru engin eiturefni í þeirri matvöru. Það er líka sagt að hann fæli frá óæskilega gesti í matarlandinu.
Þessa mynd tók ég frá veröndinni austan við húsið í morgun. Hún er af sáningunni sem ég framkvæmdi að minnsta tveimur vikum seinna en Ingemar skrúðgarðafræðingur hafði sagt að gæti gengið. Tvær vikur seint að hausti er mjög seint. Tveimur vikum fyrr eða seinna um mitt sumar er ekkert. En ég er feginn að ég gerði þetta og þurfi ekki að horfa á moldarflagið núna og eiga eftir að hræra í moldinni fram og til baka með reku og garðhrífu og spígspora með valtarann. Þetta kom grænt undan snjónum og nú er flötin tilbúin að halda áfram að vaxa. Kannski bæti ég fræi í eftir eins og mánuð en útlitið er gott. Fjærst á myndinni sér í fæturna á dádýrinu hennar Valdísar.
Ef þetta er virkilega vorkoman er ekkert annað að gera en taka henni fagnandi og láta vera að hugsa svartsýnn um páskahret. Ég gáði að skógarsóleyjum áðan en sá ekki. Bellisa, eða dvergfífla, sá ég ekki heldur en þeir voru hér á vappi fram á vetur og heilsuðu mér alltaf glaðlega. Ég er viss um að það er eitt og annað farið að brosa móti veðurblíðunni en ég hef ekki rekist á það ennþá. Ég er viss með að láta vita.
Í morgun er ég búinn að gera æfingarnar mínar og teygja, gá að vorinu, tala við rafvirkjann, borða samviskusamlega hafragrautinn minn, hugsa og komast að frábærri niðurstöðu. Svo er ég búinn að lifa lífinu þó að ekkert sjáist eftir mig enn svo lengi. Nú ætla ég að fá mér heitan og ilmandi kaffisopa og með því ætla ég að hafa saltkex með osti og persimónusultu. Ef þið viljið koma sem snöggvast og fá líka þá er þetta tilbúið á eldhúsbekknum.
Vorkoman er farin að kitla mig bakvið bringubeinið.
Kommentarer
Svar:
Og kveðja til baka frá Sólvöllum.
Gudjon
Trackback