Margar myndir - heldur minna blaður

Ég skrökvaði um daginn þegar ég sagði að við hefðum keypt Grythyttans garðhúsgögn niður í Laxå. Nei! það var Rósa sem tók upp veskið og borgaði. Þar með var það hún sem keypti, ekki við. En það þarf að setja nýja rimla í setur og bök á helmingi stólanna. Það þarf að eignast og vinna efni í það. En viti menn, út í bílskúr liggja tveir eikardrumbar úr Sólvallaskóginum. Þeir duga í alla rimla á öllum stólunum. Þess vegna heimsótti ég hann sögunar Mats í dag.
 
Þessi rólyndi, hjálpsami, góðlátlegi maður tók mér vel eins og alltaf. Ég bar upp erindið og sagði honum stærðina á drumbunum. Já, já, þá bara sögum við sagði Mats, við sögum á mánudaginn eftir hádegi, er það ekki í lagi? Ég horfði á breiðar og vöðvamiklar axlir hans og arma og ég vissi að hann er gríðarlega sterkur. Það hef ég séð. Svo sagði ég honum að ég væri svo kraftlaus að ég gæti alls ekki lyft drumbunum upp á kerru. Nei, svaraði hann rólega, það get ég ekki heldur. Þá óx mér aðeins sjálfstraust. Hann ætlar að koma á Nallanum sínum frá 1952 og hafa skógarkerruna með og lyfta drumbunum með krana upp á vagninn. Það verður gaman að saga smíðavið úr eik úr Sólvallaskóginum.
 
Þarna fyrir miðju er stóra Sólvallaeikin. Hún verður ekki tekin í smíðavið á næstu árum. Hún er eiginlega sjálfskipuð drottning Sólvallatrjánna og er útvörður á norðvesturhorninu. Hinu megin á grindverkinu sem er fyrir miðri mynd eru tveir brómberjarunnar. Upphaflega gróðursetti ég þá á kjánalegum stað þannig að þeir eru búnir að vera á vergangi. Það var svo Rósa sem gróf fyrir þeim á ný um mitt sumar í fyrra. Nú eru þeir á góðum stað og koma væntanlega til með að þéttklæða þetta grindverk. Spurning hvort ég þarf að hækka það síðar. Milli grindverksins og eikarinnar er alparós sem er rúmir fimm metrar í þvermál og tveir og hálfur meter á hæð. Hún er sú stærsta sem ég og fleiri vita um hér á svæðinu.
 
Kringum grindverkið og brómberin er moldarflekkur sem er svo sem eins og fjórir sinnum sex metrar. Það fóru margar, margar hjólbörur af mold í hann til að fá hann til að falla inn í umhverfið. Undanfarna daga hef ég verið að vinna við ellefu svona staði þar sem ég hef verið að laga að umhverfinu. Ég sáði í þá síðustu í dag en á eftir að valta fjóra þeirra. Það verður að bíða laugardags eða mánudags því að á morgun fer ég að vinna löngu helgina í Vornesi.
 
Beykið vex af ótrúlegum hraða um þessar mundir. Vaxtarsprotarnir eru eins og hálf glærir og linir mjög. Því hanga þeir eins og myndin sýnir. Þeir reisa sig þegar líður á sumarið en endanlega verða þeir beinn hluti af greininni næsta vor.
 
Valdís vildi alltaf hafa rabarbara en það var eins og við fyndum ekki góðan stað fyrir hann fyrr en í fyrra. Nú virðist honum líða vel og það er sjálfsagt komið á annað kíló af rabarbara til sultugerðar. Ég þarf að kaupa fleiri hnausa til að þetta verði búskaparlegra.
 
Líklega verða kartöflurnar tilbúnar fyrir Jónsmessuhelgina. Rósa átti frumkvæðið að kartöflunum eins og flestum matjurtum.
 
Þú færð kannski smávegis af berjum á sólberjarunnann sagði hun Pernilla í Trädgårdsväxter þegar ég keypti tvo runna þar í vor. En viti menn; það eru margir svona klasar á runnunum þannig að það verður hægt að fá eina og aðra munnfyllii þarna í sumar.
 
Sama sagði hún um rifsberjarunnana tvo sem ég keypti í sama skipti. En þarna er líka töluvert af berjum á leiðinni.
 
Þú færð ekki ber fyrr en í fyrsta lagi næsta sumar sagði hún um stilkilsberjarunnana, en það eru þegar komnir nokkrir grænjaxlar. Það þarf kannski ekki stórt ílát undir berin þetta sumarið en það er svo skemmtilegt að sjá að þetta er allt á góðri leið. Stikilsber eða þyrniber heitir það víst.
 
Ætlarðu ekki að fara að rækta eitthvað spurði hún Helga Bjarnadóttir fyrir mörgum árum. Nei, ég hélt ekki, ég hefði ræktað yfir mig og fengið ólyst á garðrækt í Hrísey. Nei, láttu ekki svona sagði Helga. Það er bara að byrja og svo vex allt svo hratt hér að þú færð áhugann aftur. Hún hafði nú rétt fyrir sér.
 
Það eru ný og ný blóm á jarðarberjaplöntunum tólf og ég sé ekki betur en það verði ber um Jónsmessuhelgina. Það verður alla vega mikið af jarðarberjum ef fer fram sem horfir.
 
Svo er hér mynd af Svenna og Lottu. Svenni var ungur hljómsveitarmaður á sjöunda áratugnum. Hann er með töluverðan herðakistil. Svo fékk hljómsveitin söngkonu, frá Bandaríkjunum held ég, og það urðu ástir. herðakistillinn stóð ekki í vegi fyrir því.
 
Þessir berjarunnar heita havtorn og ég finn ekkert íslenskt orð yfir það. Það þarf einn af hvoru kyni ef það eiga að verða ber. Þessir runnar eru kallaðir Svenni, og Lotta. Svenni er til vinstri og er karlrunninn en Lotta er til hægri og er að sjálfsögðu kvenrunninn. Það er spurning hvort ég hafi verið of linur við að vökva þau en í dag setti ég rör á milli þeirra til að vatna í. Það eru engin merki um ber ennþá.
 
Svo gróðursetti ég líka sex ameríska bláberjarunna í viðbót við þá sem fyrir voru. Einnig tvær plöntur af hindberjum í viðbót við þær sem fyrir voru. Ég finn fyrir berjabrgði þegar ég skrifa þetta.
 
Svo að lokum er hér sýrena í blóma sem lyktar afar vel.
 
Ég hélt að ég væri að verða heittrúarmaður i dag. Það var svo mikil upplifun að sjá hversu vel öllu fer fram og að ég að lokum náði þessum frábæra árangri með flekkina mína. Svo fannst mér að ég væri barnalega glaður og fannst það allt í lagi. Að lokum varð ég mjög þreyttur en ánægður yfir langþráðum áfanga -einum áfanganum enn- og hann er fyrir mig verulega stór. Mikið verður að vökva á næstunni en það er hugleiðslu og afslöppunarverk. Valdís var lengi búin að þrá þessar umbætur en það fór sem fór. Það verður mikið einfaldara að hirða Sólvallalóðina hér eftir.
 
Nafnið Härjedalen hefur bergmálað mikið í höfði mér allan daginn. Eftir vinnuna um þessa helgi verð ég í þriggja vikna fríi. Ég fer ekki hátt með það og segi ekki neitt en ég get hugsað mér að verðlauna mig. Härjedalen, borið fram Herjedalen, er það hérað í Svíþjóð sem er hæst yfir sjávarmáli, en þar ríkir gróðurinn eins og annars staðar í þessu frábæra landi og allar myndir sem ég hef séð þaðan eru frábærilega fallegar.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0